Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Að mörgu leyti skrýtin umræða - hvað er áfengi?

Það má ganga út frá því sem vísu að þegar Íslendingar ræða um fyrirkomulag á sölu áfengis, eða smásölufyrirkomulag yfirleitt, fer umræðan út um víðan völl og tekur alls kyns hlykki.

Þessi frétt er ágætt dæmi um það. Heilbrigðismálaráðherra Noregs segist hafa áhyggjur af því að Íslendingar kunni að auka frelsi í sölu áfengis.

En í Noregi er bjór seldur í flestum "búðum á horninu" og kjörbúðum.  Kjörbúðir selja sömuleiðis bjór í Finnlandi.  Það er engu líkara en að heilbrigðisráðherra Noregs telji bjór ekki til áfengis.

Hafa Íslendingar áhyggjur af því?

Það er rétt að hafa í huga nú degi á eftir "Bjórdeginum" að aukið frelsi, hvort sem er í áfengismálum eða smásölu hefur ekki komið af sjálfu sér og nær alltaf mætt harðri andstöðu.

Frumvarp um að leyfa bjór var ekki lagt fram í fyrsta sinn þegar það var samþykkt árið 1988.  Ætli það hafi ekki verið nær 10. skiptinu sem slíkt frumvarp var lagt fram.  Ef ég man rétt var slíkt frumvarp fyrst lagt fram árið 1960.

Og þær eru orðnar býsna margar breytingarnar á fyrirkomulagi í smásöluverslun sem "þjóðin" hefur klofnað yfir og rifist svo misserum skiptir.

Mjólk ætti ekki heima í kjörbúðum, bækur áttu ekki heima í stórmörkuðum, lesgleraugu átti að banna að selja í stórmörkuðum.

Kjörbúðir máttu ekki vera opnar nema til 6 á kvöldin og áttu að vera lokaðar um helgar. Slakað var á klónni í sumum sveitarfélögum og almenningur mátti náðarsamlegast kaupa sér nauðsynjar í gegnum lúgu.

Svo var auðvitað "blessað bjórlíkið", sem líklega fáir sakna, en auvitað var það bannað nokkrum árum áður en bjór var leyfður á Íslandi.  Þáverandi dómsmálaráðherra gerði það árið 1985.

Auðvitað geta allir lifað lífinu án þess að einokun ríkisins sé afnumin á sölu áfengis, hvað þá að áfengi sé selt í matvöru eða öðrum verslunum.

Það sama gildir auðvitað um bjór, nú eða frjálst útvarp og sjónvarp, ekkert af þessu er lífsnauðsynlegt.  En þetta er dæmi um frelsi sem hafðist ekki nema með strangri og áralangri baráttu á Íslandi, ekki síst í sölum Alþingis, sem sjálfsagt hafði eitthvað "verulega mikilvægara" að ræða þá, rétt eins og nú.

En reglurnar eru skrýtnar. Þannig er ekkert mál fyrir Íslending sem hefur náð áfengiskaupaaldri, að panta sér hvaða áfengi sem er frá erlendum aðilum og fá það tollafgreitt og sent heim að dyrum (t.d með DHL eða sambærilegri þjónustu) en að íslenskur aðili geti veitt slíka þjónustu (nema ríkið auðvitað) er algerlega fráleitt í hugum svo margra Íslendinga.  Hugsanlega gætu þeir pantað á netinu hjá norska "ríkinu", en ég efast um að þeir afgreiddu pöntunina og verðið þar dregur engan að.

Forsjárhyggjugenið er það ríkt í Íslendingum (líklega ríkara í þeim sem leggja fyrir sig stjórnmál en öðrum) að þeim finnst það í góðu lagi að Íslendingar megi kaupa af einkaðilum, svo lengi sem þeir séu erlendis, þó að áfengið komi heim að dyrum á Íslandi.

Það hefur orðið alger sprenging í aðgangi að áfengi á Íslandi undanfarna áratugi. Bæði hefur ÁTVR fjölgað útsölustöðum sínum mikið og veitingastöðum sem selja áfengi hefur fjölgað hraðar en tölu má festa á.

Og vissulega hefur sala á áfengi aukist á undanförnum árum, en það verður varla séð að það sé umfram mannfjöldaukningu og stóraukin ferðamannastraum.  Þó þarf að hafa í huga að í fréttinni sem vísað er í er eingöngu fjallað um sölu ÁTVR.

En það gildir um bæði Ísland og Noreg (og reyndar mörg fleiri lönd) að býsna mikill hluti áfengisneyslu sést ekki í innlendum sölutölum, líklega stærri hluti í Noregi.

Því með auknum ferðalögum fylgir meira fríhafnarbús og smygl.

Reyndar er svokallaður áfengistúrismi býsna merkilegt fyrirbrigði, ekki síst á Norðurlöndunum.

Svíar og Norðmenn flykkjast yfir til Danmerkur að kaupa ódýrt áfengi og margir Danir fara yfir til Þýskalands.  Í Eistlandi má sjá Finna með drekkhlaðna bíla af áfengi á leiðinni heim.  Talið er að allt að 25% af áfengi sem selt er í Eistlandi fari yfir til Finnlands.

Eistlendingar eru síðan í vaxandi mæli farnir að leita yfir til Lettlands, því þar er áfengi enn ódýrara.

Þannig skapar verðlagning og hömlur á sölu áfengis margar skrýtnar sögur.

En það má telja næsta víst að frumvarp um afnám einkaleyfi ríkisins til að reka áfengisverslanir, eða leyfa frjálsa sölu á áfengi verði fellt.

Það er enginn heimsendir.  Þannig voru örlög frumvarpa um bjór um áratugaskeið og frjálst útvarp hafðist ekki í gegn án baráttu. Ef ég man rétt greiddi til dæmis enginn þeirra sem á hátíðarstundum töluðu um sig sem "frjálslynda jafnaðarmenn" atvæði með því frelsi á Alþingi.

En það er engin ástæða til að leggja árar í bát, þó að orusta tapist.  Það er sjálfsagt að halda málinu og umræðunni vakandi.

Og þó að ef til vill sé ekki ástæða til að leggja frumvarp þessa efnis fram árlega, er ég þess fullviss að sá tími mun koma að einokun ríkisins verði aflétt.

 

 

 

 


mbl.is Óttast áhrifin annarsstaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál sem þetta á ekkert erindi á Alþingi

Það er því miður allt of algengt að þingmenn telji sig eiga að stjórna samfélaginu - í stóru og smáu.

Þetta upphlaup er ágætt dæmi um það.

Hvers vegna það er tilefni til umræðu eða gagnrýni á Alþingi að dagvist eða skólar skuli ætla að bjóða upp á þvottaþjónustu er eiginlega óskiljanlegt.

Það skiptir engu máli í sjálfu sér hver á að sjá um þvottinn, slíkt er auðvitað samningsatriði á milli starfsfólks og vinnuveitenda.

Það segir sig þó nokkuð sjálft að öllu jöfnu ráða fyrirtæki ekki háskólagengna starfskrafta til að þvo og brjóta saman þvott. Þess gerist ekki þörf.

Endir fréttarinnar gefur svo til kynna að þetta sé gert til að afla fleiri viðskiptavina.

Hvílík höfuðsynd.

Það á eftir að koma í ljós hvort að þessi þjónusta nýtur vinsælda eður ei, rétt eins og tilbúinn matur sem boðinn er hjá sama þjónustufyrirtæki.

Þannig vinna framsækin fyrirtæki, víkka út þjónustuna og sinna þörfum viðskiptavina sinna.

Sumt slær í gegn annað fellur.

Foreldrar þurfa á færri staði og minnkar stress og líklega má færa rök fyrir því að aukin þjónusta á einum stað sé einnig umhverfisvæn, þar sem snúningum á bílnum fækkar.

En af því að þingmaðurinn talaði um virðingu, verð ég að bæta því við að ég tel að virðing Alþingis aukist ekki við gagnrýni á þvottaþjónustu úr ræðustól þess.

 


mbl.is Gagnrýnir þvottaþjónustu Hjallastefnunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona eins og gerist í "samanburðarlöndunum"?

Það hefur oft verið rætt um hvort að auka ætti einkarekstur í íslenska heilbrigðiskerfinu, nú síðast hvort að leyfa ætti sjúkrarúm í einkaeigu þar sem sjúklingar gætu legið nokkra daga.

Í viðhengdri frétt má lesa um einkafyrirtæki í Svíþjóð sem hefur u.þ.b. 25% markaðshlutdeild í hryggskurðaðgerðum í Svíþjóð.

Í Stokkhólmi er fyrirtækð með tæplega 30 sjúkrarúm, 4. skurðstofur.

Stærsti eigandi fyrirtækisins er skráður í kauphöllina í Stokkhólmi, hann á rétt rúmlega 90% af fyrirtækinu. Ef ég hef skilið rétt dreifast hinir eignarhlutirnar aðallega á starfsfólk, en ég þori ekki að fullyrða um það hér.

Skyldi starfsemin vera ógn við sænska velferð eða lýðheilsu sænsku þjóðarinnar?

Ætli ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð hafi það á stefnuskránni að færa þetta allt aftur undir sænska ríkið?

Ég held ekki.

Ef vilji er til þess að gera íslenska heilbrigðiskerfið líkara því sem gerist í nágrannalöndunum, eða "samanburðarlöndunum", er rými til að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, líklega all verulega.

P.S. Stuttu eftir að ég hafði póstað þessari færslu, rakst ég á stutta frétt frá Svíþjóð sem sýnir að vandamálin sem við er að eiga í heilbrigðiskerfinu eru ekki svo ósvipuð á Íslandi og í Svíþjóð.

 

 


mbl.is Með 25% hryggskurðaðgerða í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkel segir að euroið sé of lágt skráð - fyrir Þýskaland

Fyrir stuttu síðan bloggaði ég um að fjármálaráðherra Þýskalands teldi euroið of sterkt - fyrir Þýskaland.

Fyrir fáum dögum lét svo sjálfur kanslarinn, Merkel orð falla í sömu átt.

"The ECB has a monetary policy that is not geared to Germany, rather it is tailored (to countries) from Portugal to Slovenia or Slovakia. If we still had the (German) D-Mark it would surely have a different value than the euro does at the moment. But this is an independent monetary policy over which I have no influence as German chancellor."

The euro has fallen nearly 25 percent against the dollar over the past three years, touching a 14-year low of $1.034 in January. But it has since risen to roughly $1.061.

Enn og aftur viðurkenna leiðtogar Þýskalands að euroið sé of veikt skráð fyrir landið, en benda á Mario Draghi, seðlabankastjóra.

Enn og aftur kemur í ljós að euroið hentar þeim löndum sem nota það ákaflega mismunandi. Enginn mundi halda því fram að euroið sé of veikt fyrir Grikkland, Ítalíu, Frakkland, Spán, Portúgal og svo framvegis.

En það er Þýskaland sem nýtur að lang stærstum hluta ágóðans of lágu gengi eurosins, sem Draghi töfrar fram, ekki síst með gríðarlegri peningaprentun, en kemur að hluta til út af bágu efnahagsástandi landa innan Eurosvæðisins.

Eins og áður hefur verið minnst á er ástandið að sumu leyti svipað á öðrum myntsvæðum, s.s. Bandaríkjunum og t.d. Kanada.  En þar fer fram umfangsmikil millifærsla á fjármunum hjá ríkisstjórnum.  Að öðrum kosti reyndist það t.d. næsta ómögulegt fyrir Prince Edward Island eða Manitoba að deila gjaldmiðli með Alberta (þó að það sé heldur skárra nú þegar olíuverð er lágt).  Þess vegna skiptast fylki Kanada í "have" og "have not". Um það má lesa hérhér og hér.

Bandaríkin eru ekki með jafn skipulagt kerfi, en þó er gríðarlega misjmunur á milli þess hvað mörg ríki greiða í alríkisskatt og hve miklu af honum er eytt í þeim. Það er býsna flókin mynd, en til einföldunar má líklega segja að fjármagn flytjist frá þéttbýlli ríkjunum til þeirra strjálbýlli.

En á Eurosvæðinu verða skilin á milli "have" og "have not" ríkja ef eitthvað er meira áberandi og enginn má heyra á það minnst að gefa Grikklandi eftir eitthvað af skuldum þess. Það verður þó líklega niðurstaðan með einum eða öðrum hætti, en ekki fyrr en Grikkland verður í "andarslitrunum".

P.s. Það er auðvitað freistandi fyrir íslenska stjórnmálamenn að taka framgöngu þeirra þýsku til eftirbreytni.

Þegar rætt er um að krónan sé of há, nú eða of lág, er best fyrir þá að segja að þeir séu meðvitaðir um það og sammála því, en þetta sé einfaldlega allt Má Guðmundssyni að kenna. :-)

 


Fjármálaráðherra Þýskalands segir að euroið sé of veikt - fyrir Þýskaland

Undanfarnar vikur hefur mátt lesa um deilur á milli Bandaríkjanna og Þýskalands um hvort að lágt gengi eurosins veiti Þýskalandi óeðlilegt forskot hvað varðar útflutning.

Eins og eðlilegt er í deilumáli sem þessu sýnis sitt hverjum.

En nýverið tók þó fjármálaráðherra Þýskalands að nokkru undir með þeim sem segja að Þýskaland njóti að nokkru óeðlilegs forskots.  Það er að segja að euroið sé of veikt - fyrir Þýskaland.

Eða eins og lesa mátti í frétt Financial Times:

German finance minister Wolfgang Schäuble has blamed the European Central Bank for an exchange rate that is “too low” for Germany, following criticism last week from US president Donald Trump’s top trade adviser.

Mr Schäuble acknowledged in a newspaper interview that the ECB had to set monetary policy for the eurozone as a whole, but said: “It is too loose for Germany.”

“The euro exchange rate is, strictly speaking, too low for the German economy’s competitive position,” he told Tagesspiegel. “When ECB chief Mario Draghi embarked on the expansive monetary policy, I told him he would drive up Germany’s export surplus . . . I promised then not to publicly criticise this [policy] course. But then I don’t want to be criticised for the consequences of this policy.”

Þó endanlegar tölur liggi ekki fyrir er líklegt að Þýskaland hafi verið það land sem notið hafi mests afgangs af milliríkjaviðskiptum á síðasta ári, meira að segja all verulega meira en Kína.

Í frétt FT mátti ennfremur lesa:

Mr Schäuble pointed out that Germany was not able to set exchange rate policy and pinned responsibility for the euro’s weakness against the dollar on the ECB. The German finance ministry was “not an ardent fan” of the ECB’s policy of quantitative easing that had helped to weaken the single currency. 

According to the Ifo Institute, Germany recorded a trade surplus of nearly $300bn last year, outpacing China by more than $50bn to hold the world’s largest trade surplus. Critics in Brussels and Washington have called for Germany to reframe its fiscal policy and stimulate domestic demand to increase imports.

Það er spurning hvort að þetta eigi eftir að verða að frekari illindum á milli Þýskalands og Bandaríkjanna.

En það verður ekki um það deilt að á pappírunum hefur Þýskaland ekkert um aðgerðir Seðlabanka Eurosvæðisins að segja. 

Það er einnig staðreynd að þótt að gengið á euroinu sé of lágt fyrir Þýskaland, er það of hátt fyrir önnur ríki í myntsamtarfinu, t.d. Grikkland, Ítalíu, Frakkland, Portúgal  og svo má eitthvað áfram telja.

Þá benda ýmsir á að þessu sé eins farið í t.d. Bandaríkjunum, sama gengið á dollar eigi ekki við Alabama og Kalíforníu, eða N-Dakóta og New York.

Ef til vill mætti segja að það sama gildi um Ísland, Raufarhöfn þyrfti í raun annað gengi en Reykjavík og Suðureyri þyrfti annað gengi en Suðurnes, alla vegna stundum.

En þetta eru ekki fyllilega sambærilegir hlutir.  Uppbygging Bandaríkjanna og Íslands er önnur en Evrópusambandsins.

Þannig er efnahagsástand vissulega misjafnt eftir ríkjum í Bandaríkjunum, en "Alríkið" er þó mörgum sinnum sterkara en í Evrópusambandinu, enda "Sambandið" ekki sambandsríki - alla vegna ekki enn.

Þess vegna er stuðningur og flutningur fjármagns á milli ríkja með allt öðrum hætti í Bandaríkjunum en í Evrópusambandinu.  Það sama gildir t.d. um Kanada og í raun einnig Ísland.

Enda eru engin ríki Bandaríkjanna í hjálparprógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrisjóðnum, þau enda ekki sjálfstæðir aðilar að sjóðnum.

Það er einmitt eitt af vandamálum við uppbyggingu "Sambandsins", Þýskaland nýtur kosta myntsamstarfins, án þess að bera nokkra raunverulega ábyrgð eða skyldur til að dreifa honum til annara þátttakenda.

Þó er heimilt samkvæmt sáttmálum eurosamstarfsins að beita sektum gegn ríkjum sem hafa of mikinn jákvæðan viðskiptajöfnuð, en engin innan "Sambandsins" vogar sér að beita því vopni gegn Þjóðverjum.

Er óeðlilegt að önnur ríki hyggist grípa til slíks?

 

 


Benedikt og Viðreisn fylgja línunni frá "Sambandinu"

Það fást ekki margir til þess að mæla gegn aðgerðum gegn skattsvikum og hvað þá hryðjuverkum.

Eigendur aflandsfélaga eru svo líklega flokkaðir sem heldur verri en "venjulegir" skattsvikarar en skömminni skárri en en hryðjuverkamenn.

En allt er þetta notað sem afsökun fyrir því að þjarma að almenningi.

Vissulega er þarft að berjast gegn skattsvikum og hryðjuverkum.

En ég held að flestir geri sér grein fyrir því að stærstur hluti skattsvika og undanskota er ekki framin með reiðufé.

Hryðjuverkamenn hafa heldur ekki verið í vandræðum með að notfæra sér debit og kreditkort, hraðbanka og peningasendingar á milli landa.

Það sem hefur hins vegar leitt til gríðarlegrar aukningar á reiðufé í umferð í mörgum löndum er vantraust almennings á hinu opinbera og svo fjármálastofnunum s.s. bönkum.

Það er t.d. ekki tilviljun að eftir bankahrunið jókst sala á litlum peningaskápum mikið á Íslandi og það sama gildir um mörg önnur lönd.

Þegar vextir eru svo svo gott sem engir, eða neikvæðir og bankar taka æ hærri gjöld fyrir að "leyfa" einstaklingum að nota peningana sína, eykst hvatinn til þess að nota reiðufé.

Þegar viðbætist að hið opinbera heimtar stóran hluta af vöxtunum þrátt fyrir að þeir nái jafnvel ekki verðbólgu, eykst hvatinn til reiðufjárnotkunar enn.

Ellilífeyrisþegar á Íslandi þurfa svo að búa við að vaxtagreiðslurnar lækka lífeyrisgreiðslur þeirra.

Er að undra þó að margir kjósi að nota meira "cash"?

En slíkt er eitur í beinum bæði banka og yfirvalda.

Slíkt hindrar stjórn þeirra á bæði "peningamagni í umferð" og almenningi.

Það er erfiðara að "refsa" almenningi fyrir sparsemi og/eða setja sérstaka skatta á sparsemina ef einstaklingar kjósa að sofa meða þykkan kodda.

Það þarf því engum að koma á óvart að Evrópusambandið hafi skorið upp herör gegn reiðufé. Í löndum verðhjöðnunar, neikvæðra vaxta, síhækkandi þjónustugjalda og sívaxandi ríkisafskipta og og miðstýringar er nauðsynlegt að herða tökin á flæði fjármagns.

Sérstaklega peninga. Þess vegna er "Sambandið" að hefja miðstýrðar aðgerðir til að hindra og draga úr notkun reiðufjár.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það tekur ekki langan tíma fyrir Benedikt og Viðreisn að taka þá línu á Íslandi.

P.S. Sá í morgun fréttaskýringu á Eyjunni um sama efni, sem er vel þess virði að lesa.


mbl.is Vill banna launagreiðslur í reiðufé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarar undan "viðræðusinnum"

Það hefur sjaldan mælst verulega mikill stuðningur við inngöngu Íslands í Evrópusambandið, og er það vel.

En svokallaðir "viðræðusinnar" hafa verið býsna fyrirferðarmiklir.

Margir þeirra hafa jafnvel lýst sig andstæða inngöngu en hafa gefið aðlögunarviðræðum atkvæði sitt.

Frægastir þeirra eru velflestir forystumenn Vinstri grænna.

En aðildar og "viðræðusinnar" hafa einnig verið frekar fjölmennir á meðal fyrirtækjastjórnenda.  Þeir hafa einblínt á ýmsa kosti "Sambandsins" en gallarnir sem þeir framan af kusu að líta fram hjá, hafa þó komið æ betur í ljós.

Eins og einn "Sambandssinninn" orðaði það svo skemmtilega fyrir fáum árum: Menn voru svo uppteknir af því að selja kosti eurosins að þeir gleymdu að minnast á gallana.

En nú virðist vera að fjara undan "viðræðusinnum" á flestum vígstöðvum og er það fagnaðarefni.

Það er eiginlega með eindæmum hvað "Sambandsaðild" er þó algengt umræðuefni í íslenskum stjórnmálum.

Ef til vill er það síðasta vígi aðildarsinna?  En það bendir margt til þess að þeir séu á flæðiskeri staddir.

 


mbl.is Meirihluti nú andvígur viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattalegt samkeppnishæfi - Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna

Það er mikið rætt um skatta, ekki bara á Íslandi heldur víðast hvar í veröldinni.  Og sýnist sitt hverjum.

Á meðan sumir sjá "hlaðborð" af skattamöguleikum sem aðeins þurfi að velja úr, eru aðrir sem vilja draga úr sköttum.  Fáa hef ég hitt sem tala um að þeir borgi alltof lága skatta.

Hvort sem vilji er til að hækka eða lækka skatta, er málinu til stuðnings gjarnan settur fram samanburður við önnur lönd, gjarna svokölluð samanburðarlönd.

Þá má sjá alls kyns töflur með skattprósentum og öðrum tölum. 

En í flestum tilfellum er eingöngu verið að bera saman prósentur. Það er hve há álagningar prósentan er.

En það sem skiptir meginmáli er auðvitað sjálft skattkerfið. Það er öllu flóknara að bera saman, enda skattalöggjöf jafnvel upp á tugi þúsunda síða í hverju landi um sig.

Það er enda ástæðan fyrir því að æ fleiri hámenntaðir sérfræðingar starfa við skatt framtöl.

En finna má á netinu samanburð á skattalegu samkeppnishæfi OECD landanna.  Það er Tax Foundation, bandarísk sjálfseignarstofnun (non profit), sem vinnur samanburðinn árlega.

Þegar litið er á málin frá þessum sjónarhól, sést önnur mynd en þegar einvörðungu er litið á prósentur.

Ísland er í 22. sæti og er t.d. á eftir öllum Norðurlöndunum í skattalegu samkeppnishæfi, þó að oft megi heyra að skattar á Íslandi eigi að hækka til jafns við hvað gerist á Norðurlöndunum.

Það má leyfa sér að efast um réttmæti þess, ef skattlegt samkeppnishæfi Íslands er mun lakara.  Svíþjóð er í 5. sæti, Noregur í 11., Finnland í 18. og Danmörk í því 20. Ísland kemur svo í 22. sæti eins og áður var nefnt.

Skýrsluna má finna hér.

Auðvitað á ekki að líta á skýrsluna sem hinn endanlega stóra dóm, ef svo má að orði komast.  En hún er fróðleg og gefur vísbendingar um hvar Íslendingar standa í skattamálum í samanburði við aðrar þróaðar þjóðir.

En skattamál eru flókin mál og skattkerfi landa getur hentað atvinnugreinum misvel. Ef til vill er ekki síst ástæða til þess að reyna eftir fremsta megni að einfalda skattkerfið.

Það gerir bæði skattlagningu og umræðu um hana einfaldari og markvissari.

P.S. Myndin hér að neðan er úr skýrslu Tax Foundation.

 

Tax foundation competi 2016

 

 


Er gengið of hátt, of lágt eða bara mátulegt?

Umræður um gengið eru nærri jafn algengar og um veðrið á Ísladni. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, enda miklir hagsmunir undir og gengið snertir alla og hefur áhrif á líf þeirra og afkomu.

Það eru því gjarnan skiptar skoðanir um hvað er "rétt" gengi, eða æskilegt.

Mikið hefur verið talað um upp á síðkastið að gengið sé of hátt, að krónan kosti of mikið og skerði möguleika útflutningsgreina og þeirra sem eru í harðri samkeppni við erlenda aðila.

Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að slík sjónrmið komi fram hjá aðilum í útflutningsgreinum, enda gerir styrking krónunar þeim vissulega erfitt fyrir, sérstaklega hvað samninga sem kunna að hafa verið gerðir all langt fram í tímann.

Styrkingin dregur verulega úr hagnaði þeirra og í sumum tilfellum getur komist nálægt því að þurka hann út.

En annað bendir til þess að gengið sé einfaldlega nokkuð mátulegt og ef til vill í lægri kantinum.

Eins og marg oft hefur komið fram í fréttum hefur erlend staða þjóðarbúsins ekki verið betri í áratugi, eða nokkurn vegin frá lokum seinna stríðs.

Viðskiptajöfnuður Íslendinga er í plús.

Vissulega verður að líta á viðskiptajöfnuð til lengri tíma en sé það gert á hann að sjálfsögðu að vera nálægt núllinu.  Heimsviðskipti eru í eðli sínu "zero sum" ef svo má að orði komast.

Hagvöxtur á Íslandi er mikill og atvinnuleysi í lægstu mörkum, þrátt fyrir mikinn innflutning á vinnuafli.

Ekkert af þessu bendir til að styrking krónunnar sé óeðlileg eða að hún sé of hátt skráð.

Auðvitað er ekki fyllilega að marka ástandið á meðan enn eru gjaldeyrishöft. En þau eru sem betur fer óðum að hverfa og vonandi heldur sú gleðilega þróun áfram.

Krónan hefur verið að veikjast nú eftir áramót. Þar kemur líklega til sögunnar aukið frelsi í gjaldeyrismálum, sjómannaverkfall og svo árstíminn.

Það er því ekki ótrúlegt að um frekari gengisbreytingar verði að ræða, en það er ekkert óeðlilegt þegar breytingar verða á markaði.

En það er ekki ástæða til þess að grípa til rótækra inngripa til að lækka gengið. Almenningur á skilið að njóta styrkingarinnar.

Fyrirtækin verða að leita hagræðingar og á slíkum tímum er ekki óeðlilegt að sameiningar og samstarf aukist.

Fyrirtækin leita jafnframt framleiðniaukningar. Þess má þegar sjá merki í fjölda nýrra fiskiskipa sem eru á leið til Íslands. Útgerðarfyrirtæki hafa notað hagstæða tíma til að fjárfesta, sem vonandi leiðir til aukinnar framleiðni og gerir þeim kleyft að takast á við erfiðara rekstrarumhverfi.

Einhverjir munu sjálfsagt hellast úr lestinni, en það lítur út fyrir að það séu aðrir til að "taka upp slakann".

 

 

 

 


mbl.is Gengisstyrking afleiðing hrunsins, ekki orsök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin markaðslausn hjá Viðreisn - Sænska þingið setur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja til hliðar.

Það virðist nokkkuð ljóst að Viðreisn (og núverandi ríkisstjórn) treystir markaðnum ekki til þess að greiða starfsfólki laun eins og það á skilið - alla vegna ekki út frá kynlegu sjónarmiði.

Þar verður "mamma ríkið" að koma til sögunnar.  Þó er að þeirra mati ennþá í lagi að í fámennum fyrirtækjum sé einhver "markaðsmismunun".

Það verður fróðlegt að sjá hvað þessi íþyngjandi "tímabundna lagasetning" (hefur einhver heyrt slíkt áður frá ráðherra?) kemur til með að kosta fyrirtækin og hver muni sjá um vottunina.

Það getur vissulega orðið svo að einhver fyrirtæki fresti því að ráða 25. starfmanninn eins lengi og mögulegt er, vegna þess að þau telji að hann verði fyrirtækinu "dýr".

Það er sömuleiðis spurning hvort að fyrirtæki sem hafa aðeins annað kynið í vinnu séu undanþegin vottuninni?

Slíkt gæti verið hvati til "kynhreinna" vinnustaða.

En það er ekki ólíklegt að markaðurinn finni leið til að aðlaga sig að þessari íþyngingu eins og öðrum sem ríkið setur. Það gerist yfirleitt þó að það taki tíma.

Það er heldur ekki eins og búið sé að fullnýta hugmyndaflugið hvað varðar starfsheiti og titla.

Það má geta þess hér að lokum að samkvæmt frétt Reuters hefur sænska ríkistjórnin (sem er minnihlutastjórn) hætt við að leggja fram frumvarp um 60/40 kynjakvóta í stjórnum þarlendra fyrirtækja.

Ástæðan fyrir því er að ljóst var að þingið myndi ekki samþykkja frumvarpið.

En á Íslandi þurfa ráðherrar ekki að eiga von á neinum slíkum bakslögum.

Enda er á Íslandi, ef marka má orð stjórnarandstöðunnar, nýtekin við "harðsvíruð frjálshyggjustjórn".

 

 

 

 


mbl.is Vottað á þriggja ára fresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband