Hvenær er rétt að segja af sér eða biðjast lausnar?

Auðvitað má alltaf deila um hvenær ráðherra á að segja af sér og hvenær ekki. Sömuleiðis hvenær ríkisstjórn á að beiðast lausnar og hvenær ekki.

Að flestu leyti get ég tekið undir með Brynjari, og hvatt Hönnu Birnu til þess að taka ábyrgð á misgjörðum og lygavellingi aðstoðarmanns síns, með því að segja af sér sem ráðherra.

En sé litið til Íslenskrar stjórnmálahefðar get ég hins vegar ekki fundið ástæðu til annars en að hún sitji áfram í embætti.  Myndi raunar hvetja hana til þess.

Því heilt yfir er lítið um samræmi í því þegar kallað er eftir afsögnum ráðherra.  Flestir sem slíkt gera virðast fyrst og fremst gera slíkt til að ná sér niðri á pólítískum andstæðingum.

Þeir eru til dæmis líklega ekki margir sem hafa kallað eftir afsögn ráðherra, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta.

Hvernig skyldi standa á því?

Þó vantaði ekki tilefni til afsagnar ráðherra eða í raun ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili.

Þá var forsætiráðherra (sem einnig fór með jafnréttismál) dæmd fyrir brot á jafnréttislögum. En auðvitað hvarflaði ekki að henni að svo mikið sem "íhuga stöðu sína", hvað þá segja af sér.  Líklega hefði það þótt yfrin ástæða til, "í mörgum af þeim löndum sem við berum okkur saman við".

Og fyrst við erum farin að tala um "samanburðarlöndin", skyldu margar ríkisstjórnir í þeim hafa setið sem fastast, eftir að hafa ekki einu sinni, heldur tvisvar verið gerðar afturreka af kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Og ýmsir ráðherrar bitu höfuðið af skömminni með því að taka ekki þátt í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu, sem þeir sjálfir (gegn vilja sínum) höfðu þó boðað til.

Skyldu vera til önnur dæmi um slíkt í lýðræðissamfélögum?

Auðvitað voru uppi kröfur um afsögn, en hve margir eru þeir sem slíkt gerðu, þeir sömu og krefjast nú afsagnar ráðherra? (og öfugt).

Og var ekki ráðherra í síðustu ríkisstjórn, sem verður líklega helst minnst fyrir að hafa staðið að lagasetningu sem dómstólar dæmdu ólöglega, síðar verðlaunaður með því að vera gerður að formanni síns flokks? Líklega telst það "frjáls aðferð" í að taka ábyrgð á mistökum.

En ég er þó þeirrar skoðunar að það væri til bóta að Hanna Birna Kristjánsdóttir myndi stíga til hliðar sem ráðherra.  Íslensk stjórnmál mega alveg við smá "siðferðisinnspýtingu".

En sé litið til hefðarinnar, er engin ástæða fyrir hana að gera slíkt. Og þó að öllum helstu andstæðingum ríkisstjórnarinnar finnist það sjálfsagt, er það ekki ástæða í sjálfu sér.

En hún á völina og eins og oft áður fylgir því að eiga kvölina.

 


mbl.is Skoðun Brynjars hefur ekki breyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Íslensk stjórnmálahefð er mjög Machiavellian að því leyti að hér leggja menn allt í sölurnar til að ná völdum og hanga svo á þeim eins og hundar á roði. HB er alveg ekta dæmi. Þetta er frekar frumstæð hefð, að minnsta kosti frekar dapurleg. Í öðrum löndum virðast menn frekar til í að líta á stjórnmálin sem þjónustustarf, en hérna á Íslandi er þetta spurning um að fá að ráða yfir öðrum. Frekar klént, satt að segja.

Kristján G. Arngrímsson, 20.11.2014 kl. 15:21

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað spurning Kristján, hvort að það teljist ekki eðlilegt að stjórnmálamenn dragi dám af þeirri hefð sem ríkir í landinu.

Stjórnmálamaður eins og Jóhanna Sigurðardóttir, sem alltaf hafði einna hæst um siðferði og þörf fyrir jafnrétti, er dæmd fyri brot á jafnréttislögum.  Henni finnst engin ástæða til þess að segja af sér.  Henni finnst frekar ástæða til þess að breyta lögunum.

Hverjir kölluðu eftir afsögn "heilagar Jóhönnu"? Varst þú þar á meðal?

Hverjum fannst óeðlilegt að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sæti áfram eftir að hafa "barist gegn kjósendum" í tvígang og tapað í þjóðaratkvæðagreiðslu?  Kallaðir þú eftir afsögn þeirra Kristján?

En svo segir þú að Hanna Birna hangi á völdunum eins og hundur á roði.

ER það ekki í takt við hefðina í Íslenskum stjórnmálum?

Hví ætti hún að víkja frekar en Jóhanna, eða ríkisstjórn hennar og Steingríms?

En auðvitða er alltaf auðveldara að gera siðferðilegar kröfur til pólítískra andstæðinga.

Er það ekki mergurinn málsins?

Og hvað varðar hefðina í öðrum löndum, þá er það auðvitað upp og ofan.  ER þörf á að nefna nema eitt nafn, Juncker?

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2014 kl. 17:06

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég man nú ekki eftir því að hafa tekið sérstaklega fram að Jóhanna ætti að sitja áfram þrátt fyrir lögbrot, svo því sé nú til haga haldið. Og má bæta því við að ég er ekki kjósandi Samfó. Heldur ekki VG.

Svo má nefna að Jóhanna og Steingrímur lágu sosum ekkert á því að þeirra helsta markmið var að halda íhaldinu frá völdum - hvað sem það kostaði. Ég held að þeim hafi meira að segja verið meira i mun að halda Sjálfstæðisflokknum frá heldur en að halda völdum sjálf. Kannski undarlegt markmið, en þau lágu ekki á því, fannst mér - og mér persónulega fannst þetta mjög verðugt markmið því að enginn flokkur átti jafn mikinn þátt í því að kollsigla Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn, og hann stendur sinn vörð um kvótagreifana.

En þetta er önnur saga.

Reyndar held ég að HB fari soldið í taugarnar á mér sem persóna - hún er eins fráhrindandi og ég get ímyndað mér nokkra manneskju vera. En það er mitt mál, ekki hennar.

En þetta með hefðina er auðvitað hlutur sem mætti breyta. Hefðir mega ekki kæfa mann eða hefta frelsi manns, er það?

Kristján G. Arngrímsson, 20.11.2014 kl. 18:01

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er nokkuð undarleg röksemdafærsla að telja það allt í neinu meginmálið að hafa ekki haldið því sérstaklega fram að Jóhanna ætti að sitja áfram.

Árið 2012 sagðirðu um Jóhönnu:

"Það er ekki skrítið að pólitískir andstæðingar Jóhönnu reyni hvað þeir geta að níða af henni skóinn. Mér finnst nú samt að þeir ættu í tilefni af því að hún er að hætta að láta hana njóta sannmælis. Það verður ekki af henni tekið að hún er hugsjónapólitíkus af gamla skólanum og hefur ekki hvikað frá sinni hugsjón. Hvorki í gróðærinu né kreppunni breytti hún kúrsinum."

og

"Jóhanna er Churchill Íslands - kom landinu útúr græðgisklúðri Sjálfstæðisfokksins."

Sjá:  http://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/1259913/

En þetta telst líklega ekki til þess að "taka sérstaklega fram að Jóhanna ætti að sitja áfram, þrátt fyrir lögbrot."

En auðvitað höfðu Steingrímur og Jóhanna göfugt markmið - að þínu mati - og þá er líklega sjálfsagt að slaka á siðferðiskröfunum, eða hvað?

Hanna Birna er ekki stjórnmálamaður sem ég hrífst af, en hún á þó skilið að vera dæmd eftir sömu "standördum" og aðrir eða hvað?

En það er alveg rétt með hefðirnar, þær eiga ekki að ráða ferðinni, en það eiga pólítískir andstæðingar ekki heldur að gera.

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2014 kl. 18:52

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er nú reyndar komið í ljós að það var nánasti samstarfsmaður HB, en ekki pólitískir andstæðingar hennar, sem réðu því hvert þetta ólukkumál fór.

Og svo verður nú að segjast að ekki er HB á nokkurn hátt í svipaðri stöðu og Jóhanna og Steingrímur voru á sínum tíma þegar þau voru í því að bjarga landinu eins og sökkvandi skipi eftir fyllirísreisu Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef aldrei haldið því fram að Jóhanna sé heilög - ekki var Churchill heilagur - og ég held enn að hún hafi haft hugsjón, sem er annað og meira en HB sem stendur ekki fyrir neitt nema sjálfa sig og völd innan Sjálfstæðisflokksins.

En ef við ætlum að bera saman lögbrot Jóhönnu þá var það auðvitað smávægilegt við hliðina á þessu lekamáli öllu og snérist ekki um vísvitandi blekkingar eða lögbrot í því meðvitaða skyni að koma höggi á minni máttar. Og það var ekki verið að nota neinn, einsog gert var í lekamálinu þar sem Tony Omos var notaður til að bera högg af HB. Þannig að þótt það hafi verið lögbrot þegar Jóhanna réði manninn en ekki konuna var það mun léttvægara í siðferðislegum skilningi og þarf ekki að slaka neitt á "siðferðiskröfum" til að fá það út.

Samanburður á þessu tvennu er ekki HB til framdráttar heldur þvert á móti.

HB er ekki hugsjónapólitíkus, heldur eins og ég sagi í byrjun, machiavellíanskur valdasjúklingur sem svífst einskis til að ná völdum og halda þeim.

Kristján G. Arngrímsson, 20.11.2014 kl. 19:33

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er á mörkunum að ég nenni að tala meira um HB, mér finnst hún svo fráhrindandi að mér fer að líða illa við það eitt að hugsa um hana. Ég held í alvöru að ég færi yfir á gangstéttina hinumegin ef ég mætti henni á götu.

Kristján G. Arngrímsson, 20.11.2014 kl. 19:37

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það sem er munurinn, alla vegna enn sem komið er, hvað sem síðar verður, er að Jóhanna var dæmd.  Dómstóll fann hana seka.

Hanna Birna hefur ekki verið fundin "sek" um neitt. Hennar "sök", alla vegna enn sem komið er, er að hafa trúað aðstoðarmanni sínum og að hafa höndlað málið klaufalega.

Hvort er alvarlegra?

En "hugsjón" Jóhönnu, um "siðferði" og "jafnrétti" náði ekki lengra, en að þegar hún var dæmd fyrir brot á jafnréttislögum, var tímabært að breyta þeim lögum, að hennar mati.

En hver er ábyrgð Hönnu Birnu á "Lekamálinu", umfram það sem má telja ábyrgð hennar á aðstoðarmanni sínum?

Og um "björgunaraðgerðir" Jóhönnu og Steingríms er deilt um eins og margt annað, ekki hvað síst nú um stundir, t.d. hið umdeilda "Landsbankabréf".

Það hefur oft verið sagt að viðbrögðin við kreppum séu oft skaðlegri, en þær sjálfar, og vilja margir meina að það sé tilfellið á Íslandi nú.

Vissulega hefði mátt margt gera betur í aðdraganda "bankahrunsins" á Íslandi, en samt virðist Ísland stand samanburð við mörg önnur lönd sem lentu í efnahagserfiðleikum á þeim sama tíma.

Aðrir vilja meina að Ísland gæti staðið enn betur, hefði verið haldið betur á spöðunum á síðasta kjörtímabili.  Hvort er satt og rétt, kemur líklega seint í ljós, og ekki líklegt að hinn eini rétt sannleikur náist.

En það fer þér ekki vel að tala eins og þú hafir fundið hann.

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2014 kl. 19:59

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef Sjálfstæðisflokkurinn (les Davíð Oddsson) hefði fengið að ráða hefði aldrei verið leitað til AGS og Íslandi hefði sennilega farið á hausinn. Steingrímur má eiga að hann sá að sér í þeim efnum. Eða hvort Jóhanna hafði vit fyrir honum, veit ég ekki.

Nei auðvitað er ég bara að lýsa mínu viðhorfi og minni túlkun, að sjálfsögðu, en það er soldið gaman að láta vaða. Stundum.

En ég held að þú hafir reyndar ágætlega lýst þessu lekamáli sem snjóbolta sem hefur vaxið vegna ósannsögli, óheiðarleika og undanbragða. Ég er af einhverjum ástæðum sannfærður um að HB er ekki eins saklaus og hún þykist vera. Hún er óheiðarleg og ég held hún hafi þaraðauki látið aðstoðarmanninn taka sökina. Það gerir hana ómerkilega.

(Ég held í alvöru að hún sé síkópati).

Og ef maður er að tala um siðferðisbresti þá skiptir í rauninni engu máli hvort einhver hefur verið fundinn sekur um lögbrot - lög ákvarða ekki siðferði. Heldur öfugt. Þannig að það að einhver hafi verið fundinn sekur um lögbrot er ekki rök fyrir siðferðisbresti.

Hefurðu lesið Furstann? Ef maður les hann einu sinni hefur að óafturkræf áhrif á það hvernig maður skilur stjórnmál.

Kristján G. Arngrímsson, 20.11.2014 kl. 20:15

9 identicon

Alls staðar í þróuðum ríkjum hefði ráherra þurft að segja af sér ef nánasti aðstoðarmaður hans hefði orðið uppvís að leka af þessu tagi. Núverandi stjórnvöld hafa hins vegar engan áhuga á að Ísland komist i tölu þróaðra ríkja af augljósum ástæðum.

Lekinn er þó alls ekki aðalástæðan fyrir því að Hanna Birna á að segja af sér. Margítrekaðar tilraunir hennar til að koma í veg fyrir að réttvísin nái fram að ganga eru miklu alvarlegri afglöp. Í alvöruréttarríkjum hefði hún sloppið við mestu niðurlægingarnar vegna þess að hún hefði orðið að víkja áður en til þeirra kom.

Þó að jafnréttisráð hafi úrskurðað að Jóhanna hafi brotið lög með því að ráða ekki Önnu Kristínu Ólafsdóttur sem ráðuneytisstjóra gátu hún og hennar ráðgjafar ómögulega séð það fyrir. Þau töldu ráðninguna löglega.

Það er ljóst að ef Jóhanna hefði ráðið Önnu Kristínu hefði hún átt verulega undir högg að sækja fyrir að ráða flokkssystur sína þvert gegn meðmælum ráðgjafarfyrirtækisins.

Margítrekuð afglöp Hönnu Birnu eru hins vegar mjög augljós og því ótvírætt ásetningsbrot. Jóhanna fór hins vegar að ráðum sérfræðinga og gerði það sem hún og hennar raðgjafar töldu vera rétt.

Ákvörðun hennar fór aldrei fyrir dómstólana vegna þess að hún vildi ekki vefengja jafnréttisráð sem var henni hjartfólgið.

Það er ekki alvarlegt brot og geta ekki séð fyrir úrskurð jafnréttisráðs í erfiðu máli. Ef málið hefði farið fyrir dómstólana hefði ekki verið ólíklegt að dómnum hefði verið snúið við. Lögbrot Jóhönnu var því fjarri því að vera tilefni til afsagnar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.11.2014 kl. 21:59

10 identicon

Hinn 17.september sl. ógilti Héraðsdómur Reykjavíkur ólöglega ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra að neita að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps; enda er ekkert í lögum sem heimilar Svandísi þetta ofbeldi (pressan).  Þegar Svandís var spurð skýringa var svar hennar að það væri ekkert í lögunum sem leyfði þetta.  Ráðherra og þingmaður á löggjafarsamkundu þjóðarinnar túlkar lög þannig að allt sé bannað nema að það leyft í lögum.  Ekki voru sérstaklega háværar raddir um uppsögn Svandísar vegna þessarar ótrúlegu valdníðslu.  Getur varið að vinstri menn séu almennt háværari í umræðunni og óbilgjarnari eða getur verið að það sé orðin mikill vinstri halli á fjölmiðlum á Íslandi í dag og þar með mikill lýðræðishalli á allri umræðu?

Hvar er umræðan um þann leka sem virðist hafa orðið frá embætti umboðsmanns Alþingis?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 20.11.2014 kl. 22:51

11 identicon

Hver er tilgangurinn með því að áskilja staðfestingu ráðherra á lögum ef hann hefur ekki heimild til að hafna þeim?

Þegar Svandís stóð frammi fyrir því að staðfesta umrædd lög er eðlilegt að hún hafi litið svo á að það væri hennar val hvort hún staðfesti þau eða hafnaði þeim.

Það er því eins með Svandísi og Jóhönnu. Hún hafnaði lögunum vegna eigin sannfæringar með heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Hvorki Svandís né Jóhanna urðu uppvísar að ósannindum til að hindra framgang réttvísinnar. Þær eða ráðuneyti þeirra urðu heldur ekki uppvísar að leka á persónuupplýsingum, hvað þá slúðri.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.11.2014 kl. 08:27

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján.  Hún er fljót að skolast til sagan, og fljótlega skýtur Davíð Oddssyni upp sem "vonda kallinum".  Það er alveg rétt að það voru skiptar skoðanir um aðkomu IMF í Sjálfstæðisflokknum (og auðvitað fleiri flokkum).  En það var ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem sótti um aðstoð IMF.  Meiri eða sterkari andstaða var það ekki.

Þú segir réttilega að Steingrímur sá að sér, og hélt áfram stefnu fyrri ríkistjórnar, sem hann hafði þó talað svo harkalega gegn.

En Hanna Birna hefur enn sem komið er ekki verið "dæmd" fyrir eitt né neitt, þó að eins og ég sagði í upphaflega pistlinum, ég teldi það góða siðferðisinnspýtingu að hún segði af sér.  Það stendur.

@Ásmundur (gaman að sjá þig aftur, ég saknaði þess að þú legðir eitthvað til um skattaumræðuna í Luxemborg, sem þú vildir svo gjarna að Ísland tæki til fyrirmyndar).

En flest sem þú segir í þessar athugasemd er rangt.  Brot Jóhönnu var tekið fyrir í Héraðsdómi og hún fundin sek.  Það kemur fram í frétt Vísis, sem vísað er til í upphaflegu færslunni. http://www.visir.is/heradsdomur--johanna-braut-jafnrettislog/article/2012120629936

Jóhanna og ráðuneytið ákvað hins vegar að una dómnum og ekki fara fyrir Hæstarétt.

Siðferðisbrestur Jóhönnu í þessu tilfelli er ennþá stærri, vegna þess að það var sú nákvæmlega sama Jóhanna sem barðist fyrir því að úrskurðir Jafnréttisráðs væru bindandi.  Eins og má sjá í þessu frumvarpi:  http://www.althingi.is/altext/130/s/0285.html

Og kom því svo fram sem félagsmálaráðherra, eins og sjá má hér:  http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=142

Brot á jafnréttislögum er því jafngilt broti á öðrum lögum, þó eð vissulega megi segja að lög hafi mismunandi "vigt".

Ég hef ekki trú að því að hjá mörgum "þróuðum" ríkjum kæmist forsætisráðherra upp með slíkt.  Getur þú sömuleiðis nefnt dæmi um að forsætiráðherra hjá "þróuðu" ríki sitji heima í þjóðaratkvæðagreiðslu?  Eða að ríkisstjórn sitji sem fastast eftir að hafa verið gerð afturreka í tvígang af kjósendum?  Eftir að hafa reynt að koma samningi í gegnum þing, og vilja meina þingmönnum að lesa samningin.  En það stóð ekki á þingmönnum Samfylkingar og VG að samþykkja slíkt.

@Stefán. Bestu þakkir fyrir þetta innlegg.

Ólöglegar ákvarðanir, ólögleg lög keyrð í gegnum þingið eins og hjá Árna Páli.  Það er engin ástæða til að "axla" neinna ábyrgð á því.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2014 kl. 08:51

13 identicon

G. Tómas þú hunsar algjörlega það eina sem verulegu máli skiptir.

Jóhanna stóð frammi fyrir erfiðu vali þar sem báðir kostir orkuðu mjög tvímælis. Það getur ekki talist alvarlegt brot þegar þannig stendur á að velja þann umsækjanda sem ráðgjafafyrirtækið og hún töldu hæfari.

Jóhanna framdi ekki lögbrot af ásetningi.Lögbrotið sem aldrei fékkst endanlegur úrskurður um í Hæstarétti varð ekki ljóst fyrr en löngu eftir ákvörðun Jóhönnu.

Þér hlýtur að vera kunnugt um að þegar fyrri Icesave atkvæðagreiðslan fór fram þá lá fyrir tilboð frá Bretum og Hollendingum sem var miklu betra en samningurinn sem kosið var um. Þess vegna fóru nánast allir þeirra sem vildu samning um Icesave ekki á kjörstað.

Að áfellast Jóhönnu fyrir að samþykkja ekki samninginn í kosningum og eiga þannig þátt í að koma í veg fyrir að betri samningur fengist, er auðvitað fráleitt. Kosning við slíkar aðstæður er skrípaleikur því að málin þróuðust þannig að það var ekki hægt annað en að segja nei.

Jóhanna, og reyndar Steingrímur líka, gerðu því það eina rétta. Þau sátu heima. Skrípaleikurinn var ekki á þeirra ábyrgð.

Það hefði verið freáleitt

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.11.2014 kl. 10:22

14 identicon

Afsakið að mér láðist að strika út síðustu setninguna hér fyrir ofan. Hún er úr samhengi og auk þess vitlaust stafsett.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.11.2014 kl. 10:27

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur.  Jóhanna og ráðuneytið ákváðu að hlýta dómi í héraði.  Þess vegna og eingöngu þess vegna kom málið ekki til kasta Hæstaréttar.

Valið kann að hafa verið erfitt, en það ber að líta til þess að Jóhanna sjálf hafði barist hart og ákveðið fyrir þeirri breytingu á jafnréttislögunum sem gerði þetta að lögbroti.

Eftir á sagði hún að það væri ef til vill tímabært að breyta jafnréttislögunum.  Það er ekki siðferði til fyrirmyndar.

Það er sjálfsögð kurteisi af ráðamönnum að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum.  Hvernig þeir greiða atkvæði er svo annað mál og þeirra eigið.  Þeim ber engin skylda til þess að upplýsa um slíkt.

Það var enginn annar samningur til undirritaður þegar kosningarnar fóru fram.

Það má einnig efast um að betra samningstilboð hefði komið fram, ef engin þjóðaratkvæðagreiðsla hefði verið.

Og líklega hefði í flestum "þróuðum" löndum, ríkisstjórn beðist lausnar, ef ekki eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna, þá næsta örugglega eftir þá síðari.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2014 kl. 10:56

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má svo bæta því við hér að þegar fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram, um "Svavarssamninginn" svo kallaða, var búið að samþykkja hann á Alþingi.  Hann var í ruan orðinn að lögum.  Forseti neiðaaði honum um staðfestingu, og setti í þjóðaratkvæði.

Hefði honum ekki verið neitað í þjóðaratkvæði hefði forseti orðið að skrifa undir og samningurinn hefði fengið lagalegt gildi.

Jóhanna og Steingrímur hefðu getað dregið samþykktina til baka í þinginu, afturkallað samninginn og slegið þjóðaratkvæðagreiðsluna af, ef mikið betri samningur var í spilunum.

Það gerðu þau ekki.

Það var því nauðsynlegt að atkvæðagreiðslan færi fram, og þeim til ævarandi skammar að taka ekki þátt.

Að lágmarki hefðu þau tvö átt að segja af sér, þó að þingmeirihlutinn hefði myndað nýja stjórn. 

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2014 kl. 14:03

17 identicon

G. Tómas. þetta er bull og þú veist það. Það er ekki hægt að aflýsa kosningu nema með ákveðnum fyrirvara. Það varð ekki ljóst að mun betri samningur væri í boði fyrr en rétt fyrir kosningar.

Jóhanna og Steingrímur hafa heldur ekki heimild til að afturkalla lög. Til þess þarf meirihluta alþingismanna. Afturköllun tekur sinn tíma.

Auk þess hefði ekki verið neinn skilningur fyrir því meðal þjóðarinnar að afturkalla lögin eða aflýsa kosningunni. Það hefði mjög líklega verið túlkað sem valdníðsla.

Hanna Birna hefur nú ákveðið að segja af sér skv Eyjunni. Ég tel líkur á að hún vilji með því reyna að koma í veg fyrir að málið haldi áfram sem gæti leitt til að það verði uppvíst að þáttur hennar í lekanum er meiri en hún vill vera láta.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.11.2014 kl. 14:38

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

"I am not a crook"

Kristján G. Arngrímsson, 21.11.2014 kl. 15:50

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er engin vandi að afturkalla lög og hefur verið gert.  Heldur þú virkilega Ásmudnur að Jóhanna og Steingrímur hafi ekki talið sig hafa meirihluta á Alþingi til þess?

En ef ekki er hægt að aflýsa kosningu, þá er einfaldlega rétt að taka þátt og segja sína skoðun.

Ef fáir sem engir hefðu tekið þátt og samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslunnu, hvað þá? Þá hefði forseti auðvitað skrifað undir og samningurinn verið orðinn að lögum?

Hefði þá verið einhver ástæða til þess að gera annan samning?

Þess vegna áttu Jóhanna og Steingrímur að sjálfsögðu að taka þátt í kosningunum og hvetja alla Íslendinga sem kosningarétt áttu til að gera hið sama.  Segja álit sitt í kosningum.

Sú leið sem þau völdu var þeim til ævarandi skammar.

@Kristján.

Get ekki sagt að þetta komi á óvart.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2014 kl. 16:11

20 identicon

Eins og ég benti á í síðasta innleggi mínu þá varð það ekki ljóst fyrr en rétt fyrir kosningarnar að Bretar og Hollendingar væru tilbúnir til að gera miklu betri samning en þann sem var í boði.

Þá var það orðið of seint að afturkalla lögin og aflýsa kosningum. Auk þess hefðu þeir sem vildu hafna samningnum eflaust tekið því illa ef kosningin hefði ekki farið fram.

Að sjálfsögðu var engin ástæða til ætla annað en þeir sem vildu hafna samningnum myndu kjósa. Hinir sátu flestir heima því að þeir vildu ekki samþykkja samninginn úr því annar betri var í boði.

Niðurstaðan var eftir því. Þátttakan var mjög lítil og næstum allir höfnuðu samningnum. Það var fyrirséð og ekkert til að státa af fyrir neisinna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.11.2014 kl. 16:55

21 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tommi, hvaða stjórnmálaflokkur var aftur í ríkisstjórn með Sjálfstæðis þegar IMF var pantaður hingað? Heldur þú að Sjálfstæðis undir forystu GHH (les. Davíðs Oddssonar) hefði haft frumkvæði að þeirri björgun?

Kristján G. Arngrímsson, 21.11.2014 kl. 17:17

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur.  Það gat í sjálfu sér engin vitað hvernig kosningin færi, þó að vissulega væru sterkar vísbendingar um það.  Hann hefði getað verið samþykktur.

Þátttakan var alveg þokkaleg og meirihluti atkvæðisbærra hafnaði samningnum.  Hann hefði því verið felldur þó að allir hefðu mætt á kjörstað.

Í fyrri "IceSave" kosningunni var þátttakan 62,7, í þeirri seinni var hún 75.3.

http://www.hagstofa.is/?PageID=2464&src=https://rannsokn.hagstofa.is/pxis/Dialog/varval.asp?ma=KOS04101%26ti=%DArslit+%ED+%FEj%F3%F0aratkv%E6%F0agrei%F0slum+1908%2D2011++++++++++++%26path=../Database/kosningar/thjodaratkv/%26lang=3%26units=Fj%F6ldi/hlutfall

Ekki er margt við að miða hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur, en í báðum tilfellum er kjörsókn vel viðunandi, þó að vissulega sé hún betri í þeirri síðari.

@Kristján, eins og hefur komið fram hér í athugasemdum var Jóhanna félagsmálaráðherra í þeirra stjórn, og fékk í gegn að jafnréttislög væru bindandi.  Þannig að auðvitað liggur í augum uppi að það var Samfylkingin sem var með Sjálfstæðisflokknum í þeirri stjórn.

En eins og sagði áður voru vissulega skiptar skoðanir á því innan Sjálfstæðisflokksins hvort að sækja ætti um aðstoð hjá IMF, og eru lílega enn.  Líklega var það ekki hvað víst vegna tilburða Breta og Hollendinga til þess að kúga Íslendinga til hlýðni, með atbeina sjóðsins.

Enn eru má reyndar heyra mjög misjafnar skoðanir á því hvernig ráðleggingar sjóðsins hafa reynst, og hvaða þörf Íslendingar hafi fyrir mikinn varasjóð að láni, á háum vöxtum, innan gjaldeyrishafta, en það er önnur, en þó skyld umræða.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2014 kl. 22:47

23 identicon

Þú ert í mótsögn við sjálfan þig. Annars vegar segirðu um samninginn að "hann hefði getað verið samþykktur". Hins vegar segirðu að "hann hefði því verið felldur þó að allir hefðu mætt á kjörstað".

Aðalatriðið er að þeir sem vildu semja vildu ekki lengur samþykkja þennan samning því að annar betri var í boði. Þess vegna sátu þeir eðlilega heima. Hátt hlutfall þeirra sem vildu hafna samningnum var því algjörlega ómarktækt.

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.11.2014 kl. 11:41

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur.  Þau verður að lesa það sem er skrifað. 

Það gat enginn vitað fyrirfram hvernig niðurstaðan úr kosningunni yrði.  Samningurinn hefði getað verið samþykktur og því orðið að lögum.

Eftir að kosningin fór fram, kom í ljós að hann var felldur með það afgerandi hætti, að meirihluti kosningabærra manna sagði nei.  Með öðrum orðum, þó að allir hefðu mætt á kjörstað hefði niðurstaðan samt orðið nei, vegna fjölda þeirra sem mættu á kjörstað og höfnuðu samningnum.

Er eitthvað erfitt að skilja muninn?

Það var ekkert betra í boði, þegar kosningin fór fram.  Ekkert í hendi, ekkert undirskrifað.  Ennþá var möguleiki á því að samningurinn væri samþykktur og yrði að lögum.  Sá möguleiki hvarf ekki fyrr en kosningin hafði farið fram og samningnum hafði verið hafnað.

Allt annað er ekkert nema ómerkilegur spuni frá Samfylkingunni og VG, til að breiða yfir fyrirlitlega framkomu Jóhönnu og Steingríms.

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2014 kl. 06:11

25 identicon

Auðvitað var fyrirfram algjörlega ljóst að samningnum yrði hafnað enda var ekki annað hægt. Annaðhvort höfnuðu menn honum vegna þess að þeir voru alfarið á móti honum eða vegna þess að betri samningur var í sjónmáli. Það er því absúrd að tala um að enginn hafi vitað hvernig kosningin færi.

Ef Jóhanna og Steingrímur hefðu mætt á kjörstað og samþykkt samninginn hefðu þau gert sig að fíflum úr því að ljóst var að hægt var að ná betri samningi. Þau gátu eðlilega ekki heldur sagt nei og skipað sér þar í  flokk með andstæðingum sínum. Þau gerðu því það eina rétta í fordæmalausum aðstæðum.

Stundum finnst mér að sjallar séu ekki hugsandi fólk sem lifi skv vafasömum trúarsetningum sem reyndar eiga bara við aðra en þá sjálfa. Innan eigin raða virðist algjört frelsi ríkja.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.11.2014 kl. 10:29

26 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það getur enginn vitað hvernig kosningar fara áður en talið er upp úr kössunum.  Þannig er það í öllum lýðræðisríkjum.  Það skiptir engu máli hversu eindrægnar skoðanakannir eru, það getur enginn fullyrt um úslitin fyrr en talið er.

Skoðanakannanir gilda ekki, það gera kosningar.  Enginn hugsandi maður getur haldið öðru fram, svo noti að hluta til þín eigin orð. 

Það skiptir engu máli að talið sé öruggt hver úrslitin verða.

Jóhanna og Steingrímur gerðu sig fyrst og fremst að fíflum með því að hundsa kosninguna.  Þau hefðu getað mætt á kjörstað, sýnt að þau væru virðingu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni og sagt, já, nei, eða skilað auðu.  Þeim bar engin skylda til að segja frá því hvernig þau greiddu atkvæði, en vissulega er algengt að pólítískir leiðtogar geri það.

Guðbjartur Hannesson lýsti því yfir að hann myndi mæta á kjörstað og fella samninginn.  Það eina rétta í stöðunni ef  menn voru á móti samningnum, eða töldu yfirgnæfandi líkur á betri samningi. 

En hann telst líklega ekki til "hugsandi fólks", heldur lifir eftir "vafasömum trúarsetningum".

En hann heiðraði og studdi þátttöku í lýðræðislegum kosningum.  Nokkuð sem Jóhanna og Steingrímur kusu ekki að gera.

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2014 kl. 11:14

27 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þessu má svo bæta við, notaði Hr. Google mér til aðstoðar:

Jóhanna sagði einnig á fundinum að viðræður við Breta og Hollendinga um nýtt samkomulag hefðu þokast í rétta átt undanfarna daga og „bilið milli samningaaðila væri að minnka.“ Sagði Jóhanna þó að naumur tími væri til stefnu. Áhrifin af töfinni hefðu þegar skaðað efnahag landsins mikið.

Jóhanna sagði að Bretar og Hollendingar héldu Íslendingum í gíslingu með því að tengja Icesave-málið við lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Okkur finnst það mjög ósanngjarnt að málið sé tengt fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir hafa komist upp með það að halda okkur í gíslinginu.“

http://www.dv.is/frettir/2010/3/5/johanna-aetlar-ekki-ad-segja-af-ser/

Frétt af vef DV, daginn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þar kemur fram að miðaði í rétta átt, ekki að nýtt samkomulag lægi fyrir.  En auðvitað hafði það eitt að ákveðið var að setja málið í þjóðaratkvæði strax áhrif.

En atkvæðagreiðslan þurfti að fara, og fyrir stjórnmálaleiðtoga er það til skammar að hafa ekki greitt atkvæði.

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2014 kl. 11:30

28 identicon

Félagsmálaráðuneytið var dæmt bótaskyld (í Hæstarétti muni ég rétt) vegna þess að þáverandi félagsmálaráðherra (JS) misbeitti valdi sínu.

Það má færa mörg rök fyrir því (og líka gegn því) að HB hefði átt að segja af sér og það jafnvel talsvert fyrr.  En það fer þeim illa sem töldu að t.d. JS hefði ekki átt að segja af sér að hafa hátt núna.

Reyndar hefði afsögn JS haft umtalsvert meiri pólitískar afleiðingar, en það er erfitt að nota þau rök opinberlega.

ls (IP-tala skráð) 24.11.2014 kl. 13:49

29 identicon

Það má vera að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafi ekki getað dregið þá ályktun á kjördegi að mikill meirihluti þeirra sem myndu kjósa myndu hafna samningnum.

Jóhanna, Steingrímur og flestir aðrir sáu hins vegar að það gæti ekki farið á annan veg einkum vegna þess að menn myndu ekki samþykkja samninginn úr því að annar betri var í sjónmáli.

Mál Jóhönnu er ekki sambærilegt við mál Hönnu Birnu vegna þess að það var sama hvern Jóhanna hefði valið þá var hætta á málaferlum sem enginn gat sagt fyrir um hvernig myndu lykta.

Þegar ráðningar sjálfstæðismanna hafa verið dæmdar ólöglegar hefur það alltaf verið þannig að þeir hafa ekki farið að ráðum sérfræðinga heldur ráðið eigin flokksmann.Þeir hafa aldrei sagt af sér af þessum ástæðum.

Jóhanna hafnaði hins vegar eigin flokksmanni og fór algjörlega að ráði sérfræðinganna. Hvernig áttu hún að geta séð fyrir að það yrði dæmt ólöglegt?

Lygar Hönnu Birnu og afskipti hennar og hennar aðstoðarmanna og lögfræðings af lögreglurannsókn, umboðsmanni Alþingis og ríkislögreglustjóra eru hins vegar mjög augljós brot.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.11.2014 kl. 14:36

30 identicon

Í síðustu setningunni hér fyrir ofan átti að standa ríkissaksóknara en ekki ríkislögreglustjóra.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.11.2014 kl. 16:00

31 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Flestir voru næsta vissir um hvernig niðurstaðan yrði, það skipti ekki öllu máli þó að "hirð" Jóhönnu og Steingríms mætti eða ekki.  Það fór enda svo að meirihluti (yfir 50%) kosningabærra Íslendinga sagði nei.  Þannig tjáðu þeir sig um þá "glæsilegu niðurstöðu" sem samninganefnd Jóhönnu og Steingríms hafði náð. Þó var Alþingi búið að bæta þá niðurstöðu verulega.

Auðvitað má segja að Steingrími og Jóhönnu hefði borið að segja af sér, þar sem þau hefðu átt að taka ábyrgð á verulega slæmri niðurstöðu frá samninganefnd sem þau skipuðu.  En vissulega má segja að það hefði verið siðferðislega rétt, en ónauðsynlegt þegar litið er til Íslenskrar stjórnmálahefðar.

Hvað varðar ráðningarmál Jóhönnu, og mál Hönnu Birnu, er munurinn ef til vill ekki hvað síst sá að sekt Jóhönnu var staðfest af dómstólum, en sekt Hönnu Birnu, er fyrst og fremst siðferðileg, í það minnsta enn sem komið er, hvað sem síðar verður.

Siðferðislega er "sekt" Jóhönnu tvöföld, þar sem þar var hún sjálf sem barðist árum saman við að fá það í gegn að "jafnréttismál" og úrskurður nefndarinar væri bindandi.  Þegar hún sjálf fann svo fyrir því, lét hún þáu orð falla að ef til vill væri rétt endurskoða jafnréttislögin.

Siðferðilega er varla hægt að falla dýpra.

Það er enn svo, að þó að dómstólar á Íslandi verði að mörgu illskiljanlegri, þá skal með lögum (og dómstólum) land byggja.

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2014 kl. 17:28

32 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

En það breytir engu þó að flestir væru næsta vissir um hvernig úrlitin yrðu.  Úrslit úr kosningum eru aldrei ljós, fyrr en atkvæði hafa verið talin.

Allt annað er húmbúkk og ágiskanir.

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2014 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband