Færsluflokkur: Fjölmiðlar
24.11.2016 | 06:25
Er ég þá Útvarp Saga?
Með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð þau ummæli sem kært er fyrir, og ég hlusta aldrei á Útvarp Sögu, þá verð ég að viðurkenna að þessi ákæra fær mig til að velta því fyrir mér hvert stefnir á Íslandi.
Það er ekki gott að hata. Slíkt hugarfar skilar yfirleitt ekki nokkrum einstaklingi fram á við.
En bönn við hugsunum og tjáningu hafa yfirleitt ekki gert það heldur.
Ef við lítum nú á þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið á Íslandi í garð samkynhneigðra. Heldur einhver að hún hafi orðið vegna lagasetninga eða að bönn hafi verið sett?
Lagasetningar eru vissulega nauðsynlegar til að móta viðmót hins opinbera og lög eða reglugerðir eru nauðsynlegar í kringum giftingar, ættleiðingar, blóðgjafir o.s.frv.
En það voru ekki lög og reglugerðir sem breyttu viðhorfi almennings.
Það gerðist vegna hreinskilinna umræðna, fræðslu og ekki síst skemmtilegri og heiðarlegri framkomu samkynhneigðra.
Ég hygg að margir geti sagt, rétt eins og ég sjálfur, að þegar litið er til baka hafi ég haft fordóma í garð samkynhneigðra.
Ég hef stundum bætt við að hvernig hafi það getað verið öðruvísi miðað við það samfélag sem ég ólst upp í. Það er þó í raun ekki næg afsökun, en það er hægt að kenna "gömlum hundum" nýja hugsun.
En þegar fyrir nokkrum misserum við sögðum svo mörg: Ég er Charlie, hvað vorum við að meina?
Meintum við "bara" að við værum á móti því að blaðamennirnir voru myrtir, eða vorum við einnig á móti því að reynt væri að skerða tjáningarfrelsi þeirra? Jafnvel þó að það sama tjáningarfrelsi þætti mörgum meiðandi, niðurlægjandi og hatursfull árás á trú þeirra og skoðanir?
Hefði okkur verið nákvæmlega sama ef blaðinu hefði bara verið lokað? Eða hefði okkur fundist ákjósanlegt að dæma blaðamennina í fangelsi?
Eða finnst okkur að þeir eigi rétt á því að tjá sig?
Ef ég segi já, er ég þá ekki sömuleiðis Útvarp Saga?
Þess vegna stend ég (með ofangreindum fyrirvörum) með Útvarpi Sögu.
P.S. Málið er athyglisvert og ef til vill er þörf á því að slíkt mál komi til kasta dómstóla.
Það er betra fyrir Íslendinga að vita hversu mikið löggjafinn hefur skert tjáningarfrelsi þeirra en að velkjast í vafa.
En ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að Útvarp Saga hafi verið brotleg við lög og nauðsynlegt sé að refsa henni, legg ég til eftirfarandi: Að Útvarp Saga verði dæmd til að láta samtökum samkynhneigðra í té endurgjaldslaust 1. klukkustund á dag á milli 8 og 20, til að að útvarpa fræðslu og kynningu á sínum málefnum.
Pétur ákærður fyrir hatursorðræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2016 | 07:16
Kjósendur og skoðanakannanir
Sigur D.J. Trump er í bandarísku forsetakosningunum er í alla staði athyglisverður og mun verða tilefni vangaveltna og rannsókna um langa hríð.
Í raun bar Trump ekki aðeins sigur á Demókrötum og frambjóðanda þeirra, heldur barðist hann einnig við hluta Rúpúblikana.
En það er rétt sem kemur fram í fréttinni að álitsgjafar og skoðanakannanir gáfu Trump ekki mikla von um sigur. Reyndar voru dæmi um að aðferðafræðum skoðanakannana væri breytt, vegna þess að nokkuð góð staða Trumps í þeim þótti ekki trúverðug.
En sú staða að skoðanakannanir og álitsgjafar séu ekki í takt við úrslit kosninga er að verða regla fremur en undantekning.
Skemmst er að minnast "Brexit" kosninganna, bresku þingkosninganna, dönsku þingkosninganna og einnig nýafstaðinna þingkosninga á Íslandi.
Hvað álitsgjafana varðar er rétt að hafa í huga að þeir eru einungis einstaklingar, með eigin skoðanir, væntingar og vonir. Það má ef til vill frekar velta því fyrir sér úr hvaða "mengi" fjölmiðlum er tamt að velja þá.
En hvað skoðanakannanir varðar er málið annað.
Þar eru notaðar "viðurkenndar" aðferðir, sem hafa þróast í áranna rás.
En þær byggjast auðvitað á því að "úrtakið" sé rétt.
Ég held að hluti skýringarinnar sé að finna í þeirri staðreynd að vaxandi hópur ber vantraust til fjölmiðla og kannanafyrirtækja.
Það eru æ fleiri sem dettur ekki í hug að gefa upp afstöðu sína í síma eða tölvu sem það telur að hægt sé að rekja til sín. Eða það tekur þá afstöðu að einfaldast sé að gefa upp skoðun í takt við ríkjandi "andrúmsloft".
Og það eru jú fjölmiðlarnir og álitsgjafarnir sem eiga svo ríkan þátt í því að skapa það.
Það gildir sömuleiðis að sami hópur er ekki líklegur til þess að taka þátt í "panelum", enda ótrúlega margir sem hafa þá trú að þar séu þeir "kortlagðir".
Ég hugsa að svokallaðir samfélagsmiðlar hafi enn aukið á þessa tilhneygingu. Það er ekki eins og að þeir hafi verið "vítamínsprauta" fyrir jákvæð skoðanaskipti og umburðarlyndi. Alla vegna ekki eins langt og ég hef séð.
Þess vegna er talað um "gleymdu kjósendurna" og í "Brexit" kosningunum var sagt að ótrúlega stór hópur þeirra sem kusu Bretland út úr Evrópusambandinu hefði aldrei tekið þátt í kosningum áður (þrátt fyrir að hafa aldur til).
Það má ef til vill segja að partur af þessu sé fréttin sem ég sá á vísi, þar sem sagt var að stuðningsfólk Trump á Íslandi færi með veggjum.
Ég er í sjálfu sér ekki óánægður með að Trump hafi notið lítils stuðnings á Íslandi, ég var ekki stuðningsmaður hans (reyndar ekki Hillary heldur). En ég ég er ekki stuðningsmaður þess að einstaklingar verði fyrir aðkasti fyrir það að tjá skoðanir sínar eða séu beinlínis hræddir við að gera það.
Það er ekki heillandi andrúmsloft.
Trump og gleymdu kjósendurnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2016 | 08:23
Ruddaskapur eða spilling
Ég held að fátt ef nokkuð geti komið í veg fyrir að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna.
Í raun eru það all nokkur tíðindi. Ekki aðeins verður hún (ef eftir gengur) fyrsta konan til að gegna þessu "valdamesta embætti" heims, heldur verður hún einnig fyrsti maki fyrrverandi Bandaríkjaforseta til þess að gegna embættinu.
En ég get tekið undir með þeim mörgu sem segja að Bandaríkjamenn standi frammi fyrir tveimur miður góðum kostum.
Annars vegar er það Trump, í raun óþarfi að fara mörgum orðum um hann, með sinni ruddalegu framkomu og innihaldslitlum eða -lausum fullyrðingum.
Hins vegar er það Hillary Clinton, sem ásamt eiginmanni sínum - fyrrverandi forseta virðist hafa tekist að taka stjórnmálaþátttöku sína upp á þær "fjárplógshæðir" að ekki má finna sambærileg dæmi nema hjá vanþróuðum þjóðum og einvöldum (Verkamanna leiðtoginn Tony Blair kemur þó stuttlega upp í hugann).
En þó að kostirnir séu ekki góðir, eru kosningarnar á ýmsan hátt athygliverðar. Á meðal þess sem hefur vakið athygli mína er:
Eins og víða annars staðar snúast kosningarnar að þó nokkru leyti um að kjósendur eru búnir að fá yfir sig nóg af "kerfinu". Það er þess vegna sem Trump hefur þó haldið því fylgi sem hann hefur. Það má auðveldlega halda því fram að Hillary Clinton ætti í mun meiri erfiðleikum í að sigra "utan kerfis mann" sem hegðaði sér með hefðbundnari hætti en fyrrverandi demókratinn Donald Trump. Spurning hvort að hún myndi ná að gera það.
Enginn hefur minnstu áhyggjur af því að annar frambjóðandinn hafi úr mun meira fé að spila. Enginn hefur áhyggjur að "fjármagnið" ráði hver sigrar. Í þetta skiptið hefur "rétti" frambjóðandinn meira fé.
Enginn hefur af því áhyggjur að "Wall Street" fylki sér því sem næst sem einn maður að baki öðrum frambjóðandanum. "Wall Street" er núna með "the good guys".
Wikileaks, sem hefur verið eins og "lýsandi viti" fyrir hinn "frjálslynda heim", er nú "handbendi Rússa". Lekar eiga ekkert erindi til almennings ef þeir hjálpa "vondu köllunum".
Það má svo líklega velta því fyrir sér hversu mikinn þátt "pressan" sem á svo erfitt með að skilja Trump nú, á í að koma honum þangað sem hann er. Líklega hafði enginn frambjóðandi í forkosningum Rúpúblikana jafn góðan aðgang að fjölmiðlum, enda skapaði hann drjúgt af fyrirsögnum. "Hefðbundnir" frambjóðendur voru álitnir jafnvel hættulegri ern Trump - þá.
Að mörgu leyti finnst mér gott að þurfa ekki að velja á milli þeirra tveggja, Hillary og Donalds, en ég vona að enginn miskilji þessi skrif mín svo að ég sé fylgjandi Trump. Þyrfti ég að kjósa myndi ég kjósa Clinton.
Því þrátt fyrir allt er minni hætta af spillingu og peningagræðgi, en æðibunugangi, reynsluleysi, lítt hugsuðum breytingum, vanhugsuðum yfirlýsingum, dónaskap í samskiptum ríkja og "fílum í postulínsbúðum".
En það er samt ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að ein af fjölmennari þjóðum heims og sú öflugasta, stendur ekki frammi fyrir betri kostum.
P.S. Hér fyrir neðan má finna myndband frá umræðum á Fox síðastliðinn sunnudag. Hlustið á orð Bob Woodward.
P.S.S. Líklega má halda því fram að helstu "sigurvegarar" kosninganna verði "hakkarar" og sérfræðingar í tölvu öryggismálum. Líklega verður yfirdrifin eftirspurn eftir starfskröftum þeirra í framtíðinni.
="
Clinton hagnaðist um tugi milljóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2016 | 11:54
Frambjóðendur, titlar og menntun
Enn á ný er hafin mikil umræða á Íslandi um menntun og titla einhvers frambjóðanda. Sitt sýnist hverjum eins og vonlegt er.
Auðvitað skiptir meginmáli hvað frambjóðendur segja og gera, frekar en hver menntun þeirra er. En það verður þó ekki framhjá því litið að auðvitað skiptir máli að frambjóðendur segi sannleikann á þessu sviði, jafnt sem öðrum.
Sé sannleikurinn ekki í hávegum hafður, vekur það efasemdir um trúverðugleika frambjóðendans.
Ég ætla ekki að dæma neitt um sannleiksgildið í þessu öllu saman, í hvoruga áttina, þau orð frambjóðandans að honum þætti skrýtið að verið væri að vekja athygli á þessu stuttu fyrir kosningar fengu mig til að hlægja.
Ég man ekki betur en að menntunarmál og titlar frambjóðanda hafi verið sérstakt áhugamál margra vinstrimanna fyrir síðustu og þar síðustu kosningar.
Slíkt ætti því ekki að þurfa að koma neinum á óvart nú.
23.10.2016 | 13:08
Fjölmiðlar og stjórnmál og þátttaka fjölmiðla í stjórnmálum
Ég reikna með því að mörg okkar hafi oft á tíðum sagt við sjálf okkur að við gætum sagt til um hvar "samúð" margra fjölmiðla og jafnvel fjölmiðlamanna liggi í pólítík.
Lengi vel var þetta lítið leyndarmál, flestir fjölmiðlar voru flokkspólítískir og yfir Ríkisútvarpinu var stjórn pólítískra "varðhunda", sem sagan segir að hafi jafnvel notað skeiðklukkur til að mæla tíma mismunandi stjórnmálaafla.
En síðan urðu allir fjölmiðlar "óháðir", og nei, það er ekki tilviljun að ég set það hér innan gæsalappa.
Samt þykjumst við mörg hver ennþá sjá "samúðina" beinast hingað, eða þangað.
Ef marka má "Orðið á götunni", þá fá Íslendingar hins vegar sjaldgæfa sönnun á því hvernig hlutirnir geta gengið fyrir sig á fjölmiðlum á Íslandi.
Sjálfur sjónvarpsstjórinn er að spyrja stjórnmálamanninn hver gæti verið hentugur í umráðuþátt.
Þess má svo til gamans geta (klassískt orðalag) að sjónvarpsstjórinn er fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar, sem lýsti því fjálglega hvað hann væri feginn að vera "laus undan oki auðmanna", þegar hann hætti störfum á Stöð 2 hér um árið, stuttu áður en hann komst á þing.
Ef ég vitna nú í traustan vin minn, þá segir hann að fjölmiðlamennska sé "profession". En hann hefur meint það í jákvæðri meiningu, en ekki verið að tala um þá "elstu".
Viðreisn sýnir spilin fyrir kosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2016 | 16:30
Kastljósið: Ný þróun í kosningabaráttu á Íslandi?
Á miðvikudag sá ég auglýsingar um komandi Kastljós og skildi þær eiginlega svo að spilað yrði í þættinum í upptaka af samtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde.
Það var því svo að í dag (föstudag) að leitaði ég uppi Kastljósið á vef RUV og horfði á, nokkuð spenntur.
Mér fannst þátturinn óttalegt þunnildi þegar upp var staðið. Ekkert nýtt kom fram sem ekki hefur verið í "umræðunni" í langan tíma, en það verður þó að segjast að það var undirbyggt nokkru betur.
En frétt af vef RUV segir þó líklega meira en margt annað að í raun er umfjöllun Kastljóss ekki byggð á samtalinu sjálfu, en frásögn er alltaf vafa orpin, heldur meira á sögusögnum:
Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Sturla Pálsson, starfsmaður Seðlabankans, hefði borið því við í skýrslutökum hjá Sérstökum saksóknara að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hefði tjáð sér að hann hefði sagt Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að lánið væri tapað áður en það var veitt og að ákvörðun um fyrirgreiðsluna hafi verið Geirs.
Orðalag eins og "...hefði tjáð sér að hann hefði sagt..." segir í þessu tilfelli allt sem þarf.
En að mörgu leiti er það meginmál að einhver hefur lekið til Kastljóss yfirheyrslu Sérstaks saksóknara yfir starfsmanni Seðlabankanns.
Það verður að ég tel að teljast nýmæli í kosningabaráttu á Íslandi að lekið sé gögnum af þessu tagi.
Persónulega tel ég enga leið til þess að ætla að tímasetning slíks leka sé tilviljun. Ég er einfaldlega ekki það trúaður á tilviljanir, þó að ég neiti því að þær séu til.
Það er þarf þó varla að efa (eða hvað) að nú upphefjist heljarinnar leit (sem verður lýst í næstum beinni í fjölmiðlum) að þeim sem hefur lekið afriti af umræddri yfirheyrslu.
Nema auðvitað að starfsmenn sérstaks saksóknara telji að brotist hafi verið inn í tölvukerfi embættisins.
En það styrkir þá tilfinningu að ekki hafi verið um tilviljun að ræða, að "kantmennirnir" voru tilbúnir. Það stóð ekki á "ýtarupplýsingum", ættarupplýsingum og jafnvel hvar einstaklingar búa. Aðrir "fréttamenn" voru reiðubúnir með pistla sína og sagan spann nokkuð vel.
En af því að ég sagði að um nýmæli væri að ræða í kosningabaráttu á Íslandi, má ef til vill rifja upp að nýlega birti RUV frétt um nýmæli í íslenskri kosningabaráttu, það er að segja að upp hefðu skotið kollinum, "nafnlaus" myndbönd.
Í því tilfelli fannst RUV aðalfréttin felast í "sendiboðanum", en ekki því sem hann hafði að segja.
Alla vegna fannst RUV engin frétt í því að haldið væri fram að Samfylkingin væri í húsnæði sem væri í eigu félaga sem lögheimili væri í erlendum skattaskjólum. (Ég er einn af þeim steingervingum sem ekki er á Facebook, en googlaði og fann myndböndin á YouTube og má finna það er varðar Samfylkinguna hér neðst á síðunni).
Skyldi RUV koma með frétt um "lekanýjungina" í íslenskri kosningabaráttu?
Þannig eru þær ýmsar nýjungarnar í íslenskri kosningabaráttu þessa dagana.
En af því að "kantmennirnir" voru svo áhugasamir um búsetu og ættartengsl, má velta því fyrir sér hvers vegna þeir tóku hugleiðingar sínar ekki lengra og víðar?
Þannig veltu þeir því ekkert fyrir sér að fréttamaður Kastljóssins væri fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar, afi hans hefði verið þingmaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið, og að fyrir fáum árum hefði yfirmaður hans kallað hann "óþverra" (það er að segja af ég man það orðrétt). Sá fyrrverandi yfirmaður mun víst vera í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir þessar kosningar.
En þetta á auðvitað ekki að skipta neinu máli, þannig má líklega kasta "vafa" yfir ættartengsl flestra Íslendinga.
Og að sjálfsögðu bera fréttamenn ekki kala til nokkurs manns, hvað þá stjórnmálaflokks, það jaðrar auðvitað við "geðveiki" að halda slíku fram.
Að sjálfsögðu er þessi "uppljóstrun" hrein tilviljun, rétt eins og koma Evu Jolie og "drottningarviðtal" við hana í Kastljósi stuttu áður.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
18.10.2016 | 11:34
Stjórnmálamenn og "gamlar syndir"
Persónulega finnst mér alltaf hálf hjákátlegt þegar dregnar eru fram einhverjar gamlar syndir stjórnmálamanna og látið eins og það skipti einhverju höfuðmáli í núverandi baráttu.
En það sem mér þykir þó oft athyglisvert og hef gaman af, er að sjá hvernig þeir bregðast við og svara "uppljóstrununum".
Því oftast nær er engin ástæða til þess að skammast sín fyrir fortíðina í flestum tilfellum spilar hún ekki mikla rullu í því hver einstaklingurinn er í dag.
Sem betur fer hafa flestir stjórnmálamenn ekki unnið skipulega að framboði sínu frá barnæsku og því má finna hjá flestum þeirra eitt og annað "heimskulegt athæfi" sem ef til vill rímar ekki við stöðu þeirra eða skoðanir nú.
Í mínum huga er það fyllilega eðlilegt og gerir þá í raun aðeins mannlega, sem er, eins langt og mitt nef nær, eftirsóknarverður eiginleiki.
En það sem skiptir þó miklu máli er hvernig einstaklingarnir bregðast við. Hvernig taka þeir á gömlu syndunum.
Þar gefst líklega alltaf best að segja einfaldlega sannleikann og ef að sannleikurinn er ef til vill ekki fellur beint að "pólítískum rétttrúnaði" dagsins, þá er best að tala um breytta tíma og breyttan einstakling.
Tímarnir breytast og mennirnir með og það gildir einnig um kringumstæðurnar.
Þannig fannst mér hálf hlægilegt að lesa um "byssugleði Smára McCarthy" í Viðskiptablaðinu í gær.
Ég get ekki fundið beina tengingu við kosningabaráttuna á Íslandi árið 2016, þó að Smári hafi skemmt sér við að "freta" örlítið úr Kalashnikov í Afghanistan einhverntíma í fyrrndinni.
Ég reikna reyndar með að ef mér yrði boðið upp á slíkt þá myndi ég þyggja það (þó ég myndi ef til vill ekki leggja stóra lykkju á leið mína), því AK-47 er óneitanlega partur af sögunni og hefur haft meiri áhrif á hana en marga grunar.
En eins og oft áður eru það svörin sem vekja meiri athygli mína en "ávirðingarnar", því persónulega get ég ekki séð að um neinar "ávirðingar" sé að ræða.
Á myndunm sem Viðskiptablaðið birtir sést Smári skjóta af skammbyssu og tveimur mismunandi tegundum af hríðskotabyssum. Hann segir þetta hluta af námskeiði í sjálfsvörn, sem starfsmenn fyrirtækisins sem hann vann hjá hafi þurft að standa klárir á.
Ekki ætla ég að draga það í efa, en ég verð að viðurkenna að mér þykir það þó örlítið ólíklegt að starfmennirnar hafi haft innan seilingar og þurft að vera reiðubúnir til að grípa til skammbyssu og tveggja mismundi tegunda af hríðskotabyssum.
Það hefði alla vegna verið mun auðveldara þjálfunarlega séð, ef aðeins væri um eina tegund að ræða.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2016 | 11:12
Undarleg staðreyndavakt
Það er mikið í tísku að standa svokallaða staðreyndavakt, enda gerir internetið það mun auðveldara en oftast áður. Eins og stundum er sagt gleymir það engu og hægt er að finna "staðreyndir" á augabragði.
Reyndar finnst mér þær "staðreyndir" sem hér eru taldar upp flestar skipta ákaflega litlu máli og ég leyfi mér að draga í efa að nema hörðustu fylgismönnum finnist svo.
En það verður ekki fram hjá því litið, að vissulega er æskilegt að stjórnmálamenn (sem og aðrir) umgangist sannleikann af virðingu.
En það er ein "staðreyndin" sem birtist þarna sem vefst mikið fyrir mér og ég get séð betur en að hún sé röng, þ.e.a.s. ef minni mitt svíkur mig ekki alfarið.
Það er fullyrðingin: "Hið rétta er að Ríki íslams á rætur sínar að rekja til hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída í Írak, sem sunní-múslimar stofnuðu þar í landi árið 2004 eftir að Bandaríkin réðust inn í Írak."
Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að Al Qaeda samtökin hafi verið stofnuð ca. árið 1988, af Osama Bin-Laden. Ég hef meira að segja staðið í þeirri meiningu að þau hafi skipulagt og borið (í það minnsta mesta) ábyrgðina á árásinni á World Trade Center, þann 11.september 2001.
Það er reyndar rétt að taka það fram að mbl.is gerir ekkert annað en að þýða frétt ABC sjónvarpsstöðvarinnar sem heldur því nákvæmlega sama fram.
En þetta breytir því ekki að Trump fer með rangt mál í þessu tilfelli, en það tel ég að skipti í raun ákaflega litlu máli. Ég hef ekki trú á því að margir áhorfendur hafi litið svo á að Trump væri að halda því fram að Clinton hafi verið að berjast við ISIL frá 18 ára aldri.
En svo að búið sé til nýtt máltæki úr gömlu, hver á að staðreyndatékka staðreyndatékkarana.
Ef til vill er ekki vanþörf þar á.
Staðhæfingar Trumps hraktar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 28.9.2016 kl. 04:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2016 | 07:33
Fljótt á litið virðist sem kappræðurnar hafi engu breytt
Ég horfði ekki á kappræðurnar á milli Donalds og Hillary og reikna ekki með á ég geri það, enda varla það spennandi sjónvarpsefni.
En á ferðalagi mínu um netmiðla þennan morgunin, virðist meginþemað vera að á þeim miðlum sem búast má við að fylgjendur Trump séu fjölmennari, þá vann hann og svo þar sem fylgjendur Clinton venja komur sínar í meira mæli, vann hún.
Fljótt á litið má því draga þá ályktun að kappræðurnar hafi ekki breytt neinu.
Það að Clinton hafi haft betur samkvæmt CNN kemur jafn mikið á óvart og að New York Times hafi lýst yfir stuðningi við Clinton (sem kom reyndar ekki í veg fyrir að mbl.is skrifaði að hefði vakið athygli), enda hefur NYT ávallt stutt frambjóðenda Demókrata, í að minnsta kosti u.þ.b. 60 ár, eða svo. Ég held að síðasti frambjóðandi Repúblikana sem NYT hafi stutt hafi verið Eisenhower.
Svo virðist, ef marka má skoðanakannanir, að baráttan sé nokkuð jöfn, og kosningarnar geti farið á hvorn veginn sem er.
Ég viðurkenni það fúslega að mér þykir það nokkuð merkilegt, ekki síst þegar ég tek tillit til þess að stundum hefur mér þótt hegðun Trump í þá veru að hann óski einskis heitara en að tapa kosningunum.
En ef til vill stendur upp úr í mínum huga hvað báðir kostirnir eru slakir.
Clinton hafði betur samkvæmt CNN | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Persónulega hef ég mikið álít á Jóni Gnarr, það er að segja sem grín og húmorista, en síður sem stjórnmálamanni. Ég hef skemmt mér vel yfir ótal mörgu sem hann hefur komið að á grínsviðinu, það að liggur nærri að ég horfi á Vaktaseríurnar einu sinni á ári (sérstaklega ef ég verð veikur og held til í rúminu einn dag eða fleiri).
Það verður þó ekki frá honum tekið að hann náði frábærum árangri í kosningabaráttu, þó eðli málsins samkvæmt séu líklega skiptar skoðanir um hve vel honum tókst upp sem stjórnmálamanni.
En ég get ekki að því gert að mér finnst það virka nokkuð tvímælis af ríkisstofnun sem lögum samkvæmt þarf að feta eftir bestu getu þröngan stíg "hlutleysisins" að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til að leikstýra Áramótaskaupinu.
Það felur einhvern veginn ekki í sér hlutleysi að mínu mati.
En hver veit, ef til vill leitar RUV til Davíðs Oddssonar næst. Hann á einnig glæstan feril í gríninu að baki, þó að vissulega sé lengra síðana að Matthildar þættirnir þóttu hin mesta snilld.
Ekki er að efa að um slíka ráðningu myndi ríkja almenn sátt í þjóðfélaginu.
Jón Gnarr leikstýrir Skaupinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |