Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Nýr útvarpsstjóri og samsæriskenningar

Þegar ég hef lítið að gera um helgar eða of latur til að gera það sem ég þarf að gera hlusta ég oft á Íslenskt útvarp.

Oftast nær eitthvað frá liðinni viku, en líka Sprengisand og stundum Silfrið (sjónvarpsþáttur ég veit, en ég hlusta yfirleitt á hann en horfi ekki).

Einn af mínum uppáhaldsþáttum er Harmageddon, það er að segja þegar þeir félagar eru nógu duglegir við að setja inn "klippur" og ég þarf ekki að hlusta á leiðinlegu tónlistina :-)

Þar heyrði ég verulega áhugaverða samsæriskenningu um ráðningu nýs útvarpsstjóra, sem virðist vara áralangt "plott" Sjálfstæðisflokksins.

Það virðist sem svo að Stefán Eiríksson, sem ráðinn var sviðstjóri Velferðarsviðs hjá Reykjavíkurborgar árið 2014, (áður hafði hann verið lögreglustjóri í Reykjavík eins og flestir líklega vita) af þáverandi meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

Ekki kunni borgarstjórnarmeirihlutinn verr við störf hans (þó að ef marka má samsæriskenningunar hljóti honum að hafa verið plantað þar af Sjálfstæðisflokknum) en það að á þessu kjörtímabili, þegar borgarstjórnarmeirihlutinn er skipaður af Samfylkingu, Viðreisn, Vinstri grænum og Pírötum, en að hann var gerður að Borgarritara og staðgengils Borgarstjóra (þá hlýtur að hafa verið slegið upp veislu í Valhöll).

Síðan springur "plottið" út og Borgarritari og staðgengill Dags B. Eggertssonar er ráðinn útvarpsstjóri og Dagur gefur honum sín bestu meðmæli (annar góður dagur í Valhöll, eða hvað).

Og ein stærsta sönnunin fyrir öllu þessu er auðvitað að afi verðandi útvarpsstjóra var umboðsmaður Morgunblaðsins á Akureyri um árabil á síðustu öld.

Fullyrt er að hann hafi verið kallaður Stebbi "Mogga". Ég man reyndar ekki eftir þessu viðurnefni (en get ekki fullyrt að svo hafi ekki verið) á Stefáni, þegar ég var að alast upp á Akureyri, en það loddi við annan einstakling (sem ég held að hafi gegnt starfinu á undan Stefáni).

En ég verð að segja að ég tek hattinn ofan fyrir Sjálfstæðisflokknum því að hann er augljóslega öflugri og betri í "plottunum" en ég hafði gert mér grein fyrir hve "langt tafl" hann er fær um.

En ef til vill er einfaldlega tími "álhattanna" að renna upp á Íslandi.

En ég hvet alla til að hlusta á viðtalið, það er alltaf gott að brosa í skammdeginu.

 


Ef til vill ekki neitt annað ráð í stöðunni?

Það er auðvitað engin leið að vita hvort að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn, þegar ekki er vitað hverjir sóttu um.

En mér lýst ekkert illa á Stefán í stöðuna, hef raunar ekki á því sterka skoðun.

En er ekki ljóst að RUV hefur gengið fram með slíkum lögbrotum undanfarin ár að stjórn þess sá að ekkert myndi duga nema fyrrverandi lögreglustjóri til að breyta þeirri "vinnustaðamenningu"?

P.S. Svo eigum við auðvitað eftir að sjá hvort að þurfi að borga skaðabætur vegna jafnréttisjónarmiða, en ég vona að svo verði ekki.

Enda miðað við lögbrot RUV undanfarin ár, myndi sú lögreglustjórareynsla trompa flest annað.  Nema auðvitað að kvenkyns lögreglustjóri hafi sótt um.

 


mbl.is Stefán Eiríksson ráðinn útvarpsstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrautfjaðrir og skrýtin Lávarðadeild

Nú tíðkast það víst að sérstakir fjölmiðlafulltrúar ráðuneyta skrifi "fréttir" sem síðan birtast næsta orðréttar í hinum ýmsu fjölmiðlum.

Að sjálfsögðu vilja þessir "fréttahaukar ríkisins" veg sinna manna sem mestan.

En ég held að á stundum gangi þessir "fréttahaukar" full langt og fjölmiðlar taki afurðum þeirra full gagnrýnislaust.

Þannig myndi ég ekki túlka þann viðburð sem viðhengd frétt fjallar um, sem að Lilja Alfreðsdóttir hafi flutt fyrirlestur um jafnréttismáli í Lávarðadeilt Breska þingsins.

Ég myndi segja að hún hafi flutt fyrirlestur, eða tekið þátt í hringborðs/pallborðsumræðum í húsakynnum Bresku lávarðadeildarinnar.
Þeir sem áður hafa séð myndir frá Bresku lávarðadeildinni eru fljótir að átta sig á því að meðfylgjandi mynd er ekki tekin í þingsal Bresku lávarðadeildarinnar.

Hún er enda tekin í nefndarherberbegi 3C, í húsakynnum hinnar sömu lávarðadeildar.  Fundurinn/fyrirlesturinn/hringborðsumræðurnar voru enda skipulagðar af hugveitunni Henry Jackson Society, en hún hafð þekkst boð frá barónessu Posser, um að halda fundinn (panel discussion) í húsakynnum lávarðdeildarinnar.

Það er því að mínu mati all nokkur vegur frá því að Lilja Alfreðsdótir hafi haldið fyrirlestur í Lávarðadeild Breska þingsins.

En sjálfsagt myndi einhver flokka þetta undir vel heppnuð störf fjölmiðlafulltrúa, en persónulega myndi ég frekar flokka þetta undir mistök fjölmiðla.

Sem aftur styrkir þá skoðun mína að varhugavert sé að auka tengsl og allra síst fjárhagsleg tengsl, fjölmiðla og stjórnvalda.

 


mbl.is Lilja ræddi um jafnrétti í lávarðadeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessaður hampurinn

Á meðal betri fjölmiðla á Íslandi er Bændablaðið.  Það er ósjaldan sem ég les skemmtilegar og fróðlegar greinar þar um hin aðskiljanlegustu málefni.  Oft á tíðum ekki nátengdar Íslenskum landbúnaði, jafnvel um plöntur sem lítt eru ræktaðar á Íslandi.

En ég mæli með vefsíðunni þeirra.

En þessi frétt þeirra er í raun stórkostleg.  Ræktun á hampi á Íslandi er að skila góðum árangri, og sú landbúnaðarframleiðsla gæti orðið að að lítilli iðnaðarframleiðslu.

Hugsanlega stórri.

Það er einmitt svona hugsun og framtak sem er þörf fyrir sem víðast á Íslandi, kemur öllum til góða.

En hvað er það sem svo heyrist um að hið opinbera dragi lappirnar og standi í raun í vegi fyrir slíkri framþróun?

Er ekki tími til kominn að tengja með hampinn?

 

 

 

 

 


Elsku vinur ábyggilega áhugavert, en ekki gleyma Gjugg í borg og Honey Will You Marry Me..

Mér lýst vel á þetta samstarf, verður líklega áhugavert lag.

En þó að fyrsta LP plata Stuðmanna hafi verið "Sumar á Sýrlandi" sem kom út árið 1975.

En á undan "Sumrinu" kom smáskífan "Gjugg í borg" og "Draumur okkar beggja", ég man ekki hvor var talin "A hliðin", og reyndar minnir mig að "A hlið" hafi verið beggja megin á ÁÁ records útgáfunni.

En líklega var "Honey Will You Marry Me"(ég man ómögulega hvað hitt lagið heitir), jafnvel á undan þeirri smáskífu, sömuleiðis á ÁÁ records.  Getur verið að "Honey" hafi verið númer 12 og "Gjugg í borg" númer 13?

Ég man þetta ekki og á ekki þessar plötur, en man eftir að hafa meðhöndlað þær eins og dýrgripi í eigu annarra.

En ég er þess fullviss að "Sumar á Sýrlandi" var ekki fyrsta plata Stuðmanna, þó að hún hafi verið fyrsta LP platan.

En það er auðvelt að fyrirgefa blaðamönnum nútímans að  vita ekki um 7", EP plötur og svo framvegis.

En það er líklega jafnt í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni.

En hér sem ég er staddur, er alltaf á einni útvarpsstöðinni, það sem þeir kalla "Vinyl Countdown", en Stuðmenn koma þar því miður aldrei við sögu, en dagskráliðurinn er skemmtilegur eigi að síður.


mbl.is Stuðmenn og Auður í eina sæng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostar Netflix Eurovision á Íslandi?

Ef marka má fréttir sem ég hef séð frá Íslandi, mun Netflix kosta útsendingu Eurovision á Íslandi í vor.

Flest sem ég hef heyrt sagt um málið er neikvætt í garð RUV og þessarar kostunar.  Talað er um að þetta sýni slæmt siðferði RUV, það sé óviðeigandi að Netflix kosti slíka útsedingu.

Netflix sé ógn við Íslenska fjölmiðla og menningu og því eigi RUV ekki að vera í samstarfi við slíkan aðila.

Síðan er því gjarna bætt við að Netflix greiði enga skatta á Íslandi og sé á meðal þess sem gerir Íslenskum fjölmiðlum erfitt fyrir.

Ég get vel skilið að þetta samstarf veki athygli, en ég sé ekki raunverulegar ástæður til þess að amast við því.

Það væri fyrst orðið umdeilanlegt ef RUV væri ætlað að hafna þeim sem vilja auglýsa hjá stofnuninni eða kosta dagskrárliði, eftir einhverji siðferðismati um starfsemina.

Öll fyrirtæki ættu að hafa jafnan aðgang að auglýsingum og þess háttar, svo lengi sem löglegt er að auglýsa viðkomandi vöru.

Annað gengur hreinlega ekki upp að mínu mati.

Það má hins vegar rökræða lengi um hvort að auglýsingar og kostanir eigi að vera á RUV, hvort að skylduáskrift sé rétt, hvaða markmið séu með rekstri RUV og hvort að það eigi að setja rekstri þess einhverjar skorður.

En að RUV fari að flokka auglýsendur/kostunaraðila í æskilega og óæskilega er alger fjarstæða að mínu mati.

P.S. Viðbætt hér 18. janúar.  Mér barst tölvupóstur með þeim upplýsingum að Netflix borgi að sjálfsögðu virðisaukaskatt af áskriftum á Íslandi.  Fannst rétt að það komi fram.

 

 

 


Hver er skandallinn?

Persónulega finnst mér þetta dæmi um hvernig reynt er að koma höggi á einstaklinga, frambjóðendur og fyrirtæki, án verulegrar ástæðu.

Er ámælisvert að skaffa föngum atvinnu?

Borgaði framboð Bloomberg óeðlilega lágt verð fyrir þjónustu fanganna?  Nei.

Það má vissulega deila um hvort óeðlilegt sé að fangarnir beri svo lítið úr býtum, en þar er ekki við framboðið að sakast, heldur hvernig reglurnar eru um vinnu fanga og laun þeirra.

Það er sjálfsagt að berjast fyrir breytingu á þeim reglum.

En það er gott fyrir fanga að fá vinnu, og æskilegt að hún sé að einso lík vinnu utan múranna og kostur er.

Skyldi fjölmiðilinn sem "svipti hulunni" af þessu vera stoltur af því að fangarnir hafa ekki lengur þessa vinnu?

Hver er skandallinn?

 

 


mbl.is Fangar hringdu fyrir Michael Bloomberg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trudeau: Ekki eins og hann er auglýstur?

Ekki get ég talist stuðningsmaður Justin Trudeau, ekki nú né nokkru sinni fyrr og ég átti satt best að segja ekki von á því að ég ætti eftir að koma honum til varnar.

En mér þykja þessar "uppljóstranir" um hann, birtingar á áratuga gömlum myndu sem eiga að sanna "siðferðisbrest" hans og "rasíska tendensa" langt yfir skynsemis og velsæmismörkum.

Það virkar alltaf vafasamt að ætla að dæma fortíðina með "siðferðisviðmiðum" nútímans, en jafnvel þó að kosið sé að líta á athæfi hans "alvarlegum augum", sannar það í mínum huga  ekkert meira en að Trudeau jr. hafi einhvern tíma verið "ungur og vitlaus" eins og það er stundum kallað.

Er það svo alvarlegt?  Vijum við stjórnmálamenn sem byrjuðu að skipuleggja ferilinn og "pössuðu" sig frá fermingu?  Ekki að það þurfi að vera galli, en er ekki betra að "fagna fjölbreytninni"?

Ég reikna með að þessi uppljóstrun eigi eftir að verða fyrirferðarmikil í umræðunni fyrir Kanadísku kosningarnar, en þar þykir Trudeau, sitjandi forsætisráðherra eiga undir högg að sækja.

Margir tala um uppljóstranirnar sem nokkurs konar bjúgverpil hins "pólítíska rétttrúnaðar", og hafi hitt Trudeau réttilega fyrir.

En það má líka velta því fyrir sér hvort að þetta sé einfaldlega ættað úr herbúðum Trudeaus.

Lítilvægt mál sem "iðrandi rétttrúnaðar pólítíkus" biðst auðmjúkur afsökunar á.  Er það ekki virði nokkurra atkvæða?

Og er ekki betra að ræða áratuga gamla grímubúninga, heldur en þá staðreynd að forsætisráðherran var staðinn að því að beita dómsmálaráðherra þrýstingi til að hindra framgang réttvísinnar gagnvart stórfyrirtæki?

Því að Kanadíski Íhaldsflokkurinn hefur að miklu leyti rétt fyrir sér þegar hann auglýsir að Trudeau sé "not as advertised", eða ekki eins og hann er auglýstur.

P.S.  Svo má velta því fyrir sér, á "Wadiyaísku" hvort að þetta sé aladeen eða aladeen.


mbl.is Fleiri myndir af Trudeau svartmáluðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skringilega orðuð könnun Maskínu og utanríkisráðuneytisins - Undarleg framsetning sem ýtir undir ranga túlkun

Ég rakst á frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðhorfskönnun sem Maskína hefur gert fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til fjöl- og alþjóðasamstarfs.

Könnun sem þessi er að mörgu leyti þörf og fróðleg, þó að aldrei eigi að taka slíkum könnunum sem heilögum sannleik, gefa þær vísbendingar sem geta nýst vel í umræðum og ákvarðanatökum.

En það er áríðandi að vel, nákvæmlega og heiðarlega sé unnið að slíkri könnun og hlutleysis sé gætt í hvívetna.

Persónulega finnst mér, alla vegna við fyrstu sýn (og jafnvel aðra) vanta þar upp á, alla vegna hvað varðar framsetningu niðurstaðna.

Látum vera hvernig fyrirsögn Vísis er, "Íslendingar eru almennt jákvæðir í garð Evrópusambandsins", þó að þeir séu ekki jákvæðir í garð aðildar að því, alla vegna ekki ef tekið mark er á skoðanakönnunum þar að lútandi.

En svo segir í fréttinni:  "Hins vegar segjast aðeins 31,6 prósent hlynnt inngöngu Íslands í ESB, 25,4 prósent segjast í meðallagi hlynnt inngöngu og 43,0 prósent segjast andvíg."

Þetta þótti mér nokkur tíðindi.

Þarna er í fyrsta sinn í langan tíma komið svo að ef trúa á niðurstöðunni, er meirihluti Íslendinga hlynntur inngöngu í "Sambandið".

Þannig að ég fann könnunina og þar á síðu 115 er fjallað um afstöðu Íslendinga til inngöngu í "Sambandið".Sambandið Maskína

Þarna eru semsagt flokkað í 5 möguleika. Tveir af þeim eru orðaðir svo að svarandi sé fylgjandi inngöngu Íslands í "Sambandið".  Tveir flokkar á móti, og svo þessi skringilegi "Í meðallagi".

Mjög hlynntur

Fremur hlynntur

Í meðallagi

Fremur andvígur

Mjög andvígur

Hvað varð um orðalag svo sem "hlutlaus", eða tek ekki afstöðu. Hvað þýðir að vera "Í meðallagi andvígur eða fylgjandi umsókn?

Ef ég met vilja minn til þess að Ísland sæki um aðild að "Sambandinu" sem 3 af 5, slík afstaða getur verið frá 40 til 60% vilji, er ég að segja að ég vilji að sótt sé um aðild?

Væri t.d. það að vera 40% samþykkur því að sótt sé um aðild að "Sambandinu" ígildi þess að vilja að sótt sé um aðild?

Persónulega myndi ég segja nei við slíkri spurningu, það ætti að teljast sem andstæðingur umsóknar.

En eins og fram kemur hér að ofan er Vísir ekki í neinum vafa um hvernig beri að túlka niðurstöðurnar, að sálfsögðu "Sambandsaðild" í vil, eins og tíðkast í þeim miðli.

En svona framsetning er í besta falli villandi, vonandi ekki vísvitandi og að mínu mati ekki sæmandi könnunarfyrirtæki með sjálfsvirðingu, hvað þá utanríkisráðuneytinu.

En hér verður hver að dæma fyrir sig, en ég hvet alla til að kynna sér könnunina, en því miður er þessi mjög svo umdeilanlega framsetning gegnumgangandi í henni.

Því slík framsetning ýtir undir villandi túlkun eins gerist t.d. í frétt Vísis.

 


Hvers vegna loga ekki fjölmiðlar af ótta við að "popúlískur" "öfga" vinstri flokkur komist til valda í Danmörku?

Það er útlit fyrir stjórnarskipti í Danmörku.  Í sjálfu sér ekki merkilegt, slíkt gerist reglulega í lýðræðisríkjum.

Ég get ekki sagt að ég hrífist af Dönskum jafnaðarmönnum, en það er engin nýlunda að þeir séu við völd.

En ef svo fer að jafnaðarmenn taki við völdum í Danmörku, er það að margra mati ekki síst vegna þess að þeir hafa breytt um stefnu hvað varðar innflytjendur í Danmörku.

Margir segjast varla sjá mun á stefnu þeirra og Danska þjóðarflokkins eða Svíþjóðardemókratana.

Það hefur reyndar oft verið sagt að munur á hefðbundnum "jafnaðarmannaflokkum" og svo  þeim sem oft hafa verið kallaðaðir "öfga hægriflokkar", hafi fyrst og fremst verið afstaðan til innflytjenda.

En þessi breyting á afstöðu til innflytjenda af hálfu Danskra jafnaðarmanna hefur vissulega vakið athygli.

En mun hún þýða stefnubreytingu af hálfu Íslenskra jafnaðarmanna?

Munu þeir neita fjölþjóðlegu samstarfi við Danska jafnaðarmenn?

Munu forystumenn Íslenskra jafnaðarmanna standa upp og yfirgefa fundi þar sem Danskir jafnaðarmenn tala?

Eða er allt í lagi með Danska jafnaðarmenn, vegna þess að þrátt fyrir afstöðu þeirra til innflytjenda, eru þeir auðvitað enn stuðningsmenn Evrópusambandsins.

Eru þeir þá hvorki "öfga" eða "popúlískir"?

 

 


mbl.is Vinstriflokkarnir með meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband