Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006
18.4.2006 | 23:02
Dýragarðurinn
Við ákváðum að nota frídaginn sem við fengum í gær til þess að fara í dýragarðinn. Dýragarðurinn hér í Toronto er stór og mikill, skemmtilegur yfirferðar og ég held að dýrin hafi það nokkuð gott, aðbúnaður bærilegur og flest svæðin nokkuð stór, þó að vissulega sé frelsið fyrir bí. En mörg dýranna eru þó fædd í dýragörðum og þekkja því ekkert annað.
En mér hefur alltaf þótt það heillandi að labba um, gjarna með ís í hönd, og skoða framandi dýr. Þannig er líka eina tækifærið sem flest okkar hafa til þess að bera þau augum.
Flest voru dýrin ósköp letileg í gær, lágu, sváfu eða móktu og fæst þeirra höfðu fótaferð. Ef til vill verður maður svona, ef ekkert er fyrir stafni nema að bíða eftir næsta matarskammti og hann kemur án fyrirhafnar. Þá er ástæðulaust að láta allan þennan mat sem frá hjá skikanum manns gengur fá nokkra athygli, enda löngu ljóst að til hans verður ekki náð.
En Leifur Enno skemmti sér vel, hann hafði gaman af því að skoða dýrin, en hápunktur ferðarinnar var þó líklega að hans mati, sá partur af íspinna sem hann fékk, flatmagandi skógarbirnir, sofandi tígrisdýr, eða syndandi ísbirnir, voru ekki eins stórfenglegir í hans huga.
En þetta var fín ferð og allt eins og það á að vera, nema auðvitað að ég sólbrann lítillega, en það telst heldur ekki til tíðinda.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2006 | 21:54
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og kaffi gott
Fann þetta líka eðal kaffi í gær, eftir langa og stranga leit.
Jamaíka kaffi, nánar tiltekið Blue Mountain Blend kaffi (smá fróðleikur hér: http://www.jamaica-gleaner.com/pages/history/story0029.html) þetta er hreint snildarkaffi, bragðið ferskt, sterkt og ljúft. Verðið var meira að segja gott, það gerist eiginlega ekki mikið betra en þetta. Ásamt Bob Marley er þetta það besta sem ég hef upplifað frá Jamaíka.
Núna þarf ég líklega að byrja að spara fyrir hreinu og ósviknu Blue Mountain kaffi, en þar er hinsvegar um að ræða annan verðflokk, en ef Blue Mountain Blend nær því að vera þetta gott, þá hlýtur hreint Blue Mountain að vera hreinn unaður.
Nú þarf ég bara að finna mér góða kaffikvörn, áður en ég eyðilegg töfrasprotann á heimilinu, en hann er núna notaður til mölunar.
Svona fyrst ég er farinn að tjá mig um innkaup, þá gerði ég fín kaup í LCD skjá í dag, keypti mér Samsung 940B, 19" skjá. Að setja gamla túpuskjáinn til hliðar er góð upplifun, orðið tímabært að koma sér inn í 21stu öldina, núna þarf ég bara að kaupa mér nýja tölvu og verð þá orðinn fær í flestan sjó.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 19:32
Hverjar eru ær og kýr bænda?
Ég var að hugsa um það á meðan ég hanteraði nautasteikurnar sem ég ætla að grilla í kvöld, hvernig stendur á því að í þeim löndum sem ég hef búið í, þá fer svo mikill tími um að ræða kaup og kjör bænda og hvernig samfélagið (stjórnvöld) geti komið þeim til hjálpar og styrkt framleiðslu þeirra og þeir notið bærilegra lífskjara.
Allir þekkja líklega landbúnaðarumræðuna á Íslandi, þau ár sem ég bjó í Frakklandi voru bændur og umræða um þá verulega fyrirferðarmikil, þeir rústuðu stöku McDonalds stað og komu reglulega í bæinn á dráttarvélunum sínum, gjarna með mykju eða rotnandi grænmeti meðferðis, sem var svo sturtað á ýmsa mótmælalega mikilvæga staði. Jafnvel þessa fáu mánuði sem ég bjó á Spáni voru bændur aldrei langt frá umræðunni, og sýndist sitt hverjum.
Hér í Kanada hafa bændur sömuleiðis verið að koma í bæjarferðir upp á síðkastið og hafa rekið kýr (engar ær með) sínar yfir mótmælalega mikilvæga staði og krefjast milljarða dollara í aðstoð frá samlöndum sínum hér í Kanada og þá að sjálfsögðu til viðbótar við þá milljarða sem þeir fá nú þegar.
Mjólkurframleiðsla hér í Kanada mun t.d. vera í svipuðum viðjum og á Íslandi, kvótakerfi hefur verið komið á laggirnar, kvóti gengur kaupum og sölum dýru verði og bannað er að flytja inn mjólk, og líka að flytja hana út. Kúabóndi sem hefur verið að flytja mjólk út til Bandaríkjanna, án niðurgreiðslna á í útistöðum við samtök mjólkurbænda.
En hvers vegna er svona komið fyrir þeim sem eru að framleiða það sem okkur er öllum svo nauðsynlegt, hvers vegna eiga þeir sem framleiða mat svona erfitt með sinn rekstur?
Búin verða æ stærri og nýta æ meiri tækni, en samt geta þeir ekki selt framleiðslu sína á því verði sem þeir telja sig þurfa og þurfa að treysta á niðurgreiðslur hins opinbera.
Koma niðurgreiðslurnar í veg fyrir framþróun og bætta framleiðni, eða gera þær okkur einungis kleyft að kaupa mat, án þess að tæma budduna?
Er betra að borga fyrir landbúnaðarvörur á tveimur stöðum? Fyrst hjá skattinum og svo afganginn í stórmarkaðnum eða slátraranum? Eru þessar niðurgreiðslur fyrir neytendur eða bændur?
Er mikilvægara fyrir bændur að vera sýnilegur þrýstihópur heldur en að leita betri og ódýrari leiða til að yrkja jörðina?
Eða eru styrkir stjórnvalda þeirra ær og kýr?
Ekki ætla ég að halda því fram að ég hafi svarið við öllu þessu, en þetta er gott umhugsunarefni á meðan ég held áfram að undirbúa kvöldmáltíðina, sem að sjálfsögðu byggist öll upp af landbúnaðarafurðum. Þeir sem leggja til hráefnið í þetta sinn eru að sjálfsögðu kanadískir bændur, hugsanlega gæti hluti komið frá starfbræðrum þeirra í Bandaríkjunum, og líklega drekk ég gerjaðan vínberjasafa frá ítölskum eða spænskum vínbændum (ekki búið að velja endanlega).
Það skyldi þó ekki vera að kvöldmáltíð fjölskyldunar sé niðurgreidd af skattgreiðendum í þremur löndum?
16.4.2006 | 16:51
Trúin flytur fjöll
Við erum búin að hafa það ósköp gott. Reyndar eru páskar öllu "styttri" hér í útlandinu, en föstudaginn fá þó flestir sem frídag. Ekki þó endurskoðandinn okkar, en við notuðum föstudaginn eins og svo margir aðrir hér til að ganga frá skattaskýrslunum okkar með dyggri aðstoð hans.
Laugardagurinn var svo notaður til langrar gönguferðar og um kvöldið snædd grilluð íslensk lúða. Ekki beint mitt uppáhald, en konan elskar íslenskan fisk.
Nú í morgun var svo tekið til við páskaeggin. Ég fékk málsháttinn "Trúin flytur fjöll". Ég veit ekki alveg hvernig ég á að taka þessum. Nú hef ég reyndar oft lýst því yfir að ég sakni fjallasýnar, og mér finnist tilfinnanlega vanta tignarleg fjöll hér í Ontario, en er þetta ábending um að það sé vegna vöntunar á trúarhita af minni hálfu?
Leifur Enno fékk "Eftir höfðinu dansa limirnir". Hann hefur svo sem ekki tjáð sig sérstaklega um málsháttinn, en ég hef hann sterklega grunaðan um að líta svo á að þetta sé staðfesting á forystuhlutverki sínu í fjölskyldunni, hann sé höfuðið, og við limirnir sem ætlað sé að dansa eftir hans óskum og vilja, bera fram mat og kræsingar og sjá til þess að nægt súkkulaði sé á boðstólum.
Annars var hann um 11. leytið farinn að kyrja eins og búddamunkur, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði. En þetta bráði af honum og hann varð aftur eins og hann á að sér að vera. En þetta er samt ábyggilega mikill sæludagur að hans mati, enda passar tannlæknirinn á heimilinu upp á það að sælgæti sjáist sjaldan. Ég reyndi að útskýra fyrir henni, þegar hún var að segja að ég þyrfti ekki að klára allt páskaeggið mitt í dag, að sá hæfileiki að geta etið mikið súkkulaði á stuttum tíma, væri eitt af því sem gerði okkur að íslendingum, það væri partur af menningararfi okkar, en ég held að hún hafi ekki "keypt" það.
Konan fékk málsháttinn "Betri er bið en bráðræði", eins og áður sagði held ég að hún hafi viljað meina að þessi ætti beint við páskaeggjaát, en ég hefði getað sagt henni frá mörgu sem þetta ætti betur við, hefði hún bara spurt.
Konan bjó hins vegar til egg á eistneskan máta, sauð hænuegg vafinn inn í laukhýði, sem þannig taka á sig lit og verða næstum eins og marmaraegg útlítandi, en þetta er ágætisskraut, en eru auðvitað í engu frábrugðin venjulegum eggjum í bragði, og kæta því lítið íslendinginn.
En þetta verður ábyggileg ljúfur dagur, alla vegna hef ég trú á því, ekki minnstan part í því koma vonandi til með að eiga steikurnar sem ég keypti í gærmorgun, sem og rauðvínið sem ég keypti í ÁTVR okkar Ontariobúa, en það nefnist LCBO.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.4.2006 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2006 | 01:59
Heiðarbúinn
Ég hef áður skrifað um bækur sem ég er að lesa og mun án efa gera þeim bókumsem ég hef rétt lokið við, eða er að lesa núna skil síðar, en bókin sem er efni þessa pistils, er bók sem ég hef tekið að mér að þýða, eða réttara sagt hluta af henni.
Bókin heitir "Haugaeldar", og er skrifuð af Gísla Jónssyni frá Háreksstöðum. "Haugaeldar var gefin út af Bókaútgáfunni Eddu á Akureyri, árið 1962 og er safn greina og ritgerða eftir fyrrnefndan Gísla. Ástæðan fyrir því að ég er að þýða hluta hennar er sú að Gísli fluttist eins og margir aðrir íslendingar til Kanada, snemma á 20. öldinni.
Þessar minningar hans og ritgerðir sem gefnar voru út á Akureyri, vekja hinsvegar áhuga eftirkomenda hans hér í Kanada í dag, en þeir geta ekki lesið íslenskuna og þess vegna er ég að vinnna í því að þýða nokkurn hluta bókarinnar, það er að segja þann sem fjallar um uppvöxt hans á austurlandi. Gísli og fjölskylda hans bjuggu á Jökuldalsheiðinni, á Háreksstöðum og fleiri bæjum. Þar var lífsbaráttan hörð og kjörin kröpp, og litlu mátti muna hvert ár, ef vel átti að fara.
En ég verð að segja að þetta er fróðlegt starf. Að lesa um uppvöxt Gísla, seint á 19. öldinni er holl lesning fyrir þann sem ólst upp á Íslandi á seinni hluta tuttugustu, en fetaði síðar í fótspor Gísla og annarra Vesturfara og settist að í Kanada rétt 100 árum eða svo síðar.
Þannig læri ég ekki eingöngu um breytingar þær sem hafa orðið á íslensku samfélagi, heldur líka því Kanadíska, og auðvitað að hluta til um þann þátt sem íslendingar áttu aðild að þeim breytingum á því Kanadíska.
Að hluta til er þetta saga um þrautseigju og ef til vill þrjósku, það var það sem þurfti til, bæði á heiðunum á austurlandi og ef til vill ekki síður til þess að brjóta sér leið í nýju landi með nýju tungumáli og nýjum siðum.
Frásögn Gísla er í merkileg heimild, frásögn af kynslóð sem barðist áfram, í tveimur heimsálfum, og lét fátt aftra sér, í þeirri viðleitni sinn að byggja sér og afkomendum sínum betri tilveru.
Eftir því sem ég kemst næst eru þeir sem teljast afkomendur þeirra íslendinga sem fluttu vestur um haf, svipaðan fjölda og þeir íslendingar sem búa á íslandi í dag. Flestir þeirra hafa þó blandast öðrum þjóðernum hér vestanhafs, en eigi að síður er þetta nokkuð sem vert er að hafa í huga.
Bækur | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2006 | 22:20
Þorrablót og afslöppun
Eins og áður hefði verið minnst á var Thorrablót Íslendingafélagsins hér í Toronto haldið síðastliðinn laugardag.
Ég fór með fjölskylduna alla og höfðum við gaman af, átum vel og drukkum, hittum mann og annan, skeggræddum og skröfuðum. Aðsóknin var með mesta móti eða rétt ríflega 200 manns.
Við vorum þó, rétt eins og Öskubuska komin heim fyrir miðnætti, þannig að ekki er hægt að segja að sollurinn hafi verið sopinn af mikilli ákefð.
En Thorrablótið var hin besta skemmtun, Leifur Enno skemmti sér manna best, enda mikið af krökkum sem hann gat leikið sér við, á milli þess sem hann át harðfisk, hangikjöt og ávexti af mikilli ákefð.
Dagskráin fór vel fram, mikið um söng og afhentir voru námsstyrkir og styrkir til handa unglingum til að fara til Íslands og taka þátt í Snorra prógramminu, sem gerir unglingum af íslenskum ættum kleyft að heimsækja Ísland, vinna þar um tíma og kynnast ættingjum sínum og íslenskum uppruna (http://www.snorri.is/)
Fólk fór að tygjast til heimferðar um 10 leytið, og ekki er hægt að segja að vín hafi sést á nokkrum manni, þó að ekki hafi verið örgrannt um að roði hafi verið farinn að sjást í kinnum nokkurra námsmanna frá heimalandinu, sem stunda nám vítt og breitt um Ontario.
En þetta var allt saman ljúft og gott, á sunnudaginn fór ég svo eldsnemma á fætur, sótti bókahillur sem okkur hafði áskotnast að gjöf, en eftirmiðdeginum eyddum við feðgar í leti heimafyrir á meðan konan fór í afmælisveislu. Okkar sameiginlegi miðdegislúr var einn af hápunktum helgarinnar og endurnærði okkur báða til líkama og sálar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2006 | 03:54
Föstudagur að kveldi kominn
Einu sinni hlakkaði ég alltaf til föstudaga, það er jafnvel ekki örgrannt um að svo geri ég enn, en þá er það líklega mest af gömlum vana.
Það er nefnilega ekkert svo sérstakt við föstudagana. Ég er orðinn það gamall, að langt er síðan ég hef farið á djammið á föstudegi, konan vinnur yfirleitt á laugardögum, og foringinn er ekki orðinn nógu gamall til þess að vita hve mikilvægir föstudagar - nú eða þá laugardagsmorgnar - þannig að hann vaknar jafn snemma á laugardögum sem aðra daga.
Þó togar einhver skemmtileg fortíðarhyggja í. Þess vegna er meira freistandi en aðra daga að stinga korktappa úr flösku og bergja á góðu víni, föstudaga en aðra daga. Rétt eins og ég gerði í dag. Eftir erfiðan dag, heimsóknir í jafnoka BT í Kanada (sjái hvað merkin eru lík hér: http://www.bestbuy.ca/home.asp?newlang=EN&logon=&langid=EN), rölt um bókabúð, þar sem ég fann enga bók á skaplegu verði sem mig langaði til að kaupa, heimsókn í matvörubúð, þar sem keypt var mjólk, ostur, ananas ásamt nokkrum öðrum nauðsynjum, þá gerðist eitthvað þegar ég kom heim og var að lyfta foringjanum upp á skiptiborðið og einhver vöðvi í bakinu ákvað að nóg væri komið og gaf sig. Líklega er þetta ábending um að við höfum ekki gengið nógu einarðlega fram í því að kenna drengnum að nota koppinn, og þetta geti ekki gengi lengur. Þegar á þriðja árið sé komið verði foreldrarnir að axla ábyrgð og kenna börnunum að nota náttgögnin, jafnt nætur sem daga.
En til að reyna að slaka á fyrrgreindum vöðvum, dróg ég kork úr skemmtilega útlítandi rauðvínsflösku frá Chile og reyndi að slaka á. Er meira gefin fyrir náttúruleg slökunarefni, heldur en þau sem koma í hvitu pilluformi.
En nú er kominn tími til að halla sér, næstum komið miðnætti hér Westanhafs.......
7.4.2006 | 03:44
Fermingagjafirnar í ár?
Eins og ég minntis á fyrir nokkrum dögum, þá dreif ég í því að kaupa og lesa "The DaVinci Code" fyrir stuttu síðan, loksins.
Þó að mér finndist bókin ágætis afþreying, þá sagði ég að mér þætti hún ekki standa undir öllu því írafári sem hún hefði valdið.
En efnið er heitt, kannski ekki síst af því að páskarnir eru rétt handan við hornið. Því var það að ég las tvær greinar sem ég sá í tímaritinu Macleans, en þær má sjá hér:
http://www.macleans.ca/topstories/religion/article.jsp?content=20060403_124503_124503
http://www.macleans.ca/topstories/religion/article.jsp?content=20060403_124386_124386
Þetta er vissulega skemmtilegar vangaveltur og gætu breytt heimsmynd okkar verulega á næstu árum, alla vegna ef almenningur fer að taka þetta til athugunar, sérstaklega þeir sem telja sig kristna.
Rétt eins og segir í "The DaVinci Code", (ekki alveg orðrétt) " .. the biggest story ever told", should be rephrased into " ... the biggest story ever sold".
En verða þessar bækur ekki fermingagjafirnar í ár?
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 14:41
Þorrablót um vor, graflax og fleira.
Ég er að fara á þorrablót um næstu helgi. Þetta hljómar vissulega undarlega en svona er nú hefðin hér í Toronto. Þorrablót er alltaf haldið seint í mars eða snemma í april. Reyndar á þessi samkoma lítið sameiginlegt með íslensku þorrablóti, en það er eins og annað, hefðir og venjur breytast og verða mismunandi í mismunandi samfélögum, þó að nafnið haldi sér.
Mest afgerandi munurinn sem ég hef tekið eftir hér, er það að það sést ekki vín á nokkrum manni og allir fara að drífa sig heim um 10 leytið. Þætti þunnur þrettándi á Íslandi.
Maturinn er líka allt öðruvísi, ekki verri, ekki betri, en einfaldlega öðruvísi. Hangikjötið sem kemur frá Winnipeg, á t.d. lítið sameiginlegt með íslenska hangikjötinu, nema að það er reykt. En lambið er annað, viðurinn sem er brendur er annar og því verður bragðið allt annað. Einn hlutur er þó sem bragðast mun betur að mínu mati, hér í Vesturheimi, en það er rúllupylsan. Hér búa menn til rúllupylsu úr frampartinum en ekki slögum, og verður því rúllupylsan með hærra hlutfalli af kjöti og minna af fitu. Tvímælalaust til hins betra.
En svo er fullt af öðrum mat á "Þorrahlaðborðinu" hér sem ekki sést heima s.s. graflax, sem ég tók að mér að grafa, og gerði það í gærkveldi. Reyndar þegar ég var að sýsla við þetta í gærkveldi, greip ævintýraþráin mig, þegar ég átti svolítið eftir af kryddblöndunni og ég henti einu ýsuflaki í grafningu um leið. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það kemur út.
Svo eru allskyns Kanadískir réttir, eða íslensk-kanadískir, sem gera matseðillinn skemmtilega blandaðan. Svið eru þó víðsfjarri, sömuleiðis súrmatur og yfirleitt bæði hákarl og brennivín. En harðfiskur er á boðstólum, flatbrauð er ennþá bakað, reynt er að búa til skyr úr jógúrt eða buttermilk, rófustappa er ómissandi, og pönnukökur og vínarterta hafa fylgt kynslóðunum hér og eru ómissandi sem eftirréttir. Reyndar hefur vínartertan þróast nokkuð í áranna rás, og er yfirleitt gerð með kremi á toppnum, ekki ósvipað því sem gjarna er haft á gulrótartertur. Það þykir nauðsynlegt hér, en kemur hreinstefnumönnum í vínartertuáti, eins og mér, spánskt fyrir sjónir.
Þannig er þetta í matargerð sem öðru, framþróun og breytingar vekja alltaf misjafna hrifningu og sýnist sitt hverjum. Menn taka sumu fagnandi en vilja spyrna við fótum á öðrum stöðum og sanna enn og aftur að misjafn smekkur og skoðanir eru eðlilegasti hlutur og verður alltaf til staðar.
3.4.2006 | 23:35
Páskaeggin eru komin
Pakki kominn frá Íslandi. Innihaldslýsing: 3 páskaegg (2 brotin), steiktur laukur, Ópal og Tópas (án vínanda), súkklaðihúðaður lakkrís og kaffi.
Þannig að það er ljóst að við förum ekki í páskahérann þetta árið, en hann ku vera náfrændi jólakattarins hjá þeim sem aðhyllast svokallaða fusionhjátrú. Þökk sé Ellu fyrir góðgætið.
En það er annars merkilegt hvað allt þetta íslenska sælgæti er bragðgott, og þeim mun meira sem ég smakka það sjaldnar.
En það er óneitanlega skemmtileg stemming sem fylgir páskaeggjunum, og þó að kaupa megi páskaegg hér um slóðir, eru þau frekar þunnur þrettándi. Ekki eins gott súkkulaði, ekkert innan í þeim og engin málsháttur. Í raun aðeins súkkulaðistykki með skrýtnu lagi.
Kaffi er líka munaðarvara sem er erfitt að finna gott upplag af, líklega verð ég að fara að kaupa mér kvörn, þar sem auðveldara er að finna gott kaffi ómalað. En annars er það merkileg uppgötvun hvað vont kaffi verður mikið betra með smá skvettu af hlynsýrópi út í.