Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020

Kostar Netflix Eurovision á Íslandi?

Ef marka má fréttir sem ég hef séð frá Íslandi, mun Netflix kosta útsendingu Eurovision á Íslandi í vor.

Flest sem ég hef heyrt sagt um málið er neikvætt í garð RUV og þessarar kostunar.  Talað er um að þetta sýni slæmt siðferði RUV, það sé óviðeigandi að Netflix kosti slíka útsedingu.

Netflix sé ógn við Íslenska fjölmiðla og menningu og því eigi RUV ekki að vera í samstarfi við slíkan aðila.

Síðan er því gjarna bætt við að Netflix greiði enga skatta á Íslandi og sé á meðal þess sem gerir Íslenskum fjölmiðlum erfitt fyrir.

Ég get vel skilið að þetta samstarf veki athygli, en ég sé ekki raunverulegar ástæður til þess að amast við því.

Það væri fyrst orðið umdeilanlegt ef RUV væri ætlað að hafna þeim sem vilja auglýsa hjá stofnuninni eða kosta dagskrárliði, eftir einhverji siðferðismati um starfsemina.

Öll fyrirtæki ættu að hafa jafnan aðgang að auglýsingum og þess háttar, svo lengi sem löglegt er að auglýsa viðkomandi vöru.

Annað gengur hreinlega ekki upp að mínu mati.

Það má hins vegar rökræða lengi um hvort að auglýsingar og kostanir eigi að vera á RUV, hvort að skylduáskrift sé rétt, hvaða markmið séu með rekstri RUV og hvort að það eigi að setja rekstri þess einhverjar skorður.

En að RUV fari að flokka auglýsendur/kostunaraðila í æskilega og óæskilega er alger fjarstæða að mínu mati.

P.S. Viðbætt hér 18. janúar.  Mér barst tölvupóstur með þeim upplýsingum að Netflix borgi að sjálfsögðu virðisaukaskatt af áskriftum á Íslandi.  Fannst rétt að það komi fram.

 

 

 


Íran stígur fram sem sökudólgur - Síðan handtaka þeir Breska sendiherrann

Ég vil byrja á því að segja að það er lofsvert af Írönum að stíga fram með þessum hætti og játa á sig verknaðinn.

Vissulega tók það óþarflega marga daga, en þeir játa, og því eru allar "samsæriskenningar" kveðnar niður og hægt er að halda áfram með málið.

Líklega sáu þeir sannanirnar hrannast up og sáu að ekki væri stætt á því að halda feluleiknum áfram.

Það er sjálfsögð krafa að Íran greiði Úkraínska flugfélaginu og aðstandendum þeirra sem fórust bætur.

Í sjálfu sér er erfitt að ímynda sér að málið hafi önnur áhrif á alþjóðavettvangi.

En áhrifin á ástandið innanlands í Íran gætu orðið umtalsverð.

Mótmæli hafa verið kæfð niður með hörku hingað til og hundruðir hafa verið skotnir af stjórn "múllanna".

Í daga hafa verið mótmæli til að mótmæla framgangi Íranskra stjórnvalda og líklegt að þau haldi áfram næstkomandi daga.

Það er fróðlegt að sjá hvort að "múllarnir" treysti sér til að viðhafa áfram sömu hörkuna þegar augu alheimsins hvíla á þeim.  Sjálfsagt reyna mótmælendur að notfæra sér það.

Breski sendiherrann var svo handtekinn af Írönskum stjórnvöldum í dag.  Hann hafði tekið þátt í minningarvöku um þá sem fórust í flugvélinni sem Írönsk yfirvöld skutu niður.

Síða hafði hann drifið sig í klippingu, og stuttu síðar var hann handtekinn.

Það er því ljóst að ókyrðin mun halda áfram í kringum Írönsk stjórnvöld.

Enn of aftur sýna Írönsk stjórnvöld að virðing þeirra fyrir alþjóðalögum, sendiráðum og erindrekum er njóta verndar alþjóðlegra samninga er ekki til staðar.

 

 

 


mbl.is Segjast hafa skotið vélina óvart niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra "lúðamálið" og "sósíal realísk" kvikmyndagerð

Mér fannst nokkuð gaman að lesa um "stóra lúðamálið".  Sem gömlum "landsbyggðarlúða", sem breyst hefur í "sófistíkeraðan" stórborgarmann, er mér auðvitað málið skylt og þekki það af eigin raun.  Frá báðum ef ekki fleiri hliðum.

Það er vissulega freistandi að taka upp þykkjuna fyrir "landsbyggðarlúðana", þó þykist hinn "sófistíkeraði" stórborgarbúi vita betur.

Það er nefnilega þetta með raunsæið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Það vill oft fara fyrir ofan garð og neðan.

Það kann auðvitað að koma mörgum á óvart að ungt fólk í New York býr ekki eða lifir eins og sést í "Friends", allra síst ef það er atvinnulaust eða með stopula vinnu.  Það eru víst sömuleiðis býsna margir New York búar sem deila ekki lífsstíl með vinkonunum í "The Sex And The City".

Homer er ekki týpískur starfsmaður í Bandarísku kjarnorkuveri og ef við skellum okkur í sumarfrí til Torquay, þurfum við ekki að eiga von á svipuðum trakteringum og gerðust í "Fawlty Towers", þó að þeir þættir (eins og margir aðrir) séu reyndar byggðir á raunveruleikanum að hluta til.

Bandarískur lögreglumaður sem ég eyddi einu sinni smá tíma andspænis á bar, sagði mér í óspurðum að kleinuhringjaát þeirra í kvikmyndum væri ofgerð og leiðinleg steríótýpa.

Líklega eru rannsóknarlögreglumenn heldur ekki jafn einmanna, þunglyndir, drykkfelldir og fráskyldir og sýnt er í þáttum og kvikmyndum.  Alla vegna ekki þeir sem ég hef kynnst, en þeir eru reyndar það fáir að þeir teljast ekki marktækt úrtak.

Ég leyfi mér sömuleiðis að efast um að þeir félagar Ólafur Ragnar og Georg séu týpískir starfsmenn á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ættu stéttarfélög ef til vill að fara að huga að "ímynd" félagsmanna sinna í kvikmyndum og sjónvarpi?

Þannig er það að oft velja sögu- og kvikmyndagerðarmenn að sýna okkur frekar ýkta, en skemmtilega/áhugaverða útgáfu af raunveruleikanum.

Oft eitthvað sem þeir teljs "söluvænlegt".

Það er engin ástæða til þess að taka það of hátíðlega, persónulega hef ég engan áhuga á því að taka undir einhver áköll um "sósíal realíska" kvikmyndagerð.

Kæfum ekki kvikmyndir eða önnur skáldverk með kröfum um um að þau endurspegli raunveruleikann.

Það er ekkert að því að einhver þeirra geri það, en alls ekki nauðsyn.

 


Íranir lang líklegasti sökudólgurinn

Því miður er þessi ástæða fyrir þessu hræðilega flugslysi sú lang líklegasta og raunar sú fyrsta sem kom upp í hugann.

Að flugslys hafi orðið svo stuttu eftir að Íranir skutu eldflaugum á herstöðvar í Írak er ólíklega tilviljun,  en eldflaugaárásirnar gera það að verkum að spennan á svæðinu er mikil.

Loftvarnir Írana hafa líklega verið á "hæsta viðbúnaðarstigi" og einmitt þá er hætta á að einstaklingar "sjái" það sem þeir eiga von á, eða óttast að sjá.

Atferli Írana er enda í takti við slíka atburðarás. Í byrjun á ekki að hleypa neinum erlendum aðilum að rannsókninni. 

"Svörtu kassarnir" finnast báðir, en "tilviljunin" er slík að minnið í báðum hefur orðið fyrir "hnjaski".  Enn meiri ástæða hefði því verið til að leita aðstoðar færustu sérfræðinga í málinu.  Ekki endilega Bandarísks fyrirtækis, en Franskt fyrirtæki er t.d. mjög framarlega í slíkri vinnu.

Það er ekki fyrr en æ fleiri vísbendingar hafa komið fram sem benda til sekt Írana að þeir ákveða að rétt sé að leyfa fleirum að koma að rannsókninni.

Þó ekki fyrr en þeir hafa valsað um vettanginn í nokkra daga. Allir gera sér þó grein fyrir því að það eru einmitt fyrstu dagarnir, ekki síst fyrstu klukkustundirnar, sem skipta mestu máli í slíkri rannsókn.

En þó að yfirgnæfandi líkur séu á því að Íranir hafi skotið niður vélina af misgáningi, verður niðurstaðan líklega aldrei sönnuð með afgerandi hætti, og án efa verða "samsæriskenningar" á sveimi um ókomna framtíð.

Að því leyti minnir málið á Hollensku farþegaþotuna, sem allar líkur eru á að uppreisnarmenn Rússa/A-Úkraínumanna hafi skotið niður yfir Úkraínu.

Hér má sjá flug vélarinnar á Flightradar24. Þar er ekki hægt að sjá að vélin hafi snúið við, eins og Íranir fullyrða, en það er vissulega ekki "últimeit" sönnun, en þó er "trackið" þeirra öllu jafnan mjög gott

FLR UKRAN

 


mbl.is Skotið hafi verið á farþegaþotuna fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írak: Hvað er rétt og hver eru réttu viðbrögðin.

Það er ekki ofsögum sagt að ástandið í Írak og raunar þar sem oft er nefnt "Miðausturlönd", já og líklega "Islam heiminum" öllum sé flókin.

Oft virðist mér svo sem að því meira sem ég les ef fréttum þaðan, því minna skilji ég. 

Það hljómar t.d. vissulega skringilega að Íranskur hershöfðingi skuli hafa verið myrtur, af Bandaríkjunum, í Írak.  Lítið fer fyrir því í fréttum hvernig stóð á því að hann var þar staddur.

En ég held að það megi ganga út frá því sem vísu að hann hafi ekki verið að "skáta" út sumarleyfisstaði fyrir sig og konuna.

Hvernig stendur á því að Íranskur hershöfðingi er sagður (um það virðist ríkja nokkurn veginn samhljóma skoðun) stýra her/hryðjuverkaveitum í Írak? (Sem og í fleiri ríkjum).

En það breytir því ekki að það er ólöglegt að beyta hernaðarmætti innan landamæra annars ríkis, án samþykkis þess sama ríkis. Slíkt er þó ekki án fordæma og er skemmst að minnast þegar Bin Laden var veginn í stjórnartíð Obama, þá án vitneskju Pakistanskra yfirvalda.

Það sama gildir t.d. um árásir á sendiráð.  Það hefur verið grundvallar regla í samskiptum ríkja að sendiráð njóti friðhelgi. Árásir á sendiráð eru því skýr brot á alþjóðalögum og fátt litið alvarlegri augum.

Það getur ekkert ríki tekið af léttúð ef önnur ríki koma að skipulagningu árása á sendiráð þeirra.

Það hlaut því að koma að því að Bandaríkjamenn svöruðu þeim aðgerðum sem Íranir stóðu að baki.

En það má alltaf deila um einstaka aðgerðir og hvað hver séu réttu viðbrögðin.

P.S. Það er vert að velta því fyrir sér hvort að það sé ekki vænlegt til árangurs að beina árásarkraftinum að hershöfðingjum og þeim æðra settu. Er það ekki áhugaverð tilbreyting frá því að ráðist sé fyrst og fremst að óbreyttum hermönnum?

Getur það átt sinn þátt í því hvað viðbrögð Írana eru varfærin? Það og svo að líklega skutu þeir, fyrir mistök, niður Úkraínska farþegaþotu.

 


mbl.is Telja árásina brot gegn fullveldi Íraks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir Roland nördana

Nýja árið ætti að verða sérstaklega gefandi, skemmtilegt og skapandi.

303 + 808 + 909 = 2020


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband