Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Örlítið um "góða fólkið" sem stuðlaði að kjöri DJ Trump

Hér er myndband frá "fréttaritaranum" Jonathan Pie (sem er alter ego grínistans Tom Walker). Hann er nokkuð ómyrkur í máli, og það má segja að "fuck" sé ef til vill of stór hluti orðaforðans. En það má vel hafa gaman af þessu og reyndar gagn ef út í það er farið. Enda fer naglinn beint á höfuðið í mörgum tilfellum. P.S. Ef til vill er það sorglegasta við þennan rant og og þennan "fréttamann" sú staðreynd að ótrúlega margir telja hann alvöru. Ef til vill segir það eitthvað um ástand fjölmiðla í nútímanum.


Hræsni Evrópusambandsríkja

Ég er reyndar sammála Þýskum stjórnvöldum þegar þau segja að Trump megi ekki gleyma Aleppo eða Krímskaga.

En ef til vill færi betur á því að Þýsk stjórnvöld og Evrópusambandið sjálft liti í eigin barm.

Hvað hafa þau gert fyrir Krímskaga? Hvað hafa þau gert til þess að Ukraína geti endurheimt stjórn yfir austur hluta landsins, hvað þá endurheimt yfirráð yfir Krímskaga?

Hvaða ríki er berjast fyrir lagningu annarar gasleiðslu yfir Eystrasaltið, frá Rússlandi til Þýskalands?

Og hvers vegna skyldu Rússar vilja leggja þá leiðslu? Hvaða hag sjá Þjóðverjar í því að hún sé lögð?

Leiðslan, ef af verður, mun auðvelda Rússum að beita þvingunum hækka verð til A-Evrópu án þess að styggja viðskiptavini sína í V-Evrópu. Auðveldar sömuleiðis valdbeitingu í ríkjum eins og Ukraínu, ef út í það er farið.

En jafn ógeðfelld sú tilhugsun er, er ég þeirrar skoðunar að Krímskagi komist aldrei aftur í hendur Ukraínu. Rússar munu komast upp með þá innrás, enda líklega flestum ljóst að í raun hefur öll andstaða þar að lútandi verið innantóm.

Þjóðir Evrópusambandsins mættu sömuleiðis líta í eigin barm, eða öllu heldur til eigin herja.

Her Þýskalands komst í fréttirnar fyrir all nokkru vegna þess að hluti hans æfði með kústsköftum vegna skorts á vopnum.

Flugherinn er "grándaður" að stórum hluti vegna fjárskorts og jafnvel innan við 10% af orustuþotum í flughæfu standi.

Því miður er svipaða sögu að segja af herjum of margra "Sambandsríkja".  Belgíski herinn er að margra mati óvenjulega vel "vopnaður eftirlaunasjóður".

En sem betur fer virðast raunveruleikinn vera að ná til einhverra.  Svíar og Finnar hafa t.d. vaknað upp við vondan draum, þegar Rússar stórauka "nærveru" sína.

Sigur Trump virðist einnig hafa vakið ýmsa stjórnmálamenn í Evrópusambandsríkjunum til umhugsunar. Að ef til vill þurfi þau að auka sínar eigin varnir, að ef til vill þurfi hergögn að "virka".

Að ef til vill sé ekki nóg að treysta á að Bandaríkin komi til bjargar og þau geti vanrækt eigin varnir.

Ef kosning Trumps hefur orðið til þess, má ef til vill segja að hún hafi þegar haft áhrif - til góðs.

 


mbl.is Trump má ekki gleyma Aleppo eða Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað eiga "flautuleikarar" ekki að spila lög um "góða fólkið".

Það er áhugavert að heyra að það sjónarmið að Wikileaks hafi gengið of langt í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna.

"Upp­ljóstr­ar­ar sem varpa ljósi á spillt­ar rík­is­stjórn­ir og stríðsglæpi eru ekki svik­ar­ar. Skamm­astu þín.."

En þegar ljóstrað er upp um spillta frambjóðendur og vafsamar gjörðir þeirra, þá er "gengið of langt".

Ég ritaði hér á blogginu fyrir nokkrum dögum:

"Wikileaks, sem hefur verið eins og "lýsandi viti" fyrir hinn "frjálslynda heim", er nú "handbendi Rússa". Lekar eiga ekkert erindi til almennings ef þeir hjálpa "vondu köllunum"."

Það má lengi deila um hvaða upplýsingar eigi erindi til almennings og hverjar ekki.

Í gegnum árin hefur Wikileaks birt mikið magn af gögnum sem hafa m.a. innihaldið mjög viðkvæmar persónulega upplýsingar.  Upplýsingar sem hafa skapað mörgum persónuleg vandræði og jafnvel sett líf þeirra í hættu.

Gögn á vefsvæði Wikileaks hafa einnig innihaldið nöfn "leynilegra útsendara", eða heimildarmanna, staðsettum í löndum sem slíkt setur líf þeirra sjálfkrafa í hættu.

Þess vegna hefur viðhorf margra til Wikileaks verið blendið í gegnum tíðina.

En það er ekki hægt annað en að kíma, þegar það er atganga gegn Hillary Clinton sem snýr svo mörgum gegn þeim.

Hafi upplýsingar þær sem Wikileaks hefur birt í gegnum tíðina átt erindi til almennings, ættu gögnin frá Hillary Clinton og Demókrötum svo sannarlega erindi.

En auðvitað eiga "flautuleikarar" að þjóna "góða fólkinu".

Það flækir svo auðvitað málið að það getur verið svo skratti erfitt að sjá hverjir það eru.

 

 

 

 


mbl.is Sagði höfundi Downton Abbey að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ekki best að skipta á vöffum í viðræðunum?

Nú ætla Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð að "kíkja í pakkann" og athuga hvort að þar leynist eitthvað sem þeir geta sameinast um að mynda ríkisstjórn í kringum.

Ég verð að lýsa þeirri persónulegri skoðun minni að mér lýst ekki á þessa ríkisstjórn.

Ég held að þetta sé ekki það sem Ísland þarfnast nú.  Vissulega hljómar þetta betur en 5 flokka vinstristjórn, en ríkstjórn með tveimur til þess að gera nýjum flokkum og eins manns meirihluta er ekki eitthvað sem ég held að sé rökrétt í stöðunni.

Ég held að Ísland þarfnist stjórnar sem geti stjórnað af meiri festu og með víðari pólítíska skírskotun.

Best væri auðvitað að skipta á "vöffum" í þessum viðræðum, að VG kæmi inn í viðræðurnar í stað Viðreisnar.

En það er auðvitað spurning hvað samband Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er sterkt?

En auðvitað þarf landið að fá ríkisstjórn og rétt á líta málin opnum huga, alla vegna þangað til (ef) stjórnarsáttmáli lítur dagsins ljós.

 


mbl.is Formlegar viðræður hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem vita betur en kjósendur

Ég er í sjálfu sér sammála Páli Vali, að ég get hugsað mér margar betri ríkisstjórnir en AC/D(C) stjórnina sem nú er reynt að basla saman.

En á hinn bóginn tel ég að í raun eigi allir þeir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi að geta átt þokkalega "samleið".  Það má í raun segja að það sé skrýtið að heyra hið gagnstæða frá einum af þeim fyrrverandi þingmönnum sem einmitt hefur verið svo tamt að tala um "ný vinnubrögð".

En reyndar hef ég stundum fengið það á tilfinninguna að "ný vinnubrögð" séu svolítil "einstefna".  Það er að segja að hjá þeim sem má heyra þetta hugtak hvað oftast, þá meina þeir að taka eigi tillit til þeirra sjónarmiða, en þeir hafa engan áhuga á því að taka tillit til sjónarmiða annara.

Því þeir "vita betur".

Ég er ekki frá því að Óttar Proppe skilji hvað ég er að fara.

Hvað varðar svo Bjarna Benediktsson og "Panamaskjölin", þá virðist fyrrverandi þingmaðurinn, Páll Valur Björnsson, ekki skilja til hvers kosningar eru. 

Þær eru til þess að kjósendur geti fellt sinn dóm.

Og sá dómur var felldur fyrir u.þ.b. tveimur vikum.

Sá dómur var á þann veg að kjósendur juku við fylgi Sjálfstæðisflokksins, hann er lang stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Í öllum kjördæmum landsins er hann stærsti stjórnmálaflokkurinn. Í kjördæmi Bjarna Benediktssonar hlaut flokkurinn mjög glæsilega kosningu, sem flestir eru sammála því að hafi verið góður persónulegur sigur fyrir Bjarna.

Á sama tíma minnkaði fylgi Bjartrar framtíðar og kjósendur felldu þann dóm yfir þingsetu Páls Vals Björnssonar, að frekari þingsetu af hans hálfu væri ekki óskað.

Að því leiti má sjálfsagt segja að ekki sé verið að óska eftir því að Björt framtíð eigi samleið með einum eða neinum í ríkisstjórn.

En lýðræðið tekur á sig ýmsar myndir. Stærstur hluti kjósenda óskar eftir Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Öllum flokkum ber skylda til þess að vinna heilshugar að því að á Íslandi myndist starfhæf ríkisstjórn. Það er eðlilegt að undir þeim kringumstæðum þurfi allir flokkar að gefa eftir. 

Oft fer það svo að minni flokkar þurfa að gefa meira eftir en þeir stærri. Það getur varla talist óeðlilegur, ólýðræðislegur gangur.

Ég held að flestir kjósendur skilji það.

En það eru líka margir sem telja sig "vita betur" en kjósendur.

P.S. Vissulega var minnst á Bjarna Benediktsson í "Panamaskjölunum". Engan hef ég heyrt svo mikið sem ýja að því að það hafi verið tengt einhverju ólöglegu. Hefði svo verið má telja líklegt að mun meira hefði verið gert úr hans þætti fyrir kosningar.

Sjálfsagt hefði Ríkisútvarpið ráðið verktaka í málið.

 


mbl.is Eiga ekki samleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikararnir og hin "óspjölluðu".

Það hefur alltaf verið athyglisvert að fylgjast með umræðum á "vinstri vængnum" þegar kemur að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Þar snýst umræðan fyrst og fremst um "svikarana".

Þannig hefur það alltaf verið.

Alþýðuflokkurinn hefur oft þurft að bera þennan stimpil, Framsókn ekki síður, þó að hann hafi reyndar skilgreint sig sem miðjuflokk, þá hefur hann í gegnum tíðina verið frekar vinstrisækinn.

Og svikari, sem hefur ekki skirrst við að snúa baki við "sögulegum tækifærum".

Og svo sveik Samfylkingin, og þaðan má rekja allar hennar raunir, eða svo má skilja á mörgum af hennar trúu félögum.

Það eru bara Alþýðubandalagið/Vinstri græn sem hafa aldrei svikið (nema ef við kjósum að taka ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen með (en það er í sjálfu sér fyrirgefanlegt, enda Thoroddsen ættin eins og rauður þráður í gegnum hreyfingu íslenskra sósíalista og svo klauf þessi ríkisstjórnarmyndun Sjálfstæðisflokkinn), að öðru leyti hefur getur "villta vinstrið" talist "óspjallað" hvað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn varðar.

En vissulega er stjórnmálastarf þess eðlis að stundum þarf að gefa eftir, og þvi hafa Vinstri græn vissulega kynnst.

Þannig hafa þau þurft að sætta sig við ýmsar málamiðlanir, þó þau hafi vissulega aldrei kvikað frá grunngildunum.

Þannig var það ekki svo erfitt að sætta sig við að skuldir einkafyrirtækja væru flutt yfir á almenning með samningum við Breta og Hollendinga.

Það flaut enda með því að Vinstri græn féllust á það að Ísland yrði aðlagað að Evrópusambandinu, þótt að þau væru vissulega algerlega andsnúin aðild að því sama bandalagi.

Og samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eitthvað sem Vinstri græn voru vissulega á móti (svona í stjórnarandstöðu) en "kapítitalistarnir" þar eru nú ekki svo slæmir, og þegar þeir klappa manni á bakið og segja að þeir myndu óska þess að hafa svona góða drengi að störfum í Grikklandi, þá er ekki eins og að hægt sé að segja nei við alþjóðlegu lofi.

Og þó að Vinstri græn hafi alltaf verið andsnúin aðild Íslands að NATO, er ekki eins og það eitt sé rík ástæða til þess að setja einhverjar hindranir í vegi bandalagsins í því að varpa sprengjum á Lýbíu.  Vissulega þarf alltaf að gefa eitthvað eftir fyrir pólítískt samstarf, en það eru vissulega málefnin sem gilda.

Bæði félagsmenn og kjósendur Vinstri grænna geta altént alltaf leitað huggunar í því að það er ekki eins og að flokkurinn sé reiðubúinn að ræða neitt við Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki frekar en hann var reiðubúinn til þess að veita olíuleitarleyfi á "Drekasvæðinu".

Því pólítík snýst um málefni og "prinsipp".

Og hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn eru Vinstri græn algerlega "óspjölluð". 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrir molar um bandarísku forsetakosningarnar

Úrslit bandarísku forsetakosninganna komu mér eins og svo mörgum öðrum verulega á óvart. En það þýðir ekki að í úrslitunum felist fjölmargir athyglisverðir punktar og jafnvel sumir jákvæðir og aðrir ekki eins slæmir og getur litið út fyrir.

Í fyrsta lagi er alger óþarfi að ganga út frá því sem vísu að D.J. Trump, frekar en nokkur annar stjórnmálamaður, efni öll þau loforð sem hann gaf í kosningunum. Það finnst mér bera vott um að margir beri til hans allt of mikla tiltrú.

En vissulega mun skipta miklu máli hvaða loforð hann mun efna.

En tínum nokkra mola úr kosningunum.

Trump sýndi það og sannaði að það er ekki hægt að "kaupa" kosningar. Hillary Clinton eyddi og safnaði umtalsvert meira um fé en Trump (lang leiðina í tvöfallt, ef ég man rétt). En allt kom fyrir ekki.

Stuðningur fjölmiðla og gott gengi í skoðanakönnunum er ekki ávísun á sigur.

Af þessu ættu allir stjórnmálamenn að draga lærdóm af.

Á endanum er það alltaf almenningur sem kýs.

Á leið sinni í Hvíta húsið mætti D.J. Trump tveimur pólítískum "dýnastíum", Bush og Clinton.  Hann sigraði bæði.

Mikið er talað um "vegginn" sem Trump lofaði að byggja á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.  Nú þegar er eru "veggir" á þeim landamærum sem í heild sinni um eða yfir 1000 km, eða í kringum 1/3 af leiðinni. 

Það jafngildir því að veggur sé langleiðina frá Íslandi til Skotlands.

Þeir kaflar sem ekki hafa "vegg" eru oft kaflar sem verður mjög erfitt að byggja vegg á, en það þýðir ekki að þeirra sé ekki gætt.

Yfir 400.000 einstaklingar voru "gripnir" á landamærunum árið 2015. Enginn veit hvað margir náðu að komast til Bandaríkjanna.

Það má líka velta því fyrir sér hvort að verra sé að byggja "vegg", og reyna að koma í veg fyrir að ólöglegir innflytjendur komist yfir landamærin, eða að halda þeim í fangelsi.  Það er ekki óvenulegt að í kringum 30.000 ólöglegir innflytjendur séu í haldi í Bandaríkjunum 'aá hverjum tíma (yfirleitt í stuttan tíma).

All nokkuð var gert úr "afmæli" falls Berlínarmúrins og áformum Trumps líkt við hann.

Reginmunur er á því að byggja múr til að halda erlendum ríkisborgurum úti, eða að byggja múr til að halda sínum eigin ríkisborgurum inni.

Ein af frumskyldum stjórnvalda er að tryggja öryggi eigin þegna.  Hluti af því eru örugg landamæri.

Margir hafa furðað sig á því að áætlað sé að Trump hafi hlotið mun meira af atkvæðum innflytjenda, ekki síst "latinos" eða "hispanics" en reiknað hafði verið með.

Það kemur mér í raun ekki svo á óvart. Þeir sem ég þekki á meðal innflytjenda (þar á ég aðallega við Kanada fremur en US) eru alls ekki frekar hlynntir ólöglegum innflytjendum, en aðrir þegnar, jafnvel síður.

Margir þeirra hafa þurft að leggja á sig langa bið, fé og fyrirhöfn til að komast löglega til landsins. Þeir eru því ekki fylgjandi því að aðrir geti einfaldlega "skotist yfir" landamærin.

Margir eru uggandi yfir því hvernig Trump hefur talað um NATO. Hann segir að aðildarþjóðir sem ekki "borgi" geti ekki nauðsynlega búist við því að Bandaríkin komi þeim til varnar.

Á þetta má líta frá mörgum sjónarhornum. Margir kjósa að líta svo á að Trump vilji að ríki borgi Bandaríkjunum fyrir "vernd". Ég efast um að það sé hans sjónarhorn, eða það sem verði ofan á.

En vissulega er ekki óeðlilegt að litið sé til þess að flest aðildarríki NATO hafa ekki eytt þeim 2%/GDP sem reglur þess gera ráð fyrir. Hvernig geta þau ríki gert kröfur til NATO, ef þau brjóta reglurnar hvert einasta ár?

Fyrir utan Bandaríkin hafa það aðeins verið Bretland, Grikkland og Eistland sem framfylgt hafa þessari reglu, í það minnsta flest ár. Pólland er líklega að ná því, en flest önnur aðildarríki, eru í kringum eða ekki mikið yfir 1%/GDP.

Ég held að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessari reglu, því auk NATO aðildarinnar hefur Ísland beinan varnarsamning við Bandaríkin.

Þetta þýðir ekki að það sé ekki margt sem megi hafa áhyggjur af varðandi Trump sem forseta Bandaríkjanna.

Þar má nefna afstöðu til fríverslunar. Alls konar vafasamar fullyrðingar um bann við komu útlendinga til Bandaríkjanna byggðu á þjóðerni eða trúarskoðunum og það má telja áfram.

Plús megin fara svo áform hans um viðamikla uppbyggingu innviða.

En ég held að bandarískt stjórnkerfi standi býsna traustum fótum. Það gerir bandarískt dómskerfi einnig.

Ég held að D.J. Trump mun fljótlega finna fyrir hvoru tveggja. Bandaríska stjórnarskráin er gömul og traust.

P.S. Eins og eðlilegt er hafa margir furðað sig á því hvernig hægt sé að vinna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, en hafa þó fengið færri atkvæði en helsti keppinauturinn. Þetta vilja margir meina að sé ekki lýðræðislegt og að ýmsu leyti er ekki hægt annað en að taka undir það.

En við megum ekki líta fram hjá því að í raun er ekki aðeins um það að ræða að eitt land sé að kjósa sér forseta. Það eru 50 ríki að velja sér sameiginlegan forseta.

Og rétt er að hafa í huga að þó að fjöldi kjörmanna hvers ríkis sé bundinn í stjórnarskránni, er það í valdi hvers ríkis að ákveða hvernig þeim kjörmönnum sé dreift. Næstum öll ríkin hafa ákveðið að "winner takes it all" skuli gilda. Ef ég man rétt eru það aðeins Maine og Nebraska sem úthluta kjörmönnum í hlutfalli við atkvæði.

En án þess að hafa gert á því vísindalega rannsókn, virðist misræmi atkvæða frekar vera regla en undantekning. Þannig er t.d. misvægi atkvæða í Kanada um kringum 3.5 þar sem það er mest. Og við þekkjum dæmið frá Íslandi.

 

 

 


mbl.is Múslimabannið hvarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur og skoðanakannanir

Sigur D.J. Trump er í bandarísku forsetakosningunum er í alla staði athyglisverður og mun verða tilefni vangaveltna og rannsókna um langa hríð.

Í raun bar Trump ekki aðeins sigur á Demókrötum og frambjóðanda þeirra, heldur barðist hann einnig við hluta Rúpúblikana.

En það er rétt sem kemur fram í fréttinni að álitsgjafar og skoðanakannanir gáfu Trump ekki mikla von um sigur. Reyndar voru dæmi um að aðferðafræðum skoðanakannana væri breytt, vegna þess að nokkuð góð staða Trumps í þeim þótti ekki trúverðug.

En sú staða að skoðanakannanir og álitsgjafar séu ekki í takt við úrslit kosninga er að verða regla fremur en undantekning.

Skemmst er að minnast "Brexit" kosninganna, bresku þingkosninganna, dönsku þingkosninganna og einnig nýafstaðinna þingkosninga á Íslandi.

Hvað álitsgjafana varðar er rétt að hafa í huga að þeir eru einungis einstaklingar, með eigin skoðanir, væntingar og vonir. Það má ef til vill frekar velta því fyrir sér úr hvaða "mengi" fjölmiðlum er tamt að velja þá.

En hvað skoðanakannanir varðar er málið annað.

Þar eru notaðar "viðurkenndar" aðferðir, sem hafa þróast í áranna rás.

En þær byggjast auðvitað á því að "úrtakið" sé rétt.

Ég held að hluti skýringarinnar sé að finna í þeirri staðreynd að vaxandi hópur ber vantraust til fjölmiðla og kannanafyrirtækja.

Það eru æ fleiri sem dettur ekki í hug að gefa upp afstöðu sína í síma eða tölvu sem það telur að hægt sé að rekja til sín.  Eða það tekur þá afstöðu að einfaldast sé að gefa upp skoðun í takt við ríkjandi "andrúmsloft".

Og það eru jú fjölmiðlarnir og álitsgjafarnir sem eiga svo ríkan þátt í því að skapa það.

Það gildir sömuleiðis að sami hópur er ekki líklegur til þess að taka þátt í "panelum", enda ótrúlega margir sem hafa þá trú að þar séu þeir "kortlagðir".

Ég hugsa að svokallaðir samfélagsmiðlar hafi enn aukið á þessa tilhneygingu. Það er ekki eins og að þeir hafi verið "vítamínsprauta" fyrir jákvæð skoðanaskipti og umburðarlyndi. Alla vegna ekki eins langt og ég hef séð.

Þess vegna er talað um "gleymdu kjósendurna" og í "Brexit" kosningunum var sagt að ótrúlega stór hópur þeirra sem kusu Bretland út úr Evrópusambandinu hefði aldrei tekið þátt í kosningum áður (þrátt fyrir að hafa aldur til).

Það má ef til vill segja að partur af þessu sé fréttin sem ég sá á vísi, þar sem sagt var að stuðningsfólk Trump á Íslandi færi með veggjum.

Ég er í sjálfu sér ekki óánægður með að Trump hafi notið lítils stuðnings á Íslandi, ég var ekki stuðningsmaður hans (reyndar ekki Hillary heldur). En ég ég er ekki stuðningsmaður þess að einstaklingar verði fyrir aðkasti fyrir það að tjá skoðanir sínar eða séu beinlínis hræddir við að gera það.

Það er ekki heillandi andrúmsloft.

 


mbl.is Trump og „gleymdu kjósendurnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framræsla votlendis

Eitt af helstu slagorðum Donalds Trumps í kosningabaráttunni var að "ræsa fram fenið", eða "drain the swamp".

Það er í sjálfu sér skemmtilega margrætt. Að ræsa fram fenið vísar bæði til hins mikla "kerfis" sem hreyfist hægt og einstaklingarnir eiga í erfiðleikum með að finna leið í gegnum það, gengur hægt, eru stundum gerðir afturreka eða jafnvel festast í því.

Það vísar einnig til "Foggy Bottom", sem er nafn á hverfi í Washington (Hvíta húsið, er þó rétt fyrir utan hverfismörk), en ekki síður slanguryrði yfir bandaríska utanríkisráðuneytið, sem er staðsett í Harry S. Truman byggingunni í hverfinu.

Washington borg er enda að stórum hluta byggð í mýrlendi.

En nú þegar ljóst er að D.J. Trump mun verða næsti forseti Bandaríkjanna, má líkega bæta því við að þó að framræsla votlendis geti vissulega bætt lífsgæði, þá er það mikil umhverfisvá að mér skilst.

Trump mun talinn það einnig.

 

 


Vantraust samþykkt á forsætisráðherra Eistlands

Í dag samþykkti eistneska þingið (Riigikogu) vantraust á forsætisráðherra landsins, Taavi Rõivas.

Vantraust var samþykkt með 63 atkvæðum gegn 28 (10 voru fjarverandi) en 101 eiga sæti á þinginu.

Nær öruggt er talið að ný ríkisstjórn verði mynduð á allra næstu dögum. Í henni munu sitja tveri af þeim flokkum sem mynduðu ríkistjórn með Umbótaflokknum, þ.e. Sósíaldemókratar og Föðurlands og lýðveldisfylkingin. En í stað Umbótaflokksins muni Miðflokkurinn sæti í stjórninni og jafnframt muni Jüri Ratas formaüur flokksins taki við sem forsætisráðherra.

All nokkur órói hefur verið í eistneskum stjórnmálu undanfarnar vikur, en þessi breyting þykir sveigja ríkisstjórnina verulega til vinstri.

Miðflokkurinn sækir fylgi sitt ekki síst til rússnesku mælandi minnihlutans í Eistlandi, en tengsl hans við flokk Pútins, hafa í gegnum tíðina valdið mörgum Eistlendingum áhyggjum. Þau tengsl þykja þó hafa dofnað með kjöri Ratas sem formanns.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband