Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Sameining Viðreisnar og Bjartrar framtíðar?

Skynugir bisnessmenn vita að stundum tekur það hreinlega of langan tíma að byggja upp markaðshlutdeild. Þá getur verið gott að taka yfir eða sameinast öðrum fyrirtækjum.

Að slíkt sé yfirfært á pólítík er engin nýlunda. Sem dæmi um samruna má nefna Alþýðubandalagið og Samfylkinguna.  Fyrsti samruninn í íslenskri pólítík er svo líklega Sjálfstæðisflokkurinn.

Það hefur verið býsna áhugavert að fylgjast með samstarfi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Hvort að það endar með "yfirtöku" eða sameiningu á svo eftir að koma í ljós.

En það er ljóst að náið samstarf þeirra í stjórnarmyndunarviðræðum hefur vakið athygli og að einhverju marki gefið þeim sterka stöðu, þó að það kunni vissulega að breytast, og við eigum eftir sjá hvort það endist.

Það er líklega býsna margt sem mælir með sameingu þessara flokka. Það er ekki himin og haf á milli stefnumálanna, þó að líklega teljist Viðreisn all nokkuð lengra til hægri. Kjósendahópurinn er líklega ekki mjög ólíkur. Krafan um "Sambandsaðild" er svo líklega stærsta sameiningarmálið.

4ja manna þingflokkur Bjartrar framtíðar á erfitt með að manna nefndir, en sameinaður þingflokkur væri í einni svipan orðinn næst stærsti þingflokkurinn (gæti meira að segja gert kröfu til "græna herbergisins" sem svo margir líta hýru auga) sem myndi gjörbreyta stöðunni, fyrir báða flokka, á augabragði.

Það yrði býsna sterk staða. Það myndi líka breyta því fyrir Viðreisn, að í einu vettfangi væri flokkurinn kominn með sveitarstjórnarflokk, sveitarstjórnarmenn víða um land og væri í meirihlutasamstarfi í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Stærri og sterkari flokkur ætti líka að auðvelda uppbyggingu flokksstofnana fyrir báða flokka.

En auðvitað er sameining ekki sjálfgefin og líklega eru skiptar skoðanir á því hvort hún yrði til bóta.

Lauslegt samstarf getur einnig verið árangursríkt. Það gefur möguleika á að fleiri raddir heyrist, tveir formenn, tveir þingflokksformenn (sem einnig gefur fleiri einstaklingum vegtyllur og hærri laun) og svo má lengi telja.

En sé litið til framtíðar, er líklega stærsta spurningin um hvað það kostar og hvað þarf til að halda utan um og reka tvo stjórnmálaflokka, halda utan um baklandið og þróa stefnumálin og baráttusveitirnar.

Þar kemur "samlegðin" í ljós, bæði í viðskiptum og stjórnmálum.


mbl.is Boltinn er hjá Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eistneska ríkisstjórnin sprungin

Eistneska ríkisstjórnin sprakk í gær (mánudag). Ríkisstjórn sem var skipuð Umbótaflokknum (Reformierakond), Sósíaldemókrötum (Sotsiaaldemokraatic erakond) og Föðurlands og lýðveldisfylkingunni (Isamaa ja Res Publica liit, eða IRL) hefur starfað frá þingkosningunum  í mars 2015, en undanfarna vikur hafa vaxandi samstarfserfiðleikar litið dagsins ljós.

Það sem endanlega sprengdi stjórnina var ágreiningur um skipan þingmanna í stjórnir ríkisfyrirtækja.

Þegar ráðherrar Sósíaldemókrata og Föðurlands og lýðveldisfylkingarinnar fóru að endurkalla skipanir stjórnarmanna kastaðist í kekki.

Þó vilja margir meina að tímasetningin sé ekki tilviljun, en Miðflokkurinn (Keskerakond) er nýbúinn  að halda landsfund, þar sem skipt var um forystu. Fyrrum formaður, Edgar Savisaar var umdeildur, svo ekki sé sterkara til orða tekið.  Hann þótti hallur undir Rússland og umlukinn spillingarmálum (aðallega mútur), þó ekkert hafi sannast, í það minnst kosti enn (en dómsmál er í gangi).  Afstaða flokks og staða formanns gerði það að verkum að enginn annar flokkur hefur viljað starfa með Miðjuflokknum um all nokkra hríð.

Jüri Ratas, nýr formaður Miðflokksins þykir hins vegar af öðru sauðarhúsi, og er sagt að allir ríkisstjórnarflokkarnir hafi nú þegar leitað til hans um samstarf.

En vantraust á núverandi forsætisráðherra Taavi Rõivas (Umbótaflokknum) er boðað að verði lagt fram í þinginu á morgun (miðvikudag).  En Rõivas hefur ekki sagt af sér og er ekki reiknað með því að hann geri það.

Staðan í þinginu (Riigikogu) þar sem sitja 101 þingmaður er að Umbótaflokkurinn er með 30 þingmenn, Sósíaldemókratar 15, Föðurlands og lýðveldisfylkingin 14, Miðflokkurinn 27 og svo eru Frelsisflokkurinn og Íhaldsflokkur fólksins einnig á þingi, með 8 og 7 þingmenn.

Lang líklegast er talið að Umbótaflokknum verði einfaldlega skipt út fyrir Miðflokkinn, en einnig er talið að möguleiki sé á stjórn Umbótaflokksins og Miðflokksins.

Þannig muni ríkisstjórn Eistlands sveigjast mikið til vinstri, en Föðurlands og lýðveldisfylkingin getur þó ekki talist vinstri flokkur.

All nokkur órói hefur verið í eistneskum stjórnmálum og er skemmst að minnast vandræðagangs í kringum forsetakosningar fyrir fáum vikum. Þá gat þingið ekki komið sér saman í þremur atkvæðagreiðslum, og Kjörmannaráðið ekki í tveimur. Loks eftir það kom þingið sér saman um nýjan forseta.

Sú skoðun heyrist líka að óróinn nú eigi einhverjar rætur í "hrossakaupum" í kringum forsetakosningarnar.

En ef Umbótaflokkurinn hverfur úr stjórn eru það all nokkur tíðindi. Ef ég man rétt hefur flokkurinn verið í stjórn síðan 1999 og átt forsætisráðherra samfleytt frá 2005.

Miðflokkurinn hefur ekki verið í ríkisstjórn síðan 2007 og hefur aldrei verið í forsætisráðuneytinu.

Ef Jüri Ratas verður forsætisráðherra nú, 38 ára gamall verður hann með yngri forsætisráðherrum Eistlands frá upphafi.

En Rõivas var aðeins 34. ára þegar hann tók við 2014 og Mart Laar var aðeins 32. ára þegar hann varð forsætisráðherra 1992.

 

 

 


mbl.is Ríkisstjórn Eistlands fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Brexit" - Ríflega fjórum mánuðum síðar

Nú eru rúmlega fjórir mánuðir liðnir frá því að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið.

Þær heimsendaspár sem haldið var að almenningi fyrir atkvæðagreiðsluna hafa ekki ræst, en svo að fyllstu sanngirni sé gætt, er rétt að hafa í huga að hið formlega ferli er ekki hafið.

Brexit labrOg það er næsta víst að ef þessi dómur verður staðfestur af hæstarétti, mun ferlið tefjast, líklega verulega.

Það sem þó líklega mun knýja málið áfram er að enginn flokkur, líklega utan hugsanlega Íhaldsflokksins hefur áhuga á kosningum nú.

Verkamannaflokkurinn er í sárum (það var óvæntur "bónus" sem Íhaldsflokkurinn fékk með "Brexit" atkvæðagreiðslunni), og myndi hugsanlega horfa upp á fjöldaflótta til UKIP ef kosningar yrðu fljótlega, ekki síst ef þær yrðu haldnar vegna þess að Verkamannaflokkurinn hefði komið í veg fyrir "Brexit".

Frjálslyndi flokkurinn varð mjög illa út úr síðustu kosningum, er enn í sárum, en myndi ef til vill geta bætt sig örlítið.

UKIP er á góðri leið með að tortíma sér eftir brottför Nigel Farage, en hlutirnir gætu þó breyst verulega ef kosningar yrðu, hefði þingið hefði stoppað "Brexit". Farage myndi án efa snús aftur, það gæti gefið flokknum nýtt líf. 

En ef kosningar yrðu fljótlega, bendir allt til stórsigur Íhaldsflokksins.

Brexit matt cartoonEn ef við snúm okkur aftur að því sem gerst hefur síðan "Brexit" var samþykkt.

Fyrirtæki og markaðir byggjast ekki hvað síst á væntingum, má halda því fram að þó nokkuð af þeim hörmungum sem "lofað" var að myndi hellast yfir Breta ættu að hafa látið á sér kræla.

Svo er þó ekki.

En vissulega hefur breska pundið veikst, og víst benda margir "Brexit" andstæðingar á það og segja að Bretar séu fátækari en áður.

Og því verður ekki neitað að pundið hefur vissulega lækkað, en það má halda því fram að það sé nákvæmlega það sem Bretar þurftu á að halda.

Um all langa hríð höfðu Bretar lifað um efni fram - þeir voru ekkert ríkari en þeir eru nú. Viðskiptajöfnuður var neikvæður og pundið var sterkara vegna erlends fés sem streymdi inn í landið, til fjárfestinga (ekki síst í húsnæði, sem hleypti upp verðinu) og í formi lána.

Íslendingar ættu að þekkja það nokkuð vel að sterkt gengi er ekki eintóm blessun. Mörg af stærstu ríkjum heims hafa enda staðið í óformlegri keppni um að lækka gengi gjaldmiðla sinna.

En stærsta spurningin er hvernig hugsanlegir samningar á milli Bretlands og Evrópusambandsins muni takast?

Eða takast þeir hreint ekki?

Því miður er æ fleira sem bendir í þá átt að samningar muni hreinlega ekki takast, eða þá ekki verða samþykktir af öllum þjóðum "Sambandsins". Aðild Breta muni hreinlega renna sitt skeið eftir að 2ja ára samningaviðræðum er lokið.

Bretar flytja út stærri hluta þjóðarframleiðslu sinnar til "Sambandslanda", en þau til Bretlands. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi þegar horft er til stærðarmunarins. En "Sambandslöndin" hafa flutt meira til Brelands, en Bretar til þeirra, viðskiptamunurinn hefur legið "Sambandsmegin".

En ef engir samningar nást og tollar skella á, hvað gerist? Augljóslega munu vörur frá "Sambandinu" verða 25 til 30% dýrari (að jafnaði) í Bretlandi, en var fyrir atkvæðagreiðsluna. En breskar vörur munu verða á sama verði, eða hugsanlega ódýrari í "Sambandinu".

Það er því ekki ólíklegt að viðskiptajöfnuðurinn myndi flytjast yfir til Bretlands. Samdrátturinn er mun líklegri "Sambandsmegin".  Einnig er vert að horfa til þess, þó að engin reynsla sé komin á það, að Bretland mun líklega eiga auðveldara með að gera fríverslunarsamninga í framtíðinni en "Sambandið".

Staðan er sú nú, að það eru fyrst og fremst fyrirtæki "Sambandsmegin" sem finna fyrir erfiðleikum eftir "Brexit". Þar er að verki tímabær gengislækkun pundsins. Það má vissulega deila um hvað sé "rétt" gengi og hvort nú sé yfirskot eða hvort gengið eigi eftir að falla frekar.

Einna fyrst til að finna fyrir erfðiðleikunum voru fyrirtæki í landbúnaðargeiranum á Írlandi. Í frekar skrýtnum "tvisti", eru þau nú sum hver farin að hugleiða að flytja hluta af starfsemi sinnar til Bretlands.

Það eru vangaveltur sem eiga líklega eftir að endurtaka sig víða um "Sambandið", en að sjálfsgögðu einnig á hinn vegin, í Bretlandi.

Reyndar er "Sambandið" sjálft farið að finna fyrir þessu, enda borga Bretar nú framlag sitt með mun verðminni pundum en reiknað var með í áætlunum þess. Margir óttas ennfremur það tekjufall sem verður þegar Bretar fara út, enda greiddu þeir hæstu upphæð á íbúa allra aðildarríkja árið 2015.

Mikið hefur verið rætt um stöðu fjármálageirans í Bretlandi, margir vilja meina að hann verði fyrir þungu höggi standandi utan "Sambandsins" og fjármálafyrirtæki muni flytja frá Bretlandi í stórum.

Ég held að það sé óumflýjanlegt að störf úr fjármálageiranum muni flytjast frá London. En lang líklegast er að borgin haldi titli sínum sem fjármálahöfuðborg Evrópu. Störf munu flytjast til borga á við Frankfurt, Dublin, Vínar, Zurich, New York og Hong Kong.

En það getur engin evrópuborg keppt við London í "heildar umhverfi" fyrir fjármálafyrirtæki.

Svo má aftur deila um hvort að það sé gott eða slæmt að hlutfall fjármálastarfsemi í þjóðarbúinu dragist saman, en það er sjaldnast jákvætt þegar vel launuð störf hverfa úr landi.

En auðvitað verður þeirri spurningu hvort að Bretlandi komi til með að vegna betur innan eða utan "Sambandsins" aldrei svarað með 100% vissu. Það er einfaldlega ekki svo að við höfum "annað Bretland" sem heldur áfram í "Sambandinu" og við getum séð muninn eftir 10 ár eða svo.

Það er heldur ekki svo að "Sambandsaðild" sé eina breytan sem ákveður hvernig þjóðum vegnar í lífsbaráttunni.

Í kjölfar "Brexit" stendur Bretland frammi fyrir ótal mörgum valkostum og þarf að ákveða hverjir muni gagnast best.

Sömuleiðis er staðan þannig "Sambandsmegin", þar bjóðast ótal kostir, ótal leiðir og spurningin er hvað er ´rétt og hvað er rangt og um það eru auðvitað skiptar skoðanir.

En það sem skiptir meginmáli er að Bretland verður frjálsara til að marka sér sína eigin leið, með sína eigin pólítíkusa sem þeir sjálfir geta skipt um, dregið til ábyrgðar og lagt línurnar í kosningum.

Til lengri tíma er ég þeirrar skoðunar að það muni reynast þeim vel.

Það þýðir ekki að "gatan liggi greið", það er óvissa og ákveðnir erfiðleikar framundan, enda ekki einfalt mál að aðgreina sig frá bákni eins og "Sambandið" er.

Eins og staðan er nú virðist það algengt viðhorf að það þurfi að "hegna" Bretlandi, svona rétt eins og það hafi framið afbrot.

Það er óskandi að skynsamari raddir innan "Sambandsins" nái yfirhöndinni, og það verði ofan á að þjóðir geti átt gott samstarf, án þess að stefna að "æ nánari samruna".

Ef til vill ætti viðskiptasamningur Kanada og Evrópusambandsins að geta verið fordæmi í þá átt.  Við verðum að vona að aðildarríki "Sambandsins" samþykki og staðfesti hann fljótlega.

 


mbl.is Er Brexit búið að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamir Norðmenn?

Mikið er rætt um hvort að best sé fyrir Íslendinga að taka upp erlendan gjaldmiðil.  Þá ýmist með Evrópusambandsaðild eður ei.

Einn stjórnmálaflokkur lagði mikla áherslu á að festa krónuna við erlendan gjaldmiðil, euroið. Ég hef jafnvel heyrt verkalýðsforingja segja að það sé eins og tónlist í eyrum hans.

Eitt af þeim ríkjum sem Íslendingar tala gjarna um að ætti að taka til fyrirmyndar er Noregur. Þeim hefur enda að mörgu leyti tekist vel upp við að byggja upp sitt þjóðfélag.

Reyndar gengu hlutirnir svo langt að margir vildu taka upp norska krónu, og enn aðrir vildu hreinlega ganga Noregskonungi á hönd. Vildu að Ísland yrði fylki í Noregi. Það er þetta með að sagan endurtaki sig.

Fylgi við þá skoðun virðist hafa dregist saman, nokkuð í samhengi við olíuverð, þó líklega heldur skarpar ef eitthvað er.

En hvað gerðu Norðmenn þegar olíuverð féll skarpt?  Héldu þeir gengi krónunnar óbreyttu, eyddu þeir varasjóðum sínum til þess að verja krónuna?

Skyldi Norðmönnum ekki hafa flogið í hug að farsældin fælist í föstu gengi?

Þeir hafa "Sjóðinn" sem hefði getað varið krónuna þeirra falli, í það minnsta um all langa hríð.

En samt kusu þeir að láta krónuna falla.

En þýðir það ekki að norskur almenningur býr við skert kjör?  Vissulega, innfluttar vörur hafa hækkað, og norskir ferðalangar eru ekki "jafn ríkir", ferðist þeir til Eurosvæðisins, Bandaríkjanna nú eða Íslands.

En "skerðingin" lagðist jafnt á allar norskar krónur. Það var ekki svo að þeim fækkaði í launaumslögunum, en stæðu fullgildar í bönkunum.  Það er hins vegar leiðin sem þjóðir Eurosvæðisins fara.

En samfara verðfalli bæði olíu og norsku krónunnar hefur atvinnuleysi aukist, enda miklar uppsagnir í olíuiðnaðinum.

En aðrar útflutningsgreinar (t.d. útgerðir, fiskeldi og fiskvinnsla) hafa notið gengislækkunarinnar og dregið úr högginu. Og ferðaþjónusta hefur átt býsna góð ár, þrátt fyrir að dregið hafi úr fjölda viðskiptaferðalanga vegna samdráttar í olíunni.

Innovasjon Norge segir m.a. í skýrslu 2015:

Part of the reason for this increase is the low exchange rate, which boosts foreign tourists’ spending power in Norway, but the low exchange rate is not the only cause behind the increase in Norway’s share of international tourism.

Allt þetta þekkja líkega margir Íslendingar.

En svo er auðvitað hættan sem blasir við, að ef olíuverð hækkar, þá muni norska krónan styrkjast.

Sú er auðvitað einnig hættan sem blasir við Íslendingum nú, þegar krónan styrkist jafnt og þétt.

Ýmsir vilja koma í veg fyrir þá styrkingu með lagasetningu.

En það er líka spurning hvað gerist þegar höftin í kringum krónuna hverfa að mestu, hvort ekki verði meira jafnvægi á inn og útstreymi.

En hér fyrir neðan má sjá gengisþróun norsku krónunar gagnvart dollar og euroi síðastliðin 5 ár.

NOK vs euro 5y

Nok vs USD 5y

 


Hófstillta, hófsama, frjálslynda miðjufólkið

Ég var að þvælast um netið þegar ég sá þessa stuttu frétt á Eyjunni. Þar er verið að ræða um hvar miðjan sé í íslenskum stjórnmálum og hverjir þá miðjumenn - gjarna bætt hófsamir fyrir framan.

Þar lýsir Ögmundur Jónasson yfir undrun sinni á því að Viðreisnarfólk tali um sjálft sig með miðjufólk, en bætir því við að sjálfur hafi hann álitið sig "frjálslyndan miðjumann".  En það var auðvitað einmitt frasinn sem Viðreisn fór fram undir í nýafstöðnum kosningum.

En það er líklega einmitt meinið, "holir frasar" eru teygðir og togaðir yfir hin ólíklegustu sjónarmið.

Hver hugsar um sjálfa/n sig sem harðsvíraða "öfgamanneskju"?

Sjálfur hef ég ég alltaf litið á sjálfan mig sem hófstillinguna holdi klædda og frjálslyndur er ég fram úr hófi.

En samt á ég hvorki fulla samleið með þeim Ögmundi Jónassyni, eða Pawel Bartozek í pólítík.

Samt hef ég í gegnum tíðina verið sammála Ögmundi á stöku sviðum, og borið fyrir honum mikla pólítíska virðingu. En ég get samt ekki stillt mig um að velta fyrir mér, hverjir eru í þeim fjölda sem er vinstra megin við Ögmund í íslenskri pólítík ef hann er staddur á miðjunni?

Eins er það með Pawel, mér hefur í gegnum tíðina líkað við æði margt sem hann hefur sett fram, bæði í blöðum/vefritum og útvarpi.  Ekki síst vegna þess að hann setur sínar skoðanir fram með föstum en hófstilltum hætti. 

Ég kann vel að meta slíkt.

En ég hef ekki litið á Pawel, ekki frekar en Ögmund, sem miðjumann í íslenskri pólítík.

Ef til vill er þetta angi af "algórhytmabómullinni" sem er að skjóta upp kollinum í umræðunni. Þar sem allir eru umkringdir jákvæðum skoðanasystkinum og allir utan "bómullarinnar" eru lítt þenkjandi "öfgamenn". Allt "gott fólk" er á miðjunni. En það er einmitt vaxandi tilhneyging í umræðunni, að sýna æ minna tillit til andstæðra skoðana og æ minna umburðarlyndi.

Ég er ekki dómbær á það, ég nota enga af þessum "samfélagsmiðlum", mér finnst þeir ekki henta mér, hef takmarkaðan áhuga á því hvað kunningjar mínir, hvað þá "frægt fólk" gerir í frítíma sínum eða snæðir. Líklega er eitthvað af "neanderdalsgenum" í mér.

En þegar upp er staðið, skiptir ekki meginmáli hvar á hinu pólítíska litrófi skoðanir eru staðsettar, það er lítið vandamál fyrir flesta að mynda sér skoðun á því hvort þeir séu sammála eður ei, jafnvel þótt pólítísk gps hnit liggi ekki fyrir.

 


Pólítískur brandari dagsins

Eins og margir eflaust vita, hefur breskur dómstóll úrskurðað að ríkisstjórnin þar í landi þurfi að bera úrsögn "Sameinaða konungsveldisins" undir þarlent þing.

Því geti ríkisstjórnin ekki ákveðið að beita "grein 50" þegar henni best þykir.  Það verði í raun ákvörðun þingsins, og þjóðaratkvæðagreiðslan hafi aðeins verið ráðgefandi, en valdið liggi hjá þinginu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að áfrýja þessum úrkurði til æðra dómstigs.

Nú er mér sagt, að jafnvel þó að það dómstig myndi staðfesta dóminn, þá eigi breska ríkisstjórnin jafnvel einn enn möguleika.

Hún geti áfrýjað ákvörðun æðsta dómstigs Bretlands til Evrópusambandsdómstólsins (European Court of Justice). 

Þó eru lagaspekingar ekki sammála um hvort að þessi möguleiki eigi við eður ei.

Ekki getur þó líklegt talist að sá möguleiki yrði notaður, enda varla möguleiki á einhverju meira kaldhæðnislegra en slíku.

 


Smá "Brexit" tvist

Fyrirsögnin við þessa frétt:  "Átti að leita heimildar þingsins", er að mínu mati röng. Hún ætti að vera "Þurfa að leita heimildar þingsins".

Ég segi það vegna þess að formlegt úrsagnarferli Bretlands er ekki hafið og hefst ekki fyrr en "grein 50" er virkjuð.

Það sem þessi dómur gerir hins vegar er að hann gæti orðið til þess að það ferli drægist, nú eða hugsanlega að þessi ríkisstjórn geti ekki hafið ferlið.

Að ýmsu leyti má segja að þessi úrskurður komi ekki alfarið á óvart, enda þingbundin konungs/drottingarstjórn í Bretlandi.

Lagalega er þjóðaratkvæðagreiðslan sem haldin var um "Brexit" ekki bindandi, þannig að frá því sjónarmiði geta þingmenn einfaldlega sagt nei.

Persónulega held ég að þetta komi ekki til með að breyta niðurstöðunni. Ég held að fáir þingmenn muni þora að ganga gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og Lávarðadeildin mun ekki gera það heldur.

En það er mjög líklegt að þetta muni seinka ferlinu, því frumvarp í þinginu, umræður, yfirferð lávarðanna o.s.frv. mun hugsanlega koma í veg fyrir að "grein 50" verði notuð í mars næstkomandi.

En svo mun ríkisstjórnin án efa áfrýja málinu.

En ef við lítum augnablik fram hjá málefninu, þá hlýtur þetta að teljast sigur þingsins, yfir framkvæmdavaldinu.

 

 

 


mbl.is Átti að leita heimildar þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð ársins í ensku: Brexit

Collins orðabókin hefur tilkynnt um top 10 lista yfir orð ársins 2016.

Í fyrsta sæti trónir orðið "Brexit".  Collins segir það þýðingarmesta nýyrðið í ensku undanfarin 40 ár, eða síðan "Watergate" kom til sögunnar og síðan fjöldinn allur af "gate málum" málum.

En orðabókarmenn hafa segjast aldrei hafa séð aðra eins sprengingu í notkun orðs eins og "Brexit", síðan orðsins var fyrst vart árið 2013.

Áhrifin, þó þau hefðu líklega orðið þau sömu, þó annað orð hefði verið notað, eru enda gríðarleg og finnast um víða veröld, þó að varla sé hægt að segja að "Brexit" hafi byrjað enn þá.

En það má líklega heldur ekki vanmeta hve vel gerð orð sem falla vel að tungunni og eru auðveld í notkun, geta haft mikil áhrif.

Hversu auðveldara er að ræða um "Brexit", en "úrsögn Bretlands úr Evrópubandalaginu".

Í öðru sæti er svo hið dansk ættaða "hygge", og í því þriðja "mic drop".

"Trumpism" nær svo fjórða sætinu.

 


Eru alþingismenn launalegir eftirbátar verkalýðsforystunnar?

Nú er fátt rætt af meiri þrótti en launamál alþingismanna og nýfallinn úrskurður kjararáðs.  Engin leið er að segja annað en að launahækkunin sé mikil. Verkalýðsforkólfar og margir aðrir hafa farið "hamförum á sviðinu", ef svo má að orði komast.

En við hverja á að miða þegar laun alþingismanna eru ákvörðuð?

Maður sem að alla jafna hefur reynst mér góð og sönn uppspretta upplýsinga sendi mér póst í dag og sagði mér að þrátt fyrir ríflega launahækkun, væru laun alþingismanna enn lægri en þekktist t.d. í "verkalýðsforingjageiranum".

Þannig séu laun t.d. forseta ASÍ mun hærri en þingfararkaup.

Skyldi það vera rétt?

Hver skyldu vera laun annarra verkalýðsforingja?

Er eitthvert "kjararáð" starfandi í verkalýðsfélögunum?

Hver ætti nú "goggunarröðin" hvað varðar laun að vera?  Ættu alþingismenn að vera með hærri laun en verkalýðsforingjar, eða öfugt?

Hvað finnst þér.


mbl.is „Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eiga Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn sameiginlegt?

Gamall kunningi minn spurði mig þessarar spurningar yfir netið:   Hvað eiga Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn sameiginlegt?

Þó að sjálfsagt megi finna ýmislegt fannst mér þó það ekki liggja í augum uppi. Eftir að ég viðurkenndi að hafa ekki svarið kom það um hæl.  Þeir hafa báðir haft 6 formenn á þessari öld.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband