Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Framtíðarfylkingin?

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig kemur til með að spilast úr sveitarstjórnarkosningunum.  Ekki eingöngu í Reykjavík heldur um allt land og á landsvísu.

Eitt af því sem hlýtur að vekja eftirtekt, er hvernig samstarfi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar verður háttað, eða hvort að það verður samstarf, ekki bara í Reykjavík, heldur ekki síður á stöðum eins og t.d. Hafnarfirði.

Á Akureyri leggur Samfylkingin upp með samstarf við Framsóknarflokk og L-listann og skilur BF eftir í kuldanum, en það er spurning hvort að það leggur einhverjar línu?

Ein af niðurstöðum nýafstaðinna kosninga sem ekki er hægt að líta fram hjá er stór persónulegur sigur Dags Eggertssonar í Reykjavík.  Það stendur upp úr hve góðu árangur Samfylkingar er þar samanborið við annars staðar á landinu.

Því hlýtur sú spurning að vakna, hvort að Samfylkingin hafi áhuga á því að kalla Dag til starfa á landsvísu og jafnvel að gera hann að formanni flokksins.  Árni Páll hefur ekki megnað að hífa flokkinn upp og eðilegt að uppi séu vangaveltur um að "skipta um kallinn í brúnni sem er hættur að fiska".

Ef af því yrði, er komin upp nokkuð merkileg staða.  Þá væru þeir orðnir formenn tveggja stjórnmálaflokka, sem fæstir sjá mikinn mun á, Dagur Eggertsson og Guðmundur Steingrímsson.  

Milli þeirra tveggja hefur verið mikið samstarf og er skemmst að minnast þess að Guðmundur var aðstoðarmaður Dags, í hundrað daga borgarstjóratíð hans.  Þá var Guðmundur varaþingmaður Samfylkingarinnar ef ég man rétt.

Væri þá ekki kominn nokkuð sterkur grundvöllur fyrir sameiningu þessara tvegga (systur)flokka?  

Og væru slíkar væntingar ekki sterkur hvati fyrir Samfylkingarfólk að gera Dag að formanni flokksins?

 


mbl.is Dagur og Björn ræða saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er sitthvað landsbyggð og latte. Sterk staða Sjálfstæðisflokksins um allt land

Það er ekki hægt að segja annað en að Sjálfstæðisflokkurinn geti vel við unað við úrslit sveitarstjórnarkosninganna sé litið yfir landið.

Allt í kringum Reykjavík er Sjálfstæðisflokkurinn með sterka stöðu.  Hreinir meirihlutar í Mosfellsbæ, Garðabæ, Seltjarnarnes, góð staða í Kópavogi og Hafnarfirði.

Stórsókn á Akranesi, ótrúlega góður árangur í Vestmannaeyjum, meirihlutinn heldur í Árborg og í Hveragerði.

Aukning á Akureyri og víðast hvar um landið er Sjálfstæðisflokkurinn í góðri stöðu. Meirihlutinn fellur að vísu í Reykjanesbæ, þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið um stjórntaumana frá upphafi, og vissulega skarð fyrir skildi, en kom þó ef till ekki svo mikið á óvart. Sömuleiðis féll meirihluti flokksins á Ísafirði, en þar spilaði líklega persónuval stærri rullu en víðast hvar annarsstaðar.

Miðað við ríkisstjórnarflokk og þau innanflokks átök sem geisað hafa upp á síðkastið,  getur Sjálfstæðisflokkurinn verið ánægður með árangur sinn

Kosningarnar hafa farið betur með Samfylkinguna heldur en útlit var fyrir framan af.  En það er ekki síst í gömlum vígum flokksins eins og Hafnarfirði og Kópavogi sem tapið er áberandi.  SF náði að styrkja sig all vel á lokasprettinum á Akureyri og líklega má segja að staðan sé erfið en þolanleg.

Framsóknarflokkurinn er í þokkalegri stöðu víða um landið.  Vinnur góða sigra í Skagafirði og á Dalvík.  Í Skagafirði nær Framsókn hreinum meirihluta og bætir við sig 2 mönnum á Dalvík.  Staðan verður að teljast þokkaleg hjá Framsókn miðað við umdeildan ríkisstjórnarflokk.

Björt framtíð vinnur eftirtektarverða sigra, nema í Reykjavík þar sem flokkurinn (sem arftaki Besta flokksins) bíður afhroð.  Það er athyglisvert að sjá "nýjan" flokk ná þetta góðri fótfestu.

Vinstri græn virðast í vandræðum víðast hvar og ná ekki að flytja vinsældir formanns síns og verandi í stjórnarandstöðu í vinsældir á sveitarstjórnarstiginu.  Síðasta ríkisstjórn er kjósendum líklega enn í of fersku minni.

Píratar náðu að koma inn manni í Reykjavík, sem telst góður árangur, en að sama skapi hlýtur það að vera þeim vonbrigði að það tókst ekki víðar.

Í heild sinni tel ég að ríkisstjórnarflokkarnir megi mjög vel við una.

Að sama skapi tekst stjórnarandstöðuflokkunum ekki að auka hlut sinn, þó ríkisstjórnin hafi þurft að stíga ölduna.  Líklega er síðasta ríkisstjórn kjósendum enn minnisstæð.  Björt framtíð nær þó eftirtektarverðum árangri og árangur Samfylkingarinnar er eftirtektarverður, en skrifast líklega meira á Dag en Samfylkinguna.

En það er rétt að hafa í huga að það er ekki það sama að vinna kosningar og "vinna" í meirihlutamyndunum.

En það sem er ekki hvað síst eftirtektarvert við þessar kosningar er minnkandi kjörsókn og hvað úrslitin í Reykjavík skera sig frá þeim meginlínum sem sjá má víðast hvar annarsstaðar.

Það er sitthvað landsbyggð og latte svo spilað sé aðeins með klisjurnar.

 

 

 


mbl.is D-listi stærstur nema í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Högg á lýðræðið

Þó að úrslit falli all verulega frá þeim skoðanakönnunum sem birst hafa undanfarna daga (sem er ástæða til að velta fyrir sér) er stærstu og verstu tíðindin í þessum niðurstöðum afar slök kjörsókn.

Að aðeins 63% kjósenda sjái ástæðu til þess að nýta atkvæðisrétt sinn er högg á lýðræðið og er virkileg ástæða til að hafa ahyggjur af þróuninni.

Að kosningaþátttakan skuli falla um 10 %stig á milli kosninga undirstrikar hve alvarlegt málið er.

Að einhverju marki má segja ástæðuna að lítil spenna var í kosningunum, margir töldu úrslitin nokkuð ráðin og skoðanakannanir gáfu það til kynna.

Einnig virðist sem svo að frambjóðendur hafi ekki náð að koma því til skila hve mikilvæg sveitarstjórnarmál eru fyrir kjósendur og hve mjög þau snerta líf þeirra.  Eflaust finnst einhverjum það ekki skipta máli hver það er sem mætir í "Star Wars búningi", eða stekkur alklæddur út í sundlaugar.  Það sé varla þess virði að ómaka sig á kjörstað til að ákveða slíkt.

En sigurvegari kosninganna í Reykjavík er Samfylkingin og ef til vill enn frekar Dagur Eggertsson.  Árangurinn i Reykjavík sker sig úr þegar litið er til árangurs Samfylkingarinnar víðast hvar annars staðar, og þó að meirihlutinn hafi fallið, er næsta ómögulegt annað en að Samfylkingin leiði næsta meirihluta og Dagur verði borgarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn og má þokkalega við una, ef miðað er við skoðanakannanir, en á alla aðra mælikvarða er árangurinn hræðilegur. Sértaklega ef miðað er við stöðu flokksins í borginni í sögulegu samhengi og hvernig gengi Sjálfstæðisflokksins er í öðrum stórum þettbýlisstöðum.  Flokkurinn hlýtur að fara í alvarlega sjálf(stæðisflokks)skoðun í Reykjavík

Björt framtíð tapar stórt í Reykjavík.  Þeir gera þó einnig kröfu til þess að teljast sigurvegarar,  þar sem BF hafi ekki boðið fram áður.  En það þýðir ekki að koma fram sem framhald Besta flokksins fyrir kosningar, eins og Björn Blöndal gerði trekk í trekk og þykjast svo vera nýtt og ótengt framboð eftir kosningar.  Björt framtíð tók upp listabókstaf Besta flokksins.

En það fer ekki hver sem er í "Star Wars" búninginn hans Jóns Gnarr og Björt framtíð seig hægt og rólega niður í skoðanakönnunum alla kosningabaráttuna.  Að fara úr 6 borgarfulltrúum 2 er afhroð.

Framsóknarflokkurinn kemur enn og aftur á óvart.  2 borgarfultrúar fara líklega fram úr þeirra björtustu vonum og flokkurinn hlýtur að teljast til sigurvegara þessara kosninga.  Þessi sigur Framsóknarmanna sýnir að það þarf að vera sýnilegur og í umræðunni.  Fjölmiðlaumfjöllun (bæði góð og slæm) hefur skilað flokknum þessum árangri.

Vinstri græn hafa sloppið fyrir horn og halda sínum manni.  Fyrir flokk í stjórnarandstöðu bæði í borg og á landsvísu og með vinsælan formann getur það ekki talist merkilegur árangur.  En ef þau komast í meirihluta getur það breytt miklu.

Píratar unnu sigur á síðustu metrunum.  Það er glæsilegur árangur þó að hann sé ekki jafn góður og skoðanakannanir gáfu til til kynna.  Fyrsti sveitarstjórnarfulltrúi Pírata er staðreynd.  Hugsanlegt er einnig að þeir komist í meirihluta og gefur þeim þá möguleika á að vekja frekar á sér athygli.

En hverjir verða þá í meirihluta?

Ég held að ekkert geti komið í veg fyrir að Samfylkingin og Björt framtíð verði í meirihlutasamstarfi.  En hvaða flokk eða flokka taka þeir með sér?

Þá vakna spurningarnar um VG eða Pírata eða hvort sterkast væri að bjóða þeim báðum að taka þátt í meirihutanum?

Það getur verið traust að vera með 9 manna meirihluta, en það "kostar" líka.  Ef ég ætti að spá þá myndi ég veðja á að annað hvort verði bæði VG og Píratar í meirihlutanum, eða eingöngu Píratar.

Slík spá byggir þó meira á tilfinningu, en pólítísku innsæi.

 

 

 


mbl.is Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki missa "kúlið" og bregðast við eins og harðlínu múslimi

Það sem vantar á þessa skopmynd er auðvitað Múhameð spámaður, enda hann og fylgismenn hans óvænt að farnir að leika nokkuð stóra rullu fyrir borgarstjórnarkosningar og jafnvel farnir að teygja sig yfir í næstu sveitarfélög.

En grínmynd er grínmynd, hvort sem hún er af Múhameð eða Sveinbjörgu og þó að þær eigi það til að verða stundum nokkuð rætnarog  ýfa stélfjaðrir, er affarasælast að bregðast við þeim með rósemi.  Það er alger óþarfi að ritskoða þær eða biðja á þeim afsökunar.

Reyndar held ég að Framsóknarflokkurinn sé líklega ekki jafn æstur yfir þessari mynd og þeir vilja vera láta, en vissulega er þetta tækifæri alltof gott til þess að láta það fram hjá sér fara, og það á sjálfum kjördeginum.

Ég yrði reyndar ekki hissa ef þessi skopmynd myndi færa Framókn nokkur auka atkvæði í dag.

P.S.  Fyrir leikmann eins og mig er ekki allur munur á búningi Ku Klux Klan og búrku, þó að tilgangurinn með klæðaburðinum sé ólíkur.  Ég hugsa jafnvel að það hefði verið beittari húmor að nota búrkuna.

P.S.S. Með því að sleppa Múhameð á myndinni er þó líklegt að höfundurinn fái aðeins kröfu um afsökunarbeiðni, en varla líflátshótanir.

 


mbl.is Sakar Fréttablaðið um einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moska eða ekki moska, það er aðal spurningin

Ég get ekki neitað því að mér hefur hálfpartinn verið skemmt yfir umræðu um byggingu mosku í Reykjavík, eða hvort þar eigi yfirleitt að leifa að byggja mosku.

Allt í einu er þetta orðið aðalmálið fyrir borgarstjórnarkosningar og hvort að eigi að byggja leiguíbúðir fyrir ríflega 70 milljarða, eða hvort flugvöllurinn á að vera eða fara, fá lítið pláss í umræðunni. Hvort að stórauka eigi niðurgreiðslur á dagvistun og gera hana gjaldfrjálsa eða ekki, er engin þörf á að ræða.

Engu máli skiptir hvort að frambjóðendur hafa vilja til að lækka útsvar eða ekki.

En moska eða ekki moska, það er málið.

Sjálfur hef ég ekki sterka skoðun á málinu.

Er þó þeirra skoðunar að alger tímaskekkja sé að skylda sveitarfélög til að sjá trúfélögum fyrir ókeypis byggingarlóðum. 

En þar er ekki við Reykjavíkurborg að sakast.  Hún eins og aðrir lögaðilar og einstaklingar eiga að fara að lögum.

Ég ber heldur ekki mikla virðingu fyrir trú múslima, reyndar eru trúfélög mér lítt að skapi.

En ég ber ómælda virðingu fyrir rétti þeirra til að hafa trú sína og fá að iðka hana í friði fyrir afskiptum annara, sem og rétti þeirra til að standa jafnfætis öðrum trúfélögum. Það sama gildir um önnur trúfélög.

Kosning um hvort að múslimar eigi að fá lóð eða ekki lóð, er afleit hugmynd.  Lýðræði snýst ekki um að meirihlutinn geti neitað minnihlutanum um sjálfsögð réttindi.  Það var einmitt einn af mörgum göllum á vinnu stjórnlagaráðs að það hafði ekki hugrekki til að afnema þjóðkirkjuskipan á Íslandi.

Slíkt á ekki að vera komið undir meirihlutaræði, heldur á stjórnarskrá að veita réttindi til allra, sem verða ekki frá þeim tekin, hvort sem þeir eru í minni- eða meirihluta.

Svo er spurningin hvort að lóðin sé "á réttum stað".  Það hef ég ekki hugmynd um, frekar en nokkur annar, slíkt er líklega smekksatriði og hlýtur að einhverju marki að lúta skipulagsmálum.

En lóðaúthlutanir eru ekki þess eðlis að þær eigi að breytast og vera dregnar til baka eftir því hver er í meirihluta.  Festa og eðlilegir ferlar eiga að gilda í þessum málum.

Síðan hef ég séð fullyrðingar um að starfsemi trúfélaga múslima brjóti í bága við Íslensk lög hvað varðar jafnrétti og mismunum.

Um það ætla ég ekki að dæma, enda þekki ég ekki starfsemi trúfélaga múslima nægilega til þess.  

En við verðum að treysta því að yfirvöld, mannréttindasamtök og hópar og aðrir sem láta sig slík mál varða veiti aðhald, vekji athygli á og grípi í taumana ef mannréttindabrot eru framin.

En rétt er að hafa í huga að byggingar fremja ekki mannréttindabrot, hvort sem það eru moskur eða aðrar byggingar.

Mest um vert er að hafa lögin í huga.


Ekki trúverðugar fullyrðingar Guðrúnar. "Smjerherferð"?

Það er engin leið að dæma um hvað er rétt og hvað er rangt í deilumáli sem þessu.  Engir eru til frásagnar nema þeir sem deila.

En persónulega þykir mér yfirlýsingar Guðrúnar ekki trúverðugar.

Ekki er ég í aðstöðu til að segja þær rangar, en mér þykir með eindæmum ef einstaklingur sem hefur fengið þá meðferð af hendi stjórnmálaflokks sem Guðrún segist hafa fengið af hendi Framsóknarflokksins, sækist jafn stíft eftir því að leiða lista flokksins og Guðrún gerði.

Hvers vegna í ósköpunum sagði hún sig ekki frá listanum löngu fyrr, ef öll vinnubrögð eins og hún lýsir og talað var um að setja málefni á oddinn sem hún er á móti?

Og hvers vegna skyldi hún bíða með að upplýsa þetta allt þangað til 2. dögum fyrir kosningar?

Í mínum huga ber þetta skýr merki pólítískrar "smjerherferðar" (smear campaign), en í þessu máli eins og mörgum öðrum verður hver að dæma fyrir sig.

 


mbl.is Segir yfirlýsingu Guðrúnar ósanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðbundið innanmein?

Það er ljóst að staða Sjálfstæðiflokksins í Reykjavík er ekki góð.  Ef til vill segir það ýmislegt um ástandið að samþykkt skuli sértök ályktun til stuðnings oddvita lista flokksins fáum dögum fyrir kosningar.

En ég ætla ekki að halda því fram að ég viti hver vandamál Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru.

En ég held að það sé nokkuð ljóst að þau eru ekki óuppgerð fortíð flokksins, afstaða flokksins til "Sambandsins", eða að kjósendur ætil að refsa flokknum fyrir "landsmálin".

Það að staða flokksins er með ágætum víða um landið og ekki hvað síst í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, hlýtur að afsanna það, nema því sé haldið fram að samsetning kjósenda í Reykjavík sé með allt öðrum hætti en annarsstaðar.

Mun nær hlýtur að vera að leita skýringa í frambjóðendahópi Sjálfstæðisflokksins, og ef til vill ekki síður í starfsemi borgarstórnarhóps hans undanfarin kjörtímabil.

Þessu virðist hins vegar vera öfugt farið hjá Samfylkingunni, hún virðist ætla að fá góða kosningu í Reykjavík, en á í verulegum vandræðum víða um land.

 


mbl.is Segir Halldór njóta stuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargar Guðni borgarstjórnarkosningunum?

Nú er mikið rætt um hvort Guðni Ágústsson muni taka efsta sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.  Hann mun víst gefa ákveðið  svar á Sumardaginn fyrsta, en flestir telja nokkuð öruggt að hann hyggist taka slaginn.

Eins og eðlilegt er, eru skiptar skoðanir um hvort að Guðni muni draga fylgi að Framsóknarflokknum og ef svo væri, hvaðan það væri dregið.

En ég held að Guðni gæti allt að því "bjargað" borgarstjórnarkosningunum.

Ekki það að þær séu í neinni hættu að fara ekki fram, heldur frá því að vera afspyrnu bragðdaufar og leiðinlegar, en því miður er margt sem hefur bent til þess að slík gæti orðið raunin.

Og vissulega er það svo að kosningar eiga auðvitað ekki að vera neitt gamanmál, þar er tekist á um alvarleg málefni, málefni sem skipta íbúa viðkomandi sveitarfélags miklu máli og varða því miður æ fleiri svið tilveru þeirra.

En það þýðir þó ekki að kjósendur séu fráhverfir léttleika eða húmör í kosningum.  Þvert á móti held ég að það sé flestum frambjóðendum til framdráttar að geta litið á tilveruna hæfilega léttum augum og haft augun opin fyrir því sem má hafa gaman af í kosningabaráttunni.

Þar held ég að Guðni gæti komið sterkur inn.

Kosningabaráttan er mikið meira en tölur, excel skjöl, staðreyndir og stefnumál.  Persónuleg "tengsl" við kjósendur er eitthvað sem enginn frambjóðandi má við því að vanmeta.

Ef Jón Gnarr  ætti að hafa sýnt stjórnmálamönnum fram á eitthvað, ætti það ekki hvað síst að vera það að vera einlægur og reyna að tengjast kjósendum.

Þess vegna held ég að Guðni Ágústsson eigi góða möguleika í næstu borgarstjórnarkosningum, og gæti hrist vel upp í þeim, ef ekki "bjargað" þeim frá því að verða þær þurrustu og "mónótónísku" í langan tíma.

Þess vegna held ég að hann eigi möguleika á því að "stela" fylgi frá öllum flokkum. 


mbl.is Ekki forsendur til að styðja Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áberandi vandræði Samfylkingar

Ég hef nú ekki fylgst af kostgæfni með skoðanakönnunum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, en þær sem ég ef séð eiga það flestar sameiginlegt að þær sýna gríðalega slæma stöðu Samfylkingar.

Ef ég man rétt er það aðeins í Reykjavík sem staðan getur talist ásættanleg fyrir flokkinn.

Á Akureyri, Í Kópavogi og nú í Hafnarfirði, alls staðar á Samfylkingin í vök að verjast.  Björt framtíð virðist vera að taka við forystunni á vinstri vængnum.

Staðan virðist reyndar vera verulega skelfileg í Kraganum, kjördæmi bæði formanns og varaformanns Samfylkingarinnar.  Jafnvel í Hafnarfirði, því gamla höfuðvígi Krata, virðist Samfylking verða að "hornkerlingu" því sem næst, ef marka má skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. 

Vissulega er 20% ekki lítið fylgi, en sé litið til sögunnar yrðu það skelfileg úrslit fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði.

Annað sem vekur athygli í könnunum, er nokkuð sterk staða Sjálfstæðisflokks mjög víða, þó að hann mælist þar jafnvel stærsti flokkurinn.

Endurspeglar ef til vill þann mun sem virðist vera á milli borgarinnar og annara svæða, þar með talið þéttbýliskjarna á Íslandi. 

 


mbl.is Myndi kolfalla í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi pólítískt landslag

Þó að vissulega hafi landsmálin oft áhrif í sveitastjórnarmálum, er hið pólítíska landslag gjarna allt annað í hinum ýmsu sveitarstjórnum.  Það hefur gilt um Akureyri, ekki síður en mörg önnur sveitarfélög.

Í síðustu kosningum vann Listi fólksins stórsigur og annað framboð utan hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka náði einnig inn manni. Samtals voru þessi tvö framboð með  7 af 11 bæjarfulltrúum. 

Margir töldu það (ásamt velgengni Besta flokksins í Reykjavík) skýrt dæmi um óánægju kjósenda vegna bankahrunsins.

En ég held að þær niðurstöður megi ekki síður rekja til óánægju með hina "staðbundnu" fulltrúa og frambjóðendur. Það var enda svo að víða náðu hinir "hefðbundnu" stjórnamálaflokkar prýðisárangri í síðustu sveitastjórnarkosningum. 

En nú virðist sem hinir "eldri" flokkar nái sér aftur á strik.

Það er fyrst og fremst tvennt sem vekur athygli í þessari könnun, hrikaleg staða Samfylkingar, sem er bersýnilega í djúpri lægð og svo frekar sterk staða Bjartrar framtíðar. Það má líklega að miklu leyti tengja þetta tvennt saman. 

Enn er langt í kosningar og öll baráttan eftir, en ef þetta yrði niðurstaðan gæti meirihlutamyndun líklega orðið nokkuð snúin. 

 


mbl.is Tapar fimm af sex fulltrúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband