Kalkúnabringur, New York steikur, tómatar, skinka, baggabrauð og ginger ale.

Ég lærði það fyrir nokkuð löngu að maður verður ekki ríkur af kaupinu sínu, maður verður ríkur af því sem verður eftir af kaupinu, þegar búið er að kaupa allt það sem þarf (og annað sem er ekki eins nauðsynlegt).  Það er í raun ekki aðalatriðið til að verða ríkur að hafa sem hæst kaup, heldur skiptir meginmáli hvernig farið er með það sem maður fær.  Ekki verða allir launaháir ríkir, og sömuleiðis er það oft merkilegt hvað menn hafa gert úr litlum launum.

Það skiptir því miklu máli fyrir lífskjör fólks hvað hlutirnir kosta, í rauninni jafn mikilvægt og hvað launin eru há, eða jafnvel mikilvægara.  Ekkert er þó mikilvægara en hvað kostar að kaupa í matinn, því erfitt ku vera að lifa án hans.  Ríkisstjórnin á Íslandi hefur rætt um nauðsyn þess að lækka matvöruverð á Íslandi og er það vel, sú lækkun, ef einhver verður, kemur ekki degi of snemma.

Með þetta í huganum ákvað ég að deila með ykkur búðarferðinni minni.  Við feðgar lögðum af stað upp úr 2, fyrst þurfti að fara í bankann (segi ykkur ef til vill frá því síðar) og síðan var farið í búðina að kaupa nauðsynjar.  Í þetta sinn var farið í frekar dýra verslun, Sobeys (hátt þjónustustig, opið allan sólarhringinn, mikið vöruúrval), vegna þess að hugurinn stefndi til þess að kaupa ýmislegt sem ekki endilega fæst í lágvöruverðsverslunum.

Og hvað var keypt, og hvað kostaði það?  Á strimlinum má finna eftirfarandi:  Ginger Ale 2l (no name) $1.19 (ca 78 kr), hafrakex pakki $2.99 (ca. 195 kr), jógúrt 500 ml (jarðarberjabragð) $3.29 (ca 214 kr), geitamjólk 4l $9.49 (ca 617 kr), kalkúnabringur $4.39 kg (ca 285 kr), New York striploin steikur $13.95 kg (ca 907 kr), maískólfar 6. stk $1.98 (ca 129 kr), tómatar $4.39 kg (ca 285 kr), rauð steinlaus vínber $6,59 kg (ca 428 kr), Svartaskógarskinka $14,30 kg (ca 930kr) en nota bene, niðursneidd í "deli-inu" án nokkurs gjalds), baggabrauð (baguette) bakað á staðnum $1.39 (ca 90 kr) og loks einn "Matchboxbíll" fyrir foringjann, $1.99 (ca 130kr).

Rétt er að taka það fram að verslunarmenn hér í Kanada hafa þann ávana, rétt eins og starfsbræður þeirra í Bandaríkjunum, að öll verð eru án söluskatta.  Síðan kemur neðst á strimlinum hvað söluskatturinn er mikill.  Þetta er dálítið hvimleitt, en sýnir þó skýrt og skorinort hvað það er sem hið opinbera er að taka til sín.  Hér er söluskatturinn tvískiptur, GST sem er 7% og rennur til ríkisins og PST sem er 8% og rennur til Ontariofylkis.

EN, söluskattur á matvöru er enginn og því eru það eingöngu engiferölið og Matchboxbílinn sem bera 15% söluskatt af þeim lista sem er hér að undan.  Það gerir auðvitað gæfumuninn.

Líklega er lækkun matvöruverðs eitt af því brýnna á Íslandi, að flestu leyti held ég að Íslendingar hafi það mjög gott, en slík lækkun myndi koma sér vel fyrir alla, og því betur sem hærra hlutfall af tekjum þeirra fer til matarkaupa.  En vissulega þarf að gæta þess að lækkun skili sér alla leið til neytendanna.

Það leiðir aftur hugann að þeim hvimleiða sið að birta öll verð án skatts. Nú þegar Kanadíska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún ætli að lækka sinn söluskatt úr 7% í 6, og svo aftur niður í 5% á kjörtímabilinu, þá óttast það engin hér að kaupmaðurinn taki hluta af lækkuninni, eða hana alla.  Verð kaupmanna verður auðvitað óbreytt, eingöngu skatturinn neðst á strimlinum mun lækka.

Ef til vill er þetta ekki svo hvimleiður siður eftir allt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband