Þverklofinn, einangraður, harðlínuflokkur?

Það hefur verið nokkuð merkilegt að fylgjast með fjölmiðlaumræðunni þessa daga sem hafa liðið frá því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn.

Ef marka má fjölmiðlaumfjöllun er Sjálfstæðisflokkurinn þverklofinn, einangraður harðlínuflokkur. 

Það er reyndar nokkuð merkilegt að mun meira hefur farið fyrir Evrópusambandssinnuðum Sjálfstæðismönnum í fjölmiðlum, en þeim sem eru andsnúnir "Sambandsaðild".

Þó var það svo að ályktun þar sem "Sambandsaðild" var hafnað, var samþykkt með yfirburðum á landsfundi og í síðustu könnun sem ég hef séð, voru það rétt ríflega 7% af þeim sem sögðust kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem voru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu.

Samt er umfjöllun margra fjölmiðla eins og það sé lýðræðislegt hneyksli að ekki skuli tekið meira tillit til "Sambandssinna" innan Sjálfstæðisflokksins.

Þess má til gamans geta að í sömu könnun, voru rétt tæp 16% kjósenda Samfylkingar andsnúin "Sambandsaðild" og hlutfallið var um 32% hjá Bjartri framtíð.

Skyldu fjölmiðlar gera kröfu um að þeir flokkar komi á einhvern hátt til móts við þá kjósendur?

Sumir "virtir" fjölmiðlamenn eru með slíka rörsýn í þessu máli að þeir telja að nú sé Vg orðin frjálslyndari flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn, allt vegna þess að flokkurinn er hrifnari af "Sambandsaðild".  Það er merkileg skilgreining á frjálslyndi.

Könnunin sýndi ennfremur að u.þ.b. 2/3 hlutar kjósenda er andsnúin "Sambandsaðild", en u.þ.b. 1/4 er hlynntur aðild.

En sá flokkur sem hafnar aðild er talinn "einangraður".  Hvernig má það vera?  Er það svo slæmt hlutskipti að ríflegur meirihluti kjósenda sé sömu skoðunar og flokkurinn í þessu stóra máli?

Loks er það málið með "Evrópu(sambands)stofu".  Það þykir mörgum manninum það sýna hrikalega harðlínustefnu að óskað sé eftir því að henni sé lokað.

Egill Helgason sagði í Silfri Egils á sunnudaginn var, eitthvað í þá áttina að hann þekkti ekki mikið til hennar, en þetta væri eitthvað svona sem flest mætti finna á internetinu.  Er þá að vera á móti "Evrópu(sambands)stofu", svipað og að vilja loka internetinu?

Nei, auðvitað ekki og líklega þætti mörgum það skrýtið að "Sambandið" væri að eyða á Íslandi á 3ja hundrað milljónir, til þess að kynna eitthvað sem hægt er að finna á internetinu.

Hvað er það sem "Evrópu(sambands)stofu" er ætlað að gera á Íslandi, sem fjölmörgum samtökum "Sambandssinna" er ekki treystandi fyrir að gera? 

Aðrir vilja líkja "Evrópu(sambands)stofu" við Goethe stofnunin eða Menningarstofnum Bandaríkjanna.  Hafa þær farið með fundaherferðum um Ísland og hvatt Íslendinga til þess að ganga í sambandsríkið Þýskaland, eða að verða ríki í Bandaríkjum N-Ameríku?

Reyndar er það svo að menningaráætlun Evrópusambandsins rekur sína eigin skrifstofu í Reykjavík á Hverfisgötu og hefur sína eigin vefsíðu.

Sumir grípa til vísvitandi rangfærslna, eins og lesa má hér.  Þar er haft eftir Benedikt Jóhannessyni:

"En að Sjálfstæðisflokkurinn, sem verið hefur stærsti flokkurinn, sé að samþykkja þetta um sendiráð vinaþjóða finnst mér flokknum til mikillar skammar," segir Benedikt.

Var eitthvað ályktað um sendiráð, eða lokun þeirra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins?  Ef svo er hefur það farið alveg fram hjá mér.  "Evrópu(sambands)stofa" er ekki það sama og sendiráð Evrópusambandsins.

Það er auðvitað engin harðlínustefna að vilja að loka skrifstofu sem er rekin af erlendum aðilum i þeim eina tilgangi að reka áróður fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.  En það hittir "Sambandssinna" beint í "hjartastað".  Fylgi við inngöngu Ísland er rétt um 25% og virðist ekki fara vaxandi.

Eini vettvangurinn þar sem þeir njóta yfirburða er í áróðrinum.  Hann vilja þeir ekki gefa eftir.

Nú er rétt að það komi fram að ég hef í sjálfu sér enga hugmynd um hvað fram fór á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þetta árið, en mér þykir ljóst að flokkurinn hefur tapað þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun frá honum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband