Nýr útvarpsstjóri og samsæriskenningar

Þegar ég hef lítið að gera um helgar eða of latur til að gera það sem ég þarf að gera hlusta ég oft á Íslenskt útvarp.

Oftast nær eitthvað frá liðinni viku, en líka Sprengisand og stundum Silfrið (sjónvarpsþáttur ég veit, en ég hlusta yfirleitt á hann en horfi ekki).

Einn af mínum uppáhaldsþáttum er Harmageddon, það er að segja þegar þeir félagar eru nógu duglegir við að setja inn "klippur" og ég þarf ekki að hlusta á leiðinlegu tónlistina :-)

Þar heyrði ég verulega áhugaverða samsæriskenningu um ráðningu nýs útvarpsstjóra, sem virðist vara áralangt "plott" Sjálfstæðisflokksins.

Það virðist sem svo að Stefán Eiríksson, sem ráðinn var sviðstjóri Velferðarsviðs hjá Reykjavíkurborgar árið 2014, (áður hafði hann verið lögreglustjóri í Reykjavík eins og flestir líklega vita) af þáverandi meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

Ekki kunni borgarstjórnarmeirihlutinn verr við störf hans (þó að ef marka má samsæriskenningunar hljóti honum að hafa verið plantað þar af Sjálfstæðisflokknum) en það að á þessu kjörtímabili, þegar borgarstjórnarmeirihlutinn er skipaður af Samfylkingu, Viðreisn, Vinstri grænum og Pírötum, en að hann var gerður að Borgarritara og staðgengils Borgarstjóra (þá hlýtur að hafa verið slegið upp veislu í Valhöll).

Síðan springur "plottið" út og Borgarritari og staðgengill Dags B. Eggertssonar er ráðinn útvarpsstjóri og Dagur gefur honum sín bestu meðmæli (annar góður dagur í Valhöll, eða hvað).

Og ein stærsta sönnunin fyrir öllu þessu er auðvitað að afi verðandi útvarpsstjóra var umboðsmaður Morgunblaðsins á Akureyri um árabil á síðustu öld.

Fullyrt er að hann hafi verið kallaður Stebbi "Mogga". Ég man reyndar ekki eftir þessu viðurnefni (en get ekki fullyrt að svo hafi ekki verið) á Stefáni, þegar ég var að alast upp á Akureyri, en það loddi við annan einstakling (sem ég held að hafi gegnt starfinu á undan Stefáni).

En ég verð að segja að ég tek hattinn ofan fyrir Sjálfstæðisflokknum því að hann er augljóslega öflugri og betri í "plottunum" en ég hafði gert mér grein fyrir hve "langt tafl" hann er fær um.

En ef til vill er einfaldlega tími "álhattanna" að renna upp á Íslandi.

En ég hvet alla til að hlusta á viðtalið, það er alltaf gott að brosa í skammdeginu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband