Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Athyglisverð orð biskups

Ég sá viðtal við Agnesi Sigurðardóttur, biskup á vefsíðu Vísis. Renndi hratt í gegn um það, en það voru örfá atriði sem vöktu athygli mína.

Biskup segir um Zúista:

„Ég hef enga skoðun á nýjum félögum. Ég verð að viðurkenna að ég setti mig ekki mikið inn í þetta mál. En þetta er mjög sniðugt hjá þeim. Þetta er klárt fólk, bráðsniðugt. Það sér þarna möguleika á því að fá fjármagn frá ríkinu.“

Vegna zúista varð kirkjan af ellefu milljónum í sóknargjöld. „Það er agalegt fyrir söfnuði og sóknir landsins.“

Þarna talar biskup um sniðugt fólk sem sér möguleika á því að fá fjármagn frá ríkinu. Það er ekki talað um endurheimtingu "sóknargjalda" enda í raun engin "sóknargjöld" innheimt.

Enda löngu tímabært að þetta fyrirkomulag og þessi framlög úr ríkissjóði hætti. Eðlilegt er að einstaklingur ráði sjálfir hvort að þeir kjósi að greiða "sóknargjald" og verða þannig "sóknarmeðlimir".

Athygli vekur að hún telur kirkju sína verða af þessu fé. Eins og það hafi á einhvern hátt tilheyrt kirkju hennar.

Það væri kirkjunni hollt að þurfa að hafa meira fyrir sínum félagsmönnum og að þeir væru vissir um hag sinn af því að tilheyra henni.

Þá væri staðan líklega síður sú, að aðeins um helmingur félagsmanna beri mikið traust til kirkju sinnar.

 


Afhjúpar ruglið í innheimtu sóknargjalda

Á örfáum mánuðum hafa yfir 3000 íslendingar skráð sig í trúfélag sem fæstir ef nokkur virkilega þekkir skil á.

Þeim er nokk sama hver átrúnaðurinn er, loforðið um að sóknargjöld verði endurgreidd er þeim nóg, til að skrá sig í óþekktan trúarsöfnuð.

Persónulega skil ég þessa einstaklinga mæta vel, því vissulega er álagning sóknargjalds fyllilega ósanngjörn og óeðlileg.

Það er reyndar rétt að hafa það í huga að staða einstaklinga er misjöfn. Sumir einstaklingar munu fá meira greitt til baka en þeir reiddu af hendi, en aðrir munu tapa, en þó minna en áður.

Því engin "sóknargjöld" eru innheimt af íslendingum. Þau eru "felld" inn í almenna tekjuskattsálagningu. Þannig eiga tekjulágir möguleika á því að fá endurgreitt meira en þeir reiddu af hendi, en tekjuhærri eiga eingöngu möguleika á því að minnka "tapið".

En allir greiða "sóknargjöld", burtséð frá því hvort þeir tilheyra einhverri sókn, eða trúarsöfnuði. Gjaldið er prósenta af tekjum, rétt eins og aðrir skattar.

Það er ruglið í innheimtu "sóknargjalda".

Það er þarft verk sem "Zusistar" vinna með því að afhjúpa vitleysuna, mismununina og ranglætið sem með þessu hefur viðgengist.

Í sjálfu sér er einfalt mál og ekki með öllu óeðlilegt að hið opinbera bjóði upp á innheimtu sóknargjalda, en það ætti þá að vera með því formi að framteljandi haki í tilheyrandi reit, þar sem hann óskra eftir, eða samþykkir að kr. 10.776,- séu dregnar af honum aukalega í sóknargjald.

En ef til vill væri rökréttara að hið opinbera hætti með öllu afskiptum af innheimtu sóknargjalda, sem og trúfélagaskráningu.

Það yrði einfaldlega litið á það sem einkamál hvers og eins.

Það er eiginlega með eindæmum að flokkur sem alla jafna kennir sig við einstaklingsrelsi, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, skuli standa vörð um jafn úrelt kerfi.

 

 

 


mbl.is Zuism fimmta stærsta trúfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega ekki allir styrkja starfsemi trúfélaga á Íslandi?

All nokkuð hefur verið rætt um starfsmemi og styrki til trúfélega á Ísland undanfarin misseri. Líklega er ekki of sterkt til orða tekið þegar sagt er að nokkur munur sé á skoðunum í þessum efnum.

En mér vitanlega er ekkert sem bannar einum eða neinum að styrkja trúfélög á Íslandi og líklegra er en ekki, að mínu mati að mörg þeirra fái og/eða hafi fengið einhverja styrki erlendis frá.

Sem eðlilegt er og ekkert út á það að setja.

Er ekki nákvæmlega jafn eðilegt að útlendingar láti fé af hendi rakna til trúarstarfsemi og trúboðs á Íslandi og að íslendingar geri slíkt til trúboðs og tengdrar starfsemi í fjarlægum löndum?

Og hver ætti að meta hvaða aðilar eru hæfir til að gefa fé og hverjir ekki? Og eftir hvað lögum og reglum ættu þeir að vinna?

Þess vegna virðist mér allt tal um að kanna hvaðan fjármagn kemur marklaust, hvort sem það kemur frá borgarstjóra eður ei.

Og hvernig á svo að vinna málið áfram?

Ef 200 einstaklingar gefa milljón hver, hver á að rannsaka að allir einstaklingarnir hafi raunverulega gefið eigið fé, eða hafi efnahagslega burði til þess?

Mér virðist þetta allt nokkuð marklaust.

Hún er líka áhugaverð umræðan um að allir trúarsöfnuðir á Íslandi verði að starfa í samræmi við íslensk lög, þar sem m.a. er kveðið á um að ekki megi mismuna einstaklingum eftir kyni.

En það verður að hafa í huga að stjórnarskráin íslenska tryggir trúfrelsi og það er þarft að velta því fyrir sér, hvort að það sé ekki sterkara.

Að sá sem velur sér trúfélag, hafi í raun þá gefið hluta af öðrum réttindum sínum eftir.

En ég hef velt þessu fyrir mér áður, og má lesa það hér.

Staðreyndin er sú, að ef að horft er í til íslenskra laga, eru það líklega fleiri en eitt og fleiri en tvö trúrfélög sem gætu lent í vandræðum.

En hvað verður þá um trúfrelsið?

Þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega vita líklega að mér hefur sjaldan legið mjög gott orð til trúfélaga. Get ekki sagt að ég beri mikla virðingu fyrir þeim.

En því má ekki rugla saman við virðingu mína fyrir trúfrelsi og frelsi einstaklinga til að iðka trú sína. Sú virðing er mikil.

En hún hefur vissulega sín takmörk.

Spurningin er hvar mörkin liggja og hvar íslendingar vilja draga þau.

Það er umræða sem þarft er að taka, en líklega eldfim.

P.S. Ég vil taka undir með þeim sem hafa lýst aðdáun sinni á teikningu af fyrirhugaðri mosku í Reykjavík.

Mér þykir næsta víst að bygginguna eigi ég aldrei eftir að sjá innan frá, en fyrirhugað útlit hennar er gott og kom mér skemmtilega á óvart.

 

 


mbl.is Óeðlileg pressa frá leigusölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sama tíma að ári: Jólin eru allra, kristni er það ekki

Það er næsta víst að fyrir hver jól upphefjast rökræður (ef ekki rifrildi) um hvort tilhlýðilegt sé að skólabörn fari til kirkju á skólatíma.

Eins og í mörgu öðru sýnist sitt hverjum.

En persónulega lít ég svo á kirkjuför sé ekki eðlilegur hluti skólastarfs. Hversu hátt hlutfall nemenda er kristið eður ei, skiptir að mínu mati engu máli.

Það er þörf á að skerpa enn frekar á aðskilnaði ríkis og kirkju, og mikilvægur þáttur þess er að skilja á milli menntunar og kirkju.

Það þýðir ekki að ekki megi fræða börn um trúarbrögð, en fræðsla og þátttaka í trúarathöfnum eru ólíkir hlutir.

Íslendingar (og ýmsar aðrar þjóðir) eru það heppnir að halda jól. Ekki "kristsmessu" eins og þekkist víða um lönd.

Og þrátt fyrir tilraun kristinnar kirkju, til að slá "eign" sinni á jólin, tilheyrir þessi rammheiðna hátið í raun öllum.

Á Íslandi (eins og víðar) eru jólin fyrst og fremst fögnuður fjölskyldunnar, með "blóti" á mat og drykk, heimsóknum og dýrum gjöfum. Við drögum sígræn tré inn í stofur til að fagna upprisu og eilífleika náttúrunnar og gamlir vættir eins og jólasveinar, grýlur, leppalúðar, tröll og álfar fara á kreik.

Stundum rís upp sá miskilningur að álfar séu brenndir á þrettándanum.  :-)

Sumir tala um gamla hefð. Sjálfur fór ég í gegnum grunnskóla á Íslandi án þess að fara nokkurn tíma í kirkju fyrir jólin. Svo heyrist mér vera með flesta mína kunningja.

En auðvitað er tilvalið fyrir þjóðkirkjuna sem aðrar trúarstofnanir að bjóða upp á athafnir, sérstaklega miðaðar fyrir börn og foreldra fyrir jólin.

Því setur sig enginn upp á móti að ég get ímyndað mér.

En skólar eiga að vera menntastofnanir en, ekki að standa í trúarútbreiðslu.

 


Þetta tengist ekki islam

Það að ljóðskáld skuli vera dæmt til dauða tengist auðvitað ekki islam. Hver sem heldur því fram fer auðvitað villu vegar.

Þó hann hafi verið handtekinn af trúarlögreglunni, þá tengist það að sjálfsögðu ekkert islam, heldur einhverjum skrýtnum og undarlega þenkjandi einstaklingum sem lítið eða ekkert þekkja til islam. 

Þó að þetta gerist í landi Mekka og Medina, hljóta allir þenkjandi einstaklingar að sjá að þetta tengist ekki islam á nokkurn hátt.

Islam er trú friðar, umburðarlyndis og fyrirgefningar.

Þeir sem halda því fram að nokkuð sem þetta hafi eitthvað með islam að gera halda því líklega fram næst það að trúarleiðtogi sem neitar að taka í hönd á kvenkyns blaðamanni hafi eitthvað með islam að gera.

Nú eða það að fylgi Samfylkingarinnar hafi eitthvað að gera með að hún hafi lélegan formann eða skrýtna stefnu í mörgum málum.+

Orsakasamhengi er ofmetið.

 


mbl.is Dæmdur til dauða fyrir trúleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverkin í Frakklandi eiga sér rætur í islam

Það er engin leið til þess að líta fram hjá því að hryðjuverkin í París í gær og fjöldi annara hryðjuverka undanfarin ár eiga sér rætur í islam.

Ekki frekar en það er hægt að líta fram hjá því að ýmis hryðjuverk,stríð, krossferðir, Spænski rannsóknarrétturinn og gyðingahatur eiga sér rætur í kristni (og auðvitað er íslam ekki saklaust hvað varðar gyðingahatrið).

Trúarbrögð hafa í gegnum söguna, og eru enn, notuð sem réttlæting fyrir hryllings og ofbeldisverkum oftar en tölu verður á komið. Saga trúarbragða er langt í frá saga kærleika, friðar og umburðarlyndis, þó að þeir þættir sér þar vissulega líka.

Þetta þýðir ekki að allir þeir sem beygja sig í átt til Mekka séu hryðjuverkamenn eða styðji ógnarverk þeirra, né að allir kristnir menn séu gyðingahatarar. Það leikur enginn vafi á því að stærstur hluti hvors hóps um sig, hefur lítt með þetta allt að gera og hugsar fyrst og síðast um að reyna að byggja upp gott og friðsælt líf fyrir sig og sína.

En í gegnum aldirnar hafa trúarbrögð gjarna verið uppspretta haturs, ofbeldis og ógnarverka, þó að boðskapurinn sé kærleikur og mannbæting.

Trúarbrögð eru samsafn þeirra sem aðhyllast þau og boða.

Það er rétt að taka fram að kristni hefur gengið þokkalega að hrista af sér miðaldahugsunarháttinn, þróast fram á við og segja skilið við mestu vitleysuna jafnframt því að boðskapur bíblíunnar (orð guðs?) hefur verið endurskoðaður .

Fylgjendum islams hefur gengið það mun síður.

En islam, rétt eins og kristindómurinn hefur marga anga og rangala.

Og í býsna mörgum röngölunum má finna einstaklinga sem predika ofbeldi og hryðjuverk í nafni islam.

Margar skoðanakannanir hafa sýnt að öfgasamtök á borð við Isis njóta stuðnings hundruða þúsunda, ef ekki milljóna evrópubúa. Þúsundir þeirra hafa farið og barist með þeim undanfarin misseri.

Margir þeirra hafa síðan snúið heim til Evrópu.

Hryðjuverkmenn hafa skírskotun í  flóttamannavandamál nútímans að því leiti, að þeir eru afkomendur einstaklinga sem fluttu til Evrópu fyrir 1. til 3. kynslóðum. Þá eins og nú í leit að betri lífskjörum og stundum undan hörmungum.

En lausnin getur ekki verið að hætta að aðstoða flóttamenn, en ég held að flestir sjái (og það óskylt hryðjuverkum) að hún er heldur ekki að opna öll landamæri.

Það þykir líklegt að einn af hryðjuverkmönnunum í París hafi komið til Evrópu í gervi flóttamanns. En það er óþarfi að gera of mikið úr því. Staðreyndin er að hryðjuverkamennirnar eru fyrst og fremst heimamenn og úr nágrannalöndunum.

En það hlýtur jafnframt að vekja upp spurningar og efasemdir um hvernig innflytjendastefna undanfarinna áratuga hafi virkað og hvort þörf sé á breytingum. Ekki síst nú, þegar fjöldinn er meiri en nokkru sinni fyrr?

Molenbeek hverfið í Brussel hefur skotið upp kollinum í rannsóknum á flestum hryðjuverkum sem tengjast Isil á undanförnum árum.

Það er talið að u.þ.b. 6% af íbúum Belgíu fylgi islam. En sama hlutfall í Brussel er um 25% og í Molenbeek er það 40%. Atvinnuleysi í Belgíu er rétt undir 9%. Í Molenbeek er það 30%, og talið er að það sé enn hærri á meðal innflytjenda og afkomenda þeirra.

Í Frakklandi er talað um að hlutfall múslima sé 7 til 10% af íbúafjöldanum. Þó engar tölur liggi fyrir, vegna þess að trúarskoðanir fanga eru ekki skráðar, telja margir að þeir séu u.þ.b. 70% af þeim sem dvelja í fangelsum landsins.

Því miður verður það að teljast ólíklegt að hryðjuverkin í París auki á atvinnumöguleika ungra múslima.

Það má því leyfa sér að álykta að aðlögun þeirra að samfélögum Belgíu og Frakklands hafi ekki gengið vel.

Það er því miður engin ástæða til þess að ætla að aðlögun þeirra sem nú streyma til Evrópu gangi betur.

Mörg evrópuríki glíma við mikið atvinnuleysi og efnahagsörðugleika. Það gefur heldur ekki ástæðu til bjartsýni.

Fyrsta skrefið til að ná tökum á vandamálinu er þó að ríki eða ríkjasambönd hafi stjórn yfir ytri landamærum sínum.

Þar hefur Evrópusambandið misst tökin.

En varin landamæri leysa ekki vandamálin sem þegar eru komin til sögunnar, en slíkt er þó nauðsynlegt til framtíðar.

En það er nauðsynlegt fyrir ríki "Sambandsins" að marka sér stefnu í þessum málaflokki til framtíðar. Enn nauðsynlegra er að þeirri stefnu verði framfylgt.

En sé litið til sögunnar, er ekki hægt annað en að efast um að slíkt takist.

 

 


mbl.is „Stríðsyfirlýsing frá Ríki íslams“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarbrögð, kynhneigð og hjónabönd

Nú er all nokkuð rætt um hvort að trúarsöfnuðir eigi að komast upp með að neita samkynhneigðum einstaklingum um hjónavígslur.

Eðlilega kemur þar við sögu bann við mismunun, einstaklingsfrelsi og trúfrelsi og svo ríkisvaldið sem á að standa vörðu um öll þessi réttindi.

Persónulega tel ég að flestir hafi sitthvað til síns máls í þessum deilum og að boð, bönn og réttindi skarist með þeim hætti að ekki sé einfalt að pússla saman svo að öllum líki.

Ef einstaklingur hefur þá trúarsannfæringu að hjónabönd samkynhneigðra séu ekki framkvæmanleg í guðs nafni, þá er erfitt að neyða hann til að ganga gegn trú sinni.

Að sama skapi tek ég undir kröfu samkynhneigðra um að fá að gifta sig, rétt eins og aðrir einstaklingar.

En það að eiga rétt á ákveðinni þjónustu, gerir í mínum huga ekki það að verkum að ég eigi rétt á því að hver sem ég kýs þjónusti mig.

Persónulega þykir mér þó öðruvísi horfa við ef þjónustan er veitt af ríkinu, eða aðila sem það styrkir eða hefur fengið til að annast ákveðna þjónustu.

Þar finnst mér tvímælalaust að engin mismunun geti átt sér stað, eða verið umborin.

Hið opinbera er kostað af öllum og á að þjónusta alla.

Þannig þætti mér eðlilegt að fjárhagsleg aðstoð frá ríkinu sé skilyrt og þeir trúarsöfnuðir sem hana þiggja gangist undir að engin mismunun eigi sér stað hvað varðar réttindi mismunandi einstaklinga.

Þeir trúarsöfnuðum sem ekki þiggja opinbera aðstoð væri eftir sem áður heimilt til að fylgja trúarsannfæringu sinni, í skjóli laga um trúfrelsi.

Ég tek það fram að ég lít á svokölluð "sóknargjöld" sem ríkisaðstoð til trúfélaga, endu eru þau greidd hvort sem safnaðarmeðlimur hefur greitt slíkt gjald til ríkisins. Þau eru því í raun ríkisaðstoð, en ekki félagsgjald.

Auðvitað mætti einnig velta fyrir sér frönsku leiðinni, þar sem hið opinbera hefur eitt leyfi til að framkvæma hjónavígslur. Hjónin geta svo sjálf ákveðið hvort þau vilja trúarbragðablessun, eða ei, en það kemur í raun hjónavígslunni ekkert við.

Persónulega þætti mér það slíkt þó afturför.

Það getur verið snúið þegar núningur er á milli laga um réttindi og svo aftur trúfrelsis. En ríkisstarfsmenn verða að sinna og þjóna öllum. Sömuleiðis tel ég að ríkið eigi ekki að styrkja söfnuði sem velja mismunun.

Það er rétt að hafa í huga að ef prestur á rétt á því að neita að gefa saman tvo einstaklinga, vegna trúarsannfæringar sinnar, ætti þá ekki hið sama að gilda um starfsmann fógeta, sem einnig framkvæmir hjónavígslur?


Meirihluti borgarstjórnar ekki starfi sínu vaxinn

Það hefur eiginlega verið með ólíkindum að fylgjast með uppákomu þessari í borgarstjórn Reykjavíkur.

Það hefur komið í ljós að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna veldur ekki hlutverki sínu, og virðast ekki skilja það.

Þegar borgarstjóri lætur hafa það eftir sér að málið hafi ekki verið kannað til hlýtar, vegna þess að Björk Vilhelmsdóttir hafi verið að hætta í borgarstjórn, jafngildir það að hann lýsi því yfir að meirihluti borgarstjórnar valdi ekki hlutverki sínu.

Því auðvitað á það ekki að hafa áhrif á borgarstjórn og ákvarðanir hennar, hvort borgarfulltrúi ákveði að afsala sér umboði sínu. Eftir sem áður eiga hagsmunir borgarbúa að vera í mikilvægasta mál borgarfulltrúa.

Þeir hagsmunir virðast hafa yfirgefið huga borgarfulltrúa.

Enn og aftur virðist meirihluti borgarfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar hafa misst sjónar á því að borgin er ekki eyríki, heldur hluti af Íslandi.

Reykjavíkurborg ætti ekki að hafa efst í huga að móta sér utanríkisstefnu, heldur að reka sig og fyrirtæki sín með hag borgarbúa í huga, en ekki eingöngu þröng pólitísk sjónarmið.

En það sést ef til vill á samþykktunum og árangrinum í fjármálum borgarinnar hvort núverandi meirihluta þykir mikilvægara.

Það er einungis hægt að óska þess að borgarbúar lýsi vilja sínu í næstu kosningum, og losi borgina við núverandi meirihluta.

P.S. Það er vissulega jákvætt að meirihlutinn hafi lýst vilja sínum til að draga samþykktina til baka, en lýsir jafnframt hve viljugur meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðarl, er til að samþykkja tilögur "villta vinstursins" án þess að gefa því raunverulega gaum, hvað þau eru að samþykkja.

P.S.S. Ef til vill ætti meirihlutinn einfaldlega að einbeita sér að að uppsetningu myndlistasýninga, þar virðist skaðinn þó ekki vera meiri en nokkrar milljónir og að einstaklingar missi matarlystina.

 


mbl.is Dagur: Hefði mátt útfæra málið nánar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að treysta almenningi fyrir ákvörðunum

Það er alveg rétt að stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina verið alltof linir og seinir að færa valdið til almennings. Að láta almenningi eftir að taka ákvarðanir og treysta honum til að stjórna lífi sínu.

Að stórum hluta til er það vegna stjórnmálamanna sem "telja sig vita betur".

Þannig má líklega segja að fæstir af þeim sem greiddu atkvæði gegn því að bjór yrði leyfður á Íslandi hafi gert það vegna áhyggja af því að þeir sjálfir gætu ekki umgengist hann, heldur hitt að "allir hinir" myndu lenda í vandræðum.

En það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni að það er löngu tímabært að auka frelsi á Íslandi, færa ákvarðanir í auknum mæli til almennings.

Bjarni nefnir ágætis dæmi úr sögunni, bjór og frjálst útvarp. Hvorugt getur talist "lífspursmál", en er eigi að síður sjálfsögð gæði í frjálsu samfélagi, og líklega myndu margir láta í sér heyra, ef taka ætti þau af þeim.

Það er líka rétt hjá Bjarna að það er engin ástæða til annars en að treysta almenningi til að taka ákvarðanir í auknum mæli, t.d. hvort að þeir kaupa sér áfengi um leið og þeir kaupa í matinn eður ei.

Og það má nefna ótal dæmi í viðbót.

Það er fyllilega tímabært að almenningi sé gert kleyft að ákveða hvort hann vill greiða sóknargjald til trúfélaga eður ei. Það má gera með einföldum hætti, s.s. að hakað sé við reit á skattskýrslu.

Það er löngu tímabært að almenningi sé treyst til þess að ákveða nöfn barna sinna án afskipta opinberra aðila. Sömuleiðis hvort að einstaklingur ákeður að taka upp ættarnafn eður ei.

Persónulega finnst mér Íslenska nafnakerfið til fyrirmyndar, en það er rétt að einstaklingar ákveði sjálfir hvort að þeir vilja taka þátt í að viðhalda því.

Það má einnig treysta almenningi í auknum mæli til að velja hvert hann beinir viðskiptum sínum, með því að draga úr lögverndun starfsgreina. Ef marka má fréttir eiga Íslendingar Norðurlandamet í þeirri iðju og færi vel á að reyna að komast hjá þeim heiðri.

Svona má lengi áfram telja.

Það eru margar ákvarðanirnar sem færa má til almennings og færi vel á því að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ákveðna forystu í þeim efnum á Alþingi.

Á síðasta þingi varð t.d. það framfaraskref að felld voru úr gildi lög um guðlast. Enn og aftur er það ekkert "lífsspursmál", en eigi að síður hygg ég að flestir hafi fagnað þeirri útvíkkun á málfrelsinu.

En þar var í forystu annar stjórnmálaflokkur.


mbl.is Alþingi á að treysta fólki betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvað háð og spé

Auðvitað er guðlast ekki nauðsynlegt, en að sjálfsögðu á það ekki að teljast glæpur.

Því tel ég að réttsýnir menn fagni þessari lagabreytingu. Aukið mál og tjáningarfrelsi er tvímælalaust af hinu góða að mínu mati, rétt eins og trúfrelsi.

Og þó að sjálfsagt sé að virða rétt allra til að iðka trú sína, án banns eða afskipta (svo framarlega sem trúariðkunin stangast ekki á við önnur lög), er engin sérstök ástæða til þess að virða það sem trúarbrögðin boða, eða snúast um, ef einstaklingum finnst það rangt.

Og trúarbrögð eiga ekki að vera hafin yfir aðra þætti samfélagsins og það er jafn sjálfsagt að að þeim öðru því sem á sér stað í samfélaginu.

Persónulega hef ég ekki stórar áhyggjur af því að fjömiðlar og aðrir miðlar fyllist af guðlasti, ég hef ekki mikla trú á því.

En ef sjálfsagt skýtur því upp kollinum hér og þar, einstaka sinnum.

En það er engin ástæða til þess að rjúka upp til handa og fóta yfir slíku, hvað þá að reyna að "krossfesta" nokkurn fyrir slíkt athæfi.

Og þeir trúuðu eiga að geta haldið ró sinni, því þeir telja sig líklega vita hver sá er sem kveða mun upp hinn "endanlega dóm".

Þess, þó að ég hafi ávallt gaman af góðu gríni, hvort sem það inniheldur guðlast eður ei, er ég þeirrar skoðunar að þeir sem æða fram með gífuryrðum og skætingi, dæmi sig yfirleitt sjálfir.

 

 

 

 

 


mbl.is Guðlast ekki lengur glæpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband