Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Vinstri VASP stjórn möguleg, en Sjálfstæðisflokkurinn styrkir stöðu sína

Það þarf alltaf að hafa í huga að um skoðanakönnun er að ræða, en það breytir því ekki að oft er gaman og jafnvel gagnlegt að velta vöngum útfrá slíkum könnunum.

Það sem virðist ljóst er að kosningarnar á laugardaginn verða líklega afar spennandi - allt fram á síðustu stundu.

Ef við leggjum þessa skoðanakönnun til grundvallar, er ljóst að vinstri VASP stjórn er möguleiki, sá "fjórflokkur" hefur meirihluta.  En litlu má muna að annaðhvort Björt framtíð eða Samfylkingin detti út af þingi - hugsanlega báðir flokkarnir og þá væri uppi allt önnur staða (þeir gætu þó hugsanlega náð kjördæmakjörnum þingmanni/mönnum undir slíkum kringumstæðum t.d. Árna Páli og/eða Loga frá Samfylkingu og Óttari frá Bjartri framtíð.)

En ef þetta yrði niðurstaðan (eða í nánd við þetta) eru kjósendur ekki að kalla eftir Samfylkingunni eða Bjartri framtíð í ríkisstjórn, og VASP stjórn yrði frekar veik. Samfylkingin myndi líklega velta því fyrir sér hvort hún treysti sér í stjórnarsetu með þessa útkomu.

En Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Viðreisn vinna á. 

En enn er vinstri stjórn lang líklegasta útkoman miðað við þessar niðurstöðu og yfirlýsingar flokksforkólfa hingað til - því lang líklegast er að Viðreisn myndi styðja vinstristjórn.

Vinstri græn, Píratar og Viðreisn væri ekki ólíklegt stjórnarmynstur horft á þessa skoðanakönnun.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir vinstri stjórn er að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að auka fylgi sitt.

Það er rétt að gefa því gaum að hlutfall þeirra sem gefa upp afstöðu sína hefur aukist, svarhlutfall er yfir 70%. Það gefur könnuninn aukna vigt, enda alls óvíst að kjörsókn verði mikið meiri.

 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með 25,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frambjóðendur, titlar og menntun

Enn á ný er hafin mikil umræða á Íslandi um menntun og titla einhvers frambjóðanda. Sitt sýnist hverjum eins og vonlegt er.

Auðvitað skiptir meginmáli hvað frambjóðendur segja og gera, frekar en hver menntun þeirra er.  En það verður þó ekki framhjá því litið að auðvitað skiptir máli að frambjóðendur segi sannleikann á þessu sviði, jafnt sem öðrum.

Sé sannleikurinn ekki í hávegum hafður, vekur það efasemdir um trúverðugleika frambjóðendans.

Ég ætla ekki að dæma neitt um sannleiksgildið í þessu öllu saman, í hvoruga áttina, þau orð frambjóðandans að honum þætti skrýtið að verið væri að vekja athygli á þessu stuttu fyrir kosningar fengu mig til að hlægja.

Ég man ekki betur en að menntunarmál og titlar frambjóðanda hafi verið sérstakt áhugamál margra vinstrimanna fyrir síðustu og þar síðustu kosningar.

Slíkt ætti því ekki að þurfa að koma neinum á óvart nú.

 

 


Hefur Evrópusambandið gert sinn síðasta fríverslunarsamning?

Enn er fríverslunarsamningur "Sambandsins" við Kanada ekki í höfn, og í raun stór spurning hvort að yfirhöfuð verði nokkuð úr honum.

Fullyrt er að enn sé unnið bakvið tjöldin í því að reyna að "bera fé og aðra "greiða"" á Wallóna, til þess að reyna að fá þá til að ljá samningnum samþykki sitt.  En allt kemur fyrir ekki.

Ef ekkert verður af samningum, þykir það gríðarlegt högg fyrir "Sambandið", viðskipta og utanríkisstefnu þess.

Reyndar hafa ýmsir sagt, þar á meðal Tusk, forseti Leiðtogaráðs "Sambandsins", að verði þessi samningur ekki samþykktur hafi Evrópusambandið gert sinn síðasta viðskiptasamning, alla vegna um langt skeið.

Það er í sjálfu sér ekki ólíklegt, enda vandséð að mörg ríki vilji eyða löngum tíma og dýrmætum starfskröftum (samningar við Kanada hafa staðið yfir í kringum 7 ár) í að semja við "Samband" sem ekki getur staðfest samninga.

Það verður heldur ekki séð að slíkar samningaviðræður, sem síðan yrði hafnað, væru "Sambandinu" til framdráttar.

Enn og aftur er þarft að benda Íslendingum á að það er nákvæmlega engin skynsemi í því fólgin að "múra" Ísland innan Evrópusambandsins og tollmúra þess, allra síst nú þegar útlit er fyrir að stærsta einstaka viðskiptaland Íslendinga sé á leiðinni út.

P.S. Einstaka "samæriskenningasmiðir vilja svo meina að það sé "harðlínumönnum" sem vilja hegna Bretum eins grimmilega og kostur er, ekki svo mjög á móti skapi að samningurinn við Kanadamenn nái ekki í gegn. Eini aðilinn sem hefði getað komið í veg fyrir það á "trúverðugan" hátt hafi einmitt verið frönskumælandi Belgar.

"Samsæriskenningasmiðirnir" segja að hefði samningurinn við Kanadamenn gengið í gegn, væri nær útilokað fyrir "Sambandið" að verja að bjóða Bretum ekki jafn góðan, eða betri samning. En æ meira útlit er fyrir "glerhart Brexit".

 


mbl.is Hafna „úrslitakostum“ ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskýr hugmyndafræði í íslenskri pólítík

Það hefur verið örlítið undarlegt að fylgjast með kosningabaráttunni á Íslandi. Í raun hefur mér fundist mikið meira púður hafa farið í "umbúðirnar" en innihaldið.

Ef til vill er það vegna þess að að undanskildum örfáum málum, sem oft eru falin í undarlegu orðskrúði, er ekki mikill munur á milli flestra flokkana.

Þannig voru uppi ásakanir um að Viðreisn hefði "stolið" stefnuskrá Bjartrar framtíðar, og reyndar einnig á hinn veginn.

Björt framtíð liggur svo undir ámæli um að vera lítið annað en "litla Samfylkingin", og í raun "klofningur" úr þeim flokki, frekar á persónulegum en hugmyndafræðilegum grunni.

Samfylkingin "ásakar" Pírata um að hafa "downloadað" stefnuskrá sinni og að í raun sé enginn munur á flokkunum.

Enn aðrir segja að Samfylkingin hafi flutt sig svo til vinstri að engin leið sé að sjá muninn á henni og Vinstri grænum.

Ég held reyndar að býsna margir, bæði í Samfylkingu og Vinstri grænum eigi það sameiginlegt að pólítísk afskipti þeirra hafi hafist í Alþýðubandalaginu. Líklega eru mun fleira Samfylkingarfólk "ættað" þaðan en úr Alþýðuflokknum.

Það er síðan líklega sá armur Framsóknarflokksins sem stendur nærri Vinstri grænum sem bar sigur úr bítum í formannskjöri nú nýverið og er meiri "ullarlykt" af flokknum en um hríð.

Það breytir því þó ekki að, þó að Sigurður "sáttfúsi" og "viðræðugóði" hafi tekið við stjórnvellinum þar, virðist enginn vilja tala við Framsóknarflokkinn, eftir að hann tók við.

Sigurði er gefið til kynna að hann sé best geymdur "einn með ærnar í haga", ef svo má til orða taka.

Segir ef til vill eitthvað um hvað vænlegt það er að taka ráðgjöf pólítískra andstæðinga um hver sé besti forystusauðurinn.

En eftir formannskjörið, hefur Framsóknarflokkurinn dottið úr umræðunni og fylgið sigið.

Sjálfstæðisflokkurinn er í all nokkrum vandræðum, sker sig nokkuð frá hugmyndafræðilega. Sem aftur verður svo til þess að enginn vill viðurkenna að geta hugsað sér að starfa með honum.

Eini flokkurinn sem hægt er að treysta til þess að standa nokkuð einarðlega á móti Evrópusambandsaðild.

Eini flokkurinn sem í raun getur komið í veg fyrir að næsta ríkisstjórn verði vinstri stjórn.

 


Fjölmiðlar og stjórnmál og þátttaka fjölmiðla í stjórnmálum

Ég reikna með því að mörg okkar hafi oft á tíðum sagt við sjálf okkur að við gætum sagt til um hvar "samúð" margra fjölmiðla og jafnvel fjölmiðlamanna liggi í pólítík.

Lengi vel var þetta lítið leyndarmál, flestir fjölmiðlar voru flokkspólítískir og yfir Ríkisútvarpinu var stjórn pólítískra "varðhunda", sem sagan segir að hafi jafnvel notað skeiðklukkur til að mæla tíma mismunandi stjórnmálaafla.

En síðan urðu allir fjölmiðlar "óháðir", og nei, það er ekki tilviljun að ég set það hér innan gæsalappa.

Samt þykjumst við mörg hver ennþá sjá "samúðina" beinast hingað, eða þangað.

Ef marka má "Orðið á götunni", þá fá Íslendingar hins vegar sjaldgæfa sönnun á því hvernig hlutirnir geta gengið fyrir sig á fjölmiðlum á Íslandi.

Sjálfur sjónvarpsstjórinn er að spyrja stjórnmálamanninn hver gæti verið hentugur í umráðuþátt.

Þess má svo til gamans geta (klassískt orðalag) að sjónvarpsstjórinn er fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar, sem lýsti því fjálglega hvað hann væri feginn að vera "laus undan oki auðmanna", þegar hann hætti störfum á Stöð 2 hér um árið, stuttu áður en hann komst á þing.

Ef ég vitna nú í traustan vin minn, þá segir hann að fjölmiðlamennska sé "profession".  En hann hefur meint það í jákvæðri meiningu, en ekki verið að tala um þá "elstu".

Vidreisn og hringbraut

 

 

 

 

 


mbl.is Viðreisn sýnir spilin fyrir kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Evrópusambandið ófært um að gera viðskiptasamninga?

Það er þetta með "alþjóðasinnana", þá sem tala svo fjálglega um "vestræna samvinnu", þessa sem eru svo fylgjandi frelsi í viðskiptum á milli þjóða.

Það er reyndar merkilegt að enn skuli vera til stjórnmálamenn á Íslandi sem halda því fram að nóg sé að ganga í Evrópusambandið, til að vera allt í senn, alþjóðasinnaður, fylgjandi frelsi í viðskiptum, sterkur þátttakandi í vestrænni samvinnu.

Hvernig hægt er að sjá allt þetta í viðskiptablokk eins og "Sambandinu" hefur lengi verið mér hulin ráðgáta.

Fríverslunarsamningaviðræður "Sambandsins" og Kanada eru dæmi sem vert er að skoða. Að sjálfsögðu er ekkert óeðlilegt að skiptar skoðanir séu um ágæti slíkra samninga, eða þess einstaka samnings, en það er ferlið sem er athyglivert.

Viðræður á milli Kanada og "Sambandsins" hafa staðið í um áratug, þó líklega megi segja að að krafti hafi verið um að ræða 7 ára ferli.

Og samningurinn hefur verið tilbúinn, að mestu leyti, um all nokkra hríð.  En þó þurfti að gera smá breytingar hér og þar til þess að hægt yrði að koma honum í gegn.

En allt kom fyrir ekki.

Samningurinn er stopp.  Vegna þess að héraðsþing í Belgíu, þar sem frönsku mælandi sósíalistar hafa töglin og hagldirnar segir nei.

Eða öllu heldur "non" , svo við höldum þessu á "alþjóðlegu" nótunum.

Og þar við situr. Samngurinn fæst ekki staðfestur. 

Á endanum var samninganefnd Kanada nóg boðið og gekk út. Viðskiptaráðherra Kanada lét hafa eftir sér.

"It's become evident for me, for Canada, that the European Union isn't capable now to have an international treaty even with a country that has very European values like Canada. And even with a country so nice, with a lot of patience like Canada."

"I've worked very, very hard, but I think it's impossible. "We have decided to return home. I am very sad. It is emotional for me."

Enn verður þó líklega reynt að bjarga samningnum, með fundi snemma laugardags í Brussel, en líkurnar eru ekki góðar.

Reyndar höfðu bæði Bulgaría og Rúmenía hótað að stöðva að samningurinn kæmist í gegn, vegna þess að þegnar þeirra landa þurfa enn vegabréfsáritun til Kanada.

Íslendingar hljóta að spyrja sig hvort að þeir telji viðskiptahagsmunum sínum best borgið í "Sambandi", þar sem viðskiptahagsmunir geta ráðist af því hvort að takist að "berja eða múta", héraði í Belgíu "til hlýðni", eða hvort Búlgaríu eða Rúmeníu sé ósátt við "visafyirkomulag".

Það er ekki síður áhyggjuefni að ef marka má "talsmáta" ýmissa frammámanna "Sambandsins", þá virðist það fyllilega vera reiðubúið til að setja til hliðar eigin viðskiptahagsmuni til þess að beita "refsivendinum", gegn núverandi félaga, sem hyggur á brotthvarf.

Þær áhyggjur verða ekki minni, þegar um stærsta einstaka viðskiptaland Íslendinga er að ræða.

Því segi ég, verum alþjóðasinnuð, en í alvöru.  Múrum ekki Ísland innan "Sambandsins".

 


Kastljósið: Ný þróun í kosningabaráttu á Íslandi?

Á miðvikudag sá ég auglýsingar um komandi Kastljós og skildi þær eiginlega svo að spilað yrði í þættinum í upptaka af samtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde.

Það var því svo að í dag (föstudag) að leitaði ég uppi Kastljósið á vef RUV og horfði á, nokkuð spenntur.

Mér fannst þátturinn óttalegt þunnildi þegar upp var staðið.  Ekkert nýtt kom fram sem ekki hefur verið í "umræðunni" í langan tíma, en það verður þó að segjast að það var undirbyggt nokkru betur.

En frétt af vef RUV segir þó líklega meira en margt annað að í raun er umfjöllun Kastljóss ekki byggð á samtalinu sjálfu, en frásögn  er alltaf vafa orpin, heldur meira á sögusögnum:

Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Sturla Pálsson, starfsmaður Seðlabankans, hefði borið því við í skýrslutökum hjá Sérstökum saksóknara að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hefði tjáð sér að hann hefði sagt Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að lánið væri tapað áður en það var veitt og að ákvörðun um fyrirgreiðsluna hafi verið Geirs.

Orðalag eins og "...hefði tjáð sér að hann hefði sagt..." segir í þessu tilfelli allt sem þarf.

En að mörgu leiti er það meginmál að einhver hefur lekið til Kastljóss yfirheyrslu Sérstaks saksóknara yfir starfsmanni Seðlabankanns.

Það verður að ég tel að teljast nýmæli í kosningabaráttu á Íslandi að lekið sé gögnum af þessu tagi.

Persónulega tel ég enga leið til þess að ætla að tímasetning slíks leka sé tilviljun. Ég er einfaldlega ekki það trúaður á tilviljanir, þó að ég neiti því að þær séu til.

Það er þarf þó varla að efa (eða hvað) að nú upphefjist heljarinnar leit (sem verður lýst í næstum beinni í fjölmiðlum) að þeim sem hefur lekið afriti af umræddri yfirheyrslu.

Nema auðvitað að starfsmenn sérstaks saksóknara telji að brotist hafi verið inn í tölvukerfi embættisins.

En það styrkir þá tilfinningu að ekki hafi verið um tilviljun að ræða, að "kantmennirnir" voru tilbúnir. Það stóð ekki á "ýtarupplýsingum", ættarupplýsingum og jafnvel hvar einstaklingar búa.  Aðrir "fréttamenn" voru reiðubúnir með pistla sína og sagan spann nokkuð vel.

En af því að ég sagði að um nýmæli væri að ræða í kosningabaráttu á Íslandi, má ef til vill rifja upp að nýlega birti RUV frétt um nýmæli í íslenskri kosningabaráttu, það er að segja að upp hefðu skotið kollinum, "nafnlaus" myndbönd.

Í því tilfelli fannst RUV aðalfréttin felast í "sendiboðanum", en ekki því sem hann hafði að segja.

Alla vegna fannst RUV engin frétt í því að haldið væri fram að Samfylkingin væri í húsnæði sem væri í eigu félaga sem lögheimili væri í erlendum skattaskjólum. (Ég er einn af þeim steingervingum sem ekki er á Facebook, en googlaði og fann myndböndin á YouTube og má finna það er varðar Samfylkinguna hér neðst á síðunni).

Skyldi RUV koma með frétt um "lekanýjungina" í íslenskri kosningabaráttu?

Þannig eru þær ýmsar nýjungarnar í íslenskri kosningabaráttu þessa dagana.

En af því að "kantmennirnir" voru svo áhugasamir um búsetu og ættartengsl, má velta því fyrir sér hvers vegna þeir tóku hugleiðingar sínar ekki lengra og víðar?

Þannig veltu þeir því ekkert fyrir sér að fréttamaður Kastljóssins væri fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar, afi hans hefði verið þingmaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið, og að fyrir fáum árum hefði yfirmaður hans kallað hann "óþverra" (það er að segja af ég man það orðrétt). Sá fyrrverandi yfirmaður mun víst vera í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir þessar kosningar.

En þetta á auðvitað ekki að skipta neinu máli, þannig má líklega kasta "vafa" yfir ættartengsl flestra Íslendinga.

Og að sjálfsögðu bera fréttamenn ekki kala til nokkurs manns, hvað þá stjórnmálaflokks, það jaðrar auðvitað við "geðveiki" að halda slíku fram.

Að sjálfsögðu er þessi "uppljóstrun" hrein tilviljun, rétt eins og koma Evu Jolie og "drottningarviðtal" við hana í Kastljósi stuttu áður.

 

 

 


Er fastgengi og lágir vextir lykill að velgengni?

Margir stjórnmálamenn eiga það sameiginlegt að boða töfralausnir. Svona eins og það þurfi bara að "ýta á hnapp", bara "að sækja um aðild að Evrópusambandinu", bara "að taka upp euroið", bara "að festa gengið",  o.sv.frv.

Hvergi hefur mér þessi árátta verið fyrirferðarmeiri en hjá þeim "frjálslyndu" stjórnmálamönnum sem boða aðild að "Sambandinu".

Viðreisn er t.d. með þá "töfralausn" að það þurfi einfaldlega að festa gengið, talað er um að fest gengi við euro, myntráð með eða án vikmarka.  Það muni svo aftur færa þjóðina lága vexti, verðtrygging verði óþörf o.sv.frv.

Stöðugleiki verði tryggður.

En er þetta rétt?  Það er að vísu rétt að taka það fram engin þjóð (að ég best veit) býr við "fast gengi". En það eru þó nokkrar þjóðir sem búa við fast gengi við einhverjar aðrar þjóðir, eina eða fleiri, myntráð eða ígildi þess.

Í raun þarf ekki að leita langt til að finna þjóðir sem búa við þennan "stöðugleika". Það eru til dæmis Frakkar.

Þar felst stöðugleikinn til dæmis í því að atvinnuleysi hefur verið um og yfir 10% lengur en forseti landsins kærir sig um að muna. Franskur stöðugleiki felst einnig í því að þar er viðverandi halli á ríkissjóði.  Skuldir ríkissjóðs vaxa stöðugt og er Frakkland löngu komið yfir þau mörk sem ríkjum á Eurosvæðinu eru sett. En "c'est la vie" og Frakkland er Frakkland segir Juncker og brosir.  Hans frægasta setning að þegar aðstæður eru erfiðar þurfi að grípa til lyga á líklega ágætlega við hér, þó að vissulega neiti því enginn að Frakkland er Frakkland.

En hefur ekki Frakkland búið við nokkuð stöðugan gjaldmiðil og lága vexti?

Og gildir það sama ekki um Portúgal? Og hefur Írland ekki sömuleiðis búið við stöðugan gjaldmiðil og lága vexti? En þrátt fyrir það hefur mér skilist að meira að segja núverandi formaður Samfylkingarinnar tali um hvað Íslandi (með sinn "óstöðuga gjaldmiðil og háu vexti) hafi gengið betur að takast á við bankahrun, sem varð í báðum löndunum.  Ítalía hefur einnig búið við "fast" gengi og lága vexti.  Stöðugi fastinn í efnahagslífinu hefur þó ekki síður verið skuldasöfnun hins opinbera og hátt (en stöðugt) atvinnuleysi.

Það er ætti að vera óþarfi að rifja upp ástandið í Grikklandi, þrátt fyrir stöðugan gjaldmiðil, lága vexti og stanslausa "hjálp" Seðlabanka Eurosvæðisins og sjálfs "Sambandsins" er Grikkland í raun orðið 3ja heims ríki á æ fleiri sviðum.

Ég held að flestum ætti að vera ljóst að fastgengi og lágir vextir tryggja ekki velmegun og gott gengi í efnahagsmálum, þó að vissulega sé stöðugt gengi eftirsóknarvert.

En það má hafa í huga að það eru u.þ.b. 24. ár og 1. mánaður síðan sá eftirminnilegi atburður gerðist að Englandsbanki gat ekki varið fastgengi pundsins.

Ekki er síður vert að hafa í huga að flestir eru sammála um að lágir vextir á Eurosvæðinu (og víðar í heiminum) séu afleiðing af stöðnuðu og þjáðu efnahagslífi svæðisins.  Seðlabankinn er með "what ever it takes" aðgerð, til að reyna að halda euroinu á lífi, blása einhverjum þrótti í viðskiptalífið og vonast eftir aukningu verðbólgu.

Í þessu skyni hefur Seðlabanki Eurosvæðisins neikvæða stýrivexti og prentar euro eins og hann óttist að það falli úr tísku.

Hverjir eru það sem halda því fram að peningaprentun og neikvæðir stýrivextir sé það sem þarf í íslenska hagkerfið, þar sem spáð er 4 til 5 % árlegm hagvexti?

Viðreisn? Samfylkingin? Píratar? Björt framtíð?

Sjálfsagt myndi Vinstri græn gleypa það jafn auðveldlega og umsóknina að Evrópusambandinu, slá í eina "kommaköku" og spyrja: Hverjum treystir þú?

Nú hillir undir að verulega slakni á gjaldeyrishöftum og hugsanlega að takist að afnema þau með öllu.

Þó að alltaf sé erfitt að spá og sérstaklega um framtíðina eins og maðurinn sagði, er allt eins líklegt að íslenska krónan muni þá láta eitthvað undan síga.

Það mun ráðast af útstreymi og einnig því hvort að velgengni íslensks atvinnulífs haldi áfram.

Útlitið er býsna gott, en ekkert er í hendi.

Ef útstreymi verður mikið er einhver versta staða að vera með fast gengi, ja nema auðvitað fyrir þá sem væru að flytja út fé og svo aftur þá sem standa í innflutningi.

En allt stefnir í að Viðreisn vilji koma á vinstristjórn.  Það sem þeir kalla að kjósa "frjálslynda miðjustjórn", en núorðið virðist "frjálslyndi" helst felast í því að vilja ganga í "Sambandið".

"Frjálslynd miðjustjórn", líklega er helst að leita til "Reykjavíkurmynstursins" til þess að skilja hvað í því felst.

"Reykjavíkurmynstrið", innganga í Evrópusambandið og beintenging við euro eða upptaka þess.

"Landaleiðir" eru víst í tísku þessa dagana.

Hvað ættum við að kalla þessa:  "Frönsku leiðina" í efnahagsmálum?  Eða förum við alla leið  og köllum þetta "grísku leiðina"?

Ef til vill "ítalska leiðin" eitthvað sem kætir. Eiga Íslendingar ekki "sinn eigin Beppo"?

Ef til vill er þetta alltof mikil svartsýni er ekki "danska leiðin" til fyrirmyndar og hefur tenging dönsku krónunnar gengið vel og allt þar í lukkunnar velstandi?

Hér er stutt frétt frá Bloomberg, í henni má m.a. lesa um efnahagsástandið í Danmörku:

Depression-Era Danish Prices Coincide With Record Negative Rates - Bloomberg

The negative rate environment has brought with it a number of surprises. Helge Pedersen, chief economist at Nordea Bank AB in Copenhagen, says it’s also worrying that investment has failed to pick up. “It really tells us that monetary policy hasn’t been that successful,” he said by phone.

 

For Denmark, 2016 will be the fourth year in a row with consumer price gains below 1 percent, something not seen since the beginning of the 1930s, said Las Olsen, an economist at Danske. The Danish economy will only expand 0.6 percent this year, after growing 1 percent in 2015, Handelsbanken estimates. Growth will be even slower next year, at 0.5 percent, it said.

After a recession in the second half of last year, “the recovery continues to look fragile,” Jes Asmussen, chief economist at Handelsbanken in Copenhagen, said in a report on Tuesday. Slower growth abroad, a shrinking tailwind for household spending and lackluster investment all mean that growth isn’t likely to pick up “over the coming years,” he said.

Og fyrir þá sem hafa meiri áhuga á velferð, jöfnuð og tölum um fátækt, en hagvexti og "hörðum" efnahagstölum, má benda á þessa frétt úr Extrabladet og þessa skýrslu frá hagstofu Evrópusambandsins.

 


mbl.is Viðreisn vill frjálslynda miðjustjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningarfrelsi, Vinstri græn, Sovétríkin og kommúnisminn

Það hefur vakið all nokkra athygli í "netheimum" að einstaklingur sem er víst gjaldkeri Vinstri grænna bakaði köku með hamri og sigð, gömlu tákni Sovétríkjanna og "alheimskommúnismans".

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ýmsum þótti það miður þekkileg iðja, enda Sovétríkin sálugu með afar vafasamt orðspor þegar kemur að mannréttindum, fjöldamorðum, ofsóknum og yfirgangi og voru í raun rekin sem eitt stórt fangelsi þegnanna.

Þó að hér og þar hafi kommúnistaflokkar (og tákn tengd þeim) verið bannaðir er ég ekki sammála slíkum aðgerðum, ég styð frelsi jafnt félaga í Vinstri grænum sem og annara til að vegsama kommúnismann og tákn hans.

En hitt er svo allt annað mál hvort að ég vijli að slíkir einstaklingar eða samtök komist til vegs og virðingar, eða eigi sæti á löggjafarsamkundum.  Persónulega kæri ég mig ekki um slíkt og vonast til þess að sem flestir séu sammála mér, en geri mér grein fyrir að svo er þó ekki um alla.

Það er líka jákvætt að tjáningarfrelsi sé það sterkt á Íslandi að einstaklingar geti bakað köku með tákni einhverrar mestu ógnarstjórnar sem fyrir hefur fundist, stjórnar sem hafði það sama tjáningarfrelsi að engu og fótum tróð það á hverjum degi sem og frelsi þegna þegna sinna.

En værum við einhverju bættari ef það væri bannað að birta myndir af táknmyndum Sovétríkjanna og kommúnismans?  Væri Ísland betri staður ef lögreglan væri nú á leiðinni til að handtaka gjaldkera vinstri grænna og færa hana til yfirheyrslu?

Ég segi nei.

En ég vona að að Vinstri græn velti því fyrir sér næst þegar hugmyndir vakna í þeirra röðum að þörf sé á banni á hinu eða þessu, að þrátt fyrir að "kommakakan" hafi ef til vill verið smekklaus, hafi hún þrátt fyrir það bragðast ágætlega.

Og svo komi tjáningarfrelsið ef til vill líka upp í huga þeirra.

 


Hvaða íslenskir stjórnmálaflokkar vilja tengja gjaldmiðil landsins við "spilaborg eurosins"?

Það er merkilegt að um leið og æ fleiri íslenskir stjórnmálaflokkar virðast hrífast af euroinu og vilja tengja gjaldmiðil landsins við euroið, eða jafnvel taka það upp sem gjaldmiðil, eru þeir æ fleiri víðsvegar í Evrópu sem lýsa þeirri skoðun að euroið sé ekki á vetur setjandi.

Á Íslandi eru hins vegar stofnaðir stjórnmálaflokkar með það að meginmarkmiði að ganga í Evrópusambandið og að fasttengja gengi íslensku krónurnar við "spilaborg eurosins".

Og líkingin spilaborg er fengin frá Otmar Issing, Þýskum hagfræðingi sem er einn af "arkitektum" eurosins.  Hann var nýlega í viðtali við tímaritið "Central Banking", sem ég hef reyndar ekki aðgang að, en mátt hefur lesa tilvitnanir í viðtalið víða um netið.

Í viðtalinu segir herr Issing m.a.:

"But the current situation has emerged as part of a slippery slope that the ECB has been drawn down, making it ‘the only game in town'. There is no easy way for it to get out. And the exit will become increasingly difficult, while at the same time the ECB is undermining its role as an independent central bank. Take the May 2010 decision [about the Greek debt crisis].

 "It was clear over the weekend that if nothing happened by Monday, there might be turmoil in financial markets. It was obvious Greece could not meet its payments. Finance ministers were unable to deliver a solution. So the ECB was put in a lose-lose situation. By not intervening in the market, the ECB was at risk of being held responsible for a market collapse. But by intervening, it would violate its mandate by selectively buying government bonds – its actions would be a substitute for fiscal policy. The ECB had respectable arguments to intervene.

...

"Realistically, it will be a case of muddling through, struggling from one crisis to the next one. It is difficult to forecast how long this will continue for, but it cannot go on endlessly. Governments will pile up more debt – and then one day, the house of cards will collapse."

...

"An exit from quantative easing policy is more and more difficult, as the consequences potentially could be disastrous,’ he said. ‘The decline in the quality of eligible collateral is a grave problem.

The ECB is now buying corporate bonds that are close to junk, and the haircuts can barely deal with a one-notch credit downgrade."

Otmar Issing telur að euroið eigi ekki möguleika á því að standast til langframa án þess að til pólítískrar sameiningar Euroríkjanna komi.  Það er svipað og margir hafa sagt áður, reyndar hafa slík varnaðarorð verið viðhöfð frá því að euroið var enn á hugmyndastig.

En vandamálið er að það er enginn vilji til pólítískra sameiningar á Eurosvæðinu, nema hjá litlum hópi stjórnmálamanna og ég hygg að enginn þori að leggja í "söluferð" til kjósenda með þann boðskap.

Því er haldið áfram frá "krísu til krísu" og reynt að klípa meira og meira af sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þjóðana með ógegnsæum hætti.

En hvers vegna íslenskir stjórnmálaflokkar leggja svo mikla áherslu á upptöku euros (með inngöngu í "Sambandið" og/eða tengingu við það á þessum punkti er mér illskiljanlegt.

En ef til vill er það eins og með svo marga aðra everópska stjórnmálamenn, að þeir hafa bundið svo mikið af "pólítísku kapitali" sínu í euroinu og "Sambandinu" að þeim er það um megn að lýsa efasemdum um "töfralausnina".

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband