Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
26.2.2014 | 18:40
Arfleifð Besta Flokksins - hvert fer hún?
Þó að vissulega megi gagnrýna margt hjá meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar sem stjórnað hefur Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili, hygg ég að margir borgarbúar séu honum nokkuð þakklátir.
Meirihlutanum hefur tekist að halda friði í borgarstjórn. Það er staðreynd, að þótt margir (ég er ekki þár á meðal) freistist til að kalla Jón Gnarr "trúð", þá hefur undir hans stjórn verið minni "sirkus" í borgarstjórn heldur en var kjörtímabilið á undan.
Það er mín skoðun að þó að margir vilji eingöngu rekja stórsigur Besta flokksins til bankahrunsins, þá sé hann ekki síður til kominn vegna þess "hrunadans" sem ríkti í borgarstjórn Reykjavíkur á síðasta kjörtímabili.
Fréttirnar hafa ekki verið fullar af frásögnum af sprungnum meirihlutum, "hnífsstungum", sms skeytum, og öðrum undirferlum, borgarfulltrúa á millum.
Fyrir það held ég að borgarbúar séu Jóni Gnarr og Besta flokknum þakklátir og það skýrir að miklu leyti vinsældir þeirra.
En nú þegar Besti flokkurinn hefur ákveðið að bjóða ekki fram aftur, er eðlilegt að menn velti vöngum yfri því hvert fylgi þeirra fari.
Þó að vissulega sé nokkuð snemmt að spá um hvernig mál þróast í borgarstjórnarkosningum, kæmi mér ekki á óvart þó að Bjartri framtíð gangi illa að halda í fylgi Besta flokksins. Þessi skoðanakönnun er vísbending í þá átt.
Besti flokkurinn er einfaldlega ekki auðvelt "act to follow". Sérstaklega fyrir hefðbundin stjórnmálaflokk eins og Björt framtíð er. Það hefur enginn "atkvæðasegull" í líkingu við Jón komið fram, alla vegna ekki enn þá.
Við það bætist að Píratar munu líklega ná til sín býsna stórum hópi af kjósendahópi Besta flokksins, haldi þeir vel á spöðunum. Píratar gætu hæglega orðið sá flokkur sem kemur mest á óvart í komandi kosningum.
Ég hef trú á því að árangur Samfylkingarinnar eigi eftir að valda vonbrigðum, en það gæti breyst ef hún heldur vel á spöðunum í landsmálapólítíkinni. Dagur B. nýtur vinsælda nú, en ég leyfi mér að efast um að hann haldi þeim þegar sjálf kosningabaráttan byrjar. Einhvern veginn virðist fylgi skila sér betur til hans þegar hann er minna áberandi.
Það er erfitt að spá fyrir um gengi Sjálfstæðisflokksins. Þar gætu landsmálin sömuleiðis spilað all nokkurt hluverk. Það er ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærsti flokkurinn, þó að hann verði langt frá sínu besta fylgi, en það er einnig lang líklegast að hann verði í minnihluta.
En enn er langt til kosninga.
Meirihlutinn fallinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 28.2.2014 kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2011 | 02:29
Gjaldþrota sveitarfélög?
Það er ekki oft sem heyrist talað um gjaldþrota sveitarfélög, en það er býsna margt sem bendir til þess að það eigi þó eftir að gerast í einhverjum mæli.
Nýlega mátti lesa um Harrisburg, sem er höfuðborg Pennsylvaníuríkis, en íbúar eru þar rétt kringum 50.000. Skuldirnar nema samkvæmt fréttinni u.þ.b. 36 milljörðum Íslenskra króna. Skuldirnar eru þá u.þ.b. 720.000 á hvern íbúa. Tilkynning kom frá sveitarfélaginu um að það væri gjaldþrota.
Eftir því sem ég kemst næst er þetta annað Bandaríska sveitarfélagið sem fer í gjaldþrot í ár. Það er þó rétt að taka það fram að það er ekki enn ljóst að Harrisburg fari í gjaldþrot eftir því sem ég kemst næst. Pennsylvaníuríki vill að borgin fari í neyðaráætlun sem ríkið hefur fyrir sveitarfélög í vandræðum og borgarstjórinn er á móti gjaldþrotaleið, en hún var þó samþykkt á borgarstjórnarfundi með 4 atkvæðum gegn 3.
En hverjar skyldu tölurnar vera fyrir verst stöddu Íslensku sveitarfélögin?
Skuldar ekki Hafnarfjörður einhversstaðar í kringum 42 milljarða? Íbúafjöldi í kringum 26.000? Skuldir á hvern íbúa væru þá u.þ.b. 1.615.000.
Eftir því sem ég kemst næst eru heildarskuldir Reykjanesbæjar u.þ.b. 43 milljarðar. Íbúar u.þ.b. 14.000. Skuldir á íbúa þá nálægt því að vera 3.071.000.
Álftanes skuldar u.þ.b. 7. milljarða. Íbúafjöldi þar er u.þ.b. 2.500. Heildarskuldir á íbúa því u.þ.b. 2.800.000
Vissulega segja skuldastöður ekki alla söguna, en það leynir sér ekki að staðan er ekki góð og í raun vandséð hvernig tekjur þessara sveitarfélaga geti staðið undir skuldunum. Það hlýtur einnig að teljast áhyggjuefni að stórum hluta þessara skulda var safnað á "góðæristímanum". Það breytir engu hvort að "góðærið" var fengið að láni eður ei, útsvarstekjur sveitarfélaganna bólgnuðu út sem aldrei fyrr.
Ég tók þessi 3. sveitarfélög sem dæmi, vegna þess að þau hafa verið mikið í fréttum vegna skuldastöðu þeirra undanfarin misseri, en líklega er staðan víðar ekki til fyrirmyndar.
Man einhver eftir umræðunum fyrir sveitastjórnarkosningar árið 2006? Þá vantaði ekki langa loforðalista um, bæði hvað varðaði rekstur og framkvæmdir. Það var engu líkara en eitt helsta vandamál margra sveitarfélaga væri hvernig ætti að koma peningum í lóg.
Hart var rökrætt um hvort dagvistun barna ætti ekki að vera gjaldfrí og mörgum fannst það fátt sem sveitarfélögin væru ekki fær um. Og víst má segja að mörg sveitarfélög hafi slegið hressilega í eyðsluklárinn.
Ég skrifaði stutta færslu fyrir fáum vikum um skuldakreppu opinberra aðila og spáði þar að niðurskurður á opinberri þjónustu yrði mikill á næstu misserum og hart tekist á um hvar hann ætti að koma til framkvæmda. Næstu sveitastjórnakosningar munu líklega að mestu leyti snúast um bága fjárhagsstöðu og hvar eigi að skera niður og hvar hækka þjónustugjöld.
Sum þurfa að taka á honum stóra sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2011 | 13:09
Bý ég í ólýðræðislegri borg?
Um það má sjálfsagt deila, og það lengi, rétt eins og flest annað. En hér í Toronto eru ríflega 2.500.000 íbúa. Borgarfulltrúar eru 44. Borgarstjóri bætist síðan við, kosinn beinni kosningu. Rétt er að taka fram að borgarfulltrúarnir eru ekki kosnir af listum, heldur eru 44. einmenningskjördæmi í borginni. Þetta er að mínu mati bæði kostur og galli, borgarfulltrúarnir þurfa vissulega að standa skil á sínum gjörðum í "hverfinu" og enginn er öruggur inn, en gallinn er sá að sá sem sigrar hefur gjarnan aðeins stuðning 30 til 40% þeirra sem þó drífa sig á kjörstað, og stundum töluvert minni.
Mér reiknast til að hver borgarfulltrúi hafi því að meðaltali u.þ.b. 57.000 íbúa að baki sér.
Mér finnst skrýtið að sjá að menn haldi að lausnin á þeim vandamálum sé kunna að vera til staðar sé að stækka stjórnmálastéttina, að það sé það sem þarf til að hlutirnir gangi vel fyrir sig og horfi til betri vegar.
Regulega hef ég heyrt tillögur um að gott væri að fækka alþingismönnum, og hafa margir fært ágætis rök fyrir þeirri skoðun. En er ástæða til þess að fjölga sveitastjórnarfólki? Eða er ástæðan fyrir því hve margir telja þörf fyrir fjölgun á báðum þessum stöðum ef til vill sú að "hið opinbera" er eilíflega að skipta sér sér af og stjórna hlutum sem væru betur komnir annarsstaðar?
Borgarfulltrúum fjölgað í 23 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)