Gulrótarkaka, hýðingar og kylfuhögg

Það hefur verið ánægjulegt að lesa um áætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta. Áætlunin hefur fengið afar góðar viðtökur og virðist vel og skynsamlega unnin.

Það er þó rétt að hafa það í huga að þó að áætlunin líti traustlega út, er sigur ekki unnin, fyrr en höftum hefur verið aflétt og stöðugleiki ríkir. Enn er ýmislegt sem getur farið úrskeiðis og mikilvægt að vel sé haldið á spilunum og samstaða ríki.

Og vissulega er það rétt að núverandi ríkisstjórn vinnur ekki í tómarúmi, og verk hennar, aflétting gjaldeyrishafta sem önnur, byggir á og tekur mið af gjörðum fyrri ríkisstjórna, bæði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og Samfylkingar og Vinstri grænna og jafnvel þeim sem ríktu fyrir tíma þeirra.

Það breytir því ekki að að núverandi ríkisstjórn hefur unnið málið ákaflega vel og það er hálf hjákátlegt að heyra þá sem hafa talað á þann veg að engin leið sé til að aflétta gjaldeyrishöftum án "Sambandsaðildar" og euroupptöku, segja nú að áætlunin sé eins og þeir sjálfir hafi lagt til.

Það er líka sérstakt að heyra ýmsa tala á þann veg að Framsóknarflokkurinn hafi "tapað eða lúffað", þegar ljóst er að í raun eru kröfuhöfum gefnir tveir kostir. Annað hvort sé "framlag" þeirra +500 milljarðar, eða heldur hærri upphæð verði "tekin" af þeim.

Það var einmitt fyrir málflutning á þeim nótum sem Framsóknarmenn urðu fyrir hvað hörðustum árásum fyrir síðustu kosningar, og ýmsir hafa imprað á því síðan hvort að "milljarðarnir væru ekki að koma".

Núna eru þeir líklegast á leiðinni. Þó að vissulega séu þeir enn í "skóginum", er þó alla vegna búið að "hrekja þá af stað".

Það skiptir auðvitað ekki meginmáli hvort að sá sem setur slík skilyrði heldur á "kylfu" eða "svipu". Mestu máli skiptir að ljóst sé að hann meini það sem hann segir og sé staðfastur og einarður í málflutningi sínum.

Og auðvitað skiptir það líka máli að öllum má vera ljóst að krónan er og verður gjaldmiðill Íslendinga, í það minnsta all nokkuð fram á næsta áratug.

Kröfuhafar geta ekki gert sér neinar vonir um að "Draghi frændi" komi með euro til Íslands og Íslendingar skuldsetji sig hjá Seðlabanka Eurosvæðisins, til þess að kröfuhafar komist með eignir sínar frá landinu.

Eins og staðan er nú, er lang líklegast að kröfuhafar velji að gæða sér á gulrótarköku og ekki þurfi að beita "kylfuhöggum", eða "hýðingum".

Það er þó of snemmt að leggja þau tól frá sér og enn er þörf að staðfestu og einurð.

Það má vissulega deila um hversu hart hefði átt að ganga fram og hve hátt kylfunni lyfta, en mér sýnist þó að niðurstaðan sé vel ásættanlega og ríkisstjórninni til sóma.

Enn er of snemmt að slá upp fagnaði, en Íslendingar ættu að geta leyft sér að kætast því málin stefna í rétta átt.

 


mbl.is Töluðu um „svipur og gulrætur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband