Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Á markaðnum í Tallinn

Lífið er frekar ljúft í Tallinn.  Þægilegt og náðugt.  Gærdeginum eyddum við Bjórárhjónin í gönguferð um gamla bæinn hér, eftir að hafa skilið ómegðina eftir í öruggri umsjá afa og ömmu, lúxus sem er því alltof sjaldan á boðstólum.

En gamli bærinn er alltaf jafn fallegur, þó að vissulega sé blettir þar sem annarsstaðar sem betrumbæta má, gott úrval af veitingastöðum, knæpum og kaffishúsum, þannig að ekki þarf að leita langt yfir skammt ef þorstinn gerir vart við sig.

Í gær var handverksmarkaður á torginu, flest sölufólkið klætt upp í samræmi og mikið úrval af handverki alls konar á boðstólum.  Konan keypti línsjöl og eitthvað annað smávegis, en ég var meira á nytsamlegri nótum og keypti villigaltar og dádýrapylsur.  Báðar algert lostæti.

Á markaðnum hittum við eldri hjón sem voru að skoða prjónlesið um leið og konan.  Þegar þau byrjuðu að spjalla saman og þegjandalegheitin í mér voru útskýrð með því að ég væri frá Íslandi og kynni ekkert í Eistnesku, vildu þau endilega taka í hendina á mér og þakka fyrir sig.  Stuðningur Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu Eistlands og að við skyldum vera fyrsta þjóðin til að viðurkenna endurheimt sjálfstæðis þeirra var þeim í fersku minni.  Þau sögðust ekki reikna með því að hitta neinn "offísíelt" Íslending, þannig að þakkirnir yrðu lagðar fram við mig.

Slíkar þakkir fékk ég oft þegar ég kom hér fyrst 2003, og fólkið hér gleymir ekki svo glatt því sem vel er við það gjört.

Síðan tók ég með með mér fasteignablað "heim" að lesa.  Fasteignamarkaðurinn hér hefur fallið um u.þ.b. 8 til 15%, mismunandi eftir hverfum, síðustu 12 mánuði.  Vissulega er það erfitt fyrir marga, en hér var verð orðið, og er að mörgu leyti enn, himinhátt og eiga flestir von á því að það falli meira.

Fólkið hér (alla vegna nágrannarnir sem ég hef hitt) virðist þó flest hafa skilning á því að það sé eðlilegt að leiðréttingar eigi sér stað og engan hef ég heyrt tala um að hið opinbera ætti að grípa inn í til að viðhalda háu verði.

En Bjórárfólkið hefur það allt ljómandi gott hér, börnin eltast við hunda og ketti nágrannana, sólin skín og grasið er grænt.  Ölið er líka ódýrt.

P.S.  Fljótlega reyni ég að setja eitthvað af myndum inn hér og/eða á Flickr síðuna.


Toronto - Tallinn, með smá hlykkjum og útúrdúrum

Það var á þriðjudaginn sem fjölskyldan lagði kát í bragði af stað frá Bjórá og upp á flugvöll í Toronto.  Flugvélin átti að fara í loftið um 9. um kvöldið, þannig að við vorum kominn á völlinn rétt um 6.  Allt leit vel út.  Ennþá.

En þá skall á þrumuveður og þegar það birti eftir þá törn, skall á annað skömmu síðar.  Þegar birti eftir það síðara var útlitið orðið allt annað, og það ekki einungis hvað veðrið varðaði.  Icelandairvélin hafði þurft að leita skjóls á flugvellinum í Hamilton og illa gekk að koma henni í loftið þaðan og þegar hún var þó komin, þurfti hún að bíða eftir því að geta lent í Toronto.  Það varð því drjúg bið á flugvellinum og klukkan að verða 1. þegar við loks lögðum af stað til Íslands.

Eins og oft vill verða þegar seinkanir verða var það versta að það var alltaf verið að fresta fluginu um 15 til 30 mínútur, þannig að tíminn varð varla nýttur til neins af gagni (svo sem að setjast niður og fá sér almennilega að borða) og þetta reyndi óþægilega á börnin sem alltaf varð að segja að það væri stutt í það að við legðum af stað.

En þegar um borð var komið byrjaði það vel, við fjögur höfðum 6. sæti fyrir okkur (eftir að flugfreyjurnar voru svo almennilegar að spyrja einn farþega hvort að hann vildi vera svo vænn að færa sig um set og gefa okkur þannig meira pláss), þannig að það var útlit fyrir að börnin gætu haft það gott.  Nýjir sjónvarpsskjáir blöstu við á hverju sætisbaki þannig að það var útlit fyrir að auðvelt yrði að hafa ofan af fyrir börnunum þangað til þau sofnuðu. 

En stundum er útlitið ekki eins gott og það lítur út fyrir að vera.  Sjónvörpin öðru megin við ganginn virkuðu alls ekki og það sem verra var, það var ekki hægt að lyfta örmunum í sætunum þannig að þegar börnin loks sofnuðu, var ekki hægt að búa þeim verulega þægilega hvílu.  Þau sváfu því bæði verr og styttra en ella.

Viðhaldsdeildin hjá Icelandair fær því ekki mjög háa einkunn frá okkur að Bjórá, en starfsfólkið um borð var hins vegar í fyrsta klassa og vildi allt fyrir okkur gera og aðstoðaði okkur á allan hugsanlegan máta.

Það var auðvitað ljóst löngu áður en við lentum í Keflavík að við hefðum misst af tengiflugi okkar til Helsinki.  En starfsfólk Icelandair var reiðubúið með nýja áætlun þegar við lentum.  Hún gekk út á það að fljúga til Osló, og þaðan til Helsinki.  Þar sem krakkarnir voru orðin bæði þreytt og pirruð spurðum við hvort að það væru einhver önnur ráð, t.d. að fljúga til Helsinki daginn eftir.  En ekkert beint flug er til Helsinki á fimmtudögum og allt fullt var í flug þangað á föstudag.  Það varð þó úr að við þáðum boð Icelandair um að við gistum eina nótt á Flughótel í Keflavík og flygjum síðan Osló - Keflavík daginn eftir.  Enn og aftur var afar þægilegt að eiga við starfsfólk Icelandair og það leysti málin á fumlausan og sanngjarnan hátt.

Með þessu náðum við að hvíla börnin og hlaða batteríin og náðum sömuleiðis frábærum kvöldverði í Hafnarfirðinum sem var endurnærandi bæði fyrir líkama og sál.

Fimmtudaginn hófst svo stuttu fyrir kl. 5. um morgunin, pakkað, gengið frá og örlítið úrill börn vakin og klædd.  Síðan var haldið upp í flugstöð.  Eftir frekar erfiða innritun, þar sem starfsfólkið virtist ekki alveg skilja það sem starfsfólkið hafði gert daginn áður komumst við af stað og eftir einhverja seinkun á leiðinni til Osló, stóðst það upp á sekúndu að þegar við höfðum gengið frá Icelandairvélinni að hliðinu þaðan sem Finnair fór frá (með stoppi fyrir vopna og vökvaleit) þá var verið að loka liðinu og við rétt sluppum um borð.

Jóhanna var reyndar orðin svolítið pirruð, enda kanna hún því akaflega illa að vera "bundin" niður við lendingu og flugtak.  En stuttu síðar lentum við í Helskinki og tókum leigubíl beint niður að höfn og keyptum okkur miða í ferjuna.  Upphaflega áætlunin var reyndar að stoppa 2 til 3 daga í Turku, en þar sem seinkunin setti allt úr skorðum, og vinafólk okkar sem ætlaði að ná í okkur á flugvöllinn átti ekki heimangengt, var áætluninni breytt og haldið beint til Eistlands.

Þangað vorum við komin með ferjunni rétt fyrir 9. um kvöldið (Eistland er 3. tímum á undan tímalega séð) og ekki löngu seinna voru börnin farin að úða í sig "ömmumatnum" og stutt eftir það liðu allir út af.

Allir sváfu síðan frameftir í dag og vöknuðu um hádegisbilið.  Eftir stuttan göngutúr um nágrennið eldaði ég síðan Íslenska ýsu handa öllum og nú er kvöldið að færast aftur yfir, Jóhanna sofnuð en Foringinn streytist enn aðeins við.

Fljótlega verðum við svo komin á rétt ról.


Lýsir úran Saddams upp Bjórá í vetur?

Þetta er nokkuð merkileg frétt og um er að ræða þó nokkuð mikið magn af úrani, eða um 550 tonn af svokallaðri "gulköku".

Kaupandinn er Kanadíska fyrirtækið Cameco, sem mun vera stærsti úran framleiðandi í heimi eftir því sem ég kemst næst.

"Gulkakan" mun víst hafa verið flutt með skipi til Montreal, en þaðan mun leið hennar liggja til Blind River, en þann spöl fer hún með flutningabílum og þarf víst um 50 slíka til.  Þar verður þessu hráefni breytt í eldsneyti fyrir orkumframleiðslu, en u.þ.b. 50% af þeirri orku sem er notuð hér í Ontario kemur frá kjarnorkuverum.

Það er því einhverjar líkur á því að úran Saddams lýsi Bjórá upp í skammdeginu.

En hér eru nánari fréttir af þessum flutningum, Globe and Mail og National Post.


mbl.is Úran flutt frá Írak til Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súmi, Eesti og Ísland

Þá er að koma að því að Bjórárfjölskyldan leggi land undir fót og haldi til Evrópu.  Það er allt að verða klárt og spennan fer stöðugt vaxandi, sérstaklega finnst Foringjanum tímabært að halda af stað. Búið að finna eftirlitsmann með húsinu og langt komið að pakka.

En það verður flogið héðan frá Toronto annað kvöld, stutt stopp á Íslandi á miðvikudagsmorgun, rétt um einn og hálfur tími og síðan haldið til Helsinki.  Þaðan verður haldið landleiðina til Turku.  Síðan verður tekin ferja yfir til Eistlands annað hvort föstudag eða laugardag.

Mestum tíma verður eytt á meginlandinu, en meiningin er þó að eyða nokkrum tíma á Saaremaa (Eysýslu), eyju þar vestur af ströndinni. 

Síðan verður stoppað nokkra daga á Íslandi á heimleiðinni, í byrjun ágúst.

En þetta er í marga staði nokkuð merkileg ferð.  Þetta er í fyrsta sinn sem blessuð börnin koma til Eistlands, jafnframt fyrsta sinn sem Jóhanna kemur til Íslands og við þrjú sömuleiðis að koma í fyrsta sinn til Finnlands.

Þeir dagar sem ég dvel í Finnlandi verða reyndar í þeir fyrstu sem ég dvel í landi þar sem euro er gjaldmiðill.   Við keyptum 300 í bankanum í dag. 

Spennan er svo ekki síst hvernig gengur að ferðast með börnin, sérstaklega Jóhönnu litlu.  Það verður vissulega auðveldara ef við verðum í vél þar sem búið er að setja sjónvarpsskjái fyrir hvert sæti, en svo verður reyndar ferðatölvan með í för, þannig að hægt verði að slengja mynd í ef í harðbakkann slær.  Svo vonumst við auðvitað eftir að þau sofi sem mest.

En þetta ferðalag verður til þess að líklegast verður einhver óregla á þessu bloggi (ef ekki sömuleiðis bloggaranum) en þó verðum við vonandi í þokkalegu netsambandi megnið af tímanum, en eftir því sem mér skilst er er mikið af "heitum reitum" í Eistlandi og flestir opnir og ókeypis. En við sjáum til.


Skemmtilegt en samt svo slæmt

Silverstone kappaksturinn var ákaflega skemmtilegur áhorfs.  Hamilton vann ákaflega sanngjarnan og verðskuldaðan sigur, frábær ræsing og góður akstur. Frammistaða Ferrarimanna var eitthvað sem enginn vill leggja á minnið en er samt svo nauðsynlegt að gera.

Heidfeld átti góðan dag fyrir BMW en Kubica missti af upplögðu tækifæri til að taka forystuna titilslagnum á ný.  Maður dagsins var gamla brýnið Barrichello, þriðja sætið er stórkostlegur árangur fyrir hann.  Það eru margir sem reikna með því að hann leggi stýrið á hilluna eftir þetta tímabil, en hann sýndi að hann er enn þess megnugur að hala inn stig og myndi líklega gera meira af því ef Honda næði að setja samkeppnishæfan bíl undir hann og Button.

Það var eiginlega ótrúlegt að horfa á Ferrari kasta frá sér möguleikanum á því að keppa um sigurinn.  Að halda dekkjunum virkaði á mig sem ótrúleg áhætta, sérstaklega þar sem við sjónvarpsáhorfendur höfðum heyrt fleiri en eitt lið fullyrða í talstöðina að rigning væri væntanleg á næstu 5 mínútum.  Um Massa þarf lítið að ræða, akstur hans var einhver dýrasti tími í "spinning" sem um getur.  Að eiga síðasta bíl í mark er ekki eitthvað sem við erum vanir.  Hreinlega skammarlegt.

Þegar horft er á Ferrari gera mistök í þjónustuhléum og hafa tapað því forskoti sem þeir oft höfðu hvað varðar keppnisáætlanir, er ekki laust við að ég gjói augunum til Brawn, sem að því er virðist stýrði Barrichello nokkuð örugglega í þriðja sætið og hefði líklega náð 2. ef bensíndælan hefði ekki staðið eitthvað á sér.

En ljósi punkturinn er að titilkeppnin er galopin, 3. jafnir, Kubica skammt undan og Heidfeld þarf ekki mörg "breik" til að eiga möguleika á að blanda sér í keppnina.  Það er því nokkuð ljóst að seinnihluti mótaraðarinnar verður skemmtilegur og hver einast kappakstur telur, "big time" og hver mistök sömuleiðis.  Það er því líklegt að þetta verði hörkubarátta allt til síðasta móts.

 


mbl.is Hamilton fyrsti enski ökuþórinn sem sigrar í 13 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð magnað

Ég gat ekki horft á tímatökuna í morgun.  Þurfti að sinna öðrum róm.  Þurfti að keyra konuna í vinnuna í morgun, og einhversstaðar á leiðinni tókst mér að aka yfir skrúfu og festa hana í hjólbarðanum hjá mér.

Heilmikil vandræði, ég með ómegðina í bílnum, tókst að renna að næsta dekkjaverkstæði, og fá þar dekk við hæfi.  ÞUrfti þó að losa og taka undan og setja undir sjálfur.  Ómegðin lét auðvitað öllum illum látum á meðan, og Foringinn vissi auðvitað allt um hvernig skipta á um dekk.

En þetta hafðist allt að lokum.

En ég sé ég hef misst af góðum tímatökum, eða þannig.  Kovalainen á pól og Webber í öðru sæti.  Vissulega tíðindi.  Raikkonen í þriðja og þar af leiðandi 2. Finnar í þremur efstu sætunum sem verður að teljast harla gott.  Ég hlýt því að hitta á Finnana í góðu skapi er ég held þangað á þriðjudaginn, þ.e.a.s. ef þeir klúðra ekki keppninni.

Síðan eru þetta "the usual suspects", nema að það vekur nokkra athygli að Vettel nær 8. sætinu og Massa er í því 9.  Eftir því sem ég les á vefnum má rekja orsakir þess til mistaka í þjónustuhléi og þess að hann náði ekki að fara "aðra ferð"

En þetta ætti að þýða að keppnin verði spennandi á morgun.  Eins og oftast er mesta spennan fram að fyrstu þjónustuhléum og það fer að koma í ljós hvað er á tönkunum og hvernig keppnisáætlunin er.  Það er ljóst að Massa ætti að hafa bensín á nokkra hringi umfram, úr því að hann fór ekki af stað í aðra tilraun, en það verður fróðlegt að sjá hvað Kovalainen og Webber keyra langt inn í keppnina.

 


mbl.is Kovalainen í fyrsta sinn á ferlinum á ráspól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DC á útleið

Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að David Coulthard ætli að hætta.  Hann var einn af ökumönnunum sem var þegar ég byrjaði að horfa á Formúluna, árið 1995 hafði byrjað að aka áríð áður.

En í minninu tengist hann best þeim árum þegar hann ók við hlið Mika Hakkinen hjá McLaren.  Árin hans hjá McLaren voru níu að ég held og þar náði hann hápunkti ferils síns.

Þrettán sigrar (ekki endanlega útséð hvað þeir verða margir) á fimmtán árum telst ef til vill ekki gríðarlegur árangur, en sýnir vel hvernig Formúlan er.  Margir góðir ökumenn, en fáir meistarar.  Coulthard er ekki einn af meisturunum, en setti samt svip sinn á Formúluna.

En yfirlýsingu DC sjálfs má lesa hér.


mbl.is Coulthard á útleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsmaður fyrir Umhverfisráðuneytið?

1369845Rakst á þessa skemmtilegu frétt þegar ég var að þvælast um á netinu.  Í ljósi atburða í Skagafirði undanfarnar vikur, datt mér að sjálfsögðu í hug að þarna væri kominn maður sem smellpassaði í vinnu hjá Umhverfisráðuneytinu.  Ég hugsa að Þórunn Birna yrði ekki svikin af slíkum hugsjónamanni.

Eins og kemur fram í fréttinni, hljóp bangsi í sjóinn eftir að hafa verið skotinn með deyfilyfi.  Adam Warwick, varð þá ljóst að dýrið var í hættu og skutlaði sér á eftir því eftir að hafa svipt sig klæðum.

Er það ekki nákvæmlega svona maður sem ráðuneytið þarf á að halda í stöðu bjarndýraeftirlitsmanns á Íslandi?

 


Fríðindi fyrir þá sem ferðast

Ég get ekki gert að því að mér þykir það skjóta nokkuð skökku við að fríðindi þeirra sem ferðast skuli vera aukin.  Ég hef aldrei skilið hvað er svona merkilegt við það að ferðast að þeir sem það gera eigi að greiða minna til samfélagsins en þeir sem heima sitja.

Auðvitað væri nær að stefna að því að lækka og fella niður sem mest af tollum, vörugjöldum, virðisaukaskatti og þar fram eftir götunum.  Þá gætu ferðamenn komið með vörur sínar inn í landið gegn hóflegu gjaldi og hvatinn til smygls og annars slíkt væri mikið mun minni.  En það er best að allir sitji við sama borð, hvort sem þeir eru að koma með varning úr ferðalagi, panta hann á internetinu, eða eru að flytja hann inn til endursölu.

Tökum dæmi af því að ferðmaður komi hingað til Kanada og kaupi geisladiska fyrir 65.000 krónur.  Fyrir þá upphæð getur hann keypt u.þ.b. 55 diska. (algengt verð á geisladiskum er hér 10 til 17 dollarar).

Þetta flytur hann með sér heim og borgar engan virðisaukaskatt eða toll. Heildarkostnaður er því um 65.000 krónur.

Sá sem pantaði sama magn af netinu, þarf hinsvegar að greiða 10% toll og 7% virðisaukaskatt sem þar að auki er lagður ofan og flutningsgjald.  Það sama þarf síðan sá sem ætlar að flytja inn geisladiska til endursölu að gera.

Munurinn er eins og flestir þekkja ennþá meiri á áfengi, þannig að sparnaðurinn getur verið umtalsverður.

Þeir sem ferðast mikið geta þannig keypt áfengi, tóbak og ýmsan annan varning að þeir þurfa lítið sem ekkert að versla heima fyrir og greiða þannig mun minna en þeir sem heima sitja til samfélagsins í formi tolla, vörugjalda, vínandaskatts og svo má lengi áfram telja.

Staðan er líklega sú á Íslandi í dag að ef einstaklingur hyggst kaupa sér dýrari gerðir af Ipod er það líklega spurning hvort að það borgi sig ekki að skella sér í ferð til útlanda og kaupa gripinn þar, sérstakelga þar sem kaupa má tolfrjálst áfengi og sitthvað smálegt í sömu ferð, án þess að greiða krónu í toll, vörugjöld, vínandaskatt, stefskatt og "svo videre"...

Eðilegt?  Ég held ekki.

Auðvitað þarf að fella niður og lækka tolla vörugjöld og önnur sérgjöld, þannig að sem flestir sitji við sama borð þegar vörur eru fluttar til landsins.

Það er engin ástæða til að ívilna þeim sem ferðast umfram aðra.

P.S.  Einhversstaðar las ég að þetta væri eitt af þeim ákvæðum sem kæmi til Íslendinga fyrir tilstillan EES, um það veit ég ekki, en mér finnst það í raun jafn vitlaust hvernig sem það er tilkomið.


mbl.is Meira góss og meira vín tollfrjálst með nýrri reglugerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök

Ég lít á sem að hér sé ríkisstjórnin að gera mistök.  Réttara hefði verið að stíga skrefið til fulls og afnema stimpilgjöld alfarið.  Flokkanir sem þessi eru aldrei af hinu góða.

Það á einfaldlega að reyna að hafa lög og reglulgerðir sem einfaldastar og ekki að mismuna þegnum eftir eignastöðu, eða því hvernig eignastaðan kunni að hafa verið fyrir einhverjum árum síðan.

Vissulega þarf ríkið á tekjum að halda, en það væri betra að taka þær annarsstaðar. 

Og auðvitað hefja löngu tímabæran niðurskurð á ríkisútgjöldum, sem væri ennþá betra.


mbl.is Stimpilgjöldin afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband