Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Of mikið af því góða? Hvað skal til bragðs taka?

Hver er stefnan í ferðaþjónustu á Íslandi?  Að hve miklu leyti er hægt að stýra fjölda ferðamanna?  Hvert er hægt að stýra honum? Hvað tæki eru best til að stýra honum?

Allt í einu virðist eitt af stærstu áhyggjuefnum Íslendinga vera of stríður straumur ferðamanna til landsins.   Hvað skal til bragðs taka?  Eru góð ráð nú dýr?

Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru umsetnir ferðalöngum, og ef marka má frásagnir eru þeir að troðast niður.

Á sama tíma virðist stór hluti Íslendinga firrtast við, ef þeir heyrast minnst á það að ferðamenn þurfi að greiða fyrir aðgang að nokkrum þeim stað sem þess virði er að bera augum á Íslandi.

Slíkt er talið merki um "græðgisvæðingu", "óhefta frjálshyggju", "glæpamennsku" og þar fram eftir götunum. 

En hvað er þá til ráða?

Á að takmarka ferðir farþegaskipa til landsins?  Setja kvóta á millilandaflug? Seljaleyfi til ferðamanna við komuna til landsins? Skylda ferðamenn til að dvelja ákveðinn hluta ferðar sinnar á þéttbýlistöðum?  Eða einfaldlega gefast upp, nota hina hefðbundnu Íslensku aðferð, rífast um málið en gera ekkert í því?

En það mál líka lesa fréttir af Íslensku ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur hækkað gjaldskrá sína um 100%, tekið við sívaxandi fjölda ferðamanna, rukkar jafnvel ferðamenn fyrir að skoða umhverfis fyrirtækið og ræður við hlutverk sitt.  Og ef ég hef skilið rétt skilar vaxandi hagnaði.

En hér erum við auðvitað að tala um fyrirtæki sem notar "iðnaðarúrgang", en ekki "náttúruperlu".  Því er þarf ekki að eiga von á því að Ögmundur eða aðrir "lukkuriddarar" fari hamförum "við kassann" hjá því.

Þeir þurfa heldur ekki óttast að einhver ráðherra vilji selja aðgang að þeim í gegnum "náttúrupassa".

Þeir geta byggt upp sína ferðaþjónustu á eigin forsendum og rukkað fyrir hana, rétt eins og eðlilegt er.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ferðaþjónusta gæti eyðilagst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnar aðferðir. Fyrst skaparðu vandann, svo býðstu til að leysa hann.

Að mörgu leyti hefur framganga Rússa í Ukraínu verið með gamalkunnum hætti.  Vissulega verða til "afbrigði" í hvert sinn, en megin þemað er gamal kunnugt.

Fyrst skaparðu vandamál, svo býðstu til að leysa það.  Allt með "mannúðina" og "alþýðuna" í fyrirrúmi, þeirra hagsmuni og velferð.  Fyrir "alþýðuna", jafnvel í öðrum ríkjum, eru leiðtogar reiðubúnir til að beita hermætti sínum.

Ukraína hefur um árhundruð verið á "áhrifasvæði" Rússa.  Rússar hafa með yfirgangi, morðum, skipulögðu svelti og "Síberíuflutningum" kúgað Ukraínubúa svo öldum skiptir.  Þegar þynnst hefur í sveitum Ukraínu vegna þessa, hafa þeir flutt inn sitt eigið fólk, og þannig "Rússavætt" mörg héruð Ukraínu.

Í skjóli þessa, telja þeir sig nú geta talað í "nafni alþýðunnar".  Þeirrar alþýðu sem þeir fluttu inn í stað þeirrar alþýðu sem þeir drápu og murkuðu lífið hægt úr í Síberíu.

Þannig virkaði Sovétið og þannig telja Pútin og hans fylgismenn að Rússland geti virkað í dag.

Það sem er svo verst, er að líklega virkar þessi fyrirætlan.

Hvorki Evrópusambandið, Bandaríkin eða nokkur annar aðili kemur til með að standa í vegi fyrir því, þó að þeir kjósi að skapa einhvern hávaða.

Er einhver að tala um Krím í dag?  Hve margir munu tala um Austur-Ukraínu að ári liðnu?

Hvað margir töluðu um Eystrasaltslöndin frá 1945 til 1987?

 

 

 


mbl.is Rússar vilja í mannúðarleiðangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eru þeir ekki reiðir við okkur líka?

Mér þykir nokkuð merkilegt að fylgjast með viðbrögðum við þeirri frétt að Ísland sé ekki á lista yfir þær þjóðir sem Rússar hafa bannað innflutning á matvælum frá.

Það er engu líkara en einhverjir séu sármóðgaðir yfir því að Rússar séu ekki reiðir Íslendingum.  Að Íslendingar séu ekki þess virði að setja bann á?  Eða þá að einhverjar annarlegar skýringar séu á þessum ósköpum.

Einhverjir vilja ganga svo langt að krefja Rússa svara á þessum fyrnum, að ekki skuli bannað að flytja þangað matvæli frá Íslandi.

Aðrir vilja helst banna útflutning á matvælum frá Íslandi til Rússlands til að skorast ekki leik.

Rétt er að hafa í huga að hvorki Bandaríkin, Evrópusambandið, eða nokkur annar, að mér er kunnugt, hefur bannað að flytja út matvæli til Rússlands.  

Hvers vegna Ísland ætti að ríða á vaðið í þeim efnum er mér hulin ráðgáta.

Rússland hefur hins vegar bannað innflutning á matvælum frá all nokkrum fjölda ríkja.  Á því tvennu er meginmunur.

Að mörgu leyti er hægt að spyrja, hví hefðu Rússar átt að banna innflutning á Íslenskum matvælum? Hafa Íslendingar beitt Rússa einhverjum efnahagsþvingunum?  Hefur einhverjum Rússum verið bannað að ferðast til Íslands?  Hafa eignir einhverra Rússneskra aðila verið frystar í Íslandi?

Ef til vill er frekar ástæða til þess að spyrja hvers vegna Noreg er að finna á listanum, en ég viðurkenni fúslega að ég þekki ekki hvort þeir hafa gripið til beinna aðgerða gegn Rússum vegna Ukraínu.

En ég sé enga ástæðu til að slíta öll viðskiptatengsl við Rússland, Íslendingar hafa átt í viðskiptum við verri ríki en það, og nægir líkelega að nefna forvera þess í því sambandi.

En Íslendingar eiga heldur ekki að gefa neitt eftir í afstöðu sinni til framferðis Rússa í Ukraínu og standa með þarlendum stjórnvöldum.

Það er engin ástæða til þess að hneyklast á þeim Íslensku fyrirtækjm sem munu án efa reyna að notfæra sér þá "glufu" sem myndast á Rússlands markaði.  Þannig gerast hlutirnir í viðskiptum.  Þau munu án efa finna fyrir vandræðum annars staðar, enda hverfa matvælin sem ella hefðu verið seld til Rússlands ekki, heldur verða seld á öðrum mörkuðum, líklega með einhverjum afslætti sem veldur verðlækkunum.

Það er mest um vert að halda ró sinni, sinna þeim viðskiptatækifærum sem bjóðast, en ekki gefa neinn afslátt í utanríkisstefnunni.

Það að Rússar hafi ekki bannað innflutning á Íslenskum matvælum, er ekkert til að hafa áhyggur út af, né gera að pólítísku ágreiningsefni.

LEIÐRÉTTING:  Mér var bent á að samkvæmt þessari frétt, hefur Ísland tekið þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum í samstarfi við "Sambandið".  Það er því rangt sem ég skrifa hér að ofan að Ísland hafi ekki beitt refsiaðgerðum gegn Rússum.  Einhvernveginn hefur þetta farið fram hjá mér, eða ef til vill hefur þetta farið einkar hljótt.  Það breytir þó ekki megin inntaki pistilsins og engin ástæða til þess að hafa áhyggjur þó að Rússar banni ekki innflutning á Íslenskum matvælum.  Því læt ég hann standa hér óbreyttann.

 

 


mbl.is „Rússarnir eru í slökkvistarfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er allt sem sýnist, eða hvað?

Það er aldrei gott þegar þjóðir flytja meira inn en þær flytja út.  Til lengri tíma litið er það ávísun á vandræði og því hafa Íslendingar oft kynnst í gegnum árin.

En þó má líklega álykta að ekki sé allt sem sýnist að þessu sinni.

Þó að innflutningur og einkaneysla vaxi hratt, er líklegt að mikinn hluta aukningarinnar í bæðum tilfellum megi rekja til ferðaþjónustu.

Gjaldeyristekjur af þjónustu, ekki síst ferðaþjónustu hafa vaxið gríðarlega, og er jákvæður.

En til að þjónusta alla ferðamennina þurfa Íslendingar að flytja inn gríðarlegt magn af varningi.

Það eru minjagripir (sem merkilegt nokk, koma margir langt að), matvæli, hreinlætisvörur, áfengi, hráefni til bjórgerðar, og svo mætti lengi telja.

Ennfremur hefur svo innflutningur til fjárfestingar í ferðaþjónustu verið mikill undanfarna mánuði, og þarf ekki að nefna nema t.d. þær þúsundir bifreiða sem bílaleigur kaupa, og svo mikla uppbyggingu hótela.

Sem betur fer er því ekki allt sem sýnist hér, en vissulega væri æskilegra að útflutningur héldi í við innflutninginn, en þjónustujöfnuðurinn bætir það upp.

 


mbl.is Vöruskipti í júlí óhagstæð um 1,2 milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru margir "ferðamannadagar" á Íslandi?

Það hefur mikið verið rætt um sívaxandi fjölda ferðamanna á Íslandi og hefur mörgum þótt nóg um fjölgun þeirra og jafnvel talið að draga þurfi úr fjölda þeirra, alla vegna um háannatímann.

En það skiptir ekki síður máli hvað um er að ræða marga daga sem ferðamenn dvelja á Íslandi.

Einhversstaðar las ég að um 100.000 ferðamenn muni koma með skemmtiferðaskipum til landsins þetta sumar.  Margir þessara ferðamanna stoppa stutt við, aðeins 8 til 10 tíma (sum skipin stoppa þó á fleiri en 1. stað).

En þessir farþegar setja vissulega mikin svip á viðkomustaðina á meðan á dvölinni stendur, og ekki ólíklegt að þeir eyði meira fé en margir aðrir, mælt á klukkustund.  En þeir gista aldrei á Íslandi og kaupa líklega ekki mikla þjónustu, að frátöldum rútuferðum.

10.000 ferðamenn sem dvelja á landinu í 10 daga hver, eða 20.000 í fimm daga hver, er sami fjöldi mældur í "ferðamannadögum".  En þeir hafa jafnframt "búið til" u.þ.b. 80 til 90.000 gistinætur, hvort sem þær eru á hótelum, gistiheimilum, tjaldsvæðum eða í  íbúðum.

Það má einnig áætla að þeir hafi keypt u.þ.b. 120.000 máltíðir, eða hráefni í slíkar, ótal kaffibolla, gosdrykki og dágóðan slatta af bjór og vínum.

Það er ljóst að það er mikill ávinningur fyrir Íslendinga, ef dagafjöldinn eykst, fleiri dagar per ferðamann, skilar auknum tekjum, en eykur ekki (eða mjög lítið) álagið á helstu náttúruperlurnar.  Fæstir fara nema einu sinni á hvern stað.

Það er líka staðreynd að lang stærsti hluta ferðamanna kemur til Íslands á littlu svæði, það er um Keflavíkurflugvöll og svo höfnina í Reykjavík.

Það þýðir að álagið er lang mest á þá staði sem auðvelt er að komast til frá Reykjavík á skömmum tíma.

Þar er því mest þörf fyrir fé til uppbyggingar og ef til vill nauðsynlegt að reyna að draga úr aukningu yfir vinsælustu mánuðina.

Það liggur því beinast við að það þurfi að vera kostnaðarsamara að njóta þessara staða en annara. Líklega er einfaldast að standa að slíku með því að selt sé sérstaklega inn á hvern stað fyrir sig.  Það má síðan hugsa sér að hægt sé að kaupa kort fyrir fleiri staði í einu, með einhverjum afslætti.  

Síðan má hugsa sér að verðið sé hæst í júlí og ágúst, og jafnvel að það sé ókeypis yfir einhverja af vetrarmánuðunum. Það er enda óvíst að innheimta borgi sig á þeim tíma og það gæti virkað sem hvati fyrir einhverja ferðamenn til að ferðast utan annatíma.

Kort sem allir þyrftu að kaupa allan ársins hring, er afleit hugmynd og gæti auðveldlega skaðað markaðssetningu t.d. yfir veturinn og hvað varðar ráðstefnur.

Annað sem er athyglinnar virði, er sá fjöldi sem ferðast með Icelandair, en félagið setur nú met á met ofan.

Það væri fróðlegt að vita hve margir af þessum fjölda er á leið til og frá Íslandi eingöngu, hve margir stoppuðu aðeins í Keflavík í klukkutíma eða svo, og hve margir notfærðu sér frábært tilboð Icelandair um "stopover".

Hvað skyldi "stopover" skila mörgum "ferðamannadögum" á Íslandi ár hvert?

Hvernig er hægt að fjölga þeim, sérstaklega yfir veturinn?

Það er að mörgu að hyggja í í þjónustu við ferðamenn og hvernig er best að standa að gjaldtöku og uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðafólk.

Líklega er þó ekkert meira áríðandi en að flana ekki að neinu, og tilkynna um lagabreytingar, breytingar á sköttum,  gjaldtöku og aðrar breytingar með ríflegum fyrirvara, helst ekki undir 12 mánuðum.

Þannig er möguleiki fyrir þjónustufyrirtæki að aðlaga sig að breytingum og setja skatta og önnur gjöld inn í verðskrá sínar.

 

 


mbl.is Fjölgun um 81% á 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Flæmskum völlum

Ef það er eitthvað sem stendur fyrir heimstyrjöldina fyrri í mínum huga, er það ljóð hins Kanadíska John McCrae, "In Flanders Field".

Áhrifamikið ljóð, ort í stríðinu miðju.

En það er svo, að þó að heimstyrjöldin fyrri sé oft talin "tilgangslaust stríð", og það má vissulega til sanns vegar færa, hún leysti ekki vandamál, hún varð  ekki "stríðið sem endaði öll stríð", öðru nær.  Hún kostaði ótaldar milljónir lífið og skapaði ótal vandamál, sem þurfti annað stríð til að leysa úr og dugði þó ekki til.

En ljóðið minnir líka á það að nauðsynlegt er að einhver standi gegn þeim sem fara með ófriði og hótunum, einstaklingar og þjóðir þurfa að hefja kyndil á loft og berjast gegn þeim.

Sá sannleikur er jafngildur, í dag sem fyrir 100 árum.

 

In Flanders fields the poppies grow
      Between the crosses, row on row,
   That mark our place; and in the sky
   The larks, still bravely singing, fly
Scarce heard amid the guns below.

We are the Dead. Short days ago
We lived, felt dawn, saw sunset glow,
   Loved and were loved, and now we lie
         In Flanders fields.

Take up our quarrel with the foe:
To you from failing hands we throw
   The torch; be yours to hold it high.
   If ye break faith with us who die
We shall not sleep, though poppies grow
         In Flanders fields.


mbl.is Minnast aldarafmælis stríðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband