Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hafa Íslendingar verið að sniðganga erlendar vörur?

Fáar þjóðir eru jafn háðar millilandaviðskiptum og Íslendingar.  Þjóð sem framleiðir langt umfram eigin þörf af fiski og rafmagni.

Það er ekki síst vegna þess sem sú kreppa sem fylgir viðbrögðum þjóða heims við Kórónuveirunni eiga eftir að verða Íslendingum erfið.

En þessi viðbrögð eru ef svo má að orði komast alþjóðleg.  Það er að verða "þjóðleg".

Allar þjóðir heims eru meira og minna að hvetja eigin þegna til að neyta meira af innlendum afurðum.

Íslendingar ekki undanskildir.

Við höfum heyrt að Frakkar hvetja sitt fólk til borða meiri ost, Belgar og Kanadamenn hvetja sitt fólk til að borða meira af frönskum kartöflum.

Ítalir vilja að sitt fólk drekki meira af "local" vínum.  Og svo framvegis.

Sjálfur vildi ég glaður leggja mitt af mörkum, hugsa að ég gæti drukkið meira af Ítölskum vínum og notið með þeim franskra osta.  Ég get alveg hugsað mér að snæða meira "belgískum" kartöflum, sérstaklega ef að steik væri með.

Þegar ástandið er erfitt þjappa þjóðir og hópar sér saman. 

Það eru eðlileg viðbrögð þó að þau geti verið varasöm ef of langt er gengið.

En það er líklegt að víða um heim muni fyrirtæki endurskoða það nú er kallað "aðfangakeðjur" sínar.  (þarf bara að bæta "dags" inní og það hljómar eins og jólaskraut).

Hugsanlega til styttingar og jafnvel auka fjölbreytni, þannig að síður sé hætta á skorti.

En þegar hvatt er til þess að keypt sé Íslenskt er gott að leiða hugann að því að sambærilegar hvatningar heyrast í öllum löndum.

Eins og alltaf er best að miða kaup útfrá samspili verðs og gæða. 

 

 

 

 


mbl.is Frakkar sagðir sniðganga íslenskar sjávarafurðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð viðtöl á Sprengisandi

Sprengisandur á Bylgjunni er að mínu mati langbesti þjóð- og stjórnmálaþátturinn á Íslandi í dag.

Ég vil ennfremur hrósa stjórnenda/tæknimönnum fyrir hvað klippur úr þáttunum eru fljótar að koma á netið.  Þar er vel að verki staðið.

Þegar ég hlustaði á þáttinn frá í gær nú í morgunsárið fannst mér hann góður, sérstaklega viðtölin við Eirík Ragnarsson í endann og Árna Odd Þórðarson í upphafi þáttar.

En þátturinn í heild sinni er vel þess virði að hlusta.

 

 


Er launa og réttindaskerðing ósanngjörn?

Ég ætla byrja á því að taka fram að ég hef ekki hugmynd um hver eðlis réttindaskerðingar þær sem Icelandair er að fara fram á eru.

Ég hef heldur ekki hugmynd um hversu miklar kauplækkanir félagið er að fara fram á.

En eru þær ósanngjarnar?

Ég veit það ekki.

En ég veit að flugfélög um allan heim eru að berjarst fyrir lífi sínu.  Ég hef lesið fréttir um að t.d. flugmenn Lufthansa hafa boðist til þess að lækka launin sín um 45%, en aðeins í 2. ár.

Það er engin leið að Icelandair geti keppt við önnur flugfélög í flugi yfir Atlantshafið ef launakostnaður er mun hærri en annara flugfélaga.

Sjálfur hef ég ekki keypt miða með Icelandair yfir Atlantshafið undanfarin ár vegna þess að félagið hefur alltaf verið verulega dýrara en önnur flugfélög.

En enginn kjarasamningur gildir að eilífu.

En það er vert að hugsa um hvort að óbilgirni starfsmanna helgist að hluta til af þeim yfirlýsingum stjórnvalda að þau komi til með að grípa inn í ferlið og tryggja að Icelandair fljúgi, með einum eða öðrum hætti?

Hvernig munu kjaraviðræður þróast á komandi árum ef um ríkisflugfélag er að ræða?

Ímyndar sér einhver að kröfurnar yrðu minni á hendur ríkisrekstri?

 

 

 

 

 


mbl.is Icelandair krefst launa- og réttindaskerðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er Íslenska ríkið að innheimta félagsgjöld fyrir marxista?

Stundum setur mig eiginlga alveg hljóðan þegar ég les fréttir.  Þegar lesa má um úrelt lög, sem ekki er þó samstaða um að afnema og hvernig þau auka ár frá ári á vitleysuna.

Að mínu mati er það algerlega úrelt að ríkið innheimti "sóknargjöld" af öllum skattgreiðendum á Íslandi, óháð því hvort að viðkomandi tilheyri sókn eður ei.  Síðan er þessum peningum dreift til alls kyns trú- og/eða lífsskoðunafyrirbæra, eftir því hvað margir hafa skráð sig í viðkomandi félög hjá Þjóðskrá.

Þeir sem ekki tilheyra neinum borga samt.  Hvar er réttlætið í því?

Síðan spretta upp alls kyns samtök og hver hefur ekki skoðun á lífinu? 

Frægasta dæmið er líklega Zuistarnir, sem urðu býsna fjölmennir en nú hefur Íslenska ríkið tekið að sér að rukka inn félagsgjöld fyrir þá sem hafa marxisma sem lífsskoðun.

En ekki nóg með að Íslenska ríkið innheimti fyrir marxistana félagsgjöldin, heldur vilja þeir nú fá ókeypis lóð frá Reykjavíkurborg til að reisa "marxíska kirkju".

Eða ættum við frekar að nota orð eins og hof eða tilbeiðslustað?

Þetta máttti lesa í frétt á Vísi.is. Ég skora á alla að lesa fréttina.

Þar segir m.a.:

"Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið rannsakaði ekki kvörtun marxíska lífsskoðunarfélagsins Díamat vegna synjunar Reykjavíkurborgar á lóðaúthlutun með fullnægjandi hætti, að mati umboðsmanns Alþingis. Hann beinir því til ráðuneytisins að taka kvörtunina aftur til meðferðar.

Forsaga málsins er sú að Díamat, félag um díalektíska efnishyggju, krafðist þess að Reykjavíkurborg úthlutaði félaginu lóð án endurgjalds í maí árið 2017. Það gerði félagið á grundvalli ákvæðis laga um Kristnisjóð um að sveitarfélögum beri að leggja til ókeypis lóðir undir „kirkjur“ og undanskilja þær gatnagerðargaldi."

...

"Díamat hlaut skráningu sem lífsskoðunarfélag árið 2016 og byggir á grunnheimspeki marxismans. Félagið fékk 965.700 krónur í sóknargjöld úr ríkissjóði fyrir síðasta ár en sú fjárhæð miðaðist við að 87 manns voru skráðir í það 1. desember árið 2018. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru nú 139 manns skráðir í Díamat.

Í ársskýrslu sem Díamat skilaði til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, sem hefur eftirlits með starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga, fyrir árið 2017 kom meðal annars fram að félagið hefði sent Reykjavíkurborg erindi þar sem óskað hefði verið eftir að fá úthlutað lóð undir „díalektískan skála“."

Þessi lög hafa þegar haft í för með sér að stjórnkerfið, hjá Reykajavíkurborg, í Sveitarstjórnarráðuneytinu og hjá Umboðsmanni Alþingis, er önnum kafið við að afgreiða og fjalla um umsóknir og kærur.

Allt vegna þess að lög og reglugerðir sem upphaflega var líklega fyrst og fremst hugsuð til að hygla einu trúfélagi, er löngu orðin úrelt og þyrfti að afnema hið fyrsta.

Auðvitað á Ríkissjóður ekki að standa í innheimtu "sóknargjalda", eða að greiða þau fyrir þá sem greiða ekki skatta.

Það fer best á því að hvert félag fyrir sig innheimti sín félagsgjöld.

Til vara má hugsa sér að skattgreiðendum verði boðið að haka í hólf á skattskýrslu, þar sem þeir óska eftir að dregið verði af sér gjald til trú- eða lífsskoðunarfélags. 

Ella verði það ekki gert.

Í sjálfu sér er ekki hægt að áfellast marxista fyrir að vilja notfæra sér lögin á sama hátt og aðrir gera. 

Það gerir ekkert annað en að afhjúpa hvað lögin eru skringileg.  Þar sem jafnvel þeir sem ekki tilheyra neinum söfnuði, þurfa samt að borga.

 


Eystrasaltsríkin opna sín á milli þann 15. maí

Tilkynnt hefur verið að íbúar Eystrasaltsríkjanna geti ferðast óhindrað á milli ríkjanna þriggja frá og með 15. maí næstkomandi.

Enginn krafa verður um sóttkví en allir eru hvattir til að fara varlega, fara eftir reglum, halda fjarlægð og vera með grímu ef svo ber undir.

Forystumenn ríkjanna tala um að næstu skref gætu orðið að bjóða Finnlandi og Póllandi að að taka þátt í "ferðafrelsissvæðinu".

Öll löndin 5. hafa komið þokkalega undan Kórónuveirunni hingað til.

Eistland mun einnig slaka á takmörkunum á ferðum til Finnlands þann 14. maí, en takmarkanir verða enn þá í gild.

Boðið verður upp á skimanir um borð í ferjum á á milli Tallinn og Helsinki.

Það er ekki ólíklegt að við sjáum fleiri sambærilega tilkynningar á næstunni.  Öll ríki eru að leita leiða til að koma efnahagslífinu í gang auka viðskipti og ferðalög.

Samgöngur á milli svæða þar sem veiran hefur verið hamin, eru álitin hæfileg fyrstu skref.

 

 

 

 


Allir hafa rödd í holræsunum

Ég hef oft heyrt talað um að finni megi sannanir um útbreiðslu fíkniefnaneyslu í holræsum.  En nú rakst ég á myndband frá Bloomberg, þar sem rætt er við frumkvöðla sem eru að reyna að finna út hve útbreidd Kórónuveiran er í borgum út frá sýnishornum í holræsum og hreinsunarstöðvum.

Þeirra fyrstu niðurstöður eru sláandi, en ég ætla ekkert að segja um hvað tæknin er góð.

En ég hló dátt þegar annar frumkvöðullinn lýsti því yfir í myndbandinu að allir hafi rödd í holræsunum.

En þetta er vissulega athygisvert starf sem þarna er unnið.

 

 

 


Sóttvarnir á hröðu undanhaldi?

Það hefur margt breyst á fáum dögum.  Hvort sem það eru pólítískar ákvarðanir eða vísindalegar  er ljóst að áherslan á strangar sóttvarnir er á undanhaldi.

Áður var tilkynnt að 2 til 3 vikur yrðu á milli tilslakana, nú er það vika. 

Veiran deyr í klórblönduðum sundlaugum, sem leiðir hugann að því hvort að það hafi verið nauðsynlegt að loka sundlaugum, þó að fjöldatakmarkanir og sjálfsögð varúð hefði verið nauðsynleg.

Það virðist hættulegra að spila fótbolta á Íslandi en í Danmörku og Þýskalandi.

Tónlistarfólk og skemmtikraftar (býsna sterkir áhrifavaldar) kvarta hástöfum og hafa góðan aðgang að fjölmiðlum. 

Líkamsræktendur (sem er risa stór hópur) ber harm sinn ekki hljóði.

Og á örfáum dögum breytast hlutrinir og "2ja metra reglan" er orðin "valkvæð", en þó ekki alveg, hugsanlega réttur einstaklinga, en samt skorar hugtakið all vel í útvíkkun.

En hún gildir ekki í strætó, og enginn hefur fyrir því að telja inn í vagnana.

En ég held að þetta sé skynsamleg nálgun, það þurfti að auka hraðann á tilslökunum.

Með vaxandi hluta almennings óánægðan, er hætta á hlutirnar virki ekki. Samstaðan brotnar. Því enn er nauðsynlegt að sýna varúð, og sá árangur sem hefur náðst í að auka hreinlæti o.s.frv. má ekki glatast.

Svo þarf að hugsa um efnahaginn.  Það þarf að hugsa um almenna lýð- og geðheilsu.

Brain And Mind Centre, við háskólann í Sidney Ástralíu birti nýverið "spálíkan", sem gerði ráð fyrir að sjálfsvígum í Ástralíu myndi fjölga um 25 til 50%, árlega, næstu 5. árin vegna efnahagslegra afleiðinga Kórónuvírussins.

Ef slíkar spár ganga eftir, er það mun fleiri dauðsföll en af völdum veirunnar sjálfrar, eins og staðan er í Ástralíu í dag.

Það er að mörgu að hyggja.

 


mbl.is Hagkerfið gæti dregist saman um 9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlíðfðarfatnaðinn "heim"?

Það hefur verið ótrúlega mikið af fréttum um að hlífðarbúnaður ætlaður heilbrigðisstarfsfólki uppfylli ekki gæðakröfur.

Slíkar fréttir hafa borist frá Finnlandi, Hollandi, Spáni og ýmsum fleiri löndum.

Oftast hefur verið um að ræða búnað frá Kína.

Nú bætist við frétt frá Bretlandi um að 400.000 hlífðargallar frá Tyrklandi uppfylli ekki nauðsynlega gæðastaðla.

Slík vandræði bætast við hinn mikla skort sem hefur á tíðum ríkt.

Ég held að eitt hið fyrsta sem verður farið að hyggja að eftir að hlutirnar fara að róast, sé að flytja framleiðslu hlífðarbúnaðar "heim".

Það má reyndar þegar sjá merki um slíkt.

Líklega er Ísland of lítill markaður til að slíkt virkilega borgi sig.  En það gæti verið vel þess virði að athuga grundvöllinn fyrir slíkri framleiðslu í samstarfi við Norðurlöndin, jafnvel að útvíkka samstarfið til Eystrasaltslandanna.

Þannig er auðveldara að tryggja gæði og framboð.

 

 


Það er alltaf rétti tíminn til að ræða málin

Ég get ekki tekið undir með Birgi Ármannssyni að að ekki eigi að ræða þessi mál eða hin. Það er hins vegar rétt hjá honum að það er umdeilanlegt hvort að það sé hjálplegt.

Vissulega gefst best við erfiðar aðstæður að einbeita sér að aðalatriðunum.  En það kunna líka að vera skiptar skoðanir um hver aðalatriðin eru.

Ég er sammála því að að á sínum tíma var ekki ástæða til að keyra í gegn um Alþingi aðildarumsókn að Evrópusambandinu.  Mér hefur sýnst að æ fleiri séu þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði t.d. verið æskilegri.

En það breytir því ekki að fjöldi þingmanna (og Íslendinga) taldi þetta vera eitt af aðalatriðunum til að lyfta efnahag Íslendinga.

Einstaka þingmenn sögðu það eitt að sækja um væri töfralausn.

Sjálfsagt eru líka til þingmenn (og Íslendingar) sem telja það nú, ef ekki töfralausn, í það minnsta bestu lausnina á efnahagsvanda Íslendinga undir núverandi kringumstæðum. Eða mikilvægan part af lausninni.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, en það breytir ekki því að slíkar hugmyndir eru til staðar og því þörf á að ræða þær.

Það er líklegt að einhverjir flokkar fari enn á ný með það sem eitt sitt helsta stefnumál í næstu kosningum, að hafnar verði aðlögunarviðræður við Evrópusambandið.

Það er eins með stjórnarskrárbreytingar.  Án efa eru verulega skiptar skoðanir um hve mikið liggur á, eða hve þörf er á miklum breytingum.

Fáa hef ég heyrt kvarta undan því að Alþingi hafi verið of önnum kafið upp á síðkastið.

En það er býsna algeng skoðun að best að sé að umbylta í kreppum.  Sérstaklega hjá þeim sem vilja færa aukið vald til stjórnvalda, auka miðstýringuna.

Athygli almennings er þá gjarna á öðrum hlutum.

En það er rétt að mínu mati að mál tengd Kórónufaraldrinum og efnahagsaðgerðum tengt honum hafi algeran forgang í störfum Alþingis.

En að því slepptu ættu öll mál að "vera á dagskrá". 

 

 


mbl.is Einbeitum okkur að aðalatriðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegar fríverslunarviðræður

Það er góðs viti að Bandaríkin og Bretland gefi sér tíma í miðjum Kórónufaraldrinum til þess að hefja fríverslunarviðræður.

Líklega eru þetta fyrstu fríverslunarviðræður sem hefjast í gegnum fjarfundabúnað.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessum viðræðum kemur til með að miða áfram.

Það verður margt sem verður erfit að ná samkomulagi um, en hins vegar þurfa bæði ríkin meira á aukinni fríverslun að halda, meira en nokkru sinni fyrr.

Öflugur fríverslunarsamningur gæti hjálpað þeim að komast fyrr út úr "Kórónuskaflinum", þó að hann einn og sér dugi ekki til.

En það að fríverslunarviðræður hefjist, þýðir ekki að þeim ljúki með samningi.

Það hefur sést áður.

Eins og svo oft áður má reikna með að landbúnaðarafurðir verði hvað erfiðastar, enda vekja þær gjarna mesta athygli.

En báðar þjóðirnar þurfa góðar fréttir á viðskiptasviðinu, þó líklega Bretar enn frekar.

En það er ástæða til að fagna upphafinu, þó að sjálfsögðu verði að hafa í huga að ekkert er víst um endinn.

 


mbl.is 200 manns á fjarfundi um fríverslunarsamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband