Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Að vita eða vita ekki, það er spurningin

Þegar litið er á tímalínuna hjá Framsóknarflokknum og hvernig tilkynningar um framboð og tilkynningar um að þingmenn sækist ekki eftir endurkjöri hafa raðast finnst mér persónulega blasa við að Höskuldur vissi af þeim fyrirætlunum Sigmundar að bjóða sig fram í Norðaustrinu.

Þess vegna "þjófstartaði" hann með tilkynningu sinni.  Það var eina leiðin til að eiga möguleika á því að komast til forystu í kjördæminu.

Það er enda eðlilegt að ungur og metnaðargjarn stjórnmálamaður láti ekki setja sig til hliðar eins og þarna er verið að gera tilraun til.

En hvort að ósannindi eru besta aðferðin til að hefja baráttuna um fyrsta sætið hlýtur hins vegar að vera umdeilanlegt. 

En þar eru það Framsóknarmenn í Norðaustrinu sem dæma.


mbl.is Segja Höskuld hafa vitað um áformin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir eru góðir þegar gengnir eru

Það hefur verið nokkuð skemmtilegt að fylgjast með hrósyrðum pólítískra andstæðinga þeirra Framsóknarþingmanna sem hafa ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri til Alþingis. 

Af skrifum þeirra má skilja að þetta séu langbestu, frjáls og umburðarlyndustu þingmenn Framsóknar og skilji þeir efitr sig skarð sem trauðla eða ekki verði fyllt.

En það er auðvitað fjarri sanni og hrósyrðin aðeins spuni af pólítískum toga sem er ætlað að koma því inn hjá kjósendum að bestu þingmennirnir séu að yfirgefa flokk andstæðinganna  og hinir síðri sitji eftir.

Persónulega get ég ekki fyllst eftirsjá þó að Birkir Jón og Siv Friðleifsdóttir hverfi af Alþingi.  Mér er ómögulegt að muna eftir þingmálum sem þau hafa barist fyrir sem hafa stefnt í frjálslyndisátt, en minni mitt er vissulega ekki óskeikult og skilgreining mín á frjálslyndi þarf ekki að vera sú sama og margra annara. Umburðarlyndi þeirra hefur að ég tel helst falist í því að umbera núverandi ríkisstjórn meira en margir aðrir stjórnarandstæðingar.  Líklega er það einna helst sem þeim er klappað fyrir nú af stuðningsfólki stjórnarflokkanna.

Menn munu koma hér í manna stað eins og endranær.

Kirkjugarðar heimsins eru fullir af ómissandi fólki var einhverntíma sagt, það er ekki síður sannleikurinn um "pólítísku kirkjugarðana".

 

 


Að eiga "réttinn" af eigin lífshlaupi

Ég hef fylgst með umfjöllun um myndina Djúpið og virðist sem þar sé á ferðinni vönduð og athygliverð mynd sem ég hef mikinn áhuga á því að sjá.

Efni myndarinnar er áhugavert og virðist sem myndin sjálf sé sömuleiðis afbragðs vel gerð og heppnuð.

En það hefur líka orðið mér umhugsunarefni þegar það hefur komið fram að myndin sé gerð í óþökk þess einstaklings sem hún fjallar að mestu leyti um.

Spurningin sem vaknar er að hve miklu leyti eiga einstaklingar "réttinn" af eigin lífshlaupi og að hve miklu leyti ætti  listamönnum og  öðrum að vera að nýta sér slíkt í hagnaðarskyni?

Við þessu er að mínu viti ekki til neitt einfalt svar og það er vel þekkt að bækur, leikrit, söngleikir og kvikmyndir hafa verið verið gerðar um einstakar persónur eða hópa í óþökk þeirra.

Stundum er nöfnum og jafnvel umhverfi breytt til að "vernda" einstaklingana eða til að komast hjá málaferlum.  Sé þannig staðið að verki er spurningin um "rétt" einstaklinganna úr sögunni, enda því sem næst ómögulegt að sanna hver fyrirmyndin er, ef höfundar afneita því,  þó að það sé ef til vill á "allra" vitorði.

Og þannig skilst mér að sé það gert í Djúpinu, nöfnum er breytt og eðli málsins samkvæmt hlýtur margt í myndinni að vera skáldskapur.

En við kynningu á myndinni er þess hinsvegar þess vandlega gætt að það komi skilmerkilega fram á hvaða atburði myndin byggist og hvaða einstaklingur sé fyrirmynd aðalpersónu myndarinnar.  Það er líklega nauðsynlegt fyrir trúverðugleika mndarinnar, sem annars yrði lyginni líkust, sem afrekið sem myndin fjallar um vissulega er.  En það er þessi raunverulegi atburður sem gefur myndinni gildi.

Sem aftur vekur þá spurninguna hvort að einstaklingur eigi "réttinn" af eigin lífshlaupi, eða atburðum í því.

Nú er það ljóst að ef einstaklingurinn sem Djúpið fjallar um, endurgerði myndina Djúpið, yrði hann brotlegur við lög, nema hann aflaði sér leyfis frá rétthöfum.  En ef kvikmyndaleikstjórinn "endurgerir" atburði úr lífi einstaklingsins, þá horfir málið öðruvísi við og þykir sjálfsagt, eða hvað?  Höfundaréttur af listaverkum gildir í ákveðinn árafjölda eftir andlát, en "rétturinn"  af eigin lífshlaupi er ekki til.  Hann er "public domain" eins og stundum er sagt.

Listin er þá rétthærri lífinu eins og stundum er sagt.

P.S.   Þessari færslu er ekki ætlað að dæma um rétt eða rangt í þessu efni, enda ekki auðvelt mál viðureignar.  Þetta eru eingöngu hugleiðingar sem hafa skotið upp í kollinn á mér annað slagið, nú síðast vegna umfjöllunar um Djúpið.  Það er heldur alls ekki meiningin að hnýta í Djúipið, eða þá sem standa að gerð hennar, enda er hún aðeins nýjasta dæmið í fjölda svipaðra um víða veröld og hefur það fram yfir mörg þeirra að hún er gerð af virðingu fyrir viðfangsefninu, sem er ekki alltaf raunin.

Fyrst og fremst eru þetta vangaveltur og það væri gaman að heyra í þeim sem hafa velt þessum málum fyrir sér.

 

 


Áfengissala í matvörubúðum

Nú er ég búinn að vera hér í Eistlandi í rúman mánuð.  Eitt af því sem óneitanlega vekur athygli þess sem hefur dvalið lengstum á Íslandi eða Kanada (Ontario) er hve frjáls sala á áfengi er hér.

Áfengi er því sem næst til sölu allsstaðar.  Allar matvörubúðir bjóða áfengi til sölu og allar vikur eru tilboð á einstökum tegundum.  Flestar bensínstöðvar selja áfengi, fjölmargar sérverslanir eru með áfengi og þannig mætti áfram telja.  Einu takmarkarnir sem ég hef heyrt um á sölu áfengis, eru að bannað er að selja áfengi eftir kl. 10 á kvöldin.

Úrvalið er stórkostlegt, mismunandi frá verslun til verslunar og verðlagið hreint til fyrirmyndar.  

Sú röksemd heyrist oft á Íslandi, að þjónusta og úrval muni versna ef áfengissala yrði færði yfir til einkaaðila, en verslanirnar hér í Eistlandi afsanna það.  Margar matvöruverslanir bjóða upp á áfengi í úrvali sem gefur ÁTVR ekkert eftir.  Hægt er kaupa bjór frá ca 60 sentum, vodka frá u.þ.b. einu euroi (100ml) og upp í sverustu gerðir af koníaki sem kosta mörg hundruð euro.  Ein af betri matvöruverslununum sem ég heimsótti bauð til dæmis upp á Skoska vískiflösku sem kostaði 1900 euro.  Það er alltaf gaman að skoða :-)

Verðlagið er eins og áður sagði hreint til fyrirmyndar, en það er vissulega ekki eingöngu verslunum og samkeppni að þakka, heldur er hér hófleg skattlagning á áfengi af hendi hins opinbera.

Það breytir því þó ekki að alltaf eru í gangi tilboð og verðlækkanir og samkeppnin er hörð.  15 til 20% afslættir eru algengir og oft má gera góð kaup, ef áhugi er fyrir hendi.

Þá velta sjálfsagt margir fyrir sér hvort að aukið aðgengi hafi ekki ótal vandamál í för með sér.  Um það ætla ég ekki að fullyrða.  

Flestir hér virðast þeirrar skoðunar að vandamálin séu söm og þau hafi alltaf verið, áfengisvandamál hafi alltaf verið til staðar, ölvunarakstur sömuleiðis, en hart er tekið á ölvunarakstri og leyfilegt áfengismagn í blóð er 0.

En ég get ekki og ætla ekkert að fullyrða um slíkt hér, til þess hef ég ekki næga þekkingu á málinu.

En hitt get ég fullyrt, að samkeppnin tryggir gott úrval og verðsamkeppni sem skilar sér til neytandans hér, og það er þægilegt að geta kippt með sér vínflösku og nokkrum bjórum um leið og keypt er í matinn.

 


Og krónan fellur

Gjaldeyrismál eru eðlilega mikið til umræðu á Íslandi þessi misserin. Það virðist oft á tíðum sem Íslendingar hafi meiri áhyggjur af nafni gjaldmiðilsins sem þeir nota, heldur en efnahagslífinu sem stendur að baki honum.

Nú hefur krónan tekið að síga að nýju undanfarnar vikur og þá hefst, eins og oft áður, tal um að það sé krónunni sjálfri um að kenna, og auðvitað þurfi að skipta um mynt.  Fáir eða engir tala um undirliggjandi ástæður þess að krónan sígur.

Aðalástæðan er einfaldlega sú að Íslendingar eyða meiri gjaldeyri en þeir afla.  Skiptajöfnuðurinn er óhagstæður.  Slíkt kallar eðlilega á veikingu gjaldmiðilsins.  Tekjurnar aukast ekki við að skipta um gjaldeyri, eða hafa hann sterkari.  Þvert á móti. 

Því hlutskipti hafa mörg Evrópuríki, sem hafa tekið upp euro kynnst.  Gjaldmiðilinn er sterkur og nokkuð stöðugur, en fyrir mörg þeirra hefur hann reynst of sterkur.

Þannig dugði útflutningur Grikkja, þegar verst lét, aðeins fyrir tæpum helmingi af innflutningi landsins.  Með því að færa niður laun, herða sultarólina því sem næst eins og verða má og skera niður flest sem skeranlegt er, hefur ástandið skánað, en jöfnuður hefur þó ekki náðst.  Efnahagur Grikkja hefur skroppið saman í kringum 20% í þeirri kreppu sem þar ríkir.   Atvinnuleysi nálgast 25%.

Á Spáni er atvinnuástandið síst skárra.  Nýlega sá ég fjallað um skoðanakönnun sem gerð hafði verið þar í landi og sýndi að 22% aðspurðra vildi taka aftur upp pestetan sem gjaldmiðil.  Þó að enn væri meirihluti sem studdi euroið, fannst mér það nokkuð sláandi hve prósentutalan sem vildi pesetan var svipuð atvinnuleysisprósentunni, en hún er u.þ.b. 25% á Spáni.

Þeir atvinnulausu gera sér ef til vill grein fyrir því hlutverki sem gjaldmiðilinn spilar í atvinnuleysi þeirra.   Þeir sem hafa vinnu og eiga enn sparifé, vilja eðlilega vernda þann falska kaupmátt sem euroið hefur fært Spánverjum.

Að mörgu leyti er það eins hjá Íslendingum að ég tel.  Þeir eru margir sem sjá (eðlilega) eftir þeim falska kaupmátti sem Íslendingar höfðu.  Þeir eru án ef margir sem hefðu kosið að færa 2007 kaupmáttinn sinn yfir í euro, og hefðu vonast til að halda honum.  Ekki hefði það verið verra ef bankainnistæður hefðu fylgt með.   Í raunveruleikanum hefði slíkt þó líklega þýtt að margir þeirra hefðu misst vinnuna og atvinnuleysi hefði rokið upp.

Gjaldmiðilsbreyting er engin töfralausn og tryggir ekki kaupmátt, né að misgengi húsnæðisverðs/lána eigi sér ekki stað.

Að láta gjaldmiðilinn stjórnast af einhverju allt öðru en efnahagnum, eða efnahag mun stærri landa getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Því eru margar euroþjóðirnar að kynnast í dag.

Þess vegna er stundum talað um Evrópusambandið eins og "brennandi hótel" og það logar enn.

 

 


mbl.is „Koma þarf húsinu í lag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólítísk rétthugsun og sjálfsritskoðun

Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að þetta er eingöngu skoðun einstaklings, sem líklega er engin leið að dæma hvort að sé rétt eða röng. En sú skoðun Salman Rushdie að skáldsaga hans, Sðngvar Satans fengist ekki útgefin í því andrúmslofti sem ríkjandi er í dag, er ástæða til að staldra við.

Staðan í dag virðist vera sú að það eru ekki margir sem eru reiðubúnir til að standa gegn ofbeldisfullum tilraunum til ritskoðunar og takmarkana á mál og tjáningarfrelsi.

Pólítískur réttrúnaður og sjálfritskoðun virðast vera "möntrur" dagsins.  Taugaveiklun og löngun til að friða þá er beita ofbeldi og hótunum virðist ráðandi.

Ofbeldið ryður bæði réttrúnaðinum og sjálfsritskoðuninni veg.

Að sjálfsögðu er lélegar kvikmyndir engin glæpur, skop og grínmyndir eru það ekki heldur.  Rangar skoðanir eiga heldur ekki að þurfa að kalla fram ofsafengnar skoðanir.  Auðvitað á að vera jafn sjálfsagt að gera grín að trúarbrögðum og öllu öðru.  Gagnrýni á þau á að vera jafn sjálfsögð. Trúarbrögð eru hvorki utan né ofan við lífið.

Við eigum ekki að reyna að friðþægja og þóknast þeim sem kjósa að beita ofbeldi og hótunum.

Ég læt fylgja hér með brot úr tveimur kvikmyndum sem hafa skemmt mér í gegnum tíðina, bæði oft og lengi.

  

 


mbl.is Fengist ekki gefin út í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæði bæði kostar og gefur

Ég sá það á flækingi mínum um netheima þennan morgunin að sagt er í skýrslu Seðlabankans að Íslendingar gætu sparað sér á bilinu 5 til 15 milljarða með því að ganga í "Sambandið" og taka upp euro.  Það væri sparnaðurinn við að þurfa ekki að skipta gjaldeyri og því um líkt.

En það er nú svo að það er hægt að reikna sig að ýmsum niðurstöðum.  Mér þykir það t.d. ekki ólíklegt að hægt hefði verið að reikna sig að þeirri niðurstöðu að á 6. og 7.  og jafnvel áttunda áratug síðustu aldar hefði verið fjárhagslega hagkvæmt fyrir Íslendinga að sækja um að verða ríki í Bandaríkjunum og taka þannig upp dollar.  Það hefði áreiðanlega sparað stórar upphæðir. Það er líklegt að þeim Íslensku stórfyritækjum sem ræku verksmiðjur í Bandaríkjunum hefði þótt það álitlegt.   Sjálfsagt væri líka hægt að reikna út að staðan á Íslandi væri betri í dag, hefði það verið gert.  Ég leyfi mér þó að efast um að slíkt væri raunin.

Slíkar hugmyndir heyrðust stöku sinnum, en sem betur fer voru þær ekki teknar alvarlega.

Það eru hvorki ný vísindi né sannindi að oft fylgi nokkur hagræðing og/eða sparnaður að vera í stærri einingum, en þeim fylgir oft sömuleiðis óhagræði og kostnaður.

Eins er það með sjálfstæði, það getur bæði kostað og gefið í senn.

Sá sparnaður sem hér er til umræðu dugar ekki til að dekka þá upphæð sem þjóðarbúið yrði líklega af ef Íslendingar þyrftu að hlýta ákvörðunum "Sambandsins" varðandi makrílveiðar.  Er þá ótalinn annar kostnaður og framlög sem Íslendingar þyrftu að reiða fram.

En það er auðvitað ólíklegt að ákvörðun Íslendinga, hvort þeir vilji ganga inn í "Sambandið" eður ei, verði tekin á fjárhaglegum grundvelli, þó vissulega kunni það að spila inn í hjá hluta þeirra.  Þar hugsa ég að Íslendingar muni flestir taka ákvörðun sem byggi að pólítískum grunni og tilfinningu.

Á þeim grunni hygg ég að "Sambandið" færist fjær meginþorra Íslendinga með hverjum deginum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband