Færsluflokkur: Fjölmiðlar
14.12.2007 | 04:01
Ný lína í spjallþáttum í sjónvarpi?
Núna þegar ég var að flakka um netið og horfa á Íslenskt sjónvarp þá tók ég í fyrsta sinn eftir að þættir frá INN voru komnir á netið, undir flipanum VefTV hjá www.visir.is
Ég get ekki sagt að ég hafi hrifist af þeim þáttum sem ég kíkti á. Engu líkara var en að ný stefna hafi verið mörkuð í spjallþáttunum, þ.e.a.s. sú að þáttastjórnendur tali ekki nema við samflokksmenn sína.
Hér má sjá varaformann VG tala við framkvæmdastýru þingflokks VG, hér má sjá þingmann Framsóknarflokksins tala við "Framsóknarmann til 40 ára", og hér má sjá fyrrum þingmann Samfylkingar tala við borgarstjóra Samfylkingarinnar.
Hér má svo sjá sama fyrrverandi þingmann Samfylkingar ræða við núverandi þingmann Samfylkingar og þingmann Sjálfstæðisflokksins um EES/ESB, hér ræðir hann við mann sem ætlaði að bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar en hætti við og hér ræðir hann við framkvæmdastjóra Landverndar en þingmaðurinn fyrrverandi er formaður "Græna netsins" sem eru umhverfisverndarsamtök innan Samfylkingarinnar.
Þetta gefur orðinu "drottningarviðtöl" því sem næst nýja merkingu, enda má á köflum varla á milli sjá hvorir eru meira fram um að boða "fagnaðarerindi", spyrjendurnir eða viðmælendurnir.
Það hefur verið nokkuð algengt að fjölmiðlafólk leiti eftir frama í stjórnmálum, og ekkert nema gott um það að segja, en einhvern veginn þykir mér það ekki jafn álitlegt þegar straumurinn liggur í hina áttina og stjórnmálamenn ætla að hassla sér völl í fjölmiðlum
En auðvitað er öllum frjálst að byggja upp sjónvarp eins og þeim best þykir, en ég er hálf hræddur um að þessi tök á stjórnmálaumæðu sé ekki líkleg til vinsælda, alla vegna get ég ekki sagt að ég hrífist af þeim.
20.11.2007 | 18:54
Hvað borgar STEF fyrir vinsælt lag?
Núna fer fram mikil umræða um höfundarrétt og stuld á honum. Að sjálfsögðu sýnist sitt hverjum og ólík sjónarmið koma fram.
Ég fékk í tölvupósti í morgun link á nokkuð skemmtilegan og upplýsandi bloggpistil hjá Dr. Gunna, en þar fer hann yfir hvað höfundar bera úr býtum fyrir að semja vinsæl lög. Þar segir m.a.:
"Ég hef stundum álpast til að semja lög sem hafa orðið vinsæl og fengið mikla spilun í útvarpinu. STEF gjöldin fyrir spilun í útvarpi eru borguð einu ári eftir á og einu ári eftir að "Prumpufólkið" hafði verið spilað í tætlur á öllum útvarpsstöðvum landsins var ég svo viss um að spikfeitur tékki væri að koma í póstinum frá STEFi að ég eyddi 20 þúsund kalli í hárkollu fyrir fram. Ég hefði betur sleppt því, því ég fékk bara 12.000 kall fyrir spilun á laginu og hef þar að auki aldrei þorað að láta sjá mig með kolluna á almannafæri. Jón Gnarr, sem samdi textann og átti því að fá 1/3, fékk 6 þúsund kall. Svona græðir maður nú mikið á vinsælu lagi, krakkar mínir!
Ég var ekki alveg sáttur við þetta og fór og vældi í STEF og talaði við Magga Kjartans, sem fannst þetta líka skrítið. Hann sagði mér að redda útprentun á spilun lagsins hjá útvarpsstöðvunum og leggja fram. Ég gerði það og nokkru síðar ákvað STEF að borga mér tuttugu þúsund kall í viðbót fyrir Prumpufólkið. Þá var ég orðinn svo pirraður á barningnum að ég nennti ekki að heimta svör um það hvernig sú tala hefði verið fundin út. "
Þetta er vissulega athygliverð tala og ég verð að viðurkenna að hún er miklu mun lægri en ég hafði ímyndað mér. Sömuleiðis er það athyglivert að upphæðin meira en tvöfaldaðist þegar Doktorinn kvartaði.
En þar sem það er nú almenningur sem borgar STEFgjöldin með einum eða öðrum hætti, t.d. með greiðslu afnotagjalds RUV, með því að ganga inn í verslun (þar sem verslunin lætur auðvitað stefgjöldin inn í vöruverðið), með því að láta klippa sig (því rakarinn er auðvitað sömuleiðis með stefgjald innifalið í verðinu), með því að kaupa bjór á barnum (því barinn er auðvitað sömuleiðis með stefgjald innifalið í verðinu), með því að kaupa tóma geisladiska (því þar er auðvitað stefjgjald á sömuleiðis, þó að engin finnist á þeim tónlistin), þá væri nú vel til fundið að fjölmiðlafólk gengi eftir þvi við STEF hvernig þessum sjóðum er ráðstafað og eftir hvaða reglum.
Líklegast væri það ekki óeðlilegta að gera þá kröfu í "opnu og gegnsæju" þjóðfélagi að STEF birti ársreikninga sína og upphæðir sem hver einstaklingur fær opinberlega, t.d. á netinu, því varla eru það minna mikilvægar upplýsingar en t.d. hvað hver Íslendingur greiðir í skatt, eða hvað?
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2007 | 01:26
Skógareldar
Það eru skelfilegar fréttir sem berast um skógarelda í Grikklandi. Þetta eru ótrúlegar hamfarir.
Það er sem oft áður að mynd segir meira en þúsund orð. Myndin sem sjá má hér á vef Globe and Mail, sýnir vel af hvaða stærðargráðu þessi skelfing er.
Fréttin sem ég rændi myndinni úr, er hér.
31.7.2007 | 05:41
Vesturfararnir II
Það er ekki hægt að neita því að það hefur farið nokkuð fyrir Íslenskum fyrirtækjum í Kanada á undanförnum misserum.
Bæði Landsbankinn og Glitnir eru með starfsemi hér (austurströndin og Winnipeg), Eimskip keypti fyrir nokkru Atlas Cold Storage og er nú að bæta við sig öðru kælifyrirtæki, Versacold.
Icelandair er stuttu búið að tilkynna um stóraukið flug til Kanada frá og með næsta vori, í það minnsta 5 til 7 flug á viku til Toronto og verið að athuga með fleiri staði.
Og eins og sjá má á meðfylgjandi frétt eru Íslendingar að taka þátt í þróun jarðvarmanýtingar hér (sem og í Kalíforníu).
Áður hafa Íslensk fyrirtæki starfað hér í fiski og plastframleiðslu og ekki má gleyma Rúmfatalagernum, sem hefur starfað hér (rekinn frá Íslandi) undir nafninu Jysk. Sjálfsagt eru einhverjir fleiri hér sem ég þekki ekki til.
En ég held að það sé sérstakt ánægjuefni að Íslendingar séu að fjárfesta í jarðvarmafyrirtækjum hér (sem og víðar í heiminum), enda ekki vanþörf á því að nýta þessa auðlind, þekking Íslendinga getur komið hér að góðum notum og það er ekki nokkur spurning að þörf fyrir "græna" orku er gríðarleg hér í Kanada sem annars staðar.
En það vakti nokkra athygli mína hve mismunandi þær eru, fréttin sem þessi færsla er tengd við (og er skrifuð 30. júli) og fréttatilkynningin sem Geopower sendir frá sér (og er birt á föstudaginn 27. júli.).
Í fréttatilkynningunni kemur fram að Geysir sé að kaupa 20. milljón hluti og Glitnir 5. milljón og síðan er reyndar talað um "warranta" til viðbótar.
Heildarverðmæti þessara 25. milljón hluta er 6,250,000 CAD (CAD .25 á hlut) sem er ca. 362,500,000 ef miðað er við að dollarinn sé 58 krónur. Hlutur Geysis af þeirri upphæði væri þá ca. 290. milljónir.
Í fréttinni er hins vegar talað um 40. milljón hluti og að verðmætið sé um 600 milljónir ISK.
Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort að búið sé að taka "warrantana" með í frétt mbl.is, eða hvort eitthvað hafi breyst yfir helgina og kaupin verið stækkuð.
Ef ég er eitthvað að misskilja þetta, væri ég að sjálfsögðu glaður ef einhver útskýrði þetta í athugasemdum.
Geysir Green kaupir 20% í kanadísku jarðhitafyrirtæki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2007 | 15:33
Tóm tjara?
Mér þykir þessi frétt nokkuð skondin. En þetta er ef til vill dæmi um að eitthvað er að breytast. Ég hef í einfeldni minni staðið í þeirri meiningu að orðið malbik væri dregið af þeirri staðreynd að þar væri á ferð blanda af MALarefnum og svo BIKi, öðru nafni tjöru.
En nútíminn þarfnast oft nýrra vinnubragða og "nýrra" efna.
Nú er vá fyrir dyrum þar sem "malbiksefni" er að verða uppurið.
Er það ekki tóm tjara?
Malbikunarefni að verða uppurið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.6.2007 | 00:56
Þar sem eyjan rís
Að sjálfsögðu leit ég á eyjuna. Líst ágætlega á hana við fyrstu sýn, þó að hún sé þó nokkuð öðruvísi en ég átti von á og vonaðist eftir.
Ég hélt að þetta yrði meiri "fréttavefur", minni "blogvefur", en það sem ég sá var ágætt. Margir ágætis bloggarar hafa fært sig yfir.
En Róm var ekki byggð á einum degi að sagt er og eyjur rísa ekki heldur á slíkum tíma. Það verður gaman að fylgjast með hvernig eyjan á eftir að þróast og auðvitað mun ég fyrst og fremst dæma hana eftir því hvort hún nær að festast í "rúntinum" mínum eða ekki.
Ef til vill má segja að vefurinn sé óskilgetið afkvæmi Moggablogsins, ég held að það hafi fyrst fært Íslendingum sanninn um hve blog getur verið öflugur fjölmiðill. Það er alla vegna mín tilfinning, en hitt getur þó líka verið að það sé einfaldlega ég sem hafi ekki gert mér grein fyrir því hve öflugur miðillinn er fyrr en nú. En ég hef á tilfinningunni að aðsóknartölur líkt og þær sem sést hafa á einstökum Moggabloggum hafi ekki sést á Íslandi áður, alla vegna ekki viku eftir viku.
En það er auðvitað við hæfi að óska "eyjamönnum" til hamingju með "landrisið".
Nýr fjölmiðill tekur til starfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 04:48
Líst vel á þetta
Ég verð að viðurkenna það á mig að vera hálfgerður fréttafíkill, þó að ég hafi lært að hafa hemil á þessarri fíkn eins og ýmsum öðrum, en þó reikna ég með að það væri erfiðara að skrúfa fyrir hana heldur en mér reyndist að gera slíkt við tóbakið.
En mér líst vel á nýjan vefmiðil á Íslandi, enda nýti ég mér vefmiðla ákaflega mikið og er reyndar ekki áskrifandi að neinum fjölmiðli nema þeim sem eru á "kaplinum" hjá mér. Ég reyni svo að auka dýptina með því að kaupa mér reglulega tímarit, en hef þau ekki í áskrift, heldur vel eftir því hvernig efni á forsíðu höfðar til mín. Þau sem helst verða fyrir valinu er The Economist, MacLeans og Canadian Business. Svo kaupi ég Globe and Mail nokkuð oft í lausasölu.
Það er margt sem mælir með vefmiðli, fréttirnar birtast strax, dreifikostnaður er lítill, öllum Íslendingum(og líka "'útlendingum" eins og mér) berast fréttirnar á sama tíma og svo mætti lengi telja.
En það ver vissulega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar farið er í samkeppni við mbl.is, visir.is og ruv.is, en ég hef þó sterka trú á því að rými sé fyrir fréttavef til viðbótar og þeir bloggarar sem hér eru nefndir, kunna báðir að trekkja að lesendur.
En nú er bara að bíða og vonandi sjá.
Nýr veffréttamiðill | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2007 | 08:19
Af ráðherraskipan - fréttaflutningi og hlýindum.
Stundum þegar "blogandinn" er ekki yfir mér, leggst ég í það að lesa blog annara, svona frekar en að gera eitthvað gagnlegt á heimilinu, alltaf gott að líta út fyrir að vera upptekin fyrir framan tölvuna.
Eitt af því sem fangaði athygli mína í dag, voru vangaveltur Björns Inga um hvort að Jón Sigurðsson væri fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar. Eftir öðrum leiðum hef ég líka frétt að aðrir velti þessu fyrir sér eftir að hann tók að sér stefnumótunarvinnu fyrir flokkinn.
Vissulega gæti Samfylkingin (ef svo vildi til að hún verði í ríkisstjórn og fái fjármálaráðuneyti í sinn hlut) valið verri mann til starfans heldur en Jón Sigurðsson. Það má líklega segja að það væri rökrétt skref á eftir þeirri fullyrðingu að Íslendingar treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar, að flestir ráðherrar flokksins kæmu utan hans.
Hitt er svo annað mál, að það er umdeilanlegt hversu mikil framför það væri að ráðherrar komi ekki úr hópi þingmanna. Margir kvarta sáran um að það sé ekki hægt að vita um hvernig ríkisstjórn þeir séu að kjósa, þar sem flokkarnir gefi sig ekki upp fyrirfram. Það bætir þá varla málið ef kjósendur hafa enga hugmynd úr hvaða hópi ráðherrar koma.
Því þó að aldrei sé vissa um hvaða þingmenn verða ráðherrar (það fer jú alltaf dulítið eftir því hvaða embætti viðkomandi flokkur fær) þá er nú nokkuð vitað hverjir helst koma til greina. Ráðherrar þurfa þá líka að fara út í kjördæmin og falast eftir endurkjöri, en eru ekki einfaldlega ákveðnir í bakherbergjum (þau eru varla reykfyllt lengur, nú þegar alls staðar er búið að banna reykingar).
Annað sem vakti athygli mína á síðu Björns Inga var þessi frásögn hans af fréttaflutningi RUV. Ef til vill ekki stórmál, en þó þess virði að vekja á þessu athygli. Sjálfum hefur mér gjarna þótt vinstri slagsíða á Útvarpinu og hef ekki skilið þann málflutning að stofnunin sé í "heljargreipum" Sjálfstæðismanna.
Skemmst er einnig að minnast umfjöllun um kosninguna í Hafnarfirði, en fáa hef ég heyrt sem telja að Útvarpið, né Íslenskir fjölmiðlar í heild hafi sýnt hlutleysinu mikla virðingu þar.
En það er vissulega erfitt að gera svo öllum líki.
Önnur vefsíða sem mér fannst verulega athygliverð er síða Ágústs Bjarnasonar, en þar fjallaði hann um kvikmyndir sem fjalla um yfirvofandi hlýnum jarðar og misjafnar skoðanir á því og þeim ástæðum sem fyrir því kunna að vera.
Fróðleg og skemmtileg síða, þar sem málefnin eru sett fram án allra öfga og upphrópana.
Ég hef ekki haft tíma til að horfa á myndirnar, en náði mér þó í torrent.
Svo var það reyndar síða sem ég sá í morgun og fjallaði um tölfræði í skoðanakönnunum, en ég gleymdi að taka niður slóðina eða nafn höfundar. Sem aftur leiddi til þess að mér kom í hug að það vantar alfarið (eða þá að mér hefur yfirsést hann) möguleikann á því að leita að atriðisorðum hér á Moggablogginu.
Væri ekki ráð að bæta þeim möguleika við?
Svona er bloggið orðið frétta og upplýsingaveita, auka þess að veita innsýn á sjónarhorn og skoðanir annara.
5.4.2007 | 03:27
Af álfum og Alcan
Það er ekki hægt að segja að atkvæðagreiðslan í Hafnarfirði um síðustu helgi hafi vakið mikla athygli hér í Kanada, en nóg samt til þess að stuttar fréttir eru ritaðar um málið, enda Alcan Kanadískt fyrirtæki, með höfuðstöðvar sínar í Montreal.
Einhvern veginn virðast fjölmiðlar hér ekki taka þessa atkvæðagreiðslu mjög alvarlega og fá álfar hér um bil jafn mikið pláss í frétt The Globe and Mail og ál.
En í frétt Globe and Mail má lesa eftirfarandi:
"Perhaps the company didn't campaign hard enough among the Hidden Folk.
The votes of 88 Icelanders who live in a tiny, apparently elf-inhabited municipality near the windswept country's capital, appear to have blocked a $1.2-billion (U.S.) smelter project planned by aluminum giant Alcan Inc.
In a referendum held over the weekend, people in the seaside town of Hafnarfjordur voted 50.3 per cent against allowing the government to move a highway and rezone land as part of a planned expansion of the company's ISAL smelter."
"The company will now have to go back to the drawing board and perhaps resubmit a new project plan to Hafnarfjordur if it still wants to boost capacity at the facility, which is Iceland's oldest smelter and has been in operation since 1969.
"It is indicative of the world as a whole, where large industrial projects are not easily accepted by local communities," said Victor Lazarovici, an analyst with BMO Nesbitt Burns Inc. in New York.
However, Hafnarfjordur, whose name simply means "harbour fjord," is no stranger to commerce. It has seen business conducted at its port since the 1300s.
According to local folklore, the town also has one of Iceland's largest settlements of elves, dwarves and other mystical beings. It is said that whole clans of Hidden Folk live in the rocks near the town's centre.
According to a local tourist website, stories abound of instances where new roads or housing developments were under construction and strange happenings took place.
There is no evidence that the Hidden Folk were opposed to the smelter expansion. Indeed, the Icelandic government's practice of giving foreign aluminum companies access to cheap hydroelectric and geothermal power to run their smelters has erupted into a national debate."
Fréttina má finna í heild hér.
Og hér er svo frétt The Toronto Star, en hún er frekar snubbótt.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 03:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2007 | 03:46
Aldrei sá ég Krónikuna
Krónikan er víst komin og farin án þess að ég hafi séð eintak, líklega verður aldrei neitt af því, því ekki telst það líklegt að ég leggi leið mína á bókasöfnin til að grafa upp eintak þegar ég kem næst til Íslands.
En fjölmiðlarekstur á Íslandi (sem víðast hvar annars staðar) er erfiður bisness. Það er enda mikið talað um erfiða stöðu fjölmiðla á Íslandi, sérstaklega reyndar þegar Ruv-frumvörp eru til meðferðar á Alþingi.
En undanfarin ár hafa ekki verið góð fyrir fjölmiðla ef ég hef skilið rétt, sífellt tap og óáran. Þó hefur fjölmiðlum fjölgað á undanförnum árum.
Það leiðir enn og aftur hugann að því hvort að "hagnaðurinn" af Íslenskum fjölmiðlum sé mældur annars staðar en í bókhaldinu?
DV kaupir Krónikuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |