Að kunna sig í boðinu: Vandi Framsóknarflokksins

Það hefur mikið verið rætt um stöðu Framsóknarflokksins undanfarna mánuði.  Skoðanakönnun eftir skoðanakönnun hefur vitnað um bága stöðu flokksins, en þó virðist hann örlítið hafa braggast undanfarna daga.

Margir vilja kenna samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn alfarið um þessa bágu stöðu, sumir tala um að Sjálfstæðisflokkurinn sé "stikkfrír" og þar fram eftir götunum.  Aðrir segja að það sé náttúrulögmál að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks tapi á samstarfinu.  Ekkert er þó fjær sanni og nægir að skoða kosningaúrslit 2003, þar sem Framsóknarflokkurinn tapaði innan við 1% af fylgi sínu á meðan Sjálfstæðisflokkur seig um það bil um 7%.

En það er engu líkara en menn vilji ekki sjá "fílana sem ganga um í herberginu", eða ætti ég ef til vill að segja "nautgripina", svona af því að við erum að ræða um Framsóknarflokkinn?

Vissulega hefur Framsóknarflokkurinn átt erfitt með að fylgja byggðaþróuninni á Íslandi og hasla sér völl í þéttbýlinu.  Staðan á höfuðborgarsvæðinu er afleit fyrir flokkinn.

Sömuleiðis var það auðvitað nokkuð áfall fyrir flokkinn þegar Samvinnuhreyfingin því sem næst lagði upp laupana.  Þó má sjá að staðan er ennþá sterkari en ella, þar sem kaupfélögin hafa ennþá ítök, s.s. á Suðurlandi, Skagafirði og í kringum Borgarnes.  Þó að aðrar viðskiptablokkir hafi komið til þá er ekki saman að jafna, S-hópurinn svokallaði enda ekki fjöldahreyfing.

Á tímabili virtist Framsókn þó eiga möguleika á því að ná fótfestu á mölinni, en á því kjörtímabili sem nú er að ljúka virðist allt hafa gengið á afturfótunum.

Það er heillavænlegra að leita að þeim orsökum innan eigin raða, heldur en að kenna um samstarfsaðilum.

 Ég held að allir hafi heyrt af sundurlyndi innan Framsóknarflokksins á yfirstandandi tímabili, og þó að hluti þess vanda hafi flutt sig yfir til Frjálslyndra, virðist ennþá ólga undir.  Þetta er auðvitað hluti vandans.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að  forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar hafi verið ákaflega misráðin og í raun ekki einvörðungu stórskemmt annars nokkuð gæfuríkan feril, heldur einnig skaðað flokkinn verulega. 

Það verður að kunna sig í boðinu, kunna að segja nei og taka ekki við meiru en maður á skilið.  Eftir að Halldór varð forsætisráðherra byrjaði strax að heyrast að fólk var óánægt með hve mikil völd þessum litla flokki var afhent og hvernig hann notaði oddaaðstöðu sína til að auka þau.

Það bætti síðan ekki úr skák að Halldór var ákaflega mistækur sem forsætisráðherra og kórónaði það svo með þvi að klúðra eigin afsögn, skapaði upplausn í flokknum og allt logaði í ófriði.

 Það leit út fyrir að það ætti að bola Guðna út, nafn Finns Ingólfssonar var nefnt sem formanns og Jón Sigurðsson náði svo að setjast á stólinn þegar tónarnir hljóðnuðu og átti erfiða innkomu þó að hann hafi vaxið í starfi.

Þjóðin horfði hissa á aðfarirnar.

Svipað varð að nokkru leyti upp á teningnum í borgarstjórnarkosningunum, ég heyrði það á mörgum að þeim fannst Framsókn fá alltof mikið miðað víð þá kosningu sem flokkurinn fékk.  En og aftur virtist hann í krafti oddaaðstöðu ná að kúga viðsemjendur sína og kunni sig ekki "í boðinu", lét eins og gömul maddama sem leggst í sortir.

Ég hef það á tilfinningunni að mörgum kjósendum hugnist ekki þessi oddaaðstaða Framsóknar og þyki mál að linni.

Í þessum sveitastjórnarkosningum gerðist það sömuleiðis að frambjóðandi flokksins í einu traustasta vígi hans, Akureyri, sagði sig úr flokknum fáum dögum fyrir kosningar og hefur líklega kostað flokkinn þar einn mann.  Enn og aftur ófriður.

Það þurfti svo heldur ekki að bíða lengi eftir að Framsókn beitti völdum sínum í höfuðstaðnum á vafasaman máta, og þurfti að draga til baka skipan Óskars Bergssonar.

Hér hefur bara verið stiklað á stóru, líklega mætti týna ýmislegt fleira til, s.s. illindin sem urðu eftir prófkjörið í borginni. 

En ef þetta er lesið sést að það er líklegra að leita skýringanna innan flokks, en meintri "teflonhúð" samstarfsflokksins sé um að kenna.  Það hefur enginn flokkur logað eins í innbyrðis illindum og óheilindum eins og Framsókn, þó að Samfylking komi þar líklega næst og síðan Frjálslyndir.

Ef til vill er ekki að undra þó að staða Sjálfstæðisflokks og VG sé sterk um þessar mundir, þó að þeir flokkar séu langt í frá fullkomnir.

Því eins og Garfield sagði:  "If you want to look thin, hang around fat people".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held að FRAMSÓKM bæti í

leeds (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband