Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Hvar finnst öll þessi frjálshyggja?

Nú í bankahruninu hefur mikið verið talað um "skipbrot frjálshyggjunnar".  Fæstir skilgreina það svo frekar, en hafa þetta hver eftir öðrum, fréttamenn, ábúðarmiklir stjórnmálafræðingar, stjórnmálamenn og svo auðvitað bloggarar.

En hvar var frjálshyggjan á Íslandi?

Er frjálshyggjan falin í þeirri staðreynd að hvergi innan OECD hefur hlutfall hins opinbera af landsframleiðslu vaxið hraðar en á Íslandi undanfarin misseri og er nú komið yfir 40%?  Eða er ef til vill allt undir 50% frjálshyggja?

Fyrir u.þ.b. 5. árum hófst stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun.  Eins og flestum er eflaust kunnugt olli framkvæmdin miklum deilum.  Þá var því gjarnan haldið fram að virkjunin hefði aldrei verið reist af einkaaðilum og ríkisstjórnin sökuð um gamaldaga "iðnaðarsósíalisma" af ýmsum einstaklingum, oft með ágætis rökum.

Varla er það frjálshyggjan sem menn tala um?

Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki til hlítar regluverk bankakerfisins á Íslandi, en hef þó ímyndað mér að það hljóti að stærstum hluta að vera sniðið eftir regluverkinu í "Sambandinu".  En ef einhver sem þekkir þessi lög sæmilega og les þetta, væri ég þakklátur ef viðkomandi gæti sagt mér að hvaða leiti, regluverkið fyrir Íslensku bankanna er frábrugðið t.d. regluverki því sem gildir á Norðurlöndunum.

Og fyrst við erum farin að tala um Norðurlöndin, skyldi bankakreppan sem skall á í Finnlandi og Svíþjóð snemma á 10. áratug síðustu aldar hafa verið frjálshyggjunni að kenna?  Beið hún líka skipbrot hjá Finnum og Svíum?

Endilega komið nú með dæmi um hina "óheftu frjálshyggju" sem hefur tröllriðið Íslandi á undanförnum árum, orðið er laust í athugasemdum!


IceSave enn á ný

Nú lítur út fyrir að Íslendingar ætli að greiða "trygginguna" eða að hámarki 20.887 euro fyrir hvern þann reikning sem var í IceSave í Bretlandi og Hollandi.  Ég hef um nokkurn tíma verið þeirrar skoðunar að undan þessarri kvöð yrði varla vikist, EEA/EES samningurinn leggur Íslendingum þessar byrðir á herðar, þó eins og oft er megi vissulega deila um lagatúlkun, þá myndi ég telja "vilja" laganna ótvíræðan.

Hitt er svo annað mál, að flestir eru líklega að komast á þá skoðun að lög sem gilda um fjármálastofnanir á EEA/EES séu meingölluð, þurfi verulegra lagfæringa við, en það breytir ekki því sem var.

Auðvitað er það flestum ljóst (eftirá) að best fer á að allar fjármálastofnanir í hverju landi séu á ábyrgð heimalandsins og lúti forsjá þarlends fjármálaeftirlits.  Hvernig á t.d. Fjármálaeftirlitið á Íslandi að geta annast eftirlit með hugsanlegum útibúum í öllum löndum EEA/EES, sem slíkt leyfa?

En mér hefur líka þótt merkilegt að sjá að það er eins og ýmsir, sem jafnvel hafa verið á þeirri skoðun að "borga ekkert" og "láta ekki beygja sig", finnst sjálfsagt að lúffa, nú þegar "Sambandið" segir það.  Sumpart líklega vegna þess að nú er um enn stærri aðila að ræða en "Flash Gordon" og Bretana, sumpart vegna þess að þaðan getur ekkert nema gott komið.

En loksins er líka farið að ræða um IceSave eins og það séu að minsta kosti eignir fyrir stærstum hluta "tryggingarinnar", annað gat varla staðist.

En fyrir ríflega þremur vikum bloggaði ég um IceSave, ég held að það sé enn í fullu gildi.

 

Ég hef verið einn af talsmönnum þess að ekki eigi að greiða skuldir Íslensku bankanna.  Ríkið ber ekki ábyrgð á bönkunum og skuldum þeirra.

En þetta vil ég að Íslendingar greiði.  Hér er ekki verið að greiða skuldir Íslensku bankanna, hér er verið að greiða til baka hluta af innlánum sem einstaklingar eiga í Íslensku bönkunum, í þessu tilfelli Landsbankanum.

Á þessum er reginmunur.  Skuldir og innlán, debts og deposits.  Hafa ber í huga að með þessu eru Íslensk stjórnvöld heldur ekki að ábyrgjast eða borga út innlánin, heldur aðeins að borga út þá innlánstryggingu sem sagt er að sé í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu (EEA).  Ég veit að uppi er lagaleg túlkun sem gæti minnkað þessa ábyrgð, en ég held að hér eigi Íslendingar ekki að skjóta sér undan.

Hér er um að ræða sparnað Bresks almennings, hinna Bresku "Jóns og Gunnu", almennings sem Íslensk stjórnvöld stigu lofsvert skref til að vernda þegar þau breyttu lögum og settu kröfur innlánseigenda í forgang.  Þeim er sjálfsagt að standa skil á þeirri tryggingu sem nefnd hefur verið (20.000 euro að hámarki).

En lítum á stærðir í þessu sambandi.  Talað er um að til að greiða þessar tryggingar þurfi 3. milljarða punda, rétt tæpa 600 milljarða Íslenskra króna.  Til samanburðar má nefna að talað hefur verið um að skuldir Baugs Group við Íslensku bankanna nemi á bilinu 1 til 2 milljarða punda, eða á bilinu 200 til 400 milljarða Íslenskra króna.  Þessi skuld Baugs Group er auvitað langt í frá einu eignir Íslensku bankanna og verður að teljast afar líklegt að þessir 3. milljarðar punda náist inn við eignasölu og ríflega það.  Samkvæmt breyttu lögunum (sem ég tel að gildi um IceSave reikningana, þar sem þeir voru "chartered" frá Íslandi), væru þessar kröfur hvort eð er í forgangi þegar bú "gamla" Landsbankans verður gert upp.

En þessi upphæð er eins og tár í tómið þegar rætt er um heildarskuldbindingar bankanna.

Til samanburðar má geta að skuldabréf útistandandi á Íslensku bankana eru talin vera um $60 milljarðar, eða lauslega reiknað u.þ.b. 6600, eða ríflega 10 sinnum stærri upphæð.  Þá eigum við eftir að bæta við innistæðum sem fara yfir 20.000 euro, innistæðum sem eru eign annarra en einstaklinga og innistæðutryggingin nær ekki yfir.  Ég hef ekki heyrt neinar tölur um hvað þessi síðasti liður er hár, en ef marka má fréttir eru um að ræða hundruði milljarða Íslenskra króna.

Það eru þessar skuldir sem Íslendingar eiga að standa fastir á að þeir beri ekki ábyrgð á og ætli ekki að greiða, ekki nema að því marki sem peningar kunna að verða til í búi "gömlu" bankanna.  Þar eiga innlán að vera í forgangi, en Íslenska ríkið getur ekki tekið ábyrgð á skuldum bankanna.  Punktur.

Íslendingar hafa verið þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu í á annan áratug. Þótt að rangt hafi verið af Jóni Baldvini að lýsa því yfir að Íslendingar hafi fengið allt fyrir ekkert, hefur þjóðin notið þess að vera aðili að þessu samstarfi. 

Við þurfum því að fara eftir þeim reglum sem gilda innan svæðisins, t.d. hvað varðar innistæðutryggingar.  Íslenskir bankar spiluðu eftir reglum svæðisins hvað varðaði starfrækslu útibúa í ríkjum svæðisins, og "smáa letrið" segir að það sé ábyrgð Íslendinga.

Hvað Íslendingar gætu unnið með því að fara dómstólaleiðina, til að reyna að komast hjá því að greiða innlánstryggingu, eftir að þeir sjálfir hafa breytt lögum á þann veg að innlán skipi forgang við skiptin, er mér hulið.

P.S.  Ef Bretar hefðu komið með tillögu í þessa átt  í upphafi (að lána og aðstoða Íslendinga við að greiða út innlán) hefði margt skipast á annan veg.  Það versta við það að samþykkja þetta er að "Flash Gordon", kemur út sem súperhetja í Bretlandi.  Hann verður maðurinn sem "went to Iceland and got our money". 

Það er það "brownsædið" á þessum "díl".

Fréttina sem var tengd við þessa færslu má finna hér.

Bloggið sjálf er hér.

 


mbl.is Þokast í átt að lausn á IceSave-deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímyndaðu þér að það sé engin kreppa

Hallaðu aftur augunum og ímyndaðu þér að kreppan hafi aldrei komið til Íslands.  Bankarnir séu ennþá allir í fullu fjöri, ennþá er verið að flytja inn Range Rovera til landsins, Tónlistarhúsið sprettur upp hraðar en nokkru sinni fyrr og spáð er að jólaverslunin eigi aldrei eftir að verða meiri.

Allir útrásarvíkingarnir eru í góðum gír, Pálmi Haralds er enn að segja Íslendingum hvað Sterling gengi vel, FL Group er nýbúið að fara í gegnum aðra velheppnaða hlutafjáraukningu , Jón Ásgeir er átrúnaðargoð Íslendinga og er við það að kaupa stóran hlut í Saks og fréttir berast af því að hann standi sig vel í  "Gumball" kappakstri,  Jóhannes gamli er nýbúinn að tilkynna um vænt fjárframlag til Mannréttindastofu og nokkurra líknarfélaga,  Bjöggarnir drottna í Landsbankunum, á Mogganum og fleiri fyrirtækjum, West Ham á jafnvel séns á titlinum í ár, Bjarni Ármanns væri ennþá að keppa í spurningakeppnum. 

Ennþá er nóg að gera hjá byggingarmönnum, að vísu hefur eitthvað hægt á íbúðarbyggingum, en ennþá er nóg að gera við að byggja sumarhús og hallir á Þingvöllum og í Borgarfirðinum.  Margir hafa stórkostlegar áhyggjur af fjölda Pólskra verkamanna á Íslandi.

Fjölmiðlar væru bólgnir sem aldrei fyrr, auglýsingamagnið ykist ár frá ári og þeir hafa varla undan að senda blaðamenn sínan erlendis í boði útrásarmanna, til að skrifa um velgengni þeirra erlendis.  Bankamálaráðherra skrifar enn á vefsíðuna sína hvað Íslensku bankarnir standa vel, Fjármálaeftirlitið fær fleiri rauðvínsflöskur fyrir jólin, en nokkru sinni áður, leikfangaverslanir hefðu aldrei séð aðrar eins biðraðir.

Alls kyns þreyttir erlendir tónlistarmenn ættu örugga afkomu með því að koma fram á Íslenskum tónleikum, nú eða bara í afmælum og lókal partíum.  Íslenskir tónlistarmenn væru eiginlega hættir að koma fram á Íslandi, en allir færu í helgarferðir til London eða Köben, til að heyra þá skemmta.

Þjóðin hefði aldrei haft það betra og stjórnmálamenn lýstu daglega yfir upphafi alls kyns framkvæmda, jarðganga, nýrra stofnana, nú eða bara að að þeir ætli að borga hitt eða þetta fyrir okkur þegnana.  Dagvístun og annað slíkt væri löngu orðið "ókeypis".

Slagorðið "við erum ein ríkasta þjóð í heimi" væri enn í fullu gildi.

Hefði skattrannsóknarstjóri þá ráðist inn í Stoðir/FL Group?

Veltu því fyrir þér.

Hefðu Íslendingar talið að um ofsóknir væri að ræða?  Hefði málið verið tekið upp á Alþingi?  Hefði komið fram í kaupstaðaræðum að að Stoðir séu augljóslega ekki í "liðinu"?

Hefðu Eyjadrengirnir Lúðvík Bergvinsson og Árni Johnsen skrifað greinar í blöðin um "ofsóknirnar"?  Hefðu fréttirnar á Stöð 2 og Vísi haft annan tón?  Hvað hefði DV gert?   Hvernig hefðu Róbert Marshall og félagar á NFS matreitt málið? (Líklega hefði þó ekkert góðæri dugað til að sú stöð lifði af)  Hefði Ágúst Ólafur sett "málið" á syndalista ríkisstjórnarinnar? Hefðu hagfræðiprófessorar skrifað langar greinar í blöðin um misbeitingu valdsins? Hefði Valgerður Sverrisdóttir sagt að þetta væri runnið undan rifjum ráðherra? Hefði þess verið krafist að Árni Mathiesen og Björn Bjarnason segðu af sér?  Hefði þetta verið allt Davíð að kenna? 

Hvað hefði gerst?

Veltu því fyrir þér.

 


Kæri(r) Jón

Ég er alveg sammála lögmanni Jóns Ásgeirs, að viðskiptanefnd Alþingis er komin á hálan ís, þegar hún er að fara fram á upplýsingar um hverjum bankar hafi lánað eða ekki.  Sú skoðun kom skírt fram í síðasta bloggi mínu.

Reyndar geta lýðskrumarar eins og Ágúst Ólafur skotið sér á bakvið þá hártogun að það geti ekki varðað við lög að spyrja spurninga.  Það verða bankastjórarnir sem brjóta lögin ef þeir svara spurningunni.

Það má hins vegar velta því fyrir sér, hvert alþingismenn stefna í lýðskruminu, ef þeir eru að hvetja bankastjóra (í raun embættismenn ríkisins nú um stundir) til að brjóta lög.  Lög sem Alþingi hefur sett.

Er lýðskrumararnir þá ekki komnir í frekar skringilega stöðu.

Það er líka holt fyrir almenning að velta því fyrir sér hver er tilgangur lýðskrumara með því að spyrja spurninga sem þeir vita að ekki er hægt að svara án þess að brjóta lög?

Hins vegar þurfa nefndarmenn varla að óttast kærur, enda njóta þeir friðhelgi sem alþingismenn.

Það gera bankastjórar hins vegar ekki.

Íslenskir stjórnmálamenn skipuðu bankaráð til að stjórna bönkunum, bankastjórar starfa í umboði bankaráðanna.  Þar ætti aðkomu stjórnmálamanna að bönkunum að ljúka.

Það á ekki að skipta neinu, hvaða álit menn kunna að hafa á Jóni eða viðskiptum hans, ef engin grunur leikur á lögbrotum, þá á hann og hans fyrirtæki sama rétt og aðrir hvað varðar bankaleynd og trúnað.

Ef grunur leikur á að eitthvað ólöglegt hafi verið í spilunum, er það ekki viðskiptanefndar að taka á því máli.

 


mbl.is Fallið verði frá kröfu um upplýsingagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankamenn eða snatar stjórnmálamanna?

Það fer um mig hrollur þegar ég les frétt eins og þessa.  Fréttin er í heilu lagi hér að neðan.

Það virðist sem að ýmsir Íslenskir stjórnmálamenn hafi ekkert lært, eða hafi algerlega gleymt sér í lýðskruminu, ja nema hvoru tveggja sé.

Mega Íslendingar eiga von á því að bankastjórar séu kallaðir fyrir þingnefndir með reglulegu millibili til að skýra frá því hverjum þeir hafi lánað eða ekki lánað?  Eða er ef til vill vissara fyrir Íslendinga að fá "gott veður" hjá þingmönnum áður en þeir fá lánað fé í ríkisbönkunum?

Ráðherrar skipuðu bráðabirgðabankaráð, þau réðu bankastjóra og voru yfir þá sett.  Stjórnmálaflokkarnir tilnefndu sína menn í bankaráð sem fjármálaráðherra skipaði, þau ráð eru yfir bankastjórana sett, geta ráðið þá eða rekið.

Eiga svo bankastjórarnir til viðbótar að þurfa að sætta sig við að einhverjar þingnefndir kalli þá fyrir og heimti svör, um hvort að þeir hafi lánað ákveðnum aðilum, eður ei?

Bankastjórarnir eiga í mínum huga aðeins tvo kosti.  Sýna þjóðinni að þeir séu bankamenn eða að sýna þjóðinni að þeir séu snatar stjórnmálamannana.  Trúverðugur bankastjóri lætur ekki uppi upplýsingar um einstök viðskipti við bankann nema að undangengnum dómsúrskurði.

Það er rétt að taka það fram að ég er ekki hrifinn af fjármálagerningnum sem slíkum, en eðlileg lög og reglur verða að gilda.  Ef grunur leikur á því að lög hafi verið brotin, eða á annan hátt gengið gegn starfsreglum, þá er sjálfsagt að láta til skarar skríða.  Slíkt er ekki þeirra sem setja lögin (alþingismanna) heldur þeirra sem hafa eftirlit og framfylgja þeim (lögregluyfirvalda, fjármálaeftirlits, bankaráða). 

Það skiptir engu máli hvaða álit menn hafa á Jóni Ásgeiri eða fjármálagjörningum hans, hann á rétt á sömu bankaleynd, sama trúnaði og aðrir viðskiptamenn bankanna.

Afskiptum stjórnmálamanna af bönkunum á að ljúka með tilnefningu/skipan bankaráða. 

Því miður er ástandið eins og það virðist vera á Íslandi í dag frjór jarðvegur fyrir lýðskrumara. 

Hví er brýnt fyrir þingmenn að fá úr því skorið hver lánaði Jóni einn og hálfan milljarð?  Er það málefni löggjafarsamkundunnar?  Er grunur um að lög hafi verið brotin?  Ef svo væri, á það að koma til kasta Alþingis? 

Hér má sjá lista yfir þá sem sitja í viðskiptanefnd.

"Alþ.: Hvaða banki lánaði Rauðsól?

Bankastjórar ríkisbankanna hafa verið boðaðir á fund viðskiptanefndar Alþingis á föstudag. Formaður nefndarinnar segir brýnt að fá úr því skorið hver lánaði Jóni Ásgeir Jóhannessyni einn og hálfan miljarð til að kaupa fjölmiðlahluta 365.

Ari Edwald, forstjóri 365 hf., sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að 365 hefði unnið að lausn sinna mála með viðskiptabanka sínum Landsbankanum. Í því gæti falist ráðgjöf og flutningur á lánum. Landsbankinn hefur ekki viljað gefa upp hvort hann hafi lánað Jóni Ásgeiri féð."

P.S.  Vilja Íslendingar ef til vill að hinir nýju ríkisbankar setji það upp á vegg hverjum þeir hafa lánað með reglulegu millibili? 


Tveir tölvupóstar - Bingi og Steini og Össurarsaga af bankaútrásinni.

Ég fékk nokkuð marga tölvupósta í dag, fæstir þeirra verulega merkilegir, en innihald tveggja vakti þó athygli mína.  Í báðum var tengilll á vefsíður. 

Í öðrum var tengill á nafnlausan dálk í DV (ég les aldrei DV, en þar virðist ýmislegt athyglivert að finna, samanber þetta blogg mitt).  En tengillinn var á nafnlausan dálk í DV, en þeir virðast vera búnir að lífga við Svarthöfða.

Eitthvað virðist Svarthöfða DV vera uppsigað við starfsbræður sína á Fréttablaðinu.  Ef til vill hefur þeim runnið kapp í kinn, nú þegar þessir samkeppnisaðilar eru eign óskyldra aðila, eftir að DV skipti um eigendur í "alvöru viðskiptum".

En pistillinn er býsna harðorður, en þar má m.a. lesa:

"Stundum villist fólk í blaðamennsku án þess að miðlun frétta og upplýsinga sé því sérstakt kappsmál. Sumir komast jafnvel til áhrifa á fjölmiðlum sem er óheppilegt þegar þeir freistast til þess að hafa áhrif á gang mála og hanna atburðarás í stað þess að greina frá atburðum."

"Þegar Dúettinn Matti og Styrmir þagnaði hófu Bingi og Steini, ekki Dúmbó og Steini, upp raust sína. Þessir tveir ritstjórar Fréttablaðsins í Skaftahlíðinni eru á bólakafi í pólitík og eru hvor um sig með puttana á kafi í innansveitarkrónikum tveggja stjórnmálaflokka.
Þorsteinn grefur leynt og ljóst undan sínum forna fjanda Davíð Oddssyni, æðstapresti Sjálfstæðisflokksins, á meðan Björn Ingi er byrjaður að rifja upp gamla og góða hnífakaststakta með Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, sem skotskífu.

Þorsteinn hefur það umfram Binga að hann er sveipaður ákveðnum virðuleika sem hefur slípast til í gegnum árin í ríkisstjórnum og utanríkisþjónustunni auk þess sem hann skrifar oft einhver orð af viti. Hvað Björn Ingi er að vilja upp á dekk í fjölmiðlum með allan sinn slóða á bakinu er hins vegar hulin ráðgáta. Á meðan hann var taglhnýtingur Halldórs Ásgrímssonar var talað um hann sem PR-mann, jafnvel spunameistara. Örlög Halldórs segja allt sem segja þarf um hæfileika hans á því sviði og brölt hans frá því hann hrökklaðist úr borgarstjórn með REI-forarsletturnar upp eftir bakinu á stífpressuðum fötum sem Framsóknarflokkurinn keypti handa honum sýnir að hann hefur ekkert lært á þessari grýttu braut."

"Það segir sitt um veruleikafirringu Björns Inga að hann telji sig þess umkominn að fjalla um viðskiptalífið, sem blaðamaður, þegar horft er til hans nánustu fortíðar. Björn Ingi lagði sérstaka lykkju á leið sína í leiðara Fréttablaðsins nýlega til þess að ávíta sauðsvartan almúgann fyrir þátt sinn í efnahagshruninu. Þar fauk nú grjót úr glerhúsi manns sem naut sín vel í útrásarflippinu. Höfuðið beit hann svo endanlega af skömminni um síðustu helgi þegar hann fékk útrásarvíkinginn Hannes Smárason í huggulegt spjall til sín í sjónvarpsþáttinn Markaðinn. Ekki var nú meintur blaðamaður mikið að þjarma að Hannesi en kannski var ekki von á mikilli dýnamík í spjalli tveggja aðalleikaranna í REI-afferunni."

En það er vel þess virði að lesa pistilinn í heild sinni.

Hinn tölvupósturinn er meiri söguskoðun, enda mun lengra síðan að hann var ritaður, en en það var 26. mars 2006, sem þessi pistill birtist á heimasíðu Össurar Skarphéðinssonar, núverandi iðnaðarráðherra, en þegar pistillinn var ritaður, var hann þingmaður í stjórnarandstöðu.  Pistillinn ber heitið "Danska Moggakreppan", og fjallar um hvað Morgunblaði er óforskammað að skrifa illa um Íslenkus útrásarbankavíkingana.

En stíllinn er góður og má m.a. lesa eftirfarandi gullkorn í pistlinum:

"Útrás og styrkur íslensku bankanna er það jákvæðasta sem hefur gerst í íslensku athafnalífi síðasta áratuginn. Það stórkostlegasta við hana er ekki bara auðurinn sem þeir hafa skapað og fært inn í samfélagið, heldur hinir miklu möguleikar sem þeir skapa fyrir ný, hálaunuð og fjölbreytt störf fyrir unga fólkið."

"Bankarnir eru það mikilvægasta sem gerst hefur síðustu áratugi í íslensku atvinnulífi hvað varðar nýja möguleika fyrir unga Íslendinga til að fá eftirsóknarverð, vellaunuð störf - eða stuðning við góðar viðskiptahugmyndir.

Eignamyndunin sem orðið hefur í krafti bankanna skiptir líka velferð almennra borgara mjög miklu. Lífeyrissjóðirnir fjárfestu sem betur fer stóra hlunka í bönkunum tiltölulega snemma á stækkunaferli þeirra. Ég las einhvers staðar að hagnaðurinn sem þeir hefðu haft til þessa af þeim fjárfeestingu dygði sjóðunum til að borga allan maka- og örorkulífeyrinn þessi árin. Það munar um minna.

Heimurinn er alltaf að snúast á hvolf. Í gamla daga voru það kommarnir sem voru hræddir við hagnað og nýja peninga og sáum skrattann gægjast úr andlitsdráttum sérhvers sem hagnaðist. Í dag er það Mogginn. Það er engu líkara en Mogginn sjái ofsjónum yfir að það er nýtt fólk, sem ekki tilheyrir gömlu ættarveldunum, sem er orðinn drifkraftur efnahagslífsins í gegnum bankana. Hann fer á taugum ef einhver græðir sem ekki er í liðinu.

Heimsendaforsíða Moggans á dögunum sem fól ekki í sér neitt annað en spádóm um bráða kreppu bankanna átti líklega stærsta þáttinn í að gera íslenskt efnahagslíf og sérstaklega íslensku bankana að skotspæni erlendra öfundarmanna - einkum danskra. Mogginn nýtur gamals álits sem virðulegasta blað Íslandssögunnar. Það er málgagn atvinnulífsins að fornu en ekki nýju, og er þar að auki staðsett hægra megin í samfélaginu og þekkt fyrir að tala röddu ríkisstjórnarinnar. Þegar slíkt blað hefur upp raust sína með þeim hætti sem Mogginn hefur ítrekað gert gegn íslensku bönkunum - og náði hámarki í endemisforsíðunni með heimsendaspánni um daginn - þá vekur það athygli langt út fyrir landssteinana.

Heimsendaforsíðan, þar sem hrun krónunnar og markaðarins og sérstaklega bankanna, var sett upp í stríðsfyrirsögn einsog þriðja heimsstyrjöldin væri brostin á, átti örugglega ríkan þátt í því að gera íslensku bankana að skotspæni erlendra fjölmiðla og veikja um sinn tiltrú á þeim. Forsíðan kom einsog himnasending til svifaseinna danskra fjölmiðlamanna sem ná ekki upp í nefið á sér af öfund vegna velgengni íslensku bankanna - og búa enn að viðhorfi nýlenduþjóðar til hjálendu.

Það er athyglisvert að Mogginn er búinn að vera lengi við þetta heygarðshorn. Fyrir jólin gerði Mogginn miklar fréttir úr texta sem kom úr smiðju Royal Bank of Scotland og varð þá, einsog núna, að skrifa sig frá vitleysunni næstu daga á eftir."

"Ég tek það fram að ég á sjálfur enga hluti í þessum bönkum og því síst um sárt að binda. En ég dái framtak bankanna og finnst þeir standa sig mjög vel, og skil ekki þetta sífellda hælbit Moggans. Væri hann samkvæmur sjálfum sér ætti hann einsog einn dag að snúa sér að efnahagsstefnu ríkisins og reikna út hvað yfirvofandi verðbólguskot vegna viðskiptahalla og afleiðinga hans munu kosta almenna landsmenn á næstu misserum.

Auðvitað skrifar Mogginn ekkert um það. Hann er lesblindur þegar kemur að því að gagnrýna það sem raunverulega er að í efnahagskerfinu, en skrifar af gamalli og óskiljanlegri heift um KB og Landsbankann, sem helst er tekið mark á af afdönkuðum dönskum bankastjórum sem kunna ekki að reka sína eigin banka - enda verða þeir vonandi orðnir íslenskir fyrr en seinna."

Ég er ekki að halda því fram að Össur sé sá eini sem lofsöng bankana, það var enda trú flestra að þeir væru sterk og góð fyrirtæki, sem á sinn hátt þeir voru.

Skrif Össurar (og athugið að hann sat í stjórnarandstöðu þegar pistillinn er skrifaður) enduróma skoðanir sem voru ráðandi á Íslandi.

En þegar margir segja að fjölmiðlar hafi allir sem einn stigið dansinn í kringum "gullbankana" er það heldur ekki rétt, en fáir hlustuðu á gagnrýnina, eða töldu hana jafnvel ósvífna og verk hælbíta.

Em svona var Ísland - árið 2006.

Pistilinn í heild má finna hér


Skrýtinn fréttaflutningur - Af afsögnum

Ég verð að halda fram þeirri skoðun minni að mér finnst frétta flutningur mbl.is oft skrýtinn, og verða æ skrýtnari.

Gott dæmi um það er þessi frétt.  Hér nær fréttamaður mbl.is í fjármálaráðherra og spyr hann í þaula um IceSave reikninga Landsbankans sáluga.  Fréttin snýst um það að ráðherrar komi af fjöllum. 

Þó kemur skýrt fram í svari fjármálaráðherra að málefni banka eða IceSave heyri hreint ekki undir hans ráðuneyti, fjármálaráðuneytið, það heyri undir viðskiptaráðuneytið.  Reyndar hélt ég að sú staðreynd hefði ekki farið fram hjá neinum í fréttaflutningin undanfarinna vikna, en einhverra hluta vegna virðist sú staðreynd ekki hafa verið fréttamanni mbl.is kunn.  Eða megum lesendur mbl.is eiga von á því að fréttamaðurinn leiti hófanna hjá fleiri ráðherrum, um hvenær þeim varð kunnugt um vandræði Landsbankans hvað varðaði IceSave reikningana?  Fáum við ef til vill að heyra í Þórunni Sveinbjarnardóttur, Guðlaugi Þór, Ingibjörgu Sólrúnu eða Jóhönnu Sigurðardóttur? 

Getur það verið að þau hafi öll "komið af fjöllum"?

En þessi meðhöndlun flúttar við ákall Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, en eftir honum er haft í frétt á Vísi, að Björgvin viðskiptaráðherra og Árni fjármálaráðherra ættu að segja af sér. Hann virðist þeirrar skoðunar, eins og að mér finnst undirtónn fréttarinnar, að Björgvin G. Sigurðsson og Árn Mathiesen beri ábyrgð á bankahruninu, umfram aðra ráðherra.

Í fréttinni eru reyndar ekki að finna nein rök fyrir þessarri skoðun Samfylkingarmannsins og forseta ASÍ, en flestir ættu þó að hafa þá vitneskju úr fréttum að viðskiptaráðherra er jafnframt bankamálaráðherra og Fjármálaeftirlitið heyrir undir hann.  Því er varla hægt að komast hjá því að einhver hluti ábyrgðar bankahrunsins falli á hans axlir. 

En hvað með fjármálaráðherra?  Ber hann einhverja ábyrgð á bankahruninu umfram aðra ráðherra?

Hafa ekki ríkisfjármálin verið í þokkalegu standi, þó að ég hafi reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að þó þurfi að skera verulega niður.  En varla ber Árni heldur einn ábyrgð á því?

Að þessu sögðu þá get ég verið sammála Gylfa að það gæti verið klókt og rökrétt að skipta um ráðherra í ríkisstjórninni, það gæti aukið trú og tiltraust almennings á henni.

En auðvitað fer best á því að leiðtogar ríkisstjórnarinnar ákveði það, ég get ekki séð að forseti ASÍ geti gert kröfu um að ráða því.  Betur færi þá líka á að hann færði rök fyrir máli sínu.

En það getur líka verið að hér tali Samfylkingarmaðurinn Gylfi Arnbjörnsson, en hann hafi hreinlega ekki treyst sér til að nefna aðeins Samfylkingarráðherra til sögunnar.

Ef til vill sér hann eftir því að hafa ekki skellt sér í prófkjörið, þá hefði hann hugsanlega meira um ráðherramálið að segja, það er að segja ef hann hefði komist alla leið á þing.


mbl.is Ráðherrarnir koma af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheppni

Hingað hringdi fyrir skömmu kunningi minn.  Hann átti við mig skýrt og einfalt erindi. Erindið var að að bjóða mér á körfuboltaleik annað kvöld, nánar tiltekið á leik Toronto Raptors og 76'ers.

En ég varð að segja nei, vegna skuldbindinga og loforða sem voru gefin fyrir nokkru síðan hefði það verið því sem næst ómögulegt að komast, ef ekki alveg ómögulegt.

Lífið er ekki alltaf eins og best verður á kosið.

 


Reykjavík á hálfvirði

Ísland hefur vegna kreppunnar verið mikið í fréttum undanfarnar vikur, yfirleitt í greinum eða fréttum sem flokkast sem miður skemmtileg lesning.

En í ferðahluta Globe and Mail var nýlega grein sem fjallaði um jákvæðar hliðar kreppunnar. Þar kom Ísland líka við sögu, því að ein af jákvæðu hliðum kreppunnar var að nú væri það viðráðanlegt fyrir fleiri að fara til Íslands.  Hótel og veitingastaðir væru nú ekki eingöngu á verði fyrir "auðmenn" og von væri á góðum tilboðum hvað varðaði flug.

En í greininni (á síðu 2) má m.a. lesa eftirfarandi:

"The surprise victim of the current downturn is Iceland - where only a few months ago a McDonald's Value Meal cost $15 and a half pint of beer nearly $10. Since then, the banks have crashed and the krona has halved in value. That $10 now gets you two half pints. And getting to Reykjavik is cheaper too, thanks to Icelandair (icelandair.com). From today until March 9, for example, a Toronto-Reykjavik "party weekend" including a flight, two nights at the Iceland Hotel Loftleidir and transfers starts at $845 a person, double occupancy. This spring, Icelandair will be offering flights from Toronto starting at $517.

Stay there Even the top-end 101 Hotel (101hotel.is), once upward of $600 a night, is now a relatively affordable $380. At the Fosshotel Baron or the Fosshotel Lind, both in central Reykjavik, you can save 25 to 30 per cent on weekends and 40 per cent on weeknights with a new last-minute deal - rates will likely be less than $85 a night. "Everything, including accommodation, in Iceland is now about 50 per cent cheaper," says Sif Gustavsson of the Iceland Tourist Board. "

"Last year, dinner at the trendy Fish Market (Adalstræti 12) would have cost you $50. Now, you'll leave just $25 poorer. And at the waterfront seafood restaurant Saegreifinn (saegreifinn.is), a lobster soup that would have cost you $15 last year is now around $8."

Ekki veit ég hvaða helgarferðir það eru sem kosta $845, því að ég best veit er ekki flogið frá Kanada nú yfir háveturinn, en samkvæmt áætlun á flug héðan frá Toronto að hefjast í byrjun apríl, ef ég man rétt.

Mér lýst hins vegar vel flug frá Toronto frá 517 dollurum næsta sumar.

En mér er kunnugt að félög Kanadabúa af Íslenskum ættum eru mörg hver að skipuleggja ferðir til Íslands næsta sumar.  Auðvitað til að heimsækja "ættjörðina", en tilgangur ferðanna er líka - og þannig er þær m.a  kynntar - til að leggja Íslenskum efnahag lið. 

Það er því ekki ólíklegt að býsna stórir hópar Vestur-Íslendinga verði á Íslandi næsta sumar.

Aðrir áfangastaðir sem eru sagðir vera á góðu verði í kreppunni, eru London, New York, Rio De Janeiro og Cape Town.


Genginn Bjarni

Þá hefur Bjarni Harðarson gengið af þingi.  Ég verð að viðurkenna að það kom mér nokkuð á óvart. 

Það er rétt að það komi fram að ég hef ekki verið stuðningsmaður Bjarna, né framsóknarflokksins og að því leyti er mér málið lítið skylt.

Ég ætla ekki heldur að verja bréfasendingar Bjarna, þær voru rætnar og ekki gerðar af góðum hug.

En það stangast ekki á við þjóðarhagsmuni að ráðast gegn Valgerði Sverrisdóttur.  Sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að það þjónaði þeim, en slíkt er alltaf álitamál og deiluefni.  Sínum augum lítur hver á silfrið.  Því get ég ekki séð að Bjarni hafi haft ríka ástæðu til þess að segja af sér þingmennsku vegna innanhússátaka í Framsóknarflokknum. 

En auðvitað er afsögn Bjarna virðingarverð, hann axlar skinn sín og heldur heim á leið.

Það er reyndar athyglivert hve ákaflega Samfylkingarmenn fagna mistökum Bjarna og að mér sýnist nú afsögn hans, þessi uppákoma styrkir óneitanlega þann arm Framsóknarflokksins sem vill falast eftir "Sambands" aðild og getur því í framtíðinni breytt landslagi Íslenskra stjórnmála.

Ekki í fyrsta sinn og líklega ekki það síðasta sem "enter" takkinn er áhrifavaldur.

P.S.  Auðvitað er þetta ekkert einsdæmi og ekki mesta "dirty trixið" sem heyrst hefur um í Íslenskum stjórnmálum, en á meðan það er ekki opinbert, er það allt í lagi, eða er það ekki?

 


mbl.is Bjarni segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband