Saga Borgarættarinnar - á Eistnesku

Í morgun áskotnaðist mér eintak af Sögu Borgarættarinnar, á Eistnesku. Það sem er þó ef til vill hvað merkilegast við þessa útgáfu af bók Gunnars Gunnarssonar, er að hún er prentuð og gefin út hér í Toronto.  Nánar tiltekið árið 1961.  Heitir sagan á Eistnesku Borgi Rahvas.

Útgáfan virðist vera hluti af útgáfu bókaklúbbs og er bók næsta mánaðar auglýst innan á kápunni.  Líklegast er að útgáfan sé að mestu leyti endurprentun á Eistneskri útgáfu sem kom út árið 1939.  Útgáfan frá 1939 hefur líklega verið nokkuð vönduð, m.a. eru gerðar sérstakar grafíkmyndir fyrir útgáfuna af Eistneska listamanninum Ernst Kollom.  Sömu myndirnar eru að öllum líkindum í Toronto útgáfunni, en ég hef ekki hugmynd um hvort að þær eru allar.  En þær eru merktar EK þannig að líklega er óhætt að draga þá ályktun að þær séu þær sömu.

Það sem er þó ef til vill merkilegast í þessu samhengi, er að þetta litla samfélaga Eistlendinga sem var hér í Toronto skuli hafa gefið út bók Gunnars.  Þá bjuggu hér í borginni líklega einhvers staðar á milli 12 og 15.000 Eistlendingar, þannig að markaðurinn hefur ekki verið stór.  Eitthvað hefur hugsanlega verið selt til Bandaríkjanna því þar bjuggu einhverjir tugir þúsunda af Eistlendingum.

En þessi fyrsta kynslóð Eistneskra innflytjenda, sem kom hér eftir seinna stríð, lagði mikið á sig til að viðhalda tungu sinni og menningu.  Að mörgu leyti er ótrúlegt hvað ekki stærra samfélag hefur komið í verk.

Nú þarf ég að reyna að grafa upp hvort að einhverjar fleiri Íslenskar ættaðar bækur hafi verið á meðal þess sem hér var gefið út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband