Smá "Brexit" tvist

Fyrirsögnin við þessa frétt:  "Átti að leita heimildar þingsins", er að mínu mati röng. Hún ætti að vera "Þurfa að leita heimildar þingsins".

Ég segi það vegna þess að formlegt úrsagnarferli Bretlands er ekki hafið og hefst ekki fyrr en "grein 50" er virkjuð.

Það sem þessi dómur gerir hins vegar er að hann gæti orðið til þess að það ferli drægist, nú eða hugsanlega að þessi ríkisstjórn geti ekki hafið ferlið.

Að ýmsu leyti má segja að þessi úrskurður komi ekki alfarið á óvart, enda þingbundin konungs/drottingarstjórn í Bretlandi.

Lagalega er þjóðaratkvæðagreiðslan sem haldin var um "Brexit" ekki bindandi, þannig að frá því sjónarmiði geta þingmenn einfaldlega sagt nei.

Persónulega held ég að þetta komi ekki til með að breyta niðurstöðunni. Ég held að fáir þingmenn muni þora að ganga gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og Lávarðadeildin mun ekki gera það heldur.

En það er mjög líklegt að þetta muni seinka ferlinu, því frumvarp í þinginu, umræður, yfirferð lávarðanna o.s.frv. mun hugsanlega koma í veg fyrir að "grein 50" verði notuð í mars næstkomandi.

En svo mun ríkisstjórnin án efa áfrýja málinu.

En ef við lítum augnablik fram hjá málefninu, þá hlýtur þetta að teljast sigur þingsins, yfir framkvæmdavaldinu.

 

 

 


mbl.is Átti að leita heimildar þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nú reynir á, hvort þingið samþykkir þetta, eða fer gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem það getur því hún var ekki bindandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.11.2016 kl. 18:24

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur Þakka þér fyrir þetta. Persónulega hef ég fulla trú á því að þetta fari í gegnum þingið, en það gæti tekið all nokkurn tíma, sem er að mörgu leyti slæmt fyrir alla aðila.

Ef að Íhaldsflokkurin og ríkisstjórnin stæði höllum fæti, mætti allt eins reikna með því að þetta yrði notað til að berja á henni og þá líklega fella hana.

En þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir eru í mikið mikið verri stöðu en ríkisstjórnin, á ég von á því að þetta fari í gegn.

En ég er eiginlega ekki í neinum vafa um að ef "Brexit" fer ekki í gegnum þingið verður efnt til þingkosninga með litlum fyrirvara.

Núverandi ríkisstjórn er mynduð til þess að standa að Brexit, og hún myndi næsta örugglega segja af sér, ef hún yrði að bakka með mál sem þetta.

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2016 kl. 19:00

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég spái því að Brexit renni út í sandinn. Afleiðingarnar verða verulega slæmar fyrir breskt samfélag. Þvílík arfleifð sem Cameron fær.

Kristján G. Arngrímsson, 4.11.2016 kl. 09:42

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakk þér fyrir þetta. Ég er alveg sammála því að afleiðingar fyrir breskt samfélag, ef "Brexit" rennur út í sandinn verða verulega slæmar.

En ég hef enga trú á því að það renni út í sandinn. Þessi dómsúrskurður mun líklega tefja málið, en niðurstaðan verður sú sama.

Því miður bendir æ fleira til þess að "Brexit" verði í harðari kantinum, en það er slæmt fyrir bæði Bretland og "Sambandið (og heimsbyggðina alla ef út í það er farið), en þó sérstaklega "Sambandið". En þar ræður "heiftin og hefnigirnin" ferðinni, alla vegna virðist það svo nú um stundir, og "Sambandsmenn" virðast ekki hika við að skjóta sig í fótinn.

G. Tómas Gunnarsson, 4.11.2016 kl. 10:11

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Æi ég held að þetta mál alltsaman sé einn allsherjar misskilningur. Það hefur ekki verið á nokkurn hátt slæmt fyrir Breta að vera í ESB, haldandi sínu sterling. Þetta með að "Brussel elítan" hafi tekið völdin af "venjulegu fólki" er hræðsluáróður ómerkilegra pólitíkusa á borð við Farage.

Hér á landi snýst barátta Sjálfstæðisflokksins gegn ESB um að útgerðarmenn haldi sínu mikilvægasta valdatæki: krónunni. Það er útaffyrir sig skiljanleg afstaða. Andstaða VG við ESB er mér aftur á móti óskiljanleg. Og andstaða Framsóknar er bara heimska - íslenskur landbúnaður yrði mun betur settur með alla styrkina fra´ESB en hann er nú. Allir bændur hér á horriminni.

Kristján G. Arngrímsson, 4.11.2016 kl. 15:46

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Þetta er engin misskilningur, heldur "dauðans alvara".

Það er ekki seinna vænna fyrir Breta að drífa sig úr "Sambandinu".

Það er einmitt það sem Bretar þurfa að flytja völdin heim.

Euroið er eins og myllusteinn um háls þeirra ríkja sem hafa tekið það upp og þau hökta frá krísu til krísu, nema auðvitað Þýskaland og nokkur önnu kjarnalönd og jafnvel þar eru blikur á lofti.

Markvisst er stefnt að sambandsríki, þó að fæstir þori að segja það upphátt.

Útgerðin siglir með krónunni, og þarf að sætt sig við síminnkandi tekjur þessa dagana vegna þess.

"Sambandssinnar" vilja endilega fella gengi krónunnar og binda það við euroið, þannig að hún styrkist ekki frekar

Vitleysan um bændur er nokkuð týpísk fyrir ykkur "Sambandssinnana". Allir eiga að hafa það svo gott með aukunum styrkjum.

En allir eru sammála um og allir útreikningar sýna að Íslendingar munu leggja meira til "Sambandsins" en þeir myndu fá frá því.

Allir styrkirnir myndu koma frá íslenskum skattgreiðendum, en stór hluti myndi samt verða eftir í "Brussel".

En það veitir þér líklega vellíðan?

G. Tómas Gunnarsson, 4.11.2016 kl. 16:07

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta er grunsamlegt. Andstæðingar ESB aðildar eiga mjög auðvelt með að fullyrða að allt fari til fjandans með evrunni og að þetta muni allt reynast Íslendingum dýrt. Sambandssinnar eiga jafn auðvelt með að fullyrða hið gagnstæða. Og báðir segjast vísa í nákvæma útreikninga á því hvað framtíðin beri í skauti sér. 

Ég trúi auðvitað hvorugum. Í gegnum tíðina hafa útgerðarríkisstjórnir fellt gengið eftir þörfum fiskútflytjenda.

- Svo kemur talsmaður SFA og segir að þjóðin geti ekki átt neitt og að skattar séu þjófnaður. Þetta er svo heimskulegt að það er héðanífrá ekki hægt að taka mark á einu orði sem þessi vitleysingur segir. (Sama á við um Pavel Bartosek, nýbakaðan þingmann Viðreisnar, sem líka segir skatta vera þjófnað - hann er fábjáni). En þetta er sosum önnur saga.

En punkturinn er sá sami, allar fullyrðingar útgerðarsinna (þ.e. ESB-andstæðinga) finnst mér vera marklítið hjal, til þess eins meint að tryggja hagsmuni ákveðinna afla í samfélaginu. Andsamfélagslegra afla.

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 09:55

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og svo bara ein spurning: Hvers vegna heldur þú að margir vilji að Ísland gangi í ESB? Er það vegna þess að þessu fólki er illa við Ísland, eða vegna þess að þetta fólk skortir skynsemi til að sjá hvað innganga er mikið óráð?

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 10:37

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Þetta eru stórar spurningar (en ákveðin grundvallaratriði) sem ekki er einfalt að svara í stuttu máli, en ég mun reyna mitt besta.

Engin er með nákvæma útreikninga. Það er einfaldlega ekki hægt. Það er enda svo að "Sambandsaðild" er og verður aldrei eina breytan í efnahagsmálum Íslendinga, né nokkurra annara.

En við höfum dæmin allt í kringum okkur. Dæmin sem sýna að "gengisfesta" getur verið ríkjum verulega erfið. Þar má nefna Grikkland, Ítalíu, Eistland, Litháen, Lettland, Slovenía, Spánn, Portugal, Kýpur, Finnland, Frakkland og jafnvel fleiri lönd til viðbótar. Rétt er að hafa í huga að "gengisfesting" hefur bakað fleiri löndum vandræði, bæði innan og utan "Sambandsins". Bretland lenti illa í gengisfestingu, þó innan "Sambandsins", en euroið var ekki komið til sögunnar þá. En eftir það varð Soros frægur.

En það sem ofangreind ríki hafa ekki síst ratað í vandræði með er að "sveifla" þeirra hefur ekki verið í takt við "sveiflu" Þjóðverja, en euroið tekur eðlilega mest mið af stærsta hagkerfinu. En það hafa ekki öll lönd heldur sama "efnahagsagann" og Þjóðverjar og vissulega spilar það einnig inn í.

Ég held að það sé staðreynd að efnahagur Íslands og Þýskalands slær ekki í takt. Ég held að fæstir neiti því.  Svo er spurningin hvort að Íslendingar hafi sama "efnahagsagann" og Þjóðverjar. Ég læt þér eftir að svarar því fyrir sjálfan þig, því vissulega er það síður mælanlegt.

Þessi tvö atriði eru líklega þau stærstu sem skipta máli þegar reynt er að meta hvort Íslendingum muni henta að vera með sama gjaldmiðil og Þýskaland, eða binda gjaldmiðil sinn við gjaldmiðil Þýskalands.

Vissulega ber að taka tillit til þess að önnur ríki hafa að sjálfsögðu áhrif á euroið þó að í minna mæli sé, og hefur það ollið gengislækkun þess, sem vissulega kemur öllum þeirra til góða, þó mest Þýskalandi, en minna hinum, sem þrátt fyrir það búa við gjaldmiðil sem er of hátt skráður, miðað við gang efnahagslífsins.

En ef allir væru eins og Þjóðverjar, byggi euroið í sjálfu sér ekki við mörg vandamál.

Engin hefur sagt skatta vera þjófnað (þú ættir að reyna að temja þér að hafa rétt eftir) en margir hafa sagt að sköttum sé safnað með ofbeldi eða að skattar séu ofbeldi.  Það er að mörgu leiti rétt. Enda stutt í ofbeldið af hálfu hins opinbera ef þeir eru ekki greiddir. En það er rétt hjá þér, það er önnur saga (ég reikna með að ég skrifi eitthvað um það innan tíðar) og annar "rifrildi".

Skoðanakannanir sýna að í kringum 25% Íslendinga vilja ganga í Evrópusambandið. Kosningaúrslit sýna svipaðan "tendens", þó ekki megi færa það "hrátt" yfir.

Er þetta fólk illa meinandi? Ég reikna nú ekki með því, alla vegna í fæstum tilfellum.  Rétt eins og þeim Íslendingum sem vildu koma á kommúnisma og sovétskipulagi á Íslandi ætla ég ekki að hafa verið fullir af hatri gagnvart Íslandi eða Íslendingum (svona almennt).

Þetta er að einhveju marki svipaðir hópar, það sem einhverjir myndu kalla "menntaelítuna" voru/eru líklega býsna fyrirferðarmiklir í báðum hópunum.

Sumir telja án efa að þetta henti Íslandi betur, aðrir hafa ef til vill meiri eiginhagsmuni í huga, rétt eins og gengur með allar aðrar skoðanir.

Það er líka ljóst að með "Sambandsaðild" munu sumir hópar líklega hagnast, aðrir tapa. Deilumálið er líklega hvort tapið eða ávinningurinn vegur þyngra.

Í kringum 75% Íslendinga telur að ókostirnir vegi þyngra en kostirnar. Telur þú að þá skorti skynsemi til þess að sjá kostina?  Er þeim illa við Ísland?

P.S. Persónulega missi ég alltaf álit á þeim sem kalla þá sem þeir eru ósammála, fábjána, fyllibyttur, landráðamenn, vitleysinga, öfgamenn o.sv.frv.

Það ber vott um einhverja vanstillingu að mínu mati. Líklega mundu margir kalla þá "öfgamenn með rörsýn", en mér finnst það fyrst og fremst eiginlega sorglegt í rökræðum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.11.2016 kl. 15:02

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þú svarar því ekki hvort þú álítir ESB-sinna óskynsama.

En málið er einmitt held ég það sem fram kemur í því sem þú segir: Þetta er spurning um mismunandi hagsmuni. Það mun henta sumum Íslendingum að ganga í ESB og sumum ekki. Hver metur málið út frá sínum hagsmunum.

Þetta er nefnilega ekki spurning um hvað er gott fyrir Ísland - heldur hvað er gott fyrir hverja. Þess vegna er það villandi málflutningur að alhæfa um að aðild sé vond fyrir Ísland.

Þeir sem vilja halda krónunni vilja það fyrst og fremst til að geta fellt hana þegar það hentar þeim. Þeir sem vilja losna við hana vilja það fyrst og fremst til að geta átt auðveldara með sín viðskipti og sinn hag.

En talandi um óskynsemi þá er það að mínu viti mikil óskynsemi sem felst í því að tala um skatta sem ofbeldi. Þetta er eins og þegar einhver fullyrti að öll einkaeign væri þjófnaður, t.d. þegar breski aðallinn á sínum tíma sölsaði undir sig allan almenning (þ.e. land) og tók hann af almenningi (þ.e. fólkinu). Mætti kannski segja eitthvað hliðstætt um einokun útgerðanna á þjóðarauðlindinni, en förum ekki útí það - gæti bara misskilist eins og nafni minn Ólafsson sagði.

En það var ágætt að sjá þetta viðhorf til skatta hjá talskonu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi því að það dró þá væntanlega fram viðhorf þeirra fyrirtækja til sameiginlegra sjóða og eykur mikilvægi þess að losna við krónuna.

Já, meðal annarra orða: Ég er ekkert sérlega hrifinn af ESB per se, vildi miklu frekar að Ísland yrði partur af Noregi (og er fyllsta alvara með því). Þetta snýst verulega mikið um að taka völdin á Íslandi af útgerðarmönnum, sem virðast hugsa fyrst og síðast um eigin hag en ekki um almannahag, sbr. þessi fleygu orð talskonunnar.

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 16:21

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og já, ég er þeirrar skoðunar að margir þeirra Íslendinga sem vilja halda í krónuna vilji það vegna þess að þeir eru ekki nógu skynsamir til að sjá að það er þeim sjálfum í óhag. Þeir eru með því (að halda í krónuna) að gera eins og Bjartur í Sumarhúsum sem sáði í akur óvinar síns allt sitt líf. En slík er jú saga sjálfstæðasta mannsins í landinu, ekki satt?

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 16:24

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Nei, ég tel þá almennt ekki óskynsama, enda má líklega halda því fram að taka eigin hagsmuni fram yfir annars sé að mörgu leyti skynsamlegt. Svo eru auðvitað mýmörg dæmi um að skynsamt fólk taki óskynsamar ákvarðanir, en þetta er er ekki einfaldur mælikvarði.

Það má einnig nefna að það sem kann að líta út fyrir að vera skynsamlegt í dag, þarf ekki endilega að reynast það.  En þetta er margslungið.

Sumir sem voru fylgjandi aðild Breta að "Sambandinu" voru nú manna æstastir í að yfirgefa það, og einhver dæmi eru líklega um það gagnstæða.

Krónan hefur fallið og er nú að styrkjast, alveg í takti við horfur í efnahagsmálum Íslendinga.

Hvað er gott fyrir Ísland, er sjaldnast það sem er gott fyrir 100% íbúanna (það gildir reyndar um öll lönd), en það er þetta með vogarskálarnar og lóðin sem fer á þær.

Enga "talskonu" hef ég heyrt tala um að skattar væru "þjófnaður" en ég hef rekist á all nokkur umtal á netinu um að skattar væru "ofbeldi". Þú setur ef til vill hlekk hér inn þar sem talað er um þjófnað.

Íslendingar höfðu fast gengi um all langa hríð. Það gafst misjafnlega.

Það er eins og allt annað.  Sumir vilja svo meina að best færi á því að taka upp US$, ef að vilji er til þess að njörva gengið niður.  Það er auðvitað "alþjóðlegasta" myntin og megnið af "alþjóðlegum" hrávörum og viðskiptum verðlagt í honum.

Og af því að þú ert að tala um Noreg, heldur þú að það hefði verið betra fyrir Noreg að vera með fast gengi nú þegar olíuverð hrundi?

G. Tómas Gunnarsson, 6.11.2016 kl. 17:39

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eins og þú sérð í kommentinu mínu hér að ofan er orðið "ofbeldi" - hvort það er ofbeldi eða þjófnaður er hártogun, punkturinn er sá sami: að skattheimta sé óæskileg og feli í sér alvarlegt brot gegn "þolanda".

Þessi umrædda talskona er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, sbr.

http://stundin.is/utgafa/2016/34/

Kristján G. Arngrímsson, 6.11.2016 kl. 22:12

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér frir þetta. Það er mikill munur á ofbeldi og þjófnaði, þó að oft sé þjófnaður framinn jafnhliða ofbeldi. Það er líka munur á þjófnaði og kúgun (extortion) og má líklega að mörgu leyti segja að skattheimta liggi nær kúgun en ofbeldi.

En samkomulagið fellst í því að meirihlutanum (og fulltrúum hans) er heimilt að kúga minnihlutann.  Blessað lýðræðið hefur gefist okkur í heildina vel (þó alltaf megi deila um einstök atriði) og við höfum ekki fundið eða sæst á annað betra.

En við höfum í raun gefið "hinu opinbera" einkaleyfi á ofbeldi. Og hið opinbera beitir því, til að skikka okkur til, til að sjá til þess að við greiðum skatta, keyrum eftir settum reglum, virðum eigur annara og ríkisins, o.s.frv.

Fáir ef nokkrir halda því fram að skattar séu óæskilegir, en það er vissulega deilt um hvað þeir eigi að vera háir, og verður líklega svo "á meðan land byggist", svo gamall frasi sé notaður. Því fylgir að einnig er deilt um til hvers á að nota þá fjármuni. En fæstir myndu segja að skattar séu "frjáls framlög", og nú er svo komið að fæstir hafa nokkuð um það að segja hvenær þeir greiða, heldur er skatturinn tekinn án þess að greiðandi hafi nokkuð um það að segja.

Eins er það með hugtök eins og "ríkiseign" og svo "þjóðareign" og svo er aftur í "tísku"  að skeyta "almanna" fyrir framan.

Þetta er að vísu "klassískt" deiluefni og við leiðum það ekki til lykta hér.  En ég held að þjóðareign geti ekki talist eign í "hefðbundnum" skilningi orðsins.

Það þarf ekki að ekki nema að velta því fyrir sér hvað gerist ef einstaklingur hættir að vera meðlimur þjóðarinnar.  En það er heldur ekki eins og að eingöngu sé til ein skilgreining á þjóð.

P.S. Svona til gamans, þá vil ég nefna að ég hef oft gantast með það, að þegar alls kyns lögbrot hafa verið framin í nafni "aðgerðarsinna", og margir tala eins og það sé ósvinna að sækja slíkt fólk til saka eða draga það fyrir dómara, að það hljóti að vera tímaspursmál hvenær þeir sem svíkja undan skatti, fari að tala um sig sem aðgerðasinna í skattamálum.

G. Tómas Gunnarsson, 7.11.2016 kl. 06:11

15 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að segja skatta ofbeldi felur fyrst og fremst í sér ákveðið viðhorf til ríkisvalds og ákveðna hugmynd um hvað ríkisvald er. Og í framhaldi af því hvað samfélag er. Samfélagssáttmálakenningar útskýra þetta mjög vel, en fáir held ég betur en Hobbes. (Sem var samt enginn lýðræðissinni!)

Auðvitað hefur ríkið einkaleyfi á ofbeldi - og vopnin til að beita því, þ.e. lögreglu og her. Það er fórnarkostnaðurinn sem við færum til að tryggja öryggi okkar og stöðugleika svo að viðskipti og mannlíf fái þrifist.

En það er held ég algengur misskilningur að ríkið sjálft sé hafið yfir lögin, og af þeim misskilningi stafar djúpstæð andúð margra á ríkisvaldi. Þeir átta sig ekki á því að þeir eru sjálfir hluti af ríkinu og eru þar með í stanslausu stríði gegn sjálfum sér.

Kristján G. Arngrímsson, 7.11.2016 kl. 08:18

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Þetta er auðvitað "stórt og víðfemt" mál. Og við hvorki fyrstu né seinustu aðilarnir til að rífast um þetta.

Það er ekkert óeðlilegt að menn hafi mismunandi viðhorf til ríkisvaldsins, hvað það eigi að gera, hversu stórt það megi vera, hve stóran hluta sjálfaflafé þegnanna það megi taka o.s.frv.

Og einstaklingur getur hæglega sagt sem svo að há skattheimta feli í sér ofbeldi eða kúgun, enda hún komin langt yfir það sem hann telur ásættanlegt og notað til að standa straum af hlutum sem hann kærir sig ekki um og telur "vitleysu of firru". Hann telur sig með öðrum orðum þvingaðan eða kúgaðan til þess að standa straum af kostnaði við hluti sem hann er á móti. Kjósi hann að gerast "aðgerðarsinni" og greiða ekki skattana (sem er þó orðið æ erfiðara), má hann búast við handtöku, frelsissviptingu og/eða eignaupptöku.

Það eru til dæmis sterk rök fyrir því að nefskatturinn sé ekkert annað en kúgun til þess að standa straum af rekstri Ríkisútvarpsins og fjárfestingum þess. En það er nokkuð sem Íslendingar sætta sig við vegna þess að fyrir því er meirihluti á Alþingi, sem er aftur kosinn af meirihluta þjóðarinnar. Kannanir benda til þess að meirihluti sé fylgjandi þessu fyrirkomulagi (þó engin kosning hafi farið fram. Ég veit ekki hvort að  meirihluti sé fylgjandi "nefskattinum", þó meirihluti sé fylgandi ríkisrekstri á stofnuninni. Oft breytast skoðanir þegar upphæðin sést svart á hvítu.) en það þýðir ekki að ákveðinn minnihluti sé ekki í raun neyddur til að greiða þetta.

Og auðvitað myndar einstaklingurinn enga "eign" í Ríkisútvarpinu í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Ríkið er ekki hafið yfir lög, alla vegna ekki í flestum samfélögum, en ríkið hefur oft á tíðum ákveðið "forskot" þrátt fyrir allt og víða um lönd hefur á ýmsum tímabilum "gruggast" á milli löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds.

Og það að þegnarnir séu hluti af ríkinu, er það alls ekki gefið að hagsmunir ríkisins og einstaklings fari saman. Og einstaklingur sem berst gegn ríkinu er alls ekki nauðsynlega að berjast gegn sjálfum sér eða sínum eigin hagsmunum.

En eins og áður mun verða deilt um hvert hlutverk ríkisins er og ætti að vera. Það er gott, enda langt í frá að um það ríki sátt eða að hverjum og einum henti sama "mótið".

G. Tómas Gunnarsson, 7.11.2016 kl. 09:12

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það má auðvitað deila um einstaka skattheimtu og skattaprósentu, en ég hef skilið Heiðrúnu og Pavel þannig að þau telji skatta almennt vera ofbeldi. Það er misskilningur. Eða kannski ætti ég að segja að það sé viðhorf sem ég tel fela í sér sjálfstortímingu og þal. ekki fá staðist.

Og svo má ekki rugla saman ríkinu og ríkisstjórn - eða sitjandi yfirvaldi hverju sinni. Hobbes gerir t.d. ráð fyrir því að þegnarnir geti velt einvaldinum úr sessi og sett nýjan.

Kristján G. Arngrímsson, 7.11.2016 kl. 10:31

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ég tek í sjálfu sér ekki að mér að túlka (eða verja) skoðanir annara.  En ég held að allir (eða næstum allir) séu sammála um nauðsyn einhverrar skattheimtu.  En hvernig og hvað mikla er deilt um og verður líklega til eilífðarnóns.

Tekjuskattur var næsta óþekkt fyrirbrigði fyrr en rétt eftir fyrri heimstyrjöld og byrjaði sakleysislega víðast hvar. Var í lágri eins stafa tölu.

Var það kúgun, eða hvar á leiðinni hófst hún?

Það má véfengja flesta ef ekki alla skatta og skattaprósentur, ef vilji er til þess.

En svo er það að telja skatta ofbeldi, já eða kúgun, ekki það sama og að vera á móti öllum sköttum. Það eru enda margir (ef ekki flestir) sammála um að ákveðinn skammtur af ofbeldi (eða kúgun) sé nauðsynlegt til að samfélagið virki.  Það er ef til vill meiri spurning hvað menn telja að magnið eigi að vera.

En lög hafa gjarna lítið vægi án refsingar og svo má áfram telja.

En persónulega finnst mér þetta ágætlega áhugaverð umræða, en hins vegar má ekki líta fram hjá því að uppsláttur miðils eins og Stundarinnar er líklega fyrst og fremst ætlaður til að þyrla upp pólítísku moldviðri ásamt því að "selja" nokkra músasmelli.

En þetta er líklega góð lexía fyrir nýbakaðan þingmann eins og Pawel, hvernig umræðan getur þróast og hvað þarf að varast.

G. Tómas Gunnarsson, 7.11.2016 kl. 11:29

19 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það skiptir engu máli hvert markmiðið hjá Stundinni er, svo fremi sem rétt er eftir haft. Það skiptir mig engu máli hvaða fjölmiðill skráir orðin sem um ræðir. Þannig að þú ert að drepa málinu á dreif með því að fara að tala um að þetta sé nú bara smellaveiði í Stundinni. Eða áttu við að Stundin hafi logið því að Heiðrún hafi sagt þetta? Ef svo er þá er náttúrulega ekkert að mark umræðuna.

Kristján G. Arngrímsson, 7.11.2016 kl. 13:08

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ég hef enga trú á því að Stundin fari ekki rétt með þetta, þó að ég hafi ekki séð viðtalið sem vitnað er til.

Enda finnst mér þetta sjónarmið í sjálfu sér ekki rangt.

Það má einnig halda því fram í miklum rétti að einkaeignarréttur gangi ekki án ofbeldis, eða að ákveðin refsing sé til staðar sé hann ekki virtur.

Það þýðir ekki að ég sé að hvetja til þess að engin megi eiga fasteign.

Framan af gættu menn hans sjálfir. Þegnarnir sáu ennfremur sjálfir um að verja "ríkið".  Skattar eiga líklega upphaf sitt í því að greiða fyrir vernd, bæði lífs og lima og svo einkaeignarréttarins.  Mafían hefur reyndar getið sér orð fyrir svipaða starfsemi, en án einkaleyfis, og hefur hún reynst sumum vel, en öðrum illa.

Það sem ég átti nú við þegar ég minntist á moldviðri, er að ég held að engin raunveruleg hætta sé t.d. á því að Pawel leggi til "Ofbeldislaust Ísland 2025" og þá verði ekki innheimtir neinir skattar.

En stundin má pönkast á Pawel og Heiðrúnu, án þess að það klagi nokkuð upp á mig, ég er á margan hátt sammála þeim.  Það er enda þarft að ræða skattamál eins og önnur mál, og ekkert að því að misjöfn sjónarmið komi fram og litið sé á þá frá mörgum sjónarhornum.

G. Tómas Gunnarsson, 7.11.2016 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband