Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Gjá milli þings og þjóðar?

Þetta virðist nokkuð afdráttarlaus niðurstaða úr könnuninni.  Meirihluti Íslendinga hefur ekki áhuga á því að landið gangi í "Sambandið".

Eftir því sem umræðan hefur aukist og ákafi "Sambandsinnana" orðið meiri þá styrkist meirihluti þeirra sem ekki vilja aðild að "Sambandinu".

Eftir því sem Samfylkingin hefur aukið offorsið í málinu og Vinstri græn hafa látið teyma sig lengra í átt að "Sambandsaðild", eykst andstaða almennings við inngöngu í "Sambandið".

Almenningur hefur enda séð í gegnum málflutning ríkisstjórnarinnar (lesist Samfylkingarinnar) að það séu eitt eða tvö stór mál sem skipti höfuðmáli í uppbyggingu Íslensks efnahags.  Slíkur málflutningur var notaður þegar ríkisstjórnin vildi reka seðlabankastjórana, þegar sækja átti um aðild að "Sambandinu" og þegar nauðsynlegt var að samþykkja IceSave ábyrgðirnar.

Ekki hefur þó orðið vart við breytingarnar.

Í þessu máli er því víð og breið gjá á milli þings og þjóðar, eins og einhvern tíma var sagt og þótti "skelfilegt" á sínum tíma.  Gjáin er þó enn breiðari og enn dýpri á milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Ég vona svo sannarlega að Íslendingar haldi vöku sinni í þessu máli og hafni alfarið "Sambandsaðildinni".

 

 

 


mbl.is Fleiri andvígir en hlynntir ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

126 milljarðar dottnir "á milli skips og bryggju?"

Það er merkilegt að sjá frétt sem þessa, sem ég sá á vef Ruv nú í kvöld.

Fjársterkir Japanir vilja fjárfesta fyrir u.b.þ. 126 milljarða á Íslandi.  Hefðu áhuga fyrir því að kaupa banka, koma með fjármagn í hann og í framhaldinu jafnvel reisa hér jarðvarmaorkuver.

En þeir fá engin svör frá Íslenskum stjórnvöldum. 

Ekki af, ekki á.

Steingrímur "lonesome cowboy" Sigfússon, segir að erindi þeirra hafi mögulega dottið "á milli skips og bryggju".

Man einhver eftir "möntrunni" sem farið er með um það sem þarf að gera til þess að endurvekja og skapa traust á Íslandi og Íslenskum efnahag.

Í þeirri "möntru" má finna atriði eins og að reka seðlabankastjórana, sækja um aðild að "Sambandinu" og kyngja öllum kröfugerðum Breta og Hollendinga hvað varðar IceSave.

En það virðist ljóst vera að einfaldar aðgerðir eins og að passa upp á að svara fyrirspurnum um mögulegar milljarðarfjárfestingar eru þar ekki að finna.

Það skiptir líklega engu máli, eða hvað?

 

Ég birti fréttina í heild sinni hér að neðan:

Fá ekki svör frá stjórnvöldum

Hópur fjársterkra Japana hefur beðið í 9 mánuði eftir svari íslenskra stjórnvalda við fyrirspurn sinni um að fá að koma með 126 milljarða króna inn í íslenska hagkerfið til endurreisnar. Ragnar Önundarson, aðstoðarmaður þeirra hér á landi, furðar sig á sinnuleysi fjármálaráðuneytisins.

 

Japanarnir hafa yfir miklum fjármunum að ráða og eru þekktir fyrir að vera fremstir í framleiðslu vélbúnaðar fyrir jarðvarmaorkuver.

Þeir komu til landsins í nóvember á síðasta ári ásamt bandarískum viðskiptafélögum sínum og vildu kaupa banka, endurfjármagna hann og reisa gufuaflsver hér á landi í framhaldinu. Nöfn þessara manna fást ekki upp gefin.

Ragnar segir beiðnina hafa verið ítrekaða nokkrum sinnum. Japanar séu kurteisasta þjóð í heimi og kunni illa við þá viðleitni sem þeim hafi verið sýnd.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagðist ekki kannast ekki við málið þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag. Það hafi mögulega dottið milli skips og bryggju í ráðuneytinu þar sem bæði hafi verið skipt um ráðherra og ráðuneytisstjóra frá því er fyrirspurnin var fyrst lögð fram.

Auðvitað er krónan hluti af lausninni

Það má líklega til sanns vegar færa að krónan, eða öllu heldur efnahagsstjórnin (sem ræður síðan miklu um vegferð krónunnar) hafi haft áhrif til hins verra í hruninu.  En það er líklega líka rétt hjá Gylfa (og því er ég sammála) að krónan mun hjálpa Íslendingum út úr erfiðleikunum og hjálpa til við að rétta efnahagslífið við.

Krónan dreifir byrðunum og hjálpar til við að rétta af sveiflurnar (getur vissulega líka ýkt þær ef rangt er á málum haldið).

Stöðugt gengi er vissulega af hinu góða, en það er ekki nóg að hafa stöðugt gengi, ef önnur efnahagsstjórnun er ekki rétt eða ytri aðstæður breytast snöggt.  Ef gengið er stöðugt verða aðrir þættir að jafna út sveiflurnar.

Það þarf ekki annað en að skoða stöðu Eystrasaltslandanna til að komast að því að stöðugt gegni tryggir ekki efnahagslega velgengni eða almenna hagsæld.  Atvinnuleysi hefur rokið þar upp, laun hafa lækkað gríðarlega og kreppan þar lítið á undanhaldi.

Ástandið í efnahagslegu tilliti og atvinnulega er heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir á Spáni eða Írlandi, þó að vissulega sé Euroið nokkuð stabíll gjaldmiðill.

Set hér inn til gamans línurit yfir gengi Kanadadollars gegn hinum Bandaríska starfsbróður sínum.  Línuritið sýnir þróunina síðastliðið ár.  Eins og sjá má eru sveiflurnar þó nokkrar (þó vissulega séu þær langt frá sveiflum Íslensku krónunnar á sama tíma), en Kanadíska bankakerfið er talið með þeim bestu í heimi og hér varð ekkert hrun.  Það er varla hægt að segja að kreppan hafi komið hingað.

Atvinnuleysi er hér á milli 8 og 9%, en hefur sjaldnast farið mikið niður fyrir 6% undanfarin ár.

UsC 1 ar

 

 

 

 

 

 

 

P.S. Línuritið er fengið að láni af vef Kaupþings.

 

 


mbl.is Krónan hefur sína kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg myndskreyting

Fréttir um niðurskurð eða samdrátt í heilbrigðiskerfinu er ábyggilega ekki það sem margir vildu helst lesa.  Fréttir um uppsagnir á vinnustað sínum gleðja heldur engan.

En líklega er staðan sú á Íslandi að velta þarf um hverju steini, þar er heilbrigðiskerfið ekki undanskilið.  Það er líka vert að hafa í huga að þó að fjárframlög færist til baka "nokkur ár", þá er ekki eins og steinöld hafi ríkt á þeim árum í Íslenska heilbrigðiskerfinu.  Það er heldur ekki saman sem merki á milli fjárútláta í heilbrigðisþjónust og gæða þjónustunnar.  Það kom skýrt fram í skýrslu sem unnin var um heilbrigðiskerfi í Evrópu.

En ég verð að segja að mér þykir myndskreytingin við þessa frétt nokkuð undarleg.  Framan af er hefðbundin myndskreyting, talað við lækna og starfsfólk sýnt að störfum.

Endirinn sýnir síðan Landsspítalahúsið á byggingastigi.  Ég velti fyrir mér hver er tilgangurinn með því að sýna húsið sem hálfkaraða byggingu?  Húsið sem skel með tómar gluggatóftir

Er verið að gefa í skyn að heilbrigðiskerfið muni ekki bera sitt barr, eftir niðurskurðinn?  Eftir verði tómar byggingar með takmarkaðri þjónustu?  Eða hverfur heilbrigðiskerfið aftur til þess tíma sem ríkti áður en Landsspítalinn var byggður?

Myndmál í fréttum er vissuleg vand með farið.


mbl.is Starfsfólk óttast uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akstur og SMS (ekki fyrir viðkvæma)

Fékk sendan hlekkinn á þetta myndband í dag.  Frábært myndband sem erfitt er að horfa á þó að vitneskjan um að þetta sé leikið sé fyrir hendi.

Eitthvað sem enginn vill þurfa að sjá, en allir ættu að hugsa um.  Það veitir svo sannarlega ekki af því að hafa hugann við aksturinn - alltaf.  Samt er það svo allgengt að sjá einstaklinga hér á hraðbrautunum, í símanum, sendandi smáskilaboð, borða, laga á sér "meikuppið" eða hárgreiðsluna, með hugann við eitthvað allt annað en aksturinn

 


Offramboð á peningum?

Þær eru býsna margar fréttirnar sem eru býsna misvísandi frá Íslandi þessa dagana.

Mikið hefur verið fjallað um nauðsyn þess að styrkja orðspor Íslands erlendis og fá erlent lánsfé til landsins til þess að efla atvinnulífið.

Þessi frétt segir hins vegar af því að Íslenska bankakerfið sé býsna bólgið af peningum.  En líklega eru bankarnir varfærnir, krefjast góðra áætlana og aðhaldssams reksturs.

Einhversstaðar sá ég að það vantaði í raun ekki fé á Íslandi, heldur góða fjárfestingarkosti.

Lánsfé virðist vera til innanlands, en skortur á góðum lántakendum. Ef til vill ekki ný saga.

En spurningin er ef ríkisstjórnin telur svo mikla þörf á því að fá erlent lánsfjármagn til Íslands, hverjum á að lána það? 

Hinu opinbera?

 


mbl.is Mikið laust fé í fjármálakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt líf á nýja Íslandi

Ég sá það á netflakki mínu í morgun að alþingismaður einn hefur áskilið sér rétt til að lögsækja bloggara einn, ef hann láti ekki af því að hafa uppi vangaveltur um að umræddur þingmaður (sem ég þori auðvitað ekki að nefna á nafn, af ótta við lögsókn) sé hugsanlega að ganga í Framsóknarflokkinn.

Umræddur þingmaður var, eftir mínum bestu heimildum, all lengi félagsmaður í Framsóknarflokknum og sóttist stíft eftir því að skipa efsta sæti á einum lista flokksins í síðustu kosningum.

En nú er það auðvitað ærumeiðandi að einhver skuli halda því fram að hann gangi hugsanlega í Framsóknarflokkinn.

Ef minni mitt svíkur ekki hefur sami þingmaður oft haft orð á nauðsyn frjálsrar umræðu og haft á takteinum orð eins og þöggun og því um líkt.

En nú mega bloggarar ekki velta því fyrir sér hvort þingmenn gangi hugsanlega í stjórnmálaflokka.

Það er vissuleg margt skrýtið í kýrhausnum, en líklega boðar þetta nýtt líf á nýja Íslandi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband