Færsluflokkur: Evrópumál

Getur verið betra fyrir Ísland að stand eitt að samningum við Breta?

Framundan eru gríðarlega mikilvægar samningaviðræður á milli Íslendinga og Breta um fríverslun og aðra þætti í samskiptum þjóðanna.

Ég er ekki viss um að betri niðurstaða muni fást í slíkar viðræður með því að vera í "nánu samstarfi" við aðrar þjóðir, hvort sem það er Noregur, Liechtenstein, eða aðrar þjóðir.

Þó að vissulega séu hagsmunir Íslands og t.d. Norðmanna á margan hátt svipaðir er ekki þar með sagt að samflot sé endilega besta lausnin.

Það er t.d. ljóst að það er verulega ólíklegt að Ísledingar hefðu náð fríverslunarsamningi við Kínverja hefðu þá verið reynt "samflot" við Norðmenn.

Smæðin þarf alls ekki alltaf að vera galli.

Ef til vill munu þó Bretar frekar kjósa að semja við fleiri en eina þjóð í einu, því þeir munu vissulega verða með næg verkefni hvað fríverslunarsamninga ræðir og hafa takmarkaðan tíma og samningamenn.

En ég held að Íslendingar þurfi ekki að óttast að vera einir og það gæti skilað betri niðurstöðu.

 

 

 

 

 


mbl.is „Við blasa krefjandi verkefni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En það er svo frábært að búa á Spáni, er það ekki?

Það hefur verið allt að því "kómískt" að fylgjast með umræðunni á Ísland nú um all nokkra hríð, þar sem borið hefur verið saman að lifa á Spáni og Íslandi.

Ef hægt er að sameina þetta tvennt, hafa tekjur frá Ísland og lifa á Spáni þá lítur þetta allt ljómandi vel út.

Það kanna þó að vera að það sé ekki svo frá sjónarhóli margra Spánverja, sem þurfa að reiða sig á Spænskar tekjur eða búa jafnvel við atvinnuleysi.

En það er svo margt sem þarf að bera saman, ekki bara verð á bjór, rauðvíni og kjúkling.

Það er ekki tilviljun að þær þjóðir þar sem alla jafna ríkir hvað mest velmegun og velferð, eru þær þjóðir sem er hvað dýrast að lifa.

En það er ýmis réttindi, og kostnaður sem fylgir þeim sem er vert að hafa í huga þegar "lífið" er borið saman í mismunandi löndum.

Mér skilst t.d. að konur eigi rétt á 16. vikna fæðingarorlofi á Spáni, feðraorlof var lengt á nýliðnu ári úr 5. í 8 vikur. Að vísu á fullum launum, en líklega þætti það stutt á Íslandi nú orðið.  Í fjölburafæðingum lengist orlof konunnar um 2. vikur fyrir hvert barn umfram 1.

En dagvist er bæði einka og ríkisrekin á Spáni.  Eitthvað er misjafnt hvað gjaldið er og sums staðar er það tekjutengt. Þannig getur það verið frá 50 euroum til u.þ.b. 500 til 600 euro.

En það sem er ef til vill eftirtektarverðast fyrir Íslendinga er hlutfall barna/starfsfólks.  Undir 3ja ára aldri má hlutfallið vera 8/1, en á frá 3ja til 6 getur hlutfallið verið 20/1. Meðaltalið er víst talið um 13/1, en það er líka OECD meðaltalið.  En leikskólar geta svo verið opnir til 9. á kvöldin. 

Hvað ætli Efling og Dagur B. segðu við slíku?

Meðallaun á Spáni (2018) eru 2330 euro (eða 311,540 ISK) en lágmarkslaun eru u.þ.b. 900 (2019) euro (124,200 ISK), eða 30 euro (4.140 ISK) til að lifa á hvern dag.

Lágmarks ellilífeyrir er eftir því sem ég kemst næst 600 euro, en meðal ellilífeyrir ca. 906 euro.

En það er margt gott á Spáni, húsnæðisverð og leiga er mun lægra en á Íslandi (og víða annars staðar), sérstaklega ef eingöngu er leigt yfir vetrarmánuðina (það gildir um vinsæla strandbæi, þar sem oft er hægt að leigja út á mjög háu verði júní til águst, ágúst gjarna lang dýrastur).

Hér hefur verið tæpt á örfáum atriðum, heildarkostnaður við að "lifa" er samansettur úr fjölda hluta til viðbótar, mismunandi eftir einstaklingum.

En að er áríðandi að þegar verið er að bera saman kostnað á milli landa, að reyna að líta á heildarmyndina, eða alla vegna eins stóran hluta af henni og mögulegt er.

 

 


mbl.is „Sláandi ójöfnuður“ á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er alltaf best að skriffinnar ráði ferðinni í tækniframþróun?

Árátta Evrópusambandsins að "staðla" allt til "hagsbóta" fyrir neytendur er velþekkt.  Persónunlega er ég þó þeirrar skoðunar að athygli þeirra hafi oft á tíðum farið á ranga staði og "staðlarnir" hafi náð yfirhöndinni þar sem það er ekki nauðsynlegt, en ef til vil síður þar sem þörf væri á, það er ef til vill önnur saga.

En deilur á milli Apple og "Sambandsins" hafa verið nokkuð til umfjöllunar upp á síðkastið.

Það verður ekki á móti því mælt að það er ákveðin hagræðing sem fellst í í því að aðeins megi nota eitt tengi til þess að hlaða farsíma og ákveðin tæki.

Eins og "Marteinn Mosdal" hefði komist að orði:  Eitt ríkistengi, fyrir alla, ekkert markaðskjaftæði.

Og það mun sjálfsagt spara neytendum örlítið fé, samkeppni í sölu á snúrum mun aukast og svo kallaðir "3ju aðilar" eiga greiðari leið að markaðnum. Þeir sem lítið þekkja til tækninnar munu síður eiga á hættu að kaupa ranga snúru.

En hvað ef svo er fundin upp mikið betri tenging?

Þá þarf auðvitað að bíða eftir því að "Marteinar" Evrópusambandsins samþykki þá tengingu og geri hana að "hinni einu réttu tengingu".

En ef svo er fundin upp enn betri tenging?  Hvað gere "Mosdalir" Evrópusambandsins þá?

Þannig er auðvelt að sjá að rök Apple um að slíkar samþykktir hefti framþróun eigi við rök að styðjast.

Ætli það sé algengt að kaupendur Apple síma og "padda" geri sér ekki grein fyrir því að "tengin" á þeim eru öðruvísi?

Það er ef til vill ekki tilviljun að flest öll stærri tæknifyrirtæki samtímans eru ekki staðsett í "Sambandinu".

 


Það breyttist margt í gær

Það má sjá víða að "Sambandssinnar" reyna að gera eins lítið úr þeim breytingum sem urðu í gær og þeir telja sig komast upp með.

Það er vissulega rétt að stóru breytingarnar verða að 11. mánuðum liðnum, um áramót.

Það verður t.d. þá sem tekjur "Sambandsins" munu dragast saman um u.þ.b. 12%, nema að aðrar þjóðir taki upp "slakann".  En visslega kemur sparnaður fram hvað varðar framlög til Bretlands. En Bretland hefur verið næst stærsti nettó borgandi til "Sambandsins" á eftir Þýskalandi.

En það þýðir ekki að stórar breytingar hafi orðið í gær.

Eins og Eiríkur réttilega segir, þá gekk Bretland úr Evrópusambandinu í gær, fyrsta ríki (sumir vilja blanda Grænlandi í þá umræðu) til að gera slíkt. Það eitt er risa atburður.

Þar með eru aðildarríki "Sambandsins" 27, en ekki 28.

Þar með fækkaði íbúum "Sambandsins" um u.þ.b. 66.5 milljónir einstaklinga. Eftir því sem ég kemst næst er hægt að segja að það sé fækkun um 13% eða svo.

"Þjóðarframleiðsla" "Sambandsins", (hér er miðað við árið 2018) dróst saman um 15% og hlutfall "Sambandsins" af efnahag heimsins sökk all nokkuð niður á við.

En venjulegir íbúar, hvort sem er Bretlands eða "Sambandsins" munu ekki finna fyrir breytingum, fyrr en um næstu áramót.

En eitt það mikilvægasta sem breytist er að Bretland getur nú gert viðskiptasamninga við hvaða ríki sem er, líklegt er að einhverjar þreifingar hafi átt sér stað nú þegar, en nú geta slíkar samningaviðræður farið í formlegt ferli.

Það er erfitt að spá um hvernig slíkar viðræður munu ganga en fríverslunarsamningur á milli Bandaríkjanna og Ástralíu, var undirritaður eftir u.þ.b. 10 eða 11 mánaða viðræður.

Ég yrði því ekkert hissa ef Bretland næði samningum við önnur ríki á undan "Sambandinu".

Það er reyndar eins líklegt og ekki að Bretland gangi úr "Sambandinu" án samnings.

En það breytist líka eitt og annað hjá "Sambandinu".  Valdahlutföll á Evrópusambandsþinginu breytast.  Eftir því sem ég kemst næst verður það EPP mest í hag og þingið talið mjakast heldur til hægri.

Líklegt er að valdajafnvægið breytist, og sígi heldur í "suður" þó að Þýskaland og Frakkland muni eftir sem áður ráða svo gott því sem þau vilja ráða. En það á vissulega eftir að koma í ljós hvernig úr stöðunni spilast og ríki s.s. Pólland munu reyna að mjaka sér í tómarúmið sem Bretland skilur eftir sig.  En því vantar nokkuð upp á efnahagslega vikt enn sem komið er.

Hvað varðar hvort að Bretland eigi eftir að sækja um inngöngu í "Sambandið" aftur, yrði ég ekki hissa þó að einhver tali um það fljótlega, ef ekki nú þegar.

En ég held að breskir kjósendur hafi almennt engan áhuga á því að taka þá umræðu upp nú.

Ég er heldur ekki viss um að "Sambandið" hafi mikinn áhuga á því að fara í aðlögunarviðræður við Bretland eftir fá ár.

Ég held því að á næstu mánuðum muni koma í ljós að það var sitt hvað sem breyttist í gær, en það er rétt að stóru breytingarnar verða að 11. mánuðum liðnum - líklega.

 


mbl.is Barátta fyrir inngöngu í ESB mun hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drífa í hlutunum - Hafa líkurnar á því að Bretland yfirgefi "Sambandið" án samnings hafa minnkað?

Það hafa ýmsir viðrað þá skoðun að það sé ekki klókt af Boris Johnson og ríkisstjórn hans að binda það að aðeins verði gefnir 11. mánuðir til þess að ljúka samningi á milli Bretlands og "Sambandsins" eftir að Breland gengur úr "Sambandinu" þann 31. janúar næstkomandi.

En ég er þeirrar skoðunar að það sé afar klókt af honum.

Hann sendir einföld en skýr skilaboð til "Sambandsins": Við spilum ekki eftir ykkar reglum og taktík lengur.

Annað hvort einhenda menn sér í verkið eða Bretland gengur út án samnings.

Bretland ætlar ekki að taka við löggjöf frá öðrum ríkjum.  Ekki láta dómstól annarra ríkja vera "efsta lagavald", og ekki fara eftir duttlungum "Sambandsins" við samningaborðið.

"Sambandið" og Breskir "aðstoðarmenn" þess hafa haldið Breskum stjórnmálum í gíslingu um all nokkra hríð.

Boris segir ekki lengur.  Breskir kjósendur hjuggu á hnútinn og nú er samhent þing og rikisstjórn við völd í London.

Bretland vill út, og fer út, með eða án samnings.

Ég fagna þessari afstöðu Bretlands.  Það verður án efa erfitt að skilja við "Sambandið" og ýmis vandamál eiga eftir að koma fram, og það verður ekki gert lítið úr þeim.  En til lengri tíma opnar þetta möguleika sem verða til hagsbóta fyrir Breta.

En það er ekki sopið kálið, eins og stundum er sagt. Ég held hins vegar að með Boris Johnson og nýtt þing hafi Bretar hitt á nokkuð rétta blöndu. 

Það er áríðandi að við stjórnvölinn séu einstaklingar sem hafi trú á Bretlandi og getu þess til að standa utan "Sambandsins".

Það vantaði þangað til Boris kom til sögunnar.

En það þarf að vinna rösklega og ljúka málinu. 

Þæfingurinn og "málþófið" undanfarin ár hefur nú þegar kostað Bresku þjóðina risavaxnar fjárhæðir, því hvort sem að menn eru með eða móti Brexit, sorglegt að þurfa að segja að það hafi verið vísvitandi. Flestum sé ljóst að óvissan og þæfingurinn er það versta.

Það þarf niðurstöðu.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr stöðunni, hve fljótt fyrstu fríverslunarsamningarnir koma og hvernig viðræðurnar við  "Sambandið" munu ganga.

En það er rétt hjá Boris að fullveldið er auðlind, en rétt eins og aðrar auðlindir þarf að halda á notkunni af skynsemi.  Það kemur í ljós á næstu árum hvernig Bretum gengur.

En það er líka vert að hugsa um hvernig samningsaðilar eru að taka sér stöðu.  Er rökrétt að fisveiðiréttur sé upp á borðum í viðskiptasamningum? Myndi Íslendingum einhverntíma hugnast að skipta á fiskveiðiréttindum og betri viðskiptakjörum? 

Er rökrétt að samstarf í öryggismálum tengt viðskiptasamningum?  Er rökrétt að ríki taki upp mikið af löggjöf frá öðru ríki til að fá betri viðskiptakjör?

Myndu Íslendingar geta hugsað sér í framtíðinni að taka við einhverri framtíðarlöggjöf frá Bandaríkjunum, í staðinn fyrir betri viðskiptakjör? (Ekki mín tillaga :-)

Með útgöngu Breta úr "Sambandinu" hefst að ýmsu leyti nýr kafli, með tækifærum og hættum, það er mikilvægt að halda vel á spöðunum - fyrir alla aðila.

Dagurinn í dag er tímamótadagur í mörgum skilningi.

P.S. Ég sá að RUV hafði fjallað um Brexit í Kastljósinu, svo að ég ákvað að horfa á það. RUV hefur líklega ekki símanúmer hjá neinum sem lítur jákvætt á útgöngu Breta, enda var talað við Baldur Þórhallsson og Gylfa "Kúbu norðursins" Magnússon.

Hallinn í fjölmiðlum fellst oftar en ekki hvernig er staðið að vali á viðmælendum.

 


mbl.is Fullveldið mikilvægara en tollalaus viðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sovétið, sagnfræðin, ártölin og landamærin

Það er auðvelt að sjá að það hafi verið umdeild ákvörðun að leyfa Putin að ávarpa gesti minningarathafnar um Helförina.

Því þó að Putin sé Rússi, er hann líka "Sovíetmaður" (homo soveticus), en þá má ennþá finna nokkuð víða, líklega einnig á Íslandi. Sumir vilja meina að "Sovíetmaðurinn" hafi þróast yfir í "Putinmanninn".

En "Sovíetmenn" vilja að sjálfsögðu fyrst og fremst láta minnast þátttöku sinnar í heimstyrjöldinni síðari sem  hetjulegrar framgöngu hins "mikla frelsara". Þeirri ímynd hafa þeir haldið stíft á lofti, og reyndar gerðu Vesturveldin slíkt hið sama lengi vel, til að réttlæta fyrir þegnum sínum samstarf sitt við hina "Sovíesku kommúnista".

Það var á meðan á því samstarfi stóð, sem goðsögninni um "Jóa frænda" (uncle Joe), sem í raun var einn afkastamesti fjöldamorðingja sögunnar, var komið á flot og kommúnistar um víða veröld kynntu undir.

En þó að þátttaka Sovíetríkjanna í Seinni heimstyrjöldinni hafi alls ekki verið án hetjulegrar framgöngu, var hún mun flóknari en svo.

Ef frá er talinn hernaður Japana í Kína, er rökrétt að líta á svo að upphaf þess hildarleiks hafi verið svokallaður "Molotov-Ribbentrop samningur" á milli Sovíetríkjanna og Þýskalands Hitlers.

Með þennan samning að leiðarljósi gerðust Sovíetríki árásaraðili og voru upphafsaðili að hinum Evrópska hluta hildarleiksins.

Með samninginn að leiðarljósi réðust þau inn í Pólland þann 17. september 1939, þann 30. nóvember sama ár inn í Finnland (Vetrarstríðið), 1939-40 hertu Sovíetríkin svo snöruna hægt og rólega að Eystrasaltsríkjunum (sem "Molotov-Ribbentrop samningurinn" hafði "úthlutað" þeim) og tóku þó alfarið yfir um miðjan júnímánuð 1940.

Þeirra tíma "Rússadindlar" litu alltaf svo á að Eistland, Lettland og Litháen hefðu ákveðið af fúsum og frjálsum vilja að ganga inn í Sovíetríkin. Íslenskir kommúnistar voru (rétt eins og segja má um svo gott sem alla kommúnista, hvar sem þeir voru) fylgdu þessari línu og vildu t.d. gera lítið úr venslum Íslendinga og Finna.

Rétt eins og nútíma "Rússadindlar" trúa því að kosningarnar á Krímskaga hafa verið frjálsar og lýðræðislegar.

Sagan á það til að bergmála, enda báðar yfirtökurnar, ef svo má að orði komast, leiknar eftir sömu KGB handbókinni.

En það skiptir vissulega máli til hvaða landamæra er litið þegar talað er um hvað margir ríkisborgarar Sovíetríkjanna létu lífið, eða hvað stór hluti af þeim gyðingum sem voru myrtir í útrýmingarherferð Þjóðverja tilheyrðu Sovíetríkjunum.

Eru þau landsvæði sem Sovíetríkin höfðu tekið með hervaldi af Póllandi, Eistland, Lettland og Lítháen talin með Sovíetríkjunum?

Ég veit að íbúar Eystrasaltsríkjanna líta ekki svo á og þykir líklegt að svo geri Pólverjar ekki heldur.

Þannig eru Rússar/Sovíetmenn bæði "hetjan" og "skúrkurinn" að svo mörgu leyti hvað varðar Seinni heimstyrjöldina.

Þeir neyddu fjölmarga íbúa Eystrasaltsríkjana í Rauða herinn (Þjóðverjar beittu marga þeirra einnig nauðung hvað þeirra her varðar) og marga þeirra sem þannig gengdu hermennsku óviljugir voru myrtir af Sovíetríkjunum vegna þjóðernis síns.

Þá erum við ekki byrjuð að tala um framferði þeirra eftir að styrjöldinni lauk og þeir höfðu "frelsað" risa stór landsvæði.

Því ferðalagi gripavagnanna í Evrópu lauk ekki með stríðinu, heldur hurfu hundruðir þúsunda einstaklinga í mið og austur Evrópu í "Gulagið" Sovíeska, þaðan sem stór hluti átti ekki endurhvæmt.

En eftir því sem ég hef lesið lætur það nærri sem sagt er í fréttinni að u.þ.b. 16% af þeim gyðingum sem voru myrtir í helförinni hafi verið Sovíeskir ríkisborgarar, þ.e.a.s. ef miðað er við landamærin sem voru við gildistöku "Molotov-Ribbentrop samningsins".

En það tók Sovíetríkin/Rússland langan tíma að viðurkenna "leynihluta" þess samnings.

En engin þjóð sem Sovíetríkin "frelsuðu" hlaut frelsi, nema ef til vill Austurríki.

En það er svo margt sem gerðist í aðdraganda/í Seinni heimstyrjöldinni/eftirmála hennar, sem er þarft að ræða um.

Til dæmis:  Hvers vegna töldu Bretland og Frakkland sig umkomin að semja við Þjóðverja um Tékkóslóvakíu?

Hvers vegna var Sovíetríkjunum leyft að að halda öllu þeim landsvæðum sem Þýskaland Hitlers hafði lofað þaim (Eystrasaltsríkjunum og austurhluta Póllands) að Finnlandi undanskildu?

Putin virðist telja það Rússland sem hann ríkir yfir réttmætan arftaka Sovíetríkjanna þegar kemur að því sem telst jákvætt hvað varðar framgöngu þeirra í Síðari heimstyrjöldinni.

Til að gera tilkall til þess verður hann að gangast við því skelfilega sem þau einnig gerðu.

Það er það sem vantar upp á.


mbl.is Sagnfræðingar segja staðhæfingar Pútíns fáránlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Air Primera Íslenskt flugfélag?

Það vekur athygli mína þegar ég les þessa frétt að talað er um að tvö Íslensk flugfélög hafi hætt starfsemi í lok 2018 og í upphafi árs 2019.

Ég skil það svo að hér sé verið að ræða um Air Primera og WOW. Það er enda svo sagt í frétt um sama málefni í öðrum fjölmiðli.

En mér hafði alltaf skilist að Air Primera væri rekið frá Danmörku og Lettlandi, og hefði að því leyti ekkert með Ísland að gera, nema jú að eignarhaldið væri tengt Íslenskum aðilum.

Wikipedia síður um starfsemina í Danmörku og Lettlandi virðast staðfesta það, og frétt á Vísi.is um það leyti sem starfsemin var að stöðvast gerir það einnig.

Flugrekstraleyfið var Lettneskt, rekstrarfélagið var erlent, mikið af  flugum félagins var á milli áfangastaða sem ekki tengdust Íslandi.

Hvers vegna er þá mengunin af rekstrinum talin til Íslands?

Ekki að það skipti neinu máli hvað varðar mengunina, hún var auðvitað sú sama eftir sem áður. 

En auðvitað sýnir þetta að "mengunarbókhaldið" er ekki einfalt í fluginu, enda mörg flugfélög með mikla starfsemi sem tengist ekki heimalandinu.

En ég get ekki séð annað en að flug Air Primera hafi átt að vera tengt eignarhaldinu, rétt eins og annarra erlendra flugfélaga sem fljúga til Íslands.

En ef einhver hefur frekari upplýsingar um þetta eru þær vel þegnar.

 

 


mbl.is Samdráttur skilar minni mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkt umboð fyrir Breska Íhaldsflokkinn

Á komandi dögum og vikum eigum við eftir að sjá alls kyns skýringar og vangaveltur um Bresku þingkosningarnar.

Úrslitin eru bæði mögnuð og margslungin.

Upplausnin sem hefur ríkt í Breska þinginu ætti að vera að baki, en á sama tíma mun ákall um sjálfstætt Skotland verða hávært og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi. Staða Skoska þjóðarflokksins enda sterk, þó að nokkuð vanti upp á sama styrk og 2015.

En Íhaldsflokkurinn hefur gríðarlega sterkt umboð frá kjósendum og ljóst er að þeim var best treyst til að koma á ró og festu í Breskum stjórnmálum, en þar hefur verulega vantað upp á undanfarna mánuði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Ég hugsa að sterkri stöðu Íhaldsflokksins sé fagnað víðast um lönd, jafnvel innan "Sambandsins".  Líklega hafa einhverjir innan "Sambandsins" gælt við þann draum að niðurstaða kosninganna yrði á þann veg að hætt yrði við "Brexit", en ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að mestu skiptir að traust og starfhæf ríkisstjórn sé í Bretlandi, þannig að reikna megi með því að hún komi málum (og samningum) í gegnum þingið.

En Johnson og Íhaldsflokkurinn stendur sterkt á miðjunni og hægri vængnum, en Verkamannaflokkurinn, með sitt sósíalíska/marxíska yfirbragð, hefur likt og svo margir sambærilegir Evrópskir flokkar, misst tengingu við þá kjósendur sem þeir telja sig starfa fyrir, verkafólk.

Corbyn sem margir töldu þegar hann komst til valda í Verkamannaflokknum, tákn um "nýja framsókn sósíalismans", fær frekar háðulega útreið.

Svipaða sögu má segja af Jo Swinson, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, sem margir sáu framtíðarleiðtoga í, ja, bara fyrir fáum vikum.  All nokkrir þingmenn bæði frá Verkamamanna- og Íhaldsflokknum gengu til liðs við flokkin sem samsamaði "Sambandinu" og var í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu draga úrsögnina til baka.

Eftir stendur Boris Johnson sem ótvíræður sigurvegari.

En hans bíður erfitt hlutverk, því væntingarnar eru miklar.

En hingað til hefur hann staðið sig vel og spilað vel úr erfiðri stöðu.  Nú hefur hagur hans vænkast og verður fróðleglegt að fylgjast með framhaldinu.

P.S. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun sem ég bloggaði um þegar Johnson var kjörinn leitogi, að það hefði átt að gerast fyrir ríflega 3. árum.


mbl.is Þakkar stuðningsmönnum Verkamannaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Corbyn tilkynnir að hann muni ekki leiða Verkamannaflokkinn í fleiri kosningum - leiðtogi Frjálslyndra demókratata nær ekki kjöri

Allt stefnir í að Verkamannaflokkurinn fái sín verstu kosningaúrslit í áratugi.  Afstöðu flokksins til Brexit og sósíalisma Corbyns hefur verið hafnað.

Persónulega fékk hann þó glimrandi kosningu í sínu kjördæmi, Islington.

En hann tilkynnti þegar þau úrslit voru kynnt, að hann myndi ekki leiða Verkamannaflokkinn í fleiri kosningum.

En hann segir ekki af sér tafarlaust, heldur hyggst leiða flokkkin í "uppgjöri við kosningaúrslitin" og þangað til nýr leiðtogi verður kjörinn.

Það bendir til þess að "Corbynistarnir" í flokknum muni reyna að halda völdum, hvort það tekst verður fróðlegt að sjá.

Það hafa verið fjöldi athyglisverðra úrslita í þessum kosningum.  Íhaldsflokkurinn hefur verið að taka kjördæmi sem hafa verið í höndum Verkamannaflokksins í áratugi, í sumum tilfellum hart nær öld.

Ef til vill er það táknrænt að fyrir stuttu var tilkynnt að fyrrum kjördæmi Tony Blair, hefði verið unnið af Íhaldsflokknum.

Það er líka athyglisverðar niðurstöður frá Skotlandi, þar virðist allt stefna í að Skoski þjóðarflokkurinn vinni slíkan yfirburðasigur að ljóst er að pólítíska andrúmsloftið í Englandi og Wales, stefnir í allt aðra átt en í Skotlandi.

Nú var tilkynnt að frambjóðandi Skoska þjóðarflokksins hefði sigrað leiðtoga Frjálslyndra demókrata.

Sigrarnir gerast ekki mikið sætari en þessi.

En úrslitin undirstrika þau vonbrigði sem Jo Swinson hefur valdið í kosningabaráttunni. Áfall fyrir Frjálslynda demókrata og Jo Swinson. Ólíklegt að hún verði leiðtogi til langs tíma.

 


mbl.is Corbyn ekki sætt ef útgönguspár rætast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í risasigur Boris Johnson og Íhaldsflokksins?

Þá er búið að birta útgönguspánna í Bretlandi.  Ef hún stenst er um að ræða risasigur fyrir Íhaldsflokkinn og Boris Johnson.

Íhaldsflokknum er spáð 368 þingsætum, Verkamannaflokknum 191., Frjálslyndum demókrötum 13., Skoska þjóðarflokknum 55., Brexit flokknum engu, Plaid Cymru aðeins 3. og Græningjar einum þingmanni.

Úrslitin verða eflaust að einherju marki öðruvísi, en verði þau í þessa átt er um að ræða gríðarlegan sigur fyrir Íhaldsflokkinn og traustsyfirlýsingu fyrir hann og Boris Johnson.

Það er sömuleiðis erfitt með að sjá að Corbyn verði leiðtogi Verkamannaflokksins um langa hríð ef þetta gengur eftir.

Breska þingið ætti að verða með öðrum svip en verið hefur, ef niðurstaðan verður í þessa átt.


mbl.is Íhaldsmönnum spáð miklum meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband