Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Er Covid-19 verra en flensa? Líklega fer að eftir því við hvaða flensu og hvaða land er miðað

Margir hafa sagt að Covid-19 sé ekkert verri en venjuleg flensa.  Ég er ekki alveg sammála því.

En er Covid-19 verri en mjög slæm flensa?  Ef þannig væri spurt ætti ég erfiðara með því að gefa ákveðið svar.

Tökum sem dæmi flensuna sem geysaði 1968.  Hún var gjarna kölluð "Hong Kong flensan" og sumir kölluðu hana jafnvel "Maó flensuna".  Það var auðvitað áður en en sú hugsun læddist að nokkrum manni að það samræmdist ekki "nútíma hugsunarhætti" að kenna veikindi við uppruna þeirra, hvað þá "sósíalíska leiðtoga sem veittu sólskini yfir jarðarkringluna".

Hún þótti "nýjung" þá, en er eftir því sem ég kemst næst nákskyld því sem við köllum influensu A, í dag.

En hvað veiktust margir af "Hong Kong" flensunni og og hvað margir létust?

Um það er alls ekki einhugur. Lægstu tölur segja ríflega milljón einstaklinga hafa látist, en hæstu tölur eru í kringum 4. milljónir.  Það voru líklega ekki birtar daglegar tölur þá, eins og tíðkast nú.

Engin virðist hafa nokkra hugmynd um hvað margir veiktust.

Líklega hefðu áhrif "Hong Kong flensunnar" orðið mun meiri og alvarlegri, hefði bóluefni ekki komið til sögunnar 4. mánuðum eftir að hennar varð fyrst vart.

Það sama má reyndar segja um "venjulegu flensuna" sem herjaði á heimsbyggðina árið 1957.

Rétt er að hafa í huga að árið 1968 voru íbúar heimsins álitnir u.þ.b. 3.5 milljarðar, eða vel undir helmingi af þeim 7.5 milljörðum sem taldir eru búa þar í dag.

Árið 1957 voru íbúar heimsins taldir tæplega 2.9 milljarðar.

Það má því vera nokkuð ljóst að flensurnar 1957 og 1968 hjuggu líklega stærri skörð í íbúafjölda heimsins heldur en Covid-19 hefur náð að gera, en vissulega er heimsbyggðin ekki búin að bíta úr nálinni með Covid-19 enn.

Ef miðað er við hærri tölurnar um dauða 1957 og 1968, þyrftu dauðsföll að ná fast að 10. milljónir, til að vera hlutfallslega sambærileg.

Enn sem komið er er því Covid-19 verra en hefðbundin flensa, en ekki eins slæmt eða svipað og "slæm flensuár".

En þá eins og nú urðu lönd mjög misjafnlega fyrir barðinu á "óværunni".  Talið er að t.d. 100.000 einstaklingar hafi látist í Bandaríkjunum 1968/69/70 (tveir vetur) af völdum flensunar.  Þá voru íbúar þar í kringum 200 milljónir.  Það er því nokkuð ljóst að Bandaríkin eru að fara heldur verr út úr "kófinu" en flensunni 1968.

En sé litið til Þýskalands er talið að í kringum 60.000 einstaklingar hafi látist í Austur og Vestur Þýskalandi. 

Það er mikið hærri tala en nú af völdum Kórónuveirunnar. Þó hefur íbúum sameinaðs Þýskalands fjölgað verulega.

Til dæmis er talað um að dauðsföll hafi verið svo mörg í Berlín að líkum hafi verið staflað í neðanjarðarlestargöngum.  Ekki hafi hafst undan við að grafa þá sem dóu og sorphreinsunarmenn hafi verið "shanghæjaðir" í störf grafara.

Í Frakklandi var talið að allt að helmingur vinnandi fólks hafi lagst í rúmið.

Það var einnig mjög mismunandi eftir löndum hvort að fyrri bylgjan (68/69) olli fleiri dauðsföllum en seinni bylgjan (69/70).

En yfirleitt var gripið til lítilla eða engra sóttvarnaraðgerða, þó að vissulega færu margir varlega.

Það er til dæmis vert að hafa í huga að á milli fyrri og seinni bylgjunnar í Bandaríkjunum, eða sumarið 1969, nánar tiltekið í ágúst, var blásið til Woodstock.  Það var síðan í október sem seinni bylgjan fór á fulla ferð.

Eins og velþekkt er úr sögunni vantaði heldur ekki mótmælasamkomur á þessum árum, hvorki í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Bæði forseti og varaforseti Bandaríkjanna smituðust af flensunni og yfirleitt er talið að geimfari, sem varð veikur á braut um jörðu hafi smitast af þeim. Hann var þó aðeins 1. af 3.

Þeir sem kannast við hugtakið "68 kynslóðin" gera sér líklega grein fyrir því að fjölmenn mótmæli áttu sér stað bæði austan hafs og vestan á þessum árum.

Það er reyndar eftirtektarvert hve erfitt er að finna yfirgripsmiklar heimildir um þessa faraldra sem þó kostuðu svo mörg mannslíf.

En líklega var tíðarandinn annar. 

Samfélagsmiðlar þekktust ekki, fjölmiðlun var allt önnur og samfélagið sömuleiðis.

Hvernig skyldi verða fjallað um "kófið" að 50. árum liðnum?  Verður fókusinn á hættuna?  Eða viðbrögðunum?

Eða verður þetta að mestu leyti gleymt?

 


"Umhugsunarmatur"

Nú er mikið rætt um bóluefni og eðlilega eru miklar vonir bundnar við þau.  Enn er þó ekki sopið kálið eins og stundum er sagt.

En ég hef mikla trú á því að bóluefni verði samþykkt innan tíðar.  Ein af þeim stofnunum sem við setjum traust okkar á í þeim efnum  er hin Bandaríska FDA (Food and Drug Administration) sem við myndum líklega þýða sem "Matvæla og lyfjastofnunin".

En er það ekki svolítið merkilegt að þegar kemur að því að sprauta bóluefni í vöðva virðast langflestir treysta vísindamönnum FDA til að vinna rannsóknir sínar einarðlega og af heiðarleika (sem ég tel þá gera).

Síðan þegar kemur að vísindarannsóknum þeirra á t.d. kjötræktun eða því hvort að óhætt sé að snæða "klórbaðaðan" kjúkling, er ótrúlega stór hópur sem telur vísindamenn sömu stofnunar á algerum villigötum og best sé að hundsa þær með öllu.

P.S. Rétt að taka það fram út frá "lesskilningssjónarhorni", að ég er ekki að segja að vísindamenn FDA muni ekki standa rétt að úttekt á bóluefni, heldur hitt að ég er að hvetja fólk til að velta því fyrir sér hvernig á þessu standi.

 

 


Annað sjónarhorn í kórónubaráttunni - Sóttvarnaraðgerðir Reykjavíkurborgar og Dags

Það getur verið merkilegt að sjá fréttir frá "öðru sjónarhorni" en venjulega. Hér er t.d. myndband frá góðgerðarstofnum Michael Bloomberg, sem fjallar um hvernig Reykjavíkurborg og borgarstjórinn hafa leitt baráttuna gegn Kórónuveirunni.

Borgin og borgarstjórinn hafa verið leiðandi í rakningu smita, raðgreiningu á stökkbreytingium á veirunni.

Borgin og borgarstjórinn voru í startholunum þegar fyrstu smitin komu til borgarinnar.

Það er vonandi að enginn missi af sóttvarnarfundum Dags B. Eggertssonar, þar sem hann kynnir sóttvarnaraðgerðir sínar.

 

 

 

 

P.S.  Þegar ég sé "fréttir" sem þessar verð ég stundum allt að því þunglyndur, en um fram allt hugsi.

Getur verið að margar af þeim fréttum sem ég sé frá "fjarlægum stöðum", séu jafn rangar og þessi?

En hér má lesa frétt Vísis um þetta mál og mér var bent á.

 


Hverjir mega baka piparkökur - nú eða sörur?

Eftir umræður hér á blogginu mínu um lögverndun starfsgreina var mér bent á að Íslendingar ræddu mikið sín á milli og eitthvað í fréttum um "svartar sörur".

En vaxandi eftirspurn mun vera eftir slíku lostæti meðal Íslendinga.  Mér var sagt að þeir umsvifamestu bökuðu og seldu þúsundir sara fyrir jólin.

En þetta er auðvitað ólöglegt. 

Slíkur bakstur ætti að fara fram hjá fagmanni, í viðurkenndu rými, þar sem heilbrigðiseftirlit hefur gefið sinn stimpil, og svo þarf að sjálfsögðu að gjalda ríkinu það ríkisins er.

Þó að ég sjái ekkert því til fyrirstöðu að "ófaglærður bakari" geti sett á stofn lítið fyrirtæki og bakað sörur, get ég ekki séð hvernig hægt er að verja um slíkt gildi ekki sömu lög og sömu kröfur séu gerðar og til annara fyrirtækja í sama geira.

Eðli máls samkvæmt eiga allir að vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum.

En hvað varðar lögverndun starfsgreina er hægt að bera samtn t.d. mismunandi matvælaframleiðslu.

Íslendingar hafa gengið í gegnum það sem kalla má "ísbyltingu". Alls staðar eru ísbúðir. 

Þó eru til þess að gera fá ár síðan að segja má að svo gott sem allur ís hafi verið framleiddur í tveimur fyrirtækjum.

En það er ekki boðið upp á nám í ísgerð (að ég best veit), og ísgerðarmaður er ekki lögverndað starfheiti. 

Væru allur þessi fjölbreytileiki í ísgerð á Íslandi ef svo væri.

Um slíkt er ekki hægt að fullyrða, en ég tel það ólíklegt.

En skortur á skóla fyrir ísgerð hefur ekki komið í veg fyrir metnað eða að ísgerðarmenn afli sér þekkingar.

 

 


Alls konar niðurstöður frá alls kyns vísindamönnum

Eitt af því sem einkennt hefur fréttir undanfarna mánuði, er svona "örlítil upplýsingaóreiða" hvað varðar Kórónuveiruna.

Vísindamenn (sem allir eiga þó að treysta) komast nefnilega að mismunandi niðurstöðum. 

Það er til dæmis alls ekki langt síðan að birt var niðurstaða rannsóknar um að mótefni entust stutt í líkama þeirra sem hefðu smitast.

Ef ég man rétt hafði "stúdía" Íslenskrar Erfðagreiningar áður gefið þveröfuga niðurstöðu.

Nú er aftur komin ný rannsókn sem segir að mótefnið sitji í líkama þeirra sem hafa smitast í langan tíma.

Þannig ganga niðurstöður visindamanna og niðurstöður þeirra sitt á hvða og engin undur að almenningur verði á stundum örlítið ruglaður.

 


mbl.is Mótefni í mörg ár í líkamanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bara" eitt ár eftir af Covid?

Það hríslaðist gleðistraumur um marga þeger tilkynnt var um að prófanir á nýju bóluefni hefðu gengið ágætlega. Eðlilega enda um stórar fréttir

Menn fóru að sjá fyrir sér að nú þyrti "bara" að þrauka.

En sé litið raunsætt á málið, eins og dr. Ugur Sahin gerir í viðhengdri frétt er líklega fast að ári þangað til hægt að að búast við að lífið fari í eðlilega skorður, víðast um heiminn.

Það er að segja ef allt gengur vel og þróun bóluefna gengur jafnvel hér eftir og hingað til.

Það gæti þá orðið næsta september sem allt yrði orðið næsta eðlilegt, en vonandi væri hægt að slaka eitthvað á áður.

En hvernig verða þjóðfélög heimsins stödd að ári?  Hvernig verður efnahagslíf þeirra? 

Um slíkt er að ég tel næstum ómögulegt að spá. 

En ríki þurfa augljóslega að skipuleggja sig til lengri tíma.

 

 

 


mbl.is Segir líkur á eðlilegu lífi næsta vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kórónaðar vangaveltur: Eina græna svæðið í "Evrópu" er í Svíþjóð

Það er merkilegt að horfa á Evópukortið og sjá að eina "græna svæðið" í Evrópu, eða þess hluta hennar sem kortið gefur upplýsingar um, er í Svíþjóð.

Líklega mætti þó finna "græn svæði" á Íslandi, væri Íslandi skipt upp í héruð eða landsvæði.  Ef til vill er það svo víðar á kortinu, en um það hef ég engar upplýsingar.

Þó að þær séu ekki á kortinu eru Kanaríeyjar gefnar upp sem rauðar.  Þar lenda þó eftir því sem ég las í fréttum 170 flugvélar á viku.

Getur einhver bent mér á tengsl á milli "harðra aðgerða" og fárra smita/lægra dánarhlutfalls þegar kemur að "stríðinu" við hina "allt um lykjandi veiru"?

Er ekki nokkuð merkilegt að hér um bil 25 sinnum fleiri hafa dáið á Íslandi en í Kína, sé miðað við hina margfrægu höfðatölu?

Það er þó ekkert samanborið við Belgíu, þar sem dauðsföll af völdum veirunnar hafa verið u.þ.b. 400 sinnum fleiri en í Kína miðað við höfðatöluna.

En það er auðvitað merkilegt, þó að við höfum oft heyrt talað um "Kínverska Stakhavóva", að Kínverjar hafi verið byrjaðir að bólusetja í April. Sérstaklega sé litið til þess að þeir hafi ekki orðið var við "veiruna" fyrr en í lok desember.

Óneitanlega vel að verki staðið, eða hvað?

Það er óneitanlega umhugsunarefni að stundum virðist eins og það sé vilji til þess að dánartölur af völdum Covid-19 verði eins háar og mögulegt er.  Eða eins og segir í fréttinni sem hlekkurinn hér að undan tengir við segir:

"The official death toll from the coronavirus soared in New York City on Tuesday after health authorities began including people who probably had COVID-19, but died without ever being tested."

En samt vitum við að að miðað við fréttir frá Íslandi, eru 95% af þeim sem koma með "Covid-19" einkenni til sýnatöku, ekki sýktir.

Er þá ekki nokkuð merkilegt að telja alla sem deyja með "Covid-19" einkenni hafa látist af völdum "Covid-19"?

Það er margt sem hægt er að velta vöngum yfir.

Er hættulegra að ganga um með golfkylfur en án þeirra?

Getur verið verra að ganga um með grímur en án þeirra?

Getur "meðalið" verið verra en "sjúkdómurinn"?

Hvar liggur áhættan?

Það virðist nokkuð ljóst að mesta áhættan hvað varðar "Covid-19" virðist liggja á hjúkrunar og dvalarheimilum.  Síðan koma undirliggjandi sjúkdómar.

Hver er dánartíðnin árlega á t.d. hjúkrunarheimilum?  Ég hef ekki þær tölur frá mörgum löndum, en t.d. í Bandaríkjunum, er talað um vel yfir 30%. 

En það verður að hafa huga og "hjúkrunarheimili" og "hjúkrunarheimili" er ekki nauðsynlega það sama á milli landa.

Síðan koma auðvitað hugleiðingar um afleiðingar af aðgerðum. Líklega munu flest ríki þurfa að eiga við þær árum ef ekki áratugum saman.

Hvaða afleiðingar mun það hafa?

Er ef til vill rétt að vitna í Franklin Roosevelt: "Only Thing We Have to Fear Is Fear Itself."

 

 


mbl.is Ísland ekki lengur rautt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er raunkostnaður við að skima einstakling?

Ég er ekki hissa á því að afbókanir séu farnar að streyma inn til Íslenskra ferðaþjónustuaðila.  Gjald upp á 15.000 kr á hvern ferðamann er hátt. 

Mín 4ja manna fjölskylda þyrfti t.d. að borga 45.000 kr. við komuna til landsins.  Það munar vissulega um minna.

En hver er raunkostnaður við hverja skimun?

Það hafa heyrst alls kyns tölur.  Í sjónvarpi talaði Kári Stefánsson um kostnað í kringum 4.000 kr., að mig minnir fyrir utan tækjabúnað.  Síðan var talað um kostnað í kringum 50.000 kr. og aftur finnst mér ég hafa heyrt talað um kostnað upp á ríflega 22.000 kr. nýlega.

Það skiptir vissulega máli hver raunverulegur kostnaður er.

Í Eistlandi býðst að fara í skimun hjá einkafyrirtæki fyrir 78 euro. Það er rétt ríflega 11.500, en það er hjá fyrirtæki sem er rekið til að skila hagnaði.

Hjá sama fyrirtæki er boðið upp á mótefnamælingu fyrir 23. euro, eða í kringum 3.500 kr.

Opinbera heilbrigðiskerfið í samstarfi við fyrirtæki í einkageiranum hafa framkvæmt ríflega 89.000 skimanir í Eistlandi.

Meðalkostnaður á skimun, með öllum tilfallandi kostnaði er í kringum 45 euro, eða 6.700 kr. (þessi kostnaðartala er miðuð við fyrstu ca. 55.000 skimanirnar). 

Megnið af skimunum (og megnið af kostnaðinum) hefur verið framkvæmdur af einkafyrirtækjum (hagnaðardrifnum) í verktöku fyrir hið opinbera.

Vissulega er launakostnaður á Íslandi mun hærri, en annar kostnaður ætti að vera sá sami.

Ef til vill væri best að bjóða skimunina út á Evrópska efnahagssvæðinu. :-)

En það er líka áríðandi að það komi fram hver raunkostnaður er og hvernig hann er samansettur.

Það getur verið hagkvæmt að niðurgreiða ferðalög til Íslands um einhverja þúsundkalla, en að borga á þriðja tug þúsunda er varla skynsamlegt.

En ef kostnðurinn er nær því sem Kári Stefánsson minntist á, getur niðurgreiðsla verið hagstæð leið til atvinnusköpunar.

En svo hafa læknar stigið fram og lýst efasemdum sínum um gagnsemi skimana við landamæri, og hafa fært ágæt rök fyrir þeim.  Ísland virðist enda vera nær eina landið sem ætlar að fara slíka leið.

Hefði t.d. verið betra að opna fyrir færri lönd og sleppa skimunum?

Það er líka eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að hegðun erlendra ferðamanna hafi breyst á Íslandi, eða smithætta frá þeim?  Fyrir fáum mánuðum þótti sérfræðingum engin ástæða til þess að þeir færu í sóttkví.

 

 


mbl.is Afbókanir þegar byrjaðar að streyma inn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opnað í hálfa gátt í Eistlandi

Í dag opnar Eistland í hálfa gátt ef svo má að orði komast, það er að segja fyrir flestum þjóðum innan EEA/EES. Einungis þeir sem koma frá þjóðum sem eru í "góðu bók" stjórnvalda þurfa ekki að fara í 14. daga sóttkví.

Einungis lönd af EEA/EES svæðinu eru á listanum, en þó ekki öll þeirra.

Til að komast á listann mega ekki hafa verið fleiri smit en 15/100.000, íbúa í landinu síðastliðna 14. daga.

Löndin í "góðu bókinni" eru: Austurríki, Búlgaria,  Kýpur, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Króatía, Lettland, Litháen, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregur, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Sviss, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland. 

Ríkin á EEA/EES svæðinu sem ekki komast í "bókina góðu" eru:  Belgía, Bretland, Írland, Malta,Portúgal, Spánn og  Svíþjóð.

Í dag mega barir og veitingahús vera opin eins lengi og vilji er til og selja áfengi lengur en til 22:00.

Eingungis mega þó 100 einstaklingar koma saman upp að 50% af leyfilegum fjölda sem má vera á hverjum stað.

Þetta er býsna merkileg nálgun hjá Eistlendingum.  Engin skimun, en smit mega ekki fara yfir ákveðið hámark.

Þannig er t.d. vert að hafa í huga að Holland og Ítalíu, rétt náðu undir lágmarkið.

Færslan er byggð á frétt ERR.

P.S. Það má bæta því við að frá og með deginum í dag verður aftur farið að rukka fyrir dvöl barna á leikskólum í höfuðborginni Tallinn, en þeir hafa verið opnir í gegnum faraldurinn eins og venjulega.


Um margt athyglisverð niðurstaða hjá Svíum, en ekki síður hjá Bretum

Mér þykir það býsna merkileg niðurstaða að einungis 7.3% íbúa Stokkhólms hafi myndað mótefni gegn Kórónaveirunni. Þó er settur sá fyrirvari sem eðlilegt er að þeir sem hafi veikst án einkenna, hafi hugsanlega ekki myndað mótefni.

En ef ég man rétt er íbúafjöldi Stokkhólms í kringum milljón. Þessi niðurstaða myndi þá þýða að að ríflega 70.000 einstaklingar hafi örugglega smitast í borginni.

Það er meira en tvöföld heildartala staðfestra smita í Svíþjóð allri. Það er rétt að hafa í huga að ég hef ekki tölur um hvernig smit skiptast á milli borga eða landsvæða í Svíþjóð, en talað hefur verið um að stór hluti þeirra væri í Stokkhólmi, hún enda stærsta borgin.

En ef talað er út frá þessum niðurstöðum (eins og þær væru staðreynd), koma mér nokkur atriði í hug.

Er sjúkdómurinn ekki meira smitandi en þetta?  Það er að segja að þrátt fyrir meint "frjálslyndi" Svía og hve kátir þeir hafa verið á veitingahúsum, opnum svæðum o.s.frv., þá hafa ekki fleiri smitast?

Eða ef Kórónan er jafn smitandi og margir vilja vera láta, eru þá svo margir sem "aldrei veikjast" þrátt fyrir smit og þróa því ekki mótefni?

Eða virkuðu tilmæli (en ekki skipanir) Sænskra yfirvalda það vel, að þrátt fyrir allt hafa svo fáir smitast?

En svo vaknar líka spurning ef svo fáir hafa smitast, hvers vegna svo margir hafa dáið í Svíþjóð?

Svíþjóð hefur þegar þetta er skrifað u.þ.b. tvöfallt fleiri staðfest smit miðað við íbúafjölda en Noregur svo dæmi sé tekið. En u.þ.b. 9. sinnum fleiri dauðsföll/íbúafjölda.  En þeir hafa sömuleiðis aðeins um helming af skimunum/íbúafjölda.

En á sama tíma birtast fréttir frá Bretlandi þess efnis að áætlað sé að u.þ.b. 17% af íbúum London hafi þróað mótefni og ca. 5% á öðrum svæðum Bretlands.

Gróflega reiknað, er það í kringum 1.5 milljón í London og 2.9 milljónir annars staðar í Bretlandi, eða 4.4 milljónir smitaðra í Bretlandi.

Það er næstum 18 sinnum hærri tala en staðfest smit sem eru þegar þetta er skrifað u.þ.b. 250.000.

Það er þá einhverstaðar í kringum 6.6% af heildaríbúafjölda Bretlands sem hafa smitast (ef við lítum á þessar niðurstöður sem staðreynd).  Þannig að Bretland sem heild er ekki langt frá tölunni í Stokkhólmi, en London með næstum 2.5 sinnum hlutfallslega fleiri sem hafa myndað mótefni.

Bretland hefur heldur fleiri skimanir/íbúafjölda en Noregur, en ekki afgerandi.

Ég vil undirstrika að þetta eru aðeins vangaveltur.

En þetta undirstrikar ef til vill einnig hve lítið er vitað um hegðun Kórónuveirunnar og hve mismunandi hún virðist á ýmsum stöðum.  Líklega að að hluta vegna mismunandi meðferð talna og upplýsinga og svo eru ótal aðrir þættir sem spila inn í.

Alls kyns upplýsingar hafa komið fram um hópa sem verða misjafnlega fyrir barðinu á sjúkdómnum.  Stærri borgir virðast gjarna verða harðar úti, þéttleiki byggðar og samgöngumátar spila þar líklega hlutverk.

En það virðist enn langt í að almennileg yfirsýn náist yfir sjúkdóminn.


mbl.is Einungis 7,3% Stokkhólms myndað mótefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband