Færsluflokkur: Fjölmiðlar
28.4.2008 | 20:12
Persónur og leikendur
Flestir hafa líklega heyrt af "eggjakasti Stöðvar 2" og eftirköst þess. Ég hlustaði í gærkveldi á vitöl við Láru Ómarsdóttur, fannst hún koma vel fyrir, útskýra vel sitt mál og hafa tekið rétta ákvörðun.
En nú í dag sá ég þessa frétt á Eyjunni, sem rekur uppruna sinn til Vefritsins.
Í greininni í Vefritinu segir orðrétt:
Hið meinta grín á sér hins vegar hliðstæða sögu sem var lítið grín, enda ekki tekin upp. Ekki ósvipuð atburðarás varð við ráðhús Reykjavíkur í janúar. Þegar boðuð mótmæli áttu að vera hafin var fátt að gerast fyrir utan ráðhúsið. Mótmælendur höfðu komið sér fyrir inni í húsinu enda vont veður og fólk stóð þar inni þögult og grafalvarlegt. Eitthvað þótti þetta óáhugavert sjónvarpsefni fyrir fréttastofuna sem hafði dröslað öllu sínu hafurtaski niður í bæ. Fréttamaðurinn skammaðist í þeim sem honum þótti bera ábyrgð á samkomunni og bað um að safnað yrði saman hópi fólks fyrir utan húsið sem væru með almennileg mótmæli fyrir myndavélarnar. Og það var gert.
Gjörningur fréttamannsins hafði ekki áhrif á eftirleikinn en gaf tóninn fyrir fréttir af mótmælunum.
Það er kannski ekki skrítið að fréttamenn freistist til svona leikstjórnartilburða, enda grútleiðinlegt að eyða hálfum vinnudegi í að segja ekki-fréttir. Íslenskir stríðsfréttaritarar hafa þar að auki ekki úr mörgu að moða. Auk þess, og það sem er áhugaverðast, verður skemmtanagildi frétta sífellt mikilvægara og samkeppni milli fréttastofa gerir það að verkum að fátt kemst í fréttir nema það sé í melódrama- eða sirkuslíki.
Persónulega finnst mér þetta ákaflega alvarleg fullyrðing. Ekki kemur fram hvor sjónvarpsfréttastofan á í hlut. En ásökunin er alvarleg.
Síðan má bæta við þeirri frásögn Péturs Gunnarssonar í sjónvarpi, að sjónvarpsfréttamaður hefði beðið Björn Bjarnason að endurtaka það þegar hann heilsaði upp á áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar hún hrapaði í sjóinn skammt frá Straumsvík. Björn á að hafa svarað að þetta væri ekkert leikhús.
Ég held að bæði RUV og Stöð 2 verði að framkvæma innanhússrannsókn hvað sviðsetningar varða. Er slíkt athæfi útbreitt? Er algengt að Íslendingum sé boðið upp á "sviðsettar" fréttir? Er siðferði Íslenskra fréttamanna stórlega ábótavant?
Ég tel að báðar fréttastofurnar þurfi að útskýra fyrir bæði áhorfendum og starfsfólki sínu hvaða reglur gilda við fréttaöflun. Ef starfsmenn hafa brotið þær ítrekað, eða gert sig líklega til þess, þarf að taka á því með viðeigandi hætti. Engin fréttastofa má við því að trúverðugleiki hennar sé settur í slíka hættu.
P.S. Best færi á því að greinarhöfundurinn á Vefritinu, Eva Bjarnadóttir, greindi frá því um hvaða fréttamann hún er að skrifa og frá hvaða fréttastofu, annars liggja etv. margir saklausir fréttamenn undir grun.
24.4.2008 | 21:13
Með egg á andlitinu
Þetta er ótrúlegt mál og mér þykir þessi yfirlýsing eiginlega smyrja egginu um "andlit" fréttastofunnar. Að fréttamanni þyki miður að það hvarfli að einhverjum að draga trúverðugleika hennar í efa.
Eins og það sé ekki nokkuð sjálfsagt mál, þegar svona nokkuð fer í loftið.
Persónulega finnst mér ekki nema ein leið til þess að fréttastofa Stöðvar 2 viðhaldi trúverðugleika sínum. Það er að viðkomandi fréttamaður segi upp störfum eða sé látin fara.
Svo notaður sé frasi sem vinsæll er hjá fréttamönnum, þá "yrði svona nokkuð næsta örugglega ekki látið viðgangast í nágrannalöndunum".
Ef viðkomandi fréttamaður lætur af störfum, verðum við svo að sjá hvort að henni verði falið eftir nokkra mánuði að setja á stofn fréttasjónvarpsstöð fyrir 365 miðla, svona rétt eins og síðasti fréttamaður sem sagði af sér af svipuðum ástæðum.
Yfirlýsing frá Láru Ómarsdóttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 25.4.2008 kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.4.2008 | 04:40
Af málfrelsi
Nú er mikið rætt um málfrelsi, eitthvað sem öllum þykir sjálfsagt (eða velflestum skulum við segja) en menn deilir nokkuð á um hvar mörkin liggja.
Ég velti því til dæmis í ljósi þess sem mikið hefur verið rætt um nýverið, þegar lokað var fyrir blogg, hér á blog.is, hvort að blog.is telji sig á einhvern hátt bera ábyrgð á því sem ég skrifa hér, það þó að ég geri það hér undir nafni og hafi gefið upp kennitölu mína ásamt fleiri upplýsingum þegar ég hóf að skrifa hér fyrir 2. árum.
Sjálfur lít ég ekki svo á, enda ef einhver kann að túlka það sem ég skrifa hér ósæmandi, þá hlyti sá hinn sami að eiga sökótt við mig, og þá væntanlega biðja yfirvöld eða dómstóla að skerast í málið, ef hann teldi mig sneiða að æru sinni, eða á annan hátt brjóta lög.
En hitt er líka ljóst af minni hálfu að ég er hér vegna velvildar blog.is, ég greiði þeim ekkert fyrir þau afnot sem ég hef hér að vefsvæði og vefumsjónarkerfi. Þeim ber engin skylda til að hafa mig hér, ekki frekar en forsvarsmenn svæðisins kæra sig um.
Þess vegna er það ekki brot á málfrelsi eins né neins að honum sé úthýst af blogsvæði. Ekki frekar en það er brot á málfrelsi að einstaklingur fái ekki að skrifa í dagblað, eða koma fram í fréttatíma sjónvarpsstöðvar. Allir eiga rétt á því að ritstýra sínum fjölmiðlum.
En jafn sjálfsagt og mér þykir að eigendur og umsjónarmenn ritstýri fjölmiðlum, þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að málfrelsi sé heilagur hlutur og raunar sé of langt gengið nú þegar til að banna skoðanir og að einstaklingar tjái þær.
Yfirleitt hitta þessar skoðanir engan fyrir nema þann sem tjáir þær. Gera frekar lítið úr honum en þeim eða því, sem hann er að tjá sig um.
Þeir sem tjá sig undir nafnleysi eru að nokkru önnur "kategoría". Þó er löng hefð fyrir nafnleysi í Íslenskum fjölmiðlum, en þar ábyrgist blaðið skrifin. En nafnleysingjarnir á blog.is, eru að ég held allir hér á kennitölu. Blog.is krefst kennitölu þegar blog er stofnað. Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að gefin sé upp röng kennitala.
Þannig eiga þeir sem misboðið er, þann möguleika að fara í meiðyrðamál, nú eða krefjast þess að þeir verði kallaðir fyrir vegna "hate speach" eða laga um guðlast. Þá hljóta yfirvöld að krefjast kennitölu hjá blog.is. Hana ætti síðan í flestum tilfellum að hægt að spyrða saman við ip tölu.
En ég tel þó að mörgum hætti til að taka aðra of alvarlega.
Ef ég segi til dæmis alhæfi að allir kjósendur Frjálslynda flokksins séu slorug fífl, þeir sem kosið hafi Samfylkinguna séu veruleikafirrtir vælukjóar, allir Framsóknarmenn haugsæknar dreifbýlistúttur, kjósendur Sjálfstæðislfokks fýlugjarnir peningapúkar, VG séu vitskertir græningjar og klikki svo út með því að halda því fram að menn þurfi að vera argandi vitleysingar til að halda með Val, þá vita að ég held allir að ég fer með rangt mál (sem ég viðurkenni fúslega).
Alhæfingar sem þessar eru ótrúlega algengar um hina ýmsu hópa.
En myndi einhver fara í stefna mér fyrir það sem stendur hér að ofan? Ég held ekki, ég vona ekki.
En hvað er merkilegra við það að vera í trúfélagi heldur en stjórnmálaflokki eða íþróttafélagi?
Yfirleitt gerir bann við skoðunum eða tjáningu, ekkert nema að upphefja orð og skoðanir þess sem bönnaðar eru. Getur jafnvel gert menn "fræga", stundum að endemum.
Persónulega held ég að mönnum hætti til að gera úlfalda úr mýflugu og upphefja þannig þann sem brúkar "stóru" orðin.
Heimurinn er ekki "PC", það er lífið ekki heldur.
Lífi mál og tjáningarfrelsið.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.4.2008 | 04:20
Við hvaða Jón Þór er verið að tala?
Ég hnaut um þessa frétt á vef RUV, núna rétt um miðnættið.
Evruvæðing atvinnulífs
Við værum í enn verri stöðu en við erum í dag - ef við myndum taka upp evru í viðskiptalífinu og hætta að nota krónuna. Þetta segir Jón Þór Sturluson, hagfræðingur við Háskólann í Reykjavík. Samtök atvinnulífisins hyggst skoða þann möguleika að atvinnulífið taki einhliða upp evru.
Jón Þór segir að það sé einn lakasti kosturinn í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Seðlabankinn yrði af tekjum vegna útgáfu myntar og hætt sé við því að þær krónur sem eru í umferð verði verðlausar. Alvarlegast er þó að viðskiptabankarnir myndu þá ekki lengur hafa aðgang að lausafé hjá Seðlabanka.
Flestir þeir sem hafi skoðað gjaldeyrismálin séu sammála um að tveir möguleikar séu í stöðunni - óbreytt ástand eða að ganga í myntbandalag Evrópu, segir Jón Þór.
Ekki það að ég hef ekkert út á fréttina að setja, og er nokkuð sammála henni, en mér þykir merkilegt að hér er talað við Jón Þór Sturluson hagfræðing Háskólans í Reykjavík.
Það er hins vegar ekki talað við Jón Þór Sturluson aðstoðarmann viðskiptaráðherra, né heldur Jón Þór Sturluson, höfund bókarinnar "Hvað með evruna".
Nei, nú virðist fréttastofa ríkisútvarpsins þurfa á áliti "hlutlauss" háskólamanns að halda og þá er haft samband við Jón Þór Sturluson, hagfræðing hjá Háskólunum í Reykjavík.
Ísland er sannarlega lítið land, og "alnafnarnir" víða.
31.3.2008 | 20:10
Blóð rauðir vellir
Rakst á þetta á vef NYT. Hér má sá "lokaorð" Dith Pran, en hann er Kambadíumaður en kvikmyndin "The Killing Fields" byggir á lífi hans og hremmingum undir stjórn Rauðu Khmerana.
Það vill svo til að ég er nýbúin að lesa ævisögu Pol Pot, "Pol Pot - Anatomy of a Nightmare" og myndina sá ég fyrir mörgum árum.
Þetta er saga sem (eins og svo margar aðrar) má ekki gleymast, en ég hvet alla til að gefa sér tíma til að hlusta á það sem Dith Pran hefur að segja.
Það tekur ekki nema örfáar mínútur.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2008 | 21:06
Ólyginn sagði mér
Það hefur mikið verið rætt um efnahagsmál undanfarið, bæði á Íslandi sem annarsstaðar. Það er vinsælast að segja að staðan sé "flókin og margræð" og er það nokkurn veginn það eina sem "sérfræðingar greiningadeilda" hafa getað sammælst um.
Sem betur fer fyrir þá, er þó hægt að segja að staðan á "flókin og margræð" á marga mismunandi vegu.
En eitthvað það alvarlegasta sem skotið hefur upp kollinum er sá grunur að "kjaftasögum" hafi vísvitandi verið "fleytt" til að hagnast á ástandinu og "kjafta" ákveðin hlutabréf niður. Þannig er talað um árás á Breska HBOS bankann, og jafnvel talað um slíkar "kjaftasögur" hvað varðar fall Stearn Bear, Bandaríska fjárfestingabankann. Sjá. t.d. hér.
Þetta er að sjálfsöðu háalvarlegt mál, þó að líklega sé erfitt að ná höndum yfir slíkt, þar sem eins og einn kunningi minn orðaði það, á markaðnum ráða þrú hráefni, græðgi, hræðsla og traust og svo bætti hann við, ef græðgi og traust ráða ferðinni, eða hræðsla og traust, þá siglir þetta áfram, en ef ekkert traust er til staðar....
En að vissu marki má segja að umfjöllunin um Íslenskt efnahagslíf taki á sig þessa mynd, það er að segja að þær fréttir sem við fáum eru það misjafnar að enginn veit hverju á að trúa, er Íslenskt efnahagslíf "eitraður vogunarsjóður", eða eru hlutirnir betri en flestir vilja vera láta?
En þetta leiðir líka hugann að því hver ábyrgði fjölmiðla er, og hversu alvarleg áhrif skrif þeirra geta hugsanlega haft. Það leiðir líka hugann að því hver tengsl ýmissa fjölmiðla eru við áhrifamikla fjárfesta (því það er ekkert sér Íslenskt fyrirbæri) og hvort og hvernig þeir láta vita af eignatengslum sínum, þegar skrifað er um eigendur þeirra, eða keppinauta.
Og auðvitað á þetta ekki eingöngu við um að tala niður hlutabréf, það er líka hægt að tala þau upp, og þessar aðferðir má einnig nota á öðrum sviðum þjóðlífsins, en í fjármálageiranum.
En ég velti því líka fyrir mér, fyrst að bankar geta farið yfirum, eða því sem næst vegna "kjaftasagna" og "orðróms", hvaða áhrif það hafi, þegar því sem næst helmingur ríkisstjórnar, þar á meðal viðskiptaráðherra, talar fjálglega um að gjaldmiðill landsins sem þau stjórna, sé ekki á vetur setjandi og þurfi að fara á haugana.
21.3.2008 | 20:29
Gott viðtal um umbrotatíma - Söngvabyltingin
Athygli mín var vakin á viðtalsþætti á Rás 1, þar sem rætt var við Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, um fall járntjaldsins. Viðtalið var sent út á Skírdagsmorgun og er aðgengilegt á netinu (sjá linkinn hér í fyrstu línu).
Viðtalið er afar fróðlegt, og þó að vissulega sé þetta ekki hinn eini stóri sannleikur, frekar en annað, þá er mikill fengur í því að heyra frásagnir Jóns Baldvins frá þessum umbrotatímum, en hann var í hringiðunni miðri.
Ég vil því hvetja alla til þess að hlusta á þetta viðtal (það væri nú ekki úr vegi fyrir utanríkisráðuneytið að leggja við hlustir, því öllu sjálfstæðari hefur utanríkisstefna Íslands líklega ekki verið í aðra tíð), en vil um leið vekja athygli á því að eitthvað vantar á endann á viðtalinu eins og það er á netinu (því miður er það ekki einsdæmi með útvarps og sjónvarpsefni á netinu) og er það virkileg til vansa (tek fram að ég veit ekki hvað mikið vantar).
Það er líklega rétt að taka fram að mér er málið skylt, enda börnin mín hálf Eistnesk, konan fædd þar og uppalin og tengdafjölskyldan býr þar enn.
Þegar ég heimsótti landið (2003) þá var þessi saga ennþá ljóslifandi á meðal því sem næst allra, og flestir mundu eftir Íslandi og þeim stuðningi sem þaðan hafði komið.
Hér fyrir neðan má svo sjá "trailer" fyrir heimildamyndina "The Singing Revolution", sem gerð var um baráttu Eistlendinga fyrir því að endurheimta sjálfstæði sitt.
17.3.2008 | 18:36
Annað sjónarhorn
Einn af kostum bloggsins er að ólík sjónarhorn fá að njóta sín. Stundum rekst ég á skemmtilega fróðleiksmola á blogginu, stundum um tónlist eða tækni og stundum um fréttir. Ég las t.d. skemmtilegt blog í dag, sem fjallar um nýafstaðnar kosningar í Frakklandi.
Hér kemur fram annað sjónarhorn en almennt má lesa í fjölmiðlum, sjónarhorn Íslendings sem býr í Frakklandi og skoðar þetta "neðan" frá ef svo má að orði komast, í staðinn fyrir "ofan frá" sem margir fjölmiðlar hafa.
En þetta er einmitt það skemmtilegasta við bloggið, ólík sjónarhorn sem koma hvaðanæva að.
19.2.2008 | 15:30
Hvaða rétt átt þú ef nágranninn hendir stöðugt rusli inn til þín?
Rakst á frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem fjallað er um fjölpóst og að skipuð hafi verið nefnd til þess að ákveða hvernig lagarammi skuli vera um dreifingu hans. Í nefndinni sitja svo að sjálfsögðu fulltrúar helstu "ruslveitnanna".
Svipað vandamál er til staðar hér í Kanada, þar sem póstdreifingarfyrirtæki virðast líta á íbúa landsins sem sína auðlind. Pósturinn er ekki til að þjónusta fólkið, heldur til að nýta það til tekjuöflunar.
Auðvitað á að vera hægt að neita fjölpósti.
Fyrir mér er málið ósköp einfalt. Póstur sem ekki er merktur mér eða öðrum þeim í húsinu búa, er ekki til okkar. Póstinum ber ekki skylda að afhenda mér póst sem er ekki til mín.
Ef einhver fyrirtæki vilja senda mér póst á hann að vera með nafni mínu og heimilsfangi, svo einfalt er það.
Pósturinn á ekki meiri rétt á því að henda blaðsneplum inn um bréfalúguna hjá mér, heldur en nágranninn á til að henda þangað gömlum tölublöðum af Morgunblaðinu sem hann er hættur að nota.
Það ber engum skylda eða á rétt til að henda rusli inn á heimili mitt.
Því ætti reglan að vera að sú að menn þyrftu að gefa sérstakt leyfi til þess að svokallaður "fjölpóstur" megi koma í lúguna eða póstkassann.
Hitt er svo annað mál, að ásættanlegt væri ef einfalt væri gert að afþakka hann.
Margir vilja svo eflaust fá hann, enda án efa ágætt að fá ókeypis dagblöð, tilkynningar um góð tilboð og hagstæðar pizzur og þar fram eftir götunum. Svo má auðvitað kynda með póstinum og spara sér þannig framlög í útrásarsjóði orkufyrirtækja.
En valdið á að vera hjá húsráðendum.
16.2.2008 | 03:08
Kaðlageymslan
Ég hef nú ekki fylgst með æsispennandi fangaflótta sem átti sér stað á Íslandi í dag. En ég heyrði fjallað um hann í sjónvarpsfréttum sem ég horfði á rétt í þessu á netinu.
Það er óneitanlega hentugt að kaðall skuli vera geymdur á sama gangi og fangarnir. Ég bíð spenntur eftir að heyra fréttamenn spyrja lögregluna hver hafi verið sagan á bak við það og til hvers kaðallinn hafi verið notaður - svona dags daglega?
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 03:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)