Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Illa skrifuð/þýdd frétt. Monty Python á betra skilið

Þó að frétt um Mick Jagger og Monty Python sé ef til vill ekki "mikilvægasta" fréttin, verður samt að gera lágmarkskröfur til þess sem skrifa hana.

Monty Python er ekki að fara að framleiða 10 sjónvarpsþætti, Monty Python hópurinn verður með 10 sýningar á sviði í London, nánar tiltekið í  "O2 höllinni".  Sýningin (sem verður sýnd 10 sinnum) heitir Monty Python Live - Mostly.

Hins vegar hefur verið ákveðið að síðasta sýningin verði sýnd beint, í fjölda landa ýmist í sjónvarpi eða kvikmyndahúsum, ef ég hef skilið rétt.

Engir sjónvarpsþættir eru fyrirhugaðir og ekkert nýtt efni verður samið. Sumir hinna eldri "sketsa" verða "remixaðir" og slípaðir eitthvað til.

Hér má lesa dóm um sýninguna. 

Hér má lesa um hvernig sýningin gengur fyrir sig.

Hér er heimasíða sýningarinnar

Hér má lesa um fyrirhugaða sjónvarpsútsendingu.

Hér er svo heimasíða The Spam Club, aðdáendaklúbbs Monty Python.

Hér er svo myndbandið með Mick Jagger, en það má einnig finna á YouTube.

 

 


mbl.is Mick Jagger fárast yfir gamlingjunum í Monty Python
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrara á Íslandi en í helstu samanburðar "Sambandslöndum". Hvernig stendur á því?

Það er lífseig mýta að ef Ísland gengi í "Sambandið" myndi vöruverð stórlækka á Íslandi.  Ef það væri bæði satt og rétt, hvernig stendur þá á því að Danmörk, Svíþjóð og Finnland koma verr út í þessum samanburði en Ísland?

Og Finnland þar að auki með euro.

Og auðvitað hljóta Íslendingar fyrst og fremst að bera sig saman við þessi nágrannalönd, en ekki einblína á meðaltal Evrópusambandsríkjanna.  Það getur varla verið sterkur vilji fyrir því á Íslandi að bera Íslensk verð saman við þau í Búlgaríu, eða hvað?

Sumt af því sem dregur upp hið Íslenska meðaltal, er vegna þess að Íslendinga hafa ákveðið að svo sé, samanber hátt verð á áfengi og tóbaki.

Annað sem vekur athygli, er að Ísland er meira yfir meðaltalinu en hinir Norðurlandaþjóðirnar (nema Noregur) í verði á fatnaði. 

Verð á fatnaði er meira yfir meðaltalinu en verð á matvælum. Sama gildir um rafmagnstæki og tæknivörur.

Hvað skyldi valda þvi?  Ef til vill er von um að það breytist með fríverslunarsamningnum við Kína.

Hér má sjá niðurstöðurnar á PDF skjali.

En auðvitað þýðir þetta ekki að Íslendingar geti hallað sér aftur og á Íslandi þurfi engu að breyta og ekkert að bæta.

Að sjálfsögðu þarf að stefna að því að vöruverð gæti lækkað hlutfallslega enn meir í framtíðinni.

En það er ljóst að "Sambandsaðild" er engin trygging fyrir lægra vöruverði.  

Það er líka staðreynd að það er ekki til neitt "Evrópuverð", eða "Evrópusambandsverð", né heldur "Evrópuvextir" eða "Evrópusambandsvextir".  Munurinn getur verið verulegur á milli landa þar, rétt eins og annarsstaðar. 

Það sést hvað best með því að bera saman Danmörk og Búlgaríu.

P.S.  Hvað skyldi verð á neysluvöru á Íslandi vera í samanburði við meðalverð í Bandaríkjunum eða Kanada?

 


mbl.is Vöruverð 12% hærra hér en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Costco, bensínstöðvar, áfengi og frjáls innflutningur á kjöti

Mér finnast þær fréttir sem ég hef lesið um áhuga Costco á því að opna verslanir á Íslandi tæpa á nokkrum málum sem vekja ættu athygli.

Í upphafi er rétt að taka það fram að ég hef átt býsna löng og ánægjuleg viðskipti við Costco og er líklega ekki jafn tryggur nokkuri annari verslunarkeðju.

Í fyrsta lagi er það auðvitað nokkuð merkilegt að jafnvel opnun verslunar á smásölusviði skuli krefjast langra viðræðna við yfirvöld, bæði á landsvísu og sveitarstjórnarstigi.

Það vekur athygli mína að borgarfulltrúi Samfylkingar telur vandkvæði á því að leyfa Costco að selja bensín og aðra orkugjafa. Eftir honum er haft að það sé kappnóg af bensínstöðvum í Reykjavík.

Þetta er gott dæmi um hvernig skipulagsmál eru notuð til að hindra og koma í veg fyrir samkeppni.  Það má vel vera að það sé nóg af bensínstöðvum í Reykjavík, ég ætla ekki að dæma um það.  En það þýðir ekki að ekki sé þörf á fleiri aðilum til að selja bensín í Reykjavík.  Skipulag á að vera sveigjanlegt.  

Borgaryfirvöld hafa einmitt með takmörkunum í skipulagi, skaðað samkeppni og stórar keðjur hafa getað einokað staðsetningar og þannig lagt stein í götu samkeppni.

Annað sem vekur athygli mína er að Costco sé í viðræðum við ráðherra, ef marka má fréttir um að breyta landslögum, eða fá undanþágur frá þeim.  Það er auðvitað allt eins líklegt að lítið sé að marka fréttirnir, fjölmiðlar eru jú mis áreiðanlegir.

En ráðherrar sem taka sig alvarlega ræða slíkt ekki við einstök fyrirtæki. 

Mér er reyndar næst að halda að þetta sé ekki rétt, því Costco er þekkt fyrir að laga sig að aðstæðum á hverjum stað.

Hvað varðar áfengi er til dæmis ekkert áfengi selt í verslunum Costco í Ontario.  Þar hefur fylkið einkasölu á áfengi.  Það hefur ekki staðið í vegi fyrir því að verslanir Costco njóti vinsælda og blómstri.  Í Quebec er eingöngu selt létt vín og bjór í verslunum Costco, vegna þess að fylkið hefur einkasölu á  sterku áfengi.

Það má geta þess til gamans, að íbúar Ontario sem búa nálægt fylkjamörkunum við Quebec, flykkjast yfir í næsta Costco og má oft vel hlaðna pallbíla á bílastæðunum við Costco.

Hvað varðar innflutning á kjöti, hlýtur Costco einfaldlega að þurfa að sætta sig við þær reglur sem í gildi eru á Íslandi, ekkert annað getur komið til greina, hversu heimskulegar sem okkur kunna að þykja reglurnar.  

En það er löngu tímabært að huga að því hvernig Íslendingar sjá skipan mála fyrir sér til framtíðar, bæði hvað varðar erlendar fjárfestingar, skipan áfengissölu og innflutning á landbúnaðarafurðum.

En það á ekki að ræða slíkt út frá einstökum tilfellum.

En það væri óneitanlega akkur fyrir Íslendinga ef að smásölurisi á borð við Costco hefur starfsemi á Íslandi.

P.S. Eru Íslendingar komnir í þá stöðu að velgengni fyritækis á borð við Costco á Íslandi, gæti haft neikvæð áhrif á stöðu lífeyrissjóða þeirra?


Fátækt og lífsgæði

Það er ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir allt stendur Íslenskur almenningur í heildina séð nokkuð vel, þó vissulega megi alltaf óska eftir frekari framförum.

En þegar ég las þessa frétt mundi ég eftir frétt sem ég las nýlega á vefsíðu Eistneska blaðsins Postimees.

Þar var talað um framfarir í aðbúnaði landsmanna og þó að þeim hafi miðað vel fram á veginn, er ég hálf hræddur um að Íslendingum þætti nóg um þau skilyrði sem margir þar búa við, sérstaklega í dreifbýlinu.

En frétt Postimees segir okkur að 5.5% Eistneskra heimila sæki ennþá sitt daglega vatn í brunn nálægt heimili sínu, hafi með öðrum orðum ekki rennandi vatn.  Það er þó mikil framför frá árinu 2000, þegar sama hlutfall var ríflega 11%.  Enn stærra er stökkið þegar horft er til síðasta áratugar síðustu aldar, en þá segir blaðið að rennandi vatn á í dreifbýlinu hafi verið fátítt.

Aðeins 3.5% heimila notast enn við útikamar, í samanburði við meira en 7% árið 2000.

Enn hafa 28.1% heimila ekki heitt vatn í heimilum sínu, og ríflega 12% hafa hvorki baðkar né sturtu.

Þó að hér sé fyrst og fremst talað um dreifbýli, er það ekkert einsdæmi að hús í borgum og bæjum hafi ekki heitt vatn, eða séu tengd miðlægum holræsalögnum.

Stærstu stökkið kom fljótlega eftir að Eistland endurheimti sjálfstæði sitt, en jafnt og þétt hefur ástandinu miðað í rétta átt.

"Sæluríki sósíalismans" skyldi innviði landsins eftir í hörmulegu ástandi.  U.þ.b. 50 ára herseta Sovétsins var landinu dýr, þó þótti lífið í Eystrasaltslöndunum almennt betra en annars staðar í Sovétríkjunum.

P.S.  Þess má geta hér í framhjáhlaupi að Íslendingar þiggja frá Eistlendingum afnot af ríflega 200 fermetra húsnæði í Kína, undir sendiráð, endurgjaldslaust.


mbl.is Lífsgæðin svipuð og fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjör snilld

Þetta er með betri "sketsum" sem ég hef séð lengi.  Sjón er sögu ríkari.

 


Að banna búrkur eða ekki að banna búrkur?

Víða um heim hafa komið upp áleitnar spurningar og hart verið deilt um hvort banna eigi að einstaklingum að klæðast búrkum eður ei.

Það er skoðun margra og ég get tekið undir hana að flestu leyti, að það sé út í hött að banna einstaklingum að klæða sig á ákveðin máta.  Hvort sem það er að trúarlegum ástæðum, eða einhverjum öðrum, hljóti það að vera ákvörðun hvers og eins.

Má þá ekki alveg eins banna of stutt pils, of lítil bikini, eða of aðskornar og þröngar sundskýlur?

En búrkan er þó örlítið annars eðlis.  Þó að hún eins og bikini og sundskýlur, þyki oft ögra ríkjandi viðurhorfum, gerir hún það á annan hátt.

Hún hylur viðkomandi einstakling og gerir í raun ókleyft að bera kennsl á hann.  En það er einmitt einn af hornsteinum nútíma vestræns samfélags.

Ef okkur þykir sjálfsagt að samþykkja búrkur, verðum við líka að velta fyrir okkur hvað okkur þykir eðlilegt að neita þeim um,  sem klæðist henni. 

Hvaða réttindum afsalar sá er klæðist búrku sér?

Er ekki eðlilegt að neita einstaklingi í búrku um að kjósa?  Væri eðlilegt að neita einstaklingi í búrku að keyra bil?  Þætti ekki flestum sjálfsagt að neita einstaklingi í í búrku um að greiða með debet eða kreditkorti?

Varla gæti nokkur vafi leikið á því að einstaklingi í búrku yrði neitað um að opna bankareikning.  

Gæti einstaklingur í búrku sótt sér aðstoð hjá Tryggingastofnun, eða félagsaðstoð sveitarfélaga?

Þætti ekki sjálfsagt að neita einstaklingi i búrku um afgreiðslu í ÁTVR? (Nú veit ég að að múslimar neyta öllu jöfnu ekki mikils áfengis, en þetta á auðvitað fyrst og fremst við þegar þessi létti og þekkilegi klæðnaður yrði að almennri fatatísku).

Getur einstaklingur í búrku fengið vegabréf eða ferðast á milli landa?

Getur einstaklingur í búrku fengið að taka próf í framhaldsskólum eða háskólum?  Eða yfirleitt fengið inngöngu í slíka skóla?

Væri það samþykkt að einstaklingi sem klæddist búrku yrði sagt upp atvinnu sinni, vegna gruns um að það væri ekki sami einstaklingur og hefði komið í atvinnuviðtal? Eða sá sem hefði verið í vinnunni í síðustu viku?

Eflaust velta fyrir sér fleiri álitamálum, en ég læt hér staðar numið.

Finnst okkur eðlilegt og sjálfsagt að einstaklingur afsali sér þessum réttindum, eða gerum við ráð fyrir að búrkan sé eingöngu notuð við einstök tækifæri?

Er sjálfsagt að einstaklingurinn afsali sér slíkum réttindum, ef að hann gerir það sjálfviljugur?

Hvernig getum við verið viss um um um sjálfstæðan vilja sé að ræða?

Eða eins og einn kunningi minn sagði þegar svipað var rætt:  "Samþykkjum við þá þrælahald, ef einstaklingur segist vera í því af fúsum og frjálsum vilja?"

Engin þjóð sem ég man eftir hefur gengið jafn langt í að reyna að aðskilja trúarbrögð frá hinu opinbera lífi og Frakkar.  Og þeim hefur gengið það býsna vel.  Trúartákn og annað slíkt lúta ströngum reglum.  Engin giftir nema hið opinbera. Síðan getur hver sem er "blessað" sambandið.

En það verður fróðlegt að heyra af því hvernig niðurstaðan í þessu máli verður.  Hún getur haft mikil áhrif í Frakklandi og víðar.

Persónulega spái ég því að bannið verði dæmt lögmætt.  En það eru vissulega sterk rök, bæði með og á móti.


mbl.is Stenst búrkubann lög?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband