Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Þegar eftirspurnin fellur

Það er líklegt að eftirspurn falli eftir hágæða matvælum falli á komandi vikum og mánuðum. 

Þar spilar margt inn í. 

Veitingastaðir eru lokaðir víðast um heim.  Eldaður fiskur hentar ekki vel til heimsendingar.  Það mun líklega taka mörg heimili býsna langan tíma að koma öllum niðursuðuvörunum, pastanu og frystivörunum sem þau hafa keypt á undanförnum dögum í lóg.

Sömuleiðis má reikna með þvi að víða um heiminn falli kaupmáttur almennings og því minnki eftirspurn eftir lúxus mat líkt og Íslenskum fiski.

En ég hafði spurnir af því að Costco í Ontario var með tilboð á ferskum Íslenskum fiski þessa dagana. 

10 dollara afsláttur á pakkningu af þorskhnökkum. En það er rétt að hafa það í huga að ferskir Íslenskir þorskhnakkar er með dýrari matvælum þar, kostar yfirleitt hátt í 30 dollara kílóið.

Til samanburðar kostar kíló af grísalundum eða nautahakki oftast í kringum 8 dollara.

Einstaklingurinn sem bar mér þessar fréttir hafði keypt 3. pakka, enda Íslenskur fiskur í hávegum hafður þar á bæ.

Það er því ljóst að Íslenskur sjávarútvegur mun líklega þurfa að kljást við stórar áskoranir á næstu vikum og mánuðum.

Ekki má heldur gleyma vaxandi erfiðleikum við að koma vörum á milli landa og til neytenda.

 

 


mbl.is Engin eftirspurn í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða og rausn

Það er ánægjulegt að lesa fréttir sem þessar og vonandi skilar lyfið sér fljótlega til Íslands.

En þetta er þetta er gott dæmi um þá samstöðu og útsjónarsemi sem getur skipt gríðarlegu máli á tímu sem þessum.

Þessi gjöf, hin nafnlausa gjöf á öndunarvélum til Íslands og samstarf Íslenskrar erfðagreiningar við hið opinbera heilbrigðiskerfi, er nokkuð sem er til fyrirmyndar.

Þessi rausnarskapur og samstarf er sannarlega betra en ekkert í baráttunni við veiruna.

 


mbl.is 50 þúsund pakkar til Íslands um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vakna eftir vetrarsvefn

Oft er þörf en nú er nauðsyn, það er meiri þörf fyrir skemmtileg myndbönd en nokkru sinni fyrr.

Hér er skemmtilegt myndband af birni sem er að vakna eftir vetrarsvefn.

 

 

 

 

 

En ef vilji er til að tengja þetta við ástandið í dag, má velta því fyrir sér hvort að hann sé á leið á hlutabréfamarkaði.


Á viðsjárverðum tímum er þörf á traustum aðföngum

Það er mikið talað um að heimurinn muni ekki verða samur eftir að ógnir Kórónu vírussins hafa gengið yfir.

Líklega er margt til í því.

Ein af kröfunum sem mjög líklega mun koma fram er ríki tryggi framboð af lyfjum, tækjum og hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Hvernig það verður gert á eftir að koma í ljós, en líklega munu margar þjóðir auka framleiðslu innanlands (eða byrja á framleiðslu innanlands), þó að hún kunni að vera dýrari og einnig er ekki ólíklegt að birgðir verði almennt auknar.

Faraldurinn nú hefur leitt í ljós að útflutningur getur verið stöðvaður með skömmum fyrirvara og einnig að ekki er hægt að treysta gæðum búnaðar sem t.d. kemur frá Kína.

Þessi frétt um hlífðargrímur sem Hollendingar hafa dæmt ónothæfar, sem og fréttir um gölluð veirupróf sem notuð voru á Spáni, hlýtur að verða til þess að þetta verður einn af þeim þáttum sem verður ræddur og endurskoðaður þegar faraldurinn hefur gengið yfir.

Skortur á nauðsynlegum búnaði er nægilega slæmur svo ekki bætist við að ekki sé hægt að treysta þeim búnaði sem fæst keyptur.

 

 


Að fylkja sér að baki yfirvöldum

Það eru eðlileg viðbrögð að fylkja sér að baki yfirvöldum þegar áföll dynja á.

Það þýðir ekki að allir séu sammála aðgerðum stjórnvalda, eða vilji ekki fara aðrar leiðir.

En flestir gera sér grein fyrir því að það er ekki rétti tíminn til að efna til mótmæla, verkfalla eða annara aðgerða sem stuðla að frekari vandræðum eða sundrungu í samfélaginu. 

Þess vegna fylkja flestir sér að baki stjórnvöldum.  Stjórnarandstöður og minnihlutar um víða veröld samþykkja flestir aðgerðir stjórnvalda, bæta oft því við að vilja ganga lengra.  Því það er "viðurkennd" andstaða við stjórnvöld.

En það er líka sjálfsagt að rökræða um mismunandi aðgerðir, hvort sem er í heilbrigðis- eða efnahagsmálum.  Það er líka gert, en áríðandi að það sé gert á yfirvegaðan máta.

Það verður síðan þegar stormurinn er yfirstaðinn sem aðgerðir stjórnvalda verða dæmdar.  Þær yfirfarnar, gagnrýndar og mistökin leidd í ljós, því afar líklegt verður að teljast að mistök eigi sér stað. 

Það er mannlegt.

Það er þá sem koma mun í ljós hvort að almenningur/kjósendur kjósi að líta svo á mistökin hafi verið óumflýjanleg, eða kjósi að hegna fyrir þau.

Það er langt frá því sjálfgefið að leiðtogar sem hafa notið mikils trausts og fylgisspeki, njóti þess þegar stormurinn er yfirstaðinn.

Eitt besta dæmið um slíkt er líklega Winston Churchill.

Hann leiddi Breta í gegnum stríðið en þeir kusu hann frá í júlí 1945.  Hann náði ekki einu sinni að sitja i embætti nógu lengi til að sjá Kyrrahafshluta stríðsins til lykta leiddan

 

 

 


mbl.is Landsþing demókrata í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiran getur breiðst hratt út á afmörkuðum svæðum - Eysýsla í "sóttkví"

Það er ekki ofsögum sagt að Kórónu veiran setji mark sitt á heimsbyggðina þessa stundina.

Eðlilega er mest fjallað um ástandið á þéttbýlum, mannmörgum svæðum enda margir veikir og andlát sömuleiðis.

En það er rangt að halda að dreifbýli sé ekki í sömu hættu og aðrar byggðir eða að þar þurfi ekki að sýna sömu varúð.

Eyjurnar Saaremaa og Muhu er því miður að verða dæmi um það.

Tvær eyjur undan vesturströnd Eistlands tengdar saman með brú.

Íbúafjöldi er 33.000.

Á til þess að gera fáum dögum eru smit þar komin yfir 240.  Það er yfir 70 smit á hverja 10.000 íbúa.

Til samanburðar eru smit í höfuðborginni Tallinn og nágrenni (Harjumaa)í kringum 230, en þar er íbúafjöldinn rúmlega 580 þúsund og smitin því tæplega 4 á hverja 10.000 íbúa.

Á meðal þeirra sem eru sýktir eru 25. af vistmönnum og starfsfólki á dvalarheimili á Saaremaa.

Eftir því sem ég kemst næst voru 2. fyrstu tilfellin greind á Saaremaa 11. mars.  Talið er (ósannað) að smitið hafi borist með blakliði frá Ítalíu sem tók þátt í móti þar viku áður.

Rétt rúmlega 2. vikum síðar er talan 240.

Nú hafa eyjurnar verið settar í sóttkví. Hámarksfjöldi á hverjum stað er 2., en undanþágur fyrir fjöldskyldur.

Allar verslanir eru lokaðar nema matvöru- og lyfjbúðir. Bankar, pósthús og símaverslanir geta verið opnar. Sömuleiðis gleraugnaverslanir.

 

Byggingavörurverslanir mega selja út um "lúgu" eða beint af lager.  Garðyrkuverslanir sömuleiðis.

Matsölustaðir eru lokaðir, en hægt er að sækja mat eða fá sent heim.

Skylda er að bera á sér skilríki ef verið er utandyra og sektir við ónauðsynlegum ferðum eða brotum geta orðið allt  250.000 kr ISK.

Aðeins íbúum eyjanna hefur verið leyft að koma með ferjum síðan 14. mars, en það dugar skammt þegar veiran er þegar kominn á staðinn.

En það er ekki bara í þéttbýlum svæðum þar sem veiran getur dreift sér á ógnarhraða og það er ekki að ástæðulausu að heimsóknir á dvalarheimili eru bannaðar.

 

Hafa verður í huga að tölur breyast hratt.  Eistlendingar hafa ágætis upplýsingasíður, t.d. hér og eru tölulegar upplýsingar fengnar að miklu leyti þaðan. Stjórnvöld eru býsna öflug í upplýsingum einnig: 

 

P.S. Þess má geta hér að Saaremaa kemur fyrir í Brennu Njáls sögu, í kafla 30.

"Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og fengu sigur. Síðan héldu þeir austur til Eysýslu og lágu þar nokkura hríð undir nesi einu."

Rafala er Tallinn, en Eysýsla er Saaremaa.  Enn má finna þessi orð í nútímanum, en Tallinn er oft kölluð Reval og Saaramaa Ösel í norrænum málum.

Saaremaa þýðir einnig svo gott sem það sama á Eistnesku, eða Eyjaland.

Þannig ná samskipti Íslendinga og Eistlendinga í kringum 1000 ár aftur í tímann. Þau eru þó mun vinsamlegri nú á dögum, en á dögum Gunnars á Hlíðarenda.

 


Undarlegir en breyttir tímar

Nú er hin nýja kórónaveira frá Wuhan búinn að vera með okkur í rétt um 3. mánuði, svona eins og við vitum en allt eins líklegt er að sameiginleg saga okkar sé eitthvað lengri.

Á þessum mánuðum hefur margt breyst og efast má um að hlutirnir verði eins og þeir voru áður.

Það er líklegt að breytingarnar, í það minnst margar þeirra, verði varanlegar, ja alla vegna þangað til þegar "ráðandi kynslóðir" nú, verða áhrifalittlar og þessi faraldur hefur fallið í gleymskunnar dá, rétt eins og fyrri faraldrar.

Þannig ganga hlutirnir oft fyrir sig.

Það er svo gott sem enginn á lífi sem man eftir síðasta alvarlega heimsfaraldri, enda eru rétt rúmlega 100 ár síðan "Spænska veikin" geysaði.

Og ríki heims virðast að mestu hafa verið alls óundirbúin undir þennan faraldur.  Flestir virðast hafa átt von á "minni háttar" veseni, svona svipað og varð þegar SARS og MERS skutu upp kollinum fyrr á öldinni.

Svona eitthvað sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af í Evrópu eða N-Ameríku.

En það gerist líka að allt í einu er að svo gott sem hvert land fyrir sig.  Undir svona kringumstæðum vill enginn senda mikilvægan búnað eða lækningatæki til annarra landa, því enginn veit hvenær þörf er á slíku heimafyrir.  Sem betur fer hafa þó verið einhverjar undantekningar slíkum hugsunarhætti, en þær eru ekki margar.

Þannig er auðvitað sjálfsagt að setja lög þar sem bannað er að selja lyf úr landi, en jafnframt brugðist hart við ef önnur ríki setja sambærileg lög.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt, enda hefur áður komið í ljós í kreppum (þó frekar efnahagslegum en á heilbrigðissviðinu) að hver er sjálfum sér næstur og að ríki eiga sér hagmuni, frekar en vini.

Það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart og kom einnig vel í ljós í efnahagskreppunni 2008.

Það er líka umhugsunarvert að ýmsir kaupmenn og "braskarar" virðast hafa verið mun fljótari að átta sig á því en yfirvöld víða um heim, að gríðarleg eftirspurn yrði eftir hlífðargrímum og ýmsum öðrum varningi.

En það er líklegt að efnahagsáhrifin muni vara mun lengur en veiran sjálf verður á kreiki.

Það er ef til vill lýsandi að fyrir mánuði síðan voru flestir með áhyggjur yfir því að vörur og íhlutir bærust ekki frá Kína.

Nú þegar Kínverskar verksmiðjur eru hægt og rólega að komast í gang aftur sjá þær fram á verkefnaskort, vegna þess að Vestrænir viðskiptavinir eru að afpanta vörur og íhluti.

Bara það að Evrópumóti í knattspyrnu og Olympíuleikum hafi verið frestað, þýðir að þörfin fyrir varning fyrir milljarða gufar upp.  Ekki bara í Kína, heldur um allan heim.

Það er einnig næsta víst að margir munu endurskoða aðfangalínur sínar.

Það er líklegt að fram komi kröfur um að ríki verði í auknum mæli fær um að fullnægja grunnþörfum sínum hvað varðar heilbrigðismál.

En nú búa æ fleiri þjóðir við neyðarástand og þurfa að taka risa ákvarðanir, oft með littlum fyrirvara. 

Það gildir bæði um heilbrigðismál og efnahaginn.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að slíkar ákvarðanir séu gagnrýndar og ræddar, en mikilvægt að það sé gert bæði af kurteisi og yfirvegun.

Það er líka rétt að hafa það í huga að það er við aðstæður sem þessar sem jafnvel röng ákvörðun í dag, getur verið betri en hárrétt ákvörðun sem er tekin eftir viku.

Að sjálfsögðu mun verða farið yfir öll viðbrögð og aðgerðir og vonandi dreginn lærdómur af þeim.

En nú, í storminum miðjum, er áríðandi að fylgja fyrirmælum og tilmælum hvort sem við erum sammála þeim eður ei.

 

P.S. Ég sjálfur fékk einhverja pesti og hef verið meira og minna veikur í 10 daga eða svo.  Ég held að ég hafi ekki verið "krýndur", heldur aðeins verið með slæma "venjulega" flensu.  En það er í raun ómögulegt að segja til um slíkt, enda einkennin æði svipuð.

En ég er við fína heilsu nú en hreyfi mig lítið út úr húsi.

 


Er verið að varpa táragasi á konur og börn til þess að verja "ytri landamæri" Íslands?

Það eru margir sem vanda Erdogan og Tyrklandi ekki kveðjurnar þessa dagana. Sumpart er það fyllilega verðskuldað og sumpart ekki.

Samkomulag sem hann gerði við Evrópusambandið (og er ennþá í gildi) um að halda flóttafólki í Tyrklandi, er langt í frá að hafa verið efnt af hálfu "Sambandsins" og nú styttist í að það renni út.

Ekki það að ég styðji Erdogan eða Tyrki, ég lít á hann sem óttalegan skúrk, og framganga Tyrkja í Sýrlandi og gegn Kúrdum er hræðileg.

En það þýðir þó ekki að hægt sé að brjóta samkomulag sem við Tyrki var gert og reikna með engum afleiðingum.

Það virðist þó vera það sem Evrópusambandið hefur gert.

"Sambandið" hefur að vísu eftir því sem ég kemst næst borgað þá peninga sem um var samið, en aðrir hlutar samkomulagsins hafa lítið eða ekkert miðað áfram.

Því var lofað að Tyrkneskir þegnar þyrftu ekki áritun til ferðalaga innan "Sambandsins", að tollabandalagið á milli "Sambandsins" og Tyrklands yrði uppfært og nýjir kaflar yrðu opnaðir í aðlögunarviðræðum Tyrklands að "Sambandinu".

Það átti einnig að flytja stóran (en nokkuð óskilgreindan) hóp flóttafólks frá Tyrklandi til Evrópusambandslanda.

Þetta voru líklega óraunhæf loforð, en þau voru gefin engu að síður. En ekki staðið við þau.

Fjárhagslega samkomulagið hefur gefist að mörgu leyti vel, en það rennur út á næstu 6. til 12. mánuðum án þess að Evrópusambandið hafi gert tilraun til að framlengja það.

Í ljósi þessa getur það ekki talist með öllu óeðlilegt að Tyrkir séu farnir að ókyrrast og finnist þeir ekki skuldbundnir af samkomulaginu frekar en "Sambandið".

Því er staðan sú að tug eða hundruð þúsunda einstaklinga vilja komast yfir landamærin til Grikklands, inn í "Sambandið".

En á landamærum Grikklands og Tyrklands (sem geta teljast "ytri landamæri" Íslands vegna Schengen samkomulagsins) ríkir stríðsástand.

Þar er varpað táragassprengjum á flóttafólk, menn konur og börn, af "útverði" Evrópusambandsins og Schengen svæðisins.

Hvað skyldi Íslenskur almenningur vilja að sé gert í þessum málum?

Skyldi hann vilja að Grikkland haldi áfram að verja ytri landamæri Schengen svæðisins, jafnvel með táragasi og byssukúlum?

Skyldi hann vilja að þar gildi "No Borders" og allir eigi frjálsa för yfir landamærin jafnvel alla leið til Íslands?

Skyldi hann vilja að þessu fólki yrði sérstaklega boðið til Íslands?  Það er líklega "slaki" hjá mörgum flugfélögum þessa dagana þannig að möguleiki væri að sækja þúsundir til Tyrklands.

Skyldi einhver efna til mótmæla fyrir framan sendiráð Evrópusambandsins á Íslandi? Eða safna undirskriftum til að hvetja Íslensk stjórnvöld til þess að fordæma framgöngu Grikklands og Evrópusambandsins?

Eða væri ef til vill best að byggja múr á landamærum Tyrklands og Evrópusambandsins/Schengen svæðisins, er það ekki töluvert manneskjulegra en að varpa táragasi á menn, konur og börn?

 

 


mbl.is Grikkir fá 700 milljónir evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloomberg hættur, styður Biden

Nú virðist það ljóst að baráttan mun standa á milli Biden og Bernie.  Þriðja "Béið" eða Bloomberg virðist hafa orðið það ljóst að frekari barátta væri lítils virði.

Það kemur enn einu sinni í ljós að það er ekki nóg að ausa út fé í pólítískri baráttu, það verður að ná til kjósenda.

Þeir sem eyddud mestu fé í forkosningum Demókrata, Bloomberg og Steyer, eru báðir úr leik.

Ekki slæmur dagur fyrir lýðræðið í því ljósi.

 


Landabruggarar til aðstoðar?

Þessar leiðbeiningar eru auðvitað þarfaþing, enda er "handspritt" víða uppselt. Ég man þó ekki eftir því að "ríkið" selji áfengi sem hentaði til þessarar framleiðslu.

En þetta gæti auðvitað verið góð aukabúgrein fyrir landabruggara.

"Handspritt í heimsendingu"© væri líklega "hot" vara.

En gæðavara á við þessa er að ég best veit ekki á boðstólum á Íslandi, en hún væri auðvitað tilvalinn í þessa framleiðslu.

Sjálfur á ég yfirleitt eina flösku af 80°, og nota það einmitt til hreinsunar á alls kyns hlutum.

En líklega verður fljótlega skortur á þetta sterku áfengi, samanber þessa frétt frá Japan.

Það er því ef til vill ráð að fara að hvetja landabruggarana til að fara að hita upp græjurnar.

 

 


mbl.is Gerðu þitt eigið spritt með þessu þrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband