Færsluflokkur: Grín og glens

Skemmtileg tilviljun?

Það er óneitanlega skemmtilegt að daginn eftir að umræður spunnust á Alþingi um að orðnotkunin "hagsýnar húsmæður" væri óviðeigandi, skuli vera lagt fram frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra.

Það er meira að segja búið að biðjast afsökunar á notkuninni.

Það er því varla seinna vænna að leggja niður óviðeigandi orlof, eða hvað?

Varla fara þær í stórum hópum í slíkt orlof nú til dags?

En hvaða þingmenn skyldu verða á móti niðurfellingu laganna?

Varla hinar meintu "hagsýnu húsmæður"?

 

 


mbl.is Húsmæðraorlof verði afnumið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta Púrítanarnir starfað með Pírötum í ríkisstjórn?

Píratar eru augljóslega að þroskast sem stjórnmálaflokkur. Þeir hafa lært að stjórnmál fela gjarna í sér málamiðlanir.

Þeir hafa lært að það þarf að gefa eftir í stefnumálin og jafnvel svíkja loforð sem gefin hafa verið.

Þeir hafa líka lært að finna mis trúverðugar afsakanir fyrir því að ekki er hægt að standa við stefnuna og ef ég hef skilið rétt hafa jafnvel mistök komið þar við sögu.

Þar að auki virðast Píratar telja stefnumál sín hálf absúrd og óraunhæft sé að gera kröfur til annara flokka sem þeir mynda hugsanlega ríkisstjórn með.

Gott ef Píratar eru ekki farnir að sjá ákveðinn pólítískan ómöguleika við kröfur sínar.

Það gerist ekki öllu þægilegra fyrir samstarfsflokkana.

En reyndir stjórnmálamenn og -flokkar eiga ekkert erfitt með að skilja að stundum þarf að svíkja kosningaloforð, nú eða hvika frá stefnunni.

Það er ef til vill stærsta spurningin hvernig hinir óspjölluðu púrítanar í Viðreisn gengur að fella sig við samstarf við stjórnmálaflokk sem svíkur svona stefnu sína og loforð.

Því það var eins og rauður þráður (það er einmitt rauði þráðurinn sem leiðir þá að vinstri stjórn) í gegnum kosningabaráttu þeirra að það að svíkja kosningaloforð væri alfarið fatalt og lúaleg framkoma og slíkir flokkar væru ekki upp á marga fiska.

Það er því erfitt að sjá fyrir sér Viðreisn í samstarfi við flokka sem eru byrjaðir að svíkja loforðin sín jafnvel áður en þeir komast í ríkisstjórn.

Það gæti líka hugsast að kosningaloforð Vinstri grænna frá því 2009, þar sem Steingrímur lofaði því deginum fyrir kjördag (eins og þau höfðu reyndar gert í gegnum alla kosningabaráttuna) að það kæmi alls ekki til greina að sækja um aðild að "Sambandinu".

Það gæti verið erfiður biti að kyngja fyrir "kosningaloforðalögreglu" eins og Viðreisn því sem næst gaf sig út fyrir að vera í kosningabaráttunni.

Ég man þó ekki hvort þau gáfu út á hvað mörgum árum, eða kjörtímabilum slík svik fyrnast.

 

 

 


mbl.is Fjórir málefnahópar funda í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framræsla votlendis

Eitt af helstu slagorðum Donalds Trumps í kosningabaráttunni var að "ræsa fram fenið", eða "drain the swamp".

Það er í sjálfu sér skemmtilega margrætt. Að ræsa fram fenið vísar bæði til hins mikla "kerfis" sem hreyfist hægt og einstaklingarnir eiga í erfiðleikum með að finna leið í gegnum það, gengur hægt, eru stundum gerðir afturreka eða jafnvel festast í því.

Það vísar einnig til "Foggy Bottom", sem er nafn á hverfi í Washington (Hvíta húsið, er þó rétt fyrir utan hverfismörk), en ekki síður slanguryrði yfir bandaríska utanríkisráðuneytið, sem er staðsett í Harry S. Truman byggingunni í hverfinu.

Washington borg er enda að stórum hluta byggð í mýrlendi.

En nú þegar ljóst er að D.J. Trump mun verða næsti forseti Bandaríkjanna, má líkega bæta því við að þó að framræsla votlendis geti vissulega bætt lífsgæði, þá er það mikil umhverfisvá að mér skilst.

Trump mun talinn það einnig.

 

 


Pólítískur brandari dagsins

Eins og margir eflaust vita, hefur breskur dómstóll úrskurðað að ríkisstjórnin þar í landi þurfi að bera úrsögn "Sameinaða konungsveldisins" undir þarlent þing.

Því geti ríkisstjórnin ekki ákveðið að beita "grein 50" þegar henni best þykir.  Það verði í raun ákvörðun þingsins, og þjóðaratkvæðagreiðslan hafi aðeins verið ráðgefandi, en valdið liggi hjá þinginu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að áfrýja þessum úrkurði til æðra dómstigs.

Nú er mér sagt, að jafnvel þó að það dómstig myndi staðfesta dóminn, þá eigi breska ríkisstjórnin jafnvel einn enn möguleika.

Hún geti áfrýjað ákvörðun æðsta dómstigs Bretlands til Evrópusambandsdómstólsins (European Court of Justice). 

Þó eru lagaspekingar ekki sammála um hvort að þessi möguleiki eigi við eður ei.

Ekki getur þó líklegt talist að sá möguleiki yrði notaður, enda varla möguleiki á einhverju meira kaldhæðnislegra en slíku.

 


Þeir segja að maðurinn lifi ekki af geimvísundunum einum saman

Margt skondið gerist jafnan í kosningabaráttu, en ég held að þetta sé það fyndnasta sem ég hef séð fyrir þessar kosningar.

Það er einfaldlega ekki hægt að búa þetta til, eins og maðurinn sagði, þetta gerist bara í raunveruleikanum.

Vissulega er það ágætt að Ísland taki þátt í geimvísindaáætlun, en sem vinnumarkaðsstefnu er það frekar þunnur þrettándi.

Eiginlega ekki boðlegt.

En hvað lengi telja Píratar sig geta boða að þeir hafi enga stefnu og hafi engan tíma til þess að setja sig inn í málin?

Þingmenn þeirra hafa verið á launum hjá þjóðinni í næstum 4. ár við að mynda sér skoðun og stefnu.

Einn þingmanna þeirra hefur verið á launum við það í næstum 8 ár.

Þeir stæra sig af því að þeir hafi fjöldan allan af meðlimum, virkt spjall og þar fram eftir götunum.

En stefnan er engin í mörgum málaflokkum.

Það veit engin hver er stefna Pírata í vinnumarkaðsmálum, landbúnaðarmálum, hvort þeir vilja að Ísland eigi að vera í NATO og svo má lengi telja.

Eins og Ólafur Ragnar Hannesson sagði, "þetta eru engin geimvísindi".

En það þarf að hafa stefnu og það þarf að taka afstöðu.

Það er engin þörf á þingmönnum sem sitja hjá oftar en ekki.

P.S. Misritunin í fyrirsögninni er með vilja.

 

 


Óskýr hugmyndafræði í íslenskri pólítík

Það hefur verið örlítið undarlegt að fylgjast með kosningabaráttunni á Íslandi. Í raun hefur mér fundist mikið meira púður hafa farið í "umbúðirnar" en innihaldið.

Ef til vill er það vegna þess að að undanskildum örfáum málum, sem oft eru falin í undarlegu orðskrúði, er ekki mikill munur á milli flestra flokkana.

Þannig voru uppi ásakanir um að Viðreisn hefði "stolið" stefnuskrá Bjartrar framtíðar, og reyndar einnig á hinn veginn.

Björt framtíð liggur svo undir ámæli um að vera lítið annað en "litla Samfylkingin", og í raun "klofningur" úr þeim flokki, frekar á persónulegum en hugmyndafræðilegum grunni.

Samfylkingin "ásakar" Pírata um að hafa "downloadað" stefnuskrá sinni og að í raun sé enginn munur á flokkunum.

Enn aðrir segja að Samfylkingin hafi flutt sig svo til vinstri að engin leið sé að sjá muninn á henni og Vinstri grænum.

Ég held reyndar að býsna margir, bæði í Samfylkingu og Vinstri grænum eigi það sameiginlegt að pólítísk afskipti þeirra hafi hafist í Alþýðubandalaginu. Líklega eru mun fleira Samfylkingarfólk "ættað" þaðan en úr Alþýðuflokknum.

Það er síðan líklega sá armur Framsóknarflokksins sem stendur nærri Vinstri grænum sem bar sigur úr bítum í formannskjöri nú nýverið og er meiri "ullarlykt" af flokknum en um hríð.

Það breytir því þó ekki að, þó að Sigurður "sáttfúsi" og "viðræðugóði" hafi tekið við stjórnvellinum þar, virðist enginn vilja tala við Framsóknarflokkinn, eftir að hann tók við.

Sigurði er gefið til kynna að hann sé best geymdur "einn með ærnar í haga", ef svo má til orða taka.

Segir ef til vill eitthvað um hvað vænlegt það er að taka ráðgjöf pólítískra andstæðinga um hver sé besti forystusauðurinn.

En eftir formannskjörið, hefur Framsóknarflokkurinn dottið úr umræðunni og fylgið sigið.

Sjálfstæðisflokkurinn er í all nokkrum vandræðum, sker sig nokkuð frá hugmyndafræðilega. Sem aftur verður svo til þess að enginn vill viðurkenna að geta hugsað sér að starfa með honum.

Eini flokkurinn sem hægt er að treysta til þess að standa nokkuð einarðlega á móti Evrópusambandsaðild.

Eini flokkurinn sem í raun getur komið í veg fyrir að næsta ríkisstjórn verði vinstri stjórn.

 


Hvað horfir Donald Trump á frá Olympíuleikunum?

Hér eru tveir brandarar sem mér voru sagðir af syni mínum sem rakst á þá á internetinu. Einfaldir en góðir og ollu góðum samræðum okkar á milli, eftir að við hlógum dátt.

Hver er eina greinin sem Donald Trump hefur áhuga fyrir á Olympíuleikunum?

Stangarstökk. Hann vill sjá hvað mexíkönsku keppendurnar stökkva hátt.

Hvað gerir Usain Bolt ef hann missir af strætó?

Hann bíður eftir honum á næstu stoppistöð.


Hefur Framsóknarflokkurinn eitthvað með Miss Universe að gera?

Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að Framsóknarflokkurinn hafi nú tekið yfir Miss Universe.

Skipulagningin er svo ótrúlega lík landsfundi flokksins fyrir nokkrum árum, að það er erfitt að trúa því að um tilviljun sé að ræða.

En hvort að það þýði að Miss Universe sé ung framsóknarkona þori ég ekki að fullyrða, en það bendir ýmislegt til þess.

 


mbl.is Hvílík mistök!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mock a(nd) German

Stundum er raunveruleikinn ótrúlegri en flestur skáldskapur. Þannig má segja að "stóra Volkswagen díselshneykslið" sé eins og klippt út úr frekar slæmri B-mynd um illa innrætta kapítalista sem einskis svífast í leit sinni að hagnaði og skiptir engu þó að þúsundir einstaklinga láti lífið vegna loftmengunar.

En ef að góðu gæjarnir sem berðust gegn "þýsku illmennunum" hétu Mock og German, þætti líklega mörgum það frekar "korny".

En slíkt mun þau vera raunveruleikinn, það er engin kvikmynd, en þeir sem komust á snoðir um svindl þýska bílarisans, heita Peter Mock og John German.

Tilgangur þeirra var reyndar ekki að fletta ofan af einum eða neinum, heldur að sýna farm á hvað díselbílar væru góðir fyrir umhverfið.

Niðurstaðan varð önnur og er sú saga enn að skrifast.

 

 

 

 


Hópferð til Grikklands á vegum Evrópu(sambands)stofu?

Nú hillir víst undir lokun Evrópu(sambands)stofu, en hún lokar víst í haust ef marka má frétt RUV. Að mínu mati ekki degi of snemma, frekar of seint.

Starfræksla Evrópu(sambands)stofu hefur verið frekleg inngrip í innanríkismál á Íslandi, þar sem áróður hefur verið rekin fyrir annari hlið, í umdeildu pólítísku máli, sem lengi vel (það er að segja áður en aðlögunarviðræður sigldu í strand) leit út fyrir að yrði útkljáð með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Erlent fé var og er notað til að kynna aðra hliðina í þeim deilum.

En í frétt RUV má lesa eftirfarandi:

Markmiðið með starfseminni hefur verið að auka skilning og þekkingu á ESB og hvetja til umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands að sambandinu.

Eftir því sem ég kemst næst, hefur all nokkur partur af starfsemi Evrópus(sambands)stofu falist í því að skipuleggja (og borga fyrir) hópferðir Íslenskra stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og annara þeirra sem taldir eru geta mótað skoðanir Íslendinga.

Líklega hefur þar fyrst og fremst verið farið yfir kosti mögulegra aðildar Íslands að "Sambandinu".

Má þá eiga von á því að Evrópu(sambands)stofa skipuleggi nú hópferð slíkra einstaklinga til Grikklands, svo að kynna megi Íslendingum hluta af göllum "Sambandsins"?

Á einhver von á því?

P.S. Hefði sannleikurinn verið markmiðið, hefði stofnunin aldrei verið kölluð "Evrópustofa", því hálfsannleikur er oftast engu betri en lygi.

Hvað hefur mikið af krafti og fjármunum "Stofunnar" verið varið í að kynna lönd s.s. Sviss, Noreg, Albaníu, Ukraínu, Georgíu, o.s.frv?

"Stofunni" er ætlað að kynna starfsemi og reka áróður fyrir Evrópusambandið og ætti að sjálfsögðu að draga nafn sitt af því.

Það er ógeðfellt að horfa upp á "Sambandið" reyna að eigna sér hugtakið Evrópa, eingöngu sökum þess að að það hefur yfir sér jákvæðara yfirbragð en Evrópusambandið sjálft.

En ógeðfelldara er að horfa upp á fjölmiðlafólk um allan heim, láta "Sambandið" komast upp með það.

P.S.S. Reiðufé í umslagi til að kosta eyðslu einstaklinga í ferðum á vegum "Sambandsins" myndi auðvitað nú, hafa hlutfallslega mörgum sinnum jákvæðari áhrif í Grikklandi en Brussel. Grikkjum vantar einmitt euro í fjármálakerfi sitt.

 

 


mbl.is Gríska þingið samþykkti tillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband