Færsluflokkur: Dægurmál

Að mörgu leyti skrýtin umræða - hvað er áfengi?

Það má ganga út frá því sem vísu að þegar Íslendingar ræða um fyrirkomulag á sölu áfengis, eða smásölufyrirkomulag yfirleitt, fer umræðan út um víðan völl og tekur alls kyns hlykki.

Þessi frétt er ágætt dæmi um það. Heilbrigðismálaráðherra Noregs segist hafa áhyggjur af því að Íslendingar kunni að auka frelsi í sölu áfengis.

En í Noregi er bjór seldur í flestum "búðum á horninu" og kjörbúðum.  Kjörbúðir selja sömuleiðis bjór í Finnlandi.  Það er engu líkara en að heilbrigðisráðherra Noregs telji bjór ekki til áfengis.

Hafa Íslendingar áhyggjur af því?

Það er rétt að hafa í huga nú degi á eftir "Bjórdeginum" að aukið frelsi, hvort sem er í áfengismálum eða smásölu hefur ekki komið af sjálfu sér og nær alltaf mætt harðri andstöðu.

Frumvarp um að leyfa bjór var ekki lagt fram í fyrsta sinn þegar það var samþykkt árið 1988.  Ætli það hafi ekki verið nær 10. skiptinu sem slíkt frumvarp var lagt fram.  Ef ég man rétt var slíkt frumvarp fyrst lagt fram árið 1960.

Og þær eru orðnar býsna margar breytingarnar á fyrirkomulagi í smásöluverslun sem "þjóðin" hefur klofnað yfir og rifist svo misserum skiptir.

Mjólk ætti ekki heima í kjörbúðum, bækur áttu ekki heima í stórmörkuðum, lesgleraugu átti að banna að selja í stórmörkuðum.

Kjörbúðir máttu ekki vera opnar nema til 6 á kvöldin og áttu að vera lokaðar um helgar. Slakað var á klónni í sumum sveitarfélögum og almenningur mátti náðarsamlegast kaupa sér nauðsynjar í gegnum lúgu.

Svo var auðvitað "blessað bjórlíkið", sem líklega fáir sakna, en auvitað var það bannað nokkrum árum áður en bjór var leyfður á Íslandi.  Þáverandi dómsmálaráðherra gerði það árið 1985.

Auðvitað geta allir lifað lífinu án þess að einokun ríkisins sé afnumin á sölu áfengis, hvað þá að áfengi sé selt í matvöru eða öðrum verslunum.

Það sama gildir auðvitað um bjór, nú eða frjálst útvarp og sjónvarp, ekkert af þessu er lífsnauðsynlegt.  En þetta er dæmi um frelsi sem hafðist ekki nema með strangri og áralangri baráttu á Íslandi, ekki síst í sölum Alþingis, sem sjálfsagt hafði eitthvað "verulega mikilvægara" að ræða þá, rétt eins og nú.

En reglurnar eru skrýtnar. Þannig er ekkert mál fyrir Íslending sem hefur náð áfengiskaupaaldri, að panta sér hvaða áfengi sem er frá erlendum aðilum og fá það tollafgreitt og sent heim að dyrum (t.d með DHL eða sambærilegri þjónustu) en að íslenskur aðili geti veitt slíka þjónustu (nema ríkið auðvitað) er algerlega fráleitt í hugum svo margra Íslendinga.  Hugsanlega gætu þeir pantað á netinu hjá norska "ríkinu", en ég efast um að þeir afgreiddu pöntunina og verðið þar dregur engan að.

Forsjárhyggjugenið er það ríkt í Íslendingum (líklega ríkara í þeim sem leggja fyrir sig stjórnmál en öðrum) að þeim finnst það í góðu lagi að Íslendingar megi kaupa af einkaðilum, svo lengi sem þeir séu erlendis, þó að áfengið komi heim að dyrum á Íslandi.

Það hefur orðið alger sprenging í aðgangi að áfengi á Íslandi undanfarna áratugi. Bæði hefur ÁTVR fjölgað útsölustöðum sínum mikið og veitingastöðum sem selja áfengi hefur fjölgað hraðar en tölu má festa á.

Og vissulega hefur sala á áfengi aukist á undanförnum árum, en það verður varla séð að það sé umfram mannfjöldaukningu og stóraukin ferðamannastraum.  Þó þarf að hafa í huga að í fréttinni sem vísað er í er eingöngu fjallað um sölu ÁTVR.

En það gildir um bæði Ísland og Noreg (og reyndar mörg fleiri lönd) að býsna mikill hluti áfengisneyslu sést ekki í innlendum sölutölum, líklega stærri hluti í Noregi.

Því með auknum ferðalögum fylgir meira fríhafnarbús og smygl.

Reyndar er svokallaður áfengistúrismi býsna merkilegt fyrirbrigði, ekki síst á Norðurlöndunum.

Svíar og Norðmenn flykkjast yfir til Danmerkur að kaupa ódýrt áfengi og margir Danir fara yfir til Þýskalands.  Í Eistlandi má sjá Finna með drekkhlaðna bíla af áfengi á leiðinni heim.  Talið er að allt að 25% af áfengi sem selt er í Eistlandi fari yfir til Finnlands.

Eistlendingar eru síðan í vaxandi mæli farnir að leita yfir til Lettlands, því þar er áfengi enn ódýrara.

Þannig skapar verðlagning og hömlur á sölu áfengis margar skrýtnar sögur.

En það má telja næsta víst að frumvarp um afnám einkaleyfi ríkisins til að reka áfengisverslanir, eða leyfa frjálsa sölu á áfengi verði fellt.

Það er enginn heimsendir.  Þannig voru örlög frumvarpa um bjór um áratugaskeið og frjálst útvarp hafðist ekki í gegn án baráttu. Ef ég man rétt greiddi til dæmis enginn þeirra sem á hátíðarstundum töluðu um sig sem "frjálslynda jafnaðarmenn" atvæði með því frelsi á Alþingi.

En það er engin ástæða til að leggja árar í bát, þó að orusta tapist.  Það er sjálfsagt að halda málinu og umræðunni vakandi.

Og þó að ef til vill sé ekki ástæða til að leggja frumvarp þessa efnis fram árlega, er ég þess fullviss að sá tími mun koma að einokun ríkisins verði aflétt.

 

 

 

 


mbl.is Óttast áhrifin annarsstaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál sem þetta á ekkert erindi á Alþingi

Það er því miður allt of algengt að þingmenn telji sig eiga að stjórna samfélaginu - í stóru og smáu.

Þetta upphlaup er ágætt dæmi um það.

Hvers vegna það er tilefni til umræðu eða gagnrýni á Alþingi að dagvist eða skólar skuli ætla að bjóða upp á þvottaþjónustu er eiginlega óskiljanlegt.

Það skiptir engu máli í sjálfu sér hver á að sjá um þvottinn, slíkt er auðvitað samningsatriði á milli starfsfólks og vinnuveitenda.

Það segir sig þó nokkuð sjálft að öllu jöfnu ráða fyrirtæki ekki háskólagengna starfskrafta til að þvo og brjóta saman þvott. Þess gerist ekki þörf.

Endir fréttarinnar gefur svo til kynna að þetta sé gert til að afla fleiri viðskiptavina.

Hvílík höfuðsynd.

Það á eftir að koma í ljós hvort að þessi þjónusta nýtur vinsælda eður ei, rétt eins og tilbúinn matur sem boðinn er hjá sama þjónustufyrirtæki.

Þannig vinna framsækin fyrirtæki, víkka út þjónustuna og sinna þörfum viðskiptavina sinna.

Sumt slær í gegn annað fellur.

Foreldrar þurfa á færri staði og minnkar stress og líklega má færa rök fyrir því að aukin þjónusta á einum stað sé einnig umhverfisvæn, þar sem snúningum á bílnum fækkar.

En af því að þingmaðurinn talaði um virðingu, verð ég að bæta því við að ég tel að virðing Alþingis aukist ekki við gagnrýni á þvottaþjónustu úr ræðustól þess.

 


mbl.is Gagnrýnir þvottaþjónustu Hjallastefnunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallarmunur á vegg og vegg?

Það má segja að það sé mikill miskilningur að landamæraveggur sé einfaldlega það sama og landamæraveggur. Þó að útlitið sé svipað má segja að í grunninn þjóni landamæraveggir mismunandi tilgangi.

Annars vegar það sem algengara er, að tryggja yfirráð ríkis yfir landamærum sínum og betri stjórn á því hverjir komist þar yfir og svo hins vegar að hindra að eigin þegnar komist á brott.

Á þessu tvennu er reginmunur.

Því ætti ekki að leggja að jöfnu veggi s.s. Berlínarmúrinn eða þann múr sem er á landamærum koreönsku ríkjanna og þá veggi sem eru t.d. á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, Spánar og Marókkó eða þann vegg sem Tyrkir eru að reisa á landamærum sínum og Sýrlands, með stuðningi Evrópusambandsins.

Veggir sem halda þegnunum inni, gera ríkin að ígildi fangelsis, það var raunin með A-Þýskaland og raunar flest hin sósíalísku ríki í A-Evrópu og það er raunin með N-Kóreu.

En það á engin sjálfgefin rétt á því að koma til annars lands. Mexíkanar eru ekki sviptir grundvallarréttindum þó að veggur hindri þá í að fara yfir landamærin til Bandaríkjanna. Eftir sem áður geta þeir sótt um vegabréfsáritun, en auðvitað er óvíst að viðkomandi fái hana.

Sama gildir um Marókkóbúa sem vill fara yfir á spænskt landsvæði, hann á engan sjálfgefinn rétt til slíks og verður að sækja um vegabréfsáritun inn á Schengen svæðið.

Hvorugur veggurinn brýtur á réttindum eins né neins.

Hvers vegna áform um vegg á landamærum Bandaríkjanna (sem þegar hafa vegg á löngum köflum) framkalla svo mikið sterkari viðbrögð en veggur á landamærum Spánar og Marókkó, eða t.d. Tyrklands og Sýrlands er spurning sem ef til vill fer best á að hver svari fyrir sig.

En skyldu Íslendingar eiga von á því að lagðar verði fram þingsályktunartillögur sem fordæmi alla þessa veggi og múra?

 

 


mbl.is Landamæraveggir víða um heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingssalerni eina lausnin?

Það er í sjálfu sér ekki þörf á flóknum aðgerðum til þess að allir geti verið sáttir og gert þarfir sínar óáreittir.

En það kostar örlítið meira pláss og þó nokkuð meiri fjárútlát.

Lausnin er einfaldlega að byggja einstaklingssalerni.

Þannig er málum t.d. háttað í skóla dóttur minnar og hefur verið í áratugi ef ég hef skilið rétt.

Vissulega er ekki hægt að leysa málin á þann hátt "yfir nótt", en ætti að vera sjálfsagt að marka stefnuna þangað.

Þeir sem vilja vera í friði fyrir hinu eða hinum kynjunum hljóta einnig að eiga sín réttindi, eða hvað?

 

 


mbl.is Kynlaus klósett í Háskólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona eins og gerist í "samanburðarlöndunum"?

Það hefur oft verið rætt um hvort að auka ætti einkarekstur í íslenska heilbrigðiskerfinu, nú síðast hvort að leyfa ætti sjúkrarúm í einkaeigu þar sem sjúklingar gætu legið nokkra daga.

Í viðhengdri frétt má lesa um einkafyrirtæki í Svíþjóð sem hefur u.þ.b. 25% markaðshlutdeild í hryggskurðaðgerðum í Svíþjóð.

Í Stokkhólmi er fyrirtækð með tæplega 30 sjúkrarúm, 4. skurðstofur.

Stærsti eigandi fyrirtækisins er skráður í kauphöllina í Stokkhólmi, hann á rétt rúmlega 90% af fyrirtækinu. Ef ég hef skilið rétt dreifast hinir eignarhlutirnar aðallega á starfsfólk, en ég þori ekki að fullyrða um það hér.

Skyldi starfsemin vera ógn við sænska velferð eða lýðheilsu sænsku þjóðarinnar?

Ætli ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð hafi það á stefnuskránni að færa þetta allt aftur undir sænska ríkið?

Ég held ekki.

Ef vilji er til þess að gera íslenska heilbrigðiskerfið líkara því sem gerist í nágrannalöndunum, eða "samanburðarlöndunum", er rými til að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, líklega all verulega.

P.S. Stuttu eftir að ég hafði póstað þessari færslu, rakst ég á stutta frétt frá Svíþjóð sem sýnir að vandamálin sem við er að eiga í heilbrigðiskerfinu eru ekki svo ósvipuð á Íslandi og í Svíþjóð.

 

 


mbl.is Með 25% hryggskurðaðgerða í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já og nei og ef til vill - Skoðanir og falskar fréttir?

Við höfum séð þetta allt áður. Skoðanir einstakra aðila eru "klæddar upp" sem staðreyndir í fréttum.

Ef að Bretar tækju ekki upp euroið beið þeirra einangrun og efnahagslega hnignun. Reyndist ekki satt.

Ef Bretar segðu já við því að yfirgefa Evrópusambandið biði þeirra efnahagslegt hrun og einangrun.  Svo hefur ekki verið.

Aðildarumsókn að Evrópusambandinu átti að vera töfralausn fyrir íslenskan efnahag. Staðreyndin er sú að efnahagsbati Íslendinga fór fyrst á flug þegar við tók ríkisstjórn sem stefndi í allt aðra átt en aðild að Evrópusambandinu.

Hvað gerist í Frakklandi ef það ákveður að segja skilið við euroið og/eða Evrópusambandið er í raun engin leið að fullyrða, því það er svo langt í frá að það sé eina breytan í efnahagslífi Frakka.

Það er hægt að taka fjöldan allan af réttum eða röngum ákvörðunum samhliða þeim ákvörðunum.

Þó þykir mér trúlegt að það myndi í upphafi hafa í för með sér aukin kostnað fyrir Frakka. Óvissa gerir það gjarna.

En væri haldið rétt á spöðunum, þykir mér líklegt að slíkt myndi reynast Frökkum vel.  Stjórn yfir eigin málum er líkleg til þess.

Ef þróun samkeppnishæfi Frakklands og skuldastaða hins opinbera er skoðuð frá því að euroið var tekið upp, er engan vegin hægt að álykta að það hafi reynst Frakklandi vel.

En það er alls ekki gefið að það myndi Marion Le Pen heldur gera.

En ef skoðaðir eru spádómar varðandi Bretland, hljóta allir að taka spádóma eins og hér koma fram (í viðhengdri frétt) með miklum fyrirvara, ef ekki kalla slíkt "falskar fréttir".

Slíkar skoðanir eru einfaldlega ekki meira virði en aðrar pólítískar skoðanir.

 


mbl.is Dýrt að yfirgefa evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtileg tilviljun?

Það er óneitanlega skemmtilegt að daginn eftir að umræður spunnust á Alþingi um að orðnotkunin "hagsýnar húsmæður" væri óviðeigandi, skuli vera lagt fram frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra.

Það er meira að segja búið að biðjast afsökunar á notkuninni.

Það er því varla seinna vænna að leggja niður óviðeigandi orlof, eða hvað?

Varla fara þær í stórum hópum í slíkt orlof nú til dags?

En hvaða þingmenn skyldu verða á móti niðurfellingu laganna?

Varla hinar meintu "hagsýnu húsmæður"?

 

 


mbl.is Húsmæðraorlof verði afnumið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Le Pen, Macron eða Fillon sem forseti? En hver sigrar í þingkosningunum?

Það er ekki langt síðan að talað var um frönsku forsetakosningarnar líkt og úrslitin væru þegar ákveðin.

Reiknað var með að Lýðveldisflokkurinn (Les Républicains) bæri sigur úr býtum og eftir forkosningar hans leit út fyrir að Francois Fillon væri með pálmann í höndunum.

En gæfan er fallvölt í pólítík eins og víða annars staðar.

Ásakanir dynja nú á Fillon.  Svokallað "Penelopegate" hefur valdið honum sívaxandi vandræðum og fylgi hans í skoðanakönnunum hefur hrunið.  Nú er hann í þriðja sæti á eftir Le Pen og Macron.

En Fillon er sakaður um að hafa greitt konu sinni og börnum fast að einni milljón euroa, úr ríkissjóði, fyrir að aðstoða hann sem þingmann.  Störf sem aldrei voru unnin, eða svo segja ásakanirnar.

Það kann að koma einhverjum á óvart, að það er ekki ólöglegt fyrir þingmenn í Frakklandi að ráða eiginkonur og börn sem starfsmenn, en að sjálfsögðu er ætlast til að þau sinni starfinu ef þannig háttar.

Þetta mál hefur reynst Francois Fillon afar erfitt og jafnvel hafa heyrst raddir um að rétt væri að hann drægi sig í hlé.

Ef svo yrði, sem verður reyndar að teljast ólíklegt, en ekki ómögulegt, yrði það aðrar forsetakosningarnar í röð þar sem sá sem líklegastur þótti til að verða forseti hellist úr lestinni, þó með ólíkum hætti væri.

Dominique Strauss-Kahn, þótti líklegastur til að verða frambjóðandi Sósíalista fyrir síðustu kosningar, en heltist úr lestinni áður en svo varð, með eftirminnilegum hætti. Hollande varð því fyrir valinu sem frambjóðandi Sósíalistaflokksins og hefur setið í næstum 5 ár, með þeim afleiðingum að engin forseti hefur notið minna fylgis og Sósíalistaflokkurinn er ekki nema svipur hjá sjón.

Það er því varla hægt að segja að lognmolla ríki í frönskum stjórnmálum, þó að margir myndu sjálfsagt óska sér að ysinn og þysinn væri út af öðru en hneykslismálum.

En fall Fillon, hefur lyft Emmanuel Macron.

Velgengni Marcron nú á sér fáar ef nokkra hliðstæðu í frönskum stjórnmálum. En það má eiginlega segja að flest "púsl" hafi fallið honum í hag á undanförnum vikum.

Ekki eingöngu vandræði Fillon, heldur einnig val Sósíalistaflokkins á frambjóðanda sínum. Þar varð fyrir valinu Benoît Hamon, róttækur frambjóðandi langt til vinstri.

Allt þetta styrkir Macron, sem þykir miðjusækinn og reyndar finnst mörgum sósíalistanum hann alltof hægri sinnaður.

En til þess að komast í aðra umferð forsetakosninganna þarf Macron á stuðningi kjósenda Sósíalistaflokksins að halda, jafnframt því sem hann getur gert sér vonir um stuðning einhverra stuðningsmanna Lýðveldisflokksins og þeirra sem ekki fylgja neinum ákveðnum flokki.

En hann þarf að skilja á milli sín og Hollande, sem er fádæma óvinsæll, en það voru ekki síst aðgerðir Macron, á meðan hann sat í ríkisstjórn sem ollu óvinsældum á vinstri vængnum.

Allt þetta og fleira skiptir á meira máli nú þegar hin raunverulega kosningabarátta er að hefjast.

Það velta líka margir fyrir sér hverjir standi að baki Macron.  Hreyfing hans, eða nýr stjórnmálaflokkur "En Marche" (sem er erfitt að þýða, en "Af stað" eða "Hefjumst handa", gæti legið nokkuð nærri).

En Macron nam við "hinn hefðbundna" skóla franskra stjórnmálamann ENA og fullyrt er að helstu bakhjarlar hans séu núverandi og fyrrverandi háttsettir opinberir starfsmenn. Sagt er að hann sé meðlimur eða njóti stuðnings "Les Gracques" , en það er hópur sem kom fram 2007 og stofnaði fljótlega hugveitu.

En það getur óneitanlega háð Macron, að keppinautar hans hafa báðir mun þjálli "flokksmaskínu" að baki sér.  Ekki síst ef litið er til þeirrar staðreyndar að hann hefur notið umtalsverðs fylgis á meðal ungra kjósenda sem oft skila sér verr á kjörstað.

En nú þegar Macron gengur vel í skoðanakönnunum má búast við því að athyglin beinist að honum og ferli hans í vaxandi mæli og jafnfram árásir keppinauta hans, bæði frá vinstri og hægri.

Það er sömuleiðis allt of snemmt að afskrifa Fillon, hann er líklega með bestu "maskínuna" að baki sér og jafnframt með öruggustu fjármögnunina.

Talið er að Lýðveldisflokkurinn hafi hagnast í það minnsta um 9 milljónir euroa á forkosningunum og leggi af því í það minnsta 6 milljónir til baráttu Fillon.

Þjóðfylking Le Pen hefur hins verið í stöðugum fjárhagsvandræðum og átt erfitt með að tryggja sér lánsfé (sló eins og þekkt er lán hjá rússnesk ættuðum banka, en hefur átt erfitt með lánsfé fyrir komandi kosningar). Þjóðfylkingin hefur hins vegar að margra mati bestu internetbaráttuna, sem vissulega er mikils virði í nútímanum.

En hvergi hef ég rekist nokkuð á hvernig Macron hefur eða hyggst fjármagna sína baráttu.  Hann hefur haldið kvöldverðarboð þar sem sætið hefur verið selt á 7500 euro, en það er einmitt sú hámarksupphæð sem einstaklingur má styrkja frambjóðanda eða flokk á ári.  Ef ég man rétt er síðan hámarksupphæð sem forsetaframbjóðandi má eyða 16 milljónir euroa.

En kosningabarátta er eins og flestir gera sér gein fyrir dýr og talað er um að t.d. hafi útifundur Macron á Porte de Versailles, kostað í kringum 500.000 euro.

En ég held að útlit sé fyrir að frönsku forsetakosningarnar verði mun meira spennandi en reiknað var með - þ.e.a.s. fyrri umferðin. Ég er enn nokkuð viss um að Le Pen á enga raunhæfa möguleika í þeirri seinni, en hún gæti hæglega unnið þá fyrri.

En það eru aðrar kosningar í Frakklandi, örlítið á eftir forsetakosningunum sem ekki skipta minna máli, en það eru þingkosningar.

Þó að franski forsetinn sé býsna valdamikill þá verður hann að skipa forsætisráðherra sem nýtur stuðnings þingsins.

Fari svo að Macron eða ef svo ólíklega vildi til að Le Pen sigraði, er mjög líklegt að þau myndu þurfa að skipa forsætisráðherra úr röðum Lýðveldisflokksins eða Sósíalista. Flest þykir benda til sigurs Lýðveldisflokksins í þingkosningunum sem fram fara 11. og 18. júní. Næst stærsti flokkurinn yrði Sósíalistar.

Hvort að fylgismönnum Macron tækist að ná einhverjum þingmönnum er alls óljóst, en líklegt þykir að Þjóðfylkingin fjölgi sínum all nokkuð, en hún hefur aðeins 2. nú. Einmenningskjördæmi þar sem umferðirnar eru 2., gera smærri framboðum verulega erfitt fyrir.

Það er ekki óþekkt að forsætisráðherra og forseti komi frá sitthvorum flokknum (forseti frá hægri og forsætisráðherra frá vinstri og öfugt) en slíkt "sambýli" þykir þó yfirleitt ekki hafa gefið góða raun.

Það er því allt eins líklegt að framundan séu erfiðir pólítískir tímar í Frakklandi, nema helst ef Fillon nær að snúa taflinu við og verða forseti.

 

 

 


mbl.is Fillon biðst afsökunar á að ráða eiginkonuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múrar og bönn

Ólíkindatólið DJ Trump hefur svo sannarlega náð athygli heimsbyggðarinnar eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Vissulega var hún töluverð fyrir þau tímamót en enn hefur verulega bætt í.

Það eru ekki síst tvær ákvarðanir hans sem hafa vakið athygli og ofsareiði á meðal margra.

Það eru uppfylling á þeim kosningaloforðum að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og svo að banna ríkisborgurum 7 landa að koma til Bandaríkjanna.

Byrjum fyrst á múrnum.

Ég get tekið undir með þeim sem segja að þetta sé ekki góð ákvörðun sem ekki komi til með að skila miklum árangri.

En á hvers rétt gengur bygging slíks múrs?

Að mínu mati nákvæmlega engra.  Fyrst ber að geta þess að múr hefur nú þegar verið byggður á stórum hluta landamæranna.

Það á enginn rétt á því að fara ólöglega yfir landamærin, í hvora áttina sem er. Íbúar Mexíkó, sem annara ríkja eiga engan rétt á því að fara yfir landamærin óáreittir. Smyglarar sem hafa lífsviðurværi sitt af því að lóðsa fólk yfir, eða flytja eiturlyf eiga heldur engan lögvarðan rétt til slíks athæfis.

Stjórnmálamenn, sem og aðrir, ættu að gera skýran greinarmun á því hvort að múr er byggður til að halda þegnum ríkis inni, eða því að halda þegnum annars ríkis úti.

Við reisum ekki girðingar til að loka nágranna okkar inni, heldur til að tryggja garðinn okkar fyrir óþarfa ágangi.

Múrinn veldur engum þeim sem hyggst koma löglega til Bandaríkjanna hinum minnstu óþægindum.

Hitt er svo að eins og ég sagði áður er framkvæmdin ef til vill ekki sérlega gáfuleg, og áætlanir um að greiða hana með tollum á mexíkanskar vörur, mun bitna á bandarískum borgurum, ekki síður en mexíkönskum.

En í raun er engin rökrétt ástæða til þess að æsa sig yfir þessum áformum, enda múrar og girðingar á landamærum víða um heim og hefur m.a. farið fjölgandi t.d. í Evrópu.

Persónulega get ég því ekki séð ríkar ástæður fyrir því að bregðast harkalega við þessum áformum, allra síst fyrir leiðtoga eða þegna annara ríkja.

Síðan er það ákvörðunin um að banna ríkisborgurum 7 ríkja, sem öll geta talist "múslimaríki" að koma til Bandaríkjanna.

Það er eðlilegt að sú ákvörðun sé umdeild.

Sérstaklega vegna þess að ákvörðunartakan og framkvæmd hennar var vægast sagt illa undirbúin og kauðalega að henni staðið.

Þannig var í upphafi ekki ljóst hvernig skyldi staðið að framkvæmdinni og t.d. hvort að tilskipunin gilti um þá sem hefðu tvöfaldan ríkisborgarétt.

En bönn og takmarkanir á komu fólks til ákveðinna landa er ekkert nýnæmi, mýmörg önnur dæmi eru um slíkt.

Það er velþekkt að íbúum ýmissa landa hefur kerfisbundið verið neitað um áritanir til ákveðinna landa.

Íbúar margra landa A-Evrópu þurftu t.d. að fá "heimboð" til að geta átt raunhæfar vonir á því að koma sem ferðamenn til Kanada lengi vel.  Þeir sem boðið sendu þurftu jafnvel að taka ábyrgð á viðkomandi ferðalangi á meðan dvöl hans í Kanada stóð.

Sjálfur sat ég eitt sinn brúðkaups Kanadabúa af ukraínskum uppruna þar sem foreldrar brúðarinnar voru ekki viðstaddir, þar sem þeim hafði verið neitað um vegabréfsáritun til Kanada.

Þá rétt eins og nú var Frjálslyndi (Liberal) flokkurinn við völd í Kanada.

Þetta var ekki gert af neinni sérstakri illgirni, heldur var álitið að einstaklingar frá þessum löndum væru líklegri en margir aðrir til að dvelja áfram í landinu.

Eins og fram kom við undirritun fríverslunarsamnings á milli Evrópusambandsins og Kanada, seint á síðasta ári,, höfðu rúmenskir og búlgarskir þegnar ekki rétt til að koma til Kanada án áritunar. (Ég þori ekki að fullyrða um hvort það hafi breyst).

Ríki hafa fullan rétt til að grípa til ráðstafana til að verja landamæri sín og stjórna flæði einstaklinga yfir þau.  Slíkt hefur færst mjög í vöxt undanfarin misseri.

Slíkt kann að vera mis skynsamlegt og mis árangursríkt.

Það er sjálfsagt og af hinu góða að mótmæla slíku og berjast fyrir auknu frjálsræði sem víðast.

En ég held að allir ættu að temja sér að gera slíkt með kurteisi og ákveðinni hófsemi.

Ofsi, dónaskapur og stóryrði leiða sjaldnast til sigurs.

Svo gott sem eina undantekningin sem ég man í fljótu bragði eftir, hvað það varðar, er sigur DJ Trump.

En ég held að það sé órökrétt að hafa það að leiðarljósi.

 


mbl.is Heimskulegur samningur segir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklinga frekar til Amsterdam heldur en í Ármúlann?

Umræða um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu fer oft út á undarlegar brautir á Íslandi. Í raun ætti þetta að vera nokkuð sjálfsagt mál.

Það ætti auðvitað ekki að eiga að vera nokkuð sem alþingismenn hafa áhyggjur af, eða eyða kröftum sínum í.  Af nógu öðru er að taka sem þeir gætu notað starfskrafta sína til betrumbóta.

Auðvitað ætti það að vera í höndum Landlæknis en ekki ráðherra að ákveða hvort að sjúkrahús taki til starfa á Íslandi eður ei. Hvað þá að opnun slíks ætti að þurfa að kalla á umræður á Alþingi, eða í nefndum þess.

Nú þegar hafa hefur Alþingi samþykkt að Íslendingum sé heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu víða um Evrópu. Hið opinbera greiðir fyrir slíka þjónustu til jafns og kostnaður við hana væri á Íslandi.  Kostnað umfram það greiða sjúklingar sjálfir.

Allt er það enda samkvæmt tilhögun innan Evrópska efnahagsvæðisins, samkvæmt lögum og reglugerðurm frá Evrópusambandinu.

Nú þegar er örlítið um að Íslendingar noti sér þann rétt, og líklega má reikna með því að slíkt muni aukast eftir því sem tímar líða.

Hví ætti það að vera erfiðara fyrir Íslendinga að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Ármúlann en það er í Amsterdam?

Nú þegar sækja Færeyingar sér þjónustu í Ármúlann, hví skyldu Íslendingar ekki gera það sömuleiðis?

Sjúkratryggingar ættu að gera samning við Klíníkina á nákvæmlega sama grunni og gildir um heilbrigðisþjónustu á EEA/EES svæðinu, þar sem sjúklingur fær endurgreitt miðað við kostnaðargrunn á Íslandi.

Eftir allt saman þá er Ísland á því svæði.

Það væri óneitanlega nokkuð sérstakt ef heilbrigðisráðherra frá "Sambandssinnaflokknum" Bjartri framtíð, færi að neita Íslendingum um þann rétt innanlands, sem þeira njóta á EEA/EES svæðinu.

 

 

 


mbl.is Bíða eftir svari ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband