Flugvöllur og sjúkrahús

Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvort að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera á sínum stað eða verði lagður niður.  Ég skil þó mjög vel að stjórnendur Reykjavíkurborgar horfi á landið undir flugvöllinn og sjái þar ákjósanlegt byggingarland.

En á sama tíma er verið að tala um að byggja upp "þjóðarsjúkrahús" Íslendinga nærri flugvellinum.  Það er yfirleitt talið staðsetningunni til tekna að vera nálægt flugvellinum, enda eigi sjúkrahúsið að þjóna landinu öllu og sjúkraflug vissulega mikilvægur þáttur í þeirri þjónustu.  Sömuleiðis eru þeir margir sem amast við fyrirhugaðri byggingu sjúkrahússins og telja það alltof mikla landnýtingu o.s.frv.

Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður, get ég ekki séð annað en að innanlandsflug flytjist til Keflavíkurflugvallar.  Vissulega er hægt að tala um að byggja nýjan flugvöll einhversstaðar á heiðum, en ég sé það ekki gerast í því árferði sem er nú, eða fyrirsjáanlegt á næstu árum.

Liggur þá ekki í augum uppi að einfaldast sé að byggja upp hið nýja "þjóðarsjúkrahús" við Keflavíkurflugvöll?  Þar er nóg landrými og líkast til ódýrara en í Reykjavík,  þar er góður flugvöllur (sem yrði þá í framtíðinni aðal flugvöllur bæði innanlands og flugs til útlands (sem býður upp á bættar tengingar, bæði fyrir Íslendinga og ferðamenn), samgöngur hafa verið bættar þangað mikið á undanförnum árum og byggingin yrði líklega í góðri sátt við heimamenn.

Læknadeild Háskóla Íslands yrði sömuleiðis flutt til Keflavíkur.

Bráðamóttaka yrði enn starfækt í Reykjavík.

Er ekki einstakt tækifæri til að vinna að þessum breytingum nú, þegar hópar Reykvíkinga vilja flugvöllinn í burtu og ekki að nýr "þjóðarspítali" verði byggður á þeim stað sem fyrirhugað er?

Svona má slá margar flugur í einu höggi og enn ein flugan sem hugsanlega félli, væri sú staðreynd að líklega yrði rafmagnslest mun áhugaverðari kostur, þegar kominn væri svona stór vinnustaður á Suðurnesin.  En ýmsir hafa verið önnum kafnir við að reikna lest í "þjóðhagslega hagkvæma" niðurstöðu annað slagið undan farin ár.

Væri það ekki snilldarlausn fyrir Reykvíkinga að losna við á einu bretti bæði flugvöll og sjúkrahús sem mæta andstöðu?  Og ef það yrði nú til þess að alvöru lest færi loksins að ganga á Íslandi, hvað væri þá hægt að fara fram á meira?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband