Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
26.9.2009 | 00:43
Af meintu hlutleysi fjölmiðlamanna
Nú þegar Davíð Oddsson hefur verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins hefur umræðan um hlutleysi fjölmiðla og fjölmiðlamanna verið nokkuð í sviðsljósinu.
Mín skoðun er sú að slíkt sé helber tálsýn.
Fyrrverandi þingfréttaritari Morgunblaðsins hefur til dæmis lýst því yfir að hún hafi verið flokksbundin í Vinstri grænum áður en hún tók starfið að sér. Á meðan hún hafi gegnt starfinu hafi hún hins vegar ekki verið bundin nokkrum flokk.
Örfáum vikum eftir að hún hafði látið af starfi þingfréttaritara Morgunblaðsins var hún svo ráðin aðstoðarmaður (aðstoðarkona) Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra Vinstri grænna.
Trúir því einhver að hún hafi verið algerlega hlutlaus í skoðununum sínum í millitíðinni?
Einn af þekktari fréttamönnum Stöðvar 2 er Heimir Már Pétursson. Hann bauð sig fram á sínum tíma sem varaformaður Samfylkingarinnar. Trúa áhorfendur stöðvarinnar því virkilega að hann sé ávallt hlutlaus í fréttaumfjöllun sinni. Jafnvel þegar hann er að taka viðtöl við Ingibjörgu Sólrúnu, eða Össur Skarphéðinsson?
Róbert Marshall var formaður ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, ef ég man rétt. Hann fór síðar í framboð fyrir Samfylkinguna. Í millitíðinni var hann fréttamaður á Stöð 2 og forstöðumaður á fréttarásinni sem ég man ekki hvað hét.
Halda allir að hann hafi gleymt skoðunum sínum á þeim tíma?
Heldur fólk að Gísli Marteinn hafi fyrst orðið hægrisinnaður, eftir að hann hætti að koma fram í Sjónvarpinu?
Frá því að ég sá Sigmund Erni fyrst með "palestínuklút" um hálsinn í menntaskólaárum hans og þangað til hann varð þingmaður Samfylkingarinnar, hafa allir trú á því að pólítískar skoðanir hans hafi aldrei litað þær fréttir sem hann skrifaði?
Eru flestir þeirrar skoðunar að Svanhildur Hólm hafi verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, vegna þess að hún hafi átt bestu umsóknina, en ekki vegna þess að hún hafi áður sínt að skoðanir hennar leituðu til hægri?
Eru allir þeirrar skoðunar að fréttafluttningur Ómars Ragnarssonar hafi verið fyllilega hlutlaus, áður en hann sagði fréttamannsstarfi sínu lausu og stofnaði pólítískan flokk?
Eva Björg Erlendsdóttir starfað á sínum tíma hjá Ríkisútvarpinu, en ritstýrir nú Smugunni, vefriti Vinstri grænna og starfar hjá þingflokki þeirra.
Standa þá allir í þeirri meiningu að skoðanir hennar hafi aldrei haft nein áhrif á fréttaflutning hennar hjá RUV?
Auðvitað er 100% hlutleysi eitthvað sem aldrei er í raun hægt að ná.
En það er auðvitað gott að vita "úr hvaða átt fjölmiðlar, eða fréttamenn" koma.
En algert hlutleysi er líklega ekki mögulegt og vafamál hvort það er æskilegt.
P.S. Til að gæta eins mikils hlutleysis og hægt er, er rétt að taka fram að sá sem skrifar þessar línur er "borgaralega þenkjandi", hefur verið í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkkinn, en hefur ekki hugmynd um hvort hann er flokksbundinn eður ei. Hann borgar ekkí árgjöld, tékkar ekki að því að öðru leiti og hefur í sjálfu sér ekkert á móti því. Það skiptir hann í raun ekki "öllu máli".
P.S.S. Svo er það auðvitað Þorsteinn Pálsson, sem er fyrrverandi formður Sjálfstæðisflokksins, sem fáum fannst athugavert að yrði ritstjóri Fréttablaðsins, nú eða Össur Skarphéðinssson, sem var þingmaður þegar hann var ritstjóri DV.
En það styrkir aðeins þá skoðun að það sé meira persónan, en hlutleysið sem fari í taugarnar á þeim sem harðast deila á nýráðningu ritstjóra Morgunblaðsins.
25.9.2009 | 20:31
Ríkisstarfsmenn sem sitja og gera ekki neitt
Þessi frétt af Vísi er virkilega fróðleg.
Samkvæmt henni safnast fyrir fé í gríðarmiklum mæli hjá Íslenskum bönkum. Þar situr þar engum til gagns og bankarnir þora ekki að lána það út. Þykjast líklega ekki finna neinn nógu verðugan lántakenda, eða það að eftirspurn eftir lánsfjármagni er einfaldlega ekki til staðar.
Hvernig það rímar svo við að það sem mest vanti í Íslenskt hagkerfi sé erlent lánsfé veit ég ekki.
Til hvers þarf aukið erlent lánsfé ef innlendir bankar eru að fyllast af fé?
En ef til vill er sannleikann að finna í síðustu málsgreininni í fréttinni, þar segir:
Allir verði afskaplega hræddir. Svo eru allir opinberir starfsmenn í raun og veru í bönkunum eins og er óbeint á vegum ríkisins. Þá er kannski besta og auðveldasta lausnin að sitja og gera ekki neitt vegna þess að það mun enginn saka þig fyrir það, en það er auðvitað mjög slæmt fyrir heildardæmið," sagði Már.
Er það ef til vill stærsta vandamálið, að tregðulögmál ríkisafskipta er að skapa Íslendingum aukið böl?
Ef þú gerir ekkert, er erfitt að kenna þér um að hafa gert mistök. En að gera ekkert getur einmitt verið versta niðurstaðan.
Ef til vill hittir Már þar naglann á höfuðið, að það sé ekki fjármagn sem vantar, heldur traust og þor.
Ef til vill er þar einmitt þar sem núverandi ríkisstjórn hefur skilað minnstum, eða ef til vill neikvæðum árangri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2009 | 14:40
Katrín Jakobsdóttir vill tryggja sjálfstæði Davíðs
Ég gat ekki að því gert að mér þótti þessi frétt á vef RUV nokkuð skondin.
Með tilliti til frétta úr fjölmiðlaheiminum liggur næst við að draga þá ályktun að Katrínu þyki brýnt að tryggja sjálfstæði Davíðs frá eigendum Morgunblaðsins.
En upphaf þessarar stuttu fréttar er líka athyglivert, ekki síst með tilliti til fársins sem virðist ríkja á Íslandi út af ráðningu Davíðs:
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir fjölmiðla metna út frá því hverjir eiga þá, og ekki síður hverjir stýra þeim.
Mennta og menningarmálaráðherra segir fjölmiðla metna út frá því hverjir eiga þá og hverjir stýri þeim. Hún minnist ekkert á innihaldið, það skiptir líklega litlu eða engu máli.
25.9.2009 | 12:29
Öfugsnúið?
Mér þykir ýmislegt öfugsnúið sem ég hef heyrt frá Íslandi undanfarnar vikur og mánuði.
Á Íslandi er t.d. forsætisráðherra sem lítið heyrist í og virðist sérstaklega leggja lykkju á leið sína til að forðast erlenda blaðamenn og samkomur þjóðarleiðtoga.
Á sama tíma hafa Íslendingar forseta sem lætur fá tækifæri ónotuð til að tjá sig um málefni langt utan hans sviðs og yfirlýsingar hans valda Íslendingum vandræðum (sem er auðvitað allt út af því að útlendingar taka orð hans úr samhengi).
Nú fer svo býsna stór hópur Íslendinga hamförum yfir því að fjölmiðill í einkaeigu ræður í vinnu fyrrverandi forsætisráðherra sem var jú í Sjálfstæðisflokknum.
Nokkrum dögum áður birtist í fjölmiðlum að einstaklingur sem kom í bankaráð Landsbankans (sem er ríkisbanki) í skjóli Samfylkingarinnar og bankaráðið skipaði síðan bankastjóra til haustsins (hvenær byrjar haustið aftur á Íslandi, hér í Kanada byrjar það 22 september, en ég man ekki þá dagsetningu á Íslandi), hefði geymt stöðu handa einstaklingi sem hefði ekki ekki hafði próf til að gegna henni, á meðan hann "skryppi" í skóla.
Sá einstaklingur situr í flokksstjórn Samfylkingarinnar og var gjaldkeri hennar um hríð, ef marka má fréttir.
En yfir slíku virðist því sem næst enginn æsa sig á "Nýja Íslandi".
Öfugsnúið?
25.9.2009 | 03:58
Prince Polo Caffe Latte
Ég er fastagestur í ýmsum Pólskum verslunum hér í Toronto. Það er gott að versla við Pólverjana. Afbragðs pylsur og aðrar kjötvörur, alls konar skrýtið góss og síðast en ekki síst þá bjóða þeir yfirleitt upp á Prince Polo.
Þegar ég skrapp að versla í morgun varð á vegi mínum ný tegund af þessu gæða súkkulaðikexi. Prince Polo Caffe Latte.
Það varð úr að ég keypti 2. stk og síðan 2. stk af Classic, svona til öryggis.
Niðurstaðan er nokkuð fyrirsjáanlega að því leyti til að öll stykkin eru etin, og það upp til agna. En bragðið?
Ég myndi líklega frekar velja að borða Classic með góðum og sterkum uppáhellingi en Latteið er ágæt tilbreyting, en ég held að það nái ekki að ryðja hinu klassíska Prince Pólói út af mínum milli mála matseðli.
23.9.2009 | 23:14
Bullukollur á Bloomberg
Hún er æ ljósari, nauðsynin að utanríkis og forsætisráðuneytið taki Ólaf Ragnar Grímsson og lesi honum pistilinn. Sú staðreynd er þó enn ljósari að það verður ekki gert í tíð þessarar ríkistjórnar og því miður líklega aldrei.
Eins og bullukollum er tamt fer Ólafur síknt og heilagt langt út fyrir verksvið sitt og tjáir sig um mál langt langt utan þess.
Í þessu tilfelli er það auðvitað hárrétt hjá Ólafi að Íslensku bankarnir störfuðu undir regluumhverfi því sem "Sambandið" hefur sett um banka og fjármálastofnanir. En hvort að þeir hafi starfað 100% eftir því er annar handleggur.
Það er einmitt það sem er verið að rannsaka núna, og eftir minni bestu vitneskju hefur Ólafur ekki starfað að þeirri rannsókn. Það færi því best á því að hann væri ekki að gefa út hrein sakarvottorð í þessum málum, frekar en öðrum.
En auðvitað þekkir Ólafur vel til aðalleikendanna í Íslensku bönkunum, ef til vill hafa þeir sagt honum að þeir hafi fylgt leikreglunum í þaula og aldrei tekið þátt í því að hagræða hlutabréfaverði eða neitt því um líkt. Ja, ekki frekar en Martha Stewart.
Enda hafa útflutningsverðlaun varla verið veitt út á hjómið eitt, eða vafasamir "pappírar" setið til borðs að Bessastöðum.
Íslensku bankarnir störfuðu samkvæmt reglum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2009 | 18:03
Bara viðskipti
Nú fara margir hamförum og hneykslast á hvernig viðskipti Jóns Ásgeirs hafa gengið fyrir sig. Hvernig hann hefur getað haldið eignum sínum, án þess að borga í raun fyrir það, heldur eingöngu með tilfærslu skulda.
Vissulega eru lýsingarnar ekki fagrar, en það verður að virða Jóni Ásgeiri það til málsbóta að hann telur sig eðlilega í fullum rétti til að véla svona, staðsettur báðum megin borðs. Íslenskir dómstólar (bæði héraðs og Hæstiréttur) eru nefnilega búnir að leggja línuna í þessum efnum.
Þetta eru "bara viðskipti".
Fyrst það er í lagi að einstaklingur fái lán hjá almenningshlutafélagi til að kaupa verslunarkeðju, sem hann síðan selur sama almenningshlutafélaginu nokkrum vikum síðar með góðum hagnaði, hvers vegna skyldi ekki vera í lagi að kaupa eins og nokkrar verslanir út úr "lokuðu" hlutafélagi með smá snúningi?
Er ekki tímabært að hið opinbera hætti þessum ofsóknum á hendur Jóni Ásgeiri og fjölskyldu hans?
Er ekki tímabært að einhverjir stjórnmálamenn taki nú upp hanskann fyrir Baugsfjölskylduna? Nú eða í það minnsta einhverjir "álitsgjafar" eða stjórnmálafræðingar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2009 | 15:32
Að hafa áhyggjur af því sem ekki er lesið
Það hefur verið býsna skondið að fylgjast með sívaxandi áhyggjum margra af því hver verður ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Fyrir utan sálarangist margra yfir því að fyrrverandi ritstjóri hafi verið látinn taka pennann sinn.
Það er ljóst að rekstur blaðsins er afar erfiður og er líklegur til þess að vera það áfram næstu misseri eða lengur.
Hvað héldu menn að gert yrði? Skúringakonunum sagt upp?
Mér finnst blasa við að það þurfi gagngeran uppskurð á rekstri og skipulagi blaðsins. Mér finnst ekki óeðlilegt að fyrrverandi ritstjóri (sem er jú "uppalinn" á blaðinu) hafi ekki verið talinn rétti einstaklingurinn til að standa í framlínunni í þeirri aðgerð.
Líklega væri best fyrir blaðið að nýr einstaklingur sem ekki hefur komið að blaðinu áður, stýri því í þeirri aðgerð.
En það er líka skondið að sjá að margir þeir sem hafa hvað mestar áhyggjur af ritstjórastöðu Morgunblaðsins lýsa því jafnframt yfir að þeir hafi ekki keypt eða lesið blaðið um langa hríð, og telja það jafnvel nokkuð léttvægt.
Það rænir þá auvitað svefni, hver verður ritstjóri þess sem þeir ekki kaupa eða lesa.
Sjálfur hef ég engar áhyggjur af ritstjórastólnum, gerist næsta víst ekki áskrifandi. Dómurinn yfir þeim sem tekur við er svo við hæfi að fella eftir einhverja mánuði, eða hvað?
18.9.2009 | 13:24
Jóhrannar
Fékk nú í morgun tölvupóst frá Íslandi þess efnis að forsætisráðherra landsins sé kona ekki einhöm og gangi nú undir nafninu Jóhrannar.
Ekki fylgdi með póstinum greinargóðar skýringar á uppruna nafnsins, en þó skyldist mér að þess hefði fyrst verið getið í Fréttablaðinu.
16.9.2009 | 23:47
Samskipti auka traust - Skjaldborgin um Jóhönnu rífur það niður
Það kemur ekki á óvart að sjá traust Íslendinga á Jóhönnu Sigurðardóttur hrynja, ekki heldur að Steingrímur "lonesome cowboy" Sigfússon njóti meira trausts en forsætisráðherra.
Líklega kunna Íslendingar oft á tíðum ekkert of vel við það sem Steingrímur er að segja þeim, en ég reikna með að þeir kunni að meta og þyki traustvekjandi að hann skuli koma fram og tala um það við þá.
Erfiðu fréttirnar verða ekkert betri ef ekki er rætt um þær. Hreinskilin samskipti auka traust. Íslendingar virðast fyrirgefa Steingrími lygina sem hann greip til varðandi IceSave samningin og virða það við hann að hann kemur reglulega fram í fjölmiðlum og reynir að skýra sitt mál.
Niðurstaða þessarar könnunar hlýtur að teljast verulegt áfall fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, forseti sem nýtur ekki traust hærra hlutfalls þjóðarinnar (og vantraust sívaxandi hluta hennar) er ekki í öfundsverðri stöðu og verður vandséð að hann eigi möguleika á því að endurheimta tiltrú Íslendinga. Hverfur líklega úr embætti rúinn trausti.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fær einnig nokkuð sneypulega útkomu úr könnuninni og langt í frá ásættanlega fyrir hann. Ef hann ætlar að verða eitthvað meira en skammlífur forystumaður, verður hann að skerpa sig og flokkinn.
Í heild sinni verður þessi könnun að teljast áfellisdómur yfir Íslenskum stjórnmálaforingjum (því miður verður forsetinn að teljast í þeim hópi) sem njóta takmarkaðs traust hjá þjóðinni.
Steingrímur nýtur mest trausts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.9.2009 kl. 03:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)