Færsluflokkur: Fjölmiðlar
19.10.2017 | 05:14
Dansað með Skatta Kötu
Ég var að þvælast um netið nú í morgunsárið og sá umfjöllun á Eyjunni um að urgur væri í vinstri mönnum. Þar segir að urgurinn stafi af myndböndum sem má finna á YouTube og mun einnig vera dreift á Facebook (hef ekki séð þau þar enda ekki með reikning þar).
En ég fór auðvitað inn á YouTube og fann umrætt myndband og horfði á það. Það má finna hér að neðan.
Vissulega eru alltaf umdeilanlegt þegar skoðunum og upplýsingum er deilt undir nafnleysi. Persónulega hef ég reynt að tileikna mér þá meginreglu að hlusta á það sem sagt er eða sýnt án þess að það skipti mig meginmáli hver segir það eða hvort ég viti hver það er.
En ég tek undir það að betri stíll og meiri reisn sé að koma fram undir nafni. Þó hefur marg oft verið rætt um nauðsyn þess að hægt sé að koma fram upplýsingum með nafnleynd, enda ekki óalgengt á Íslandi að eingöngu sé "hjólað í" (gríðarlega vinsælt orðfæri nú um stundir) manninn en ekki málefnið.
Ég get ekki séð að myndbandið sé í neinum meginatriðum rangt, þó að ég hafi ekki farið og "staðreyndatékkað" það.
Það er reyndar athyglisvert að lesa mjög góða umfjöllun á Visi.is, samhliða, ég vil hvetja alla til þess að leggja þann lestur á sig. Umfjöllun Visis má finna hér.
Þar er góð umfjöllun um hugsanlegar breytingar á skattkerfi, og segir m.a.:
"Gert er ráð fyrir að nýju þriðja þrepi verði bætt inn í tekjuskattskerfið og að allir þeir Íslendingar sem hafi 25 milljónir króna eða meira í árslaun, en þeir eru 946 manns samkvæmt gögnum frá Hagstofunni, verði í því skattþrepi. Þess má geta að umræddur hópur greiðir nú 46,24 prósenta tekjuskatt."
Og litlu neðar:
"Taka skal fram að í útreikningunum er ekki gert ráð fyrir að fólk bregðist með einhverjum hætti við skattheimtunni, svo sem með því að draga úr vinnuframlagi, greiða lægri laun út úr eigin rekstri eða flytja einfaldlega af landi brott. Slík viðbrögð yrðu vitanlega til þess fallin að draga úr heimtum af skattahækkununum."
Ég vil líka minna á þegar við heyrum um að afgangur ríkissjóðs sé alltof mikill og nær sé að eyða þeim í þarflegri hluti, aðj ef ég man rétt hefur hið opinbera eytt undanfarin ár mun hærri fjármunum í vaxtagreiðslur en til samgangna.
Minnki afgangur af fjárlögum, mun slíkt ástand vara mun lengur en ella. Það er vissulega valkostur að hið opinbera sé áfram verulega skuldsett, en það verður þá að gera sér grein fyrir því að framkvæmdir, eða velferðarmál sem þannig er staðið er, eru fjármögnuð með skuldum.
En nóg um það, enn og aftur hvet ég alla til þess að lesa umfjöllunina á Vísi, það er líklega besta umfjöllunin sem ég hef séð fyrir þessar kosningar (verður þó að taka með í reikningin að ég fylgist ekki grimmt með Íslenskum fjölmiðlum akkúrat núna.).
En það er rétt að enda á léttu nótunum og stíga dans með Skatta Kötu. Hér er þó ekki um að ræða Íslenska stjórnmálakonu, heldur Indónesíska hljómsveit sem ber einmitt nafnið Skatta Kata. Ég tók mér að bessaleifi að fallbeygja nafnið eins og það væri Íslenskt og hér að neðan má sjá myndband við lag þeirra "Dancing With Skatta Kata".
Mér þótti nafnið skondið þegar ég rakst á þetta myndband fyrir nokkrum mánuðum, en þykir það enn skondnara í dag.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 05:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2017 | 16:07
Heimsendir
Ég hef undanfarna daga verið að reynast að fylgjast með baráttunni fyrir komandi kosningar. Ekki það að þær skipti mig miklu máli, eða það að ég komi til með að greiða atkvæði í þeim.
Staðreyndin er sú að ég er ekki á kjörskrá.
En eftir því sem ég hef séð meira af kosningabaráttunni undanfarna daga (og jafnvel vikur) hefur ein af mínu uppáhaldssjónvarpsseríum komið oftar upp í hugann.
Það er Heimsendir, sem Ragnar Bragason leikstýrði og eru einhverir mestu snilldar þættir sem ég hef séð. Ég horfi á þá svona að jafnaði einu sinni á ári.
Ekki það að baráttumaður verkalýðsins, Georg Bjarnfreðarson (Vaktaséríurnar, sami leikstjóri) komi ekki upp hugann sömuleiðis, en Heimsendir þó mun sterkara.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2017 | 10:19
Lögbann virkar sjaldnast vel fyrir þann sem óskar eftir því
Í fljótu bragði man ég ekki eftir því að lögbann á fjölmiðla hafi virkað vel fyrir þá sem óska eftir því. Þvert móti dregur það aukna athygli að því sem fjallað hefur verið um, eða stendur til að fjalla um.
Og ímyndunarafl almennings er það kröftugt að það fer sjálfkrafa að velta því fyrir sér á hvað það sé sem lögbannið nái til.
En hitt kann einnig að vera að (gamli)Glitnir verði að grípa til einhverra ráðstafana, enda líklegt af þessum viðbrögðum að hann telji að lögbrot hafi verið framið.
Einhver hefur tekið gögn ófrjálsri hendi og komið þeim áfram til fjölmiðla.
Slíkt er eðlilegt að kæra til lögreglu og líklega er það eðlilegur farvegur málsins.
En þetta sýnir enn og aftur að gagnaöryggi er víða ábótavant, hvort sem er í raun eða netheimum.
Persónulega hef ég ekki fylgst svo náið með þessari umfjöllun, en vissulega má deila um hvaða erindi hún á við almenning. Þar verða menn líklega seint á eitt sáttir.
Komið hefur fram að að engin merki finnist um lögbrot eða ólöglegt athæfi. Hversu mikið erindi eiga þá fjármál einstaklings við almenning, þó að hann sé stjórnmálamaður?
Þar sýnist líklega sitt hverjum.
Ekki heyrt af lögbanni gegn Guardian | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2017 | 11:53
Þær eru margar tilviljanirnar, eða hvað?
Oft hafa menn að orði að þeir trúi ekki á tilviljanir, ég er einn þeim.
En það þurfti engar innherjaupplýsingar eða misnotkun á trúnaði til þess að ákveða að innleysa eignir sínar í verðbréfasjóðum á Íslandi í byrjun október 2008. Í raun má segja að það væri skrýtið ef einstaklingar hafi ekki gert það, eða í það minnsta hugleitt slíkt.
Ríkið tók yfir Glitni þann 29. september, þannig að það þurfti ekkert sérstakt innsæi eða spádómsgáfu, hvað þá innherjaupplýsingar, til að sjá að það hrikti verulega í Íslenska bankakerfinu, fyrsti bankinn var fallinn, og N.B. ekki annar af þeim sem var einkavæddur 2003.
Það er því að sjálfsögðu ekki tilviljun að menn voru að innleysa eignir í hlutabréfasjóðum á þessum dögum.
Það var heilbrigð skynsemi.
En svo er líka heilbrigt að velta því fyrir sér hvort að það sé tilviljun að þessar "merku" upplýsingar skjóti allt í einu upp kollinum nú að segja má nákvæmlega 9 árum síðar?
Ég veit ekki hvaða "skjalfestingar" búa að baki en það er ótrúlegt að það sé tilviljun að þær séu á "boðstólum" nú.
Eða hafa "fjölmiðlar" ef til vill legið á þeim þangað til rétta stundin rann upp?
Það er vissulega stundum rétt að velta því fyrir sér hvort að fjölmiðlar bregði sér í hlutverk "geranda" frekar en sögumanns.
Það hefur gerst þörf æ oftar upp á síðkastið.
Ekkert sem bendir til lögbrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2017 | 13:16
Skrýtin fyrirsögn
Mér varð eiginlega um og ó þegar ég sá þessa fyrirsögn. "Vélarvana flugvél úti fyrir Grænlandi."
En sem betur fer er fyrirsögnin aðeins enn eitt dæmi um hve illa fréttir eru skrifaðar nú til dags.
Einn af fjórum hreyflum vélarinnar eyðilagðist, sem mætti útleggja sem svo að ein af fjórum vélum flugvélarinnar hafi skemmst eða eyðilagst og vélin misst 25% af því afli sem knýr hana áfram, 1/4 af vélum sínum.
Sem betur fer er það langt í frá að það geri flugvélina "vélarvana", þó að vissulega sé um alvarlegt atvik að ræða.
En sem betur fer fór allt vel, enda á fyrirsögnin og sú fullyrðing að farþegaþotan hafi orðið vélarvana ekki við nein rök að styðjast.
Enn ein fréttin sem virðist benda til þess að til staðar sé takmarkaður skilningur á því sem skrifað er um og takmörkuð þekking á Íslensku máli.
Það þarf gera betur.
Farþegaþota varð vélarvana úti fyrir Grænlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2017 | 18:18
Falskar fréttir eiga sér langa sögu
Falskar fréttir eiga sér líklega jafn langa sögu og fréttir, ef ekki heldur lengri. Alla vegna hafa kvik og flökkusögur farið víða og skjóta oft upp kollinum aftur og aftur.
En falskar fréttir fá kraft sinn og styrk frá þeim fjölmiðlum sem birta þær. Því áreiðanlegri fjölmiðill, því áreiðanlegri fréttir - ekki satt?
Og af því að nafn New York Times er nefnt þarna sem fjölmiðils sem flytur falskar fréttir, þá er það ekki eins dæmi að blaðið sé sakað um slíkt, þrátt fyrir að margir telji það einn áreiðanlegast fjölmiðil veraldar.
Skemmst er að minnast hálfgerðrar afsökunar blaðsins sjálfs eftir forsetakosningarnar, sem og afsökunar "umboðsmanns lesenda" yfir þeim fréttum sem ekki birtust af Hillary Clinton.
En að New York Times hafi birt "falskar fréttir" eða þurft að biðjast afsökunar á þeim á sér býsna langa sögu.
Eitthvert frægasta dæmi um "falskar fréttir" sem birtar hafa verið er einmitt af síðum New York Times og það sem meira er, fréttamaðurinn sem þær skrifaði hafði stuttu áður hlotið Pulitzer verðlaunin.
Til að rifja þær upp þurfum við að fara aftur til fjórða áratugs síðustu aldar (sem er reyndar furðu vinsælt núna).
Þá var Walter Duranty fréttaritari blaðsins í Sovétríkjunum. Hann fullyrti að vissulega væru einhverjir þegnar þar svangir, en harðneitaði að þar ríkti hungursneyð.
Hann gekk það langt að fullyrða að allar fréttir um hungursneyð væru ýkjur eða illkvittinn áróður.
New York Times birti einnig fullyrðingar Duranty´s um að fréttir sem hefðu breskir blaðamenn hefðu skrifað um hungursneyðina í Ukraínu væru falskar og hluti á áróðursstríði Bretlands gegn Sovétríkjunum. Deildi hann harkalega á hina bresku blaðamenn sem dreifu falsi.
En Duranty var ófeiminn við að lofa Stalín og Sovétríkin og eins og áður sagði fékk hann Pulitzer verðlaunin fyrir greinarflokk þaðan.
Þó varasamt sé að fullyrða um slíkt, vilja margir meina að greinarflokkur Duranty´s og fullyrðingar hans um ástandið í Sovétríkjunum hefi gert Franklin D. Roosevelt, pólítískt kleyft að viðurkenna Sovétríkin, sem hann gerði á sínu fyrsta ári í embætti forseta, 1933.
Það var síðan ekki fyrr en eftir valdatöku Gorbachevs sem fyrir alvöru var farið að huga að hversu alvarlegar rangfærslur Duranty hafði sett fram.
Þegar samtök Kanadabúa af Ukraínskum uppruna höfu svo herferð árið 2003 til að svipta Duranty Pulitzer verðlaunum, lét New York Times óháðan aðila loks rannsaka "fréttamennskuna".
2003 birti New York Times svo langa afsökunarbeiðni vegna falskra og hálf falskra frétta skrifaðar af Jayson Blair sem birst höfðu í blaðinu.
Þetta eru bara tvö dæmi sem ég datt um af tilviljun.
Sjálfsagt má finna fjöldan allan til viðbótar.
Falskar fréttir eru ekki nýtt fyrirbrigði og munu seint hverfa.
En sjálfsagt er það til bóta að þær komist meira í umræðuna og við lærum að lesa fréttir með gagnrýnu hugarfari og halda okkur ekki við eina eða tvær fréttaveitur.
Falskar fréttir fara á flug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2017 | 19:12
Hvaðan koma "falskar fréttir"?
Það hefur mikið verið rætt um "falskar fréttir" undanfarnar vikur. Það má ef til vill segja að "falskar fréttir" séu af fleiri en einnar gerðar.
Ein tegund, og hún er vissulega verulega hvimleið, er hreinlega uppspuni frá rótum, oft um þekktar persónur, en einnig um "undarlega" atburði eða svokallaðar "samsæriskenningar".
Oft eru slíkar fréttir eingöngu settar fram til að afla "smella" og þannig höfundum þeirra tekna. Slíkt var nokkuð algengt fyrir nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Mikið af "fréttunum" mátti rekja til ungs fólks í A-Evrópu og Balkanskaga sem aflaði sér umtalsverðra tekna með þeim.
Þó að fréttirnar séu misjafnar að gerð, eru margar þeirra þess eðlis að lesendum reynist ekki erfitt að gera sér grein fyrir því að trúverðugleikinn sé ekki mikill, þó að fyrirsögnin hafi verið þess eðlis að freistandi væri að skoða málið nánar.
Afbrigði af þessu má sjá víða, þar á meðal á íslenskum miðlum, en oftar er þó látið nægja að veiða með fyrirsögn, sem er tvíræð, eða leynir því hvort að um íslenska eða erlenda frétt er að ræða, en beinar "falsanir" eru lítt þekktar (nema ef til vill þegar þær eru teknar beint úr erlendum miðlum). Músasmellir eru peningar.
En fréttir þar sem "sérfræðingar" láta gamminn geysa hafa líka aukist stórum undanfarin ár. Þar má oft lesa stórar fullyrðingar og vafasamar spár sem án efa eru mikið lesnar, en reynast oft hæpnar og beinlínis rangar.
Af þessum meiði eru t.d. þær spár frá Englandsbanka sem er fjallað um í viðhengri frétt. Þær spár fengu að sjálfsögðu mikið pláss í fjölmiðlum. Slíkt enda ekki óeðlilegt.
Spá breska fjármálaráðuneytisins af sama tilefni hefur einnig þótt langt frá lagi og verið harðlega gagnrýnd. Slíkar fréttir sem áttu margar uppruna sinn innan stjórnkerfisins voru sameiginlega kallaðar "project fear". Þegar starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafa reynt að klóra í bakkann eftir á, hefur komið fram að ein af forsendum útreikninganna hafi verið að Englandsbanki myndi ekki grípa til neinna ráðstafanna, yrði Brexit ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Geri nú hver upp við sig hversu líklegt væri að Englandsbanki brygðist á engan hátt við?
Það er rétt að það komi fram að þeir sem börðust fyrir jái, í Brexit atkvæðagreiðslunni gerðu sig einnig seka um að kasta fram ýmsum fullyrðingum, sem voru í besta falli misvísandi og reynast ekki réttar séu allar forsendur teknar með í reikninginn. Einhverra hluta vegna hafa þær þó fengið mun meiri athygli en fullyrðingar þeirra sem börðust fyrir nei-i.
Það má ef til vill að hluta til útskýra með því að það sé síður ástæða til að staðreyndareyna fullyrðingar þeirra sem bíða lægri hlut. En það er ekki eftir að úrslitin eru ljós sem slíkar fullyrðingar hafa áhrif, heldur í kosningabaráttunni.
Íslendingar þekkja ágætlega af eigin raun "fréttir" af slíkum toga. Hvað skýrast komu þær fram í Icesave deilunni, þar sem flestir fjölmiðlar voru fullir af "sérfræðingum" og öðrum álitsgjöfum sem kepptust um að lýsa þeim hörmungum sem myndu dynja á Íslendingum ef samningarnir yrðu ekki samþykktir.
Hvort við segjum að skoðanir "sérfræðinganna" hafi reynst rangar (falskar) eða að fréttirnar hafi verið það er líklega skilgreiningaratriði.
En það er ljóst að fjölmiðlarnir gerðu ekkert til þess að staðreynda kanna fullyrðingarnar, enda ef til vill erfitt um vik, því mér er ekki kunnugt að mikil rök hafi fylgt þeim.
Hvort skyldi svo vera hættulegra lýðræðinu, uppspuni unglinga í A-Evrópu og Balkanskaga eða "fimbulfamb" svo kallaðra "sérfræðinga"?
En eitt er víst að hvort tveggja framkallar músasmelli.
Þriðju uppspretta "falskra frétta" sem nefna má (þær eru vissulega fleiri) eru fréttastofur sem kostaðar eru af stjórnvöldum hér og þar í heiminum.
Ýmsar einræðisstjórnir (eða næstum því einræðisstjórnir) sjá sér vitanlega hag í því að fréttir séu sagðar út frá þeirra sjónarmiðum og hagsmunum.
Slíkt er orðið tiltölulega einfalt og hefur internetið gert alla dreifingu auðveldari og jafnframt ódýrari.
Á meðal slíkra stöðva má nefna sem dæmi RT og Sputnik sem eru kostaðar af Rússneskum stjórnvöldum og svo fréttastöðvar frá Kína, N-Kóreu og fleiri löndum.
Hér og þar á Vesturlöndum má verða vart við vaxandi áhyggjur af slíkum miðlum og æ ákafari áköll um að hið opinbera skerist í leikinn og reki "gagnmiðla" og skeri upp herör gegn ósannindum og "fölskum fréttum".
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að góðir og öflugir fjölmiðlar verði seint ofmetnir.
Það er því ótrúlegt ef þeirri skoðun vex stöðugt fylgi að að hinir öflugu fjölmiðlar á Vesturlöndum fari halloka gegn miðlum "einræðisríkjanna".
Ef svo er hljótum við að spyrja okkur að því hvernig stendur á því að þeir hafi tapað svo miklu af trúverðugleika sínum?
Ef það er raunin.
En ég hef líka miklar efasemdir um "sannleiksdómstól" hins opinbera, ég held að slíkt geti aldrei talist lausn. Þó er víða kallað eftir slíku og beita þurfi sektargreiðslum gegn miðlum sem slíkt birta.
Með slíkum rökum hefðu íslenskir miðlar líklega verið sektaðir fyrir að birta fleipur "sérfræðinga" sem fullyrtu að Ísland yrði eins og N-Kórea eða Kúba norðursins.
Það er engin ástæða til þess að feta þann veg.
Það er hins vegar næsta víst að fjölmiðlar muni um ókomna framtíð birta fréttir sem reynast rangar (sumir vilja meina að nokkuð hafi verið um það nú, af stjórnarmyndunarviðræðum) og alls kyns vitleysa líti dagsins ljós. Það er sömuleiðis næsta víst að einhverjir fjölmiðlar sleppa því að birta einhverjar fréttir þegar það hentar ekki einhverjum sem þeir styðja. New York Times baðst nýverið afsökunar á slíku. CNN rak fjölmiðlamann sem lak spurningum til forsetaframbjóðenda.
Fjölmiðlar hafa aldrei, eru ekki og munu líklega aldrei verða fullkomnir.
Þess vegna eigum við öll að lesa eins marga af þeim og við komumst yfir og höfum tíma til. Það er líka æskilegt að við látum í okkur heyra ef okkur er misboðið.
En ég held að engin lausn felist í því að ríkisvæða "sannleikann", eða að koma á fót "fréttalögreglu". Sektir fyrir rangar fréttir munu ekki heldur leysa vandann.
En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að fréttir eru ekki alltaf réttar, þær eru líka sagðar frá mismunandi sjónarhornum.
Ef 20 manns horfa á sama atburðinn, er líklegt að lýsingar þeirra séu býsna mismunandi, jafnvel hvað snertir það sem talið væri grundvallaratriði.
Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að "sérfræðingar" hafa skoðanir.
Hafði rangt fyrir sér um áhrif Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 11.1.2017 kl. 05:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.1.2017 | 16:46
Skaup í meðallagi
Gaf mér loks tíma til þess að horfa á hið íslenska Áramótaskaup nú í dag. Hafði af því þokkalega skemmtun.
Brosti annað veifið en get ekki sagt að ég hafi hlegið svo eftirtektarvert hafi verið.
En fjölskyldan segir reyndar að það sé erfitt að fá mig til að hlægja upphátt.
En skaupið var í meðallagi gott, ekkert til að kvarta yfir, en ekki ástæða til sérstakst hróss heldur.
Á því eins og stundum áður nokkur pólítísk slagsíða.
Ef til vill ekki við öðru að búast þegar fyrrverandi stjórnmálamaður er leikstjóri.
Enda ef marka má skaupið gerðist ekkert sem grín gerandi er að í Reykjavíkurborg á liðnu ári.
En það er auðvitað ekki hægt að gefa stjórnendum Reykjavíkur neitt pláss í Skaupinu. Þeir myndu þá líklega fylla það á komandi árum.
18.12.2016 | 17:26
Níundi áratugurinn var að hringja og vill...
Fyrir rétt rúmum fjórum árum gerði forseti Bandaríkjanna Barack Obama grín af Mitt Romney frambjóðenda Repúblíkana, með eftirfarndi orðum:
Níundi áratugurinn var að hringja og vill fá utanríkisstefnuna sína aftur, Kalda stríðinu lauk fyrir 20 árum ([t]he 1980s are now calling to ask for their foreign policy back, because the Cold Wars been over for 20 years.).
Ástæðan fyrir þessum brandara friðarverðlaunahafa Nobels, Obama var að Romney hafði sagt að helsti "geopólítíski" andstæðingur Bandaríkjanna væri enn þá Rússland.
Þetta þótti hinn besti brandari og öll hin "frjálslynda" pressa gerði mikið úr því að "kaldastríðsfákurinn" Romney væri "frambjóðandi síðustu aldar".
Spólum áfram 4. ár og hin sama "frjálslynda" pressa nær ekki upp í nefið á sér fyrir reiði vegna þess að hún er fullviss um að Rússland hafi barist gegn vonarstjörnu sinni, Hillary Clinton, og líklega komið í veg fyrir að hún yrði forseti Bandaríkjanna.
Ef til vill ekki að undra að slegið hafi á trúverðugleikann.
En líklega kemst 9. áratugurinn aðeins í símann á 4. ára fresti.
8.12.2016 | 06:50
Tæpir 4. mánuðir í lífi tímarits
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 06:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)