Krónan fer niður og síðan upp. Öryggisventlar þurfa að geta blásið

Auðvitað gefur Seðlabankinn ekki upp hvernig verður staðið að inngripum á gjaldeyrismarkaði.  Það væri algerlega galið.  Það væri rétt eins og að setja upplýsingar um þjófavarnakerfi utan á hús.

En ég vona að ígripin verði ekki mikil, krónunni verði leyft að falla, það er alger óþarfi að vernda verðgildi þess fjármagns sem vill fara úr landi með hraði.  Það er best að eigendur þess taki með sér eins lítil verðmæti og kostur er.

Ég held því (og vona) að varnir verði ekki miklar fyrst eftir að krónunni verði fleytt, það er eðlilegast að þessum öryggisventli, sem gengi gjaldmiðils er, verði leyft að blása.  Ef þetta er gert jafngildir þetta að vissu leyti skatti á gjaldeyrisútflutning sem sumir hafa mælt með.

En gjaldmiðill endurspeglar gengi þjóðar, eða ætti að gera það.

En eigin mynt býður upp á marga möguleika, eins og flest annað eru sumir þeirra góðir og aðrir síðri.

Eigin mynt getur t.d. gert fjármagnsflótta frá landinu erfiðari og kostnaðarsamari.  Það er erfiðara að flytja stórar upphæðir úr landinu (nema að hafa áhrif á gengið) þegar um sjálfstæðan gjaldmiðil er að ræða.  Það er t.d. erfiðara fyrir einstaklinga, nú eða fyrirtæki, að selja allt sitt og flytja verðmætin úr landi.  Það sama gildir um sparifé.

Sumir myndu kalla þetta átthagafjötra, en aðrir myndu segja að þetta sé öryggisventill.

Kosturinn við "óvissuna" er að margir munu hætta við að flytja fjármag, eða gera það yfir lengri tíma, minna í einu.  Taka áhættu með í það minnsta hluta, bíða eftir hagstæðara gengi.

En það er nokkuð öruggt að mínu mati að krónan fellur, og það býsna langt, en hún mun rísa aftur, enda er útflutningur frá landinu nokkuð stöðugur, en innflutningur dregst saman.

Gengisfallið mun styrkja Íslenskan iðnað, Íslenska framleiðslu, Íslenskan útflutning.  Meira að segja útflutningur á landbúnaðarafurðum mun ef til vill um einhverja hríð verða fýsilegur.

Þetta mun hjálpa Íslendingum í að berjast við atvinnuleysið, það verðu án efa mikið, en gengisfallið mun draga úr því og flýta fyrir því að það dragist saman.

Hefði hér verið erlendur gjaldmiðill, væri dæmið á hinn veginn, ættu verðmætin greiðari leið úr landi, fyrirtækin hefðu átt tvo kosti, lækka laun um tugi prósenta eða segja upp fólki, mörg hefðu þurft að nota þá báða, atvinnuleysi yrði mun meira og langvinnara.

Það er nokkuð ljóst að sama hvernig fer, sama hvort að "Sambands" aðild verður ofan á eður ei, að krónan er sá gjaldmiðill sem Íslendingar munu nota, í það minnsta í u.þ.b. 6. ár, líklega mun lengur.  Það skiptir því miklu máli hvernig tekst til með endureisn hennar.

Það getur ekki gengið að frammámenn í Íslensku þjóðlífi, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra, iðnaðarráðherra og forsvarsmenn atvinnulífsins séu í sífellu að tala gjaldmiðilinn niður, tala um að hann sé ónýtur.

Slíkum spám er hætt við að rætast vegna eigin áhrifa.


mbl.is Óvissa um inngrip á gjaldeyrismarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband