Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Hver er fátækur og hvar?

Það er aldrei verulega upplífgandi að lesa um fátækt, en svo er þó vissulega að fátækt er ekki endilega það sama og fátækt, ef svo má að orði komast.

Það vantar í þessa frétt svo að betur sé hægt að velta þessu ástandi fyrir sér, hvernig fátækin er skilgreind hjá Bandarísku hagstofunni.  En þegar farið er á heimasíðu hennar, má finna fréttatilkynninguna sem þessi frétt rekur uppruna sinn til og lesa þar eftirfarandi:

"As defined by the Office of Management and Budget and updated for inflation using the Consumer Price Index, the weighted average poverty threshold for a family of four in 2006 was $20,614; for a family of three, $16,079; for a family of two, $13,167; and for unrelated individuals, $10,294."

Þarna má sem sé sjá hver "fátæktarmörkin" eru, eða réttara sagt hvaða viðmið eru notuð.  Sé miðað við gengiskráninguna í dag, þá er það ljóst að þær 4ja manna fjölskyldur sem halda sér ofan við fátæktarmörkin þurfa að hafa u.þ.b. 1330 þúsund, eða fleiri  Íslenskar krónur í árslaun.

En það segir ekki nema hálfa söguna, því vissulega er misjafnlega dýrt að lifa á mismunandi stöðum í Bandaríkjunum.  Það sem dugar til framfærslu í dreifbýlinu er nokkuð langt frá því að duga á Manhattan eða í Silicon Valley.

Það skiptir nefnilega ekki minna máli hver kostnaður við framfærslu er.  Hvað skyldi til dæmis þurfa háa upphæð á Íslandi til þess að hafa sambærilega kaupgetu og 1.300.000 gefa í meðal Bandarískri borg?

Svo kemur það ekki á óvart að fátækt er algengari hjá innflytjendum en þeim sem eru fæddir í Bandaríkjunum, sömuleiðis að fátækt er algengari í Suðurríkjunum, en það er líka spurning hvernig framfærsukostnaðurinn er þar í samanburðinum.

Það er því eins og oft áður erfitt að sjá hvernig þessum málum er raunverulega háttað og ekki skal heldur gleyma því að ekki kemur fram hve langt undir þessum mörkum margir þeirra sem eru fátækir eru.


mbl.is Ríflega tíundi hver Bandaríkjamaður býr við fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að éta elginn

Það verður að segja það eins og er að það er ólíkt huggulegra að éta elginn en að vaða hann.  En það var einmitt það sem fjölskyldan að Bjórá gerði í kvöld.  Það er að segja át elginn.

En við Bjórárhjónin höfum verið á faraldsfæti undanfarna daga, verið að leita að borðstofuhúsgögnum.  Þar sem hugurinn hefur helst staðið til massívra timburhúsgagna, þá höfum við keyrt hér um nærsveitir Toronto og skoðað húsgögn sem flest hver eru framleidd af Mennonitum, en þeir framleiða húsgögn upp á "gamla mátann", ef svo má að orði komast.

Við erum enn á "skoðunarstiginu" en höfum séð ýmis athygliverð húsgögn, en það sem skiptir þó ekki minna máli er að skondrið um sveitirnar og smábæina er harla skemmtilegt.  Það þarf líka að stoppa reglulega, til að kaupa ís, nú eða synda í einhverju vatninu, það þarf líka að kaupa eitthvað að borða, nú eða bara pissa í vegarkantinn.

En hér og þar má finna "köntrí stors" og í einni slíkri rákumst við á elgskjöt ásamt ýmsu öðru góðgæti.  Það voru keyptar tvær steikur sem eru búnar að bíða í ísskápnum þangað til í kvöld. 

Í stuttu máli sagt, þá var þetta hið ljúfasta kjöt, fíngert og bragðgott.  Hóflega kryddað með salti, pipar og olívuolíu og hent á grilið.  Grillaður maís með, tómatsósa (gerð úr tómötum og kryddjurtum úr garðinum) og Franskt rauðvín.  Ákaflega hugguleg blanda.

Í fyrsta skipti, en ábyggilega ekki að síðasta sem elgur verður á borðum hér að Bjórá.


Refsingar

Með reglulegu millibili sé ég rökræður með og móti dauðarefsingum.  Það er rökræða sem ég hef í engan sérstakan áhuga á skella mér í, eina ferðina enn.

En nú þegar fréttir bárust af dauðadómi yfir barnaníðingi í Florida hef ég sé umræður um refsinguna hér og þar.  Flest rökin eru velþektt, enda fátt nýtt undir sólinni, enda ekki rökin sem hafa vakið athygli mína.

Það sem hefur vakið athygli mína er að það ég fæ það á tilfinninguna að það séu fleiri fylgjandi því að viðkomandi verði tekin af lífi, heldur en að fannst aftaka Saddams Hussein réttlætanleg.  Það er þó rétt að taka það fram að, að baki þessarar tilfinningar eru engin vísindaleg rannsókn, og ólíklegt er að um sama fólkið sé að ræða.

En það eru fjölmargir, bæði stjórnmálamenn og samtök sem virtust taka aftöku Saddams nærri sér en skeyta lítt um aftökur sem framkvæmdar eru hér og þar í heiminum, jafnvel fyrir þær sakir einar að vera samkynheigður.

En ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir þann sem bíður aftöku í Florida, en þessi mismunandi viðbrögð koma Stalin upp í hugann, en hann á að hafa sagt einhvern tíma:

Ef þú myrðir einn, þá er það harmleikur ef þú myrðir þúsundir, þá er það tölfræði.


Skógareldar

Það eru skelfilegar fréttir sem berast um skógarelda í Grikklandi.  Þetta eru ótrúlegar hamfarir.

Það er sem oft áður að mynd segir meira en þúsund orð.  Myndin sem sjá má hér á vef Globe and Mail, sýnir vel af hvaða stærðargráðu þessi skelfing er.

Fréttin sem ég rændi myndinni úr, er hér.


Morgunstund gefur....

Það er óneitanlega góð byrjun á deginum að horfa á Ferrari sigra tvöfalt í Istanbul.  Kappaksturinn bauð þó ekki upp á mikil tilþrif, erfitt að fara fram úr í brautinni og staðan breyttist ekki mikið hvað efstu sætin varðaði, nema í þjónustuhléum.

En það dugði ekkert nema tvöfaldur sigur og sú er auðvitað krafan í þeim keppnum sem eftir eru, en þó ólíklegt að það náist.  Sigurinn í dag vannst fyrst og fremst á örlitlu hraðaforskoti sem Ferrari hafði.  Hversu stóran þátt dekkin áttu í því er ekki gott að segja, en Ferrari ók 2/3 á mýkri dekkjunum en McLaren á þeim harðari.

En það sem gaf þó aukna von var fyrst og fremst óhapp Hamiltons, hann var að vísu heppinn að ná að klára i 5. sæti og tapaði því eins litlu og hægt er þegar menn lenda í slíku óhappi, en það er lykillinn að velgengni hans og McLaren hvað þeir hafa verið stabílir.  Þeir ásamt Kovalainen eru þeir eina sem hafa klárað allar keppnir, ef ég man rétt.  Af þeim 12 keppnum sem lokið er hefur Hamilton staðið á verðlaunapalli í 10.  4. toppmennirnr hafa hins vegar allir unnið 3. keppnir, bróðurlegra verðu það varla.

En nú eru ekki nema 5 keppnir eftir.  Líklega ættu 4. af þeim brautum sem eftir er að keppa á að henta Ferrari nokkuð vel, líklega heldur betur en McLaren, en Monsa, Spa, Interlagos og Kína ættu ef eitthvað er að gefa Ferrari vel, en óvissa er með Fuji brautina í Japan, enda langt síðan hefur verið háð keppni þar.

 


mbl.is Öruggt hjá Massa og Ferrari fagnar tvennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hressandi í morgunsárið

Það gladdi mig vissulega í morgunsárið að sjá Massa taka Tyrklandspólinn.  Ég var reyndar svo syfjaður að það hálfa væri nóg, enda kl. 7 á laugardagsmorgni ótrúlega snemmt.  Ég var meira að segja kominn á fætur á undan ómegðinni, merkilegt nokk.

En það er auðvitað ekki tímatökurnar sem gilda og við þurfum sárlega á góðum úrslitum að halda á morgun, í raun dugar ekkert nema 1 - 2 til að seðja sigurhungrið.  Það þurfa báðir bílar að skila hámarksstigum.

En annars var ekki margt sem kom á óvart, Ferrari, McLaren og BMW í efstu sætunum.  Hamilton á undan Alonso eina ferðina enn, eitthvað sem kætir líklega ekki skapið hjá Spánverjanum.

Það sem líklega ræður úrslitum á morgun er hvað margir lítrar eru á tönkunum hjá köppunum.  Þeir taka ekki mikla sénsa og líklega verður helst reynt að "fram úr" á þjónustusvæðunum.

En það verður að rífa sig upp í fyrramálið líka.


mbl.is Massa hlutskarpastur í æsispennandi tímatöku í Istanbúl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að lækka verðið eða ekki lækka verðið, það er...

Það er óneitanlega nokkuð algengt að sjá fréttir sem þessa, annað hvort eru kaupmenn/veitingahúseigendur sakaðir um að "skila" ekki til neytenda virðisaukaskatti, gengishækkun, nú eða hreint og beint um að vera almennt séð okrarar.

Mér finnst þetta bera nokkuð mark af tvennu, í fyrsta lagi eru "sökudólgafréttir" nokkuð vinsælar og hitt svo að lítill skilningur er á rekstri veitingastaða og verslana.  Ef til vill má svo bæta að við fréttir í þessum flokkum hafa aukist nokkuð í réttu hlutfalli við fjölgun "stofa" í samfélaginu, sérstaklega auðvitað ef viðkomandi "stofur" hafa þjónustusamninga við einhver ráðuneyti.

Þó ætla ég ekki að segja að ég myndi ekki verða glaður, rétt eins og flestir aðrir, ef kaup og veitingamenn lækkuðu vörur sínar, það myndi ég vissulega verða, en ég geri mér grein fyrir því að ég á enga heimtingu á slíku, og það er margir aðrir "kraftar" þarna að verki en virðisaukaskattur og gengismál.

Hefur einhver hugleitt hvort að húsaleiga hafi hækkað frá því í mars?  Nú eða kaup?  Hvernig skyldi hráefnisverð hafa þróast á þessum tíma?

Þess utan reka veitingastaðir, sem og verslanir sig ekki einvörðungu á ákveðinni %, heldur spilar ákveðin sálfræði sína rullu. 

Hafi einhver réttur kostað 1990 kr. fyrir vsk lækkun, ætti hann líklega að lækka niður 1810 eða álíka.  Það er einfaldlega ekki "sálfræðilega" rétt verð, þar sem "sálfræðiþröskuldurinn" er líklega álitinn liggja um 2000 krónurnar.  Þó væri hugsanlegt að fara í 1890, en flestir myndu líklega halda sig við 1990 krónurnar, auka hagnaðinn örlítið í það minnsta tímabundið og vera betur búinn undir að þola smá "verðþrýsting" á 1990 krónurnar.

Það kann því að vera að lækkunin skili sér með því móti á mun lengri tíma.

Hitt ber svo líka að hafa í huga að frjáls álagning ríkir á Íslandi, en að sama skapi er enginn bundinn við að skipta við önnur veitingahús/kaupmenn en þeim líkar, spurningin er hvað verðið vegur þungt þegar þau eru valin?

 


mbl.is Verðlækkun hjá 4% veitingahúsa frá því í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðalangar

Þá er fjölskyldan komin aftur heim að Bjórá eftir að hafa þvælst um á Pontíaknum dulítið norður á bóginn.

Það var haldið að Lake Baptiste og gist þar á litlu hóteli, en þangað höfum við farið því sem næst hvert sumar frá því að ég kom hingað til Kanada.  Lítið og þægilegt þriggja herbergja hótel sem stendur við vatnsbakkann, veitingastaður í kjallaranum og ekta "kántri store" í sama húsi.

Síðan var ekið um nágrennið synt í vötnunum og athygliverðir staðir skoðaðir nánar.  Farið í Algonquin þjóðgarðinn sem er þarna í næsta nágrenni og almennt reynt að slappa eins mikið af og mögulegt er þegar tvö lítil börn eru með í ferðinni.

Dýralífið er nokkuð fjölbreytt á þessum slóðum, þó að vissulega sé misjafnt hversu heppnir ferðalangar eru að berja þau augum.  Það er vissulega nokkuð "heimilislegt" að hægja á bílnum til að trufla ekki bangsa þegar hann er að skokka yfir veginn, en að sama skapi nokkuð leiðinlegt að vita að leið hans liggur einmitt þarna um vegna þess að hann er á leið í kvöldmat á ruslahaugana.  En svona er lífið.

Himbrimar synda um á vötnunum og ernir sveima um í í leit að æti, úlfar, dádýr og elgir eru sömuleiðis á stjái, en ekki miklar líkur til að sjá þau, nema með aðstoð sjónauka.

Algonquin Park (pano)

En Algonquin þjóðgarðurinn er risastór  (eitthvað á 8. þúsund ferkílómetra) og sáum við ekki nema pínulítið brot af honum, líklega verður honum gert frekari skil á næstu sumrum.  En þó að um þjóðgarð sé að ræða, er svæðið sömuleiðis nýtt.  Bæði er hægt að fá leyfi til að veiða í vötnunum og svo eru stundað umfangsmikið skógarhögg í garðinum, en bæði lýtur þó ströngum reglum.

Eins og oft í ferðalögum sem þessum fórnaði húsbóndinn sér og dró stöðugt að sér athygli moskítóflugnanna og því komu allir lítt snertir af þessum ófögnuði nema hann, með nokkra tugi misásjálegra sára eftir kvikindin.

 


Saving Germany

Svona til að fyrirbyggja allan misskilning, þá vil ég taka að fram að ég gleðst ákaflega yfir fréttum sem þessari.  Bæði vegna Íslendinga og ekki síður Þjóðverja.

Íslendingar eiga án efa eftir að gera það gott með því að flytja út sérþekkingu sína hvað varðar jarðvarmavirkjanir og Þjóðverjar geta fagnað að fá nokkrar vistvænar virkjanir.

Ég geng eiginlega út frá því og vona svo sannarlega að ítarlegt umhverfismat hafi farið fram og engin lýti verði af virkjununum í Þýskalandi.

Ég vona líka að iðnaðarráðherra geri sér grein fyrir því að "okkar framlag" til loftlagsmála getur einnig náð yfir háhitavirkjanir á Íslandi.

Loftslagið er jú alþjóðlegt fyrirbrigði.

Spurningin er svo hvort að þurfi að stofna samtökin "Saving Germany" til að sporna gegn þeirri vá sem svona orkuver geta verið.


mbl.is Orkuútrás í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og björn úr hýði

Það er stundum sagt að tískan gangi í hringi, með örlittlum breytingingum til og frá.  Stundum er rétt eins og sagan geri slíkt hið sama.  Gamalkunnar stöður skjóta upp kollinum, ekki alveg eins en gamalkunnur fílingur eins og stundum er sagt.

Þannig finnst mér stundum að hegðun Rússa sé farin að minna æ meira á framkomu Sovétríkjanna sálugu, sem sumir sögðu reyndar að oft á tíðum hefði minnt á framkomu hins forna Rússlands.  Eini munurinn hefði verið að "commietzar" hefði komið í stað "tzarsins".

Stundum þykir mér sem gamli "Rússnesk björninn" sé aftur kominn á kreik.  Rétt eins og hann hafi vaknað af stuttu dvala, örlítið önugur, frekar svangur og ekki alveg viss um hvað hafi breyst á meðan hann var sofandi.  Feldurinn hefur séð betri daga, en hann þó ennþá fullviss um eigin krafta og getuna til að sjá sér fyrir fæðu.

Framkoma Rússa við nágranna sína ber þessa merki að verulegu leyti.  Hvíta Rússland og Ukraína eru ennþá að stórum hluta undir hæl þeirra og þeir koma fram af hroka gagnvart Eystrasaltslöndunum og þykir eðlilegt að þeir hafi enn eitthvað um mál að segja í fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna í A-Evrópu.

Brot á lofthelgi Georgíu og meint eldflogaskot eru einnig undarleg og viðbrögðin við ásökunum Georgíumanna gamalkunnug.

Þeir skjóta niður fána og virðast ætla að reyna að helga sér stór landsvæði í kringum Norðupólinn, án viðræðna við önnur lönd sem þar liggja að.

Sömuleiðis hyggjast þeir "skjóta niður fána" í Sýrlandi, en þar hyggst Rússneski flotinn snúa aftur til hafnarborgarinnar Tartus.  Það er fyrsta flotastöð sem Rússneski sjóherinn kemur sér upp utan fyrrverandi yfirráðasvæðis Sovétríkjanna sálugu.

Það er engin ástæða til að byrja að tala um "kalt stríð", alla vegna ekki enn, en þessir atburðir verðskulda að þeim séu gefin gaumur. 

Sérstaklega þegar við erum að tala um ríki sem er einn helsti orkusali Evrópu.  Sem bæðir tryggir þeim fé, en gerir Evrópu sömuleiðis býsna veika fyrir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband