Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Bóluefnablús og berin súru

Fátt er líklegra meira rætt um heimbyggðina en bóluefni.  Aðallega skortur á því.

Á Íslandi, eins og víðar um veröldina, ber mikið á upplýsingaóreiðu. Stjórnvöld virðast þó, öfugt við stundum áður, lítið berjast gegn henni, enda uppruni óreiðunar jafn oft (eða oftar) en ekki hjá þeim sömu stjórnvöldum.

Það er vissulega vandlifað í nútíma fjölmiðlaheimi, þar sem ummæli gleymast ekki.

En hvenæar "stór partur" Íslensku þjóðarinnar verður bólusettur er langt frá því að vera ljóst.

Gæti dregist til loka ársins, en vonandi eitthvað fyrr.

Ég hugsa að þeim sem hafa lesið þetta blog, þó ekki nema stöku sinnum, sé það ljóst að almennt er ég ekki yfir mig hrifinn af Evrópusambandinu.

Þó sé ég ekkert óeðlilegt að Ísland hafi gert samkomulag við "Sambandið" um samflot um mat og kaup á bóluefnum, svo lengi sem það hefur verið á "jafnréttisgrundvelli".

Líklega hefur Ísland ekki bolmagn til þess að standa í slíku alfarið á eigin spýtur og ef til vill hefur fengist eitthvað betra verð, við magninnkaup.

Það ber þó að hafa í huga að slíkt skiptir í raun ekki meginmáli, kostnaður hins opinbera í núverandi ástandi er slíkur að þó að hefði verið keypt fyrirfram af hverjum framleiðanda fyrir t.d. milljarð, hefði það veðmál líklega borgað síg.

En hitt er hins vegar hálfu alvarlegra, ef satt er, að Heilbrigðisráðuneytið hafi afþakkað aðstoð einstaklinga sem töldu sig hugsnlega haft áhrif til góðs varðandi bóluefnakaup, eftir að ljóst var hverjir stóðu fremstir í kapphlaupinu.

Slíkt er illskiljanleg afstaða ráðuneytis og ég get ekki varist þeirri hugsun að ef slíkt sé reyndin, kalli það á uppstokkun í ráðuneytinu.

Það er einnig vert að hafa í huga, að "altalað" er víða um "Sambandið" að innkaupaákvarðanir á bóluefnum hafi m.a. verið teknar með hliðsjón af því að jafnt þyrfti að kaupa á Frönsku fyrirtæki og Þýsku.

Síðan kemur í ljós að Franska fyrirtækið getur líklega ekki afhent bóluefni fyrr en 2022. 

Slíkur ferill í segir margt um Evrópusambandið og er vert að minnast.

En annari þjóð hefur gengið mun betur að verða sér út um bóluefni og stefnir að því að hafa lokið við bólusetningu allrar þjóðarinnar í lok msrs.

Vissulega stærri þjóð en Ísland, en hefur ekki verið mér vitanlega í samfloti með öðrum.

Ég er að sjálfsögðu að tala um Ísrael, en þar virðist vera unnið hratt og skipulega, enda hjá þeim eins og öðrum þjóðum mikið undir.

Mér þótti það eftirtektarvert, þegar ég las frétt um sama efni á Vísi, hvað það var áberandi margir sem kusu að hreyta ónotum í Ísrael, fyrir það eitt að hafa staðið sig vel.

Þau eru oft talin súr, berin sem ekki næst í.

 

 

 

 

 


mbl.is „Lítur út fyrir að þetta ætli ekki að ganga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar atvinnugreinar losna úr helgreipum einokunar og hins opinbera

Það er líklegt að margir muni ekki hvernig var umhorfs á Íslenskum áfengismarkaði hvað varðar innlenda framleiðslu, fyrir t.d. 35. árum síðan.

Framleiðslan helgaðist af Brennivíni, Hvannarótarbrennivíni, Kláravíni og nokkrum tegundum til víðbótar sem ÁTVR þóknaðist að framleiða.  Eitthvað var rembst við að flytja út og meira að segja hannaðr miðar á flöskurnar sem voru mun meira aðlaðandi en þeir sem brúkaðir voru á heimamarkaði.

Heima fyrir þótti það goðgá að hafa eitthvað heillandi við framleiðsluna.

Síðan fluttust málin hægt og sígandi í annan farveg.  Mig minnir að "Icy" hafi verið framleiddur í Borgarnesi um miðjan 9unda áratug síðustu aldar.  Framleiðsla ÁTVR var svo seld snemma á þeim 10unda að ég tel.

Stóra stökkið var svo þegar bjórinn var loks leyfður 1. mars 1989.  Þá fóru framleiðendur eins og Ölgerðin og Viking brugg á fulla ferð.

En vegna sölufyrirkomulags var engin leið að smærri framleiðendur hæfu starfsemi.

Þetta hefur sem betur fer breyst.

Nú er svo komið að brugghús á Íslandi teljast í tugum og veita erlendum aðilum harða samkeppni.  Brugghús á landsbyggðinni hafa ekki síst vakið athygli og náð vinsældum.

"Brennd" vín eru sömuleiðis framleidd hjá fjölda fyrirtækja og framleiðsla á vínanda úr mysu er hafin.

Framþróun hefur verið gríðarleg.

Viðtökur innanlandsmarkaðar hafa verið góðar og nú má kaupa Íslenskan bjór og einnig sterk vín í ótal löndum og þau hafa unnið til fjölda verðlauna.

Eftir hæga byrjun hefur þessi iðnaður sprungið út á undanförnum áratug.

En fyrst þurfti hann auðvitað að losna úr helgreipum einokunar og "drakónískra" laga hins opinbera.

Sem betur hafðist það í gegn.

Nú þegar Steingrímur Sigfússon er að hverfa af Alþingi, hverfur líklega síðasti þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að leyfa sterkan bjór á Íslandi. 

En hann átti býsna mörg skoðanasystkyn og framan af voru þau í meirihluta.

Líklega má finna fleiri atvinnugreinar, þar sem ekki veitir af frelsisvindum.

 


mbl.is Nýr ævintýralegur bjór frá Ölverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er líklega kominn í hóp "gargandi minnihluta"

Ég hef nú ekki haft sterkar skoðanir á stofnun "hálendisþjóðgarðs".  Það hefur nú aðallega komið til vegna þess að ég hafði lítið heyrt af þeim áformum og vissi lítið um málið.

En eftir að hafa rekist á meiri umfjöllun eftir því sem áformin hafa orðið skýrari, hygg ég að ég sé kominn í hóp "gargandi minnihlutans" sem er andsnúinn því að þjóðgarðurinn verði til, alla vega með óbreyttum áformum.

Mér sýnist rök þau sem færð eru fram um fyrirhugaða "miðstýringu og ríkisvæðingu" vera sannfærandi og þörf á því að staldra við.

Ég hlustaði á ágætt viðtal við Ágústu Ágústsdóttur í Bítinu og svo akrifaði Smári McCarthy atyglisverða grein sem birtist á Vísi.is.

En það verður fróðlegt að sjá hver framvinda málsins verður.

Það vekur hjá mér umhugsun hvernig umræða um þennan "miðhálendisþjóðgarð" skarast hugsanlega við umræðum um flugvöllinn í Reykjavík.

Ýmsum sem þykir fráleitt að skipulagsvaldið sé ekki í höndum Reykjavíkurborgar finnst ekkert sjálfsagðara en að ríkið taki yfir skipulagsvald sveitarfélaga út á landi, neyði einkaaðila til að selja eigur sínar eða segi til um nýtingu þeirra í nafni þjóðgarðs.

Svo eru sýnist mér þeir einnig vera til sem vilja taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg en eru alfarið á móti því að það sé tekið af sveitarfélögum fyrir þjóðgarð.

Skyldi "ábyrgð" Reykjavíkurborgar gagnvart flugsamgöngum við landsbyggðina vera meira eða minna "hagsmunamál", en hvort að þjóðgarður er til staðar á miðhálendinu, eða hvort hann er dulítið minni eða stærri?

 

 

 


mbl.is Ekki ákveðið hver verður framsögumaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggja hefur ekki fundist á Alþingi um langt árabil

Þegar "riddarar vinstrisins" rilja berja á andstæðingum sínum tala þeir gjarna um "frjálshyggjuna" eða það sem á að hljóma enn  hræðilegra "nýfrjálshyggjuna".

Þetta eru reyndar eins og svo margt annað í heimi stjórnmálanna ákaflega illa skilgreind hugtök, en ég hygg þó að þeim "riddurum" hafi almennt tekist að láta festa við þau neikvæða ímynd.

Skilgreining á "einkavæðingu" og "einkarekstri" t.d. þegar kemur að heilbrigðisþjónustu virðist oft "skarast" og margir eru alls ekki vissir um hvað er hvort og hvort er hvað, þannig að öruggast sé að vera á móti "þessu öllu".

Þó eru vissulega mikill einkarekstur í Íslensku heilbrigðiskerfi.  Ég þori þó ekkert að fullyrða um hvort að hlutfall hans hafi minnkað eða aukist, ég hef engar tölur um slíkt.

En öldrunarþjónusta hefur að stórum hluta verið í einkarekstri, sama gidlir, að ég tel, um augnlækningaþjónustu, tannlækningar, lýtalækningar og t.d. áfengismeðferðir.

Sjálfsagt er ég að gleyma einhverju, enda ég á engan hátt sérfræðingur hvað varðar Íslenskt heilbrigðiskerfi.

Á þessu sviðum er svo greiðsluþátttaka ríkisins mismunandi og ekkert óeðlilegt við það, þó að um slíkt megi alltaf deila.

En ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað mikill einkarekstur er í heilbrigðiskerfi margar landa (líklega hærra hlutfall víða en á Íslandi) og hverju sá rekstur getur skilað.

Hvað skyldu margir Íslendingar t.d. fá liðskiptiaðgerðir hjá erlendum einkaaðilum, sem þó er að fullu greitt (mun hærra verði en hægt væri að fá sambærilegar aðgerðir hjá Íslenskum einkaaðilum) af hinu Íslenska tryggingakerfinu?

Þannig er hægt að rökræða um þessi málefni fram og tilbaka.

Líklega væri lang best í mörgum (en ekki öllum tilfellum) að ákveða (með eins nákvæmum útreikningum og hægt er) hvað tiltekin aðgerð kostar.

Það er ríkisframlagið við "slíka aðgerð".  Sjúklingurinn ákveður síðan hvar hann vill að aðgerðin sé framkvæmd.

Þar sem ég bý er t.d. "eins greiðanda" heilbrigðiskerfi að lang mesu leyti (það eru alltaf einhver atriði sem greiðsluþátttaka hins opinbera nær ekki yfir).  Ég hef blessunarlega ekki þurft á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda. 

En ég hef eignast tvö börn, bæði tekin með keisaraskurði, á "einka reknu sjúkrahúsi".  En allur sá kostnaður var greiddur af hinu opinbera.

En sjúkrahúsið aflar sér einnig mikils fjármagns með frjálsum framlögum, enda má segja að margir (þar á meðal við hjónin) eigi þeim mikið að þakka.

En líklega verður seint full sátt um hvernig eigi að standa að heilbrigðisrekstri, en eins og í svo mörgum öðrum málum er umræða til alls fyrst og af hinu góða.


mbl.is „Stjórnvöld segja nei takk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangslistarnir

Mér var bent á að nú væru heilbrigðisyfirvöld búin að birta forgangslista varðandi bólusetningar.

Það fylgdi svo sögunni að þeir væru ekki sammála Þórólfur og Kári í öllum atriðum.

Persónulega læt ég þær deilur mig littlu skipta og ætla ekki að blanda mér í þær.

En ég kíkti á listann.

Ég ætla ekki að segja að ég sé ósáttur við hann.

En það hvarflaði samt að mér hvort að það starfaði engin "mikilvægur" í einkageiranum?

Skyldi það t.d. ekki hafa hvarflað að nokkrum að það gæti verið gott að bjóða þeim sjómönnum sem eru úti á sjó í lengri tíma upp á forgang?

Jafnvel farmönnum einnig?

Gæti verið sniðugt að huga að einhverjum fyrirtækjum í matvælaiðnaði, sérstaklega þar sem starfsfólk starfar í kældu umhverfi?

Víða erlendis hafa smit breiðst hratt út í slíku umhverfi.

Flestir eru þeirrar skoðunar að viðhafa þurfi sóttvarnir all löngu eftir að bólusetning hefst.

Gæti verið gott að bjóða starfmönnum matvöruverslana (og þá auðvitað áfengisverslana sömuleiðis) forgang?

Þetta eru nú bara örlitlar vangaveltur og starfsstéttir sem komu upp í hugann. Ef bólusetning verður hröð, skiptir þetta varla miklu máli.

Ef bólusetning dregst yfir lengri tíma (enginn veit hversu hratt bóluefni verður afhent) þá getur skipt miklu máli að bólusetning sé hnitmiðuð.

 

 


Undarleg landa- og hagfræði Þorgerðar Katrínar?

Í fyrsta lagi er rétt að benda Þorgerði Katrínu á að Evrópa er ekki það sama og Evrópusambandið.

Rétt ríflega helmingur ríkja (þjóða) Evrópu er í "Sambandinu".

Verðbólgutölur eru verulega mismunandi á milli þessara ríkja.

Síðan eru "Sambandslöndin" og svo má einnig tala um "Eurosvæðið".  Þar eru einnig mjög mismunandi tölur á milli ríkja.

Vissulega er verðhjöðnun á "Eurosvæðinu".  Hún mældist í október mínus 0.3%.  Í Evrópusambandinu er hins vegar 0.3% verðbólga.  Þessu tvennu, þó skylt sé, er best að rugla ekki saman.

Verðhjöðnun þykir ekki eftirsóknarverð.

En það þarf einnig að líta til þess að meðaltal þessara ríkja segir ekki nema hálfa söguna.

Mjög mismunandi verð/bólga/hjöðnun er í þessum ríkjum.

Þannig er verðhjöðnun í Grikklandi 2%. En verðbólga mælist 1.6% í Slóvakíu.  Bæði þessi lönd nota euro sem gjaldmiðil.

Verðbólgan í Ungverjalandi (3.0%) er svo allt önnur en í Austuríki (1.1%) sem og verðhjöðnunin í Eistlandi (1.7%), eða hjöðnun á Írlandi (1.5%).

"Hagstofa Sambandsins" gefur verðbólgu á Íslandi upp sem 1.7%. Nákvænlega sama verðbólga er gefin upp í Noregi.

Verðbólga á Íslandi er líklega gefin upp lægri en tölur sem heyrst hafa frá Íslandi, vegna mismunandi reikniaðferða. En best er auðvitað að bera saman með sömu aðferðinni.

En þegar kemur að atvinnuleysi kýs Þorgerður Katrín að nefna Þýskaland til samanburðar við Ísland.  Það er reyndar frekar gömul "lumma" hjá "Sambandssinnum" að nefna Þýskaland til samanburðar, rétt eins og allt á Íslandi verði eins og í Þýskalandi, ef og aðeins Ísland gengi í "Sambandið":

Auðvitað er það fjarri lagi, enda þarf ekki að skoða tölur frá "Sambandinu" lengi til að gera sér grein fyrir því að aðildarlöndin þar eru ekki eins og Þýskaland, þó að stundum hafi verið haft að orði að ef þau öll "hegðuðu" sér eins og Þýskaland, væri "Sambandið" mun betur statt.

Reyndar er mér sagt að atvinnuleyistölur séu á þessum tímapunkti "svo lítið á reiki", ef þannig má að orði komast vegna mismunandi aðgerða stjórnvalda á hverjum stað.

Þannig vilja sumir halda því fram að atvinnuleysi í Þýskaland sé allt að því tvöfallt það sem talað er um, vegna þess að Þýska ríkið greiði 60% af launum þeim sem eru með skertar vinnustundir eða jafnvel engar.

En það er erfið barátta fyrirsjáanleg á næsta ári, ekki bara á Íslandi heldur víðast um heim.

En það er í mínum huga alveg ljóst að Ísland er langt í frá eina Evrópulandið sem býr við verðbólgu.

Flestir myndu líklega segja sem betur fer, því verðhjöðnun þykir ekki æskileg.

Það er eiginlega svolítill "upplýsingaóreiðubragur" yfir fullyrðingu Þorgerðar Katrínar.

 

 


mbl.is Eina þjóðin í Evrópu sem upplifir verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Umhugsunarmatur"

Nú er mikið rætt um bóluefni og eðlilega eru miklar vonir bundnar við þau.  Enn er þó ekki sopið kálið eins og stundum er sagt.

En ég hef mikla trú á því að bóluefni verði samþykkt innan tíðar.  Ein af þeim stofnunum sem við setjum traust okkar á í þeim efnum  er hin Bandaríska FDA (Food and Drug Administration) sem við myndum líklega þýða sem "Matvæla og lyfjastofnunin".

En er það ekki svolítið merkilegt að þegar kemur að því að sprauta bóluefni í vöðva virðast langflestir treysta vísindamönnum FDA til að vinna rannsóknir sínar einarðlega og af heiðarleika (sem ég tel þá gera).

Síðan þegar kemur að vísindarannsóknum þeirra á t.d. kjötræktun eða því hvort að óhætt sé að snæða "klórbaðaðan" kjúkling, er ótrúlega stór hópur sem telur vísindamenn sömu stofnunar á algerum villigötum og best sé að hundsa þær með öllu.

P.S. Rétt að taka það fram út frá "lesskilningssjónarhorni", að ég er ekki að segja að vísindamenn FDA muni ekki standa rétt að úttekt á bóluefni, heldur hitt að ég er að hvetja fólk til að velta því fyrir sér hvernig á þessu standi.

 

 


Boð og bönn draga oft fram verstu hliðar samfélagsins og svarta markaðinn

Það er eiginlega segin saga að sterkt yfirvald, boð og bönn draga fram verstu hliðar margra einstaklinga.

Boð og bönn leiða mjög gjarna fram tilhneygingu hjá mörgum til að hafa "eftirlit" með samborgurum sínum  og nágrönnum og tilkynna þá til yfirvalda.

Einstaklingnum sem tilkynnti um ólöglegan fjölda í barnaafmæli hlýtur t.d. að hafa liðið vel með að hafa uppfyllt borgaralega skyldu sína.

Það sama gildir líklega í þessu tilfelli, ég hef enga trú á því að lögreglan hafi tekið upp á þessu án ábendingar.

Eins og einn eldri kunningi minn sem er upprunninn í A-Evrópu sagði, þetta er næstum eins og að vera kominn heim í "Sovétið".

"Það eru biðraðir í búðir, klósettpappír af skornum skammti, helst vilja menn ferðatakmarkanir og svo eru nágrannar að klaga hvorn annan."

Þetta sagði hann í "léttum dúr" og hló við. En hann sagði mér líka frá því, og það hef ég reyndar orðið svolítið var við sjálfur, að "svarti markaðurinn" blési út.

Hann vildi meina að það spyrðist fljótt út að það væri hægt að láta klippa sig "þarna", í þessum bílskúr væri hægt að fá olíuskipti, þessi væri með litla líkamsræktarstöð í kjallaranum og naglapússerí og því um líkt færi fram í heimahúsum.  En hafið í huga að hér er ég ekki að tala um Ísland.

Því lengur sem "kófið" varir, því lengur sem boð og bönn verða í gildi, þeim mun sterkari mun "svarti" hvatinn verða.

Ég held að það eigi eftir að verða umtalsverð "ókyrð" í þjóðfélögum viða um heim. Líklega verður ástandið ekki verulega slæmt fyrr en eftir áramót.  En tjónið víðast hvar er að verða gríðarlegt. Ef "jólavertíðin" sem svo margir hafa treyst á hverfur þá eiga margir enga endurkomuleið. 

Það er heldur engin leið til að stjórnvöld, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar, geti bætt það tjón.

 

 


mbl.is Furðar sig á gluggagægjum lögreglunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir mega baka piparkökur - nú eða sörur?

Eftir umræður hér á blogginu mínu um lögverndun starfsgreina var mér bent á að Íslendingar ræddu mikið sín á milli og eitthvað í fréttum um "svartar sörur".

En vaxandi eftirspurn mun vera eftir slíku lostæti meðal Íslendinga.  Mér var sagt að þeir umsvifamestu bökuðu og seldu þúsundir sara fyrir jólin.

En þetta er auðvitað ólöglegt. 

Slíkur bakstur ætti að fara fram hjá fagmanni, í viðurkenndu rými, þar sem heilbrigðiseftirlit hefur gefið sinn stimpil, og svo þarf að sjálfsögðu að gjalda ríkinu það ríkisins er.

Þó að ég sjái ekkert því til fyrirstöðu að "ófaglærður bakari" geti sett á stofn lítið fyrirtæki og bakað sörur, get ég ekki séð hvernig hægt er að verja um slíkt gildi ekki sömu lög og sömu kröfur séu gerðar og til annara fyrirtækja í sama geira.

Eðli máls samkvæmt eiga allir að vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum.

En hvað varðar lögverndun starfsgreina er hægt að bera samtn t.d. mismunandi matvælaframleiðslu.

Íslendingar hafa gengið í gegnum það sem kalla má "ísbyltingu". Alls staðar eru ísbúðir. 

Þó eru til þess að gera fá ár síðan að segja má að svo gott sem allur ís hafi verið framleiddur í tveimur fyrirtækjum.

En það er ekki boðið upp á nám í ísgerð (að ég best veit), og ísgerðarmaður er ekki lögverndað starfheiti. 

Væru allur þessi fjölbreytileiki í ísgerð á Íslandi ef svo væri.

Um slíkt er ekki hægt að fullyrða, en ég tel það ólíklegt.

En skortur á skóla fyrir ísgerð hefur ekki komið í veg fyrir metnað eða að ísgerðarmenn afli sér þekkingar.

 

 


"Bara" eitt ár eftir af Covid?

Það hríslaðist gleðistraumur um marga þeger tilkynnt var um að prófanir á nýju bóluefni hefðu gengið ágætlega. Eðlilega enda um stórar fréttir

Menn fóru að sjá fyrir sér að nú þyrti "bara" að þrauka.

En sé litið raunsætt á málið, eins og dr. Ugur Sahin gerir í viðhengdri frétt er líklega fast að ári þangað til hægt að að búast við að lífið fari í eðlilega skorður, víðast um heiminn.

Það er að segja ef allt gengur vel og þróun bóluefna gengur jafnvel hér eftir og hingað til.

Það gæti þá orðið næsta september sem allt yrði orðið næsta eðlilegt, en vonandi væri hægt að slaka eitthvað á áður.

En hvernig verða þjóðfélög heimsins stödd að ári?  Hvernig verður efnahagslíf þeirra? 

Um slíkt er að ég tel næstum ómögulegt að spá. 

En ríki þurfa augljóslega að skipuleggja sig til lengri tíma.

 

 

 


mbl.is Segir líkur á eðlilegu lífi næsta vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband