Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016
28.7.2016 | 18:51
Tveir "yfirburðamenn" ræða saman
Athygli mín var vakin á því að horfa mætti á athyglisvert viðtal á vef sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar.
Eins og sá sem sendi mér hlekkinn orðaði það, þá má þar sjá tvo "yfirburðamenn" ræða saman, og eru þeir ekki í vandræðum með það að leggja almenningi línurnar.
Persónulega þá skellti ég oftar en einu sinni upp úr þegar ég horfði á "spekingana spjalla", enda voru þeir ekki í vandræðum með að kveða upp úr með hvað væri að fjölmiðlum, bæði íslenskum og erlendum, né heldur virtust þeir vera í vandræðum með að úrskurða um "grunnhyggni" almennings.
Að sjálfsögðu voru þeir ekki í vandræðum með að segja hvaða "línu" ákveðnir fjölmiðlar fylgdu, nema að sjálfsögðu sögðu þeir ekkert um hvaða "hagsmunum" sá fjölmiðill sem þeir voru staddir á fylgdi, eða hvaða "eigendahagsmunum" hann þjónaði.
Það kann ef til vill að vera best að vera ekki dómarar í eigin sök.
En ekkert var rætt um hvort að það sakaði trúverðugleika fjölmiðla að starfsfólk þeirra (eða verktakar) væru stjórnendur umræðuþátta "eina vikuna" en frambjóðendur í prófkjöri stjórnmálaflokka "hina vikuna".
Slíkar samræður enda varla á færi "yfirburðamanna".
Til slíks þurfa einstaklingar meira en yfirburði.
25.7.2016 | 09:08
Er það skelfileg tilhugsun að íslendingar kaupi sér frekar heilbrigðisþjónustu innanlands en utan?
Nú birtast í fjölmiðlum fréttir þess efnis að fyrirhugað sé að reisa stórt einkarekið sjúkrahús og hótel á Íslandi.
Flestir virðast koma af fjöllum þegar rætt er um framkvæmdina og svo virðist sem hún eigi sér fremur skamman aðdraganda.
En þetta er í sjálfu sér ekki í fyrsta sinn sem slíkar hugmyndir heyrast og fljótt á litið virðast viðtökurnar ósköp svipaðar.
Flestir virðast hafa allt á hornum sér hvað varðar rekstur einkasjúkrahúss á Íslandi og það vantar ekki hrakspárnar og "heimsendaspádómana".
Rekstur slíks sjúkrahúss mun kollvarpa og eyðileggja íslenskt heilbrigðiskerfi að margra mati og það er erfitt að skilja það á annan veg en að barist verði hart á móti því á flestum vígstöðvum að slíkt sjúkrahús geti risið.
Ekki síst á hinum pólítíska vettvangi.
Þetta er enda allt samkvæmt Evrópusambandstilskipun.
Nú hafa forsvarsmenn hins nýja sjúkrahúss reyndar sagt að þeir muni ekki sækjast eftir viðskiptum íslendinga, en ekki neita þeim um þjónustu ef þeir sækjast eftir henni.
En er það ekki merkilegt ef tilhugsunin um að íslendingar kaupi sér þjónustu innanlands, er pólítíkusum mun skelfilegri en ef þeir fara yfir "Evrópusambandslandamæri" til þess að kaupa hana?
Ekki síður er það merkilegt ef þeir stjórnmálamenn dásama hvað mest frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu hafa ekki skilið að heilbrigðisþjónusta fellur einmitt undir síðasta liðinn og það er gert ráð fyrir því að hið frjálsa flæði virkir í báðar (eða allar) áttir.
Án þess að ég hefi hugmynd um það, þykir mér líklegt að að rekstraraðilar hins væntanlega spítala (ef af verður) ætli sér einmitt að sækja á þann markað sem íbúar "Sambandsins" eru, sem og að ná samningum við bandarísk tryggingafélög.
Síðan hefur mátt sjá áhyggjur margra vegna hugsanlegrar samkeppni hins nýja sjúkrahúss um starfsfólk.
Það er reyndar mjög líklegt að svo verði, alla vegna að einhverju leiti. En hafa ekki flestir þeir sem að heilbrigðismálum hafa komið undanfarin ár, sagt að Ísland sé í samkeppni við stærstan hluta heimsins þegar kemur að heilbrigðisstarfsfólki?
Er verra að sú samkeppni komi til sögunnar innanlands?
Hefur ekki íslenskt heilbrigðistarfsfólk í hundraða tali, ýmist flutt á brott eða starfað á erlendum heilbrigðisstofnunum um lengri eða skemmri tíma?
Ef til vill flytur einhver þeirra heim og aðrir hætta að fljúga reglulega til Noregs?
Er það hræðileg tilhugsun?
Mátti ekki lesa í fréttum nýverið að margir hjúkrunarfræðingar störfuðu sem flugfreyjur. Ef til vill snúa þær aftur til í þau heilbrigðisstörf sem þær hafa menntun til?
Það er ekkert undarlegt þó að stór áform eins og í Mosfellsbænum veki einhvern ugg og fjöldan allan af spurningum.
Það er enda bæði þarft og gott að umræða fari fram um málið.
EN það er nauðsynlegt að umræðan sé skynsamleg og horft sé bæði til tækifæranna og hugsanlegra neikvæðra hliða.
Reynt sé að grípa tækifærin og draga eins og mögulegt er úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum, helst koma í veg fyrir þau.
Heyrði fyrst af áformunum í fréttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2016 | 18:24
Með hagsmuni neytenda að leiðarljósi?
Það er rætt um landbúnað og styrki til hans víða um lönd, enda víða vandræðaástand. Ekki það að framleiðslan gangi illa, heldur stendur hún varla eða ekki undir kostnaði, jafnvel þó að tekið sé með í reikninginn fjallháar greiðslur frá hinu opinbera víðast um lönd.
Hvað er þá til ráða annað en að auka duglega í styrki til bænda, eins og "Sambandið" hefur nú gert, um u.þ.b. milljarð euroa síðastliðið ár.
Staðreyndin er sú að framleiðslugetan er einfaldlega of mikil í landbúnaði. Það er enda ekki minnkandi eftirspurn í framleiðslulöndunum sem veldur vandræðum í "Sambandinu" nú, heldur hitt að útflutningsmarkaðir hafa veikst.
Eftirspurn eftir mjólkurafurðunum sem skattgreiðendur í "Sambandinu" niðurgreiða til útflutnings hefur einfaldlega minkað.
Þar munar ekki síst um Rússland, en einnig lönd eins og Saudi Arabíu, Alsír, Nígeríu og Oman. Lágt olíuverð hefur þar áhrif og svo einnig á framleiðsluþáttinn, því lágt olíuverð lækkar fóðurverð og hvetur þannig til aukinnar framleiðslu.
Neytendur víða um lönd hafi hins vegar notið þess í verði að framleiðsla hefur verið mikil og samkepni hörð.
Verð á mjólk og mjólkurafurðum hefur snarlækkað, og sumstaðar hefur mjólk lækkað í verði um u.þ.b. 40% og ostur og smjör jafnvel meira.
En slík verð munu líklega hægt og rólega heyra sögunni til. Milljarðar euroa verða notaðir til að minnka framleiðsluna og hækka verðið.
Líklega með hagsmuni neytenda (kjósenda) að leiðarljósi.
P.S. Hér er fjallað um hvernig hlutirnar eru að gerast "Sambandinu" þessa dagana, en það er auðvitað ekkert einsdæmi þegar kemur að landbúnaði víðast um heiminn, enda þau ekki mörg löndin þar sem landbúnaður er rekinn án umfangsmikilla styrkja hins opinbera.
Mæta offramboði mjólkur með styrkjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.7.2016 | 19:37
Glæpa-Islam
Það má eiginlega segja að í hvert sinn sem hryðjuverk eru framin, og líklegt þykir að rekja megi þau á einhvern hátt til Islam, heyrum við fullyrðingar um að allt sé þetta múslimum að kenna og svo hitt að þetta hafi ekkert með Islam að gera.
Að mínu mati er hvoru tveggja rangt.
Auðvitað er það hræðileg einföldun að ætla að kenna venjulegum múslimum um voðaverkin, en á hinn vegin er það jafn mikil einföldun að segja að Islam hafi ekkert með þau að gera.
Hryðjuverkin eiga uppruna sinn og rætur í Islam, og þangað sækja þau grundvöll sinn og næringu.
Þða er ekki þar með sagt að að þeir sem aðhyllast hryðjuverk séu hið "eina sanna Islam", enda veit líklega enginn hvað það er.
Ekki frekar en nokkur veit hver hin eina sanna kristni er.
Slík barátta hefur geysað um aldir, og mun líklega gera svo um ókomna tíð.
En það sem ef til vill er ekki síst vert að gefa gaum og hafa áhyggjur af, er það sem ef til vill mætti kalla "glæpa-Islam", eða það sem hefur verið kallað á enskri tungu "gangster-Islam".
Aftur og aftur virðast dæmin benda til þess að "smáglæpamenn" af "múslímskum" uppruna fremji hryðjuverk.
Eigum við að einblína á að að þeir séu "smáglæpamenn", eða á að þeir séu múslímar?
Frá mínum bæjardyrum séð, er ekki sama hættan á að "smáglæpamenn" sem eru annarar trúar en þeirrar að Múhameð sé "aðal kallinn", gerist hryðjuverkamenn.
Því er frá mínum bæjardyrum rökrétt að segja að Islam hafi eitthvað með hryðjuverkin að gera.
Ekki að að ég viti nokkurn skapaðan hlut um hvernig beri að skilgreian trú þeirra sem fylgja Allah, en það sem ef til vill skiptir ekki síður máli, er að ég veit ekki um nokkurn sem er þess umborinn að segja um hvað er þessi trú, eða hin.
Þess vegna verðum við flest að sætta okkur við að þessi hópur eða annar, segist fylgja þessum trúarbrögðum, eða öðrum.
Alþjóðlegi trúarbragðadómstóllinn hefur að því að ég best veit ekki verið komið laggirnar, og ég efast um að slíkt muni nokkurn tíma gerast.
Þess vegna skiptir það ekki hvað síst máli hvað aðrir sem segjast aðhyllast sömu trúarbrögð segja og hver viðbrögð þeirra eru við hryðjuverkum og voðaverkums sem framkvæmd eru í nafni einhverra trúarbragða.
Hver man til dæmis eftir því að kristnar kirkjur hafi fagnað ódæðisverkum Breivik í Noregi, þó að hann hafi sagst hafa verið kristin?
Hver man ekki eftir því að hafa lesið um fögnuð ýmissa þeirra söfnuða sem aðhyllast Islam kjölfar voðaverka sem framin hafa verið í nafni Islam.
Það er óþarfi að leita lengra en ódæðisverksins í Nice nú fyrir fáum dögum.
Það líður ekki á löngu áður en "hið Íslamska ríki" lýsir ábyrgðinni á hendur sér.
Nú vitum við ekkert hvort að hið "Íslamska ríki" standi raunverulegu að baki árásinni eður ei. Um slíkt er erfitt að dæma.
En hver getur dæmt um að að hið "Íslamska ríki" sé hið rétta "Islam" eður ei?
Það er ekker nýtt að trúarbrögð leiti fylgjenda á meðal þeirra sem eru í fangelsi eða "eigi erfitt".
Það er heldur ekkert nýtt að þeir séu jafnvel meira ákafir en þeir sem "snéru þeim". "Nobody is more relegious, than the newly converted".!
En hvernig eig að bregðast við "einmana úlfum", á meðal "glæpa Islam" er nokkuð sem sem líklega erfitt að finna skynsamlegt andsvar við.
Drakk og sást aldrei í moskunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.7.2016 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.7.2016 | 18:29
Argir "Sambandsmenn" og ljúgandi stjórnmálamenn
Það er ekki hægt að segja að lognmolla ríki í fréttum þessa dagana. Engin gúrka yfir sumartímann.
Ótrúlega margir "Sambandsmenn" ná vart andanum fyrir ergelsi.
Fyrst sökuðu margir þeirra Boris Johnson um að hafa stokkið frá borði og hlaupist undan ábyrgð, nú stökkva þeir upp á nef sér yfir því að BoJo (eins og hann er stundum kallaður) skuli hafa verið boðið og tekið að sér að verða utanríkisráðherra Bretlands.
Það getur varla talist að hlaupast undan ábyrgð.
Hvað varðar lygaáburð hins franska utanríkisráðherra á hendur Johnson, er erfitt að finna því nokkra raunverulega stoð.
Vissulega var margt sem var sagt báðum megin "víglínunnar" í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi þess eðlis að það vekur spurningar.
En þeim spurningum hefur flestum ekki verið svarað.
Svör við þeim mun að einhverju marki á næstu árum, en þó er aldrei hægt að fullyrða um niðurstöðurnar, því möguleikarnir eru svo margir.
Stjórnmál eru ekki raunvísindi, þar sem aðeins einn eða tveir möguleikar eru til staðar. Og þó að einhver kunni að hafa rangt fyrir sér þýðir það ekki að andstæðingur hans hafi haft á réttu að standa.
Lífið er flóknara en það.
En "Brexit" býður upp á ótal möguleika, og margar hættur og því eiginlega vonlaust að ætla að fullyrða á þessari stundu hvernig spilast úr stöðunni og hver verður niðurstaðan.
En persónulega er ég bjartsýnn fyrir hönd breta og hygg að til lengri tíma verði ákvörðunin þeim til góðs.
En talandi um ljúgandi stjórnmálamenn, þó mætti ef til vill líta til þeirra "loforða" sem voru gefin þegar barist var víða um Evrópu fyrir upptöku eurosins.
Þó voru ófá loforðin og margar fullyrðingarnar um hina efnahagslegu velmegun sem átti að koma í kjölfarið. Og á hinn veginn beið þeirra sem ekki vildu vera með, ekkert nema svartnættið, efnahagsleg hnignum og að verða hornreka í alþjóðlegum viðskiptum.
Varð það raunin?
Alls ekki. Hvort að þeir stjórnmálamenn sem svo fullyrtu lugu, vissu ekki betur eða höfðu einfaldlega látið sannfærast af röngum upplýsingum, er ekki gott að segja eða fullyrða um.
En þeir höfðu ekki rétt fyrir sér. Sjálfagt myndu einhverjir kalla þá lygara.
Íslendingar þekkja af eigin raun svipaða hluti.
En hitt er svo skiljanlegt að skipan Borisar Johnson sem utanríkisráðherra fái misjafnar undirtektir.
Hann er enda langt frá því að vera hinn "týpíski gerilsneyddi" stjórnmálamaður sem virðist vera hvað algengastur nú á tímum. Marg oft hefur "gúllinn" á honum komið honum í vandræði.
En það er líklega einmitt stór hluti af því sem hefur fært honum vinsældir á meðal almennings.
En það verður fróðlegt að fylgjast með honum í starfi og ég óska honum alls góðs.
Miðað við viðtökur fjölmiðla í dag, veitir honum svo sannarlega ekki af góðu starti.
Sagði Boris Johnson lygara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2016 | 20:11
... á meðan á Eurosvæðinu
Athygli margra hefur beinst að "Brexit" undanfarna daga, ekki með öllu óeðlilegt, enda um stór tíðindi að ræða.
En þó um stór tíðindi sé að ræða, er ekki síður margt annað sem er að gerast í Evrópusambandinu og sérstaklega Eurosvæðinu, sem vert er að gefa gaum og sem getur haft mun alvarlegri afleiðingar.
Ekki hvað síst hið hægfara bankahrun á Ítalíu, sem sýnir að Eurokreppan hefur ekki verið leyst, þó að margir hafi gert sitt besta til að gleyma henni.
Á vefsíðu Financial Times, mátti til dæmis lesa eftirfarandi í grein eftir Martin Wolf:
The paramount example of recent failure lies inside the eurozone. That has nothing to do with the UK. The sad truth is that, far from launching a period of prosperity, the euro has delivered a lengthy period of stagnation and massive divergences in living standards. Between the first quarters of 2008 and 2016, aggregate eurozone real gross domestic product rose by a mere 0.5 per cent, while real aggregate demand fell by 2.4 per cent. This is grim enough. Even worse, between 2007 and 2016, real GDP per head is forecast to rise 11 per cent in Germany, stagnate in France and fall by 8 per cent and 11 per cent in Spain and Italy respectively.
These dire outcomes are no accident. They are the pradjustment, and of obscurantist opposition to fiscal stimulus, even at a time of negative real interest rates on long-term borrowing. Germany has done well out of the euro. Its principal partners have not. This divergence poses a big threat. No effective plan exists to end it.oduct of a misdiagnosis of the crisis as mainly fiscal, of asymmetrical macroeconomic
Á vefsíðu hins íslenska Fréttablaðs (visir.is) mátti svo lesa ekki svo ósvipaða fullyrðingu, í pistli eftir danska hagræðinginn Lars Christiansen:
Vandamál ítalska bankageirans hefur lítið með Brexit-kosninguna að gera. Ítalski bankageirinn er í vanda af sömu ástæðu og ítölsk ríkisfjármál eru í klandri skortur á hagvexti.
Þannig hefur ekki orðið neinn raunverulegur bati í ítalska hagkerfinu síðan 2008. Raunar er verg landsframleiðsla núna að raunvirði næstum 10% minni en hún var í upphafi árs 2008 og það sem er jafnvel enn verra raunvirði vergrar landsframleiðslu er núna það sama og það var fyrir 15 árum. Fimmtán ár án hagvaxtar það er raunveruleiki ítalska hagkerfisins.
Það eru ýmsar ástæður fyrir hagvaxtarleysi Ítalíu. Ein er sú staðreynd að Ítalía er í myntbandalagi evrusvæðinu sem landið hefði aldrei átt að ganga í. Hin djúpa kreppa á Ítalíu krefst mikillar slökunar á peningamálastefnu það er að segja Ítalía þarfnast mun veikari líru, en Ítalía hefur ekki lengur líruna og þess vegna eru peningamarkaðsskilyrðin of stíf fyrir Ítalíu.
Auk þess er Ítalía þjökuð af alvarlegum kerfisvandamálum til dæmis stífum vinnumarkaðsreglum og neikvæðri mannfjöldaþróun. Afleiðingin er sú að útlitið er býsna dökkt hvað hagvöxt varðar.
Eurokreppan hefur aldrei verið leyst, þó að hún hafi ef till vill horfið úr sjónmáli stutta stund.
Því miður er Eurokreppan ekki aðeins óleyst, heldur er hún langt í frá eina hættan sem staðar að Evrópusambandinu.
Sjálfur Deutsche Bank er í standandi vandræðum og var nýlega útnefndur "Hættulegasti banki heims", hvað varðar kerfislega áhættu. Verðgildi hlutabréfa bankans hefur fallið u.þ.b. 50% síðastliðið ár, en ríflega 90% frá því að það náði hæstu hæðum 2007.
Það er er til vill ekki að undra að hagfræðingar bankans séu farnir að tala um að ríki Eurosvæðsins þurfi að fara að dæla fjármagni í bankakerfið.
Fjárlagahalli margra ríkja á Eurosvæðinu er yfir leyfilegu hámarki. Framkvæmdastjórnin vill sekta Spán og Portúgal (en ekki önnur ríki sem hafa brotið gegn reglunum), en þau hafa enn nokkra daga til andmæla. Líklegast þykir þó að sektirnar verði aðeins "táknrænar", eða jafnvel "0", enda erfitt að sekta sumar þjóðir en líta fram hjá brotum annara.
Og hið hægfara bankahrun er ekki eina vandamál Ítalíu. Yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreyingar, gæti kallað á kosningar til þings ef þær verða felldar. Það er ekki að undra að þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki hátt skrifaðar hjá embættismönnum "Sambandsins".
5 stjörnu hreyfing Beppo Grillo gæti komist til valda ef til nýrra kosninga kæmi (góður sigur þeirra í borgarstjórnarkosningum í Róm gefur þeim byr í seglin), og það gæti jafnvel þýtt enn fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur, jafnvel um euroið.
Stjórnarkreppa ríkir á Spáni og engin veit hver verður endirinn.
Opinberar skuldir margra ríkja svæðisins hafa haldið áfram að aukast en meðaltalskuldir ríkja svæðisins, uppfylla ekki skilyrðin fyrir að tilheyra Eurosvæðinu.
Atvinnuleysi er enn í tveggja stafa tölu og skelfilega hátt á meðal ungs fólks. Grikkland er enn óleyst vandamál, þrátt fyrir "hjálp" "Sambandsins" undanfarin 6 ár.
En "Brexit" og að hreyta ónotum í Bretland er pólítískt auðveldara viðfangsefni en að kljást við þau vandamál sem eru aðkallandi fyrir Eurosvæðið.
Að fjalla um atvinnuleysi og erfiðleika, án þess að leggja fram lausnir er ekki líklegt til vinsælda.
Og lausnir á vandræðunum virðist vera nokkuð sem stjórnamálamenn svæðisins hafa ekki.
Því er ástandið eins og það er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2016 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.7.2016 | 19:21
Hárskurður sósíalistanna
Það þurfa flestir á hárskurði (klippingu) að halda og ég myndi ekki halda því fram að það sé ódýrt, en þó viðurkenni að alla jafna er þeim aurum nokkuð vel varið.
Hár er höfuðprýði.
En fréttirnar af launum hárskurðarmeistara Hollande Frakklandsforseta fá mig þó til að staldra við.
Svo virðist sem að Hollande hafi látið franska ríkið borga hárskurðarmeistara sínum í rétt undir 1.400.000 á mánuði, eða tæp 10.000 euro.
Vissulega kann þetta ekki að þykja há uphæð miðað við marga aðra vitleysuna sem hínn sósíalíski forseti frakka hefur framkvæmt á valdatíma sínum, en ég hygg þó að mörgum þyki nóg um, enda um persónulega eyðslu að ræða.
Er að undra þó að traust og tiltrú á mörgum "hefðbundnum" stjórnmálamönnum fari þverrandi?
Er að undra þó að hljómur sósíalistans Hollande þyki holur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2016 | 15:18
Þvingaðar nafngiftir?
Ég vil byrja á því að segja að ég er mikill aðdáandi íslenskrar nafnahefðar og því að börn séu kennd við föður sinn eða móður.
Þess vegna eru bæði börnin mín Tómasarbörn og hafa að auki góð og gild klassísk nöfn.
Mér þykir föðurnafnahefðin það góð, að þó að okkur (mér og konunni minni) hefði verið nokkuð í sjálfvald sett hvernig við ákváðum að haga málum.
Þó hefur drengurinn minn eitt,eða tvö nöfn sem má draga í efa að hlotið hefðu samþykki mannanafnanefndar og dóttir mín hefur fjögur eiginnöfn, þar af eitt sem líklega hefði ekki hlotið samþykki.
Þar sem bæði börnin eru fædd utan Íslands, voru nafngiftir ekkert vandamál, einfaldlega var hakað í þar til gerða kassa að börnin bæru ekki sama "eftirnafn" og foreldrarnir.
Sömuleiðis hvarflaði aldrei að okkur hjónum að konan mín yrði "Gunnarsson", í eyrum okkar beggja hljómaði það hjákátlega.
Allt þetta var sjálfsagt vegna þess að við bjuggum ekki á Íslandi, heldur í landi þar sem litið er á nafngiftir og "fjölskyldunöfn" sem ákvarðanir viðkomandi fjölskyldu.
Og þannig tel ég að það eigi að vera.
Jafn mikill aðdáandi hins "íslenska kerfis" og ég er, hef ég engan áhuga á því að neyða aðra til þess að fylgja því.
Þó að ég sé áfram um varðveislu þess hef ég engan áhuga á því að neyða því upp á aðra, ekki einu sinni börnin mín. Vilji þau í fyllingu tímans taka upp "eftirnöfn", eða nefna börn sín einhverri endaleysu, þá mun ég líklega reyna að telja þeim hughvarf, ef einhver lífskraftur verður í mér, en ég geri mér grein fyrir því að þeirra er valið og þannig á það að vera, hvort sem þau munu búa á Íslandi eða annars staðar.
Það væri mikil eftirsjá af íslensku nafnahefðinni, ef hún myndi leggjast af. Sömuleiðis er það leiðinlegt að heyra um afkáraleg nöfn.
En ef íslendingar vilja almennt ekki fylgja hefðinni, þá verður sú niðurstaðan. En það er lang eðilegast að að sú ákvörðun verði tekin af einstaklingum og foreldrum.
Það er engin ástæða til að neyða nafngiftum upp á einn né neinn.
Það er að mínu mati einn af þeim "stöðum" sem ríkisvaldið á ekkert erindi.
Þess vegna er hið nýja frumvarp mikil framför.
Efins um nýtt mannanafnafrumvarp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2016 | 15:04
Er rökrétt að líta svo á að útganga breta úr "Sambandinu" sé kapphlaup?
Mikið hefur verið rætt og skrifað um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi og þá ákvörðun sem þar fékkst, að Bretland skyldi segja sig úr Evrópusambandinu.
Ýmsir hafa furðað sig á því að þeir sem vildu úrsögn hafi verið illa undirbúnir fyrir sigurinn og hiki nú þegar á ríði að knýja fram úrsögn.
Þetta er auðvitað alrangt, en kann vissulega að hljóma vel í eyrum þeirra sem eru svekktir með úrslitin.
Sannleikurinn er auðvitað sá, að í raun var ekki verið að kjósa um ríkisstjórn, eða forsætisráðherra í Bretlandi. Reyndar hafði forsætisráðherra landsins, David Cameron (sem situr enn í embætti) lýst því yfir oftar en en einu sinni að hann hyggðist ekki segja af sér, þó að svo færi að "Brexit" yrði val meirihluta kjósenda. Um að má lesa hér, hér, hér og hér.
Þó að vissulega hafi stuðningsmenn "Brexit" setið ríkisstjórn, þá voru þeir þar í minnhluta og gátu á engan hátt ráðið þar ferðinni.
Það að David Cameron hafi síðan (réttilega að mínu mati) ákveðið að segja af sér og sú staðreynd að ríkisstjórn hans hafi ef til vill ekki undirbúið "Brexit" getur því alls ekki skrifast á þá andsnúnir voru "Sambandinu". Þvert á móti verður það frekar að skrifast á "Sambandssinna", sem fram á síðustu stund voru sigurvissir, og fundu líklega enga ástæðu til að undirbúa brottför Bretlands.
Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra voru allir fylgjandi áframhaldandi "Sambandsaðild". Þeir töldu líklega ekki rökrétt að eyða miklum tíma eða fé í það að undirbúa "brottför", á meðan þeir börðust hart fyrir áframhaldandi aðild.
En það má líka halda því fram að á slíkt hafi í raun verið ákaflega erfitt og í raun vafasamt hvaða tilgangi slíkt hefði þjónað. Hefði breska ríkisstjórnin átt að ráða fjölda sérfræðinga í milliríkjaviðskiptasamningum, áður en atkvæðagreiðslan fór fram? Hvaða skilaboð hefði það sent?
Staðreyndin er sú að í hönd fara flóknar, erfiðar en mikilvægar samningaviðræður á milli Bretlands og Evrópusambandsins.
Það er erfitt að sjá hvaða tilgangi það þjónar að líta á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem nokkurs konar kapphlaup við tímann, nema þá til að þjóna særðu egói ýmissa embættismanna "Sambandsins".
Það er enda svo að margir þjóðarleiðtogar "Sambandsríkjanna", þar á meðal Angela Merkel, hafa tekið mun skynsamlegar á málinu, en ýmsir embættismannana.
Þeir gera sér einnig grein fyrir því að það eru bretar sem ákveða hvenær þeir segja sig úr "Sambandinu".
Það munu þeir ekki gera fyrr en þeir telja sig tilbúna í samningaviðræður, með sitt lið "skipað í raðir" og markmiðin sett. Það má sömuleiðis reikna með því að með tímanum nái skynsemin yfirhöndinni og skynsemin verði ofan í hjá Evrópusambandinu, sem á ekki síður mikið undir því en Bretland að "slitin" takist vel og samvinna og vinátta ríki áfram.
Til að setja málið í íslenskt samhengi má ef til vill nefna, að þótt að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi verið virk í 3. og hálft ár (þó að raunverulegar viðræður hefi staðið skemur) tókst ekki (sem betur fer) að gera Ísland að aðildarríki "Sambandsins". Í raun voru aðlögunarviðræðurnar komnar tiltölulega skammt á veg.
Í mínum huga telst að bjartsýni að ætla að takist að skilja Bretland frá Evrópusambandinu á 2. árum, og mun því aðeins takast ef beðið verður með úrsögn þangað til góðum undirbúningi er lokið.
En aðalatriðið er heldur ekki að gera slíkt á sem skemmstum tíma, heldur hitt að vandað sé til verksins og báðir aðilar gangi nokkuð sáttir frá borði.
Sakar útgöngusinna um uppgjöf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2016 | 18:53
Slakur "sigur" verðandi forseta
Persónulega tel ég að Guðni Jóhannesson eigi góða möguleika á því að verða forseti allra íslendinga. En þessi könnun sýnir að hann kann að þurfa að leggja sig allan fram þar um. Sem hann vonandi gerir.
Að hann hafi aðeins 52% stuðning í "kosningu" á milli tveggja efstu framjóðenda, eftir að hafa unnið kosningu um embættið sýnir að mínu mati í raun verulega veika stöðu.
Því í slíkri könnun hefur sá sem hefur þegar sigrað, að mínu mati, all nokkuð forskot, ekki síður en sitjandi forseti.
Það má í raun draga í efa að þegar litið er til fylgishreyfinga og þess að sigurvegari er líklegur til að hafa forskot að verðandi forseti hefði unnið slíka kosningu, hefði hún farið fram.
Það er einnig athyglisvert að all nokkur pólísk skipting virðist vera í stuðningi við verðandi forseta.
Það er því ýmislegt sem bendir til þess að að verðandi forseti eigi all nokkurt starf fyrir höndum, vilji hann sameina þjóðina að baki sér.
52% myndu kjósa Guðna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |