Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020
25.1.2020 | 01:24
Mongólar sem rokka
Ég get nú ekki talist mikill "rokkhundur"; en þó finn ég alltaf reglulega rokklög sem ég hrífst af, jafnvel úr þungarokkinu.
Síðasta hljómsveitin sem ég hef hrifist af úr þeim geira er Mongólska hljómsveitin HU.
Nokkur lög þeirra hafa notið vinsælda víða um heim, en mesta athygli hefur líklega lagið "Yuve Yuve Yu" vakið.
Lagið er enda gott og myndbandið hreint augnakonfekt.
Eins og einhver orðaði þetta ef Ghengis Khan hefði hlustað á rokk, hefði hann hlustað á "The Hu".
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2020 | 21:18
Hringtorg sem rokkar
Það hefur eitthvað vafist fyrir Íslendingum hvað sé hringtorg og hvað ekki, en Svisslendingar kunna að láta hringtorgin rokka.
Hér á myndbandinu má sjá stórskemmtilegt hringtorg sem er nálægt skemmtistaðnum/menningarmiðstöðinni KUFA, sem er staðsettur nálægt Bern eftir því sem ég kemst næst.
Sannarlega skemmtileg tilbreytni og ástæða til að taka sér til fyrirmyndar.
Það færi t.d. vel á að skella "hljómplötu" með Ragga Bjarna á Hagatorg, hvort sem það er nú hringtorg eður ei.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2020 | 12:35
Var Air Primera Íslenskt flugfélag?
Það vekur athygli mína þegar ég les þessa frétt að talað er um að tvö Íslensk flugfélög hafi hætt starfsemi í lok 2018 og í upphafi árs 2019.
Ég skil það svo að hér sé verið að ræða um Air Primera og WOW. Það er enda svo sagt í frétt um sama málefni í öðrum fjölmiðli.
En mér hafði alltaf skilist að Air Primera væri rekið frá Danmörku og Lettlandi, og hefði að því leyti ekkert með Ísland að gera, nema jú að eignarhaldið væri tengt Íslenskum aðilum.
Wikipedia síður um starfsemina í Danmörku og Lettlandi virðast staðfesta það, og frétt á Vísi.is um það leyti sem starfsemin var að stöðvast gerir það einnig.
Flugrekstraleyfið var Lettneskt, rekstrarfélagið var erlent, mikið af flugum félagins var á milli áfangastaða sem ekki tengdust Íslandi.
Hvers vegna er þá mengunin af rekstrinum talin til Íslands?
Ekki að það skipti neinu máli hvað varðar mengunina, hún var auðvitað sú sama eftir sem áður.
En auðvitað sýnir þetta að "mengunarbókhaldið" er ekki einfalt í fluginu, enda mörg flugfélög með mikla starfsemi sem tengist ekki heimalandinu.
En ég get ekki séð annað en að flug Air Primera hafi átt að vera tengt eignarhaldinu, rétt eins og annarra erlendra flugfélaga sem fljúga til Íslands.
En ef einhver hefur frekari upplýsingar um þetta eru þær vel þegnar.
Samdráttur skilar minni mengun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2020 | 01:35
Líklega hefur meiri "verðmætum" ekki verið stolið frá nokkrum einstaklingi, en einum af ríkustu mönnum heims
Auðvitað er auði heimsins misskipt, um slíkt verður ekki deilt. En hvort að eitthvað sé verulega rangt við það er önnur saga.
En samanburður Oxfam er ekki nauðsynlega rangur, en vissulega umdeilanlegur.
Það er ekki einu sinn minnst á að PPP jöfnuð.
Ekki heldur að stór hluti auðs "ríku kallanna" er í hlutabréfum fyrirtækja sem þeir eiga. Sem myndu hugsanlega, jafnvel má segja líklega hríðfalla ef þeir byrjuðu að selja þau í stórum stíl.
Það er þetta með traustið, og hugsanlega "bólupeninga".
Það er hægt að bera saman marga aðskiljanlega hluti.
Einn af ríkustu einstaklingum heims er t.d. Bill Gates. Vissulega höfum við öll mismunandi skoðanir á Windows stýrikerfinu, en gerði auðsöfnun hans einhvern fátækari? Ja, nema auðvitað nema um þá upphæð sem við flest höfum greitt (í hærra verði á tölvunum sem við höfum keypt) fyrir afnot af stýrikerfinu sem fyrirtæki hans, Microsoft hefur þróað.
En skyldi af einhverjum einstaklingi í sögunni, í gegnum það sama fyrirtæki, hafa verið stolið "verðmætum" að hærri upphæð?
Skyldi samtök s.s. Oxfam hafa haft betri áhrif á heiminn, en Microsoft og góðgerðarsamtök Bill Gates og Belindu konu hans?
Svari hver fyrir sig.
Hvað skyldu laun þeirra starfsmanna Oxfam sem unnu umrædda skýrslu fyrir Oxfam(eða þeirra verktaka sem þau réðu) jafngilda mörgum árslaunum meðal konu í Afríku?
Hvað ætli meðal árslaun starfsfólks Oxfam séu?
Hvað skyldi hátt hlutfall af tekjum Oxfam fara til hjálparstarfs? Hvað er rekstrarkostnaðurinn hár?
Hvað skyldi rekstrarkostnaðurinn jafngilda meðal árslaunum margra kvenna í Afríku?
Þannig má leika sér með meðaltöl um víðan völl, það getur gefið af sér "sláandi fyrirsagnir".
En hver skyldi þróunin vera?
Hvað býr stór hluti jarðarbúa við sára fátækt? Hvað bjó stór hluti við slíkt hlutskipti fyrir, 20, 30, 40, 50 árum síðan?
Hvað skyldi stór hluti jarðarbúa búa við fullt lýðræði?
Eftir því sem ég sá í nýrri skýrslu var það ca. 5.7%.
Það þýðir ekki að ríflega 94% jarðarbúa búi við einræði.
En það er víða pottur brotinn.
22 ríkir karlar ríkari en konur Afríku samanlagt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2020 | 00:57
Fallinn er frá snillingur
Þeir verða ekki yngri, frekar en við hin, en það er sjónarviptir að Terry Jones, og Monty Python meðlimanna allra, sumir á lífi, aðrir eins og Terry gengnir á vit feðranna.
En þeir eiga svo marga "sketsa", og svo margar góðar "línur" að það er engu líkt.
Horfið á síðustu klippuna í fréttinni sem þessi færsla er hengd við.
Slík snilld er ekki á hvers manns færi og því miður ekki algeng.
Enda hefur setningin: "He is not the Messiah, he is a very naughty boy", oft verið kosinn fyndnasta setning kvikmyndasögunnar. En vissulega er smekkurinn misjafn eins og mennirnir eru margir.
En kvikmyndin "Life Of Brian", sem Terry Jones leikstýrði, er að mínu mati ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Líklega sú mynd sem ég hef oftast horft á.
Það var ekki tilviljun að myndin var meðal annars auglýst, sem "So funny, it was banned in Norway".
Það verður hlegið af verkum Terry Jones, svo lengi sem lönd eru í byggð.
Terry Jones látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2020 | 00:38
Blessaður hampurinn
Á meðal betri fjölmiðla á Íslandi er Bændablaðið. Það er ósjaldan sem ég les skemmtilegar og fróðlegar greinar þar um hin aðskiljanlegustu málefni. Oft á tíðum ekki nátengdar Íslenskum landbúnaði, jafnvel um plöntur sem lítt eru ræktaðar á Íslandi.
En ég mæli með vefsíðunni þeirra.
En þessi frétt þeirra er í raun stórkostleg. Ræktun á hampi á Íslandi er að skila góðum árangri, og sú landbúnaðarframleiðsla gæti orðið að að lítilli iðnaðarframleiðslu.
Hugsanlega stórri.
Það er einmitt svona hugsun og framtak sem er þörf fyrir sem víðast á Íslandi, kemur öllum til góða.
En hvað er það sem svo heyrist um að hið opinbera dragi lappirnar og standi í raun í vegi fyrir slíkri framþróun?
Er ekki tími til kominn að tengja með hampinn?
23.1.2020 | 00:14
Elsku vinur ábyggilega áhugavert, en ekki gleyma Gjugg í borg og Honey Will You Marry Me..
Mér lýst vel á þetta samstarf, verður líklega áhugavert lag.
En þó að fyrsta LP plata Stuðmanna hafi verið "Sumar á Sýrlandi" sem kom út árið 1975.
En á undan "Sumrinu" kom smáskífan "Gjugg í borg" og "Draumur okkar beggja", ég man ekki hvor var talin "A hliðin", og reyndar minnir mig að "A hlið" hafi verið beggja megin á ÁÁ records útgáfunni.
En líklega var "Honey Will You Marry Me"(ég man ómögulega hvað hitt lagið heitir), jafnvel á undan þeirri smáskífu, sömuleiðis á ÁÁ records. Getur verið að "Honey" hafi verið númer 12 og "Gjugg í borg" númer 13?
Ég man þetta ekki og á ekki þessar plötur, en man eftir að hafa meðhöndlað þær eins og dýrgripi í eigu annarra.
En ég er þess fullviss að "Sumar á Sýrlandi" var ekki fyrsta plata Stuðmanna, þó að hún hafi verið fyrsta LP platan.
En það er auðvelt að fyrirgefa blaðamönnum nútímans að vita ekki um 7", EP plötur og svo framvegis.
En það er líklega jafnt í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni.
En hér sem ég er staddur, er alltaf á einni útvarpsstöðinni, það sem þeir kalla "Vinyl Countdown", en Stuðmenn koma þar því miður aldrei við sögu, en dagskráliðurinn er skemmtilegur eigi að síður.
Stuðmenn og Auður í eina sæng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2020 | 00:42
Ætti allur fiskafli að seljast á markaði, eða er mikilvægara að fullvinna meira á Íslandi?
Oft heyrist sú krafa á Íslandi að allur afli ætti að vera seldur á markaði. Einnig heyrist sú ósk að fullvinna ætti stærri huta aflans á Íslandi.
En fara þessar óskir saman?
Það er auðvitað hugsanlegt, en einnig mögulegt að ef allur fiskur færi á markað drægi úr fullvinnslu á Íslandi.
Þegar samið er við stórar verslunarkeðjur, sem taka þá frá ákveðið kælipláss fyrir vöru í neytendapakkningum, er afar algengt að krafist sé fasts verðs. Verð vörunnar er þá samningsbundið í t.d. 6 til 12 mánuði. Reglan gjarna sú að því stærri keðja, því lengur er verðið fest.
Í slíkum samningum býðst heldur ekki að afhending sé verulega á reiki.
Því skiptir máli þegar starfað er á þeim vettvangi að hráefnisöflun sé eins örugg og kostur er og verð þess sveiflist lítið.
Það gerir þennan markað enn erfiðari, að eftir því sem ég kemst næst, eiga Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekkert sterkt vörumerki á neytendamarkaði. Líklega er það of dýrt að koma á legg?
Þau eru því að framleiða fyrir stærri fyrirtæki, eða gjarna vörumerki verslanakeðjanna. Ég held að alltaf þegar ég hef keypt Íslenskan fisk erlendis hafi það verið undir vörumerki viðkomandi verslunar, eða án vörumerkis.
Það gerir stöðu framleiðandans erfiðari, enda auðveldara að skipta um birgja í þannig framleiðslu umhverfi.
En það er auðveldara að uppfylla harðar kröfur smásöluaðila, með því að hafa fulla stjórn á aflanum frá "mar til markaðar"?
Eru Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki of lítil til að "virka" á alþjóðamörkuðum án þess að þjóna stærri fyrirtækjum?
Það er líklegt, þó að um sé að ræða stórfyrirtæki á Íslandi eru þó smá í alþjóðegu samhengi og það kostar óhemju fé að byggja upp og viðhalda vörumerki á alþjóðlegum smásölumarkaði.
Þó að ég ætli ekkert að fullyrða, er því hægt að sjá fyrir sér þá stöðu, að allur fiskur á markað gerði Íslenskum fyrirtækjum erfiðara um vik að starfa á neytendamarkaði.
En um slíkt er ekki hægt að fullyrða, því enginn veit nákvæmlega hvernig sá markaður myndi haga sér.
Hvernig yrði verðmyndunin?
Nú hefur vinnsla í landi verið að aukast aftur, tækni framþróunin hefur séð til þess. Mér er sagt að frá þeim tíma sem kvótakerfið byrjaði, hafi framleiðni á starfsmann í Íslenskum frystihúsum aukist ca. fimmfalt.
Þó sé jafnvel ekki talið með að fiskurinn sé "unninn lengra".
Það þýðir í raun að af hverjum 10 starfsmönnum sem voru í frystihúsum við upphaf kvótakerfisins, væri ekki lengur þörf fyrir átta af þeim.
Það er enda svo að þegar framleiðni er mæld á milli landa, kemur Ísland yfirleitt hvað best út hvað varðar sjávarútveg, síður í öðrum greinum.
En auðvitað verður þjóðin á einhverjum punkti að velja, áframhaldandi tæknivæðingu, eða "sósíalískan "lúddisma"", með áherslu á önnur sjónarmið.
Mér finnst stundum eins og Íslendingar séu aftur farnir að halda, rétt eins og 2007, að sjávarútvegur skipti littlu máli fyrir velferð þjóðarinnar og hægt sé að nota hann í öðrum tilgangi en að skapa tekjur og arðsemi. Ekki sé áríðandi að reka hann með sem hagkvæmustum hætti.
Slíkt er að mínu mati jafn hættuleg hugsun, nú eins og hún var þá.
P.S. Það skiptir líka máli hvernig aðgangur erlendra aðila er að fiskmörkuðum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel til umgjarðarinnar, en er eitthvað sem kemur í veg fyrir þátttöku erlendar aðila á Íslenskum fiskmörkuðum?
Allar upplýsingar þar að lútandi eru vel þegnar.
Ef svo er ekki, væri það enn einn þáttur sem gæti gert Íslenskum fisverkendum mun erfiðara að vera í fullvinnslu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2020 kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2020 | 18:26
Kommúnismi og sovíet einræði eru ekki fagnaðarefni
Lýðræðið er ekki fullkomið, en þó skársta stjórnarfarið, og í raun líklega það eina sem mannskepnan hefur fundið upp til þess að skipta um stjórnarfar án blóðsúthellinga eða mikilla vandræða.
Því er það gott að ennþá skuli vera til nóg af flokkum og einstaklingum sem bjóða fram til kosninga, þannig að heilbrigt val standi kjósendum til boða að kjósa á milli.
En ég verð að segja að ég fagna ekki væntanlegu framboði stjórnmálaflokks sem kýs að standa að baki "hátíðarfundi" til að minnast afmælis "Soviet byltingarinnar".
Þeir stjórnmálaflokkar sem kjósa að heiðra kommúnísku byltinguna og hafa hana í heiðri eru mér ekki að skapi og ég hvet alla kjósendur til að hafna þeim.
Októberbyltingin fæddi af sér einhverja þá verstu ógnarstjórn sem veröldin hefur þekkt. Ég hef í gegn um tíðina kynnst mörgum einstaklingum sem hafa lýst fyrir mér sinni persónulega reynslu í þeim efnum.
En fleiri en einn af þeim hafa einmitt sagt við mig, að þeir geti skilið hvers vegna að landar þeirra aðhylltust kommúnisma. En síðan hafa þeir bætt við:, ... en á Íslandi og hinum vestræna heimi, einstaklingar sem höfðu aðgang að frjálsum fjölmiðlum, bókum og allra handa upplýsingum, hvers vegna urðu þeir einstaklingar kommúnistar?"
Og því miður hafa ýmsir forystumenn Sósíalistaflokksins sem og aðrir Íslendingar kosið að skreyta sig með táknmyndum hins Sovíeska kommúnistaflokks.
Hvað veldur?
Löngunin eftir blóðugri byltingu? Eða er það eitthvað annað?
Ég held að það sé alltaf gott að líta til sögunnar og hafna þeim sem lofsyngja kommúnisma, jafnt sem aðrar öfgastefnur.
Bera út boðskap ekki foringjadýrkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Kvóti og kvótakerfið hefur líklega verið langlífasta Íslenska deilumálið, alla vegna síðustu áratugi.
Það er í raun ekki að undra, enda er sjávarútvegur á meðal mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi og án efa sú mikilvægasta í sögulegu samhengi.
Ein af þeim "goðsögnum" sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna áratugi og skjóta um kollinum aftur og aftur, er að kvótakerfið hafi lagt mörg sjávarþorp svo gott sem í eyði.
Líklega er það eitthvert lífseigasta og algengasta lýðskrum í íslenskri pólítík.
Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem hafa komið upp í mörgum smærri útgerðarbæjum, en slíkt hefur vissulega orðið raunin.
Þetta er sagt vegna þess að þeir erfiðleikar voru óumflýjanlegir vegna tæknibreytinga. Það eina sem hefði getað komið í veg fyrir þá væri "óendanlegur fiskur" í sjónum, að öðrum kosti var það aðeins spurningin hvar erfiðleikarnir yrðu.
Þar stóðu flest smærri byggðarlög gjarna verr en þau stærri.
Tækniframfarir og sú staðreynda að ekki var nægur fiskur í sjónum gerði það óhjákvæmilegt að miklar breytingar yrðu að verða hvað varðaði fiskvinnslu á Íslandi.
Ef til vill má segja að ekki sé rétt að segja á Íslandi, því breytingarnar urðu ekki síst út á rúmsjó.
Ef til vill er lykilatriðið í því að skilja hvaða breytingar urðu í Íslenskum sjávarútvegi fólgnar í lokamálsgrein þeirrar fréttar sem þessi frétt er hengd við (fréttin er að verða 3ja ára), en þar segir:
- Skipið hefur vinnslugetu á við lítið sjávarþorp, en við það starfa einungis 27 menn, 25 um borð og 2 á skrifstofu í landi. Skipið er 1.403 brúttótonn, 57,5 metrar á lengd og 12 metra breitt. Fiskurinn er fullunninn um borð og er afkastageta um 42 tonn af fullunnum afurðum á sólarhring, en það jafngildir um 100 tonna afla upp úr sjó. Á venjulegum skuttogara af þessari stærð eru um 15 menn i áhöfn þannig að aðeins er bætt við 10 mönnum til að fullvinna veiðina.
Allt í einu voru 27 einstaklingar ígildi "heils sjávarþorps". Tíu einstaklingar vinna fiskinn, í stað þess að áður þurfti heilt frystihús.
Framfarir í tækjabúnaði til að vinna fisk gerði það að verkum að frystihúsin sem höfðu verið "hjarta" svo margra sjávarþorpa urðu óþörf. En þau frystihús sem enn störfuðu juku framleiðslugetu sína svo um munaði.
Líklega ýkti það svo áhrifin að áhrif verkalýðsfélaga voru allt önnur út á sjó en í landi.
Það er auðvelt að reikna út hvort að vænlegra er að fjárfesta í tækjabúnaði sem er í vinnslu 8 til 10 klukkustundir, 5 daga í viku í landi, eða 24 stundir, 7 daga vikunnar út á sjó.
Munurinn á nýtingu tækjanna er yfir 100 klukkustundir á viku eða meira en þreföld.
Það er m.a. munurinn á vinnslu í landi og á frystitogara.
Það er ekki síst fyrir tilstuðlan fyrirtækja, sem Íslendingar eru svo stoltir af, s.s. Marel, Skagans 3X o.s.frv. sem þessi þróun varð.
Vildu Íslendingar vera án þeirra?
Það eru svo framfarir í kæli- og flutningatækni sem hafa valdið því pendúllinn hefur sveiflast aftur til landvinnslu, með aukinni vinnslu alla leið í neytendapakkningar.
En það hefði ekkert nema "óendanlegur fiskur" komið í veg fyrir samþjöppun í útgerð á Íslandi. Hugsanlega hefði "dauðastríð" einstakra útgerða orðið lengra og líklega sársaukafyllra ef kvótakerfisins hefði ekki notið við.
En það má ætla að ástand fiskistofna væri sömuleiðis mun verra.
En framsalinu var einmitt ætlað að stuðla að samþjöppun, sömuleiðis Úreldingarsjóði á meðan hans naut við.
Það var einfaldlega ekki til nægur fiskur fyrir alla útgerðarbæi á Íslandi. Svo er ekki enn og ólíklegt að verði nokkurn tíma.
En auðvitað er þarft að ræða sjávarútveg á Íslandi og hvað megi betur fara.
Hvað er rétta hámarkið í hvað varðar kvótahlutdeild? Á að bjóða upp aflaheimildir? Ef svo, til hvað margra ára í senn? Á þá fyrst og fremst að selja hæstbjóðanda, eða eiga önnur lögmál að gilda?
Eiga "byggðasjónarmið" að vega þyngra en arðsemissjónarmið?
Ætti að vera skylda að hluti hverrar löndunar fari á markað, eða ætti allur afli að gera það?
Eða er núverandi fyrirkomulag býsna gott?
Það er full ástæða til að ræða fyrirkomulag fiskveiða í Íslensku lögsögunni, en látum ekki glepjast af "fortíðarþrunginni lýðskrums rómantík" um að hægt sé að hverfa aftur - til fortíðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)