Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Að þegja yfir sigrinum....

Ég er nú reyndar afskaplega hamingjusamur með þennan sigur íslendinga og vil óska öllum íslenskum hokkíaðdáendum til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Einhvern veginn held ég þó að ég eigi ekki eftir að tala mikið um þennan sigur hér í Toronto, reikna ekki með því að það "imponeri" kanadamenn mikið.  Í þessu hokkíbrjálaða samfélagi þykir líklega ekki merkilegt að sigra í þriðju deildinni.  Það yrði frekar grundvöllur einhverra miður skemmtilegra brandara á kostnað okkar íslendinga.  Hér trúir því engin, þegar ég segi þeim að íslendingar hafi átt mjög erfitt með að æfa hokkí, vegna skorts á frosti, þangað til byggðar voru hér skautahallir. 

 En það breytir því ekki að þetta er góður árangur, íslendingar eru vonandi á réttrí leið í hokkíinu, þó að nokkkuð víst sé að ég grobba mig ekki af árangri okkar hér á næstu árum, við eigum líklega langt í land til að ná því.


mbl.is Ísland burstaði Tyrkland, 9:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af illum íþróttaskóm og siðferðislega röngum hamborgurum

Það kemur stundum fyrir að ég les eitthvað í dagblöðum, tímaritum, bókum, nú eða á vefnum sem ég er sammála, því sem næst 100% og kemur skoðunum mínum þannig í orð, að ég óska þess hér um bil að ég hefði skrifað viðkomandi texta.

Þannig var það í morgun, þegar ég var að lesa netútgáfu tímaritsins Macleans.  Þar rakst ég á grein um samband siðferðis stórfyrirtækja, samband þeirra við neytendur og svo kallaða "anti-corporate"(hér vantar mig gott íslenskt orð) mótmælendur.

Ég get tekið undir það sem sagt er í greininni, að það sem hafi hafist sem velmeinandi mótmæli hafi breyst í "mótmælaiðnað".  Iðnað sem byggist á því að framleiða óánægju, en boði engar lausnir.

En ég hvet sem flesta til að lesa greinina sem finna má hér.

Auðvitað þurfa fyrirtæki aðhald, en það verður líka að viðurkenna það sem vel er gert og ekki einfaldlega ráðast á þann sem liggur best við höggi eða hefur mestu snertinguna við almenning.

Ég verð reyndar að lýsa því yfir hér að svo kölluð "pólítísk rétthugsun" á að öllu jöfnu ekki upp á pallborðið hjá mér.  Það er til dæmis oft skrýtið að sjá viðbrögðin hér í Kanada, þegar ég segi fólki sem býr í þessu mesta selveiðilandi heims, að ég hafi alist upp við það að borða hvalkjöt, og það sem meira sé, mér þyki það gott, og myndi setja það á grillið hér, ef það stæði til boða.

Ég skammast mín heldur ekkert fyrir að versla í WalMart, ef þar er eitthvað sem ég þarfnast og það er ódýrara og sambærilegt að gæðum og annars staðar.  McDonalds er að vísu ekki minn stíll, einhverra hluta vegna kysi ég frekar að fara á Burger King eða Harveys, en það verður ekki frá þeim tekið að þeir hafa náð meiri árangri í hamborgarsölu heldur en allir aðrir. Hvers vegna?  Verðum við ekki að segja að það sé vegna þess að þeir séu að gera eitthvað sem kaupendum líkar?


Að berjast í bönkum

Ég spjallaði örlítið um matarinnkaup hér fyrir nokkru, mikilvægur útgjaldaliður sem borgar sig að fylgjast vel með, en húsnæði og kostnaður því tengdur er ekki síður stór útgjaldaliður, og gjarna stærsta einstaka fjárfesting sem einstaklingar fara í á ævinni.

Það er því mikilvægt að vel til takist og ekki síður að fjármögnunin sé góð, því það eru víst fáir sem kaupa sér húsnæði án þess að taka stóran hluta þess að láni.

Þá hefst bankabaslið, fyrst auðvitað að finna einhvern sem vill lána, og ekki síður mikilvægt á hvaða kjörum lánið fæst. 

Ég ætla að deila aðeins með ykkur reynslu minni af þessu öllu saman. 

Það er reyndar rétt að taka það fram að reynsla mín frá Íslandi í þessum efnum var afskaplega þægileg og einföld.  Ég keypti íbúð með gömlu Byggingarsjóðsláni áhvílandi, krotaði nafnið mitt á það, og borgaði afganginn á árinu.  Síðan borgaði maður af þessu skilvíslega á þriggja mánaða fresti og þegar ég seldi íbúðina, ríflega 8 árum seinna, hafði höfuðstóllinn hækkað um 500.000 eða svo.  En ég kvarta ekki, mér leið vel í íbúðinni, afborganirnar voru hóflegar og lánið var miklu lægra hlutfall af heildarverði íbúðarinnar en verið hafði í upphafi.

Hér í Kanada er þetta dulítið öðruvísi, að stofni til það sama, maður fer og finnur einhvern sem vill lána manni (helst 2 eða fleiri) og síðan er að ákveða hvernig lán maður vill taka, og síðan að reyna að prútta örlítið um vextina.  Hér er engin verðtrygging, en vextir eru ákaflega mismunandi og það þýðir ekki að verðbólgan eti upp lánið, þó að það geti tæknilega gerst.

Algengt er að lán hér séu með vexti bundna aðeins til eins árs.  Að ári liðnu ferðu aftur í bankann og þarft að semja upp á nýjan leik um hvernig lán og vexti þú kýst.

Dæmi um vexti og mismundi lán má sjá t.d. hér:  Rétt er að hafa í huga að stýrivextir seðlabankans hér hafa nýverið verið hækkaðir upp í 4% og verðbólgan er ca. 2%.

Lántakendur velja síðan fasta vexti til ákveðinna ára, eða breytilega vexti, allt eftir því hvað hverjum hentar og hvort menn hafa trú á því að vextir komi til með að hækka eða lækka, en það er með það eins og jólagjafirnar, að vandi er um slíkt að spá.

Það er því alveg ljóst að þó að verðtrygging sé ekki til staðar, þá vilja bankarnir auðvitað hafa eitthvað fyrir sinn snúð, enda líklega ekki hægt að ætlast til annars.  Því lengur sem þú vilt festa vextina, því hærri verða þeir.  Engan hef ég heyrt tala um að binda vextina til 25 ára, sem er algengasti lánstíminn hér.  Því meiri sveigjanleika sem þú vilt hafa í auka- eða uppgreiðslum, því hærri vextir.  Loks er rétt að geta þess að ef þú ætlar ekki að borga í það minnsta kosti 25% af kaupverðinu með eigin fé, þá krefjast bankarnir hér að þú kaupir greiðslutryggingu, hún getur verið frá 1. til 3. % af lánsupphæðinni, greiðist aðeins einu sinni og bankarnir bjóðast til að bæta henni við heildarupphæðina.

En besti hlutinn er eftir.  Ef þér tekst að vekja áhuga fleiri en einnar lánastofnunar á því að lána þér,  þá er hægt að labba á milli, bera saman kjörin og segja hvað hinir eru að bjóða.  Ég held að uppáhaldssetningar mínar þessa vikuna séu: "I can do better than that" og  "I'll match that".

Hér gildir að sjálfsögðu að hafa góða greiðslusögu, og hafa nokkuð gott eiginfé, vera með öðrum orðum álitlegur lántakandi.  Með þessu móti tókst mér að krækja mér í húsnæðislán sem er langt undir þeim % sem póstað er á heimasíður bankanna og nokkuð lægri en mér voru boðnir í upphafi.  Er að sjálfsögðu ákaflega stoltur af þessum samningahæfileikum mínum.

En það sem er ekki síður gott og eykur vellíðunartilfinninguna hérna, er að það er enginn falinn kostnaður.  Konan í bankanum varð hálf skrýtin á svipinn, þegar ég fór að ympra á hvort að það væri einhver kostnaður?  Svona er maður nú mikill íslendingur í sér. 

Það eru engin lántökugjöld, engin stimpilgjöld.  Bankinn gefur okkur meira að segja 500 dollara, sem er ætlaður upp í lögfræðiskostnað við húsakaupin og lántökuna, svona til að segja til hamingju með nýja húsið.

Já, allur peningurinn sem við tökum að láni fer í að borga húsið, stórkostlegt ekki satt?


Talandi um eista

Það fer alltaf svolítið í taugarnar á mér þegar íslendingar eru að tala um eista.  Þetta getur reyndar ekki talist eitt af mínum hjartans málum, en samt pirrar þetta mig ofurlítið.  Ef til vill er það undirmeðvitundin sem er þarna að verki, og mér sé það andsnúið að segja fólki að ég sé giftur eista, ef til vill er þetta íhaldssemi og löngun til að halda í það sem ég ólst upp við, eða sambland af þessu tvennu, hver veit.

En ég er sem sé giftur eistlendingi.  Eistlendingar var líka það orð sem ég man fyrst eftir að hafa heyrt notað yfir þá þjóð sem byggir Eistland (sem þá var reyndar partur af Sovétríkjunum sálugu, en heimamenn vilja meina að þeir  hafi hersetið landið), rétt eins og við höfum notað orðið íslendingar yfir okkur sem erum fædd á Íslandi.  En síðan, fyrir nokkru, stuttu eftir að Eistland varð sjálfstætt ríki á nýjan leik, fór þetta að breytast, farið var að tala um eista.  Samsvarandi væri þá líklega að tala um svissa, í stað svisslendinga og ísa í stað íslendinga, því yrði svo líklega snarað yfir á enskuna sem "ices". 

Ekki veit ég hver ber ábyrgð á þessarri breytingu, en vil hvetja hann, eða þá, til að draga þetta snemmendis til baka, og hvetja alla til að nota orðið eistlendingar.  Eins og tíðkast að segja nú til dags, þá gleymdist nefnilega alfarið að hafa samband við hagsmunaaðila.

Eiginlega er þetta partur af miklu stærra máli, sem er alls kyns landa og þjóðaheiti sem við íslendingar höfum stundum bögglast dálítið með, mér er til dæmis ennþá illa við að segja kúbverjar, og held mig yfirleitt við að nota orðið kúbumenn sem tíðkaðist í mínu ungdæmi. 

En það getur verið gaman að velta þessum málum fyrir sér, af hverju segum við t.d. þjóðverjar, en ekki þýsklendingar? En í þessum málaflokki er margt skrýtið og líklega betra að hætta sér ekki lengra í þá sálma.

 En gerið þið það nú fyrir mig að tala um eistlendinga, það hljómar svo miklu viðkunnarlegra.


Þegar allt verður orðið ókeypis....

Hann Leifur minn á lítinn bangsa, sá heitir víst "Thanks-a-lot-bear" ef ég hef skilið rétt.  Ef ýtt er á hann þylur hann nokkrar mismunandi setningar.  Ein af þeim er: "The magic words are please and thank you". 

Þegar ég hef verið að reyna að fylgjast með baráttunni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar (sem ég hef ennþá kosningarétt í), þá dettur mér stundum þessi bangsi í hug.

Það virðist nefnilega ekki þurfa nema að ýta á einhverja takka á frambjóðendunum til að einhver "magic words" komi þar út.  En þar er ekki um að ræða "please and thank you", heldur virðast það vera orð svo sem "ókeypis", "uppbygging" "aukin þjónusta" og þar fram eftir götunum sem eru "töfraorðin".

Flest virðist eiga að vera "ókeypis", ef ekki ókeypis er alla vegna nauðsynlegt að lækka allt í verði, en auka samt uppbyggingu og þjónustu.  Og kjósendur tala oft eins og sá sem lofar þeim mestu "ókeypis" fái atkvæði þeirra.  Sumir fagna líka ákaflega öllu því sem þeir fá ókeypis.  Ef til finnst þeim betra að borga til reksturs leikskóla í 60 ár (meðalævi skattgreiðenda eða svo), frekar en að borga í þau 8 ár sem börn þeirra dvelja á þessum uppeldisstofnunum (ca miðað við 2 börn).  En töfraorðið "ókeypis" er öflugt.

Nú er rétt að taka fram, til að valda ekki neinum misskilningi, að auðvitað er þetta ekki bundið við íslenska stjórnmálamenn.  Ástæðan til þess að ég fór að hamra þetta á lyklaborðið er einmitt frétt sem birtist í Globe And Mail í dag, um sívaxandi skattgreiðslur Kanadabúa. (Sjá http://www.theglobeandmail.com/servlet/story/RTGAM.20060426.wtax0426/BNStory/National/home).

Þar kemur fram að skattgreiðslur meðal Kanadabúa hafi aukist um 1600% síðastliðinn 45 ár og skattar séu stærri útgjaldaliður meðalfjölskyldunar heldur en matur, húsnæði og fatnaður samanlagt.

Á þeim sömu árum og skattgreiðslur hækkuðu um 1600%, hækkaði útgjöld kanadískra fjölskyldna vegna húsnæðis um 1006%, matarkostnaður jókst um 481% og fatakostnaður hækkaði um 439%

Árið 1961, voru meðalfjölskyldutekjur kanadabúa $5000, og af þeim var borgað $1675 í skatta, eða 33.5%.  Árið 2005 höfðu tekjurnar hækkað í $60.903, en af þeim var fóru $28.467 í skatta til ríkisins, fylkjanna, eða sveitarfélaganna, 46.7%.

Þetta er vissulega sláandi tölur, og engan veginn til fyrirmyndar.  Það væri vissulega gaman ef einhver hefði sambærilegar tölur fyrir Ísland.

Það er því alveg ljóst að þó að ýmislegt sé "ókeypis" hér í Kanada sem á Íslandi þá er það allt saman borgað einhvern veginn. 

En hjá "Töfraorðaböngsunum" heitir þetta "ókeypis".

"Töfraorðabangsarnir" voru einnig á ferð hér í Kanada, nú fyrr á árinu, þegar kosið var til þings, en í þetta sinnið voru það þó hógværari loforðasmiðir sem unnu sigur, þó að vissulega hafi loforðin komið frá þeim líka. 

En ef til vill er þetta bara óþarft nöldur í mér, hver vill ekki fá hlutina "ókeypis" og hver hefur nokkuð með laun að gera um mánaðarmót, þegar allt verður orðið frítt?

Allt vald til "Loforðabangsana", eða hvað?


Kalkúnabringur, New York steikur, tómatar, skinka, baggabrauð og ginger ale.

Ég lærði það fyrir nokkuð löngu að maður verður ekki ríkur af kaupinu sínu, maður verður ríkur af því sem verður eftir af kaupinu, þegar búið er að kaupa allt það sem þarf (og annað sem er ekki eins nauðsynlegt).  Það er í raun ekki aðalatriðið til að verða ríkur að hafa sem hæst kaup, heldur skiptir meginmáli hvernig farið er með það sem maður fær.  Ekki verða allir launaháir ríkir, og sömuleiðis er það oft merkilegt hvað menn hafa gert úr litlum launum.

Það skiptir því miklu máli fyrir lífskjör fólks hvað hlutirnir kosta, í rauninni jafn mikilvægt og hvað launin eru há, eða jafnvel mikilvægara.  Ekkert er þó mikilvægara en hvað kostar að kaupa í matinn, því erfitt ku vera að lifa án hans.  Ríkisstjórnin á Íslandi hefur rætt um nauðsyn þess að lækka matvöruverð á Íslandi og er það vel, sú lækkun, ef einhver verður, kemur ekki degi of snemma.

Með þetta í huganum ákvað ég að deila með ykkur búðarferðinni minni.  Við feðgar lögðum af stað upp úr 2, fyrst þurfti að fara í bankann (segi ykkur ef til vill frá því síðar) og síðan var farið í búðina að kaupa nauðsynjar.  Í þetta sinn var farið í frekar dýra verslun, Sobeys (hátt þjónustustig, opið allan sólarhringinn, mikið vöruúrval), vegna þess að hugurinn stefndi til þess að kaupa ýmislegt sem ekki endilega fæst í lágvöruverðsverslunum.

Og hvað var keypt, og hvað kostaði það?  Á strimlinum má finna eftirfarandi:  Ginger Ale 2l (no name) $1.19 (ca 78 kr), hafrakex pakki $2.99 (ca. 195 kr), jógúrt 500 ml (jarðarberjabragð) $3.29 (ca 214 kr), geitamjólk 4l $9.49 (ca 617 kr), kalkúnabringur $4.39 kg (ca 285 kr), New York striploin steikur $13.95 kg (ca 907 kr), maískólfar 6. stk $1.98 (ca 129 kr), tómatar $4.39 kg (ca 285 kr), rauð steinlaus vínber $6,59 kg (ca 428 kr), Svartaskógarskinka $14,30 kg (ca 930kr) en nota bene, niðursneidd í "deli-inu" án nokkurs gjalds), baggabrauð (baguette) bakað á staðnum $1.39 (ca 90 kr) og loks einn "Matchboxbíll" fyrir foringjann, $1.99 (ca 130kr).

Rétt er að taka það fram að verslunarmenn hér í Kanada hafa þann ávana, rétt eins og starfsbræður þeirra í Bandaríkjunum, að öll verð eru án söluskatta.  Síðan kemur neðst á strimlinum hvað söluskatturinn er mikill.  Þetta er dálítið hvimleitt, en sýnir þó skýrt og skorinort hvað það er sem hið opinbera er að taka til sín.  Hér er söluskatturinn tvískiptur, GST sem er 7% og rennur til ríkisins og PST sem er 8% og rennur til Ontariofylkis.

EN, söluskattur á matvöru er enginn og því eru það eingöngu engiferölið og Matchboxbílinn sem bera 15% söluskatt af þeim lista sem er hér að undan.  Það gerir auðvitað gæfumuninn.

Líklega er lækkun matvöruverðs eitt af því brýnna á Íslandi, að flestu leyti held ég að Íslendingar hafi það mjög gott, en slík lækkun myndi koma sér vel fyrir alla, og því betur sem hærra hlutfall af tekjum þeirra fer til matarkaupa.  En vissulega þarf að gæta þess að lækkun skili sér alla leið til neytendanna.

Það leiðir aftur hugann að þeim hvimleiða sið að birta öll verð án skatts. Nú þegar Kanadíska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún ætli að lækka sinn söluskatt úr 7% í 6, og svo aftur niður í 5% á kjörtímabilinu, þá óttast það engin hér að kaupmaðurinn taki hluta af lækkuninni, eða hana alla.  Verð kaupmanna verður auðvitað óbreytt, eingöngu skatturinn neðst á strimlinum mun lækka.

Ef til vill er þetta ekki svo hvimleiður siður eftir allt?


Forza Ferrari

Sunnudagurinn fór vel af stað, vaknaði snemma, eða um hálf átta, kveikti fljótlega á sjónvarpinu, og horfði á múluna, ekki beint hægt að segja að um tilþrifamikinn kappakstur hafi verið að ræða, en það gladdi þó að sjá Schumacher vinna sigur á ný. 

Það hafa verið hálf magrir mánuðir upp á síðkastið hjá okkur sem fylgjum Ferrari að málum, ekki mikill glæsibragur á sigrinum í Minneappolis í fyrra og 2. sætið sem ég sá Schumacher vinna, og Barrichello hafði það þriðja,  í Montreal síðastliðið sumar var á meðal fárra gleðipunkta þess tímabils. En það hafa vissulega verið langir kaflar án sigra áður, en ég sem byrjaði ekki að fylgjast með sportinu sem neinu nemur fyrr en 1996, man þó ekki þá lengstu, en síðan 1996 (þá unnust 3. sigrar, og 2 sætið í keppni bílsmiða), er 2005 líklegast lakasta tímabilið. Rétt eins og 1995 vannst aðeins 1 sigur, en hann var þó eins og ég áður sagði ekki mikill glæsibragur yfir sigrinum 2005.

Það er vonandi að við eigum eftir að sjá fleiri Ferrari sigra á þessu keppnistímabili, og þó að Alonzo sé með 15 stiga forskot, þá er óskandi að Schumacher og fleiri dragi hann uppi.  En það sem skiptir auðvitað mestu máli er að skila sér í mark í góðum stigasætum, þó að sigur vinnist ekki, það sýndi Alonzo í fyrra og er á góðri leið með að gera það aftur í ár, en langt er þó til að sigur geti talist unnin þetta tímabilið.


Klassísk borðspil

Ég hef alltaf verið einn af þeim sem hafa haft afskaplega gaman af borðspilum. Þau voru mörg kvöldin sem ég sat með felögunum og spilaði "Monopoly", "Matador", "Íslenska efnhagsspilið", "Útvegspilið", "Risk" og "Axis and Allies".  Einnig voru spil eins og "Trivila Pursuit" nokkuð vinsæl, en þó voru spilin sem höfðu peninga og möguleika á árásum og "strategíu" vinsælli.

Seinna kom ég svo nálægt því að semja tvö borðspil, en það er önnur saga.

 En hvað á maður að gera þegar, lítill tími og möguleiki er á að hóa saman hópi til að spila, maður sjálfur er kominn í aðra heimsálfu, en spilalöngunin er öðruhverju ennþá til staðar?

Jú, þá - rétt eins og undir svo mörgum öðrum kringumstæðum nú til dags - leitar maður á náðir tölvunar.  Ég er þegar búinn að finna "Risk" (en hér má finna það:  http://www.spintop-games.com/download2.php?game=Risk%20II&action=trial&url=http://d.trymedia.com/dm/iwin/60m_c/iwin_tdg/RiskIISetup.exe&getemail=yes) og ætla að kaupa mér "Axis & Allies" fljótlega. (Sjá á Amazon hér:  http://www.amazon.com/gp/product/B00029QR92/103-4319625-8192608?v=glance&n=468642)

En ég myndi vissulega þiggja ef einhverjir gætu bent mér á fleiri "borðspil" í svipuðum dúr, gjarna auðvitað ef hægt er að sækja þau frítt á netið, eins og "Risk".

Auðvitað er þetta ekki jafn gaman og raunveruleg borðspil, en þegar þetta er það besta sem býðst, þá stoðar lítt að kvarta.


Páskar næsta sunnudag! Paskashinkan er að verða klár.

Við foringinn fórum í heimsókn í dag.  Líklega ekki í frásögur færandi.  Veðrið var ljúft, rétt um 20 stig á cels. og sólin skein - þó ekki í heiði, enda landlægur skortur á fjöllum hér eins og ég hef minnst á áður.

En þetta var ljúft, gestgjafinn hafði hitað fisknagga í ofninum, en foringinn neitaði þó alfarið að láta þetta inn fyrir sínar varir, en tók þó gleði sína þegar húsbóndinn kom heim úr verslunarleiðangri og dró upp úr pússi sínu forláta pylsu og rétti drengnum.

En þegar við fórum út í garðinn kom nágrannakonan og vildi endilega gauka súkkulaðistykki að foringjanum.  Honum leist nú ekki of vel á blikuna þannig að ég skarst í leikinn og og tók við súkkulaðistykkinu fyrir hans hönd og tók smá spjall við konuna.

Þetta var úkraínsk kona, nokkuð við aldur og þegar ég spurði hana hvers vegna hún væri að dreifa súkkuðlaðistykkjum til vandalausra, svaraði hún að hún hefði keypt mikið magn af þessu fyrir páskana og henni hefði litist svo vel á drenginn.

Þá kom auðvitað í ljós að páskar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar eru næsta sunnudag (það virðist sem sé ekki vera samkomulag á meðal kirknanna hvenær allt þetta gerðist).  En það sem mér þótti þó gaman að heyra var hvað orðin sem hún notaði hljómuðu kunnuglega.  Hún talaði um paska og þegar hún talaði um matinn sem hún ætlaði með til kirkju til að láta prelátann blessa, þá var meðal annars minnst á shinku (skrifað eftir hennar framburði), sem var auðvitað skinka.

Þannig virðist orðaforði okkar íslendinga og úkraínubúa skarast nokkuð, hvers vegna það er þori ég ekki að fullyrða, hvort um sé að ræða alþjóðleg orð, eða hvort vera víkinga í Kænugarði og nágrenni hefur skilið eitthvað varanlegt eftir í málinu, en þetta kom skemmtilega á óvart.

En upp í hugann kom, hvað þessi seinkun á dagatali þeirra rétttrúnaðafólks er þægileg fyrir þau og svo verslunarfólk, ekki eingöngu dreifir þetta versluninni yfir lengra tímabil, heldur gerir þetta rétttrúnaðarfólki oft kleyft að gera betri kaup, t.d. um jólin, þegar útsölur eru þegar byrjaðar þegar þeirra jól bresta á.

Síðan fórum við feðgar í verslunarleiðangur, keyptum nýtt skjákort og hitt og þetta í matinn.  Úkraínska súkkulaðistykkið náði ég svo að fela þegar heim var komið og kemur það ekki meira við söguna, fyrr en síðar.


Er gengið upp að hnjám?

Nú sit ég hér fyrir framan tölvuna, konan að svæfa foringjann, ég sötra líka þetta dásamlega "Bláfjalls" kaffi og hugsa um lífið og tilveruna.

Gengið krónunnar hefur verið ofarlega í huga mér undanfarna daga.  Nú er Kanadadollarinn ríflega 69 krónur, og man ég ekki eftir því að hann hafi verið verðmeiri.

Fyrir mig eru þetta í sjálfu sér ekki alslæm tíðindi, en þó hef ég nokkrar áhyggjur af þessu, ef við skreppum til Íslands á næstunni, verður ferðin í sjálfu sér ódýrari fyrir okkur, ja nema auðvitað allt verði hækkað samsvarandi í krónum, þá breytir þetta ekki nokkrum hlut.  Nema auðvitað að fyrir íslendinga verður allt dýrara.

En hvað breyttist?  Hvers vegna er krónan ca. 30% ódýrari heldur en hún var um áramót? Var krónan svona gróflega yfirverðlögð, eða á hún betra skilið heldur en núverandi staða gefur til kynna?  Á hún eftir að tapa meira af verðgildi sínu?

Eins og oft áður skila hugleiðingar mínar engum ákveðnum svörum, nema auðvitað því að mér þykir ljóst að krónan hefur tapað tiltrú manna, og um leið læðist að mér léttir yfir því að hafa komið sparifé mínu frá Íslandi og sömuleiðis selt íbúðina mína áður en mesta verðtapið átti sér stað.  Fyrir það má ég vera þakklátur.

Hlutabréfamarkaðurinn hefur sömuleiðis tekið mikla dýfu, enda ef til vill ekki að undra þegar það eitt að hafa flutt fé sitt yfir í gjaldeyri hefur tryggt fjárfestum svona góða ávöxtun.  Þess vegna leiði ég hugann að því hvort að hrunið verði eins og hjá læmingjum sem strunsa fram af bjargbrún.  Til hvers að kaupa íslensk hlutabréf eða krónur, þegar besta arðsemin er í því að kaupa erlendan gjaldeyri? Hvenær snýst dæmið við og það lítur betur út að kaupa íslensk hlutabréf eða krónur?  Það gæti verið langt í það.

En auðvitað eru alltaf einhverjir sem fagna þegar krónan tapar verðgildi sínu.  Fremstir í flokki fara þeir sem flytja vörur út frá Íslandi, og svo auðvitað þeir sem ætla að ferðast til Íslands, þar á meðal nokkrir sem ég þekki hér í Toronto, þeir sjá fram á að dollarinn þeirra dugi meira en áður.  T.d. mun bjór á Íslandi hafa lækkað ca. úr 15 dollurum í 10 til 11, ekki slæmt það.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband