Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

"Sambandið" fær gula spjaldið frá Bretum

Það er og hefur verið ljóst að Bretar eru ekki yfir sig hrifnir af Evrópusambandinu.  Þær breytingar sem hafa orðið á "Sambandinu" undanfarin ár, og þær sem margir forsvarsmenn hafa boðað, hafa ekki aukið velvilja Breta til "Sambandsins", heldur þvert á móti.

Bretar vilja ekki gefa eftir meira af fullveldi sínu til Brussel.  Þeir vilja fá meira af ákvörðunartökunni og lagasetningum aftur heim.

Það þarf enginn að efast um að Bretar hafa áhuga á sameiginlegum markaði "Sambandsríkjanna", en þeir hafa engan áhuga á því að verða hluti af sambandsríki.  Þeir hafa sömuleiðis engan áhuga á því að deila mynt með öðrum þjóðum í "Sambandinu".

Þess vegna má líta á þessa skoðanakönnun sem gula spajldið á "Sambandið" í Bretlandi. 

Það má heita næsta víst að ef engar breytingar verða á aðildarformi Breta og þjóðarakvæðagreiðslan verði haldin, þá verði það rauða dregið upp.

Það er því ljóst að ef "Sambandið" vill vera öruggt með að halda Bretlandi innan sinna vébanda verður það að öllum líkindum að gefa eitthvað eftir.  En auðvitað má hugsa sér að treyst verði á það að Verkamannaflokkurinn komist til valda í næstu kosningum.

Jafn skringilegt og það er, gæti aukið fylgi UKIP, orðið til þess að Verkamannaflokkurinn næði meirihluta á þingi, og ekkert yrði af þjóðaratkvæðagreiðslunni.

En Evrópusambandið án Breta yrði að öllumm líkindum öðruvísi "Samband".  Valdahlutföllin innan þess myndu breytast og hætt við því að "Suðurríkin" fengju aukin völd og áhrif.

En áherslur í "Suðurríkjunum" eru gjarna á annan veg en norðar í "Sambandinu", eins og má til dæmis lesa um í þessari frétt, um fyrirhugaðar fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og "Sambandsins".

Meðal annars þess vegna tók Angela Merkel, ekki svo illa í kröfur Breta.  Hún þarfnast bandamanna, nú þegar samstaða Þýskalands og Frakklands hefur minnkað


mbl.is Þriðjungur vill vera áfram í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað það fyndnasta sem ég hef séð lengi

 Ég var að fá þessa "stiklu" senda í póstinum áðan.  Þetta er ættað úr Saturday Night Live.  Einfaldlega það fyndnasta sem ég hef séð í nokkurn tíma.  

Spurningin hlýtur að vera hvort að þetta ætti ekki að fara í framleiðslu, yrði líklega stór smellur.

Ég


Hverjir tapa á gjaldeyrishöftunum? Hverjir eru "krónuþjóðin"?

Það er mikil umræða um gjaldeyrishöft þessa dagana og er það vel.  Gjaldeyrishöft mismuna og eru í eðli sínu slæm og kosta glötuð tækifæri.

En hverjir skyldu hagnast og hverjir skyldu tapa á gjaldeyrishöftum þeim sem nú eru í notkun? Hverjir eru "krónuþjóðin"?

Til þess að reyna að gera sér ljóst hverjir það eru sem tapa mest og hagnast mest á gjaldeyrishöftunum, verður að reyna að gera sér einhverja hugmynd um hvert líklegt væri að gengið færi, ef þau yrðu afnumin.

Hér er gert ráð fyrir því að gengið myndi falla all nokkuð ef höftunum yrði aflétt.

Hverjir eru það þá sem hagnast á gjaldeyrishöftunum?

Almenningur.  Þeir sem lifa nokkurn veginn frá mánuði til mánaðar, berjast við að eiga í sig og á og borga af skuldunum.  Þeir hagnast á gjaldeyrishöftunum.  Innflutt vara matvæli, fatnaður, raftæki o.s.frv. er ódýrari en ella væri.   Sama gildir ef einstaklingar bregða sér erlendis.  Ferðmannagjaldeyrir er ódýrari og eykur þannig kaupmátt Íslendinga erlendis.

Skuldsett sveitarfélög og fyrirtæki.  Ef sveitarfélög eða fyrirtæki skulda stórar upphæðir í erlendri mynt hagnast þau á gjaldeyirishöftunum.  Ef gengið fellur hækka skuldir þeirra verulega.  Það sama má líka segja um þau sem skulda verðtryggð lán, vegna þeirra áhrifa sem gengissig myndi hafa á vísitölur.  Verðtryggingaráhrifin eiga að sjálfsögðu einnig við um einstaklinga.

Það þarf líklega ekki stórt gengisfall til þess að gera stöðu sveitarfélaga eins og Suðurnesja og Hafnarfjarðar því sem næst vonlausa.  Það sama má líklega segja um OR.

Innflytjendur.  Það er að segja þeir sem flytja inn vörur.  Þeir njóta lægra gengis, geta boðið (og gera það vonandi) upp á lægra vöruverð sem eykur sölu.  Lægra gengi eykur samkeppnishæfni þeirra gagnvart innlendum framleiðendum.  (Hér hef ég ekki tölur um hve oft eða hve mörgum innflytjendum hefur verið neitað um gjaldeyri til innflutnings.  Mér skilst þó að það sé ekki algengt nú.  Það skekkir samkeppnisstöðu innflytjenda gegn innlendum framleiðendum, og ekki síður innbyrðis).

Fjárfestingar erlendis frá.  Erlendir fjárfestar (eða þeir sem koma með fé erlendis frá) geta hagnast verulega í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans.  Þó má deila um hvað þeir hagnast mikið, því vissulega fengju þeir mikið fleiri krónur fyrir gjaldeyrinn sinn, ef gengið sigi verulega.  

Því verður þó ekki mótmælt að við núverandi aðstæður njóta þeir forskots.

En hverjir eru það þá sem tapa mestu á gjaldeyrishöftunum?

Útgerðarmenn og aðrir útflytjendur.  Útgerðarmenn tapa verulega á höftunum.  Þeir fá verulega færri krónur fyrir útflutning sinn en ef genginu væri leyft að síga.  Þetta tap nær svo til sjómanna á t.d. frystitogurum, sem fá greitt eftir hvað fæst fyrir fiskinn erlendis.  Að sjálfsögðu gildir það sama um aðra útflytjendur.

Ferðaþjónustan.  Ferðaþjónustan er í sjálfu sér að stórum hluta útflutningur, og fær því færri krónur fyrir sinn snúð en ef gengið væri lægra.

Innlendir fjárfestar.  Þeir sem eiga fjármagn innanlands búa óneitanlega við skerta samkeppnisstöðu sé miðað við fjárfesta sem búa erlendis, eða eiga erlendis handbært fé.  Ekki aðeins  búa þeir við höft, þannig að þeir geti ekki fjárfest erlendis, heldur búa þeir líka við að erlendir fjárfestar koma inn á "bónus" kjörum með gjaldeyri.  (þó má deila um hvað "bónusinn" er mikill miðað við það gengi sem líklega yrði ef höftin yrðu afnumin.).

Eins og sjá má á þessri ófullkomnu upptalningu eru hópar sem bæði hagnast og tapa á gjaldeyrishöftum.  Þessi færsla stiklar auðvitað aðeins yfir viðfangsefnið á stóru.

Persónulega lít ég þó svo á að fullkomlega sé út í hött að tala um "tvær þjóðir".  Það er engin "krónuþjóð" sem tapar stjórkostlega á gjaldeyrishöftunum.

Hins vegar má rökstyðja það að til séu tvær stéttir fjárfesta.  Þeir sem hafa krónur og geta aðeins fjárfest innanlands og svo þeir sem hafa handbært fé erlendis, geta fjárfest hvar sem er og fá einnig "auka krónur" þegar þeir koma með fé til Íslands.

Þeir sem sem tapa hins vegar mestu eru útgerðarmenn og aðrir útflytjendur.  Þeir kvarta ekki mikið, enda vita þeir líklega sem er að þeir myndu ekki hljóta mikla samúð hjá Íslendingum þessa dagana.

Til lengri tíma litið tapa allir á gjaldeyrishöftunum.  Tækifæri fara forgörðum, uppbygging dregst eða við hana er hætt.  Færri störf skapast, og svo framvegis og svo framvegis.

Þess vegna er nauðsynlegt að leggja áherslu á að afnema þau eins fljótt og auðið er.  Til að svo megi verða þarf að auka framleiðslu, auka útflutning (ná inn meiri gjaldeyri) og þar fram eftir götunum.

Það gerist ekki með auknum ríkisafskiptum, meiri miðstýringu og hærri sköttum.  

Það er meðal annars þess vegna sem er svo nauðsynlegt að skipta um ríkisstjórn á Íslandi.

P.S. Eins og áður sagði er þetta ekki meint sem vísindaleg úttekt eða hárnákvæm rannsókn á áhrifum gjaldeyrishafta (sem eru fyrst og fremst höft á fjármagnsflutninga).  Þetta er stutt bloggfærsla sem unnin er á tíma sem mælist ekki í klukkustundum, heldur mínútum.

En allar viðbætur, ábendingar og gagnrýni er eru vel þegnar í athugasemdum.

 

 


Þau stökkbreyttust ekki lánin á Spáni

Eitt af því sem stundum heyrist í umræðunni um "Sambandsaðild" er að húsnæðislán í eurolöndunum hafi ekki stökkbreyst eins og á Íslandi og enginn hafi misst húsnæði sitt þess vegna i Grikklandi.

Það er í sjálfu sér, eins langt og það nær, rétt.

Þau stökkbreyttust ekki lánin á Spáni.  En eins og sjá má í þessari frétt frá RUV, þýðir það ekki að allt sé í lukkunnar velstandi.

Lánin stökkbreyttust ekki.  En húsnæðisverð hrundi, vextir hækkuðu og þar með afborgunarbyrðin.  En það sem verra er þá stórjókst atvinnuleysi. 

Atvinnuleysi er nú í kringum 26% á Spáni, atvinnuleysi ungs fólks í kringum 60%.

Samhliða atvinnuleysinu lækkuðu laun þeirra sem þó héldu vinnunni og réttindi og bætur voru skert.

Og ekki sér fyrir endann á þeirri vegferð enn.

Þess vegna er búið að bera út 400.000 fjölskyldur í ibúðarhúsnæðii sínu á Spáni.

En lánin stökkbreyttust ekki.

En það sem breyttist ekki á Spáni var styrkur gjaldmiðilsins.  Hann hélst keikur.  Þeir sem áttu háar bankainnistæður höfðu þær í gjaldmiðli sem tapaði ekki verðmæti sínu.

Það eru heldur engin gjaldeyrishöft á Spáni.  Það gerði þeim sem áttu háar bankainnistæður kleyft að flytja fé sitt án nokkurra vandkvæða á reikninga í Sviss, fjárfesta í húsnæði í Bretlandi og Þýskalandi.

En það missti engin húsnæði sitt vegna stökkbreyttra lána.

En milljónir einstaklinga misstu vinnuna vegna þess að samkeppnishæfni Spánar glataðist með euroinu.  

Kynnt var í eina mestu húsnæðisbólu sem þekkst hefur, vegna þess að euroið bauð upp á lága vexti, raunar neikvæða.

Sama euroið og svipti Spán samkeppnishæfni sinni.

Nú er talað um að til séu u.þ.b. 2. milljónir auðra íbúða á Spáni.

Búið er að bera út 400.000 fjölskyldur.

En þeir sem áttu bankainnistæðurnar...

 

 


Eurokrísan er enn í fullu fjöri

Evrópski seðlabankinn stóð sig nokkuð vel á síðastlíðnu ári.  Með réttum aðgerðum (s.s. að yfirlýsingu um að euroið yrði varið til síðasta blóðdropa (síðasta skattgreiðenda)), og mikilli innspýtingu fés, tókst að losa um snöruna sem herptist að Eurosvæðinu.

En það á ennþá eftir að koma svæðinu úr snörunni, þó að andardrátturinn sé heldur auðveldari. 

Eins og fram kemur èi frèttinni eru skuldir margra ríkja gríðarháar, en það sem er verra er að samkeppnishæfi margra er enn verulega ábótavant.

Þannig heldur atvinnuleysi áfram að aukast í löndum eins og Grikklandi, Spáni, Ítalíu og Frakklandi. 

Ef vill er bílaiðnaðurinn táknrænt dæmi  um hvernig hefur verið að skilja á milli "Suður" og "Norður" eins og sjá má í þessari frétt.  (og jafnvel þessari sömuleiðis)

Það gefur ekki ástæður til bjartsýni að þessi lönd nái tökum á ríksfjármálum, rétt eins og þessi fréttgefur svo sterkt til kynna. 

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að Frakkar hafa ekki skilað fjárlögum með afgangi í u.þ.b. 40 ár.

Það er því allt of snemmt að fagna sigri yfir eurorkrísunni.  Þvert á móti má halda því fram að það séu næstu ár sem komi til með að ráða úrslitum um hvernig fer.

Þeir sem fylgjast með fréttum hafa líklega lesið harmakvein Frakka yfir styrkingu eurosins.  Þeir eru vissulega í standandi vandræðum og verða að hella sér í tiltektina af fullum þunga.  En styrkingin kemur auvðitað ekki síður við eurlöndin sem þegar voru komin á hnén, s.s. Grikkland, Portúgal, Italíu og Spán.

En sé horft til Þýsklands, ætti euroið að vera enn sterkara.

Þar liggur vandinn.  Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Hollande hyggst auka samkeppnishæfni Frakklands og skera niður í ríkisútgjöldum.  

 

 


mbl.is „Skuldakrísan hefur ekki verið leyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er neytendalán?

Með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð umfjöllunina í Morgunblaðinu, aðeins þessa stuttu frétt á mbl.is, þá held ég að rétt sé að vara andstæðinga verðtryggingar við að fyllast of mikilli bjartsýni.

Nú er það alþekkt um allan heim, alla Evrópu og all Evrópusambandið, hvort sem ríki noti euro eða ekki að lán séu með breytilegum vöxtum.  Gjarna með álagi ofan á Libor eða Euribor.

Þegar slík lán eru tekin er ekki ljóst  hver endanlega endurgreiðslan (kostnaður) verður.

Slíkt fyrirkomulag er til dæmis algengt víða um lönd í húsnæðislánum.  Oft er þó möguleiki að festa vexti á húsnæðislánum til lengri tíma, en það þýðir yfirleitt verulega hærri vaxtaprósentu.  Mjög sjaldgæft er að vextir séu fastir til lengri tíma en 5 eð 10 ára.

En svo eru það sem oft eru kölluð neytendalán.  Þó að ég hafi reyndar séð húsnæðislán flokkuð þeirra á meðal, er hitt algengara að þau séu skilgreind svipað því sem oft eru kölluð á Íslensku neyslulán.

Þetta eru oftast lán til frekar stutts tíma, yfirleitt án veðs.

Týpisk neytendalán eru lán veitt með kreditkortum, yfirdrætti en einnig stuttum óverðtryggðum skuldabréfum.  

Slík lán held ég að þekkist óvíða að séu verðtryggð, eða með breytilegum vöxtum, en þau eru sömuleiðis yfirleitt með mikið hærri vöxtum en húsnæðislán.

En sjálfsagt á þetta eftir að koma betur í ljós á næstu dögum og það betur verður ljós skilgreining á þeim lánum sem um ræðir.

P.S. Eftir að hafa kynnt mér þetta mál nánar og horft á umfjöllun í Silfri Egils í dag, hef ég komist að því að hér er ég á nokkurn veginn algerlega röngu róli.

Málið snýst ekki um hvort verðtrygging sé ólögleg eður ei, heldur hitt hvort að rétt hafi verið staðið að framkvæmd hennar og upplýsingagjöf um virkni hennar.

Ég ákvað þó að láta færsluna standa, en bæti þessu við hér.

 

 


mbl.is Lánin álitin ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórtíðindi en litlar breytingar?

Það eru vissulega stórtíðindi þegar Steingrímur J. Sigfússon tilkynnir að hann sækist ekki eftir endurkjöri sem formaður VG.

En ég er ekki viss um að það þýði miklar breytingar.

Persónulega hef ég ekki trú á að það verði til þess að fylgishruni Vinstri grænna verði snúið við.

Ég sé einfaldlega ekki þann formann taka við VG, sem ætti að vera þess megnugur.   Hver ætti það svo sem að vera?

Fylgistap Vinstri grænna kristallast vissulega í Steingrími, enda hefur hann verið holdgervingur VG.  En fylgistapið kemur til vegna þess að svo mörgum kjósendum og fylgismönnum VG hefur þótt flokkurinn svíkja stefnumál sín og loforð, ekki hvað síst hvað varðar "Sambandsaðild".

Og hverjir af forystumönnum VG hafa ekki varið þau svik, nema þá Ögmundur?  Og ég sé hann ekki taka við sem formann.

Vissulega má það vera að það verði léttir fyrir VG að losna við "andlit IceSave samningana" sem formann, en ég hef ekki trú á því að um verulega fylgisaukningu verði að ræða.

En mér þykir ekki ólíklegt að þessi ákvörðun sé undanfari þess að Steingrímur hætti opinberum afskiptum af pólítik, líklega ekki svo löngu eftir kosningar.

Ég hef ekki trú að því að hann eiri sem óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu. 

 

 


mbl.is „Hvergi nærri hættur í pólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæf samningnefnd? Vanhæf ríkisstjórn?

Það er hreint með eindæmum hvað ríkisstjórn Íslands, samninganefndin og "Sambandið" vilja draga þessar samningnaviðræður á langinn.

Það veitti líklega ekki af því að Íslendingingum verði gerð grein fyrir þeim árangri sem náðst hefur í viðræðunum nú þegar.

Hve oft og hvernig skyldi hafa verið vikið frá samþykktum "Sambandsins"?  Um hvað hefur verið "samið"?  Hefur Ísland fengið einhverjar tímabundnar undanþágur nú þegar?  En varanlegar undanþágur?

Auðvitað ættu Íslenskir fjölmiðlar að birta þessar upplýsingar, því varla verður öðru trúað en að þær séu auðveldlega aðgengilegar í þeirri opnu og gegnsæu stjórnsýslu sem núverandi stjórnvöld hafa beitt sér fyrir.

Það hlýtur að vekja gríðarlega athygli hve langan tíma formaður samninganefndarinnar virðist vilja taka í viðræðurnar.  Hann virðist telja að þær verði aðeins "komnar mjög vel á veg" árið 2015.

Það rennir stoðum undir þær kenningar margra, að viðræðurnar séu vísvitandi dregnar á langinn og verði það á meðan sterkur meirihluti Íslendinga tjái þá skoðun í könnunum að þeir séu mótfallnir aðild að Evrópusambandinu.

Á meðan á að treysta á að undir- og áróðursskrifstofa "Sambandsins" á Íslandi nái að vinna fleiri Íslendinga á sitt band.

Enginn vill nú heyra minnst á fullyrðingar helstu "Sambandspostula" Samfylkingarinnar um að viðræður tækju örskamman tíma og yrðu kláraðar á nálægt 2. árum.

Það er fróðlegt að líta til þess í þessu samhengi, að samningaviðræður við lönd í Austur-Evrópu, s.s. Eistland, tóku u.þ.b. 4. ár og 9 mánuði.  (sjá tímalínu í samskiptum Eistlands og "Sambandsins" hér).  Hér er þó rétt að taka fram að þó nokkur tími leið frá aðildarumsókn Eistlands, þangað til viðræður hófust.

Auðvitað hefði verið eðlilegast að byrja samningaviðræður á "erfiðu" köflunum, þ.e. landbúnaði og sjávarútvegi.  Ef ekki fengist ásættanlegt niðurstaða í þeim köflum, er í sjálfu sér óþarfi að standa í frekari viðræðum.

Atburðir undarinna ára ættu að hafa kennt Íslendingum að ekki er sjálfgefið að allar samningaviðræður leiði til samnings.

Slíkt virðist þó aldrei hafa hvarflað að núverandi ríkisstjórn i þessum samningum, ekki frekar en í IceSave deilunni.

Hún virðist því enda forðast að setja sér samningsmarkmið sem ekki megi víkja frá heldur fara í samningaviðræðurnar með því eina markmið að ná samningi.

Slík ríkisstjórn er vanhæf til að halda á hagsmunum Íslendinga í stórum málum sem þessu.  Það sama virðist gilda um samninganefndina.

Aðild að Evrópusambandinu verður eitt af stóru málum komandi kosninga.  Þá gefst kostur á að skipta um kúrs, jafnframt því að skipt verður um ríkisstjórn.

Best færi líklega á að slíta viðræðum nú þegar, en það er engan veginn ásættanlegt að þeim verði haldið áfram án þess að skýrs umboðs verði aflað frá kjósendum.

 


mbl.is Komin langt á veg vorið 2015?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaust framboð en eftirpurnin er ...

Það er í sjálfu sér gott að einstaklingar hafi áhuga á stjórnmálum og bjóði sig fram til starfa.  Þannig virkar lýðræðið og þannig helst það lifandi.

Allir eiga sama rétt á því að bjóða fram lista og leggja þá undir mælingu kjósenda.

Mismunandi skoðanir eru lagðar fram, mismunandi áherslur eru boðaðar og mismunandi einstaklingar eru í framboði.

Ekki hefði ég áhuga á að gefa atkvæði mitt til neins af þeim sem þarna stíga fram og lýsa yfir framboði en það er einfaldlega eins og kerfið virkar.  

Kjósendur eru að leita að mismunandi hlutum

Hvort það eru svo meðmæli með framboðum að forsvarsmenn hafi fyrir fáum vikum starfað með öðru nýju framboði, en slitið sig þar frá, verða kjósendur að ákveða.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki það sem sé þörf fyrir á Alþingi, en ég hef bara eitt atkvæði, eins og vera ber.

En það er útlit fyrir spennandi kosningar.

Líklega verða allir framboðsfundir þéttsettnir - jafnvel áður en fundargestir koma. 

 

 


mbl.is Stjórnlagaráðsmenn stofna Lýðræðisvaktina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þökkum fyrir hægagang í stjórnarskrármálinu

Íslendingar mega vera þakklátir fyrir hægaganginn í stjórnarskrármálinu.  Það er æskilegt að mál eins og stjórnarskrármál taki nokkuð langan tíma.

Það er heldur ekki tilviljun að oftast er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að breyta stjórnarskrám í flýti.

Því miður er núverandi frumvarp með svo mörgum göllum að það er ekki hægt að óska annars en að það verði látið bíða enn um sinn og sá tími nýttur til betrumbætingar.

Hér eins og stundum áður hefur tíminn unnið með Íslendingum forðað þeim frá mistökum.

Hvet alla til að lesa feykigóða grein eftir Pawel Bartoszek, sem birtist á vefsvæði Vísis í dag.  Hún heitir Sprengjur Feneyjanefndar.

 


mbl.is Harmar hægagang í stjórnlagamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband