Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Skýr skilaboð frá "Sambandinu"

Þau koma nú hvert á eftir öðru skýru skilaboðin frá "Sambandinu".

Fyrst komu skilaboðin hvað varðaði IceSave, eftir því mátti skilja á sumum fréttum var EEA/EES samningurinn lagður þar undir af hálfu "Sambandsins", en alla vegna var ljóst að skilaboðin voru skýr.

Nú koma svo skýr skilaboð frá "Íslandsvininum" Olli Rehn, en hann fer víst með "útþennslumál" á vegum "Sambandsins".

Eftir því sem ráða má af fréttum er Olli með skýr skilaboð til Íslendinga.  Það muni taka u.þ.b. 4. ár fyrir Íslendinga að ganga inn í "Sambandið", ef óskað verði eftir inngöngu fljótlega.

Enginn verulegur afsláttur verði gefinn af fiskveiðistefnu "Sambandsins".  Þannig verði Íslendingar að lúta sameiginlegri fiskveiðistefnu, þó að ekki sé útilokað að einhver aðlögunartími verði gefinn.

Það liggur sömuleiðis nokkuð ljóst fyrir að upptaka euro yrði líklega ekki fyrr en Ísland væri búið að vera í "Sambandinu" 2. ár eða lengur.

Þetta gengur reyndar þvert á það sem hinir innlendu trúboðar hafa haldið fram undanfarnar vikur og reyndar nokkuð á skjön við það sem Olli sjálfur sagði í upphafi október, en líklega hefur eitthvað breyst síðan þá.

En það væri óskandi að þessar yfirlýsingar Olla verði til þess að Íslenskir stjórnmálamenn sættist á að setja þetta mál til hliðar, bretti upp ermar og einhendi sér í uppbygginguna á Íslandi, verji og berjist fyrir krónunni og Íslenskum efnahag.

"Sambandsaðild" má svo ræða seinna á árinu, eða á því næsta,  þegar Íslendingar verða komnir betur fyrir vind.


Fréttamaður handtekinn fyrir að "tala niður" gjaldmiðilinn

Ef marka má þessa frétt var Lettneskur fréttamaður handtekinn fyrir að dreifa "sögusögnum" um hugsanlega gengisfellingu "latsins".

Það kemur fram að um tvö tilfelli sé að ræða, þar  sem "glæparannsókn" hefur verið hafin. 

Það kemur líka fram í fréttinni að lögreglan hafi farið fram á það við fjölmiðla að þeir birti eingöngu fréttir af "latinu" sem hafi verið "lesnar yfir".

Sömuleiðis kemur fram í fréttinni að Lettneska þingið hafi á síðasta ári samþykkt lög sem banni dreifingu "orðróms" um gengisfellingu "latsins".  Sé "orðróminum" komið af stað með það að markmiði að hagnast persónulega, er refsingin þyngri.  Hámarksrefsing mun vera 6. ára fangelsi.

Það er varla að ég trúi því að ég sé að lesa fréttir frá árinu 2008 og það frá landi sem eru í Evrópu og "Sambandinu".

En það er ljóst að ríki (og alþingismenn) taka gjaldmiðla sína misjafnlega alvarlega.


Krónan fer niður og síðan upp. Öryggisventlar þurfa að geta blásið

Auðvitað gefur Seðlabankinn ekki upp hvernig verður staðið að inngripum á gjaldeyrismarkaði.  Það væri algerlega galið.  Það væri rétt eins og að setja upplýsingar um þjófavarnakerfi utan á hús.

En ég vona að ígripin verði ekki mikil, krónunni verði leyft að falla, það er alger óþarfi að vernda verðgildi þess fjármagns sem vill fara úr landi með hraði.  Það er best að eigendur þess taki með sér eins lítil verðmæti og kostur er.

Ég held því (og vona) að varnir verði ekki miklar fyrst eftir að krónunni verði fleytt, það er eðlilegast að þessum öryggisventli, sem gengi gjaldmiðils er, verði leyft að blása.  Ef þetta er gert jafngildir þetta að vissu leyti skatti á gjaldeyrisútflutning sem sumir hafa mælt með.

En gjaldmiðill endurspeglar gengi þjóðar, eða ætti að gera það.

En eigin mynt býður upp á marga möguleika, eins og flest annað eru sumir þeirra góðir og aðrir síðri.

Eigin mynt getur t.d. gert fjármagnsflótta frá landinu erfiðari og kostnaðarsamari.  Það er erfiðara að flytja stórar upphæðir úr landinu (nema að hafa áhrif á gengið) þegar um sjálfstæðan gjaldmiðil er að ræða.  Það er t.d. erfiðara fyrir einstaklinga, nú eða fyrirtæki, að selja allt sitt og flytja verðmætin úr landi.  Það sama gildir um sparifé.

Sumir myndu kalla þetta átthagafjötra, en aðrir myndu segja að þetta sé öryggisventill.

Kosturinn við "óvissuna" er að margir munu hætta við að flytja fjármag, eða gera það yfir lengri tíma, minna í einu.  Taka áhættu með í það minnsta hluta, bíða eftir hagstæðara gengi.

En það er nokkuð öruggt að mínu mati að krónan fellur, og það býsna langt, en hún mun rísa aftur, enda er útflutningur frá landinu nokkuð stöðugur, en innflutningur dregst saman.

Gengisfallið mun styrkja Íslenskan iðnað, Íslenska framleiðslu, Íslenskan útflutning.  Meira að segja útflutningur á landbúnaðarafurðum mun ef til vill um einhverja hríð verða fýsilegur.

Þetta mun hjálpa Íslendingum í að berjast við atvinnuleysið, það verðu án efa mikið, en gengisfallið mun draga úr því og flýta fyrir því að það dragist saman.

Hefði hér verið erlendur gjaldmiðill, væri dæmið á hinn veginn, ættu verðmætin greiðari leið úr landi, fyrirtækin hefðu átt tvo kosti, lækka laun um tugi prósenta eða segja upp fólki, mörg hefðu þurft að nota þá báða, atvinnuleysi yrði mun meira og langvinnara.

Það er nokkuð ljóst að sama hvernig fer, sama hvort að "Sambands" aðild verður ofan á eður ei, að krónan er sá gjaldmiðill sem Íslendingar munu nota, í það minnsta í u.þ.b. 6. ár, líklega mun lengur.  Það skiptir því miklu máli hvernig tekst til með endureisn hennar.

Það getur ekki gengið að frammámenn í Íslensku þjóðlífi, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra, iðnaðarráðherra og forsvarsmenn atvinnulífsins séu í sífellu að tala gjaldmiðilinn niður, tala um að hann sé ónýtur.

Slíkum spám er hætt við að rætast vegna eigin áhrifa.


mbl.is Óvissa um inngrip á gjaldeyrismarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir voru hvar?

Það er hálf kómískt að fylgjast með Íslenskum stjórnmálum þessa dagana, líklega væri þó tragikómískt betra orð.

Flestir ráðamenn virðast hafa verið á fjöllum en ekki fundum.  Nema auðvitað einstaka aðili sem kannast við að fundir hafi verið haldnir.  Til dæmis Ingibjörg Sólrún sem man eftir því að hafa mætt á 6. fundi þar sem ræddar voru blikur í efnahagslífinu og erfið staða bankanna.

Iðnaðarráðherra man ekki eftir því að hafa heyrt um slíka fundi enda var hann líklega önnum kafinn í herferð sinni "milljarðana heim", en eins og flestir muna var það eingöngu formsatriðið að sækja þá til Afríku og Asíu með "útrásinni".  Hugsanlega hafa þó "6. menningarnir" í Sjálfstæðisflokknum hindrað þessa glæsilegu uppbyggingu á vegum Geysir Green og Orkuveitunnar.

Það er því ekki að furða að Iðnaðarráðherra hafi kosið að snúa sér að olíuleit.  Þar eru enda svo margir milljarðar í spilinu, að afrakstur bæði "orkuútrásarinnar" og laxeldisins blikna þar í samanburði og það þó hann væri lagður saman.

Bankamálaráðherrann man heldur ekki eftir neinum fundum þar sem fjallað um erfiða stöðu bankanna.  Þar virðist hann segja sannleikann, því ef marka má heimasíðu hans (sem nú er búið að loka) var hann að skrifa lofgjörðir um bankana og "útrás" þeirra fram í september, þannig að hafi hann verið á fundinum, hefur hann alla vegna ekki hlustað eða tekið glósur.

En samkvæmt fréttinni sem fylgir hér með, er ekki ennþá komið á hreint hverjir af ráðherrunum voru á fjöllum og hverjir voru á fundinum, því svo segir í fréttinni, og takið eftir skammstöfuninni, a.m.k.:

Kristján segir að a.m.k. þrír ráðherrar, þau Geir H. Haarde forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra, hafi setið fundinn með seðlabankamönnum.

Svo má líka velta því fyrir sér hvort að það sé tilviljun að um svipað leyti voru bankamenn komnir í óðaönn við að stofna einkahlutafélög utan um hlutabréfaeign sína. 

Ef til vill hefur líka runnið upp fyrir þeim að staða bankanna væri ekki eins góð og af hafði verið látið.  En þeir, ólíkt stjórnmálamönnunum, héldu sig ekki á fjöllunum, heldur gerðu eitthvað í sínum málum.

P.S.  Mér hefur hingað til verið hulinn tilgangur Samfylkingarinnar með því að tefla fram jafn veikum varaformanni og raun ber vitni.  En nú kemur þetta sér vel fyrir Ingibjörgu.  Skynsamir menn sjá að það myndi gera illt verra að krefjast afsagnar hennar.

 


mbl.is Handrit Seðlabanka ekki skilið eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti Framsóknarmaðurinn?

Tilfinningin sem ég fæ er að ég sé að horfa á síðasta Framsóknarmanninn ganga út í sólarlagið, fara heim í sveitina.

Það verða ekki til fleiri framsóknarmenn, ekki eins og "við þekkjum þá".  "Vörumerkið" verður ennþá til, en það verður ekki eins, Guðni tekur "framsóknarmennskuna" með sér heim.  Margir munu án efa telja það til góðs, aðrir fyllast eftirsjá.

En þessi fyrrum "dauðalistamaður" hættir með reisn, óvænt, því engin viðvörun kom, en með reisn.  Ólíkt þeim tveim formönnum sem voru á undan honum, hættir hann á eigin forsendum, án aðstoðar "spunameistaranna" og gengur hnarreistur sinn veg.

Ég hef ekki stutt Guðna, eða pólítík hans, hef alla tíð verið henni afhuga.  En ég held að reisn Guðna hafi aldrei verið meiri en í dag. 

En hvert leið Framsóknarflokksins liggur er erfiðara að spá um.  Einhvern veginn finnst mér þó liggja beinast við að segja að hún verði niður á við, en um slíkt er þó of snemmt að fullyrða.

En hvað skyldi vera pláss fyrir marga miðjusækna stjórnmálaflokka sem hyggja á "Sambands" aðild á Íslandi?


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama Wagon(er)....

Ég er ófeiminn við að viðurkenna að ég var ekki einn af stuðningsmönnum Baracks Obama, það var reyndar ekki hægt að segja að ég væri stuðningsmaður John McCaine heldur, en þó reikna ég með að ég hefði endað með því að kjósa hann, hefði ég dröslast á kjörstað, hefði ég haft kosningarétt í Bandaríkjunum.

Hvorugur frambjóðandinn þótti mér góður kostur, þó að því verði heldur ekki neitað að báðir höfðu ýmislegt fram að færa.

Obama var óneitanlega "symbólískari" og gaf í kosningabaráttunni meiri vonir um breytingar, en það má svo aftur deila um hvort að breytingarnar væru allar í rétta átt.

Ein af þeim breytingum sem hann léði máls á í kosningabaráttunni og féll í frekan grýttan jarðveg hjá mér, var loforð hans um að endurskoða NAFTA samninginn, með það í fyrirrúmi að flytja/varðveita störf í Bandaríkjunum og svo þær vísbendingar sem hann af í þá átt að vilja vernda Bandarískan iðnað gegn samkeppni.

Eitt af sem vissulega styrkir þá tilfinningu að Obama stefni í ranga átt, er vilji hans og demókratat til þess að setja risavaxnar fjárhæðir til þess að bjarga troiku Bandarísks bílaiðnaðar, General Motors, Chrysler og Ford.

Ef til vill er það vísbending um það sem koma skal. 

En það þarf þó ekki að vera að það gildi yfir allt sviðið.  Bílaiðnaðurinn er líklega Obama hugleiknari en margur annar iðnaður.  Ameríski bílaiðnaðurinn ver einhver verkalýðsfélagavæddasti iðnaður Bandaríkjanna, og þar á Obama stóran part af sínum dyggustu stuðnings og styrktaraðilum.

Því er Obama líklega líklegri til að "gefa" bílafyrirtækjunum fé heldur en mörgum öðrum fyrirtækjum og styðja þannig við verkalýðsfélögin sem að mörgu leyti hafa kverkatak á bílafyrirtækjunum.  Bílafyrirækin eru því afar mikilvæg fyrir verkalýðsfélögin, sem hafa verið á meðal helstu stuðningsaðila Demókratflokksisn og Obama.  Að mörgu leyti eru bílafyrirtækin mikilvægari fyrir verkalýðsfélögin, heldur en þau eru fyrir Bandaríkin sjálf.

Þessi ákafi Obama og "kratanna" er því að mörgu leyti áhyggjuefni, það boðar aldrei gott þegar hið opinbera er reiðubúið að henda risavöxnum fjárhæðum til einstakra fyrirtækja.

Það höfum við íbúar Ontario þegar reynt, og það með nákvæmlega sömu fyrirtækin, í bílaframleiðslu.

 

 

 


Að skipta um peningamálastefnu

Það hefur mikið verið í umræðunni á Íslandi að það þurfi að skipta um peningamálastefnu.  Það eru flestir ef ekki næstum allir sammála um það.  Það hefur mátt heyra alvörugefna stjórnmálamenn fullyrða þetta, ábúðarmiklir hagfræðingar hafa sagt þetta nauðsyn og áköl um þessi "skipti" hafa endurómað í fjölmiðlum og bloggheimum.

Fæstir hafa hins vegar sagt á hvaða hátt þeir vilja breyta peningamálastefnunni, þeir hafa látið nægja að segja að nauðsyn sé að breyta henni.

Allmargir hafa hins vegar látið að því liggja að samfara þessum "skiptum" verði að skipta um "áhöfn" í Seðalbankanum.

Í raun er það hins vegar alls ekki "áhöfnin" í Seðlabankanum sem ræður peningamálastefnunni, ekki frekar en "áhöfnin á Halastjörnunni".

Peningamálastefnan er mörkuð af Alþingi, þar eru (og hafa verið) samþykkt lög um Seðlabankann, þar með talinn markmið hans.

Þannig segir um markmið Seðlabankans, í lögum um hann frá 2001:

3. gr. Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu.

Þessi lög má sjá hér Umræður um lögin má sjá hér, en þessi lög voru samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum, 7 þingmenn voru fjarstaddir.

Það sem þarf að gerast til þess að skipt sé um peningamálastefnu er að Alþingi samþykki slíkar breytingar, þá er "áhöfninni" í Seðlabankanum skylt að vinna eftir þeim lögum.

Svo má vissulega deila um hvernig "áhöfninni" hefur gengið að ná markmiðum laganna, það er í raun allt annar handleggur, en það má líka deila um hvaða verkfærum þeim hefur verið úthlutað til að ná markmiðunum.


Skógarhöggsmaðurinn

Deginum eyddi ég að mestu í garðinum, við að saga niður trjágreinar og klippa runna og annað slíkt.  Ætli ég hefi ekki sagað niður eins og 10 eða 12 býsna stórar greinar.

Síðan þurfti að klippa herlegheitin í litla búta og koma fyrir í pokum.  Vænustu bútunum var haldið til haga til að gefa nágrönnunum sem hafa arinn til að brenna slíku.

Því er lag dagsins Breskt með Kanadísku ívafi, það er að segja lagið "I Want To Be A Lumberjack", með Bresku snillingunum í Monty Python.

 


Viltu vera Seðlabankastjóri?

Ekkert starf hefur verið umtalaðra undanfarnar vikur og mánuði en starf Seðlabankastjóra.  Hversu skemmtilegt væri það ekki að ráða vaxtastiginu í landinu?

Hvað áhrif hefur vaxtastigið?  Hvað gerist ef þú hækkar vextina upp úr öllu valdi? Hvað gerist ef þeir eru langt undir verðbólgu?

Á þessari síðu sem er frá Finnlandi eru leikmenn Seðlabankastjórar og stjórna vaxtastiginu.  Það hefur að sjálfsögðu bein áhrif á efnahagslífið.

Auðvitað er um einföldun að ræða, þar sem leikmaðurinn stjórnar eingöngu vaxtastiginu, en þó má deila um það hversu mikið fleiri stjórnunartæki Seðlabankinn hefur í raunveruleikanum yfir að ræða.


Sambandsparadísin hans Árna Páls - annar hluti

Það er rétt rúmur mánaður síðan það birtist frétt á vef Viðskiptablaðsins þar sem þingmaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, fullyrti að yfirlýsing um Evrópusambandsaðild væri töfralausn fyrir Íslenskt efnahagslíf.  Tók hann sérstaklega fram hvað það hefði reynst Eystrasaltslöndunum vel.

Ég bloggaði nokkuð um þessa frétt þegar hún birtisti, en það má lesa hér

En hvernig skyldi Eystrasaltslöndunum vegna í kreppunni?

Rétt eins og annars staðar í veröldinni hefur leiðin hjá þessum "Sambandsríkjum" legið niður á við, enda vart við öðru að búast eins og aðstæður eru.

Fjármálaráðuneytið í Eistlandi spáir því að atvinnuleysið verði orðið 9% í vor, Lettneska ríkisstjórnin varð að taka ráðandi hlut í  næst stærsta banka landsins, Parex Bank.  Eftir því sem fréttir herma greiddi hún 2. lati fyrir þennan helmingshlut, en það er eitthvað í kringum 400 krónur Íslenskar nú á dögum lága gengisins.  Athugið að í fréttinni er ekki minnst á að til greina hafi komið að Evrópski seðlabankinn hafi komið að málinu, sem lánveitandi til þrautavara (Lettland er ekki með euro, en í ERM2), heldur er það ríkisstjórnin sem gengur í málið.

Eistland og Lettland eru þegar komin í efnahagslegan samdrátt og reiknað er með að Litháen bíði það hlutskipti á næsta ári.  Eistneskur efnahagur dróst saman um 3.3% á þriðja árfjórðungi og er það versti árangur í efnahagsmálum síðan 1994.  Samdrátturinn í Lettlandi á sama tímabili varð 4.2%

Sjá má í fjölmiðlum ótta þess efnis að skuldabréf hins opinbera í Lettlandi falli niður í "junk" flokkinn, rétt eins og kom fyrir "Sambands" meðliminn Rúmeníu.

Háværar raddir eru uppi um að Eystrasaltslöndin muni neyðast til að "fella gengið", en þau eru eins og flestum er kunnug meðlimir í ERM2, og með gjaldmiðill sinn festan við euro.  Seðlabankarnir segja þetta þó fráleita niðurstöðu.

Lesa mátti eftirfarandi í frétt Bloomberg:

Countries aiming to adopt the euro must spend at least two years in the Exchange Rate Mechanism, or ERM-2, to demonstrate currency stability. Lithuania and Estonia began participating in the system in 2004, the same year they entered the European Union. Latvia joined a year later. The Lithuanian litas is pegged at 3.4528 per euro and the kroon at 15.6466.

``If they devalue, their ERM-2 test period is reset to zero, so they'll stay there for at least another 24 months before euro entry,'' Hauner said.

Thwarted

Lithuania's ambition to be among the first countries in eastern Europe to adopt the common currency was thwarted in May 2006 as inflation accelerated. Estonia and Latvia were also forced to delay the changeover.

Euro candidates need to cap inflation to within 1.5 percentage points above the 12-month average of the three EU nations with the slowest price growth. Inflation in Lithuania was 10.5 percent in October, and in Estonia 9.8 percent. In Latvia, it was 13.8 percent. The average rate in the euro region is 3.6 percent.

``If your real exchange rate is overvalued, there are two options: either devalue, or accept a recession to make inflation fall relative to the trading partners,'' Hauner said. ``So the Baltics have the choice between a deep recession or postponing euro-zone accession. I think they will choose the latter.'

Í The Economist má lesa eftirfarandi um Eystrasaltslöndin:

At first sight it is these economies that seem in the riskiest position. A sharp slowdown had started even before the global financial crash. Estonia and Latvia in particular had enjoyed remarkable property booms, generously financed by bank lending. That was one factor in their colossal current-account deficits. The bubbles have popped; growth, running in double digits in 2006, has come to a halt.

This has been a hard but so far orderly landing. Whether it now turns catastrophic is an open question. The debts must still be repaid. Fitch, a rating agency, which downgraded all three Baltic countries this month, reckons their gross external financing requirements next year (the money they need for foreign debt repayments and their current-account deficits) are 400% of likely year-end foreign-exchange reserves in Latvia, 350% in Estonia and 250% in Lithuania. These are the highest ratios in emerging Europe.

Auðvitað er ekki hægt að segja að það sama gildi um Ísland og Eystrasaltslöndin, en að mörgu leyti hafa þau öll farið svipaða leið undanfarin 15. ár eða svo, að því marki að hagvöxtur hefur verið gríðarlegur, að mestu leyti fjármagnaður af erlendum lánum, ríkisfjármál í löndunum öllum hafa verið með ágætum, en viðskiptahalli alltof mikill.

Það að lýsa yfir ásetningi um "Sambands" aðild er ekki töfralausn og tryggir ekki hagsæld, Eystrasaltslöndunum gekk vel á meðan lánsfé var nægt (hljómar kunnuglega ekki satt?) en rétt eins og svo mörg önnur ríki hefur lánsfjárkreppan farið illa með þau.  Það sem gerir hlutskipti þeirra þó betra en Íslands, er ekki aðild að "Sambandinu" heldur sterkari fjárhagstengsl við önnur ríki, sérstaklega Svía. 

Flestir stærstu bankarnir eru í erlendri eigu.  Þeir hafa hafið starfsemi í Eystrasaltslöndunum og bera uppi bankastarfseminu.  Líklega hefði það einhvern tíma þótt ólán, að hagnaður af bönkunum rynni að stórum hluta úr landi, en nú er það ótvíræður kostur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband