Óskýr hugmyndafræði í íslenskri pólítík

Það hefur verið örlítið undarlegt að fylgjast með kosningabaráttunni á Íslandi. Í raun hefur mér fundist mikið meira púður hafa farið í "umbúðirnar" en innihaldið.

Ef til vill er það vegna þess að að undanskildum örfáum málum, sem oft eru falin í undarlegu orðskrúði, er ekki mikill munur á milli flestra flokkana.

Þannig voru uppi ásakanir um að Viðreisn hefði "stolið" stefnuskrá Bjartrar framtíðar, og reyndar einnig á hinn veginn.

Björt framtíð liggur svo undir ámæli um að vera lítið annað en "litla Samfylkingin", og í raun "klofningur" úr þeim flokki, frekar á persónulegum en hugmyndafræðilegum grunni.

Samfylkingin "ásakar" Pírata um að hafa "downloadað" stefnuskrá sinni og að í raun sé enginn munur á flokkunum.

Enn aðrir segja að Samfylkingin hafi flutt sig svo til vinstri að engin leið sé að sjá muninn á henni og Vinstri grænum.

Ég held reyndar að býsna margir, bæði í Samfylkingu og Vinstri grænum eigi það sameiginlegt að pólítísk afskipti þeirra hafi hafist í Alþýðubandalaginu. Líklega eru mun fleira Samfylkingarfólk "ættað" þaðan en úr Alþýðuflokknum.

Það er síðan líklega sá armur Framsóknarflokksins sem stendur nærri Vinstri grænum sem bar sigur úr bítum í formannskjöri nú nýverið og er meiri "ullarlykt" af flokknum en um hríð.

Það breytir því þó ekki að, þó að Sigurður "sáttfúsi" og "viðræðugóði" hafi tekið við stjórnvellinum þar, virðist enginn vilja tala við Framsóknarflokkinn, eftir að hann tók við.

Sigurði er gefið til kynna að hann sé best geymdur "einn með ærnar í haga", ef svo má til orða taka.

Segir ef til vill eitthvað um hvað vænlegt það er að taka ráðgjöf pólítískra andstæðinga um hver sé besti forystusauðurinn.

En eftir formannskjörið, hefur Framsóknarflokkurinn dottið úr umræðunni og fylgið sigið.

Sjálfstæðisflokkurinn er í all nokkrum vandræðum, sker sig nokkuð frá hugmyndafræðilega. Sem aftur verður svo til þess að enginn vill viðurkenna að geta hugsað sér að starfa með honum.

Eini flokkurinn sem hægt er að treysta til þess að standa nokkuð einarðlega á móti Evrópusambandsaðild.

Eini flokkurinn sem í raun getur komið í veg fyrir að næsta ríkisstjórn verði vinstri stjórn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Bráð skemmtilegur stíll! Ef enginn nýasta -fjórflokksins- aftekur að starfa með Sjálfstæðisflokknum,er hann líklega sjálfkjörinn hjá þeim sem beitir öllum ráðum gegn innlimun í Evrópusambandið.

Helga Kristjánsdóttir, 25.10.2016 kl. 06:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband