Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Afmæli að Bjórá

Það var fagnað afmæli að Bjórá í dag. Stóru afmæli heimasætunnar. Hún var enda mest allan daginn í góðu skapi, tók á móti gestum, leyfði þeim að kyssa sig og brosti þannig að sást í allar 5 tennurnar. Það er enda ekki á hverjum degi sem hægt er að fagna 1. árs afmæli sínu og aldrei aftur.

En dagurinn var ósköp ljúfur, milt veður, góðir gestir og dægilegar veitingar. Afmælisbarnið fékk margar góðar gjafir og ekki alveg laust við að Foringjanum þætti nóg um á köflum hve marga pakka litla systir hans hafði að glíma við.

En allt fór vel fram og veitingarnar kættu bæði gesti og heimafólk. Læt hér fylgja tvö stutt myndbönd sem voru tekin í dag, annað frá veisluborðinu en hitt frá morgninum, þegar sú stutta glímdi við fyrstu pakkana, enn í náttfötunum.


Skíta blómakör

Það má ábyggilega nýta skít mun betur en gert er í dag.  Ekki bara kúaskít heldur svínaskít sömuleiðis.  Kindaskítur er auðvitað best nýttur til reykingar.  Gefur sérlega geðfellt bragð.

Orkuframleiðsla úr skítnum er bæði eðlileg og sjálfsögð (hver man ekki eftir Mad Max), en það er ábyggilega margt fleira sem má nýta skít í.

Flest blóm og tré sem við keyptum hingað að Bjórá í vor, voru í kerjum eða pottum sem mér er sagt að búin séu til að mestu leyti úr kúaskít.  Hafa þann kost að það má setja trén niður í þeim, eða hreinlega brytja þau niður í beðin.

Sömuleiðis keyptum við "kompóstaðan" (hér man ég ekki Íslenska orðið) kúaskít í pokum.  "Bag of bullshit" eins og ég er vanur að kalla það, enda vandfundnari betri áburður og óþarfi að vera að kaupa eitthvert kornarusl.  Þessi skítur er því sem næst algerlega lyktarlaus og ákaflega þægilegur viðreignar.

Nú er bara spurningin hvort að Íslenskir "skítaframleiðendur" séu of smáir og of dreifðir til að framleiðsla af þessu tagi borgi sig? 

 


mbl.is Kúamykju breytt í raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stækkandi skattstofn

Meðfylgjandi frétt birtist á mbl.is fyrir nokkrum dögum.  Þó að það sé vissulega ástæða til að gleðjast yfir því að eignir Íslendinga í íbúðarhúsnæði hafi aukist mikið þá er líka þörf á að velta fyrir sér öðrum hliðum.

Þó að ekki komi fram í fréttinni hversu mikið af eignaaukningunni eru nýjar eignir og hvað mikið hún skýrist með hækkun eigna, þá held ég að óhætt sé að segja að hækkun á íbúðarhúsnæði hefur verið veruleg á undanförnum 5 árum.

Þó að vissulega sé ástæða til að gleðjast þegar eignir manns og annara aukast, þá fylgir þeirri aukningu nokkur óþægindi, því að ekki mega fasteignir auka verðgildi sitt án þess að sveitarfélög telji sig eiga rétt (sem þau eiga lögum samkvæmt) til að auka álögur á eigendur þeirra.

Það má segja að þó að íbúðarhúsnæði hafi því sem næst tvöfaldast í verði á sumum svæðum á síðastliðnum 5 árum, hafi notagildi þess ekki aukist að sama skapi, heldur staðið í stað (ja, nema auðvitað til veðsetningar).  Þess heldur búa margir því miður ekki svo vel að launatekjur þeirra hafi tvöfaldast á sama tíma.  Þjónusta sem íbúar njóta frá sveitarfélaögunum hefur að öllu jöfnu ekki tvöfaldast heldur.

Það væri fróðlegt að sjá útreikninga um hve fasteignagjöld hafa hækkað á undanförnum 5 árum, borið saman við launahækkanir á sama tíma.

Sem betur fer felldi síðasta ríkisstjórn niður eignaskatt, því ella hefði skattheimtan af eignaaukningunni verið ennþá meiri.  Það er í það minnsta ástæða til að gleðjast.

P.S. Einhverra hluta vegna vildi fréttin ekki tolla við þessa færslu, en hana má finna á þessari slóð.


Af álhausum, kálhausum og viðskiptaráðherra

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að skiptar skoðanir hafa verið um uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi.  Hafa þeir sem hafa verið hlynntir slíkri uppbyggingu oft verið kallaðir "álhausar" svo að ég hafi séð.

En það hafa líka reglulega komið fram hugmyndir um að það þurfi að tryggja garðyrkjubændum hagstæðara orkuverð og er þá oft miðað við að það eigi að vera sambærilegt og er til álvera.

Jafnvel hefur heyrst slagorðið, "Sömu kjör fyrir ál og kál". 

Fylgjendur þess yrðu þá líklega kallaðir "kálhausar" ef sami stíllinn yrði notaður.

Fyrir nokkru kom svo fram að viðskiptaráðherra er mjög áfram um að tryggja garðyrkjubændum lægra raforkuverð.  Ráðherranum er líklega nokkur vorkunn þegar byrjað er að fjalla um þetta mál, enda garðyrkjubændur margir í hans kjördæmi, en persónulega get ég ekki skilið hvers vegna þetta sé mál sem ríkisstjórnin ætti að sjá um.

Raforkuverð er samningsatrið á milli seljenda (Landsvirkjun eða aðrir) og kaupenda (í þessu tilviki garðyrkjubændur).  Ef garðyrkjubændur vilja fá sama eða svipað verð og stóriðja fær í dag, þurfa þeir líklega að kaupa svipað magn og stóriðjuver.  Og ekki bara á daginn, eða aukið magn á veturna, heldur sama magnið, allan sólarhringinn allan ársins hring.

Nú veit ég ekki hver orkuþörf garðyrkjubænda er, eða hvort hún samanlagt slagar upp í orkuþörf eins stóriðjuvers, en ef svo er ekki er þetta auðvitað tómt mál að tala um.  En ef svo er er auðvitað lang best að garðyrkjubændur sameinist um að kaupa rafmagnið af frameliðenda.  Þeir geta svo annað hvort byggt upp sitt eigið dreifikerfi, eða samið um dreifingu við þá sem eiga kerfi fyrir.

En ríkið á ekki að koma að því að tryggja einum hópi neytenda betri kjör en öðrum.

Svo er það líklega umdeilanlegt hvort að það sé Íslenskum neytendum til hagsbóta að hvetja garðyrkjubændur til að framleiða meira, með því að tryggja þeim betri kjör.  Meiri framleiðsla gæti hæglegar endað með því að niðurgreiðslur á framleiðslunni þyrfti að auka, nóg greiðir almenningur samt.

Best væri fyrir neytendur að auka innflutning og lækka þannig verð, enda keppir jafnvel lágt raforkuverð seint við kostnað hjá þeim sem nægir sólarljósið.

Það væri sömuleiðis óskandi að viðskiptaráðherra beitti sér fyrir viðskiptafrelsi, jafnt í raforkusölu sem annars staðar, þar með talið grænmetissölu.


Skautað

Þessi leiðangur Rússa hefur vissulega vakið nokkra athygli og umtal hér í Kanada, enda er Kanada ásamt Rússum og Grænlendingum,  líklega best í "sveit settir" til þess að gera tilkall til svæðisins.

Það þarf ekki nema að líta á kort af pólnum og nágrenni hans (t.d. hér) til að sjá að það eru Rússland, Kanada, Grænland (Danir), Bandaríkin (Alaska) og Noregur (Svalbarði) sem standa best að vígi til að gera kröfur til svæðisins.

En það er líka rétt að sá tími er liðinn að það nægi að stinga niður fána til að helga land- (nú eða sjávar-) svæði.

Kanadamenn hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á ferðir um sín norðlægustu héruð og ætla sér enn að auka það á næstu árum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu á þessum slóðum, því um gríðarlega hagsmuni er að tefla.

Persónulega get ég ekki séð að Íslendingar geti gert stórar kröfur þarna en er vissulega ekki sérfræðingur hvað varðar alþjóðleg lög um landa og hafsvæðiskröfur.

Minnismerki Villhjálms Stefánsson En Vesturíslendingurinn Vilhjálmur Stefánsson sem átti þó nokkurn þátt í því að sínum tíma að helga Kanada landsvæði á norðurslóðum, sem aftur renna auknum stoðum undir kröfur Kanadamanna nú.

Þegar ég ferðaðist um Manitoba fyrir nokkru kom ég að minnismerki um Vilhjálm, sem meðfylgjandi mynd er af.


Veðurspá II

Sem betur fer virðist veðurspáin frá því í gær ekki ætla að ganga eftir, ekki í það minnsta strax.  Hér að Bjórá er skaplegt veður, rétt um 26°C og því sem næst sólarlaust.  Nokkrir regndropar hafa fallið en ekkert bólar á þrumuveðrinu og úrhellinu sem sömuleiðis var í kortunum. 

Stundum er hægt að gleðjast yfir því hvað veðurspár eru óútreiknanleg vísindi.

En það er allt klárt fyrir hitann.  Busllaugin var fyllt í gær og kæliskápurinn eftir ferð í "ríkið" í morgun. 

Nú er bara að bíða.


Veðurspáin

vedurspaVeðurspáin fyrir næstu sólarhringa er ekki beint á besta máta.  Hiti og raki.  Hitaaðvörun

Líklega er best að fara í "ríkið" strax í fyrramálið.  Rýma til í ísskápnum.  Setja vatn í busllaugina strax í dag.

Besta vörnin gegn rakanum er bjór innvortis.

 

Sjá betur hér.


Klúðurslegt

Þó að kappaksturinn í Ungverjalandi í morgun hafi verið ágætis skemmtun, er klúðurslegt líklega besta orðið til að lýsa honum.

Ekki nóg með það að keppnin hafi verið klúðursleg fyrir mína menn, heldur var hún í raun einnig klúðursleg fyrir McLaren, og það þrátt fyrir að þeirra maður hefði sigur.

Ferrari er að missa af lestinni.  Það er ekki hægt að segja að þeir eigi raunhæfa möguleika á titlum í ár.  Það er enda varla við því að búast að lið sem ekki getur fyllt sómasamlega á tankinn sé í baráttunni um titla.  Þá erum við ekki byrjaðir að tala um vandræði hvað varðar áreiðanleika bílanna.

Það er líklega raunhæfast að líta á það sem eftir er af tímabilinu sem undirbúning fyrir næsta ár.

En helgin var ekki góð fyrir McLaren heldur.  Þó að Hamilton hafi unnið góðan sigur, þá er liðið eiginlega í sárum eftir helgina.  Það segir sig sjálft að þegar Alonso er farinn að gefa út yfirlýsingar í þá veru að Hamilton sé stærsta vandamál liðsins, að þá er komið hættulega nærri því að upp úr sjóði.

"Biðstaðan" í tímatökunum sýndi svo með eftirminnilegum hætti að lítið má út af bregða.  Hvort að rekja má atvikið til óhlýðni Hamilton eða Alonso, skiptir í raun ekki máli, aðalmálið er að liðið er ekki að virka sem heild.  Vissulega er vandamálið að því leiti jákvætt að það snýst um 2. mjög góða ökumenn sem báðir eru reiðubúnir að leggja því sem næst allt í sölurnar fyrir sigur.  Það neikvæða er að það getur líklega ekki gengið til lengdar.

Það eru enda byrjaðar vangaveltur víða um hvor þeirra það verði sem yfirgefi liðið að tímabilinu loknu.

En því miður er staðan sú að það er því sem næst eingöngu spurning um hvor þeirra McLaren manna verður heimsmeistari í ár, ég hef því sem næst enga trú á því að Ferrari ökumennirnir nái að blanda sér í þá baráttu.

En akstur Hamilton var til mikils sóma í dag, fumlaus frá upphafi til enda og sigri hans aldrei ógnað, Heidfeld góður í 3ja, en þó að Raikkonen hafi náði að innbyrða annað sætið, er þetta kappakstur sem Ferrari menn vilja gleyma sem fyrst að ég tel, enn eitt glatað tækifæri.


mbl.is Hamilton stóðst pressu Räikkönens
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maís var það heillin

Á þessum árstíma þykir mér fátt betra en að éta maísstöngla, heila stöngla, hitaða annaðhvort í ofninum eða hent á grillið.

En það er ekki sama maís og maís, það verður að vera "Peaches and Cream", annað er ekkert nema annars flokks. Venjulega rúlla ég þeim upp í álpappír (frá Alcan) og set smá smjörklípu og nokkur saltkorn með. Lostæti.

En sem betur fer er það ekki bara ég sem kann vel að meta maísinn (eða kornið eins og það er kallað hér um sveitir), heldur er öll fjölskyldan sólgin í gullnu stönglana.

Það er auðvitað best að kaupa þetta lostæti beint frá bóndanum, geyma það í blöðunum uns það er eldað. Það spillir svo auðvitað ekki fyrir að þetta er meinholt og fæst á afar góðu verði nú yfir uppskerutímann.


Brennivins Rulapizza Eating Contest

Brennisvins Pizza hus

Ég er ekki alveg klár á því hvað "Brennivins Rulapizza" er, en fæ það sterklega á tilfinninguna að um sé að ræða pizzu með rúllupylsu.  Hljómar spennandi ekki satt?

En eftir því sem ég kemst næst er kappát með slíkri pizzu eitt af dagskráratriðum á Íslendingadeginum (sem er reyndar orðinn nokkrir dagar) sem haldinn er í Gimli ár hvert. 

Sjálfur hef ég aldrei verið á Íslendingadeginum, en fór í fyrsta skipti nú nýverið til Winnipeg og Gimli og ók þar um Íslendingaslóðir.

Þá tók ég meðfylgjandi mynd af pizzastað í Gimli, sem heitir því frábæra nafni "Brennivins Pizza Hús", sem ég hef sömuleiðis grun um að tengist fyrrnefndri keppni.

En Íslendingadagurinn er um næstu helgi, löng helgi hér í Kanada líkt og á Íslandi.  Dagskrá hátíðarhaldanna má finna hér.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband