Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
18.10.2016 | 11:34
Stjórnmálamenn og "gamlar syndir"
Persónulega finnst mér alltaf hálf hjákátlegt þegar dregnar eru fram einhverjar gamlar syndir stjórnmálamanna og látið eins og það skipti einhverju höfuðmáli í núverandi baráttu.
En það sem mér þykir þó oft athyglisvert og hef gaman af, er að sjá hvernig þeir bregðast við og svara "uppljóstrununum".
Því oftast nær er engin ástæða til þess að skammast sín fyrir fortíðina í flestum tilfellum spilar hún ekki mikla rullu í því hver einstaklingurinn er í dag.
Sem betur fer hafa flestir stjórnmálamenn ekki unnið skipulega að framboði sínu frá barnæsku og því má finna hjá flestum þeirra eitt og annað "heimskulegt athæfi" sem ef til vill rímar ekki við stöðu þeirra eða skoðanir nú.
Í mínum huga er það fyllilega eðlilegt og gerir þá í raun aðeins mannlega, sem er, eins langt og mitt nef nær, eftirsóknarverður eiginleiki.
En það sem skiptir þó miklu máli er hvernig einstaklingarnir bregðast við. Hvernig taka þeir á gömlu syndunum.
Þar gefst líklega alltaf best að segja einfaldlega sannleikann og ef að sannleikurinn er ef til vill ekki fellur beint að "pólítískum rétttrúnaði" dagsins, þá er best að tala um breytta tíma og breyttan einstakling.
Tímarnir breytast og mennirnir með og það gildir einnig um kringumstæðurnar.
Þannig fannst mér hálf hlægilegt að lesa um "byssugleði Smára McCarthy" í Viðskiptablaðinu í gær.
Ég get ekki fundið beina tengingu við kosningabaráttuna á Íslandi árið 2016, þó að Smári hafi skemmt sér við að "freta" örlítið úr Kalashnikov í Afghanistan einhverntíma í fyrrndinni.
Ég reikna reyndar með að ef mér yrði boðið upp á slíkt þá myndi ég þyggja það (þó ég myndi ef til vill ekki leggja stóra lykkju á leið mína), því AK-47 er óneitanlega partur af sögunni og hefur haft meiri áhrif á hana en marga grunar.
En eins og oft áður eru það svörin sem vekja meiri athygli mína en "ávirðingarnar", því persónulega get ég ekki séð að um neinar "ávirðingar" sé að ræða.
Á myndunm sem Viðskiptablaðið birtir sést Smári skjóta af skammbyssu og tveimur mismunandi tegundum af hríðskotabyssum. Hann segir þetta hluta af námskeiði í sjálfsvörn, sem starfsmenn fyrirtækisins sem hann vann hjá hafi þurft að standa klárir á.
Ekki ætla ég að draga það í efa, en ég verð að viðurkenna að mér þykir það þó örlítið ólíklegt að starfmennirnar hafi haft innan seilingar og þurft að vera reiðubúnir til að grípa til skammbyssu og tveggja mismundi tegunda af hríðskotabyssum.
Það hefði alla vegna verið mun auðveldara þjálfunarlega séð, ef aðeins væri um eina tegund að ræða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2016 | 08:29
Eðlilegt að framkvæmdavaldið fylgi eftir vilja kjósenda
Það er eðlilegt að meirihluti Breta (samkvæmt skoðanakönnun) vilji að ríkisstjórn landsins framfylgi þeim vilja sem fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslunni um "Brexit".
Þeim er engin ástæða til þess að blanda þinginu í þá ákvörðun. Þó má líklega deila um slíkt eins og flest annað, enda fá ef nokkur fordæmi að fylgja, eða í raun leiðbeiningar.
Þó er vissulega vafi á hvort að ekki sé nauðsynlegt að þingið greiði atkvæði um málið, því þjóðaratkvæðið telst ekki lagalega bindandi.
Það er vel hugsanlegt að það komi til kasta dómstóla til á skera úr um það.
Það er hins vegar eðlilegt að þingið fjalli um málið, enda um að ræða stærsta pólítíska mál breskra stjórnmála síðustu fjóra áratugi eða svo.
En auðvitað væri lýðræðinu gefið langt nef, ef þingið færi að greiða atkvæði og snúa við ákvörðun almennings.
Slíkt myndi næstum án efa þýða þingrof og kosningar, sem líklega enginn flokkur kærir sig um, ekki einu sinni Íhaldsflokkurinn sem þó er í stöðu til að vinna stórsigur.
Vilja að May taki ákvörðunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2016 | 16:27
Evrópusambandið, öryggið og friðurinn
Oft má heyra þá fullyrðingu að Evrópusambandið hafi tryggt friðinn frá lokum síðari heimstyrjaldar og það eitt sé mikið afrek og dugi um leið sem réttlæting fyrir tilvist þess.
Ekki mynd ég vilja segja að "Sambandið" hafi ekkert lagt til þess að halda friðinn, enda eru aukin samskipti þjóða alla jafna hvetjandi til þess að friður sé haldinn, þó að slíkt sé ekki einhlýtt.
En flestir myndu þó líklega vilja meina að sterkari kraftar en "Sambandið" hafi verið að verki við að halda frið í Evrópu, sem hefur þó alls ekki notið samfellds friðar á þeim tíma sem "Sambandið" hefur verið starfandi.
Sterkari kraftur hefur verið NATO, og svo má heldur ekki gleyma "Sovétríkunum", sem með ákveðnum hætti, þó neikvæðum væri, lagði sitt af mörkum til samstarfs þjóða vestur Evrópu og þannig friðar.
En friður verður sjaldnast langvinnur án öryggis.
Og það er nákvæmlega þannig sem NATO hefur lagt mest af mörkum til að viðhalda friði í Evrópu, með því að auka öryggi aðildarþjóða sinna.
Það er einmitt þess vegna sem að Evrópusambandsþjóðir eins og Svíþjóð og Finnland, leita nánara samstarfs við NATO þjóðir (og sérstaklega Bandaríkin) og velta jafnvel fyrir sér aðild.
Það er vegna þess að NATO veitir aukið öryggi (þó ekki alls herjar) og stuðlar þannig að möguleikum á friði.
Það er sömuleiðis þess vegna sem þjóðir A-Evrópu sem voru ýmist undir járnhæl Sovétríkjanna (Rússa) eða voru innlimaðar í "sæluríki sósíalismans", létu sér ekki nægja að ganga í Evrópusambandið, heldur sóttu inngöngu í NATO afar fast.
Þau skilja betur en margur annar hvað tryggði öryggi og friðinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.10.2016 kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.10.2016 | 11:38
Hvers á Barroso að gjalda?
Það er merkilegt hve margir telja að lög og reglur gildi ekki í "Sambandinu". Ekki séu heldur nauðsynlegt að efna gerða samninga.
Ég hef nú aldrei getað talist aðdáandi stjórnmálamannsins Barroso, en hér hefur hann þó allan rétt sín megin.
Hann er ekki að gera neitt sem brýtur í bága við skilmála þá sem fylgdu ráðningu hans, eða neinum þeim skilmálum sem fylgdu því að hann lét af störfum.
Það er enda varla hægt að ætlast til þess að "aldraður" maóisti lifi af eftirlaununum einum saman?
En vissulega kann það að vera talinn alvarlegur siðferðisbrestur af vinstrimönnum að ganga "í björg" Goldman Sachs. Líklega mun alvarlegri brestur en þegar sósíalistarnir gerast "veggspjaldadrengir" Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
En það má svo aftur kalla það dónaskap að neita að taka við undirskriftasöfnun, því þó að krafan eigi sér enga lagastoð, er það vissulega lýðræðislegur réttur þegnanna að koma skoðunum sínum á framfæri, jafnvel við jafn "háa herra" og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Og þó að engin rök hnígi að því að svifta Barroso eftirlaunum sínum, er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera neitt til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. En það kann einmitt að vera núverandi Framkvæmdastjórnarmönnum lítt að skapi.
En það má líka benda þeim sem að undirskriftasöfnuninni stóðu, að ekki er síður mikilvægt og ef til vill mikilvægara að berjast á móti því að t.d. þingmenn á Evrópusambandsþinginu séu út um allar trissur að sinna öðrum störfum, t.d. stjórnarsetum.
En þeir sem best gera hafa fast að einni og hálfri milljón á mánuði(ISK) í aukatekjur, svona meðfram þingstörfunum.
Það þætti einhversstaðar sjálfsagt ekki góð latína, en eins og sagt er, hvað munar um einn kepp í sláturtíðinni?
Vilja svipta Barroso eftirlaununum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2016 | 15:41
Annað "bílslys" í uppsiglingu? Varúð til vinstri
"Hreina tæra" vinstristjórn Samfylkingar og Vinsri grænna vildi ekkert frekar en að umbylta umhverfi sjávarútvegsins og lagði fram frumvarp þess efnis.
Sem betur fer tókst að stöðva það.
Það frumvarp var svo illa úr garði gert að jafnvel einn af ráðherrum vinstri stjórnarinnar líkti því við "bílslys". Og þar var engin trygging sem hefði bætt þjóðinni skaðann.
Og enn eru uppi áform um að gjörbylta umhverfi sjávarútvegs á Íslandi. Nú heitir það "Uppboðsleiðin" eða "Færeyska leiðin".
En eins og kemur fram í fréttinni hefur sú leið aðeins verið reynd á örfáum stöðum með frekar slæmum langtímaáhrifum (sem á þó ekki við um Færeyjar þar sem engin reynsla er komin þar). Það er í raun gríðarleg rangfærsla að tala um "Færeyska leið" því þar hefur aðeins mjög takmörkuð tilraun átt sér stað, engin reynsla komin, og mjög skiptar skoðanir um hve vel uppboðin hafi gefist.
En það stoppar ekki hina ýmsu íslensku stjórnmálaflokka í því að fullvissa kjósendur um ágæti "Uppboðsleiðarinnar" og nefna jafnframt fjálglega allt það sem þeir vilja "kaupa" handa kjósendum fyrir "allan peninginn".
Enn eru þessir flokkar reiðubúnir til að stefna grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar út í algera óvissu og sjá svo til.
Það er ekki óeðlilegt að misjafnar skoðanir séu uppi um sjávarútveg. Afkoma greinarinnar hefur verið góð undanfarin ár, það má segja að svo hafi verið næsta samfleytt frá bankahruninu.
En árin þar á undan voru misjöfn, og aftur fara tekjur útgerðarfyrirtækja (og jafnframt sjómanna) minnkandi eftir því sem krónan styrkist.
Það er því eins víst að styrkur (og hagnaður) sjávarútvegsfyrirtækja fari minnkandi á komandi árum.
Það þarf dálítið af sjálfseyðandi hvöt til að vilja stefna undirstöðuatvinnuvegi þjóðar í hættu. En það var einmitt vænn skammtur ef þeirri sömu sjálfseyðingarhvöt sem sjá mátti hjá stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili.
Það var einmitt þess vegna sem fall þeirra var svo stórt í síðustu kosningum.
Það er óskandi að Íslendingar leiði ekki sjálfseyðingu að stjórnvellinum á ný.
Það er eðlilegt að rætt sé um hvernig best sé að ráða málum hvað varðar auðlindir Íslands, ekki síst hina gjöfulu sjávarauðlind.
En þar er síst þörf á byltingu, þar er ekki rétti staðurinn til að umturna. Þar er staðurinn til þess að fara sér hægt, ræða málið til hlýtar, hafa breytingar hægar, "þreifa" fyrir sér og halda í það sem vel hefur gefist.
Íslendingar hafa ekki efni á "bílslysum" í sjávarútvegsmálum.
Verðum að líta til reynslu annarra þjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.10.2016 kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2016 | 12:46
Búrkur eða ekki búrkur?
Enn og aftur eru búrkur í umræðunni, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu og sitt sýnist hverjum.
Ég bloggaði um búrkur, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu var að fjalla um lögmæti búrkubanns í Frakklandi.
Ákvað að endurbirta það blogg hér og nú:
Víða um heim hafa komið upp áleitnar spurningar og hart verið deilt um hvort banna eigi að einstaklingum að klæðast búrkum eður ei.
Það er skoðun margra og ég get tekið undir hana að flestu leyti, að það sé út í hött að banna einstaklingum að klæða sig á ákveðin máta. Hvort sem það er að trúarlegum ástæðum, eða einhverjum öðrum, hljóti það að vera ákvörðun hvers og eins.
Má þá ekki alveg eins banna of stutt pils, of lítil bikini, eða of aðskornar og þröngar sundskýlur?
En búrkan er þó örlítið annars eðlis. Þó að hún eins og bikini og sundskýlur, þyki oft ögra ríkjandi viðurhorfum, gerir hún það á annan hátt.
Hún hylur viðkomandi einstakling og gerir í raun ókleyft að bera kennsl á hann. En það er einmitt einn af hornsteinum nútíma vestræns samfélags.
Ef okkur þykir sjálfsagt að samþykkja búrkur, verðum við líka að velta fyrir okkur hvað okkur þykir eðlilegt að neita þeim um, sem klæðist henni.
Hvaða réttindum afsalar sá er klæðist búrku sér?
Er ekki eðlilegt að neita einstaklingi í búrku um að kjósa? Væri eðlilegt að neita einstaklingi í búrku að keyra bil? Þætti ekki flestum sjálfsagt að neita einstaklingi í í búrku um að greiða með debet eða kreditkorti?
Varla gæti nokkur vafi leikið á því að einstaklingi í búrku yrði neitað um að opna bankareikning.
Gæti einstaklingur í búrku sótt sér aðstoð hjá Tryggingastofnun, eða félagsaðstoð sveitarfélaga?
Þætti ekki sjálfsagt að neita einstaklingi i búrku um afgreiðslu í ÁTVR? (Nú veit ég að að múslimar neyta öllu jöfnu ekki mikils áfengis, en þetta á auðvitað fyrst og fremst við þegar þessi létti og þekkilegi klæðnaður yrði að almennri fatatísku).
Getur einstaklingur í búrku fengið vegabréf eða ferðast á milli landa?
Getur einstaklingur í búrku fengið að taka próf í framhaldsskólum eða háskólum? Eða yfirleitt fengið inngöngu í slíka skóla?
Væri það samþykkt að einstaklingi sem klæddist búrku yrði sagt upp atvinnu sinni, vegna gruns um að það væri ekki sami einstaklingur og hefði komið í atvinnuviðtal? Eða sá sem hefði verið í vinnunni í síðustu viku?
Eflaust velta fyrir sér fleiri álitamálum, en ég læt hér staðar numið.
Finnst okkur eðlilegt og sjálfsagt að einstaklingur afsali sér þessum réttindum, eða gerum við ráð fyrir að búrkan sé eingöngu notuð við einstök tækifæri?
Er sjálfsagt að einstaklingurinn afsali sér slíkum réttindum, ef að hann gerir það sjálfviljugur?
Hvernig getum við verið viss um um um sjálfstæðan vilja sé að ræða?
Eða eins og einn kunningi minn sagði þegar svipað var rætt: "Samþykkjum við þá þrælahald, ef einstaklingur segist vera í því af fúsum og frjálsum vilja?"
Engin þjóð sem ég man eftir hefur gengið jafn langt í að reyna að aðskilja trúarbrögð frá hinu opinbera lífi og Frakkar. Og þeim hefur gengið það býsna vel. Trúartákn og annað slíkt lúta ströngum reglum. Engin giftir nema hið opinbera. Síðan getur hver sem er "blessað" sambandið.
En það verður fróðlegt að heyra af því hvernig niðurstaðan í þessu máli verður. Hún getur haft mikil áhrif í Frakklandi og víðar.
Persónulega spái ég því að bannið verði dæmt lögmætt. En það eru vissulega sterk rök, bæði með og á móti.
7.10.2016 | 11:52
Oft eru átök orsök framfara og þess virði að í þeim sé staðið
Það er að mínu mati ekki fyllilega rökrétt að bera saman embætti forseta Íslands og foringja stjórnmálaflokks.
En líklega er Róbert Marshall ekki einn um að vilja sjá með þeim líkindi.
Það verður æ alengara í stjórnmálum (og ekki bara íslenskum) að stjórnmálaforingjar sjái sinn helsta tilgang í "borðaklippingum", "tækifærisræðum" og "pólítískum sjálfum" (sjálfsmyndum).
Líklega hefur sú stjórnmálamenning óvíða risið hærra en í Reykjavíkurborg undanfarin kjörtímabil.
Slík "stjórnmál" geta hins vegar virkað vel hjá næsta valdalitlum forseta, en síður hjá "hefðbundnum pólítíkusum". Þó getur forseti þurft að "efna til átaka", þó að hann standi svo ekki í þeim miðjum.
Forseti Íslands hefur þrívegis (sumir myndu ef til vill segja oftar) efnt til mikilla innanlands átaka, tvívegis um IceSave og einu sinni um "Fjölmiðlafrumvarpið" svokallaða. Ef ég man rétt voru síðast nefndu átökin Róberti Marshall mjög að skapi og hafnaði hann öllum "sáttum" sem þar voru boðnar.
En hin átökin, um IceSave, voru vel þess virði að taka. Þar voru þingmenn Samfylkingar og stór hlut þingmanna Vinstri grænna reiðubúnir til að skrifa undir IceSave I án þess að þingmenn fengju að lesa samninginn (ef ég man rétt var Róbert Marshall einn af þeim).
Sem betur fer voru aðrir tilbúnir í átök.
Og það hafa verið átök um mörg mál undanfarin ár. Eitthvert stærsta mál undanfarinna ára, umsókn Íslands að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi með naumum meirihluta, ekki án átaka og ekki án þess að þingmenn s.s. Róbert Marshall höfnuðu því að reyna að byggja meiri sátt um málið og að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.
En þannig er það, stjórnmál eru barátta hugmyndanna, það er ekki alltaf sem þær betri verða ofan á, en matið á slíku byggist ekki síst á sjónarhorninu.
Síðan er það sagan sem dæmir, en meira að segja hún er ekki óskeikul og dómur hennar er breytilegur, bæði eftir höfundum hennar og þeim tíma og stað sem hún er skrifuð.
En ég vona að átök séu ekki liðin tíð í íslenskum stjórnmálum.
Oft er þeirra þörf og þau undanfari framfara og umbóta, þó svo sé vissulega ekki í öllum tilfellum.
Eða eins og einhver sagði einhvern tíma, sá stjórnmálamaður sem öllum líkar við er stjórnmálamaður sem ekkert hefur gert.
Átök meginstef ferils Sigmundar Davíðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2016 | 09:11
Nauðsynlegt að láta meta kosti, galla, kostnað og ávinning
Ég ætla ekki að segja neitt um hvort að samþykkt þess efnis að Ísland undirgangist fjármálaeftirlit "Sambandsins" standist stjórnarskrá eður ei. Ég tel mig einfaldlega ekki þess umkominn, hef ekki næga þekkkingu á málinu eða tíma til þess að afla mér hennar.
En það er að mínu mati ljóst að EEA/EES samningurinn þrengir æ meira að Íslendingum ef svo má að orði komast og vekur upp æ fleiri spurningar.
Það er því ekki að undra að lesa hafi mátt æ fleiri hafa uppi efasemdir um framtíð samningsins, hér og þar um internetið.
Flestum ætti að vera ljóst að þær fullyrðingar sem uppi voru hafnar þegar hann var undirritaður, þess efnis að Ísland væri að fá "allt fyrir ekkert", voru rangar og í raun ákaflega barnalegar. Ef til vill mætti segja að slikur samningur feli í sér þá hættu að Ísland "lokist inni í brennandi húsi", svo notuð sem þekkt samlíking.
Sömuleiðis ætti samningurinn að vekja alla til umhugsunar um hve hættulegt það getur verið hagsmunum þjóða að undirgangast samning sem í raun er galopinn og gefur mótaðilanum í raun gríðarleg völd, ekki síst í ljósi stærðarmunar.
Máltækið góða, í upphafi skyldi endinn skoða, gildir hér sem víða annars staðar og má renna sterkum líkum að því að það hafi ekki verið gert þegar Ísland skrifaði undir samninginn á sínum tíma. Það má ef til vill velta því fyrir sér hvort að það hafi verið mögulegt og hvort að forsvaranlegt sé að undirrita samning sem engin leið sé að sjá hvað hann getur haft í för með sér.
Ég hugsa að fáir ef nokkur hefði getað sagt fyrir hvernig staðan er nú, snemma á tíunda áratug síðustu aldar.
En það er nauðynlegt fyrir Íslendinga að framkvæma nýtt mat á EEA/EES samningnum.
Hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir, hver er raunkostnaður af samningnum og hver er ávinningurinn.
Hverjar eru framtíðarhorfurnar?
Það þarf að taka með í reikninginn að stærsta einstaka viðskiptaland Íslands er á leið út úr samingnum.
Það er ólíklegt, þó að slíkt væri sanngjörn krafa, að það verði til þess að greiðslur EFTA landanna minnki. Frekar er líklegt að fjárkröfur aukist, enda hverfur stór hluti tekjum Evrópusambandsins með Bretum.
Hlutdeild af heildarútflutningi Bretlands sem fer til Evrópusambandsins hefur minnkað um 25% á undanförnum áratugum, úr 60% niður í 45.
Það er ekki óeðlilegt, enda fer hlutur "Sambandsins" í heimsbúskapnum minnkandi og ekkert sem bendir til annars en að sú þróun haldi áfram.
Þó að alltaf sé erfitt að spá, og sérstaklega um framtíðina, eins og maðurinn sagði, er nauðsynlegt að Íslendingar velti framtíð EEA/ESS samningsins fyrir sér og hver séu réttu skrefin.
Með Brexit verða breytingar á Evrópusambandinu, og margt sem bendir til þess að það verði ekki til góðs.
Íslendingar þurfa að vera undirbúnir og upplýsingaöflun, útreikningar og hugsanlegir valkostir eru hluti af þeim undirbúningi.
Verða að standast stjórnarskrána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2016 | 09:03
Party like a Russian
Ég hef ekki talist á meðal aðdáenda Robbie Williams og get ekki talist enn. En þetta lag vakti athygli mína.
Nokkuð sérkennilegt og textinn með sterkar vísanir, ekki síst þessi hluti:
It takes a certain kinda man with a certain reputation
To alleviate the cash from a whole entire nation
Take my loose change and build my own space station
(Just because you can, man)
Ain't no refutin' or disputin' I'm a modern Rasputin
Leyfi mér að efast um að Robbie haldi tónleika í Rússlandi á næstu mánuðum, eða jafnvel árum.
4.10.2016 | 15:56
Villandi fyrirsögn, ef marka má það sem er skrifað í fréttinni
Ef það er rétt sem lesa má í fréttinni er fyrirsögn fréttarinnar, "Vilja spyrja þjóðina um viðræðurnar" verulega misvísandi og raunar að mínu mati kolröng. Í fréttinni má lesa t.d.: Við munum fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við ætlum að ganga inn í Evrópusambandið, já eða nei, sagði Lilja Dögg afdráttarlaust.
Sem og: Ég er ekki hlynntur inngöngu inn í Evrópusambandið. En þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við göngum inn eða ekki er mjög álitleg, sagði Teitur Björn Einarsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Ef þetta er rétt er rangt að segja að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna á þingi utan Sjálfstæðisflokkins telji ákjósanlegt að spyrja þjóðina um áframhaldandi viðræður um inngöngu í Evrópusambandið og sömuleiðis gerir það fyrirsögnina nokkuð villandi. Nema að afsökunin sé að fyrirsögnin eigi við "hina" flokkana.
Það virðist af þessu að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, í það minnsta fulltrúar þeirra á þessu fundi, myndu frekar vilja spyrja um hvort kjósendur vilji ganga í "Sambandið" eður ei.
Á þessu tvennu er all nokkur munur.
Þessi klausa í fréttinni vekur svo nokkra athygli:
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem stýrði umræðunum greip boltann á lofti og benti Lilju Dögg á að Írland hefði samt sem áður náð að laða til sín fjölda tæknifyrirtækja til starfa í landinu. Lilja Dögg taldi að umhverfið á Íslandi væri ákjósanlegt fyrir slíkt hið sama.
Flestir ef ekki allir gera sér grein fyrir því að það sem hefur átt mestan þátt í því að laða tæknifyrirtæki til Írlands er hið hagstæða skattaumhverfi sem þar hefur mátt finna og Evrópusambandið er svo ósátt við.
Það þarf ekki að leita lengra en til "Applemálsins" svokallaða til að komast í því hvernig í pottinn er búið.
Ef marka má Evrópusambandsúrskurðinn hafði Apple u.þ.b. 14 milljarða (euroa) ástæðna til þess að setja stærstan part starfsemi sinnar í Evrópu niður á Írlandi.
Ef til vill hefði fundarstjóri átt að spyrja stjórnmálamennina hvort að þeir teldu álitlegt fyrir Ísland að velja þá leið?
Vilja spyrja þjóðina um viðræðurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |