Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
30.4.2014 | 13:49
Góð og athygliverð tillaga
Það er sjálfsagt að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar setji sér reglur um hvernig fyrirtækjum þeir vilji fjárfesta í og hvernig að þeim sé stjórnað.
Þegar um lífeyrissjóði er að ræða að mikilvægt að þær reglur séu settar í samráði við þá sem greiða í viðkomandi lífeyrissjóð.
Það er gott og þarft að aukin umræða sé um hluti eins og launastefnu viðkomandi fyrirtækja á meðal fjárfesta. Það eru eigendur fyrirtækjanna sem eiga að marka stefnuna.
Það er hins vegar alveg óþarft, og í raun óeðlilegt að mínu mati, að hið opinbera láti slík mál til sína taka.
Það fer best á því að eigendurnir marki stefnuna.
Rétt eins og lífeyrisjóðum, fjárfestum og eigendum fyrirtækja ætti að vera það í sjálfsvald sett hvort þeir vilja setja sér reglur um kynjahlutfall í stjórnum, eða stjórnendahópum fyrirtækja sem þeir eiga í.
Það er hins vegar fyllilega óeðlilegt að hið opinbera sé að skipta sér af og setja lög um slíka hluti.
Valdið á að liggja hjá eigendum fyrirtækjanna. Annað er óeðlileg afskipti af eigum annarra og hindrun í vegi þess lýðræðis sem eigendur fyrirtækja ættu að njóta.
Hámark 3 milljónir fyrir forstjóra Haga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.4.2014 | 09:03
Svo á Íslandi sem á Kýpur
Það eru líklega flestir sammála um að höft á fjármagnsflutninga til og frá Íslandi eru ekki af hinu góða, og að nauðsynlegt sé að vinna rösklega að því að afnema þau.
En það er engin ástæða til að hafa stórar áhyggjur af því að höftin eyðileggi grunn EES/EEA samningsins. Eins og kemur fram í fréttinni eru höftin innan heimilda samningsins.
Það má einnig minna á að "Sambandið" sjálft hefur ekki getað tryggt frjálsa fjármagnsflutninga innan aðildarríkja sinna, eða EES/EEA svæðisins.
Kýpur þurfti að setja á ströng höft, sem einnig náðu til nota á gjaldmiðlinum, euroinu, innanlands. Það er ekki gjaldmiðillinn sem ræður þar um, heldur hagkerfið.
Og enn eru höft á fjármagnsflutninga til og frá Kýpur.
Það má því líklega segja að þau séu víða höftin, bæði innan "Sambandsins" og utan.
Höftin ekki brot á EES-samningnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.4.2014 kl. 05:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.4.2014 | 17:38
Bjargar Guðni borgarstjórnarkosningunum?
Nú er mikið rætt um hvort Guðni Ágústsson muni taka efsta sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hann mun víst gefa ákveðið svar á Sumardaginn fyrsta, en flestir telja nokkuð öruggt að hann hyggist taka slaginn.
Eins og eðlilegt er, eru skiptar skoðanir um hvort að Guðni muni draga fylgi að Framsóknarflokknum og ef svo væri, hvaðan það væri dregið.
En ég held að Guðni gæti allt að því "bjargað" borgarstjórnarkosningunum.
Ekki það að þær séu í neinni hættu að fara ekki fram, heldur frá því að vera afspyrnu bragðdaufar og leiðinlegar, en því miður er margt sem hefur bent til þess að slík gæti orðið raunin.
Og vissulega er það svo að kosningar eiga auðvitað ekki að vera neitt gamanmál, þar er tekist á um alvarleg málefni, málefni sem skipta íbúa viðkomandi sveitarfélags miklu máli og varða því miður æ fleiri svið tilveru þeirra.
En það þýðir þó ekki að kjósendur séu fráhverfir léttleika eða húmör í kosningum. Þvert á móti held ég að það sé flestum frambjóðendum til framdráttar að geta litið á tilveruna hæfilega léttum augum og haft augun opin fyrir því sem má hafa gaman af í kosningabaráttunni.
Þar held ég að Guðni gæti komið sterkur inn.
Kosningabaráttan er mikið meira en tölur, excel skjöl, staðreyndir og stefnumál. Persónuleg "tengsl" við kjósendur er eitthvað sem enginn frambjóðandi má við því að vanmeta.
Ef Jón Gnarr ætti að hafa sýnt stjórnmálamönnum fram á eitthvað, ætti það ekki hvað síst að vera það að vera einlægur og reyna að tengjast kjósendum.
Þess vegna held ég að Guðni Ágústsson eigi góða möguleika í næstu borgarstjórnarkosningum, og gæti hrist vel upp í þeim, ef ekki "bjargað" þeim frá því að verða þær þurrustu og "mónótónísku" í langan tíma.
Þess vegna held ég að hann eigi möguleika á því að "stela" fylgi frá öllum flokkum.
Ekki forsendur til að styðja Guðna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2014 | 08:59
Víglínan liggur um Sjálfstæðisflokkinn.
Það eru margir þeirrar skoðunar að Ísland muni ekki ganga í "Sambandið", svo lengi sem Sjálfstæðiflokkurinn stendur gegn því og heldur þokkalegum styrk.
Það er því ekki að undra að "víglínan" hefur að nokkuð miklu leyti verið innan Sjálfstæðisflokksins. Þó að sjálfstæðir "Sambandsmenn" hafi ef til vill ekki verið stór hópur kjósenda flokksins, hafa þeir verið áberandi og nokkuð áhrifamiklir.
Ég held að margir yrðu fegnir, ef sjálfstæðir "Sambandsmenn" gerðu alvöru úr því að stofna flokk.
Ég held að býsna margir flokksmenn myndu kætast vegna þess að þó að flokkurinn yrði líklega eitthvað minni, yrði hann samhentari og líklega baráttuglaðari. Innanflokksátök á torgum úti auka sjaldnast fylgið.
Aðrir yrðu glaðir af því að þeir myndu telja sig fá nýjan flokk sem tæki mið af fleiri af þeirra skoðunum.
Enn aðrir myndu svo gleðjast yfir því að tekist hefði að valda klofningi í Sjálfstæðisflokknum.
Það yrðu því líklega býsna margir glaðir.
Það má líka halda því fram að "Sambandsaðild" sé það stórt mál að ekki sé óeðlilegt að stjórnmálaleg uppskipti eigi sér að einhverju marki sér stað í kringum hana.
En nú á eftir að sjá hvort að sjálfstæðir "Sambandsmenn" hafa hugrekki og þor til að stofna stjórnmálaflokk.
Persónulega finnst mér það alltaf slæm byrjun þegar sporgöngumenn flokka hafa mestan áhuga á því að sjá stöðu sína í skoðanakönnunum.
Annað hvort hafa menn hugsjón sem þeir hafa áhuga á því að berjast fyrir eða ekki. Fylgi í skoðanakönnunum á ekki að hafa umtalsverð áhrif þar á.
Nema svo auðvitað að áhuginn sé liggi mest í því að nota skoðanakannanir til þess að berja að "samherjum" sínum?
Nýr flokkur nyti 20% stuðnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2014 | 08:22
Það aflast vel á óánægjumiðum
Víða um heiminn, en ekki hvað síst í Evrópu og ef till mest í Evrópusambandinu gætir vaxandi óánægju með "stjórnmálastéttina", eins og hún er oft nefnd.
Almenningi finnst ákvarðanatakan færast sífellt fjær, bæði sér og hagsmunum sínum. Það er auðvelt að halda því fram að það sé rétt skynjun.
Æ fleiri líta svo á að það sé tilgangslaust að taka þátt í kosningum og margir þeirra sem þó greiða atkvæði nota það til að lýsa óánægju sinni með hina "hefðbundnu stjórnendur" og þá leið sem þeir hafa valið.
Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að flokkar á borð við Front National stórauki fylgi sitt. Það er óheillavænleg, en þó rökrétt þróun, sé litið til ástandsins í dag.
Það er yfirleitt talað um flokkinn sem hægri öfgaflokk, en það er að mörgu leyti misvísandi flokkun, enda sækir hann fylgi sitt alls ekki til hefðbundinna kjósenda sósíalista.
Það virkar enda illa á marga Frakka að heyra talað um að eurokreppan sé búin, þegar ríflega 3.3 milljónir manna eru atvinnulausar, eða u.þ.b. 11%.
Ríflega fjórðungur Frakka undir 25 ára aldri hafa ekki atvinnu.
Þannig er ástandið víða um S-Evrópu, og jafnvel verra.
Það er ekki hvað síst við þessa einstaklinga sem flokkar á borð við Front National er að tala og höfða til.
Líkast til er Ukraínukrísan eitt af því fáa sem getur skilað atkvæðum til hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka.
En það er líklegt að Evrópusambandsþingið verði með nokkuð breyttu yfirbragði eftir kosningarnar í vor.
Front National með mest fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2014 | 07:47
Ýsa var það heillin
Í gærkveldi borðaði ég Íslenskan fisk eftir nærri tveggja ára hlé. Það var ótrúlega ljúfengt.
Stinn og góð ýsa og bragðgæðin engu lík.
Börnin skríktu af kátínu, enda ólíkt hvað þau eru hrifnari af fiski en faðir þeirra var á sama aldri. Það hefur líklega eitthvað að gera með tilbreytni og tíðni.
Það spillti ekki kátínunni, að Íslenska orðið ýsa, er framborið nákvæmlega eins og Eistneska orðið isa, sem þýðir pabbi.
Það gaf færi á mörgum orðaleikjum og bröndurum.
12.4.2014 | 06:31
Gott að fá úrskurð, en undanþágur eru vandmeðfarnar
Það er auðvitað gott að fá úrskurð í álitamálum sem þessum. En það sýnir líka hve mikil vandræði skattaundanþágur geta skapað.
Líklega verða skattayfirvöld að búa til, eða kaupa skilgreiningu á list, hvernig svo sem það gengur.
Mörk á milli lista og nytjahluta eru oft óljós og ekki er að efa að mörg álitamál eiga eftir að koma upp í framtíðinni.
Ef til vill væri einfaldast að lögum yrði breytt á þann veg að list yrði virðisaukaskattsskyld eins og flest annað.
Væri það ekki einnig sanngjarnast?
Listaverk en ekki smíðavara til bygginga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2014 | 04:22
Hin erfiða kvöð að fara í utanlandsferðir
Það mun hafa verið óþægileg kvöð að þiggja boðsferðir af hinum svokölluðu "útrásarvíkingum" og fyrirtækjum þeirra. Eins og sagt er upp á ensku, "it´s a dirty job, but somebody got to do it".
Ef til vill má þó deila eitthvað um skilgreininguna á "dirty" í þessu sambandi.
Nú skilst mér að það sama sem upp á tengingnum hvað varðar boðsferðir hjá "Sambandinu". Þær þykja erfiðar, illa skipulagðar, leiðinlegar, boðið upp á frekar slöpp hótel, og þó að gaukað sé að mönnum reiðufé í umslagi, er það varla upp í nös á ketti, ef ég hef skilið rétt.
En sem betur fer eru þó ennþá til einstaklingar sem fást til að fórna sér fyrir heildina og fara í slíkar fræðsluferðir, landi og lýð til góðs.
En það er þó eitt sem ég skil ekki til fulls.
Hvað er það sem hægt er að læra um Evrópusambandið í Brussel, sem er ekki hægt að fræðast um á Íslandi?
Hvað er það sem Evrópu(sambands)stofa og sendiráð "Sambandsins" getur ekki frætt Íslendinga um?
Og af því að "Sambandið" hefur hefur verið að reyna að spara undanfarin misseri, væri ekki þjóðráð að senda frekar eins og 2. til þrjá einstaklinga frá "Sambandinu" til Íslands (til viðbótar þeim sem þegar starfa við fræðslu á Íslandi) sem myndu túra um landið og fræða Íslendinga með minni tilkostnaði.
Bæði myndi sparast fé og Íslendingar þyrftu ekki að leggja á sig hinar leiðinlegu utanlandsferðir.
Ef til vill koma jákvæðir sjálfstæðir sambandsmenn, þessari sparnaðartillögu áleiðis til Brussel.
Ég hef ekki fundið mér tíma til að lesa skýrslu Alþjóðastofnunar H.Í, ennþá, en hef gluggað í hana og séð nokkuð af umfjöllun og fréttum um hana.
Það verður varla um það deilt að það rýrir gildi skýrslunar verulega að oft er eingöngu vitnað til ónafngreindra heimildarmanna. Það er fullgilt í fréttum og fréttaskýringum, en er ekki nóg til að draga af stórar ályktanir eða ákvarðanir.
Það þekkja enda flestir sem hafa lesið slíkar fréttir og fréttaskýringar að þæ eiga það óþægilega oft til að reynast rangar. Það þekkist líka að slíkar ónafngreindar skoðanir eru settar fram til að hafa áhrif á atburðarás.
Þó ekki sé hægt að fullyrða neitt, gæti það hugsast að einhverjir af þeim sem nú tjá sig undir nafnleynd, séu þeir sömu og fullyrtu við Íslenska ráðamenn að hægt væri að klára aðlögunarviðræður við Íslendinga á u.þ.b. 18 mánuðum.
Það vita allir hvernig það fór.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2014 kl. 04:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2014 | 11:18
Er það þá Jóhönnu, Össuri og Steingrími J. að kenna að aðlögunarviðræðurnar kláruðust ekki?
Nú er ég að hlaða niður skýrslunni en hef ekki lesið hana. Það verður að bíða betri tíma.
En það sem er verulega eftirtektarvert í þessari frétt, er sú fullyrðing að hægt hefði verið að klára viðræðurnar á fyrri helmingi ársins 2013.
En einhverra hluta vegna tók ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þá ákvörðun að leggja viðræður í hálfgert salt snemma sama ár.
Hvers vegna skyldi það hafa verið?
Varla hafa Jóhanna, Össur og Steingrímur J., óttast að "glæsileg niðurstaða" samninganefndar yrði þeim fjötur um fót í kosningabaráttunni. Þegar "góðar fréttir" hefðu farið að berast frá viðræðunum, hefði það átt að gefa þeim byr í seglin fyrir kosningar.
Einhvern veginn finnst mér erfitt að fá þetta til að stemma allt saman.
En það kemur mér ekki á óvart að hægt sé að skrifa tvær ólíkar skýrslur um sama málefnið. Það er þess vegna sem við látum stjórnmálamenn taka ákvarðanir í efnum sem þessu.
Þeir þurfa nefnilega að standa kjósendum skil á ákvörðunum sínum og fullyrðingum ólíkt fræðimönnunum.
Höfðu þegar náð fram sérlausnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2014 kl. 05:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)