Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Efnahagsmálaráðherra Þýskalands: Við högnumst mest á Evrópusambandinu, efnahagslega og pólítískt.

Nýlega mátti lesa að Joseph Stieglitz teldi allt eins líklegt að euroið myndi "brotna upp", jafnvel á þessu ári.

Hvort að sá spádómur eigi eftir að rætast eigum við eftir að sjá, og sjálfsagt mun ráða mestu þau ráð sem Seðlabanki Eurosvæðisins mun beita.

En nú eftir áramótin mátti lesa, haft eftir efnahagsmálaráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, að það væri alls ekki óhugsandi að Evrópusambandið sjálft myndi heyra sögunni til, þó að vissulega sé það svo að það er alls ekki það sem hann myndi vilja, eða stefni að.

En jafnframt má lesa eftir honum haft (hann mun hafa sagt þetta í viðtali við Der Spiegel, en það hef ég ekki séð, eingungis frétt Reuters um það), að komandi kynslóðir Þjóðverja muni seint fyrirgefa núverandi valdhöfum ef svo far, því Þýskaland sá það ríki sem hagnist mest á Evrópusambandinu, bæði efnahagslega og pólítískt.

Persónulega held ég að Sigmar Gabriel fari þarna með rétt mál, þó að vissulega sé sjaldgæft að sjá nútíma pólítíkusa tala svo hreinskilnislega.

En eitt af stóru vandamálum Evrópusambandsins, og sérstaklega Eurosvæðisins, hefur einmitt verið hve Þýskalands hagnast, en önnur ríki hafa borið skarðan hlut frá borði, ef til vill sérstaklega Suður-Evrópuríkin.

Þau hafa hægt og rólega tapað samkeppnishæfi sínu, á meðan Þýskaland hefur notið met afgangs á vöruskiptajöfnuði.

Þar nýtur Þýskaland tengingar gjaldmiðils síns við lönd í efnahagslegum erfiðleikum, og má segja að gjaldmiðill Þýskalands sé "sígengisfelldur", án efnahagslegrar ástæðu.

Þetta hefur ennfremur leitt til minnkandi atvinnuleysis í Þýskalandi, þrátt fyrir aukin innstreymi innflytjenda, á meðan atvinnuleysi í öðrum löndum hefur rokið upp (hér er ekki tekið tillit til þeirrar innflytjendasprengingar sem varð á síðastliðnum tveimur árum til Þýskalands, aðallega frá N-Afríku, eftir að landamærin voru opnuð, fæstir þeirra hafa atvinnu, en eru ekki taldir með í atvinnuleyistölum).

Þetta þekkja allir sem fylgjast með fréttum.

Vissulega má segja að ekki sé eingöngu hægt að kenna Þjóðverjum einum um hvernig mál hafa skipast. Önnur ríki hafa oft á tíðum tekið rangar ákvarðanir og látið ríkisrekstur sinn bólgna út, í staðinn fyrir umbætur á vinnumarkaði og í opinbera kerfinu eins og Þjóðverjar framkvæmdu.

En það er einmitt vandamál Eurosvæðisins, það haga sér ekki allir eins og Þjóðverjar.  Og euroið hefur ekki reynst "ein stærð sem hentar öllum", þrátt fyrir loforð þar að lútandi.

 


Velkomin á Evrópska efnahagssvæðið - 25 ára gamlar "falskar fréttir".

Á stundum virðist eins og Íslendingar og íslenskir stjórnmálamenn geri sér ekki nokkra grein fyrir því hvað felist í því að Ísland sé aðili að Evrópska efnahagssvæðinu - EEA/EES.

Meðal annars felst í því að aðilar skrásetttir á svæðinu eru jafn réttháir Íslendingum er kemur að jarðarkaupum og flestum öðrum fjárfestingum.

Það gildir um Jim Ratcliffe, en gilti ekki um Nubo.

Málið er ekki flóknara en það.

Allt er málið eftir lagabókstafnum.

P.S. Þó að það sé málinu ekki skylt, ná lögin um EEA/ESS sömuleiðis yfir  erlendra verkamanna í gegnum starfsmannaleigur, sem gerir það mögulegt að erlendir starfsmenn njóti ekki sömu kjara og innlendir.

Evrópusambandið hefur áhuga á því að breyta slíku, en þær breytingar mæta harðri andstöðu á meðal marga aðildarþjóða þess í A-Evrópu.

En Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir því að aðild að EEA/EES fylgja kostir, en ekki síður gallar.

"Allt fyrir ekkert", var ein af þessum "fölsku fréttum", sem síðan reynist enginn sannleikur búa að baki.

 


mbl.is Ratcliffe fékk en Nubo ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlýtur að vera eitthvað að varðandi lambakjötið

Það er skrýtið að lesa að það þurfi 100 milljónir aukalega til að markaðssetja íslenskt lambakjöt í fjarlægum löndum núna.

Að slíkt þurfi nú hlýtur að benda til þess að endurskoða þurfi lambakjötsframleiðslu Íslendinga - frá upphafi til enda. Ef til vill einnig markaðssetninguna.

Ef ég man rétt minnkaði innalandsneysla á lambakjöti (per íbúa) ár frá ári, nokkuð svo lengi sem elstu menn muna (þó að það sé vissulega teigjanlegt).  Engu virðist skipta að metfjöldi ferðamanna streymir til Íslands ár hvert, lambakjötið virðist ekki ná að rísa í sölu.

Því blasir við að annaðhvort hefur neysla "innfæddra" hrunið, eða að ferðamennirnir sem mælast brátt í 2. milljónum, ef marka má spár, hafa lítinn áhuga á lambaketinu. Rétt er að hafa í huga að sá fjöldi erlendra ferðamanna sem fer um Keflavíkurflugvöll er mikið hærri.

Ef ég hef skilið rétt er reiknað með að yfir 6.5 milljón farþegar fari um flugvöllinn á þessu ári.

Vissulega er það svo að með rísandi gengi, er lambakjötið eins og margar aðrar íslenskar afurðir orðnar ansi dýrar.

En ég hygg að þetta sé markaðurinn sem ætti að einblína á.

Þess utan, held ég að einstaklingar sem hafa smakkað íslenskt lambakjöt sem ferðamenn, séu mun líklegri til að láta slík kaup eftir sér, þegar heim er komið, en aðrir.

P.S.  Sjálfur borðaði ég íslenskt lambalæri í gærkveldi. Það er frábær kvöldverður og kitlaði bragðlauka allra viðstaddra, ásamt því að læða fram heimþrá hjá sjálfum mér.

Öndvegis matur og slær öllu öðru lambakjöti við. Ekki keypt í búð hér, heldur kom það með góðum vini mínum sem átti leið hér um.  Komið örfáa daga fram yfir síðasta söludag, en það kom alls ekkert að sök, lungmjúkt og meyrt.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Lambakjötsala í lægð vegna deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himinháir skattar hvetja til sóunar

Það er gömul saga og ný að þegar þarf að ná í fleiri krónur í ríkiskassann, þá ákveður ríkísstjórnin að hækka álögur á áfengi.

Í og með er þessi leið valin vegna þess að hún er án pólítískrar áhættu.  Því sem næst engin stjórnmálamaður vogar sér að andmæla slíkum fyrirætlunum, vegna þess að það er pólítískt hættulegt að taka sér stöðu með "drykkjumönnum" og áfengi er slíkt böl að allir ættu að sammælast um að hafa það sem dýrast.

Persónulega finnst mér sorglegt að horfa upp á Sjálfstæðismenn taka þátt í slíku.

Ég myndi vilja minna þá að að það er ekki einungis rétt að almenningur geti keypt sér hvítvín með humrinum á sunnudögum, heldur ætti hann að geta gert það án þess að velta því um of fyrir sér "hvort hann hafi efni á að kaupa sér nýja skó", sömuleiðis.

Það sem líka skiptir máli er að slíkir ofurskattar sem nú eru lagðir á áfengi á Íslandi skekkja verðskyn almennings og hvetja til sóunnar.

Allt verð á áfengi fletst út með slíkri ofurskattlagningu.

Mjög líklegt er að það auki kostnað við heildarinnflutning Íslendinga á áfengi og sömuleiðis er það hvetjandi til aukinnar neyslu á áfengi í dýrari umbúðum, sem eykur kostnað, mengun og stækkar "kolefnispor" Íslendinga, ef menn vilja velta slíku fyrir sér.

Hár áfengisskattur letur Íslendinga frá því að velja sér ódýrari tegundir til drykkjar. Ótrúlega lítill munur er t.d. á því að kaupa vodkareitil og svo aftur sama magn af cognaki.

Munurinn á innkaupsverði er hins vegar verulegur.

Sama gildir t.d. um muninn á því að kaupa sér rauðvínsflösku og svo sömu tegund í "belju", sem jafngildir 4. flöskum af sama víni.  Munurinn á ódýru rauðvíni í flösku eða "belju" á Íslandi getur numið ca. 100 kr. per flösku, eða innan við 10%. Varla þess virði að eltast við.

Víða er slíkur munur á milli 30 og 40%, enda flutningskostnaður mikið lægri á "beljunni" og umbúðakostnaður sömuleiðis.  Magnkaup ýta sömuleiðis undir lægra verð.

En fyrir íslenska innflytjendur hefur örlítil lækkun á heildsöluverði lítinn eða engan tilgang.  Hann hverfur einfaldlega í "skattahítinni".

Því ýtir ofurskattlagning hvata til samkeppni í raun algerlega til hliðar.

Þegar hið opinbera er farið að taka til sín vel yfir 90% af útsöluverði vodkaflösku blasir við að til dæmis 8% verðlækkun af hendi framleiðenda eða heildsala hefur lítinn tilgang.

Hér er skattlagningin löngu farin yfir velsæmismörk og farin að hafa veruleg áhrif á neyslumynstur, ekki eingöngu í þá átt að neytandinn velji sér vöru sem er dýrari í innkaupum og óhagstæðari fyrir þjóðarbúið og umhverfið, heldur ekki síður að hann velur sér "alt" vörur svo sem heimabrugg og smyglvarning.

P.S. Það er svo sérstakt umhugsunarefni að hið opinbera rekur svo einnig aðra vínbúð sem selur áfengi mun ódýrara, en þar fá einungis þeir Íslendingar að versla sem fara til útlanda (sem margir gera oft á ári) svo og þeir rúmlega ein og hálf milljón útlendinga sem koma til Íslands.

Er það réttlætanlegt?

 


mbl.is Áfengisskatturinn hækkar um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Þorgerður Katrín að kalla eftir massívri peningaprentun Seðlabankans?

Ég er reyndar ekki hissa á því að "Sambandssinnar" eins og Þorgerður Katrín fitji upp á vaxtaumræðu.

Það er gamalt trix til að fá almenning til að  halda að vextir myndu lækka verulega ef Ísland gengi í "Sambandið".

Slík vaxtalækkun er þó "fugl í skógi", en ekki hendi, þó að líklegt væri að vextir myndu lækka að einhverju marki, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, t.d. eftir 10 ár eða svo.

Því þótt vaxtalækkunin yrði næsta víst einhver, hafa fjárfestar brennt sig eftirminnilega á því að halda að allar skuldir í euroum séu hinar sömu, ef svo má segja.

Það sem Þorgerður Katrín minnist heldur ekkert á er hvers vegna vaxtakostnaður eurolandanna sem hún nefnir er lægri en Ísland (í %stigum).

Það er vegna dapurs efnahagsástands á Eurosvæðinu, gífurlegra skulda, atvinnuleysis og stöðnunar.

Undir venjulegum kringumstæðum myndi efnahagsástand eins og ríkir í löndum eins og Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og jafnvel Frakklandi, þýða að vextir á skuldum þeirra ríkja væru mun hærri en þær eru í dag, líklega jafnvel hærri hjá sumum þeirra en þau kjör sem Íslandi bjóðast.

En til að reyna að koma lífi í staðnað og þreytt efnahagslíf Eurosvæðisins hefur Seðlabanki (ásamt seðlabönkum aðildarríkjanna) þess staðið fyrir gríðarlegri peningaprentun, keypt stóran hluta af skuldabréfum ríkisstjórna og einnig sumra stórfyrirtækja.

Eðlilega keyra slík risa inngrip upp eftirspurn eftir bréfunum og jafnframt niður vexti á þeim. Skuldabréf einstakra ríkja hafa enda farið í neikvæða vexti.

Þetta veit Þorgerður Katrín, hún kýs einfaldlega ekki að minnast á það, það hentar ekki hennar málflutningi.

Er það nýja peningastefnan sem Þorgerður Katrín er að kalla eftir?

Heldur einhver að vextir í landi þar sem talað er um að hagvöxtur hafi dansað í kringum 10% á síðasta ársfjórðungi, geti verið nálægt vöxtum á efnahagssvæði þar sem horft er til 2% hagvaxtar í  hillingum?

Heldur Þorgerður Katrín að massvív peningaprentun og neikvæðir stýrivextir væri það sem hentaði Íslandi í dag? Vill Þorgerður Katrín beita Seðlabankanum til kaupa á skuldum ríkisstjóðs til að keyra niður vextina?  Telur hún að Seðlabankinn ætti að ýta undir þennslu?

Það væri veruleikinn ef Ísland væri á Eurosvæðinu.

Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að tala eins og vextir séu ótengdir almennu ástandi í efnahagsmálum, þó að vissulega megi deila um hvort þeir eigi að vera örlítið lægri eða hærri.

Ég hygg að öll þau lönd sem Þorgerður Katrín nefndi (og fleiri til á Eurosvæðinu) væru til í að skipta á vaxtaprósentu við Ísland, ef með fylgdi framtíðarhorfur, atvinnuleysistölur, atvinnuþátttaka, skuldastaða og viðskiptajöfnuður. Jafnvel verðbólgan sem Ísland býr við þætti eftirsóknarverð sum staðar, því verðhjöðnun er ekki skemmtilegt fyrirbrigði.

Stjórnmálamenn og flokkar sem tala hátt um ný vinnubrögð ættu ekki að hoppa niður í skotgrafirnar sem þeir höfðu komið sér fyrir í síðast þegar þeir sátu á þingi.

 

P.S. Svo er aftur algengt að lágt stýrivaxtastig á Eurosvæðinu skili sér misvel t.d. í fasteignalánum. Þar sker N-Evrópu sig yfirleitt nokkuð frá með afar lága vexti, oft í kringum, eða jafnvel örlítið undir 2%. En vextir til húsnæðiskaupa, t.d á Írlandi eru miklu hærri, sama gildir um Eistland, svo tvö dæmi séu tekin af handahófi.

Þannig er ekki til neitt sem heitir "fasteignavextir á Eurosvæðinu", enda um verulega mismunandi svæði að ræða, sem eru talin mismunandi góð veð.  Svo er endalaust hægt að velta því fyrir sér og rökræða um hvort, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, vextir á fasteignalánum yrðu líkari því sem gildir í Þýskalandi, eða hvort þeir yrðu nær því sem er á Írlandi, eða jafnvel enn hærri.

 

 


mbl.is Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euro krísan: Almenningur orðinn langþreyttur á stjórnvöldum sem hlusta ekki

Það er gömul saga og ný að þjóðaratkvæðagreiðslur vekja ekki lukku innan Evrópusambandsins, hvorki að efna til þeirra, né niðurstöðurnar.

Það má segja að það sannist enn á ný, nú á Ítalíu. Matteo Renzi varð undir með hugmyndir sínar um stjórnarskrárbreytingar og það með miklum mun. Rétt um 60% þeirra sem greiddu atkvæði höfnuðu þeim. Þeim hefur enda ekki þótt rétt að verðlauna léleg stjórnvöld með frekari völdum.

Ef marka má fréttir þá snerist atkvæðagreiðslan, eins og oft vill verða, ekki nema að hluta til um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni.

Kjósendur vildu nota tækifærið að refsa stjórnvöldum og það er af nógu að taka í þeim efnum á Ítalíu.

Atvinnuleysi er í hæstu hæðum og hreyfist lítið niður á við, þó að atvinnuþátttaka minnki. Hagvöxtur er svo gott sem enginn og heildar hagvöxtur frá því að Ítalía tóku upp euroið er sömuleiðis óþægilega lágur. Skuldir ríkisins hafa aukist jafnt og þétt og eru nú yfir 130%/GDP. Fjármál héraðstjórna og borga eru sömuleiðis í mörgum tilfellum í kaldakoli.

Við þetta má bæta bankakerfi sem hriktir verulega í, fallandi útflutningshlutdeild og svo flóttamannastrauminn, sem mörgum Ítölum þykir "Sambandið" gera lítið til að hjálpa þeim að kljást við, hvað þá leysa.

Líklega mætti segja að þessu sé í raun haldið saman af Seðlabanka Eurosvæðisins, það er engin leið til að segja um hvernig ástandið væri án atbeina hans.

En Ítalir eiga enga leið til að "refsa" þeim sem halda um stjórnartaumana í Brussel, en grípa "það sem hendi er næst" sem er þeirra eigin forsætisráðherra, sem hefur þó gagnrýnt "Sambandið" í vaxandi mæli.

Það þykir "góð latína" nú til dags að tala með niðrandi tón um "populíska" flokka. En staðreyndin er sú að almenningur vill að á sig sé hlustað og tekið tillit til sjónarmiða sinna.

Það er lexía sem stjórnmálamenn þurfa að læra. "Alþjóðleg stjórnmála elíta", er ekki eitthvað sem hrífur kjósendur með sér, og þegar þjóðarleiðtogar eyða æ meiri tíma á "krísufundum" Evrópusambandsins, snúa kjósendur sér annað.

En það að má segja að það ríki krísa í Evrópusambandinu - nokkuð stöðugt. Í upphafi snerist hún fyrst og fremst um fjármálamarkaði, banka og euroið, en hún hefur færst í vaxandi mæli yfir á hið pólítíska svið.  Það er eðlilegt, enda euroið í eðli sínu verkefni sem tók meira tillit til hins pólítíska veruleika en hins efnahagslega.

Stjórnmálaleiðtogar hverfa á braut nú með vaxandi hraða.  Cameron, Renzi, Hollande þorir ekki að bjóða sig fram, fæstir höfðu áhuga á því að sjá Sarkozy aftur, nýjar ríkisstjórnir hafa verið myndaðir í Danmörku, Eistlandi og Litháen.

Svo verða kosningar í Frakklandi og Þýskalandi á næsta ári, þó að ég reikni og voni með að þær verði með heldur "hefðbundnari" sniði, ef nota má það orðalag.

Svo eiga eftir að verða magnaðar deilur innan "Sambandsins" næstu tvö árin, í það minnsta, vegna Brexit.

Það er í raun ótrúlegt að enn skuli aðildarumsókn vera stórt atriði í stjórnarmyndunarviðræðum á Íslandi.

 


mbl.is Frestar afsögn fram yfir fjárlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þið talið bara við Brussel: Hafa Íslendingar hug á að hegna helsta viðskiptalandi sínu?

Það er hárrétt hjá Lilju Alfreðsdóttur að þau gerast ekki mörg stærri utanríkismálin en að halda vel á spöðunum fyrir Ísland, vegna fyrirhugaðrar úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu.

Á sama tíma tala "Evrópusambandshaukar" um nauðsyn þess að refsa Bretlandi fyrir að voga sér að ætla að yfirgefa hinn hátimbraða selskap.

Það sé nauðsynlegt að sýna þeim ítrustu hörku og "láta þá finna fyrir því". Engu skiptir þó margt bendi til þess að "Sambandið" og einstök aðildarríki þess geti farið mun verr út úr slíkri hörku en Bretland.

En skyldu Íslendingar vera almennt þeirrar skoðunar að þeir vilji taka þátt í því að hegna einu af sínum helstu viðskiptalöndum?

(Ég veit að Íslendingar vildu gjarna ná í skottið á Gordon Brown og Verkamannaflokknum, en sem betur fer eru þeir ákaflega áhrifalitlir í breskum stjórnmálum nú um stundir).

En stóra spurningin er vilja Íslendingar taka þátt í því að hegna Bretum og setja enn meiri óvissu um framtíð viðskipta okkar við þá?

Ég myndi svara þeirri spurningu neitandi. Og ef Íslendingar gera það almennt ætti flestum skynsömum mönnum að vera ljóst að það að sækja um aðild að Evrópusambandinu, að endurvekja dauðu umsóknina, eða jafnvel að greiða atkvæði um hvort að Íslendingar vilji að aðildarviðræður "hefjist að nýju" gerir það að verkum að Bretar hafa ekkert við Íslendinga að ræða. 

Í það minnsta ekki fyrr en Íslendingar hefðu sagt nei við frekari aðildarviðræðum. Ef það yrði niðurstaðan.

Eru skilaboðin sem Íslendingar og íslenskir stjórnmálamenn vilja senda til Breta:  Þið talið bara við Brussel?

Æ fleiri, ekki síst á vinstri væng íslenskra stjórnmála, sjá hvað mikið feigðarflan aðildarumsókn að "Sambandinu" er við þær kringumstæður sem uppi eru nú, á Íslandi, í Evrópusambandinu og umheiminum öllum.

En samt eru meirihluti þeirra flokka sem nú sitja og ræða hugsanlega tilurð 5 flokka vinstri stjórnar með það á stefnuskránni að halda áfram með hinar strönduðu aðlögunarviðræður.

Sumir líta á það sem eitt af sínum helstu stefnumálum eða jafnvel tilgang.

Persónulega held ég að Íslendingar hafi ekki "efni" á því að hafa slíka flokka við stjórnvölinn nú.

Ja, nema auðvitað að þeir ákveði að hugsa fyrst og fremst um þjóðarhag og fari að svíkja kosningaloforð.

 

 


mbl.is Eitt stærsta utanríkismálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk verslun stendur frammi fyrir stærstu prófrauninni

Það er mikið barið á versluninni þessar vikurnar. Sumpart er það auðvitað gott og æskilegt, enda henni nauðsynlegt eins og öllum öðrum að viðskiptavinir sýni henni aðhald og sýni í verki, bæði ánægju sína og óánægju.

En þegar talað er um að verslunin hafi ekki skilað að fullu, eða jafnvel engu af gengistyrkingu og tollalækkunum, er gagnrýnin að ýmsu leyti ekki sanngjörn.

Í fyrsta lagi er innkaupsverð ekki nema hluti af því sem myndar verðið. Að sjálfsögðu spilar launakostnaður þar inn í og sem betur fer hafa laun á Íslandi hækkað nokkuð myndarlega undanfarin misseri og kaupmáttur aukist verulega.

Húsnæðiskostnaður spilar einnig verulega rullu og eftir því sem mér hefur skilist hefur húsaleiga á Íslandi hækkað verulega á undanförnum árum.

En það sem þarf ef til vill ekki hvað síst að taka með í reikninginn, er að tala um meðalstyrkingu krónunnar segir ekki nema afar takmarkaða sögu.

Mikið nær er að líta til styrkingu krónunnar gagnvart bandaríkjadollar, því það er sú mynt sem ræður langmestu í viðskiptum í heiminum, burtséð frá því í hvaða mynt varan er svo greidd.

Þannig er eins og flestir vita olía verðlögð í dollurum.  Það sama gildir í raun um allar hrávörur, matarkyns sem aðrar.

Flutningar eru verðlagðir í dollurum. Segja má að flest öll rafmagnstæki, hverju nafni sem þau kunna að nefnast séu verðlögð í dollurum.  Framleiðsla á þeim fer að miklu leyti fram í Asíu, og þó að þau kunni að vera samsett annars staðar, eru íhlutirnir næstum undantekningarlaust verðlagðir í dollurum og hafa þannig bein áhrif á verðið.

Það sama gildir að miklu leyti um fatnað, þó að líklega megi segja að það gildi síst um dýrari hluta fatnaðar.

Það er líka vel þekkt að bæði heildsalar og framleiðendur verðleggja vörur sínar eftir því hvað þeir telja "markaðssvæðið" bera. Þar hafa Norðurlöndin oft haft þann vafasama heiður að vera í hæsta flokki.

Það er því býsna margt sem þarf að taka með í reikninginn áður en við fullyrðum að "verslunin" sé að hlunnfara neytendur, þó að ég efist ekkert um að ýmsir söluaðilar geti gert betur.

En auðvitað er tilhneyging hjá verslunaraðilum að verðleggja vörur á því verði sem þeir telja sig geta selt þær á, og er í raun ekki hægt að segja að slíkt sé með öllu óeðlilegt.

Það er líka þekkt staðreynd að lægra verð skilar sér ekki nauðsynlega í meiri sölu, sérstaklega á vörum sem sæta "huglægu" mati.

En það er aðeins samkeppni og árvekni neytenda sem mun til langframa geta skilað neytendum betra og sanngjarnara verði.

Þar mun íslensk verslun fljótlega standa frammi fyrir einni af sínum stærstu prófraunum.

Tvær risastóra verslunarkeðjur munu innan skamms hefja starfsemi á Íslandi. Costco og H&M. Það sem er athyglisvert við þessar fyrirhugðu opnanir, er að verslanirnar verða reknar af hinum erlendu eigendum, en ekki íslenskum umboðsaðilum eða einkaleyfishöfum.

Ég held að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist, en þó er það sjaldgæft og það er sömuleiðis þarft að taka með í reikninginn að um er að ræða sannkallaða risa á sínum sviðum.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvernig verðþróun á Íslandi verður og hvernig markaðshlutdeild hinna nýju aðila mun þróast.

Því enn og aftur munu það verða neytendur sem stjórna hvernig málin æxlast.

Það er sömuleiðis vert að gera sér grein fyrir því að þessi fyrirtæki eru óhrædd við íslensku krónuna, en talað er um að það sem hafi ráðið miklu um að þau töldu Ísland vænlegan markað, væri einföldun á viðskiptaumhverfinu, niðurfellingar á tollum og vörugjöldum.

Þar stóð fráfarandi ríkisstjórn sig afar vel, og er óskandi að sú sem tekur við haldi áfram sömu braut og taki engar U-beygjur.

En takist þessum erlendu aðilum vel upp, eru allar líkur á að fleiri slíkir muni hassla sér völl á Íslandi og samkeppni aukast, öllum til góða.

Þessi samkeppni mun einnig leiða í ljós hvernig íslenskir kaupmenn hafa staðið sig og hvort þeir geti staðist hana.

Það eru því áhugaverðir tímar framundan hjá bæði íslenskri verslun og neytendum.

 

 


mbl.is Sterkt gengi ekki skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamir Norðmenn?

Mikið er rætt um hvort að best sé fyrir Íslendinga að taka upp erlendan gjaldmiðil.  Þá ýmist með Evrópusambandsaðild eður ei.

Einn stjórnmálaflokkur lagði mikla áherslu á að festa krónuna við erlendan gjaldmiðil, euroið. Ég hef jafnvel heyrt verkalýðsforingja segja að það sé eins og tónlist í eyrum hans.

Eitt af þeim ríkjum sem Íslendingar tala gjarna um að ætti að taka til fyrirmyndar er Noregur. Þeim hefur enda að mörgu leyti tekist vel upp við að byggja upp sitt þjóðfélag.

Reyndar gengu hlutirnir svo langt að margir vildu taka upp norska krónu, og enn aðrir vildu hreinlega ganga Noregskonungi á hönd. Vildu að Ísland yrði fylki í Noregi. Það er þetta með að sagan endurtaki sig.

Fylgi við þá skoðun virðist hafa dregist saman, nokkuð í samhengi við olíuverð, þó líklega heldur skarpar ef eitthvað er.

En hvað gerðu Norðmenn þegar olíuverð féll skarpt?  Héldu þeir gengi krónunnar óbreyttu, eyddu þeir varasjóðum sínum til þess að verja krónuna?

Skyldi Norðmönnum ekki hafa flogið í hug að farsældin fælist í föstu gengi?

Þeir hafa "Sjóðinn" sem hefði getað varið krónuna þeirra falli, í það minnsta um all langa hríð.

En samt kusu þeir að láta krónuna falla.

En þýðir það ekki að norskur almenningur býr við skert kjör?  Vissulega, innfluttar vörur hafa hækkað, og norskir ferðalangar eru ekki "jafn ríkir", ferðist þeir til Eurosvæðisins, Bandaríkjanna nú eða Íslands.

En "skerðingin" lagðist jafnt á allar norskar krónur. Það var ekki svo að þeim fækkaði í launaumslögunum, en stæðu fullgildar í bönkunum.  Það er hins vegar leiðin sem þjóðir Eurosvæðisins fara.

En samfara verðfalli bæði olíu og norsku krónunnar hefur atvinnuleysi aukist, enda miklar uppsagnir í olíuiðnaðinum.

En aðrar útflutningsgreinar (t.d. útgerðir, fiskeldi og fiskvinnsla) hafa notið gengislækkunarinnar og dregið úr högginu. Og ferðaþjónusta hefur átt býsna góð ár, þrátt fyrir að dregið hafi úr fjölda viðskiptaferðalanga vegna samdráttar í olíunni.

Innovasjon Norge segir m.a. í skýrslu 2015:

Part of the reason for this increase is the low exchange rate, which boosts foreign tourists’ spending power in Norway, but the low exchange rate is not the only cause behind the increase in Norway’s share of international tourism.

Allt þetta þekkja líkega margir Íslendingar.

En svo er auðvitað hættan sem blasir við, að ef olíuverð hækkar, þá muni norska krónan styrkjast.

Sú er auðvitað einnig hættan sem blasir við Íslendingum nú, þegar krónan styrkist jafnt og þétt.

Ýmsir vilja koma í veg fyrir þá styrkingu með lagasetningu.

En það er líka spurning hvað gerist þegar höftin í kringum krónuna hverfa að mestu, hvort ekki verði meira jafnvægi á inn og útstreymi.

En hér fyrir neðan má sjá gengisþróun norsku krónunar gagnvart dollar og euroi síðastliðin 5 ár.

NOK vs euro 5y

Nok vs USD 5y

 


Vinstri flokkarnir boða leið franskra sósíalista

Það er líklega ekki seinna vænna fyrir íslensku vinstriflokkana að taka up leið franskra sósíalista hvað varðar 35 stunda vinnuviku.

Því meira að segja franskir sósíalsistar eru að gefast upp á þessu baráttumáli sínu.

Það hefur einfaldlega ekki virkað.

Stytting vinnuuvikunnar átti að draga úr atvinnuleysi (er þörf fyrir það á Íslandi) og "dreifa" störfum á meðal launþega.

En eins og flestir vita er atvinnuleysi í Frakklandi í kringum 10% og hefur verið það lengi. (Atvinnuleysi dróst þó saman stuttu eftir innleiðingu 35 stunda vikunnar árið 2000, en þá voru sömuleiðis betri tímar (um skamma hríð í efnahagnum).

Nú vilja Frakkar frekar láta það eftir aðilum vinnumarkaðarins að semja sín á milli um vinnutíma og hafa hann jafnvel mismunandi eftir fyrirtækjum og starfsstéttum.

En Íslenskir sósíalistar eru oft dulítið á eftir "kúrfunni".

Þess má svo til gamans geta að skoðanakannanir benda til þess að Hollande sé nokkurn veginn eini sósíalistinn í Evrópu sem nýtur minni stuðnings en Samfylkingin, en samkvæmt nýjustu könnunum eru 4% Frakka ánægðir með hann sem forseta.

Spurning er hvort að Samfylkingin geti gert betur en það á kjördag?

 

 


mbl.is Styttri vinnuvika innan seilingar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband