Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Erna á Alþingi?

Ég held að Erna Indriðadóttir eigi fullt erindi á Alþingi. Hvort að Samfylkingin í Norðaustri veiti henni brautargengi er annað mál. Perónulega mun ég aldrei kjósa Samfylkinguna, en ég held að "Fylkingin" eigi ekki kost á betri einstakling í annað sætið en Ernu. Ég efast reyndar um að völ sé á betri einstaklingi á listann, en það er önnur saga.

Eins og áður sagði kem ég ekki til með að greiða Samfylkingunni atkvæði mitt, og greiði ekki atkvæði í Norðaustri, en það kemur ekki í veg fyrir að ég vonast til að mannval á Alþingi verði betra en nú er og þar gæti Erna vissulega lagt sitt mál á vogarskálina.

Því er rétt að vona að Samfylkingafólk í Norðaustrinu veiti Ernu brautargengi og atkvæði sitt.  Án efa munu ýmsir þeir er tilheyra "vilta vinstrinu" í Samfylkingunni setja fyrir sig störf Ernu fyrir stóriðjufyrirtæki, en ég held að það væri "Fylkingunni" til heilla að reyna að hrista slik sjónarmið af sér.

P.S.  Það eru engin tengsl á milli mín og Ernu Indriðadóttur og alls engin tengsl á milli mín og Samfylkingarinnar og ólíklegt að svo verði.

Í fyrndinni var Erna þó yfirmaður minn þegar ég starfaði hjá Ríkisútvarpinu á Norðurlandi.  Hún var góður yfirmaður og af henni lærði ég margt.

Það er ef til vill nokkuð merkileg tilviljun að Erna er annar fyrrverandi yfirmaður minn sem sækist eftir sæti á lista stjórnmálaflokks fyrir þessar kosningar. Ég hef og get mælt með þeim báðum.  Nú bíð ég eftir öllum hinum.


mbl.is Stefnir á 2. sætið í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsögn fréttar og meginmál

Ég rakst á eftirfarandi frétt á síðu Ríkisútvarpsins.  Ég skora á alla að lesa fréttina og reyna svo að dæm  sjálfir, hvort að frétt og fyrirsögn fari saman.

Það er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvað Ríkisútvarpinu gangi til með slíkum fréttaflutningu.  Það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá mér, er þjónkun við ríkisstjórnina, en best er að hver dæmi fyrir sig.

Yfirlýsingar Huangs til heimabrúks

 
Yfirlýsingar Huangs Nubos um að leigusamningar vegna Grímsstaða á Fjöllum verði undirritaðir á næstu vikum hafa vakið mikla athygli í kínverskum fjölmiðlum.

Erfitt er að meta hvað Huang gengur til í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa margítrekað að samningar séu ekki í sjónmáli, segir Halldór Berg, fréttaritari RÚV í Peking. Kínverskir miðlar hafa fjallað ítarlega um málið um helgina. 

Halldór segir óljóst hvað fyrir Huang Núbo vaki. „Þetta er hins vegar stórt veðmál hjá honum ef þetta gengur ekki upp vegna þess að þetta var birt í hundruðum fjölmiðla hérna. Og það voru nokkrir punktar sem voru eiginlega í öllum fjölmiðlum sem voru eins, varðandi að skrifað yrði undir um miðjan nóvember, þetta yrðu sex milljón dollarar og þetta yrði 99 ára samningur“ segir Halldór. 

Hann telur hugsanlegt að um einhvers konar misskilning sé að ræða hjá Huang varðandi samningsundirrituna eða að íslensk stjórnvöld telji ótímabært að upplýsa að hún sé á næsta leiti. 

Þriðji kosturinn er sá að þetta hafi bara verið fyrir Kínverja. Á fimmtudaginn hafi verið stór fundur um málið í fyrirtækinu en Huang Nubo sé kannski ekki síst að spila þar leik. 

Í öllu falli segir Halldór ljóst að áhugi Kínverja á málinu sé afar mikill. Fréttaflutningur af jarðakaupum Huangs Nubos hafi verið áberandi í kínverskum fjölmiðlum og allir fjölmiðlar hafi birt fréttir af væntanlegri undirritun samninga. 


Tími til komin að gefa þreyttum hvíld

Nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til frekari setu á Alþingi eru það vissulega nokkur tíðindi. Hún hefur setið það lengi á Alþingi að mikill hluti Íslendinga hefur aldrei lifað þann dag, að Jóhanna Sigurðardóttir ætti ekki sæti á Alþingi Íslendinga.

Það verður ekki fram hjá því litið að Jóhanna Sigurðardóttir hefur skráð nafn sitt á spjöld Íslandssögunar.  Hún er fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra.  En hún er líka fyrsti kvenforsætisráðherran sem er dæmd fyrir brot á jafnréttislögum, líklega fyrsti forsætisráðherran sem þannig er dæmdur, en þó man ég það ekki svo gjörla.

En það hefur verið býsna merkilegt að fylgjast með oflofi samflokksmanna hennar nú eftir að tilkynning Jóhönnu birtist.  Það er ekki margt sem ég get tekið undir í þeim hástemmdu lýsingum.

Fyrir mér hefur Jóhanna fyrst og fremst verið týpískur "stjórnarandstöðuþingmaður".  Hún hefur hátt í stjórnarandstöðu og talar fjálglega um ábyrgð og öxlun hennar.  Gagnrýnir hart og er óvægin.  Þegar hún sjálf vermir valdastólana er annað upp á teningnum og sjónarhóllinn annar.

Ég held að flestir geti ímyndað sér hver viðbrögð hennar hefðu verið, hefði hún setið stjórnaranstöðu og forsætisráðherra hefði verið dæmdur fyrrir brot á jafnréttislögum.

En þegar það er hlutskipti hennar sjálfrar, er að hennar mati kominn tími til að athuga með breytingar á jafnréttislögum.

Henni hefur verið tíðrætt í gegnum tíðina um ofurlaun og sjálftöku, en á hennar vakt kemst hún að þeirri niðurstöðu að ekkert sé hægt að aðhafast.

Staðreyndin er sú að hefði Jóhanna Sigurðardóttir látíð kjörtímabilið sem hófst árið 2007 vera sitt síðasta, eins og hún hafði í hyggju, hefði pólítískur bautasteinn hennar verið næsta rýr og hún horfið hægt og hljótt í hið pólítíska algleymi.

Ég hygg að margir séu mér sammála um að ferill hennar sem forsætisráðherra hafi litlu bætt við pólítíska arfleifð hennar.  Ófriður og átök eru það sem helst hafa sett mark sitt á þann feril.  Fáir eða engir stjórnmálamenn hafa hrapað í vinsældum og trausti eins og Jóhanna í forsætiráðherratíð sinni.

Eftir stendur að hún náði þeim áfanga að verða fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands.  Það er áfangi sem ég hygg að muni seint ef nokkurn tíma gleymast.

Ég hygg að flestir hafi andað léttar nú þegar ljóst er að Jóhanna hefur ákveðið að draga sig í hlé, enda tími til komin að þreyttur stjórnmálamaður fái frí.

Að lokum vil ég óska Jóhönnu til hamingju með þessa ákvörðun og vona að henni gangi allt í haginn að stjórnmálastörfum loknum.


mbl.is Jóhanna ætlar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir neituðu Íslendingum um að greiða atkvæði hvort sækja skyldi um "Sambandsaðild" eður ei

Það er ekkert óeðlilegra að aðildarumsókn sé stöðvuð, eða henni hætt án þjóðaratkvæðagreiðslu, frekar en að það skyldi sótt um aðild að "Sambandinu" án þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Hvernig getur það verið meira mál að hætta við umsókn, en að senda hana inn?

Það er orðið býsna margt sem fylgismenn umsóknar sögðu í aðdragandanum sem ekki hefur staðist og nægir að nefna þann tíma sem aðlögunarviðræðurnar hafa tekið í því sambandi.  Ennfremur er líklegt að "Sambandið" sjálft sé að taka miklum, ef ekki grundvallarbreytingum og sé í raun að verða allt öðruvísi "Samband" er sótt var um aðild að.

En auðvitað lá á að sækja um "Sambandsaðild" á meðan þjóðin var í hálfgerðu sjokki.  Auðvitað vildu "Sambandssinnar" ekki leyfa þjóðinni að draga andann og hugsa málið, hvað þá að það yrði rætt á meðal þjóðarinnar og greidd yrðu atkvæði.

Hræðslan er a meðal "Sambandssinn".  Þeir sjá aðlögunarferlið fjara út.  Það ætti að vera sjálfsagt mál að gera hlé á aðildarviðræðum og hefja þeir ekki aftur fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér er listi yfir þá sem neituðu Íslendingum um að greiða þjóðaratkvæði um hvort sótt yrði um aðild að "Sambandinu":

Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðbjartur Hannesson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Bjarnason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson

 

Og hér listi yfir þá sem voru fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þór Saari

 


mbl.is Össur: Andstæðingar ESB hræddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamálin eru stjórnmál, efnahagsmál og sjálfsmynd íbúa

Það er alltaf upplýsandi að heyra ólík sjónarmið hvað varðar vandamál "Sambandsins".  David Miliband telur að helstu vandamál "Sambandsins" snúist um stjórn-, efnahagsmál og sjálfsmynd þegnanna.

Hvað stendur þá eftir?

En það er vissulega mikið til í þessu hjá Miliband.

Stjórnmálaástandið í "Sambandinu" er ekki til að hrópa húrra fyrir.  Engin virðist vita nákvæmlega hvert skal stefna eða hvernig "Samband" þeir vilja vera í.  Óskilgreind hugtök eins og Evrópa og slagorð eins og "meiri Evrópa" eru fyrirferðarmikil og túlkar hver þau með sínu nefi.

Talað er um verulega aukin samruna, sérstaklega á fjármálasviðinu og Baroso er byrjaður að tala um sambandsríki.  Margir enskumælandi tala um að Baroso hafi notað F-orðið, þ.e.a.s. að nú sé hann farinn að tala um "Federal".

Sjálfstæðisvilji þjóða og héraða innan ríkja sambandsins virðist fara vaxandi frekar en hitt og engin veit hver niðurstaðan verður.

Efnahagurinn er svo annar höfuðverkur, jaðarríki "Sambandsins" þola ekki hið sterka euro og eiga í stökustu vandræðum.  Skilin á milli "Norðurs" og "Suðurs" aukast stöðugt og er vandséð hvernig þau verða brúuð.

Sviss er að verða eins og einstreymisloki, sem tekur frá euroum á flótta frá "Suðurríkjunum", afhendir fyrir þau Svissneska franka, en kaupir "örugg" skuldabréf í "Norðurríkjunum" fyrir euroin.  Þannig halda þeir gengi eurosins uppi og vernda um leið sinn útflutningsiðnað.  Engin veit nákvæmlega hve mikið fé hefur farið um þessa "pípu", en talað er um að Svissneski seðlabankinn hafi fjármagnað allt að 90% af halla "Norðurríkjanna" undanfarna mánuði með þessum hætti.

Helsta lausnin á fjárhagsvandræðum euroríkjanna er talin sú að "ríkisstofnun" í sameign þeirra allra prenti peninga til að að kaupa skuldir einstakra ríkja.  Sú "snilld" er reyndar helsta vopn seðlabankastjóra og stjórnmálamanna víða um heim. Slagorðið "Á meðan til er blek er von", á vörum margra þeirra.

Og sjálfsmyndin.

Í gær var gengu Molotovkokteilar og táragassprengjur á milli mótmælenda í Aþenu.  Daginn áður voru nokkuð harðir bardagar á milli mótmælenda og lögreglu í Madrid.

Katalóniubúar virðast hafa takmarkaðan áhuga á því að deila skatttekjum sínum með öðrum Spánverjum.  Hafa menn trú á því að þeir hafi frekar áhuga á því að deila þeim með Grikkjum, Slóvökum, eða Eistlendingum?

Ástandið á Spáni er með þeim hætti að aðilar innan hersins eru farnir að gefa út yfirlýsingar.

Það er alveg rétt hjá Miliband að "Sambandið" er að verða ógnun við stöðugleika í heiminum.

En þá má lesa í frétt mbl.is, úr fréttatilkynningu frá "Sambandssinnum" á Íslandi að forgangsatriði sé að breyta stjórnarskrá Íslendinga svo þeir geti tekið þátt í frekara samstarfi við bandalagsþjóðir sínar ínnan Evrópusambandsins.

 Í ályktuninni segir að jafnframt sé nauðsynlegt að fyrir þingkosningar verði settar í forgang þær breytingar á stjórnarskrá Íslands sem heimila frekara samstarf Íslands við bandalagsþjóðir sínar innan Evrópusambandsins.

Líklega er þarna komin skýringin á því hvers vegna rikístjórn "Sambandsaðildarflokkana", Samfylkingar og Vinstri grænna, hefur lagt svo mikla áherslu á að keyra í gegn stjórnarskrárbreytingar með offorsi.

Það liggur svo á að opna fyrir "Sambandssæluna".


mbl.is Samræma þarf efnahags- og stjórnmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef aðeins verð er látið ráða....

Þessi frétt á vef RUV vakti athygli mína.  Þar ver verið að fjalla um bóhaldskerfið sem Skýrr/Advania hefur sett upp hjá Ríkinu.

Það var þessi setning sem vakti sérstaka athygli mína:

Lágt verð Skýrr réði úrslitum um að tilboði þeirra í fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkið var tekið, en ekki boði Nýherja. Nýherji þótti hins vegar bjóða upp á betra kerfi og vera hæfari til að standa við tilboð sitt.

Lykilatriði í þessari setningu er að mínu mati...  "og vera hæfari til að stand við tilboð sitt".  En hins vegar virðist verð vera yfirgnæfandi þáttur í ákvörðunartökunni.

En það er eitt að geta boðið lágt verð, en annað að vera metinn síður hæfur til að standa við það.  Það er gömul saga og ný að það er ekki alltaf ódýrast til lengri tíma litið að kaupa það sem kostar minnst í upphafi.

Gamla slagorðið "Það besta er ódýrast" á við býsna mörgum tilfellum.

Það hljómar ekki vel í mínum eyrum að taka tilboði sem býður upp á verri lausn og tilboðsaðilinn er metinn síðri í að geta staðið við tilboðið.

Er ekki grundvallaratriði að tilboðsaðili sé metin fullkomlega hæfur til að standa við tilboð?

Það er ekki mikil kúnst að koma með lág tilboð, ef ekki er gerð krafa um að staðið sé við þau.  Ef endalaust er hægt að koma með aukareikninga og leggja aukakostnað á verkkaupa.

Að kaupa síðari vöru af aðila sem er metinn síður líklegur til að geta staðið við tilboð sitt.  Þarf að segja meira.

P.S.  Það er auðvitað rétt að það komi fram hér að ég er fyrrverandi starfsmaður Nýherja, en hafði þó horfið til annara starfa þegar þetta gerðist og kom ekkert nálægt SAP (nema sem notandi) eða útboðsgerð þessu tengdu.


Landsspítalinn fluttur til Keflavíkur

Ég bloggaði um þetta mál í febrúar síðastliðnum, þá færslu má lesa hér. Sú færsla var reyndar skrifuð í hálfgerðum hálfkæringi, en þar sagði meðal annars:

Liggur þá ekki í augum uppi að einfaldast sé að byggja upp hið nýja "þjóðarsjúkrahús" við Keflavíkurflugvöll?  Þar er nóg landrými og líkast til ódýrara en í Reykjavík,  þar er góður flugvöllur (sem yrði þá í framtíðinni aðal flugvöllur bæði innanlands og flugs til útlands (sem býður upp á bættar tengingar, bæði fyrir Íslendinga og ferðamenn), samgöngur hafa verið bættar þangað mikið á undanförnum árum og byggingin yrði líklega í góðri sátt við heimamenn.

Læknadeild Háskóla Íslands yrði sömuleiðis flutt til Keflavíkur.

Bráðamóttaka yrði enn starfækt í Reykjavík.

Er ekki einstakt tækifæri til að vinna að þessum breytingum nú, þegar hópar Reykvíkinga vilja flugvöllinn í burtu og ekki að nýr "þjóðarspítali" verði byggður á þeim stað sem fyrirhugað er?

Svona má slá margar flugur í einu höggi og enn ein flugan sem hugsanlega félli, væri sú staðreynd að líklega yrði rafmagnslest mun áhugaverðari kostur, þegar kominn væri svona stór vinnustaður á Suðurnesin.  En ýmsir hafa verið önnum kafnir við að reikna lest í "þjóðhagslega hagkvæma" niðurstöðu annað slagið undan farin ár.

Væri það ekki snilldarlausn fyrir Reykvíkinga að losna við á einu bretti bæði flugvöll og sjúkrahús sem mæta andstöðu?  Og ef það yrði nú til þess að alvöru lest færi loksins að ganga á Íslandi, hvað væri þá hægt að fara fram á meira?

En auðvitað er það svo að flugvöllur í Reykjavík er ekki einangrað fyrirbæri, þar sem helstu breyturnar sem skipta máli séu lóðarverð eða lóðarþörf.

Hér sem víðast annarsstaðar þarf að líta á heildarmyndina.


mbl.is Ekki bara tölfræði heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mysu áfengi

Það er alltaf ánægjulegt að lesa fréttir um nýjungar og framþróun. Sérstaklega þegar um er að ræða að nýtingu á því sem áður hefur verið talið lítils eða einskis virði, eða jafnvel úrgangur.

Nýting á hráefni bæði í sjávarútvegi og landbúnaði er allt önnur en var og er það vel.  Bæði hafa Íslendingar komist að því að margt af því sem þótti lítils virði er herramannsmatur og svo hitt að nýjar aðferðir og tækni hafa gert fyrirtækjum kleyft að nýta hráefnið betur.

Það verður fróðlegt að sjá hvar þetta endar, Eyfirskur vodki hljómar ekki sem verst, myndi líklegast bragðast engu síður.  Eldsneyti er heldur ekkert til að fúlsa við á þessum síðustu og.....

Hið besta mál.


mbl.is Breyta mysu í vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brynjar á Alþingi?

Ég held að það væri mikill fengur fyrir Íslendinga ef Brynjar Níelsson yrði kosinn til setu á Alþingi.  Fyrst þarf hann þó að ná góðum árangri í prófkjöri og er vonandi að Sjálfstæðifólk veiti honum þar stuðning sinn.  Ég held að það yrði flokknum heilladrjúgt.

Það eina sem ég þekki til Brynjars er það sem ég hef lesið eftir hann og séð haft eftir honum í fjölmiðlum.  Vissulega er ég ekki sammála öllu sem ég hef séð, en mér líkar heildarmyndin.

Brynjar er ófeiminn við að tjá skoðanir sínar og ganga gegn hinni "pólítísku rétthugsun".  Þorir að tjá sig, þó hann geri sér líklega ljóst að skoðanir hans eru ef til vill ekki vænlegar til vinsælda.

Ég held að þörf sé á slíkum einstaklingum á Alþingi.

Því óska ég Brynjari góðs gengis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og vona að Sjálfstæðisfólk taki honum vel.

 


mbl.is Brynjar Níelsson gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosti á Alþingi?

Ég hygg að það sé verulegur fengur af þvi fyrir Framsóknarflokkinn að Frosti Sigurjónsson hafi ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í Reykjavík í komandi kosningum.  Ef vel tekst til getur það orðið fengur fyrir Íslendinga alla.

"Sambandsandstæðingur" og einstaklingur sem óhræddur er við að halda á lofti rétti Íslands og Íslendinga er kærkomin viðbót á Alþingi eins og staðan er í dag.  Þar hafa "Sambandsandstæðingar" ekki verið í réttu hlutfalli við skoðanir almennings.  Það vonandi breytist í næstu kosningum.

Ekki er síðra að á Alþingi setjist einstaklingur sem er vanur bæði rekstri stórra fyrirtækja sem og að koma nýsköpun á koppinn.

Þessi tilkynning kom mér á óvart, en það sem hefur ekki komið mér síður á óvart í dag er sú umræða sem upphafist hefur á vefmiðlum og bloggsíðum sem ég hef séð.

Strax upphefst kapphlaup pólítískra andstæðinga um að nota sem "stærst" orð, gífuryrði og niðrandi ummæli.

Það verðist helst í tísku nú um stundir hjá stuðningfólki núverandi ríkisstjórnar að kalla alla öfgamenn, sem ekki eru þeim sammála og vilja gangast undir yfirráð "Sambandsins".  Frosti fær sinn skammt af þeirri umræðu "strax í dag" eins og Steinka Bjarna orðaði það.

Slík umræða sýnir ekki eingöngu í hvílíkt öngstræti pólítísk umræða á Íslandi er komin, heldur einnig fátæklega málefnastöðu og örvæntingu stuðningsfólks ríkisstjórnarinnar og "Sambandsaðildar".

Ég held að með innkomu einstaklinga eins og Frosta gæti slíkt horft til betri vegar.

Því vona ég að Framsóknarfólk í Reykjavík veiti Frosta gott brautargengi.

 

P.S.  Á þem tímum að krafan er að allt sé uppi á borðum, er rétt að upplýsa að ég hef engin tengsl við Frosta Sigurjónsson.  Hann var þó forstjóri Nýherja þegar ég vann þar í nokkur ár seint á síðustu öld.  Þar má finna eina ástæðu þess að ég óska honum góðs gengis.

Við Framsóknarflokkinn hef ég engin tengsl og hef aldrei haft.

P.S.S. Þetta er líklega þriðja bloggfærslan mín í dag um framboðsmál Framsóknarflokksins.  Það er ótrúlegt, en nú er mál að linni :-)


mbl.is Frosti vill leiða Framsókn í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband